Hvað næst? Barrskógur og lúpína í Surtsey? .

Síðan í gærkvöldi hef ég verið að "loka kvikmyndargerðarsjoppunum" endanlega. Fór á Subaru-fornbíl norður til Akureyrar í gærkvöld, en hann og gamall, frambyggður Rússajeppa-fornbíll hafa þjónað þar og munu þjóna mér sem farartæki og vistarverur í framhaldi vinnunar nyrðra og eystra.

Flaug síðan FRÚnni suður eftir dygga þjónustu nyrðra og eystra. Í vetur verður henni lagt á stæði við Reykjavíkurflugvöll.

 Á leiðinni suður sá ég ýmislegt forvitnilegt. Ætla að nefna annað atriðið af tveimur úr þessari ferð.

Rétt er að taka það strax fram að landgræðsla og skógrækt hafa lengi verið einna efst á lista mínum yfir áhuga- og umfjöllunarefni.

P1011032

En á leið yfir Þingvallavatn sá ég nokkuð, sem mér hefur yfirsést þar til nú.

Í Sandey á miðju vatni hefur verið gróðursettur barrskógur sem hækkar ár frá ári.

Hann er ekki stór eins og er, en þegar skoðað er nánar sést í hvað stefnir. 

Nú er það svo að Sandgræðsla og síðar Landgræðsla ríkisins og Skógræktarfélag Íslands eru fyrirrennarar nútíma náttúruverndar- og umhverfissamtaka.

P1011033

Landgræðslan og Skógræktin voru stofnuð af brýnni þörf vegna alvarlegasta umhverfisvandamáls Íslands.

Enn í dag blasa tröllaukin og brýn viðfangsefni þeirra við um allt land. Af nógu er að taka. 

En ég set spurningarmerki við það skipulagsleysi sem stingur í augu víða í þessum málum.

Sandey á engan sinn líka á Íslandi, ekki einu sinni á Mývatni. Hún er hluti af þeirri einstæðu landslagsheild Þingvalla og Þingvallavatns sem fengið hefur gæðastimpil Heimsminjaskrár UNESCO.

P1011036

Hins vegar er Sandey ekki innan þjóðgarðsins og er því ekki á Heimsminjaskránni.

Það finnst mér bagalegt. 

Hvað næst?  Barrskógur í Surtsey?  Ja, því ekki það?  Sandey og Surtsey blasa við þeim sem þær skoða sem mjög sérstæð og mögnuð sköpunarverk íslenskrar eldvirkni og ef önnur þeirra er ákjósanlegur staður fyrir barrskóg getur hin verið það líka.

Nú kunna einhverjir að segja sem svo að það séu svo fáir sem sjái Sandey að það skipti ekki máli hvernig með hana er farið.

P1011038

Þeim vil ég benda á að til eru farartæki sem heita bátar og flugvélar og eru talsvert notuð til að flytja ferðamenn sem sjá Sandey.

Þetta er svosem ekki eina dæmið um barrskógaást Íslendinga.

Á vesturströnd Þingvallavatns er slíkur skógur í miklum uppgangi.

Í blokkaríbúðinni sem ég bý í og hefur hingað til verið með einstaklega fallegu útsýni yfir borgina, byrgja háar hraðvaxandi Alaskaaspir skyndilega fyrir þriðjung útsýnsins.  

Nú er hlýnandi veðurfar og íslenska birkið og reynirinn ættu því að geta dugað vel í viðleitninni til að endurheimta þau landgæði sem hér voru við landnám.   

Ari fróði sagði að landið hefði verið "viði vaxið" og átti vafalaust ekki aðeins við birki og reyni heldur ekki síður við víðikjarr.

Ef kona missir húð græða menn ekki húð af kú á hana, eða hvað ?

P. S.  Viðbót kl. 14:00.  Sævar Helgason sendir mér mynd sem tekin er í Sandey og sýnir að þar hefur líka verið sáð lúpínu. Það gerir umræðu og rökræðu um þessa eyju enn áhugaverðari og spurningar vakna.

P1010076

Lúpinan hefur gert kraftaverk þar sem ekkert annað hefur dugað til að hefta sandfok og græða upp örfoka land. Þarf ekki annað en benda á mikil afrek sem áhugafólk um landgæði hefur unnið á Hólasandi og Mýrdalssandi þar sem um er að ræða víðaútmikil landflæmi og sandfok sem ógnar svæðunum í kring.

1. Hefur verið svo mikill uppblástur og jarðvegseyðing í Sandey að lúpínu og barrskóg þarf til að taka í taumana ?

2. Getur hugsanlegur uppblástur og jarðvegseyðing í Sandey ógnað nærliggjandi svæðum?  

Mér sýnist gígurinn í Sandey vera grasi og mosa gróinn með jarðvegi sem hefur haldið þar velli. Var það ekki góðu lagi?  

 

  

  


Í upphafi skyldi endinn skoða.

Það kann að vera að allt sé það satt og rétt sem kemur fram rannsókn á hjónaböndum þess efnis að þau séu best heppnuð að jafnaði ef karlinn er að meðaltali fimm árum eldri en konan.

En mér sýnist alveg vanta stórt atriði sem snýr að lokaárum hjónabanda og að í þessari rannsókn hafi menn ekki haft það í huga að í upphafi skyldi endinn skoða.

Þarna e um að ræða þá staðreynd að konur verða að jafnaði nokkrum árum eldri en karlar og sé því aldursmunurinn í öfuga átt í hjónabandinu getur þetta leitt til þess meðaltals, að konur verði að jafnaði ekkjur í 7-8 ár.

Og þá er vert að minna á eindregna niðurstöður annarra rannsókna, sem sýna að það dregur úr lífslíkum fólks að missa maka sinn eftir langa sambúð.


mbl.is Mælt með að konan sé yngri og klárari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka minnsta spillingin á sínum tíma.

Könnun á vegum alþjóðlegra aðilia leiddi í ljós fyrir aðeins fáum árum að minni spilling væri á Íslandi en í nokkru öðru landi. Þá sagði ég og margir aðrir: Heyr á endemi!

Enda kom í ljós þegar grannt var skoðað,  að spurningarnar og svörin sem byggt var á, voru þess eðlis að í landi einkavinavæðingar, kross-hagsmunatengsla ættar- og vinatengsla var þeim atriðum algerlega sleppt þegar forsendna var leitað.

Fyrir tæpum áratug var alþjóðleg könnun á ástandi umhverfismála. Var Ísland þar í einu af efstu sætunum.

Ég gerði mér til fróðleiks að fá hjá umhverfisráðuneytinu öll forsendur og gögn, sem þessi undarlega niðurstaða var byggð á.

Þótti mér ótrúlegt að í  landi Kárahnjúkavirkjunar og mestu jarðvegseyðingar á hálfum hnettinum af mannavöldum væri hægt að draga upp svona glansmynd.

Þá kom í ljós að í svörum sínum höfðu Íslendingar hagrætt forsendunum stórlega.

Til dæmis var það gert þannig, að í dálknum "ástand jarðvegs og gróðurs" sendu Íslendingar inn svarið: NA, þ. e. að upplýsingar væru ekki fyrir hendi.

Var þó Ólafur Arnalds nýbúinn að fá umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ítarlegar rannsóknir á ástandi jarðvegs og gróðurs á Íslandi sem sýndu eitthvert skelfilegasta ástand sem dæmi væri um í heiminum !

Önnur lönd, sem sendu inn "NA" um þetta efni voru í Austur-Evrópu, þeirra á meðal Ukraina, sem þar með slapp við að leggja stórfelldt tjón á jarðvegi og gróðri vegna Chernobyl-slyssins.

Íslendingar sendu líka inn löggjöf sína um mat á umhverfisáhrifum sem jákvæðan punkt en ekkert um það hvernig sú löggjöf væri sveigð og beygð í allar áttir eftir pólitískum hentugleikum.

Ég fæ ekki betur séð en að langt sé í land að viðunandi ástand varðandi jafnræði kynjanna hér á landi.

Er ég því í ljósi fyrri niðurstaðna í svipuðum könnunum ekki sannfærður um að útkoman í þessari könnun sé réttari en í hinum.   


mbl.is Kynjabilið minnst á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fálæti gagnvart landnáminu.

Bær er nefndur Stiklastaður í Þrændalögum í Noregi. Þangað liggur jafnan mikill straumur ferðamanna, einkum þegar þar er haldin mikil hátíð vegna orrustunnar sem þar var háð þegar Ólafur helgi féll þar.

Sú orrusta er marka upphaf vitundar Norðmanna um sig sem þjóð.

Settur er á svið mikill söngleikur um orrustuna og ýmsar uppákomur, sem sumar eru þar daglega og leikin eru atriði úr daglegu lífi fyrri tíma.

Árið 874 var haldin merk athöfn í Reykjavík. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sinum fyrir borð við flæðarmál og lét þær reka á land.

