23.1.2023 | 22:33
Bíða allar keppnir ósigur?
Enn einu sinni er sagt að einhver hafi "sigrað keppnina." Hér er á ferðinni hvimleið orðanotkun, því að í keppni sigra keppendur aðra keppendur en ekki keppnina sem slika.
Samkvæmt rökréttri orðanna hljóðan i þessari frétt, beið keppnin ósigur fyrir sigurvegurunum.
Málið er einfalt. Einn keppandi eða keppnislið er sigurvegari í keppninni og ber sigurorð af öðrum keppendum, en ber ekki sigurorð af keppninni sjálfri.
Svo stórkarlaleg er þessi orðanotkun orðin, að einstaklingar er sagðir "sigra Eurovision", og þar með biður þetta milljarða fyrirbæri enginn smáræðis ósigur þegar aðeins einn einstaklingur lætur það lúta í lægra haldi eins og það leggur sig.
![]() |
Heimsmeistari í Formúlu 1 kallar þetta trúðasýningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2023 | 14:20
Enn er úr óvenju miklu að moða.
Fyrir HM voru þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson taldir meðal allra bestu leikmanna heims og Ómar Ingi bestur allra leikmanna þýsku Bundesligunnar.
Gísli Viktor Hallgrímsson var talinn bestur ungra markvarða.
Þótt Ómar Ingi hafi orðið að hætta á HM vegna meiðsla er hann enn það ungur, að hann á að geta að komist aftur á toppinn og nú hafa þeir Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson bæst í þennan íslenska afburðahóp.
Enn er því úr óvenju mörgum afburða handboltamönnum að moða til þess að ná langt á næstu stórmótum, en til þess þarf að lengja og skipuleggja undirbúningstímann betur og stilla hópinn allan upp á nýtt.
![]() |
Elliði og Bjarki í hópi tíu bestu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2023 | 23:23
Munar öllu í þessari stöðu að ávinna sér rétt til ÓL-þáttöku.
Aðeins tvö mörk skildu Svía og Ungverja að í kvöld í sænskum sigri yfir Portúgölum, en þau geta skipt miklu um það að HM hafi að þessu sinni verið endastöð, heldur áfangi á leið liðsins á næstu Ólympíuleika.
Þótt ekki gengi allt upp hjá íslenska liðinu, var þó til ekki til einskis barist.
Svo virðist samkvæmt því umtali sem verið hefur og er um samning Guðmundar Guðmundssonar við HSÍ að ólympíuþáttaka sé hluti af umsamdri þjálfun hans fyrir landsliðið og verður fróðlegt að sjá hvernig unnið verður úr því.
![]() |
Svíar hjálpuðu Íslendingum og sendu Ungverja áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2023 | 15:29
37 metrar á sekúndu í hviðum, 10 metrum meira en í Reykjavík.
Nú er það ekki ófærðin ein á Reykjanesbrautinni, sem gerir mörg hundruð farþega innlyksa í þotunum á Keflavíkurflugvelli, heldur stormur, sem fer yfir fárviðrismörk allt upp í 37 metra á sekúndu.
Nú er ekki hægt að kenna veðurstofunni um neitt; þar á bæ var búið að spá þessu illviðri dögum saman og setja á gular viðvaranir um allt land.
Það kemur heldur ekki á óvart að hvassara verði suðurfrá heldur en í Reykjavík, því að Reykjavík er alveg einstaklega vel í sveit sett gagnvart veðri með sitt skjól af Reykjanesfjallgarðinum þegar algengasta óveðursáttin, suðaustan með roki og slagviðri, nær sér óheft á strik á Suðurnesjum, þar með töldu flugvallarstæði kenndu við Hvassahraun.
![]() |
Björgunarsveitir hætta störfum í Keflavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2023 | 01:04
Er alger sigur annars aðilans tálsýn?
Deilumálin, sem skópu tvær heimsstyrjaldir á 20. öld, voru afar flókin og hefur áður verið drepið hér á bloggsíðunni á nokkur þeirra, þar sem svonefndir "aðskilnaðarsinnar" koma við sögu; minnihlutahópar sem kröfðust sjálfstæðis á grundvelli sérstakrar menningar sinnar og tungumáls.
Dæmi um þetta eru Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu og Norður- og Suður-Slésvík.
Heila heimsstyrjöld þurfti til að ljúka deilunni um Súdetahéruðin og urðu lok deilunnar harkaleg, héruðin voru endanlega innlimuð í Tékkóslóvakíu og draumsýn hinna þýskumælandi íbúa um að gera héruðin þýsk og íbúana þýskumælandi var kæfð með vopnavaldi.
Alls er talið að fjórtán milljónir flóttamanna hafi flutt frá þeim svæðum, sem Þjóðverjar misstu í Seinni heimsstyrjöldinni.
Getur eitthvað svona orðið að niðurstöðu í Donbashéruðunum og á Krímskaga á annan hvorn veginn, í sigri Rússa eða sigri Úkraínu?
Það er nú heila málið, að tilvist kjarnorkuvopna, bæði hjá NATO og Rússa gjörbreytir öllum aðstæðum, vegna þess stigmögnun í áttina að því að styrjöldin verði að kjarnorkustyrjöld má einfaldlega ekki verða.
Í deilunum um Slésvík og Súdetahéruðin á 20. öld truflaði tilvist kjarnorkuvopna ekki framvindu mála.
Í Slésvíkurdeilu Þjóðverja og Dana við lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar var þjóðaratkvæði í allri Slésvík, sem þá tilheyrði Þýskalandi, látin skera úr, og kusu íbúar Norður-Slésvíkur, aðskilnaðarsinnar, að tilheyra Danmörku en Suður-Slésvíkur að tilheyra áfram Þýskalandi.
Gæti eitthvað svona orðið að lausn á Úkraínustríðinu?
Augljóst er að sú lausn yrði erfið vegna þess hve hún yrði flókin, og enn og aftur bætist tilvist kjarnorkuvopna við.
Við blasir að báðir stríðsaðilar segjast ekki sætta sig við neitt minna en sigur.
En það blasir líka við, að hvorugur getur unnið fullnaðarsigur fyrir kröfur sínar.
Stríðið kann því að dragast á langinn þar til menn sjá svipað og við lok Kóreustyrjaldarinnar, að eftir allt það herfilega tjón sem stríðið hefur valdið, verður að semja um vopnahlé og bjarga heiminum frá gereyðingu kjarnorkustríðs.
Kannski eru Þjóðverjar að íhuga eitthvað svona minnugir hinna miklu fórna, sem herför þeirra í austurveg hafði í för með sér 1941 til 1945.
![]() |
Flýta þurfi vopnasendingum til Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2023 | 23:17
Voru það ekki við sem "stálum" hú-inu fyrst frá Motherwell?
Á einhver höfundarrétt að "húinu" fræga, sem við Íslendingar gerðum heimsþekkt?
Í viðtengdri frétt er greint frá komu Roaldos til Sádi-Arabíu, og því að hú-ið góða sé í för með kappanum.
Ef rétt er munað eigum við samt ekki upptökin að þessu hrópi, heldur breskt fótboltalið, sem lék einn leik hér á landi og notaði hrópið.
Gott ef það var ekki skoska liðið Motherwell.
Það er hins vegar hæpið að treysta daufu minni varðandi þetta og væri fróðlegt ef einhver gæti rakið söguna rétt og skilmerkilega til upphafsins.
![]() |
Stuðningsmenn Ronaldo stálu hú-inu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2023 | 13:17
Ofanflóðasjóðurinn langsvelti en flóð falla þegar þeim sýnist.
Eftir mannskætt snjóflóð á Seljalandsdal 1994 var fenginn norskur snjóflóðasérfræðingur til að meta ástandið vestra. Hann var spurður, hvar væri snjóflóðahætta og svaraði: "Þar sem getur snjóað og landinu hallar."
Hann benti á að víða væri búið að reisa byggð og mannvirki, en samt gerðist ekkert í þeim málum til varna og í hönd fóru snjóflóð 1995 og 1996, sem alls bönuðu hátt í fjóra tugi manna.
Svo fór að loks var stofnaður svonefndur Ofanflóðasjóður til að standa að myndarlegum snjóflóðavörnum víða um land.
En þá gerðist algengt fyrirbæri, að ráðamenn tóku peninga úr sjóðnum og ráðstöfuðu í annað.
Enn í dag falla flóð og valda tjóni, meira að segja á Flateyri þrátt fyrir varnir þar.
Á Patreksfirði féll aurflóð inn í kjallara húss í kringum 1950 en engan sakaði, og ennþá, meira en sjötíu árum síðar, er framkvæmdum á verksviði Ofanflóðasjóðs ekki lokið.
Enn í dag geta því flóð af ýmsu tagi, aurflóð, krapaflóð og snjóflóð, falli hvenær sem er, því að um þetta fyrirbrigði má segja, að flóð falli þegar þeim sýnist, nú síðast fyrir nokkrum dögum á þjóðveginn um Raknadalshlíð skammt frá Patreksfirði.
![]() |
Fjórir fórust í krapaflóðunum 1983 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2023 | 21:57
Markverðir eru stundum á við hina liðsmennina til samans og vinna leiki.
Sænskur markvörður skellti markinu nánast í lás í lokakafla leiks liðs hans við íslenska landsliðið í kvöld og varði hvert "dauðafærið" af öðru.
Var réttilega valinn maður leiksins eftir leikinn.
Þetta er nú eitt sinn sérstaða markvarða í handboltanum, en þó verður þess að geta að stór hluti af þessu er stundum góð vörn samtaka varnarleikmanna.
Það reyndist ágætur mótleikur að setja Kristján Örn Kristjánsson inn á, því að hann hélt uppi markaskoruninni með hans naut við, en hefði kannski átt að vera notaður fyrr í leikjum liðsins.
Ekki skyldi hengja haus yfir tapinu í kvöld; því að næstu árin eigum við möguleika á að eignast lið með óvenjulega breidd ungra og vaxandi leikmanna undir stjórn þjálfara, sem færi næg tækifæri til lengri og meiri undirbúning en verið hefur.
Hugsanlega eiga fleiri af bestu landsliðunum eftir að tapa fyrir Svíum, og ef þeir verða í verðlaunasæti er engin skömm að tapa fyrir þeim.
![]() |
Von Íslands orðin afar veik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2023 | 12:48
Breiddin og nýting hennar er aðalatriðið í handbolta.
Einn af talsmönnum hefur sagt að í íslenska leikmannahópnum á HM séu sjö af allra bestu handboltamönnum heims og leitun sé að öðru liði, sem geti státað af slíku.
Hann telur þetta þó ekki aðalatriðið heldur hitt hvort breiddin í hópnum sé svo mikil, að hægt sé að tela fram tveimur fullmönnuðum liðum, þar sem hægt sé að beita fleiri en einni jafn áhrifamiklum leikuppstillingum og aðferðum.
Á langdregnu stórmóti sé beiting nógu margra manna í fremstu röð með fleiri en einu vel æfðu og árangursríku leikskipulagi sigurvænlegri kostur en það hvort hægt sé að stilla upp liði með sjö bestu leikmönnum heims.
Þetta eru athyglisverðir punktar og þrátt fyrir tíu marka sigur í leiknum við Grænhöfðaeyjar, gátu Grænhöfðamenn skorað allt of mörg mörk á ódýran hátt þegar slaknaði á íslensku vörninni við það að halda uppi þeim gríðarlega hraða og einbeitingu sem góð vörn kostaði.
![]() |
Stemningin í landsliðinu hefur breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2023 | 18:54
Fjölþjóðaþátttaka er tíð í styrjöldum.
Margar styrjaldar draga að sér þátttöku manna frá öðrum þjóðum en þeim, sem eru beinir þátttakendur.
Sem dæmi má nefna spnnsku borgarastyrjölina 1936 til 1939, þar sem Þjóðverjar, Ítalir, Sovétmenn og fleiri sendu bæði fjölda "sjálfboðaliða" og vopn til Spánar.
Hitler sendi sérstaka flugsveit með nýjustu herflugvélum sínum, Condor legion, og vakti steypiflugvélin Junkers JU-27 svo mikla skelfingu og hrylling með árásarmætti sínum, að það minnti á þann hrylling, sem kjarnorkusprengjan vakti áratu síðar.
Árásin á bæinn Guernica í Baskalandi eftir Pablo Picasso er líklega frægasta málverk eða listaverk, sem gert hefur verið um hrylling styrjalda og hörmungar óbreyttra borgara.
Eftir Heimsstyrjöldina kom fram, að jafnmargir Norðmenn höfðu barist fyrir Hitler gefn Sovétmönnum og þeir Norðmenn voru, sem voru í röðum andspryrnuhreyfingarinnar í Noregi gegn hernámi nasista.
Fyrir Seinni heimsstýrjöldina seldu hin hlutlausa þjóð Bandaríkjamenn Bretum, Frökkum, Kínverjum og fleirum mikið af vopnum, og með svonefndum Lána og leigulögum ýmist lánuðu þeir enn meira af vopnum, þótt formlega væru Bandaríkin enn hlutlaus.
Á milli styrjalda er stunduð gríðarleg vopnasala á milli þjóða, og hafa Svíar í öllu sínu langvarandi hlutleysi verið iðnir á því sviði, enda hafa staðið afar framarlega á einstökum sviðum vopna, svo sem hinni mjög svo fullkomnu SAAB Gripen orrustuþotu.
Stundum er heitið staðgenglastríð notað um það þegar erlendar málaliðasveitir eða erlend vopn eru notuð eins og gerst hefur í Úkraínu.
Þessa dagana vekur stigmögnun í vopnasendingum ótta um það að hernaðurinn fari úr böndum með þeirri hættu sem það skapar á útbreiðslu stríðsins og notkun kjarnorkuvopna.
![]() |
Svíar senda vopn til Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)