Að standa á réttinum en beygja sig fyrir valdinu.

Ofangreind orð mælti íslenskur höfðingi fyrr á öldum við danskan valdsmann, sem lét hann finna fyrir valdinu. 

Þeim sem ráða á bak við tjöldin í hinu alþjóðlega fjármálakerfi nota ekki fallegar aðferðir til að ná sínu fram eins og Max Kaiser lýsti í viðtali Silfri Egils í dag. 

Kaiser sagði líka réttilega að þegar fólk setti fé sitt í vogunarsjóði eða sjóði sem gefa hæsta vexti fylgdi það venjulega að áhættan væri líka mest þar.

Hann sagði að enginn ætti að væla með fólkinu sem lagði fé sitt inn á Icesave reikningana erlendis.

Þar alhæfir hann hins vegar rétt eins og hann myndi gera ef hann sagði að enginn ætti að væla með Íslendingunum sem steyptu sér í skuldir himinhárra myntkörfulána.

Í heimildarmyndinni "Maybe I should have" sem ég hvet fólk til að sjá þegar þar að kemur, er rætt við grandalaust fólk á Guernsey, sem hafði verið innrætt það frá blautu barnsbeini að bankar væru traustustu stofnanir sem til væru.

"Save like in the Bank og England" var orðtakið. Þau létu glepjast af auglýsingu Landsbankans, sem sagðist vera svo traustur vegna þess að hann hefði starfað allt frá 19. öld. 

En auðvitað hefði meirihluti fólksins sem lagði inn á Icesave átt að vita að aukin áhætta hlyti að fylgja hærri innlánsvöxtum, rétt eins og Max Keiser heldur fram. 

Á sama hátt hefði meirihluti þeirra Íslendinga sem fjárfestu í myntkörfulánum og urðu til þess að skuldir íslensku heimilanna fjórfölduðust á örfáum árum átt að vera það ljóst að fáránlega hátt gengi íslensku krónunnar gæti ekki staðisti til lengdar og að verið væri að taka allt of mikla áhættu. 

Þetta hefði átt að blasa betur við Íslendingum með sína krónu heldur en útlendingum, sem lögðu inn á reikninga bankanna okkar erlendis.  

Þessar skuldir og fáránlega háar skuldir fyrirtækjanna nema næstum 90% af skuldabyrði þjóðarinnar og við verðum líka að horfa í eigin barm því annars lærum við ekki neitt af þessu.

Ef þessar skuldir væru ekki fyrir hendi væri Icesave ekki svona mikið mál. En með réttu má segja að Icesave sé ekki bætandi á allt annað skuldafargan sem nú lendir á þjóðinni.

Við munum ein ekki breyta fjármálakerfi heimsins né hafa afl til að gera heimsbyltingu á þeim vettvangi, því miður.

Framundan er löng og ströng barátta til að komast sem skaplegast út úr þessu ölluog neita ekki alfarið að bera neina ábyrgð á banka, sem var íslenskur í höndum manna sem íslenskir ráðamenn létu gott heita að eignuðust hann og gerðu það sem þeir gerðu.

En aðalatriðið verður að vera "Fair deal", sem felst í því að þjóðirnar þrjár sem tengjast Icesave axli byrðarnar í samræmi við stærðarhlutföllin á milli þjóðanna.  

Og feta verður afar vandfarinn veg milli þess annars vegar að breyta því sem við getum breytt og hins vegar að beygja sig fyrir því sem við getum ekki ráðið við.  

 


mbl.is Segir Darling og Brown vera hryðjuverkamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfurlið í raun í þessum ham? Já!

Ef Íslendingar halda uppi uppteknum hætti í leiknum við Pólverja er engin spurning um það að þeir eru annað af tveimur bestu handboltalandsliðum heims. 

En nú bara að klára þetta hjá þeim. Þreytan segir til sín en sem betur fer virðist hún líka segja til sín hjá Pólverjum.

Að jafn gott lið og hið pólska hafi aðeins skorað átta mörk í hálfleik sýnir að þessar 30 mínútur íslenska liðsins hljóta að teljast þær einhverjar þær allra bestu sem nokkurt landslið okkar í handbolta hefur átt.

Það gott að geta glaðst yfir því í leikhléi þótt leikurinn sé auðvitað alls ekki búinn.  

P.S. Bronsið tryggt.  Það hefur verið sagt að sannur meistari sýni að hann verðskuldi þann titil með viðbrögðum sínum við mótlæti. Síðustu mínútur þessa leiks sönnuðu karakterinn í íslenska liðinu og að silfur í Peking og brons í Austurríki eru verðskulduð.  


mbl.is Ísland landaði bronsinu í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorveður á Grænlandi.

Eftir tvær Grænlandsferðir hér um árið hef ég haft gaman af að fylgjast með ýmsu þar, meðal annars veðrinu. Þessa dagana er vorveður þar og þannig hlýindakaflar hafa komið furðu oft í vetur.

Þetta hefur mátt sjá á veðurkortunum í Sjónvarpinu, þar sem hlýjar tungur lofts hafa teygt sig óvenju oft langt norður með vesturstönd landsins. 

Þetta stingur óneitanlega í stúf við veðrið sem hefur gert fólki á meginlandi Evrópu lífið leitt. 

Núna er 13 stiga hiti í Narsassuaq og spáð hlýju veðri þar út vikuna. 

Í Nuuk verður líka hlýtt eins og langt og séð verður fram í tímann sem og í Syðri-Straumfirði (Kangerlussuaq) sem liggur 180 kilómetra inni í landi og þar af leiðandi venjulega með fimbulkulda á þessum árstíma. 

Þar er meðalhiti í janúar 20 stiga frost en spáð er allt að 5-6 stiga hita nú í vikunni. 

Annars er Grænland land einhverra mestu öfga í veðri sem hægt er að hugsa sér. 

Í Syðri-Straumfirði er meðalhitinn á hádegi l í júlí rúmlega 16 stig ! Engin veðurstöð á Íslandi kemst nálægt þessu. Raunar nær ólíft þar fyrir flugum á þeim tíma. 

Á veðurstöðinni Tingmiarmiut á austurströndinni er kaldasti staður á láglendi á norðurhveli jarðar að sumarlagi, meðalhitinn aðeins 3,5 stig í júlí !  

Þetta stafar af þrálátum ísþokum sem þar ríkja á sumrin vegna hins kalda hafstraums og ísreks sem liggur til suðurs meðfram austurstönd Grænlands. 

Grænlandsjökull er næstum 200 sinnum stærri en Vatnajökull og eftir að ég fór ferð yfir hann fyrir áratug kalla ég Vatnajökul oft í hálfkæringi "skaflinn." 

Þetta er nú hálf ljótt af mér, því að náttúrufyrirbrigði Vatnajökuls gera hann einstæðan, og hann er nógu stór til að búa til sitt eigið veðurkerfi þegar sá er gállinn á honum. 

Grænland er reyndar meira en 20 sinnum stærra en Ísland og er eina landið í heiminum sem nær lengra til suðurs, norðurs, vestur og austurs en Ísland ! 


mbl.is Umferðaröngþveiti í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm mínútur réðu úrslitum.

Fimm mínútna kafli í upphafi síðari hálfleiks réðu úrslitum í leik Frakka og Íslendinga þegar Frakkar breyttu stöðunni úr eins marks mun með því að skora sjö mörk á móti aðeins tveimur Íslendinga. 

Þá tók Guðmundur leikhlé en skaðinn var skeður því að þegar besta handboltalandslið í heimi kemst í átta marka mun lætur það hann ekki af hendi.

Það dugði ekki þótt Björgvin verði stórkostlega í fyrri hálfleik og Aron Pálmarsson brilleraði, alhliða gæðaleikur heims- og Ólympíumeistaranna í sökn og vörn var óyfirstíganlegur múr eftir fimm mínútna kaflann örlagaríka.  

Íslenska liðið á samt möguleika á að gera eitthvað nýtt, því að tvívegis áður hefur það leikið um brons á stórmóti og tapað í bæði skiptin en getur hins vegar unnið brons á morgun.

Lið sem hefur einu sinni unnið verðlaunapening áður hlýtur að þyrsta í annan.  


"Betra að leiða hjörðina..."

Á prófkjörsdegi fyrir byggðakosningar, þegar bæjarstjórinn í Hafnarfirði ætlar að keppa eftir 6. sætinu, koma upp í huga minn eitthvert skemmtilegasta viðtal sem ég man eftir að hafa tekið á löngum ferli.

Það var viðtal við Davíð Oddsson í fyrsta sjónvarpsþættinum af sínu tagi hér á landi, þar sem í beinni útsendingu að viðstöddum áhorfendum var blandað saman öllu mögulegu, stjórnmálum, heimildarinnskotum, menningarviðburðum og hverju því sem var efst á baugi um allt land. 

Þess vegna gaf ég þættinum nafnið "Á líðandi stundu" og hafði þetta verið draumur minn í mörg ár, sem fékk náð hjá nýjum stjórnendum, Hrafni Gunnlaugssyni og Ingva Hrafni Jónssyni. 

Davíð fór svo á kostum að ýmis ummæli hans urðu umræðuefni annarra fjölmiðla marga daga á eftir.

Viðtalið tókum við þrjú, ég, Agnes Bragadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson. 

Meðal annars var Davíð spurður að því, hvort hann ætlaði að fara í 8. sætið, baráttusæti listans.

Hann svaraði eldsnöggt: "Nei, það er betra að ég leiði hjörðina en reki hana."  

Hann sagði þetta þannig að hann uppskar skellihlátur allra viðstaddra.

Þegar ég bauð Guðmundi "jaka" Guðmundssyni að verða aðalgestur næsta þáttar dró hann seiminn og sagði:

"Það verður ekkert áhlaupaverk eftir frammistöðu Davíðs. Satt að segja höfum við mótherjar hans verið hugsjúkir eftir það hvernig hann brilleraði hjá ykkur og jafnvel haldið um það fundi. Hann er þegar búinn að vinna sigur í kosningunum í vor." 

Jakinn kom síðan í næsta þátt og var stórkostlegur þótt ekki tækist honum að skáka Davíð.  

 


Gullið verður að vera takmarkið.

Einhverjir kunna að vera að velta því fyrir sér hvort afdrifarík augnablik, sem kostað hafa hið ósigraða íslenska lið stig í aðdraganda leiksins í dag hefðu komið í veg fyrir að liðið komist í tvö af efstu sætununum. 

Alger óþarfi er að hugsa svona. Sé franska liðið besta lið í heimi komast Íslendingar hvort eð er ekki hjá því að leika við þá og líklega er betra að það gerist núna frekar en á morgun. 

Eftir að hafa komist svo nálægt gullinu á Ólympíuleikunum hlýtur gullið að vera takmarkið og skipta minna máli hvort barist verður um það eða bronsið á morgun.  


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta gerist ekki á Íslandi.

ESB hefur nú krafist þess af Alcoa að fyrirtækið endurgreiði Ítölum niðurgreiðslur á rafmagni til álvera fyrirtækisins þar í landi.

Íslendingar eru ekki í ESB og þess vegna ætti varla að vera hætta á því að ESB muni krefjast þess af Alcoa greiði til baka ívilnanir sem fengist hafa hjá Íslendingum í formi niðurfellinga eða afsláttar á margs konar gjöldum. 

Sennilega er enn ólíklegra að ESB fari að krukka í raforkuverðið til Acoa, því að það er sem kunnugt er viðskiptaleyndarmál.

Hvort aðild okkar að EES skiptir hér einhverju máli veit ég ekki. En málið er athyglisvert, sýnist mér.  


mbl.is Biður Alcoa að loka ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd okkar þarf að ná í gegn.

Ég þykist vita að margir hér heima verði órólegir við að heyra af því hvernig forseti Íslands beitir sér eins og hann getur til að tala máli okkar erlendis, en til þess hefur hann betri aðstöðu en nokkur annar Íslendingur. 

Heyra má sagt að hér ríki þingræði sem feli framkvæmdavaldinu, ríkisstjórn og ráðherrum, að fara með vald sitt og að forsetinn eigi ekki að skipta af því sem ríkisstjórn og Alþingi sé falið í lýðræðislegum kosningum að gera.

Gagnrýnt er að forsetinn virðist upp á sitt eindæmi vera að breyta stjórnskipun íslands í nokkurs konar blöndu af forsetaræði og þingræði sem fari í bága við stjórnarskrána.

Forsetinn sé með þessu að seilast inn á verksvið utanríkisráðherra, sem kæri sig ekki um að "vera töskuberi hans" í ferðalögum erlendis eins og utanríkisráðherra orðaði það.

En nú eru óvenjulegir tímar þar sem okkur veitir ekki af því að allir leggist á eitt í því að auka skilning erlendis á málum okkar.

Allt frá forsetakosningunum 1952 hef ég verið þeirrar skoðunar að forseti Íslands þurfi að þekkja vel til í stjórnskipuninni til að geta beitt sér bæði innanlands og utan í þágu þjóðarinnar þegar mikið liggur við.

Þeir sem gagnrýna framgöngu forsetans nú mega hafa í huga að hann er eini embættismaður þjóðarinnar sem kjörinn er beint af landsmönnum. Í næstu forsetakosningum hafa kjósendur tækifæri til að leggja dóm á stöf hans á beinni hátt en nokkur annar embættismaður þarf að sæta.

Ég tel ákveðna mótsögn í því að vilja annars vegar minnka ofríki framkvæmdavaldsins og jafnframt bægja forsetanum frá nauðsynlegri þátttöku í því að hjálpa til í þeim vanda sem þetta sama framkvæmdavald og dofið þing áttu sinn þátt að koma okkur í.  

Ef gagnrýna ætti störf forsetans síðustu ár er það kannski helst að hann hafi líka verið sofandi á verðinum gagnvart því sem var að gerast.

Ég sé líka ákveðna mótsögn í því þegar sumir vilja breyta stjórnskipuninni í svipað horf og er í Bandaríkjunum eða Frakklandi en vera jafnframt á móti því að kjörinn þjóðhöfðingi hér á landi leggi sitt lóð á vogarskálarnar og veit þingi og ríkisstjórn aðhald þegar þess er þörf. 

Deila má um hversu langt forsetinn megi ganga og um einstök ummæli hans og afskipti.

Hitt er ljóst að enginn Íslendingur er í neitt svipaðri stöðu til að hafa áhrif erlendis og þjóðhöfðingi okkar, bæði vegna þeirra sambanda og stöðu sem hann hefur komið sér í erlendis og þeirrar sérstöððu sem þjóðhöfðingi hvers lands hefur erlendis.

Auk þess er leitun að Íslendingi sem hefur þann bakgrunn, þekkingu og færni til að gera þetta og Ólafur Ragnar.  


mbl.is Ólafur Ragnar ræðir stöðu Íslands við fjölda fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um langtímaúthaldið.

Í hinum frábæra aðdraganda að því að íslenska landsliðið er komið í undanúrslit hefur mætt mjög mikið á sömu mönnunum. 

Aðall leiks okkar hefur verið óhemju snerpa og hraði í vörninni. Til þess að geta haldið þessari snerpu og hraða í 60 mínútna leik þarf geysilegt úthald, hvað þá í heilu móti. Í síðustu leikjum mótsins getur þetta langtímaálag farið að bitna á mönnum, sama hve vel þjálfaðir þeir eru. 

Þetta er auðvitað vandamál allra í hinum hraða nútímahandbolta en í síðustu leikjunum mun ráða úrslitum hvort hægt verði að halda sömu snerpu og hraða allt til enda í hverjum einasta leik.

Við munum eftir hinu frábæra rússneska knattspyrnulandsliði á síðasta stórmót þegar það sýndi áður óþekktan hraða og keyrslu fram og til baka eftir vellinum.

Liðið hélt út í þessu vel inn í mótið, en síðan kom að því að útlokað var að halda þessari hraðakeyrslu uppi heilt mót.

Á HM 1961 var Ingólfur Óskarsson geymdur sem leynivopn í byrjun og kom síðan inn á í leik við Svía, sem þá voru með annað af tveimur bestu liðum heims.

Ingólfur var einhver mesta skytta sem Ísland hefur átt og gerðist Svíabani í þessum leik.

Manni dettur Logi Geirsson í hug núna, en munurinn er sá að 1961 var Ingólfur óþekktur en Logi er þekktur leikmaður.

Hins vegar gæti hungur hans og það að hann er óþreyttur og óslitinn af álagi gert það að verkum að það muni um hann.

Þetta verður spennandi. Hraður varnarleikur er líka aðall Frakkanna og kannski munu þeir eiga við sömu vandamál að stríða og við.  


mbl.is EM: Ísland mætir Frakklandi í undanúrslitum á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað".

Samningurinn um koltrefjaverksmiðjuna á Akureyri er dæmi um "eitthvað annað" sem álfíklar hafa nefnt svo í háðungarskyni til aðgreiningar frá risaálverum sem eiga að vera eina lausnin við atvinnuvanda Íslendinga.

Húsvíkingar hafa nú hengt allt sitt á álver á Bakka og Akureyringar ætla sér að njóta þess að fá "eitthvað annað" til sín.

Koltrefjaefni sækja nú á önnur efni, sem eru létt og sterk. Vinsælustu einkaflugvélar heims eru nú gerðar úr koltrefjum og nýjasta þota Boeing verður að stórum hluta úr koltrefjaefnum.

Forstjóri Boeing hefur sagt að þessi efni muni ryðja álinu burt, meðal annars vegna þess hve notkun þess sparar mörg störf við flugvélasmíðina.

Í fréttinni frá Akureyri er ekki greint frá því hve margir muni fá vinnu við verksmiðjuna né hve mikla orku hún muni nota.

Mig grunar þó að hún muni skapa fleiri störf á orkueiningu en álver, enda eru álver "orkufrekur iðnaður" eins og það er kallað og hefur verið flaggað sem jákvæðu orði, sem það auðvitað ekki er, því að þvert á móti ættu Norðlendingar að sækjast eftir iðnaði sem skapar fleiri störf á hvert megavatt og kaupendum orku, sem eru fleiri og smærri og henta því vel við virkjun jarðvarmasvæða, þar sem virkjað er hægt og bítandi í áföngum.

Sennilega verður maður að bera sig eftir nánari upplýsingum um störf, orkunotkun og mengun því að fréttamenn virðast ekki hafa áhuga á að spyrja að slíku ef marka má það að ekkert er greint frá þessum höfuðatriðum.

Ljóst er þó að metangasnotkunin er plús að öllu leyti, bæði umhverfislega séð og af hagkvæmnissjónarmiðum.


mbl.is Rammasamningur um koltrefjaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband