Hvað um meðal þingmanninn hér?

Víst eru eistnesk lágmarkslaun svo lág að það er langt, langt fyrir neðan allt sem hér þekkist. Því engin furða að eistneski þingmaðurinn, sem reyndi að lifa af þeim, missti þrjú kíló á einum mánuði.

Fróðlegt yrði þó að vita hvernig íslenskum þingmanni myndi reiða af, sem reyndi skyndilega að lifa í einn mánuð á lágmarkslaunum okkar lands. 

Efast ég raunar um að hann ætti fyrir húsnæðiskostnaðinum einum af meðalíbúð þingmanns, hvað þá rekstrarkostnaði meðalbíls íslensks þingmanns. Afleiðingin yrði væntanlega að viðkomandi þingmaður yrði dauður úr hungri og þorsta eftir viku eftir að hafa ekki átt eyri fyrir mat. 


mbl.is Lifði á lágmarkslaunum í mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki öll eggin í sömu körfunni.

Höfuðröksemdin fyrir Blönduvirkjun var sú, að hún væri utan eldvirks svæðis og að það gæti verið varasamt að hafa öll eggin í sömu körfunni, þ. e. að allar helstu stórvirkjanir Íslands væru á hinu eldvirka Tungnaár-Þjórsársvæði.

Nú er það svo að áhöld eru um hvort Hofsjökull, sem Blanda kemur úr, teljist eldvirkt svæði en á sínum tíma tóku menn því sem svo að engin hætta væri á eldsumbrotum þar, sem gætu skilað hamfaraflóði í Blöndulón.

Þótt ég gæfi ekki opinberlega upp afstöðu mína til Blöndvirkjunar á sínum tíma vegna þess að ég var starfandi fréttamaður, var ég hlynntur virkjuninni á framangreindum forsendum en hefði þó viljað, að farið hefði verið eftir tillögum Páls Péturssonar og fleiri þess efnis að hafa lónið mun minna.

Það er hins vegar neyðarlegt, að varðandi virkjanir á Norðausturlandi og Suðvesturlandi vilja menn nú endilega hafa "öll eggin í sömu körfunni" og jafnvel fleiri egg en eru til.

Með tilkomu álvers á Bakka verður einu erlendu stórfyrirtæki afhent öll nýtanleg orka á svæðinu frá Skagafirði og allt austur til Austfjarða og fyrirsjáanlegt að engir aðrir kaupendur muni komast að næstu hálfa öldina að minnsta kosti.

Í ofanálag ætla menn í fúlustu alvöru að afhenda þessu stórfyrirtæki virkjanirnar líka og gefa því í raun þar með frítt spil um orkuverð ofan á það að vera allsráðandi í atvinnumálum á hálfu landinu.

Svipað er uppi á teningnum á Suðvesturhorninu að álfurstunum verði afhent öll fáanleg orka og öll orkueggin okkar sett í álkörfuna.

Meðan þessi áform eru uppi auk þess álitshnekkis sem Græðgisbólan og Græðgishrunið hefur valdið okkur er eðlilegt að aðrir hugsanlegir orkukaupendur hiki við að eiga við okkur viðskipti.

 


mbl.is Stór skjálfti við Blöndulón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er alltaf gott veður á Akureyri".

Ofangreind orð nota Akureyringar iðulega þegar verið er að tala um að veður sé vont fyrir norðan.

Þau eiga vel við í dag þegar ég sæki Akureyri heim. Kom reyndar hingað í gærkvöldi.

Þegar vonskuveður er á fjallvegum hér í kring er bara búin að vera blíða hér í bænum og flugvélar koma og fara á flugvellinum.

Akureyri og svæðið þar inn af er einstaklega vel í sveit sett veðurfarslega séð, og á meðan bændur á Íslandi voru háðir því að nógu margir þurrir dagar kæmu á sumrin til heyskapar, má segja að Öngulsstaðahreppur hafi boðið upp á besta veður, sem hugsast gat til landbúnaðar á Íslandi.

Á Suðurlandi gátu komið rigningasumur eins og til dæmis sumarið 1955.

Það er hlýrra, þurrara, bjartara og lygnara hér um hásumarið en fyrir sunnan og hér koma mun hlýrri dagar þótt inn á milli geti komið kaldari dagar en syðra.

Ég tók mark á slæmri veðurspá í gær og ákvað að nota 37 ára gamlan Range Rover til að fara norður, bíl sem ég nota ekki nema brýna nauðsyn beri til að fara með mannskap og tæki í jöklaferðir eða ferðir við erfiðustu skilyrði.

Hann er breyttur, á 38 tommu dekkjum og með 35 ára gamalli Nissan Laurel dísilvél.

Búið var að var við því að flughálka og glæra svell gæti verið á fjallvegum og það kom sér vel að vera á vel negldum hjólbörðum í Bakkaselsbrekkunni.  Þar mættum við fólksbíl, sem kom að norðan og komst ekki upp brekkuna. Hafði greinilega ekkert mark tekið á hinni slæmu spá.

Orð mín varðandi negldu dekkin eiga ekki við um akstur í Reykjavík heldur einungis um akstur við sjaldgæf hálkuskilyrði á bílum, sem ekki eru fáanleg nýjustu vetrarmunstur á.

Það er engin þörf fyrir negld dekk í Reykjavík á alla venjulega fólksbíla, slíkar framfarir hafa orðið í gerð vetrarhjólbarða.

Ef allt væri tekið saman valda negldu dekkin óbeint fleiri óhöppum og slysum en sést í fljótu bragði, því að vegna þeirra liggur sleipt tjörulag ofan á götunum , sem þau hafa rifið upp úr þeim, og skrifa má ýmis óhöpp og árekstra á það


mbl.is Versnandi veður á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt ágætisfólk býður sig fram.

Það sést á nafnalistanum um frambjóðendur til stjórnlagaþings að margt ágætisfólk býður sig fram og lumar vafalaust á mörgum góðum hugmyndum.

Nú er bara að vona að ekki komi upp slíkir erfiðleikar vegna fjölda frambjóðendanna og framkvæmdar kosninganna að þessar mikilvægu kosningar og þingið, sem kemur í kjölfarið nái ekki þeim árangri sem hlýtur að vera keppikefli þjóðarinnar.


mbl.is Nafnalisti frambjóðenda birtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn illa séðir í Marokkó.

Ég hef ekki orðið var við það að stjórnarfar eða stjórnarhættir í Marokkó hafi breyst mikið síðan ég kom þangað fyrst árið 1967 og síðan aftur 1975 og 1986.

Þessir stjórnarhættir eru ekki til að hrópa húrra fyrir hvað snertir lýðréttindi og frelsi.

1975 flugum við hjónin frá Kanaríeyjum til Marrakesh, sem er inni í landinu, en okkur skildist að ekki væri hægt að kynnast þessu landi í raun nema fara þangað í stað þess að koma til Tanger og Tetuan, sem eru gegnt Spáni við Gíbraltarsundið.

Ég álpaðist til að skrá mig sem blaðamann þegar ég fór þangað 1975 og allt fór á annan endann.

Seinna sögðu mér kunnugir að þetta hefðu verið arfamistök hjá mér, því að blaðamenn og fréttamenn væru afar illa séðir í landinu.

Það kemur mér þvi ekki á óvart að Al-Jazeera lendi í útstöðum við yfirvöldin þarna ef sú stöð hefur ekki makkað rétt við yfirvöldin.

Í sumar var ég í slagtogi með sjónvarpsfólki frá sjónvarpinu í Marokkó við Mývatn og tók það viðtöl við mig og flaug með mér.

Mér leist alveg prýðilega á þetta fólk og vinnubrögð þeirra og þau hafa líklega ekki lent í neinum vandræðum með að skila þessu myndefni til þjóðar sinnar, enda verið að fjalla um fjarlægt land og ekki stigið ofan á neinar tær ráðamanna landsins.

Ég vann líka mikið með sjónvarpsmönnum frá Al-Jazeera og öll vinnubrögð og umfjöllun þeirrar stöðvar var eins og best verður á kosið, enda valinn maður í hverju rúmi, tækjakostur frábær og metnaðurinn mikill.

Ég játa að ég veit ekki um málavöxtu í samskiptum Al-Jazeera og stjórnvalda í Marokkó en ólíklegt þykir mér að stjórnvöldin hafi batnað mikið síðan 1975.


mbl.is Starfsemi Al-Jazeera stöðvuð í Marokkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Djók"? "Geimórar"?

Ég er orðinn það gamall að ég man eftir því hvernig fólk tók því þegar 1954 var fluttur í ríkisútvarpinu pistill um það að svo kynni að fara í framtíðinni að sendir yrðu menn til tunglsins.

Þessu var jafnvel tekið sem einskonar brandara eða hugarórum hálfklikkaðra vísindamanna eða í besta falli áhugaverðum vangaveltum um vísindaskáldsagna. 

Ég man að í tengslum við þetta varð til nýyrðið geimórar. 

Ef einhver hefði spáð því hér heima 1954 að eftir aðeins 13 ár myndu tunglfarar koma til Íslands og fara upp í Öskju til að æfa sig fyrir tunglferð, sem farin yrði tveimur árum síðar, hefði sá hinn sama verið talinn í meira lagi klikkaður.

Ef einhverjum hefðu þar á ofan dottið það í hug að þessi tunglfaraferð yrði notuð í framtíðinni til að lokka ferðamenn inn í Öskju hefðu það sjálfsagt verið kallaðir geimórar, svipað því sem menn sögðu í upphafi um þá hugmynd að gera út báta til hvalaskoðunarferða.

Þótt tímaritið Time hafi fyrir áratug verið með margra blaðsíðna umfjöllun og forsíðumynd um þann möguleika að senda menn til mars og stofna þar nýlendu hafa flestir kinkað kolli vorkunnsamlega til mín þegar ég hef verið að greina frá því gildi, sem ósnortnar gosstöðvarnar á Gjástykkis-Leirhnjúkssvæðinu geta haft í framtíðinni vegna þess að alþjóðleg samtök áhugafólks um marsferðir hafa valið Gjástykki sem hentug svæði fyrir marsfara framtíðarinnar til að búa sig undir ferðir þangað. 

Helsti viðmælandi Time, Bob Zubrin, kom hingað til lands gagngert til þess að kanna þetta og þremur árum síðar kom sérstök sendinefnd samtakanna hingað líka til þess að ljúka verkinu.

Djók? Geimórar?  Það voru líka tunglferðirnar 1954. 


mbl.is Kanna möguleika á nýlendu á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full ástæða til að taka til hendi.

Gaman hefði verið að frétt um það að íslensk tunga eigi í vök að verjast hefði verið vel lesin yfir áður en hún var vistuð og birt, því að tvær málvillur eru í fyrstu setningu fréttarinnar..

Málvillurnar eru þess eðlis að þær eru varla innsláttarvillur heldur vitna þær um slaka málkennd.

Þetta eru orðin "blasir" og "mun" í fimmtu línu þar sem hefði átt að standa "blasi" og "muni."

Ég hef fyrir því heimildir, sem taka má mark á, að íslenskukunnátta þeirra, sem sækja um störf á fjölmiðlum, sé mun lakari hin síðustu ár en var árin þar á undan.

Það bendir til þess að orsaka þess sé að leita aftur til þess tíma sem þetta fólk var að vaxa upp á árunum kringum 1990 og lærði móðurmál sitt á heimilum og í skólum.

Hafi aðstæður til þess að læra málið versnað síðan þá getur ástandið orðið enn verra eftir tuttugu ár en það er nú.

Er því ekki ráð nema í tíma sé tekið. 

Í mörgum málvillum, sem nú eru á sveimi, felast líka rökvillur. Þeir, sem afgreiða athugasemdir við slíkt sem nöldur ættu að íhuga hve bagalegt slíkt getur verið og einnig það að hjá nágrannaþjóðum okkar eru gerðar strangar kröfur til málfars í fjölmiðlum og menntastofnunum. 

P. S. Ég sé núna, morguninn eftir að fréttin birtist, að henni hefur verið breytt í samræmi við ábendingar mínar og er það vel. 


mbl.is Óttast um íslenska tungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klettafjallavetrarkoma.

Fyrir tveimur árum stóð þannig á að ég þurfti að taka myndir í Yellowstone fyrir kvikmyndina "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars" í septemberlok.

Ég leitaði mér því allra fáanlegra upplýsinga um veðurútlit og fann út, að þarna uppi í Klettafjöllunum kemur veturinn ævinlega í sömu vikunni um mánaðamótin september-október. 

Ástæðan er sú að þarna er mjög eindregið meginlandsloftslag og því lágmarks veðursveiflur sem hafið getur valdið.  

Við þekkjum það hins vegar frá okkar landi að vetrar- og vorkoma geta verið býsna ruglningsleg oft á tíðum vegna mikilla sveiflna, sem hér geta orðið í veðurfari hvenær sem er á árinu. 

Vetrarkoman hér á Fróni hefur verið einstök að þessu sinni. Nær samfelld hlýiindi með sumarhita ríktu hér líkt og í Klettafjöllunum, að vísu aðeins lengur hér eða fram að miðjum október. 

Þá fór veðrið kólnandi dag frá degi úr allt að 15 stiga hita niður í fimm stiga hita og hefur að mestu verið þannig síðan. 

Sumir hafa áhyggjur af því að það muni þurfa að leita að rjúpnaskyttum um helgina. 

Mér heyrist að þeir, sem ég hef talað við, og höfðu ætlað til veiða, muni fresta því og einnig veit ég að samkomu sem ætlunin var að halda í Fljótunum í Skagafirði verður slegin af. 

Vonandi verður helgin því áfallalaus. Þó er aldrei að vita nema einhver eða einhverjir taki upp á því að leita að veðurspáþjónustu á netinu og finna einhverja í fjarlægu landi sem spáir skaplegra veðri en sú íslenska.  

Annað eins hefur nú gerst.
mbl.is Útlit fyrir afar slæmt veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útundan í öllum skilningi.

Þegar núverandi forseti Íslands fór í eina af fyrstu opinberu heimsóknum sínum og leiðin lá til sunnanverðra Vestfjarða gat hann ekki orða bundist yfir því hve lélegar samgöngurnar væru.

Síðan eru liðin 14 ár og ástandið er í meginatriðum hið sama hvað snertir samgöngur til og frá Vesturbyggð. 

Meira að segja var flugbraut Patreksfjarðarflugvallar stytt verulega af ástæðum sem ég hef aldrei skilið og ekki bólar enn á göngunum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem hefðu átt að hafa forgang. 


mbl.is Vilja bættar samgöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nákvæmlega það sem við gátum lagt til mála.

Ég hef fyrr í sumar bloggað um nauðsyn þess að við Íslendingar legðum fram okkar skerf við að rannsaka áhrif öskugosa á flugvélar og flugvélahreyfla.

Því ber að fagna íslensku rannsókninni á áhrif ösku á þotuhreyfla. 

Ég tel að aldrei hefði þurft að stöðva innanlandsflug vegna öskufallsins nema þá helst tvo daga, þegar svifryk var mest í Reykjavík, en báða þá daga var flug leyft! 

Mér er kunnugt um aðra rannsókn háskólamanna á öskumagninu í mekkinum en veit ekki hvort tókst að ljúka henni.  

Sjálfur gerði ég eina tilraun sem ég hef greint frá áður hér á blogginu og var sláandi. 


mbl.is Áhrif ösku á þotuhreyfla skýrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband