Á ERINDI VÍÐAR.

Í meira en hálfa öld hef ég dundað mér við að teikna bíla á borð við þann sem getur bylt samgöngum á Indlandi. Ég hef allan þennan tíma verið þeirrar skoðunar að ekki þurfi 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti um göturnar í okkar heimshluta, en að meðaltali eru bílar þetta þungir og 1,1 maður að jafnaði í hverjum bíl. Svona bílar leysa ekki vandamál skorts á orku eða útblástur gróðurhúsalofttegunda nema að hluta en það er til dæmis mikill munur sem fæst með því að létta bílana og minnka eyðslu og útblástur um helming og spara jafnframt dýrt rými á dýrum samgöngumannvirkjum.

Það er meira að segja tæknilega mögulegt að framleiða tveggja manna bíl sem er þrefalt léttari og fjórfalt sparneytnari en meðalbíllinn í dag og gæti þar að auki ekið samhliða öðrum jafnstórum á hverri akrein og hægt yrði að leggja fjórum í stæði þar sem einn kemst fyrir nú.

Sjálfur hef ég ekið minnsta mögulega bíl sem völ hefur verið á í bráðum 50 ár og fyrir utan blokkina sem ég bý í kem ég fyrir fjórum slíkum í stæðinu fyrir framan bílskúrinn þar sem aðeins einn venjulegur bíll kemst fyrir.

Það tekur langan tíma að þróa nýja orkunotkunartækni og skipta henni inn í stað þeirrar sem nú er og smækkun bílaflotans, sem notaður er í snatt í þéttbýli er fljótlegasta leiðin til þess að byrja á umbótum og lengja þann umþóttunartíma sem þarf á meðan skipt er um orkugjafa.


mbl.is Ódýrasti bíll í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VISSI CLINTON UM BJÖRN INGA?

Þessi spurning er að sjálfsögðu sett fram í hálfkæringi en þetta er í annað sinn á nokkrum mánuðum sem við Íslendingar sjáum stjórnmálamenn vikna og vekja með því umræðu og spurningar um það hvað sé viðeigendi. Er hægt að treysta því að stjórnmálamaður sem þarf að standast ágjöf, vera sem klettur í öldurótinu og haggast hvergi muni halda haus á erfiðum tímum ef á hann til að bogna og bresta í grát?

Ég er ekki sálfræðingur en mig minnir að sálfræðingar mæli með því að fólk byrgi ekki um of hið innra með sér djúpar tilfinningar til lengdar heldur leyfi þeim að fá útrás en að sjálfsögðu á hófstilltan og yfirvegaðan hátt. Við það létti það af sér óþægilegu fargi og sé jafnvel betur fært um að taka vel yfirvegaðar og góðar ákvarðanir en ef það eyðir sálarkröftum í innri baráttu og bælingu.

Auðvitað skipir máli hvenær svona gerist og á hvaða stigi baráttunnar. Þess er krafist af stjórnmálamönnum að þeir ráði yfir öflugri sjálfstjórn því ella geti þeir ekki gert kröfu til að stjórna málefnum annarra. Á hinn bóginn er það nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að þeir komi eins hreinskilnislega fram og unnt er en séu ekki sífellt í einhverjum þykjustuleik.

Hér á kannski við að hóflega felld tár létti á mannsins hjarta svo tekin sé líking af orðtaki um annan vökva sem einnig þarf að umgangast í hófi eða jafnvel að bægja alveg frá vörum sumra.


mbl.is Gáfu tárin Clinton byr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TRUMAN-DEWEY AFTUR ?

Frægasti ekki-sigur skoðanakannana gæti verið í hættu eftir úrslitin í New Hampshire ef svipað gerist aftur í forsetakosningunum sjálfum. Í forsetakosningunum 1948 var Dewey svo öruggur sigurvegari í skoðanakönnunum við upphaf kjördags að sigur hans var settur í frægar risafyrirsagnir í blöðum sem Harry S. Truman veifaði síðan sigurreifur þegar hin raunverulegu úrslit voru kunn. Þetta ætti að sýna nauðsyn þess að kjósendur láti skoðanakannanir ekki ráða för í kjörklefum, en sú oft orðið raunin. Því miður eru þessi úrslit í New Hampshire undantekning.

Reynslan sýnir að úrslitin í New Hampshire eru gríðarlega mikilvæg vegna þess hve oft þau fara saman við hin endanlegu úrslit. Að því leyti til eru þau skoðanamyndandi og sérstaklega mikilvæg fyrir Hillary Clinton.

Í sumum löndum eru skoðanakannanir bannaðar í ákveðinn tíma fyrir kjördag til að koma í veg fyrir að skoðanamyndanid úrslit þeirra skekki hinn raunverulega vilja kjósenda.

Hræðsluáróður um "ónýt" atkvæði reyndist Íslandshreyfingunni dýrkeyptur í síðustu kosningum og í því efni unnu skoðanakannanir og allt of hár þröskuldur í kosningalögum saman að því að ræna hreyfinguna ekki aðéins tveimur þingmönnum, sem eðlileg kosningalög í svipuðum dúr og í nágrannalöndunum hefðu fært henni, heldur vart minna en þremur þingmönnumm þegar tillit er tekið til þess hve margir hræddust að "ónýta" atkvæði sín með því að krossa við I-listann.


mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞORGERÐUR KATRÍN, BJARGAÐU AFTUR!

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bjargaði nýlega Hótel Akureyri. Torfusamtökin björguðu Bernhöftstorfunni á sínum tíma. Um hana var sagt að þetta væru hundakofar, kofaræksni, ónýtt drasl, að hún stæði í vegi fyrir eðlilegri nýsköpun og uppbyggingu miðborgarinnar. Nú stæði þar steypuglerkassi ef torfan hefði ekki verið endurnýjuð og komið í það form að hún er borgarprýði.

Á forsíðu Morgunblaðsins má sjá hvernig húsin neðst við Laugaveg gætu litið út ef farið yrði svipuð leið og farin var við Bernhöftstorfuna. Þegar má sjá bæði á Akureyri og í Reykjavík vel heppnaða endurbyggingu einstakra húsa og húsaþyrpinga sem eru til sóma.

Laugavegurinn á enga hliðstæðu í Reykjavík hvað snertir lengd, hlutverk og sögulega þróun. Þegar gengið er upp götuna er mikilsvert að hægt sé að sjá þróun hans og þá er dýrmætt að hafa upphafið á þeirri gönguferð ljóslifandi í vestustu húsunum með lægstu húsnúmerin.

Víða í Evrópu harma menn að hafa eyðilagt sögulegan sjarma og hlýleika miðborga með því að ryðja öllu gömlu burtu miskunnarlaust og reisa í staðinn kuldalega einsleita steinkumbalda. Prag í Tékklandi gerir út á það í ferðaþjónustu að hafa sloppið svo vel við loftárásir í stríðinu að eftir stríðið var miðborginni ekki umturnað með steinkössum og glerhöllum eins og víða var gert annars staðar.

Þeir sem ekki vilja húsaröð á borð við þá sem sýnd er á forsíðu Morgunblaðsins myndu að sjálfsögðu vilja láta ryðja Bernhöftstorfunni burtu og fá þar stein-glerhöll eins og til stóð að reisa á sínum tíma.

Það eru peningar fólgnir í því að ryðja ekki sögunni og sjarma hennar algerlega í burtu ef menn vilja meta allt í beinhörðum peningum. Þeir peningar eru fólgnir í því að ferðamenn laðast að hlýlegu og aðlaðandi umhverfi sem hægt er að "selja" sem menningarumhverfi með sögu á bak við sig.

Afsökunin fyrir því að gereyða menningarverðmætum í formi gamalla húsa er venjulega sú að búið sé að fara svo illa með þau hvort eð er.

Þessi afsökun er notuð á fleiri sviðum. Nú er það notað sem afsökun fyrir því að ryðjast eftir endilöngum stærsta birkiskógi á Vestfjörðum með trukkaveg að það sé ekki rétt að hann sé að mestu ósnortinn heldur hafi verið beitt í hann fyrr á tíð.

Úr því að menn hafi ekki farið vel með hann fyrrum sé í lagi að fara enn verr með hann nú.

Þorgerður Katrín stóð sig vel í síðasta "húsræksnis"-málinu á Akureyri.

Vonandi stendur hún sig jafn vel nú svo að fáum í framtíðinni að upplifa Laugaveginn sem eftirsóknarverða gönguleið með sögu og sjarma.


mbl.is Ráðherra friði Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OBAMA - SVARTUR KENNEDY ?

Hugsanlega á Barak Obama gengi sitt því að þakka að með vissu millibili í sögu þjóða verða alger kynslóðaskipti og andrúmsloftið gerbreytist, - það eru komnir nýir tímar. Þessi breyting er ekki alltaf fyrirsjáanleg, - allt í einu virðist bara komið ástand sem kallar á þetta. Þetta gerðist þegar John F. Kenndy var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann var yngsti forseti Bandaríkjanna og hinn fyrsti sem ekki var mótmælendatrúar. Nýtt andrúmsloft lék um Bandaríkin.

Nixon var ungur maður en hafði verið varaforseti Eisenhowers og komst ekki hjá því að vera talinn fulltrúi liðins tíma og það var líklegast ástæðan fyrir því að hann tapaði fyrir Kennedy.

Líklega geldur Hillary Clinton þess að hafa verið áhrifamikil forsetafrú í átta ár og að því leyti fulltrúi liðins tíma og að fólki finnist það ekki nógu mikil breyting þótt hún yrði fyrsta konan til að gegna forsetaembætti í Bandaríkjunum.

Ef Barak Obama heldur áfram sigurgöngu sinni allt inn í Hvíta húsið er það vegna þess að Bandaríkjamenn eru í skapi til að breyta ærlega til, stokka ærlega upp rétt eins og Kennedy gerði á sínum tíma, ungur, nýr og ferskur, öðruvísi en gömlu ráðamennirnir. Ef þörfin fyrir breytingar er það sem mestu ræður er það bara plús fyrir Obama að vera blökkumaður. Hann er réttur maður á réttum stað á réttum tíma.


mbl.is Kosning hafin í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GRÁTT YFIR AÐ LÍTA.

Fór í gærmorgun í myndatökuferð um norðausturhálendið og kom til baka í dag fljúgandi suður um Auðkúluheiði, Stórasand og Arnarvatnsheiði. Ég undraðist enn og aftur hve lítill snjór er á hálendi lands, sem er kallað Ísland. Hægt var að lenda flugvél við Hálslón og snjórinn er það lítill að hraunin eru grá eða dökk yfir að líta. Flugbrautir á Auðkúluheiði og sunnan við Arnarvatn á Arnarvatnsheiði voru auðar og vötnin öll sem auð skautasvell.

Þetta er ólíkt því sem mun vera á hálendi Noregs en þar hefur aukin úrkoma valdið því að snjóalög eru meiri en áður var á veturna. Hins vegar velurmeiri hiti, leysing og rigning því að heldarútkoman verður minni jöklar og hækkandi gróður.

Það hefur dregist í næstum tvo mánuði að fara í þessa ferð en það sýnir hve miklir umhleypingar hafa verið. Og loks þegar kom að því að fara nægði birtutíminn ekki til þess að ljúka ferðinni á einum degi.


KALLAR Á SÆSTRENG ?

Sjónvarpið fjallaði í kvöld aðeins nánar en áður hefur verið gert um sjávarfallavirkjanir í Breiðafirði. Minnst var á þann stóra galla að "á liggjandanum" eins og tímibilið er kallað milli þess sem fellur út og fellur inn, standa hverflarnir kyrrir og framleiða enga orku. Því var ekki fylgt eftir nægilega að rafmagnsleysið á þessum tveimur klukkustundum kemur í veg fyrir að hægt sé að nota orkuna fyrir stórfyrirtæki sem þurfa samfellda orku. Minnst var á að aðrar virkjanir gætu fyllt upp í gatið en hvernig þá?

Ekki er að sjá að hægt sé að bæta í afköst annarra virkjana á þessum dauðu stundum því að þær virkjanir eru hannaðar fyrir samfellda orkuframleiðslu. Ef hægt væri að vera með jafn stórar sjávarfallavirkjanir nógu langt frá Breiðafirði til þess að liggjandinn sé ekki á sama tíma og við þar væri dæmið leysanlegt með samtengingu flutningsnetfsins.

En því miður sýnist mér ekki að hliðstæðar aðstæður finnist annars staðar á landinu sem skapi jafn mikla orku úr sjávarföllum. Þá er aðeins eftir sá möguleiki að tengja íslenska raforkukerfið við það evrópska þannig að sveiflur í sjávarfallavirkjunum þar vegi upp sveiflurnar hér.

Mikið orkutap yrði í slíkum streng og það myndi draga mjög úr hagkvæmninni. En sá tími kanna að koma að samt yrði talið semkeppnisfært að koma orkuöfluninni fyrir á þennan hátt.

Þetta er eitt af því sem sýnir hve fráleitt það er að rasa um ráð fram nú með stórfelldum náttúruspjöllum við aðrar virkjanir ef umhverfisvænni virkjanir upp á 3-4 Kárahnjúkavirkjanir eru handan við hornið.

Fyrir nær 60 árum las ég af áfrergju bók sem hét "Undur veraldar" og innihélt fróðlegar greinar af ýmsu tagi, meðal annars um tilraunir til að klífa fjallið Everest, en það hafði þá ekki tekist og frásagnirnar af Mallory og Norton voru til merkis um hve illmögulegt það yrði.

Einn kafli bókarinnar fjallaði um þá framtíðarsýn að mannkynið myndi í framtíðinni framleiða langmest af orku sinni með sjávarfallavirkjunum. Það myndi hins vegar hafa þau áhrif að hægja myndi smám saman á snúningi jarðar sem aftur leiddi til þess að tunglið myndi vegna minnkandi miðflóttaafls færast nær og nær jörðu uns það félli til jarðar með þeim afleiðingum að heimsendir yrði hvað snerti mannkynið og líf á jörðinni.

Þessari atburðarás var lýst á dramatískan og eftirminnilegan hátt í bókinni allt til hinstu stundar mannkyns þegar tunglið, þá orðið að risastórum hlemmi á himninum, félli með öllum sínum þunga á jörðina.

Ekki veit ég hvort þessi pæling stóðst á sínum tíma vísindalegar kröfur en get þessa hér aðeins til gamans.


SVANDÍS, ÓSKABORGARSTJÓRI MOGGANS.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er haldið áfram þar sem frá var horfið í fyrrasumar um það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að mynda stjórn með VG. Það myndi þjóna langtímahagsmunum flokksins best "að opna ekki helsta keppinautnum leið til valda." Nú hvetur bréfshöfundur til samstarfs Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í borginni vegna þess að ekki sé samstaða í nýja meirihlutanum þar. Í bréfinu eru tíndtil ýmis "strategisk" rök fyrir samstarfi við VG og talað um "myndun slíks meirihluta með Svandísi Svavarsdóttur sem borgarstjóra..."

Athyglisvert er að höfundur bréfsins sem átelur forsætisráðherra fyrir að setja ekki langtímahagsmuni Sjálfstæðisflokksins ofar öllu í íslenskri pólitík gerir ekki þá kröfu að borgarstjóri í óskasamastarfinu komi úr röðum Sjálfstæðismanna sem hafa þó 7 af 15 borgarfulltrúum. Þetta minnir á SMS-skilaboðin frægu, "með eða án Villa."

Ég hvet fólk til að lesa Reykjavíkurbréfið í dag því að það er mjög áhugavert fyrir þá sök að það sýnir okkur inn í hugarheim manna sem hafa ólíka sýn á siðfræði og aðferðir í íslenskri pólitík, - annars vegar viðhorf forsætisráðherrans og hins vegar höfundar bréfsins.


GRÓÐAFORMÚLA TRASSANNA.

Athyglisverð er greining íbúa við Baldursgötu á áformum um nýbyggingar við götuna. Út úr henni kemur eftirfarandi formúla: Ef þú ferð vel með húsin og kostar til þess peningum er þér ekki umbunað í einu eða neinu. Ef þú skerð þig hins vegar nógu vel úr sem húseigandi og lætur hús þín drabbast niður svo að þau verða að lýti í hverfinu umbuna borgaryfirvöld þér með því að leyfa þér að rífa þau og reisa svo mikið stærri hús í staðinn að þú græðir vel á öllu saman. Gömul og gróin skotheld formúla.
mbl.is Gagnrýna skipulagsáform við Baldursgötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GÓÐUR Í SVEIFLUNNI, HVAÐ ANNAÐ?

Það kemur mér ekki á óvart að Bubbi skuli blómstra í sveiflunni og ég hefði átt að muna eftir að segja frá því í þættinum hjá Loga á Stöð 2 að hann gaf forskot á sæluna í laginu "Landi og lýð til hagsældar" á diskinum Sumarfrí sumarið 2006. Lagið var frá minni hendi kántrílag, en Bubbi réði því sem betur fór að gera það að sveiflulagi. Sagði mér frá því að hann hefði á siglingu um Karíbahafið hrifist af stórsveit sem kom í lyftu upp úr kjallara og lék fyrir farþega. Þá hefði hann uppgötvað í návígi til fulls leyndardóma stórsveitarsveiflunnar.

Þegar Logi spurði Bubba í þætti sínum að því hvort hann myndi fíla sveifluna hefði ég getað sagt það strax að Bubbi væri fæddur sveiflusöngvari, þvílík tilþrif og tilfinningu fann maður streyma frá honum þegar hann tók lagið með mér hér um árið.

Og nú hefur vinur minn bætt einni rósinni enn í smókingshnappagatið eins og við mátti búast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband