Ein fljótlegasta lausnin.

Hvernig væri nú að fara að huga að ferðaþjónustunni sem einn þeirra kosta sem gefast strax til að efla hag Íslendinga? 

Allt frá hruninu hefur verið stanslaus söngur um stóriðju og virkjanir sem einu lausnina þótt það lægi fyrir strax í fyrstu viku eftir hrun krónunnar að möguleikar ferðaþjónustu og sjávarútvegs stórbættust.

Viku eftir hrun mátt sjá kipp í ferðum útlendinga hingað.  

Í gær heyrði ég álengdar í útvarpi um einhver 5-6000 störf sem væru að skapast í nýsköpun og sprotafyrirtækjum. Þykir ekki merkilegt, flokkast ásamt ferðaþjónustunni undir "eitthvað annað".

Ferðaþjónustan hefur þann kost að ekki þarf örvæntingafullar stóraðgerðir með hugarfari brunaútsölunnar til að efla hana.

Einhver sagði: Sígandi lukka er best. Hvað ætli það séu mörg ár eða áratugir síðan ég heyrði þetta síðast? 


mbl.is Stærsta ferðamannaárið frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langhlaup í sjálfstæðismáli.

Það eru góðar fréttir ef stjórn og stjórnarandstaða geta sæst á leið til að koma hinu illvíga Icesave-máli í þann farveg að tjónið af því verði sem minnst bæði í bráð og lengd. 

Finna verður leið sem leitar jafnvægis milli þess annars  vegar að tjónið í framtíðinni verði ekki of mikið og hins vegar þes að of mikið tjón hljótist af töf málsins til lengri tíma litið.

Vandinn felst í því að þetta er milliríkjamál, þar sem hinir aflmeiri og stærri hafa neytt aflsmunar og það eru takmörk fyrir því fyrir litla þjóð eins og okkur hve langt er hægt að ganga gegn því ofurefli.

Ég sagði strax í upphafi haustið 2008 að þetta yrði langhlaup, stanslaus barátta fyrir "Fair deal", sanngjarnri lausn og þá baráttu verður allan tímann að heyja af samblandi af festu og lagni, krafti og úthaldi.

Það tekur tíma að vinna málstað okkar fylgi erlendis og ég held að málskot forsetans hafi sett það í það ljós fjölmiðla erlendis sem svo nauðsynlegt er að leiki um það svo að þekking og skilningur aukist hjá viðsemjendum okkar

Og það eru ekki aðeins Bretar og Hollendingar heldur aðrar þjóðir sem málið hefur áhrif á, misjafnlega mikil þó.

Sjálfstæðisbarátta Jóns Sigurðssonar var langhlaup og hann lifði ekki að sjá því lokið.

Stefnan hans var sú að standa á réttinum þótt neyðst yrði til að beygja sig fyrir aðstæðum hverju sinni.

Kjörorð Jóns forseta "Eigi víkja!" snerist ekki um það að krefjast algers sjálfstæðis þegar í stað þegar það var óframkvæmanlegt heldur að missa aldrei sjónar á endanlegu takmarki og fara ævinlega eins langt og mögulega varð komist án of mikilla vandræða.

Hinir upphaflegu fyrirvarar Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni vegna Icesave-samninganna voru að stórum hluta miðaðir við framtíðina,  til að tryggja að Íslendingar ættu færa leið ef á bjátaði og að hér yrði ekki um myllustein um háls þjóðarinnar að ræða langt fram eftir öldinni. 

Allt frá Locarno-samningunum 1925 og fram á okkar dag hafa svona mál iðulega verið færð til betri og sanngjarnari vegar eftir að stórar þjóðir hafa neytt aflsmunar við þjóðir sem heimtað var af að greiða skaðabætur eða skuldir en síðan komið í ljós að of hart var gengið fram og engum til góðs að heimta það fram sem útilokað var að inna af hendi.

Á þennan hátt eigum við að geta leyst þetta mál með reisn líkt og Finnar gerðu þegar þeir öxluðu miklar byrðar eftir Seinni heimsstyrjöldina á þann hátt að eftir var tekið.  

 


mbl.is Segja um góðan fund að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að láta sig dragast inn í deilurnar.

Ég tel að þegar forseti Íslands hefur beitt málskotsrétti 26. greinar stjórnarskrárinnar og útskýrt í sam allra fæstum orðum af hverju hann geri það, eigi hann eins framarlega og unnt er að forðast rökræður og deilur um lagafrumvarpið sem kosið verður um. 

Hann á að láta þjóðina og stríðandi fylkingar um málið um það eftir því sem unnt er, annars er hann orðinn beinn þátttakandi í þessum deilum án þess að þurfa það, því að synjun hans var áfrýjun, ekki veto eða neitunarvald í skilningi þess orðs.  

Eitt af því sem deilt er um er hvort og þá hve mikil efnahagsleg áhrif höfnun frumvarpsins muni hafa.

Um það eru skiptar skoðanir og með því að leggja mat á það opinberlega er forsetinn orðinn beinn þátttakandi í deilunum um þetta atriði. 

Forsendan fyrir því að samningurinn, sem hann skrifaði undir í haust og er því í gildi ef hinn síðari verður felldur,  komist í framkvæmd, er sú að Bretar og Hollendingar fallist á fyrirvarana, sem Alþingi setti þá.

Það hafa þeir ekki gert og menn geta deilt um það hve líklegt sé að þeir geri það.

Ef forsetinn hefur verið að svara spurningu um þetta efni og talið sig þurfa að skýra málið eitthvað, hefði hann átt að segja, að um þetta atriði væri deilt, og í mesta lagi að útskýra það með því að segja eitthvað í þá veru sem feitletrað er hjá mér hér að ofan.

Ég studdi það sjónarmið Ólafs Ragnars fyrir forsetakosningarnar 1996 að málskotsrétturinn væri virkur og nauðsynlegur einmitt vegna þess hvað hann er, áfrýjun en ekki neitunarvald og að forsetinn gæti eftir sem áður staðið utan við beinar deilur um viðkomandi frumvarp.

Þess vegna var ég í hópi þeirra sem studdi málskotsrétt hans nú en vonaðist jafnframt til þess að honum tækist að standa utan við hinar hörðu deilur um Icesave-málið.  

Ég hef talið nauðsynlegt alla tíð að með þessu væri opinn öryggisventill sem gerði kleyft að halda þjóðaratkvæðagreiðslur því að engin önnur nothæf lög væru til um það efni eins og reynslan hefur sýnt. 

Ég er sammála Björgu Thorarensen um nauðsyn löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur svo að kaleikur þessi sé tekinn frá forsetanum.

Er hins vegar ósammála henni um það að of mikið vald sé fært einum manni til málskotsréttar í núverandi löggjöf. Þetta er eini maðurinn sem þjóðin kýs beint í kosningum og með hliðsjón af ofríki framkvæmdavaldsins undanfarna áratugi er að mínum dómi í lagi að beint lýðræði í þjóðaratkvæðagreiðslum geti myndað mótvægi við það. 

Veit ekki betur en að í Bandaríkjunum hafi einn maður synjunar- eða frestunarvald án þess að það sé talið bagalegt.    


mbl.is Eldri lögin taka gildi falli þau nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggalegt á 21. öld.

Það er ótrúlegt og geigvænlegt á 21. öld að í lýðræðisríki menntaðs fólks sem jafnframt er voldugasta ríki jarðar skuli enn vera uppi sú heimssýn sem birtist í málflutningi Pat Robertson og fleiri Bandaríkjamanna.

Raunar verður fólki orða vant við að heyra og sjá svona sjónarmiðum forneskju og mannvonsku haldið fram í sjónvarpsútsendingum sem ná til milljóna manna.

En bandarískt þjóðfélag hýsir allan regnboga skoðana og trúarbragða og býr yfir geysilegum sveigjanleika á mörgum sviðum, ógnvænlegum sveigjanleika á stundum.

Boðun Robertsons er aftur í öldum og minnir á djöfladýrkun sumra frumstæðra þjóðflokka í myrkviðum Afríku.

Ég átti þess kost að koma í eitt slíkt byggðarlag, afkskekkt mjög, í Eþíópíu fyrir nokkrum árum, sem heitir Gurra, en þar varð íslenskt kristniboð mildi, kærleika og vonar til mikilla hagsbóta fyrir hið fátæka fólk sem þar bjó áður við böl sjónarmiða á borð við þau, sem Robertsons heldur fram.  

Þar hafði djöflatrúnaður ríkt um aldir og fólst hann í því að sífellt þyrfti að blíðka djöflana með fórnum og fórnarhátíðum, sem nokkrir gamlir galdralæknar stjórnuðu.

Þeir höfðu svartnættisvald yfir fólkinu, sem haldið var í stöðugum ótta. Valdið nýttu þeir sér til að njóta forréttinda og undir þá var hlaðið með gjöfum af mikillli undirgefni.

Á fórnar- og galdrahátíðunum nutu þeir vínfanga og kræsinga á meðan lýðurinn svalt.

Að sumu leyti minna söfnuðir manna eins og Robertsons á trúarbrögð svona ættflokka aftan úr forneskju.

Íburður og lúxus hjá mörum þessara bandarísku safnaða sem byggist á þeim harða "bisniss" sem starf sumra safnaðanna er, stingur í augu.

Predikarinn talar um bágindi og böl sjúkdóma og fátæktar sem verðskuldaða refsingu þeirra sem þjást og brunar eftir samkomuna burt á svartgljáðri glæsikerru.

Hér má þó ekki alhæfa. Í mörgum söfnuðum vestra fer fram mjög uppbyggjandi menningarstarf sem gera samkomur þeirra að gefandi listviðburðum.

En það eru of margir svartagallsrausarar á borð við Robertson við líði.   


mbl.is „Haíti-búar sömdu við djöfulinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis gufuþvottur.

Saltpækillinn á götunum fer illa með bílana. Flestir láta sig það litlu skipta og yppta öxlum því að ætlunin er oftast að skipta og fá sér nýjan innan fárra ára. 

Kæruleysið  gagnvart þessu er þó ekki skynsamlegt ef að því kemur að selja þurfi bíl og hann reynist meira ryðgaður en gengur og gerist.

Mínir bílar eru við fornbílamörk eða enn eldri og reynslan er sú að hlutar í undirvagni ryðga oft fyrst svo illa að jafnvel ágætlega útlítandi bíll verður ónýtur þótt vél og drif og aðrir hlutar bílsins eigi mikið inni.

Það er dýrt að fara með bíla í gufuþvott en þó ekki ástæða til að gefast upp í andófinu gegn ryðinu.

Gott er að fylgjast vel með því hvenær færi gefst eftir að salt- og tjöruúði hefur sest á bílana og þvo þá vel þegar gefur í hlákum.

DSCF5750

Því lengur sem saltpækillinn fær að sitja á bílnum, því verra.  

Þá þarf að þvo allan bílinn, ekki bara yfirborð hans og ég hef tekið upp þann sið að þvo undirvagninn með því að setja fullan kraft á kústinn og draga hann fram og aftur á hvolfi undir bílnum þannig að vatnið sprautist af krafti upp undir bílinn. (Sjá mynd) 

Sömuleiðis að sprauta af krafti inn í hjólaskálar. Vatn er að vísu ryðmyndandi en ekkert í líkingu við salt.

Og sé þetta gert í þurru veðri yfir frostmarki eins og var í dag, þornar bíllinn fljótt og er þá hreinn.  

Þetta fer langleiðina með það að virka eins og gufuþvottur og sá tími kemur að þessi tiltölulega litla fyrirhöfn borgar sig.   


Hláleg saga af viðskiptum Íslendings í Afríku.

Sagan af óprúttnum Nigeríumanni sem plataði Dana upp úr skónum vekur upp minningar um spaugileg viðskipti mín í ferð til Marokkó áður en svona prettir urðu öllum kunnir hér á landi.

Ég fór með þrjár dætur mínar, 13 til 16 ára, fyrir meira en 20 árum frá Torremolinos til Marokkó.

Þegar við komum yfir Gibraltarsundið tók ég leigubíl og hugðist vera leiðsögumaður okkar sjálfur eftir ítarlegan lestur um Marokkó og borgina Tetuan.

En leigubílstjórinn þekkti náttúrulega allt betur en ég var fljótlega búinn að koma því svo fyrir að ég varð algerlega háður honum og ráðleggingum hans.

Var hann fljótlega búinn að taka af mér öll völd af fádæma refskap og ýtni og gerðist bæði umboðsmaður okkar og leiðsögumaður í hvívertna, sleppti ekki af okkur hendinni og lét okkur finna fyrir yfirburðum sínum og jafnframt fyrir því, að án hans myndum við fara okkur að voða við hvert fótmál.

Hann þekkti alla sem við skiptum við og hefur áreiðanlega fengið umboðslaun af verslun minni hjá hverjum og einum því að kostnaðurinn vatt sífellt meira upp á sig.

Meðal þess sem hann fékk okkur til að gera var að fara inn á heimili manns, sem í ljós kom að rak umfangsmikla teppaverslun, og ófu kona hans og dætur teppin af mikilli list.

Það var svo sem afar fróðlegt að koma inn á svona ekta arabískt heimili en fljótlega var leigubílstjórinn búinn að flækja okkur inn í net sem engin leið var að losna út úr.

Okkur voru bornar veitingar og síðan borin inn teppi í tugatali, sem breidd voru á gólfið hvert á eftir öðru.
Ekki var um annað að ræða en að við keyptum eitthvað og hófst nú hið dæmigerða afríska prútt, þar sem húsbóndinn var að sjálfsögðu á heimavelli og prangaði hverju teppinu af öðru inn á mig.

Loks tókst mér að láta þessu lokið og bar við fjárskorti. En þá tók tíu sinnum verra við.

Húsbóndinn sagðist allan tímann hafa verið að prútta í dönskum krónum en ekki íslenskum eins og ég var að gera.

Við þetta margfaldaðist umsamið verð og engu varð um þokað, ekki að ræða það að fækka teppunum eða breyta neinu. Mér var sagt að ef ég möglaði yrði það tekið sem argasta móðgun við teppasalann og gæti ég haft verra af.

Engu skipti þótt ég segðist ekki hafa nóga peninga, - farið yrði með mig í banka og pósthús og gengið frá öllu.

Þegar þangað kom hittum við bandarísk hjón sem voru hálfgrátandi yfir því að hafa verið svikin illilega í viðskiptum.

Létt mér ögn við það því hvað segir ekki máltækið góða: Sætt er sameiginlegt skipbrot.

Ekki fékk ég að pakka teppunum inn, heldur voru þau rifin af mér um leið og ég hafði greitt kaupverðið og mér sagt að vinur leigubílstjórans á pósthúsinu myndi taka af mér allt frekara ómak.

Ekki var við það komandi að ég fengi að taka teppin með mér, - leigubístjórinn sagði að þá biði mín mikil vandræði á ferjunni til baka. Þóttist ég nú sjá að ég sæi teppin ekki framar og ekki losnaði ég við leigubílstjórann fyrr en hann hafði smurt duglega ofan á umsamdar greiðslur til hans fyrir leiðsögn hans og umsjónarstörf.

Skemmst er frá því að segja að ég varð að athlægi þegar komið var úr þessari sneypuför og fréttist um viðskipti mín.

Þetta var jólaferð og leið nú fram eftir vetri að sagan af verslunarleiðangrinum mikla lífgaði upp á skammdegið hjá öllum sem hana heyrðu.

Á útmánuðum gerðist það síðan að bréf kom til mín um það að ég ætti sendingu á pósthúsi.

Og viti menn, - var þar þá ekki kominn risavaxinn teppapakki frá Afríku eftir langa og stranga ferð til Íslands!

Þetta var það mikið af teppum að þau dreifðust og prýðir eitt þeirra enn stóran vegg í húsi í Bolungarvík !

Lærdómur: Það er engu að treysta í viðskiptum við Afríkubúa, - ekki einu sinni hægt að treysta því að engu sé að treysta !


mbl.is Enn fellur fólk fyrir Nígeríusvindli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir Ragnar Reykás nú?

Fyrir tíu dögum held ég að líklegt sé að Ragnar Reykás, hinn stórkostlegi karakter Spaugstofunnar og einhver besti samnefnari margra Ísendinga hefði haft eitthvað svona að segja um forseta vorn: 

"Ég er nú farinn að fylgjast svolítið með blogginu og ég verð nú bara að segja það að ma-ma-maður er nú bara alveg orðlaus yfir þessu flandri á þessum forseta sem er alveg búinn að missa bæði traust og virðingu.

Þessi útrásarklappstýra ætlar nú að fara að forlysta sig lengst út í heim á kostnað okkar skattpíndra þegnanna og auðvitað er hann með alls kyns bísnissmenn í slagtogi sem hann á eftir að auglýsa fyrir eins og fyrri daginn. Það er eins og hann hafi ekkert lært.Ma-ma-ma-maður bara áttar sigi ekki á svona stælum. Alltaf sama sagan með hann og hans fólk. Það er ekki hægt annað en að taka undir með þeim mörgu bloggurum sem hneykslast á því hvernig hann flýr landið og má varla vera að því að sinna okkur hérna heima. Hann er alveg glataður, þessi forseti, það er ekki spurning. Þetta er alger labbakútur, alveg búinn að vera."

 

Í dag og næstu daga held ég hins vegar að búast megi við þessu frá Ragnari:

"Það er ekki spurning þegar maður lítur á bloggið í dag að forsetinn nýtur verðskuldaðrar hylli þjóðarinnar fyrir það hvað hann hefur tekið svari Íslendinga glæsilega á erlendri grundu, svo vel, að ma-ma-ma-manni er bara alveg orða vant þegar maður verður vitni að svona frábærri frammistöðu.

Það er ekki ónýtt hvað hann er góður í enskunni, - það er nú eitthvað annað en bablið há öðrum íslenskum stjórnmálamönnum erlendis. Svo hefur hann bæði sambönd og er virtur út í hinum stóra heimi, þekkir alla stóru kallana persónulega.

 Við þurfum á slíkum mönnum að halda núna sem aldrei fyrr. Og auðvitað er það þjóðinni til mikils sóma að hann skuli fá svona virt verðlaun eins og Nehru-verðlaunin eru, það er ekki spurning.

Og Indland er rísandi stórveldi og ekki ónýtt fyrir þá sem vilja eiga samskipti við Indverja að hafa öflugan mann með sér þegar þeir nýta sér þau miklu tækifæri sem þar bjóðast, allt frá framleiðslu rafbíla til kvikmyndagerðar, það er ekki spurning. Þetta er það eina sem getur komið okkur út úr kreppunni. Ólafur er hetja Íslendinga, sómi sverð og skjöldur, það er ekki spurning." 


mbl.is Ólafur Ragnar á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðfangsefni fyrir BBC eða okkur.

Undanfarnar vikur hafa verið á dagskrá Sjónvarpsins einhverjir bestu náttúrulífsþættir sem um getur.

Þar nýta menn sé gildi þess að segja sögu og hafa fylgst með dýrum og fuglum sem ferðast þúsundir kílómetra til þess að geta lifað af.

Ljóst er að krían slær öllum þessum dýrum við hvað snertir vegalengdir og afköst í flutningum.

Ég hef alla tíð verið einna hrifnastur af kríunni og hvítabjörnunum í lífríki okkar heimshluta.

Ef BBC gerir ekki heimildamynd um kríuna stendur það upp á okkur að hylla þennan mikla vorboða okkar kalda lands og verndarvætt eða orrustuflugsveit æðarvarpanna.

P.S. Líflegar athugasemdir hafa borist um þetta.


mbl.is Óvenjulegt ferðalag kríunnar milli heimsskautasvæða kortlagt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgar í veðrinu aukast.

Eitt af því sem sagt var að fylgja myndi hnattrænni hlýnun var það að fellibyljir, ofsaveður og öfgafull fyrirbrigði í veðurfari myndu færast í vöxt. 

Það er athyglisvert að á sama tíma og mestu kuldar í áratugi geysa nú í Evrópu er veðurfar hjá okkur og á syðsta hluta Grænlands hlýjara en í meðalári mánuð eftir mánuð.

Eitt af því sem réði úrslitum í Síðari heimsstyrjöldinni, sem háð var á hlýindaskeiðinu 1920-65, var að í Rússlandi komu mestu vetrarhörkur í áratugi í desember 1941 þegar orrustan um Mosvku stóð sem hæst.

Þær bitnuðu meira á Þjóðverjum en Rússum og þess vegna stöðvaðist þýska sóknin aðeins 15 kílómetra frá miðborg Moskvu.  


mbl.is Heitasta nótt í 108 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golfdúkka fyrir Tiger Woods?

Það tekur oft tíma að hanna nýjar framleiðsluvörur og kannski var það bagalegt að ekki skyldi vera komin til skjalanna dúkka sem ræðir um golf og hefði hentað vel Tiger Woods.

Mál hans er mjög lærdómsríkt um það hvers virði ímynd er. Fyrirtækin sem tengdust Woods munu nú hafa tapað sem svarar 1500 milljörðum króna á því hvernig hann byggði upp of brothætta ímynd.

Ímyndin getur nefnilega skipt meira máli en hegðunin og gríðarlegar fjárhæðir geta tengst ímynd.

Sem dæmi má nefna að Dean Martin heitinn þótti sopinn góður og vildi ekki breyta hegðun sinni.

Í stað þess að reyna að búa til ósanna ímynd fór Dino hina leiðina og hafði vínglas við hendina á áberandi hátt í skemmtiþáttum sínum.

Sumir segja jafnvel að hann hafi í raun haft vatn í stað víns í glösunum. En fólki þótti hann koma til dyranna eins og hann var klæddur tók þessu bara vel.

Tiger kom hins vegar ekki til dyranna eins og hann var klæddur, - eða eigum við að segja óklæddur. Hann skapaði ósanna og brothætta ímynd. 

Mitterand Frakklandsforseti játaði að hafa haft hjákonu og komst upp með það að vera ekki að leyna neinu. 

Við Íslendingar erum að spila djarfan leik með ímynd lands og þjóðar sem við segjum að sé einhver hin umhverfisvænasta og hreinasta í heimi, fyrirmynd annarra þjóða.  

Nú síðast í kvöld var gumað af hreinni og endurnýjanlegri orku virkjunar í Hverfisfljóti. Það er aurugt jökulfljót og miðlunarlón þess munu því fyllast af auri og verða ónýtt með tímanum og virkjunin þar með.

Áætlanir um jarðvarmavirkjanir miðast við tvísýnar ágiskanir vísindamanna þess efnis að þær endist hver um sig í 50 ár.

Ef virkjanasvæðin verða köld eftir 50 ár, eins og talið er, er ekki hægt að tala um endurnýjanlega orku, þótt Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson hafi sagt í grein að þetta sé endurnýjanleg orka, því að ef svæðin fari að kólna þurfi aðeins að minnka vinnsluna til þess að jafnvægi komist á !

Með því að leyna þessu er íslenska þjóðin að gera það sama og Tiger Woods, búa til ósanna ímynd, sem hægt er að meta til þúsunda milljarða en mun líka kosta okkur enn meira þegar hið sanna kemst upp.  

 


mbl.is Kynlífsleikfang sem ræðir um knattspyrnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband