Forystuþjónkun sjálfstæðismanna að minnka ?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti því einu sinni skemmtilega af hverju það væri svona miklu meira að gerast í flokkadráttum og félagsmálavafsltlri meðal vinstri manna en hægri. Sagði hann að hægri menn reyndu að komast hjá því að eyða of mikilli orku í slíkt og hölluðu sér frekar að sér og sínum við að framleiða og halda þannig atvinnulífinu gangandi.

Þetta kanna að vera skýringin á því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið meiri forystuhollustu en aðrir stjórnmálaflokkar. Félagarnir eru ánægðir með það að hafa fundið foringja og þjappa sér um hann.

Nú virðist meira að segja þetta höfuðatriði vera á undanhaldi og eru skrif Guðmundar G. Gunnarsson gott dæmi um það. Ef greining Hannesar Hólmsteins er notuð hlýtur þetta að vera dæmi um að langlundargeð flokksmanna sé á þrotum og að þeim sem "seinþreyttastir eru til vandræða" sé loks nóg boðið.

Það er engin furða. Hinn almenni flokksmaður verður nú óþyrmilega fyrir barðinu á mistökum flokksforystunnar og finnur það á pyngju sinni á hverjum degi að búið er að eyðileggja fyrir honum afraksturinn af viðleitni hans til að sjá sér og sínum farborða. Svo einfalt er það.


mbl.is Hagsmunaárekstur félags og flokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugsnúin trú á "hagkvæmni stærðarinnar" ?

Lögmálið um "hagkvæmni stærðarinnar" á alls staðar við að því leyti til að flest starfsemi þrífst best og skilar bestu við ákveðna stærð rekstrareininga. Þetta fer þó algerlega eftir aðstæðum og hagkvæmni stærðarinnar þýðir ekki að því stærri sem rekstrareiningar séu, því betra.

Sovétmenn trúðu á hagkvæmni stærðarinnar í aðra áttina, það er: því stærra, því betra, - tóku jarðir af bændum og smöluðu þeim með valdi "alræðis öreiganna" inn í stór samyrkjubú. Afleiðingin varð skortur og sultur sem kostaði milljónir manna lífið.

Á síðustu áratugum Sovétríkjanna var matarskortur í landinu sem Hitler réðst inn í af því að það væri framtíðar matvælaforðabúr Evrópu.

Svo virðist sem heilbrigðisráðherra hafi smitast af þessum sovéska hugsunarhætti enda er komin "söguleg hefð" á það hjá Sjálfstæðisflokknum að beita tröllkarlalegum sovéskum lausnum á borð við Kárahnjúkavirkjun.

Nú má sjá í blöðum að skólabróðir minn Almar Grímsson hefur fengið upp í kok af þessum vinnubrögðum í flokki hans. Það er við hæfi að nota orðin "upp í kok" um það að leggja niður starfsemi við meltingarsjúkdómalækningar í Sankti Jósepsspítala, en ég hef persónulega reynslu af frábærri þjónustu og árangri á þeirri deild.

Ráðherrann leggur ekki fram nein gögn til að sanna mál sitt og hefur ekki samráð við neinn nema þá deild í Landsspítalanum í Reykjavík sem fá á þessa starfsemi til sín og samþykkir það auðvitað og styður að fá tryggingu fyrir auknum verkefnum og fjölda starfsmanna.

Lágmarkskrafan til ráðherra hlýtur að vera þessi: Gögnin á borðið og rökræður um þau áður en vaðið er áfram með offorsi.


mbl.is Samfylkingarfólk í Skagafirði mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón "forseta" aftur! Nú eða aldrei!

Fyrir kosningarnar 2007 lagði Íslandshreyfingin fram þau sjónarmið að ráðherrar yrðu að segja af sér þingmennsku og að endurreisa þyrfti vald og virðingu Alþingis.

Nú leggjum við til að fyrsta og auðveldasta skrefið verði stigið strax með breytingu á kosningalögunum sem innleiða beint persónukjör í kjörklefanum í næstu kosningum og afnema þröskuld á fylgi, sem flokkarnir reistu til að viðhalda alræði sitjandi flokka.

Stundum kemur upp sá misskilningur fólks að Jón Sigurðsson forseti hafi verið forseti Íslands. Það var hann reyndar í raun en hann var þó ekki forseti Íslands heldur forsetii Alþingis sem hafði aðeins ráðgjafarvald gagnvart konungnum, sem var þjóðhöfðingi Íslands og Danmerkur.

Nú eða aldrei þarf að gera þær breytingar á stjórnskipuninni sem tryggja endurreisn æðstu stofnunar þjóðarinnar sem er og á að verða Alþingi en naut fyrir hrun vantrausts meirihluta þjóðarinnar.

Best væri ef við fækkuðum þingmönnum og ráðherrum og kysum sérstaklega oddvita framkvæmdavaldsins, sem væri þá jafnframt þjóðhöfðingi landsins líkt og gerist í Bandaríkjunum.

Bandaríkin eru þúsund sinnum stærri þjóð en Íslendingar og samt getur einn maður gegnt báðum þessum hlutverkum þar. Auðvitað getur það sama gilt hér.

Það má líka hugsa sér að kjósa forseta þingsins sérstaklega í þjóðaratkvæði eins og Njörður P. Njarðvík hefur lagt til og að hann feli öðrum að mynda ríkisstjórn og beri ábyrgð á henni. Forseti Alþingis hefði þá vald til að víkja einstökum ráðherrum eða ríkisstjórninni frá og standa að myndun annarrar stjórnar ef svo bæri undir.

Nú eða aldrei! Ef ekki er tilefni til þess nú að gera róttæka uppstokkun til eflingar lýðræðis verður það aldrei gert.

Með slíku fyrirkomulagi myndi nauðsynlegt vald þingsins eflast og þjóðin myndi skilja, hvers vegna Jón "forseti" naut slíkrar viriðingar og trausts sem hann naut á sínum tíma.


mbl.is Uppgjör þarf að fara fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær varð "við borgum ekki" til?

Stefán Jón Hafstein kastaði þeirri tilgátu fram í Vikulokunum í morgun að stefnan "við borgum ekki", sem Davíð Oddsson lýsti á svo afdrifaríkan hátt í frægu viðtali í Kastljósi, hefði orðið til talsvert fyrr þegar Davíð og fleirum töldu ljóst (símtalið fræga við Geir) að íslensku bankarnir ættu enga möguleika til að standast áhlaup.

Sjálfur heyrði ég marga, sem ég hitti eftir að ég kom heim eftir að hafa upplifað áhrif viðtalsins erlendis, sem sögðu mér að Davíð hefði verið svo sannfærandi og öruggur í þessu viðtali að þeir hefðu róast algerlega við að hlusta á það.

Davíð hefur þá væntanlega verið svona öruggur með þetta vegna þess að hann gerði sér enga grein fyrir þeim viðbrögðum erlendis sem þetta hefði og hafði á engan veginn kortlagt vígstöðu okkar til neinnar hlítar.

Hafi fleiri, til dæmis Geir, verið vissir um að "við borgum ekki" gengi ljúflega upp, útskýrir það hringlandaháttinn og hrakninga Davíðs og Geirs úr einu vígi í annað.

Fyrst stóð Davíð gegn því að leita til AGS, og síðan hófust hrakningar Geirs úr einu vígi í annað með því að segja fyrst að AGS tengdi Icesafe reikningana ekki við lánveitingu, síðan að myndum ekki láta kúga okkur, þar næst að við yrðum að vísu að beygja okkur en myndum sækja mál á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna og loks í það nú í lokin að sérfræðingar teldu slíka málsókn vonlausa.

Varðstöðuna um hagsmuni Íslendinga má líkja við hernað. Þá skiptir öllu að menn hafi yfirsýn yfir vettvang átakanna, styrk aðila og vígstöðuna á hinum ýmsu vígstöðvum. Sá herforingi nær ekki endilega bestum árangri sem gefur út þá dagskipum, eins og Davíð virðist hafa gert, að hopa hvergi heldur standa alls staðar sem fastast á sínu.

En í slíkum átökum getur hinn kaldi veruleiki verið sá að ekki er spurt að vopnaviðskiptum heldur leikslokum.

Dæmi um það úr hernaðarsögunni hvernig svona hernaðarlist getur valdið tjóni er það hvernig Hitler bannaði hvað eftir annað hershöfðingjum að hopa nokkurs staðar og var Stalingrad eitt besta dæmið. Sem betur fer var þessi hroki Hitlers ein höfuðástæðan fyrir tapi Þjóðverja, en það er önnur saga.

Stundum getur endanleg niðurstaða orðið mun skárri ef viðhaldið er ákveðnum sveigjanleika sem byggist á réttu mati á hinni raunverulegu vígstöðu en ekki á óraunsæju vanmati á styrk og veikleika.


Athyglisverð samtök í uppsiglingu.

Hagsmunasamtök heimilanna verða stofnuð í stofu 101 í Háskólanum í Reykjavík næstkomandi fimmtudagskvöld, - enn eitt dæmið um grasrótarsamtök utan þings sem sprottið hafa upp að undanförnu til að knýja á um nauðsynlegar umbætur og breytingar í íslensku samfélagi.

Íslandshreyfingin - lifandi land er grasrótarhreyfing utan þings sem finnur til mikillar samkenndar með þessum nýju samtökum og hagsmunir íslenskra heimila og fyrirtækja sem nú horfa fram á ástæður, sem verður að takast á við, eru stóra málið fyrir almenning um þessar mundir.

Í síðustu ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar er ákall um tafarlausar aðgerðir áður en holskeflan skelli yfir. Það sem stjórnvöld hafa gert er alltof lítið og því þarf að mynda þrýsting á frekari aðgerðir með því að grasrótarsamtökin fari af krafti ofan í málin og taki foyrstuna um mótun aðgerða ef hin seinvirku stjórnvöld halda áfram að draga lappirnar.

Allar þessar hreyfingar eiga það sameiginlegt að berjast gegn þeirri skammsýni, skammgróðasjónarmiðum og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum sem vaðið hefur uppi.

Íslandshreyfingin tók þetta upp fyrir kosningarnar 2007 sem baráttu fyrir siðbót í þessu efni.

Það hefur verið syndgað á ótal sviðum að þessu leyti, og til langs tíma litið verður tjónið mest hvað snertir eyðileggingu náttúruverðmæta landsins, því að það tjón verður aldrei hægt að bæta um þúsundir ára.

Nú eru uppi áform um enn frekari og skefjalausari ásókn en nokkru sinni fyrr og því aldrei brýnna en að standa vaktina um mestu verðmæti landsins en nú, bæði auðlindir og mannauð.

P.S. Er búinn þótt seint sé að leiðrétta villu sem var í upphaflega blogginu varðandi fundarstaðinn sem er Háskólinn í Reykjavík en ekki Háskóli Íslands.


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ósvipað og í heimsstyrjöldinni.

Bæði Bretar og Þjóðverjar dreifðu flugmiðum yfir lönd hvorir annarra þar sem almenningur var varaður við afleiðingum þess að sýna mótþróa. Hvorug þjóðin lét þessar hótanir, eins og þessi skilaboð voru í raun, beygja sig.

Þjóðverjar beittu loftárásum í borgarastyrjöldinni á Spáni, samanber illræmd árás á Guernica og héldu að loftárásirnar í orrustunni um Bretland myndu knýja Breta til uppgjafar. Viðbrögð bresku þjóðarinnar urðu þveröfug.

Þjóðverjar notuðu hernaðarárásina "Bestrafung" eða Refsingu til þess að leggja Belgrad í rúst í apríl 1941 en gátu aldrei knúið þjóðina til uppgjafar því að skæruliðar héldu velli í fjalllendi landsinsog börðust allt til stríðsloka.

Hinar margfalt verri loftárásir bandamanna á Þýskaland breyttu ekki því að þar var barist löngu eftir að ósigur var óumflýjanlegur.

Eina dæmi þess að loftárásir hafi knúið þjóð til uppgjafar eru loftárásir Bandaríkjamanna á Japan frá maí til ágúst 1945, þegar þeir lögðu meirihluta bygginga í borgum Japans í rúst og beittu auk þess tvívegis kjarnorkusprengjum.

Aldrei hefur þó komið til þess almenningur hafi risið upp og kastað stjórnvöldum frá völdum. Ólíklegt er að almenningur á Gasa komi í veg fyrir starfsemi Hamas. Ástæðan er sú að fólkið lifir hvort eð er við óbærilegar aðstæður neyðar, skorts og vonleysis og finnst það ekki hafa neinu að tapa lengur.

Aukið mannfall óbreytra borgara, kvenna og barna á Gasa eykur aðeins á viðbjóðinn í þessum hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna.


mbl.is Ísraelar vara við árásum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of seint, of ómarkvisst?

Mannfjöldi á Íslandi er á við hverfi einhverri af þúsundum borga heimsins. Vina- ætta- og kunningjatengsl liggja um alla. Eina leiðin til að fram fari rannsókn sem ekki skapar vafa eða trúnaðarbrest er rannsókn nefndar þar sem útlendingar hafa meirihluta.

Einn Íslendingurinn í rannsóknarnefnd Alþingis kemur frá útlöndum en hætt er við það sé ekki nóg. Við höfum fordæmi frá Landsnefndinni 1771 sem átti að rannsaka hvað væri að á Íslandi og rétta það af. Formaðurinn var Norðmaður en það var ekki nóg því að Íslendingarnir voru í meirihluta og eyðilögðu að mestu þá möguleika sem nefndin átti.

Athyglisverð er grein Helga Hermassonar í Fréttablaðinu þar sem hann bendir á bandarísku stofnunina SEC sem hefur 74 ára reynslu af rannsóknum á þessu sviði sem mögulegan rannsakanda. Þar að auki fréttist af áhuga erlendis á að rannsaka íslenska bankahrunið.

Helgi kemur að mergnum málsins hvað snertir þetta mál, en það er hugtakið traust. Erfitt er að sjá hvernig nokkrir innlendir aðilar geti notið fulls trausts við rannsókn, sem teygir anga sína inn í alla kima hér á landi og ómögulegt að sjá fyrir hvaða hagsmunaárekstrar eða tengsl koma upp.

Vonandi tekst rannsóknarnefndinni að leysa verkefni sín þótt byrja hefði átt strax og á þann hátt að hafið væri örugglega yfir allan efa, bæði nú og síðar.


mbl.is Öryggi rannsóknargagna tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfur til auglýsinga.

Íslenska Sjónvarpið leyfði auglýsingar í upphafi starfsemi sinnar og það átti stóran þátt í "íslenska kvikmyndaævintýrinu".

Frumbýlingsháttur og byrjendabragur var eðilega á íslenskri kvikmyndagerð 1966 en vegna þess að auglýsingagerð krefst knappari texta og agaðri vinnubragða en flest annað í kvikmyndagerð, lögðu þær grunninn að sams konar vinnbrögðum á öðrum sviðum íslenskrar kvikmyndagerðar og voru góður grunnur fyrir margan fagmanninn.

Nú mætti halda að vegna nauðsynjar á öguðum vinnubrögðum væri slíkt ævinlega í hávegum haft í auglýsingagerð, ekki hvað síst varðandi texta þeirra, sem oftast er sagður í fáum vel völdum orðum, enda hvert orð oft rándýrt. En því miður er það ekki þannig.

Vikum og mánuðum saman var til dæmis flutt auglýsing þar sem orðið Volkswagen var borið rangt fram og á annan hátt en í heimalandi verksmiðjunnar eða í nokkru landi, líka Íslandi.

Þetta var óskiljanlegt því að þetta átti ekki að vera brandari. Auðheyrt var að sá sem las textann kunni ekki orð í þýsku.

Í rándýrum örstuttum auglýsingum má oft heyra ranga málnotkun og lélegan og óskýran framburð. Nú rétt áðan heyrði ég í fyrsta sungna auglýsingu virtustu og elstu bókaverslunar landsins. Vandað var til kvartettsöngs á íslenskum auglýsingatexta við lagið Gaudeamus Igitur.

Skemmst er frá því að segja að textinn var argasta hnoð og fylgdi ekki einu sinni laglínunni, sem var misþyrmt. Ekki örlaði á viðleitni í nafni þess stólpa íslenskrar menningar, sem auglýst var fyrir, til þess að hafa íslenska ljóðstafi, sem hefði verið við hæfi hjá auglýsingu í nafni virts menningarfyrirtækis.

Það var himinn og haf á milli þessa texta og auglýsingatexta eftir til dæmis Flosa Ólafsson eða Þórarin Eldjárn.

Auglýsingar eru mikilvægur hluti þjóðmenningar og texti þeirra yfirleitt svo stuttur að það verður að gera lágmarkskröfur þar um.

Og vel á minnst: Sjálfvirkir símsvarar. Þeir eru efni í annað blogg.


Reykjavík sama og Krísuvík.

Ég hitti gagnmerka framsóknarkonu á Egilsstöðum nú rétt í þessu og ræddi við hana um það hvernig íbúar á suðvesturhorni landins upplifa nú það sem landsbyggðarfólk hefur þurft að lifa við um áratugi, - að stórfellt atvinnuleysi og fólksflótti bresti á  fyrirvararlaust.

Á morgun fer kannski sægreifinn með togarann úr plássinu og daginn eftir lokar rækjuvinnslan.

Á leið minni í dag landleiðina að sunnan úr Reykjavík með ódýrasta ferðamátanum í ódýrasta bíl landsins, Fiat 126, hef ég hitt landsbyggðarfólk á förnum vegi og heyrt hvernig það er sallarólegt enda orðið ýmsu vant.

Þó veit það að áhrifin "að sunnan" eiga eftir að berast um landið og eru þegar farin að gera það eins og fréttir úr heilbrigðisþjónustunni bera merki um.

En aftur að framsóknarkonunni, sem aðspurð sagðist ekki hafa áhyggjur af "fjandsamlegri yfirtöku" í framsóknarfélögum hér í Norðausturkjördæmi. Hún sagði mér að hún hefði heyrt fólk á þessum krísutímum nefna nafnið Krísuvík og það ætti þá við Reykjavík.

Já, dæmið hefur snúist við að ýmsu leyti, en margt er þó á huldu um þróunina á næstunni. Er hætt við að krísuvíkurnar verði margar.  

Annars er erindi mitt norður og austur aðallega að fylgjast með því sem er að gerast á þeim svæðum þar sem ég stend í gerð alls fimm kvikmynda, sem fjalla um svæðin sem eru undir í virkjanaæðinu.

Eins og er felst þetta aðeins í því að fylgjast með og safna myndaefni, en að öðru leyti er gerð allra þessara mynda stopp í bili vegna fjárskorts, - í Krísuvík.


mbl.is Bærinn vill verja sjúkrahúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shakespeare orðaði þetta allt.

"Ekki er munkur þótt í kufl komi". Þetta er eitt af máltækjunum sem breska stórskáldið Shakespeare veifaði í verkum sínum, nánar tiltekið í Þrettándakvöldi og það á ágætlega við um það þegar ekki er nóg að setja á fót stofnanir sem eiga að sjá um ákveðin hlutverk að nafninu til þegar kerfið allt og umhverfið vinnur á móti því. Mér kemur þetta í hug núna eftir að hafa hitt í fyrrakvöld skólafélaga mína úr M.R. fyrir nákvæmlega fimmtíu árum þegar við fluttum á vegum Herranætur Þrettándakvöld eftir Shakespeare. Við hittumst núna á þrettándakvöld að nýju, lásum smá kafla úr leikritinu og sungum lokasönginn rétt eins og við værum á æfingu eða sýningu 1959. Þorsteinn Gunnarsson fór aftur á kostum sem Malvólíó og Benedikt Árnason leikstjóri fylgdist vel með. Þetta var óvenjuleg og skemmtileg stund og ánægjuleg að því leyti að á sínum tíma voru það leiknefndir M.R. árin 1957-59 sem tókst að bjarga þessari hefð frá því að verða slegin af vegna kostnaðar. Menn eins og Ólafur Mixa, Pálmar Ólason og Haukur Filippusson tókust á við þetta verkefni með leikritunum Vængstýfðum englum og síðan Þrettándakvöldi, sem slógu í gegn. Meira að segja var farið með sýningarnar út á land. Hvort tveggja verkefnavalið þótti sýna fáránlega dirfsku eftir að bestu erlendu gamanleikarar samtímans höfðu til dæmis leikið í kvikmyndinni Vængstýfðum englum. Gróði varð af báðum þessum sýningum sem gerði mun meira en að borga tapið upp af fyrri Herranóttum. Allir lögðust á eitt til að útbúa leikmyndir og gera hvaðeina fyrir sama og engan pening. Benedikt sagði mér að hann væri einmitt að lesa merka erlenda bók fræðimanns sem sýndi fram á að í verkum Shakespeares orðaði stórskáldið nánast allt sem snerti mannlegt eðli og hugsun. Þrettándakvöld er gamanleikrit og kannski ekki við því að búast að mikla speki sé í því að finna en þó fjallar leikritið fullkomlega um það sem verið hefur að gerast í íslensku þjóðlífi undanfarin ár, hroka, yfirlæti og eftirsókn eftir fé og mannvirðingum sem kemur mönnum í koll. Það getur meira en verið að ég sletti nokkrum orðtökum úr þessu eina leikriti hans eftir því sam það á við í komandi bloggpistlum.
mbl.is „Rauðir í framan af reiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband