Svipað að gerast og í heimskreppunni miklu.

Mikill uppgangstími í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinanar var kallaður "The roaring twenties." Síðari hluta áratugarins var svipuð uppsveifla í Evrópum, meira að segja í Þýskalandi eftir gerð svonefndra Locarnosamninga. 

Hér á landi var meira innflutningsfrelsi en nokkru sinni á hálfri öld eftir 1930. 

Það var engin tilviljun að 1930 var mikið umleikis hér á landi með smíði Landsspítala, brúa, glæsilegri Alþingishátíð og stofnun ríkisútvarps. 

Uppgangurinn skilaði sér víða um lönd en þá, eins og undanfarna áratugi, voru það einkum hinir ríkustu sem urðu enn ríkari og fleiri en áður. 

Eftir hrunið á Wall Street haustið 1929 skall á heimskreppa sem hafði geigvænleg áhrif.

Í stað áframhaldandi kjarabóta flestra, þótt mismiklar væru, kom skelfilegt atvinnuleysi og öfgaflokkar á borð við nasista og falangista tóku völdin í mörgum ríkjum Evrópu með afleiðingum, sem ekki þarf að tíunda. 

Höft og einangrunarstefna tóku völdin og það er fróðlegt að sjá til dæmis, hve gríðarmörg iðnaðarfyrirtæki voru stofnuð hér á landi í skjóli innflutningshafta og tolla. 

Á yfirborðinu sýndist það jákvætt að sem flest væri framleitt innanlands, en eftir Seinni heimsstyrjöldina kom í ljós að í raun óhagkvæmt að framleiða allar vörur í hverju landi fyrir sig í stað þess að losa um höftin og leyfa framleiðslunni að leita þangað sem hún naut hagkvæmustu skilyrða. 

Með losun hafta í tíð Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971 og inngöngu í EFTA var stefnt í átt til meira frjálsræðis og í lok aldarinnar og fram til hrunsins 2008 varð hagvöxtur um mestallan heim í takt við aukins frelsis og alþjóðavæðingar og samvinnu. 

Ekki verður á móti mælt að hundruð milljóna manna í þriðja heiminum hefur lyfst úr algerum svelti og örbirgð upp í ögn skaplegri kjör, og sárt hungur hefur minnkað. 

En rétt eins og í aðdraganda heimskreppunnar eru það stór alþjóðafyrirtæki og hinir ríkustu sem hafa hagnast langmest, en fólk með minna en meðaltekjur hefur ekki fengið í sinn hlut sama skerf af hagræðingunni, sem fylgir frjálsari heimsviðskiptum, og hinir ríkari. 

Þetta er nú að skapa svipaða óánægju og breiddist út í heimskreppunni 1930-1940.

Og á ný sækja jaðaröfl og öfgaöfl í sig veðrið og atvinnuleysið í mörgum löndum, einkum hjá ungu fólki, er svakalegt og skapar rótleysi, óánægju og illindi.  

Í hverju ríki fyrir sig líta menn ekki á mannkynið sem heild, heldur snúast stjórnmálin um ástandið heima fyrir út frá þröngu sjónarhorni. 

Alþjóðavæðingin hefur líka dulda ókosti, sem felast í því að hinir gríðarlegu flutningar á hráefnum og vörum fram og aftur um allan hnöttinn valda miklum umhverfisáhrifum vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda og auka þannig á stærsta vanda mannkyns, ofnýtingu og rányrkju á auðlindum og hlýnun lofthjúps jarðar.  


mbl.is Segir fríverslunarviðræður hafa mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband