Vorveður á Grænlandi.

Eftir tvær Grænlandsferðir hér um árið hef ég haft gaman af að fylgjast með ýmsu þar, meðal annars veðrinu. Þessa dagana er vorveður þar og þannig hlýindakaflar hafa komið furðu oft í vetur.

Þetta hefur mátt sjá á veðurkortunum í Sjónvarpinu, þar sem hlýjar tungur lofts hafa teygt sig óvenju oft langt norður með vesturstönd landsins. 

Þetta stingur óneitanlega í stúf við veðrið sem hefur gert fólki á meginlandi Evrópu lífið leitt. 

Núna er 13 stiga hiti í Narsassuaq og spáð hlýju veðri þar út vikuna. 

Í Nuuk verður líka hlýtt eins og langt og séð verður fram í tímann sem og í Syðri-Straumfirði (Kangerlussuaq) sem liggur 180 kilómetra inni í landi og þar af leiðandi venjulega með fimbulkulda á þessum árstíma. 

Þar er meðalhiti í janúar 20 stiga frost en spáð er allt að 5-6 stiga hita nú í vikunni. 

Annars er Grænland land einhverra mestu öfga í veðri sem hægt er að hugsa sér. 

Í Syðri-Straumfirði er meðalhitinn á hádegi l í júlí rúmlega 16 stig ! Engin veðurstöð á Íslandi kemst nálægt þessu. Raunar nær ólíft þar fyrir flugum á þeim tíma. 

Á veðurstöðinni Tingmiarmiut á austurströndinni er kaldasti staður á láglendi á norðurhveli jarðar að sumarlagi, meðalhitinn aðeins 3,5 stig í júlí !  

Þetta stafar af þrálátum ísþokum sem þar ríkja á sumrin vegna hins kalda hafstraums og ísreks sem liggur til suðurs meðfram austurstönd Grænlands. 

Grænlandsjökull er næstum 200 sinnum stærri en Vatnajökull og eftir að ég fór ferð yfir hann fyrir áratug kalla ég Vatnajökul oft í hálfkæringi "skaflinn." 

Þetta er nú hálf ljótt af mér, því að náttúrufyrirbrigði Vatnajökuls gera hann einstæðan, og hann er nógu stór til að búa til sitt eigið veðurkerfi þegar sá er gállinn á honum. 

Grænland er reyndar meira en 20 sinnum stærra en Ísland og er eina landið í heiminum sem nær lengra til suðurs, norðurs, vestur og austurs en Ísland ! 


mbl.is Umferðaröngþveiti í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband