27.5.2023 | 14:32
Á svipuðum tíma og Landsspítalinn og fleiri opinberar byggingar.
Sundhöllin í Reykjavík lætur minna yfir sér en Landsspítalinn og fleiri opinberar byggingar sem reistar voru á uppgangstímum, sem voru endurómur af "the roaring twenties" þar sem dæmalaus efnahagsuppgangur í Bandaríkjunum smitaði út frá sér víða um lönd.
Hér á landi var ýmist byrjað á eða ákveðið að byggja fjðlmargar merkilegar opinberar byggingar og stofnanir og mannvirki, svo sem Landsspítalann, Þjóðleikhúsið, Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, héraðsskólana, Hvítárbrú, auk þess sem haldin var vegleg afmælishátíð Alþingis 1930.
Þótt Jónas frá Hriflu væri aðeins dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Framsóknarmanna 1927-1931, var hann sá ráðamaður sem mest beitti sér fyrir þessum framkvæmdum öllum.
Í upptalningunni hér að ofan, vantar mannvirki, sem þar á heima, en það er Sundhöllin í Reykjavík.
Vonandi taka menn nú alvarlega skrif Þrastar Ólafssonar um þá merku byggingu og það vandaða starf, sem þarf að vinna til að varðveisla hennar og framtíð verði til þess sóma, sem hún á skilið.
![]() |
Atlögu að Sundhöllinni var frestað um sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2023 | 23:39
Leikur að MAD (GAGA)
Stærsta ógnin, sem nú stafar af Úkraínustríðinu, er sú, að gera það að eins konar æfingu eða forleik fyrir kjarnorkustríði.
Nú þegar afa Rússar gert hatramma atlögu að eldflaugavarnakerfi Úkraínu með stórri árás eldflauga sem ná jafnvel allt að tíföldum hljóðhraða og hægt er að búa með kjarnaoddum.
Úkraínumönnum tókst í þessari fyrstu stóru atrennu að verjast þessari árás, en framundan getur samt verið vaxandi hráskinnsleikur með vopn, sem gætu startað kjarnorkustyrjöld af þeirri gerð sem fjallað er hefur verið um kenningunni "MAD", sem er skammstöfun fyrir Mutual Assured Destruction", mætti útleggjast "GAGA" á íslensku; Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra."
Og þessi háskaleikur að allsherjartortímingareldi er nú að æsast með flytningi kjarnorkuvopna til Belarus, sem færir þessi ógnareyðingaröfl enn nær nágrannalöndunum en verið hefur.
![]() |
Flutningur á kjarnavopnum hafinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2023 | 21:39
"Vaðdýpti 92 sm" - Vaáá!
Fyrir nokkrum árum útnefndi eitt af fjórhjóladrifstímaritunum Ford Bronco fyrstu kynslóð besta jeppa allra tíma. Bronco kom fyrst fram á sjónarsviðið 1966, og enda þótt síðar yrðu framleiddir bæði stærri og minni Broncojeppar, hélt sá fyrsti sínu.
Algert Broncoæði greip um sig þegar hægt var að fá þennan ekta jeppa keyptan fyrir gjafverð, vegna þess að hann var á stærð við Rússajeppann og fékk því sérstakan afslátt sem landbúnaðartæki!
Fyrsta bylgjan var með 6 strokka línuvél sem var aðeins um 85 nettóhestöflu og eyddi samt 17 lítrum á hundraðið í innanbæjarkeyrslu.
Síðan kom V-8 með um 135 hestöflum - og hvílík breyting! Broncoinn var fyrsti jeppinn með gormafjöðrun að framan sem var bylting á þeim tíma. 1970 kom síðan Range Rover með gorma bæði að framan og aftan, en var aldrei eins mikill ekta jeppi og Bronco og þar að auki fokdýr lúxusbíll.
Bronco og GAZ 69 voru með 37 sm veghæð undir kvið, 10 sm meira en Willys og Land Rover.
Það fyrsta sem síðuhafi gerði þegar hann skoðaði nýja Broncoinn í Brimborg var að skríða undir hann og dást að því hve verkleg hönnun hans er varðandi undirvagninn.
Það er hægt að taka undir með bílablaðamanninum á mbl.is að þetta sé æðislegur gripur, og 92 sm uppgefin vaðdýpt er aldeilis stórkostleg.
Broncoinn er svo sannarlega kominn aftur. Fokdýr að vísu, en hann er jú líka upp á ameríska mátann "the real thing."
![]() |
Ótemjan sem allir þekkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2023 | 10:57
Staðgengilshlutverkið getur verið margskonar.
Eitt sinn gerðist það hér fyrir nokkrum árum að leit hófst að erlendri konu sem var á ferð með útlendum ferðamannahópi, og gekk ein konan í hópnum sérlega vel fram í því að taka þátt í leitinni.
Í ljós kom síðan óvænt að það var hún einmitt hún sjálf, sem var leitað að, og féll þá leitin óvænt niður.
Í hestaferð á Auðkúluheiði fyrir um þrjátí árum var áð við skála og hestagerði í niðadimmri þoku, en þá kom í ljós að einn hestinn vantaði.
Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndatakur var í þessum leiðangri og bauðst til að skyggnast um eftir hestinum.
Beislaði hann einn hestinn í gerðinu og hélt af stað. En nú kom í ljós, að þetta var fljótræði, því að Bergsteinn kom ekki til baka, heldur hafði greinilega villst í þokunni.
En þar sem menn stóðu nú ráðalausir kom Bergsteinn út úr þokunni á hestinum, sem týnst hafði.
Hann kom af fjöllum þegar í ljós kom, að hann var á sama hestinum sem hann hafði beislað og farið á í leitina.
Besti er góður hagyrðingur og þarna á staðnum varð til alveg dýrleg vísa:
Klárinn, sem ég er kominn á hér,
er sá klárasti, sem ég þekki.
Hann faldi sig milli fótanna´á mér
svo ég fann hann barasta ekki!
![]() |
Missti af eigin brúðkaupi og sendi bróður sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2023 | 21:13
Ýmis konar misskilningur þrífst í flugvallarmálinu.
Í umræðum um Reykjavíkurflugvöll má sjá og heyra ýmis konar misskilning, sem ekki er boðlegt að bera á borð. Flugvöllurinn er samgöngumannvirki, þar sem þekking á mikilvægum þáttum er nauðsynlegur, en sú þekking liggur fyrst og fremst hjá flugmönnum, sem þekkja aðstæður.
Eitt atriðið er fólgið í áhrifum vinds á notagildi og öryggi vallarins. Þegar sótt er að vellinum með byggingum eins og gert hefur verið á Valsreitnum og nú á nýju byggingasvæði við Skerjafjörð hefur verið of lítið hugsað um það að hafa byggingarnar ekki of háar og stórar, því að það truflar flæði vinds og skapar varasamt misvindi.
Er furðulegt að sjá hvernig hæstu byggingunm á Valsreitnum var hrúgað upp sem næst velllinum, og á sama hátt er fyrirhuguð hæð og umfang bygginga á Skerjafjarðarreitnum augljós ógn við flugöryggi.
Ísland er vindasamt land eins og reynslan hefur verið undanfarnar vikur og nú þegar hefur nýja byggðin á Valsreitnum skapað nýja vindhverfla, sem berast inn á brautina.
Athyglisvert hefur verið að í skipan nefnda á borð við Rögnunefndina hefur ekki verið leitað til þeirra sem mesta þekkingu hafa haft á fluginu, svo sem til Leifs Magnússonar, sem áratugum saman var aðstoðarflugmálastjóri og er hafsjór af reynslu.
Hann skaut með einni blaðagrein í kaf bullið með það hve gott flugvallarstæðið væri á Hólmsheiði væri.
Meðal þess, sem nefnt var um þann stað, var að aðflug og fráflug yrði svo gott þar.
Leitur benti á þá staðreynd, að í algengustu hvassviðrirátt í Reykjavík, sem er austan- og suðaustanstæði yrði aðflugið að Hólmsheiði yfir Vogahverfið, og byggðina í Grafarvogi, Ártúnshöfða og Grafarholti.
Bjöguð umræða um Hólmsheiði er síðan að mörgu leyti endurtekin um áhrif aðsúgs bygginga að flugvellinum.
![]() |
Hitafundur í Öskju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2023 | 12:19
"í húsi óminnishegrans."
Alzheimerssjúkdómurinn er illvígur svo illvígur, að ef gert er ljóð og lag um hann verður upphafið ekki fallegt, en á móti kemur það göfuga og fallega starf, sem unnið er af þeim, sem tekið hafa sér að annast það fólk, sem þessi sjúkdómur hrjáir.
Í HUSI ÓMINNISHEGRANS.
Í þessu húsi eru ævir á förum
með algleymdum orðum,
sem enn brenna á vörum
og lifna´ekki, deyja
á láréttum börum,
hvar lokastríð háð er
við lífshurð á hjörum.
Við erum í húsi
Alzheimergoðans
og ornum hér okkur
við ógn heiladoðans
njótandi undurs
um hyggju´og blíðu
og sagnasjóðs lífshlaupa´
í blíðu og stríðu.
Við erum í húsi
óminnishegra,
sem eirir hér engu;
en er nokkuð fegra
en spjall, orðuð spurn
allt til spakmæla snjallra,
sem lifnuðu´og dóu;
þetta´er leið okkar allra.
Við erum í húsi
elliglapa
en ætlum að þrauka
og tilveru siapa,
njótandi undurs
umhyggju´og blíðu
og sagnasjóðs lífshlaupa´
í blíðu og stríðu.
![]() |
Áhrifarík meðferð við alzheimer |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2023 | 13:36
Skipting kökunnar og stærð hennar.
Skipta má efnahagssviðinu, sem snýst um hagvöxt eða minnkun í tvennt: Annars vegar stærð kökunnar, sem til skipta er, og hins vegar skipting hennar.
Um þessar mundir ríkir sá fasi þar sem togast er á um skiptingu kökunnar.
Þar stingur í augun munurinn á kjörum og aðstöðu þeirra, sem minnst hafa á milli handanna, og þar á meðal er ungt fólk og tekjulágt fólk, sem verðbólgan bitnar verst á og verður alltaf fyrst fyrir barðinu á vaxtahækkunum af lánum.
Það er því of mikil einföldun að kenna neyslu og eyðslu eingöngu um vandamálið.
![]() |
Gjörólík staða miðað við önnur lönd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2023 | 14:09
Gömul braggavofa lætur á sér kræla.
Efnahagsuppsveiflan mikla, sem stríðsgróðinn um miðja síðustu öld færði Íslendingum, var að vísu dýrmæt, en þó var þar einn stór hængur á. Þúsundir fólks skortir þau gæði, sem eru ein af þremur af helstu stoðum velmegunar, en það er mannsæmandi húsnæði.
Vegna þessa skammarlega ástands snerust kjaramál og vinnudeilur að miklu leyti um um félagslegar úrbætur með aðild ríkisvaldsins og smáíbúðahverfið og Breiðholtið eru dæmi um.
Heilbrigðismál og húsnæðismál eru einna stærstu viðfangsefnin núna af ástæðum, sem minna óþyrmilega á þann allt of langa hluta hluta síðustu aldar þegar braggarnir voru mest áberandi afsprengið af húsnæðisvandræðunum.
Það er nöturlegt ef nú er að hefjast hér tímabil að áliðnum fjórðungi 21. aldarinnar sem er sama eðlis og vandinn stóri á því sviði var áttatíu árum.
![]() |
Mun kosta yfir hundrað milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2023 | 00:48
Kominn er tími til að reikna almennilega út fyrir framtíðarorkuvinnslu.
Í forsendur orkuvinnslu íslensks vatnaafls, jarðvamra og vindorku hefur vantað og vantar enn mörg grundvallaratriði.
1. Rányrkja á jarðvarma, svonefnd "ágeng orkuöflun" er eitt stærsta málið. Hingað til hefur bara verið vaðið áfram og látið nægja að nefna 40 ára endingartíma gufluaflsvirkjana, sem þar að auki hefur verið áætlaður of glannalega. Gufuaflsvirkjanir Reykjanesskagans mun því ganga sér til húðar eftir örfáa áratugi. Þetta er afleitt og veldur því, að engin leið er til að gera neina áætlun um framhaldið. Þessi rányrkjustefna er þegar farið að bitna á nýtingu lághitasvæða til heimila og innlendra fyrirtækja.
2. Orkustofnun tekur nú lauslega á því að "frumvarp um breytingu á lögum um Orkustofnun og á raforkulögum tryggi ekki raforkuöryggi almennings til framtíðar."
3. Smá von kviknaði þegar forstjóri Landsvirkjunar sagði við gangsetningu Þeystareykjavirkjunar að þar yrði slegið af rányrkjustefnunni og virkjuð 90 megavött, sem væri umtalsvert minna en annars hefði verið, samanber Hellisheiðarvirkjun. Nú er hefur Landsvirkjun byrjað að hrekjast frá þessar stefnu með því að stefna á 50 prósent nýtingaraukningu.
Ef þetta er það, sem koma skal, gildir svipað og Einstein orðaði víst á þann veg, að ef menn vildu læra af mistökum og koma í veg fyrir þau, væri glatað að reyna það þannig að nota sama hugsunarhátt og notuðu við að framkvæma mistökin.
![]() |
Raforkuöryggi ekki tryggt til frambúðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hamfarasvæðið á Ítalíu við Bologna er stundum kallað "Motor Valley" vegna þess að þar eru verksmiðjur Ferrari, Lamborghini, Maserati og Pagani og við bæinn Imola er kennd ein af þekktustu kappakstursbrautum heims sem fóstrað hefur löngum fræga Formúlu eitt kappakstra.
Í eimuml slikum fórst Ayerton Seanna, sem af sumum er talinn hafa verið besta kappakstursmann allra tíma.
Í Imola er verksmiðjan Tazzari, þar sem framleiddir eru ýmsir íhlutir úr léttum efnum, og eru menn í þeirri verksmiðju sérfræðingar í að hanna og setja saman margvíslega hluti með límingum.
Tazzari bræðurnir höfðu svo mikinn áhuga á rafbílum, að þeir prófuðu að hanna og setja saman nokkra bíla af þeirri gerð, sem frumsýndir voru á bílasýningu í Boogna 2009.
Þetta var í frumbernsku almennilegra rafbíla og því eðlilegt að smá barnasjúkdómar slæddust með í smíðinni, en heima á Íslandi voru feðgar sem eiga verslunina Álfaborg líka miklir áhugamenn um rafbílavæðingu og eru með viðskipti við Tazzari.
Þeir fluttu inn tvo bíla af Tazzari Zero gerð, og hefur annar þeirra verið í umsjón síðuhafa síðan haustir 2017 og gefið af sér margar ánægjustundir sem ódýrasti rafbíllinn hér á sínum tíma, með 100 km drægni, 100 km hámarkshraða og sæti fyrir tvo.
Drægnin hefur dugað til ferða upp í Borgarfjörð og austur fyrir fjall.
![]() |
Myndskeið: Tugþúsundir yfirgefið heimili sín á Ítalíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)