27.3.2023 | 20:02
Evel Knievel lifði af á fjórða hundrað beinbrot.
Bandaríski ofurhuginn Evel Knievel lifði af jafn mörg beinbrot á brokkgengum ferli sínum og hundruð manna samtals þurfa að jafna sig eftir á venjulegum lífsferli.
Knievel varð frægasti "stunt" maður allra tíma, ekki aðeins fyrir geðveikisleg fífldirfsku risastökk á vélhjóli sínu, heldur ekki síður fyrir fjölbreytileika þeirra og dramatísk áföll, þar sem hann æ ofan í æ varð að leggjast á spitala með áverka af öllu tagi.
Lengsta stökk hans var yfir 14 stóra Greyhound rútur, sem lagt hafði verið þétt að hverri annarri svo að stökkið sjálft varð meira en 40 metra langt!
Eftir mislukkað stökk yfir 13 rútur á Wembley, þar sem hann braut sig illa, fór dirfskan að dala sem bein afleiðing af því að hann fór að reyna að draga úr áhættunni við atburðina.
En við það dró líka úr spennunni sem hafði haldið honum á toppnum.
Knivel lifði öll sín fjölmörgu og ótrúlega fjölbreytilega uppátæki af alveg fram undir sjötugt.
![]() |
Tók fyrstu skrefin eftir að hafa brotið fleiri en 30 bein |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2023 | 11:42
Hvernig standa mál Ofanflóðasjóðsins?
Snjóflóðið núna í Neskaupstað minnir dáltíð á snjóflóð, sem féll í Bolungarvík fyrir 26 árum.
Þótt þessu væri lýst með orðinu "spýja" var hún nógu krafmikil til þess að fara í gegnum dyr og glugga á kjallara, og hefði getað farið illa ef einhver hefði verið þar inni.
Í framhaldi af þessu var farin fréttaferð á vegum RÚV til snjóflóðastöðvarinnar í Davos i Sviss og hjólin fóru að snúast í snjóflóðamálum okkar.
Stofnaður var sérstakur Ofanflóðasjóður sem notaður yrði í metnaðarfullt átak hér heima í þessum málum.
Því miður var smám saman farið að nota fjármunina í sjóðnum í annað, að því er virtist með þeirri hugsun, sem hefur loðað svo lengi við hér, að það væri bæði hægt að eiga kökuna og éta hana.
Sem sagt, skárra væri að nota peningana í annað en ofanflóðavarnir í stað þess að láta þá liggja. Treyst virtist á það að snjóflóð féllu síðar. En snjóflóð falla því miður ekki þegar menn vilja það, heldur ætti löng reynsla að hafa kennt Íslendingum að þau falla þegar þær aðstæður eru, að landi hallar og það getur fallið snjór.
Þegar snjóflóð olli miklum skemmdum á Flateyri fyrir nokkrum misserum vöknuðu gamlir draugar í tengslum við það að vestra höfðu snjóflóð drepið 35 manns 1995 í snjóflóðum á Vestfjörðum.
Tólf manns fórust í snjóflóðinu í Neskaupstað 1974 og ekki furða að fólki verið hverft við þegar flóð gerir usla þar 49 árum síðar, þótt blessunarlega hafi ekki orðið alvarleg meiðsl á fólki í þetta sinn.
![]() |
Rúður brotnuðu í fjölbýlishúsi sem flóð féll á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2023 | 20:20
Þarf að blása til nýrrar gagnsóknar til bjargar íslenskunni strax.
Viðtalið á mbl.is við Linu Hallberg um stöðu íslenskunnar ætti að hringja öllum viðvörunarbjöllum varðandi þá hættu sem þjóðtunga okkar er komin í.
Vandinn gagnvart enskunni er margfalt meiri en vandinn var gagnvart dönskunni á 19. öld.
Hinn mikli innflutningur fólks af erlendum uppruna á sér ekki fordæmi, heldur bætist við þau atriði sem greiddu dönskunni braut á 19. öld, þ. e. að fólk væri byrjað að hugsa á dönsku og embættismenn að þróa með sér tyrfinn málstíl, sem kallaður var kansellístíllinn, af því að hann blómstraði mest í stjórnkerfinu og menntakerfinu.
Nú hafa samfélagsmiðlar og fjölmiðlar auk gríðarlegs magns af efni á ensku reist flóðbylgju, sem þrengir sér æ víðar inn í almenna málnotkun. Viðvörunarbjöllur gella alls staðar.
![]() |
Of seint eftir tíu ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.3.2023 | 09:26
Dagleg síbylja sem fer dagvaxandi.
Síbyljan um óstöððvandi vöxt orkuframleiðslu innanlands nefnir sífellt hækkandi tölur til þess að viðhala fréttagildinu. Í ljósi þess að forstjóri Audi bílaverksmiðjanna í Þýskalandi hefur sagt að á endanum yrði lítil innstæða fyrir framleiðslu rafeldsneytis með vindorku, er enginn vafi á hvert stefnan liggur: Fleiri, fleiri og fleiri virkjanir í vatnsafli og jarðvarma.
Erlendu fyrirfólki er boðið að sjá dýrðina og vegsama hana fyrir lýð öllum á þeim stað í íslenska jarðvarmaorkukerfinu þar sem rányrkjan er mest, á Hellisheiði.
Þessa dagana er áróðurinn tvöfaldur, því að í viðbót við endalaus viðtöl í tilefni af fundum um málið er gefið út sérstakt aukablað í nafni "Orkuklasans" með Morgunblaðinu.
![]() |
Gæti þurft að tvöfalda raforkuframleiðsluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.3.2023 | 18:54
Pútín nefndi strax beitingu kjarnavopna 2014 vegna Krímskaga.
Þegar Rússar lögðu Krímskaga undir sig 2014 gerðist það að breskur tundurspillir var það nærgöngull við skagann, að Pútín sá átæðu til að taka það fram, að ef skip í eigu NATO þjóðar sýndi ágengni, myndi það geta kostað það að Rússar íhuguðu í alvöru að beita kjarnavopnum.
Ekki varð að átökum í það sinn, en allar götur síðan hefur hættan á stigmögnun i formi beitingar kjarnavopna vofað yfir.
Yfirlýsing Pútíns nú er rökrétt framhald af orðum hans fyrir níu árum og áhyggjuefni.
![]() |
Flytur kjarnavopn til Hvíta-Rússlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2023 | 16:40
Enn lifir fólk, sem man þá tíð þegar íbúar Reykjavíkur voru 40 þúsund.
Íbúar Reykjavíkur fóru yfir 40 þúsund í kringum stríðsbyrjun 1940. Þetta var nokkrum árum áður en fyrstu umferðarljósin voru sett upp, Lækjargatan breikkuð og verið að byggja upp hverfi á Rauðarárholti.
Aðal strætisvagnaleiðin bar heitið Njálsgata-Gunnarsbraut. Í vesturbænum var heitið "Sólvellir". Á þessum leiðum var svo hæg og stutt yfirferð innan leyfilegs hámarkshraða, 25 km/klst, að þegar ný leið kom áratug síðar fékk hún heitið "Austurbær-Vesturbær hraðferð."
Hún lá alla leið vestur í Skjól og austur á Nóatún og þótti vel í lagt með hraði og yfirferð.
Í Kringlumýri var samfellt mýra- og móasvæði notað undir kartöflugarða bæjarbúa. Tvö af bíóhúsum bæjarins voru í hermannabröggum, stærsta íþróttahúsið í hermannabragga og á Hótel Borg var stærsti veitingastaður og skemmtistaður Reykjavíkur.
Hvorki Austurbæjarbíó né Stjörnubíó voru til, og enn áttu eftir að líða nær tveir áratugir þar til að Laugardalsvöllurinn yrði byggður.
Iðnó var eina leikhúsið. Í einu húsanna við Austurstræti var eina lyfta bæjarins og þótti ungviðinu það mikið tækniundur.
Nær allir íþróttaviðburðir utan húss fóru fram á Melavellinum við Suðurgötu, sem var ófullkominn malarvöllur umgirtur bárujárnsgirðingu.
Enn var "flaggað fyrir kónginum" og "Den forenede dampskibs selskap" hélt uppi reglubundnum ferðum á farþegaskipinu "Dronning Alexandrine" milli Danmerkur, Færeyja og Íslands.
Bæjarbragurinn bar keim stærðinni; það þekktu allir alla.
Enn eru á lífi þúsundir fólks, sem muna þessa tíma. Það er ekki lengra síðan.
![]() |
Kópavogsbúar orðnir 40 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2023 | 16:02
Fjöldi fossa í Noregi. Hvernig er þetta þar?
Í Noregi er fjöldi hárra fossa sem njóta vinsælda ferðafólks. Eitt dæmi af mörgum er Væringjafoss, sem er við Eiðfjörð við leiðina milli vesturstrandarinnar og Harðangursheiðar og er 182ja metra hár.
Hótel er nálægt fossinum og þegar hann var skoðaður fyrir rúmum tuttugu árum virtust svonefndir "innviðir" vera þar í góðu lagi og viðleitni höfð til að stuðla að viðunandi öryggi þeirra, sem vildu njóta þessarar náttúruperlu.
Síðan þá hafa verið gerðar endurbætur 2015.
Hvernig væri nú að íhuga hvort við Íslendingar þurfum endilega að finna sjálfur upp hjólið þegar vitað er að í nágrannalöndunum er hægt að kynna sér hvernig staðið er að þessum málum þar?
![]() |
Hættuleg leið og þörf á úrbótum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2023 | 00:17
Mussolini var "hinn heiðviðri málamiðlari" í Munchen 1938.
Heimsstyrjöld vofði yfir í september 1939 þegar 4,5 milljónir þýskumælandi manna kröfðust þess sem "aðskilnaðarsinnar" í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu aö héruðin, sem lágu að Þýskalandi, yrðu sameinuð Þýskalandi.
Á síðustu stundu flaug Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta til Munchen til fundar við Adolf Hitler, þar sem Benito Mussolini einræðisherra Ítalíu tók að sér að vera "heiðvirður málamiðlari" í deilunni sem ógnaði heimsfriðnum.
Samkomulag náðist með samþykki Daladiers forsætisráðherra Frakka og þýskar hersveitir tóku Súdetahéruðin án þess að hleypt væri af skoti.
Fimm og hálfum mánuði síðar tók Hitler alla Tékkóslóvakíu án þess að hleypt væri af skoti, og fimm og hálfum mánuði eftir það hófst Seinni heimsstjöldin með innrás Þjóðverja og Rússa í kjölfarið inn í Pólland.
Núna krefjast rússneskumælandi "aðskilnaðarsinnar" í austanverðri Úkraínu að sameinast Rússlandi, og Kínaforseti býðst til að verða "heiðvirður málamiðlari" í samningaviðræðum.
Hljómar allt ansi kunnuglega?
![]() |
Segir friðaráætlun Kína geta bundið enda á stríðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2023 | 22:51
Einstakt tækifæri til löngu tímabærra breytinga á bifreiðagjöldum.
Þótt orkuskipti kalli á mikla vinnu við að hrinda þeim í framkvæmd er bjarta hliðin sú, að nú gefst einstakt tækifæri til þess að setja á löngu tímabærar breytingar á fyrirkomulagi alls fjármálaumhverfis bíla og alls samgöngukerfisins.
Og það er bónus fólginn í því að einmitt nú skuli vera að ganga í gegn tæknibylting við að framkvæma þessar breytingar.
Þær þarf til dæmis að nota til þess að tryggja að vegfarendur fái fullvissu um að fjáröflunin sé ekki notuð í eitthvað annað en landsamgöngurnar.
![]() |
Tekur vel í gjaldið en útilokar ekki vegtolla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2023 | 13:37
Japanska bílabyltingin byggðist á áreiðanleikanum.
Fyrstu fimmtán árin eftir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar báru Bandaríkin ægishjálm yfir aðra bílaframleiðendur heims, en Bretar fylgdu fast á eftir. Fram til 1957 voru amerískir bílar vandaðir og áreiðanlegir og hinir "þrír stóru", GM, Ford og Chrysler með pólitískt kverkatak á valdhöfunum vestra, samamber það hvernig þeir knésettu Preston Tucker með lagaklækjum og stöðvuðu hann í að komast inn á markaðinn með byltingarkenndan bíl sinn.
Tucker vann þennan bardaga um síðir, en var þá orðinn of seinn. Lokaorð hans við réttarhöldin voru þau, að ef haldið yrði áfram á þessari braut, myndu sigruðu þjóðirnar, Þjóðverjar og Japanir, taka völdin á bílamörkuðum heimsins.
Gall þá við skellihlátur í réttarsalnum, svo mikil fjarstæða sýndist þetta vera í augum viðstaddra.
En aðeins þremur árum seinna hafði myndin gerbreyst.
Chrysler tók upp stórsókn í djörfu útliti og jók óvönduð og skammsýn vinnubrögð 1957, sem byrjuðu fljótt að hefna sín á næstu árum.
1958 stórjókst sala lítilla evrópskra bíla vestra, svo sem Bjöllunnar og sama ár leit eitt mesta klúður bílasögunnar, Edsel, dagsins ljós og lifði aðeins í tvö ár.
Hinir þrír stóru stukku að teikniborðunum og kom fram með Ford Falcon, Chevrolet Corvair og Plymout Valiant, en í öllum asanum var nú svo komið, að bjóða Falcon sem bíl til að endast aðeins í þrjú til fimm ár.
Seint á sjöunda áratugnum hófst svo innrás lítilla japanskra bíla á borð við hins smáa Honda Civic, og enn hlógu Kanarnir að því að helsti markhópur Japanana voru námsmenn.
En sá hlátur kafnaði endanlega 1989 þegar komnir voru á markað Lexus 400 og Honda Legend og við blasti, að námsfólkið blanka 20 áruum fyrr hafði elst og orðið að vel stæðu fólki, sem hafði bundið tryggð við alveg nýja tegund af öryggi og áreiðanleika í japönsku bílunum, sem stækkuðu jafnt og þétt.
Kominn var japanskur bíll sem skákaði jafnvel Benz S og BMW 7.
Þessi þróun sást vel í ársriti sem þýska bílablaðið Auto motor und sport hefur gefið út með yfirliti yfir bilanatíðni einstakra bíltegunda.
Um aldamótin voru Mazda og Toyota þar oftast éfstir.
Á síðustu árum hafa bílar frá Suður-Kóreu sótt fram í þessu efni og fullkomnað spádóm Prestons Tucker fyrir sjö áratugum.
![]() |
Kia á toppnum enn og aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)