Vegna hafstrauma getur hann ekki hafa gert það úti fyrir Suðurlandi því ekkert það sem rekur með Irminger-grein Golfstraumsins norður með Garðskaga getur rekið til Reykjavíkur, - það rekur á land á Snæfellsnesi, samanber lík drengjanna tveggja sem fórust með Goðafossi.

Séra Þórir Stephensen hefur kannað þetta mál og telur að það sé útaf fyrir sig rétt að Ingólfur hafi varpað súlunum fyrir borð og þær rekið á land í Reykjavík.

Staðurinn var hins vegar valinn áður, því að ef staðið er við styttuna af Ingólfi í Hrífudal í Dalsfirði í Noregi, blasa við þrjú fjöll handan fjarðarins sem eru eins og spegilvent Esja, Skarðsheiði og Akrafjall.

Ingólfur sigldi til vesturs meðfram suðurströndinni og fann ekki gott hafnarlægi með svipuðu gróskumiklu umhverfi og heima fyrr en hann kom til Reykjavíkur.

Súlurnar voru heimiilisguðir hans og við víkina norðan við Arnarhól fór fram athöfn þar sem heimilisguðirnir friðmæltust við landvættina og fengu leyfi til landnáms hins trúaða víkings.

Síðan segir í Íslendingabók um Reykjavík: "Þar standa öndvegissúlurnar enn í eldhúsi."

Ef þeir réðu ferðinni, sem hafa byggt upp Stiklastað sem einn helsta ferðamannastað Noregs, færi fram árleg hátíð við Reykjavíkurhöfn þar sem sviðsett væri og endurtekin væri landnámsathöfn Ingólfs í fjölmennri uppfærslu söngleiks.

Minnismerki væri neðan við Arnarhól sem sýndi reknar öndvegissúlur og utar svipað skip og Ingólfur kom á.

Reykvíkingar eru furðulega fálátir um þá einstæðu möguleika sem felast í því að landnám alls landsins skuli vera talið hafa byrjað í Reykjavík.

Stórmerkar minjar um fyrstu byggð kúldrast fyrir náð og miskunn í hótelkjallara.

Í staðinn hefur í Reykjanesbæ verið tekið myndarlega til hendi varðandi víkingaöldina og víkingaskipin.

Hefur þó ekkert markvert komið þar að landi svo mér sé kunnugt um, ekki einu sinni Svartadauði. (Hann kom á land í Hvalfirði)

Suðurnesjamenn gera okkur Reykvíkingum skömm til.

Ég sýndi einu sinni í sjónvarpi í fréttum á myndrænan hátt hvaða möguleikar eru fyrir hendi við Reykjavíkurhöfn hvað þetta varðar. Líka hvað varðar möguleikana á að opna Lækinn.

Hafði ekki tök á að sækja Hugmyndaþing borgarinnar í gær, því miður.

Þótt búið sé að valta yfir svona hugmyndir með bílastæðavæðingu þessa svæðis má breyta því síðar.

En ég reikna ekki með því að það verði meðan ég lifi. Kannski síðar.


mbl.is Hugmyndaþing um Reykjavík í ráðhúsinu í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakur brautryðjandi burt kallaður.

Ég átti síðast tal við Flosa Ólafsson fyrir nokkrum dögum og það var eins og alltaf gefandi og gaman að tala við hann og skiptast á kviðlingum. Það ískraði í honum húmorinn um elli Kerlingu og tilveruna, - hann var fjallhress.

Ég bloggaði um þetta, grunlaus um það sem í vændum væri.

Sviplegt fráfall hans kemur því sem reiðarslag.

Flosa má telja föður allra þeirra gamanþátta í sjónvarpi hér á landi sem eru gerðir undir forskrift Áramótaskaups og síðar Spaugstofunnar.

Fyrstu tvö ár Sjónvarpsins voru Áramótaskaupin hugsuð sem nokkurs konar skemmtidagskrá með blönduðu og alveg ótengdu efni, bæði léttu, alvarlegu, leiknu, töluðu og sungnu.

Þar heyrðust óskyld dægurlög og óperuaríur í bland.

Þetta var sett fram í svipuðu formi og um skemmtidagskrá á öðrum hátíðisdögum.

Til skaupsins 1967 lagði Flosi stuttan fyrirfram upptekinn grínþátt, gamanóperuna "Örlagahárið."

Þetta frábært brautryðjendaverk í Sjónvarpi og sleginn nýr tónn í sjónvarpi.

Fyrir bragðið var Flosa falið að gera heilt áramótaskaup næsta ár eftir þessari formúlu og henni hefur verið fylgt síðan utan einu sinni.

Flosi er því faðir Áramótaskaupanna og Spaugstofuþáttanna og einstakur brautryðjandi að því leyti.

Sum atriði Áramótaskaupa hans eru hreinar perlur eins og Kröflu"gaggið" sem hann kallaði svo 1976 og óhemju djarft atriði um Geirfinns- og Guðmundarmálin í sama skaupi.

Ég minnist einnig mjög beitts atriðis þar sem Flosi tætti i sundur þá stefnu þingmanna og ráðamanna að koma togara, loðdýrarækt og fiskeldi inn á nánast hvert heimili. Í fullu gildi enn í dag.

Þess utan var Flosi einn allra fremsti hagyrðingur landsins og fór á kostum í spurningaþáttunum "Hvað heldurðu?"

Leiftrandi húmor og ritsnilld auk hæfileika til að skapa eftirminnilegar og sérkennilegar persónur jafnt á sviði sem í kvikmyndum voru landsþekkt.
'
Hann varð fyrst þjóðþekktur fyrir að skapa mjög eftirminnilega persónu í útvarpsleiktriti eftir Agnar Þórðarson, en það var unglingurinn Danni, hinn kærulausi, svali, linmælti og hraðmælti töffari.

Mér finnst viðeigandi að kveðja hann með tveimur kviðlingum.

Ljúfur Drottinn lífið gefur, - /
líka misjöfn kjör /
og í sinni hendi hefur /
happ á tæpri skör. /

Feigðin grimm um fjörið krefur, - /
fátt er oft um svör. /
Enginn veit hver annan grefur. /
Örlög ráða för.


Ég kveð góðan og náinn vin minn í nær hálfa öld með miklum söknuði og bið hans nánustu blessunar.


Allt er fertugum fært.

Landvernd hélt upp á 40 ára afmæli sitt í Iðnó í dag með afmælisþingi þar sem margt fróðlegt kom fram.

Upphaflega var félagið hugsað sem nokkurs konar regnhlífarsamtök fjölmargra félaga og á þeim tíma var bágt ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi höfuðverkefnið, þótt 1969 og 70 geysuðu hatrammar deilur um ótrúlega stórkarlalegar framkvæmdir í virkjanamálum á Norðausturlandi og í Þjórsárverum. 

Á þeim slaknaði í bili og fimm árum síðar náðist mikilsverður árangur með þjóðargjöfinni svonefndu á 50 ára afmæli lýðveldisins 1974, enda veitti ekki af því að á þessum áratugum var gríðarlegt álag á mörgum afréttum landsins og uppblástur mikill.

Á síðustu árum hafa deilur um stórbrotnar framkvæmdir, einkum á hálendinu, orðið stærri hluti af starfi og baráttu Landverndar. Var notað um það orðið nauðvörn á fundinum í dag og mynd úr Gjástykki sem tróndi yfir sviðinu í Iðnó undirstrikaði það. 

DSC00203

Þessi mikla barátta og fjölbreytt kynningarstarf í kringum hana hefur orðið til þess að yfirskyggja gróðurverndarbaráttuna og er ljóst að mikil verkefni bíða á því sviði þótt dregið hafi úr beitarálagi með fækkandi sauðfé. 

Enn eru beittir afréttir á stórum hluta hálendisins sem ekki eru beitarhæfir.

Bjartsýni ríkti þó á afmælisþinginu í dag. Þekking og menntun í þessum málum hefur fleygt mjög fram og því óhætt að segja að allt eigi að vera fertugum fært, þrátt fyrir fjárskort og erfið viðfangsefni.  


"Sjoppunum lokað" - Örkin til byggða.

Í fyrrakvöld kom ég til Reykjavíkur úr framhaldi ferðalags um síðustu helgi vegna vetrarkomu fyrir innan Kárahnjúka.

P1010404P1010418

Þá tók fulltrúi Flugmálastjórnar, Guðjón Atlason, Sauðárflugvöll út í síðustu sumarflugferðinni þangað og mér tókst að losa kerruna, sem hefur verið undir bátnum Örkinni, úr festu við búðir Suðurvers við Kárahnjúka. Varð að fresta framhaldinu og skunda til Reykjavíkur.

Síðasliðinn fimmtudag skaust ég með Flugfélaginu til Egilsstaða og fór þaðan með Þórhalli Þorsteinssyni á jöklabíl hans upp á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum.

Þórhallur er frábær jöklafari, einn sá þrautreyndasti sem völ er á og bíll hans eins og verkstæði á hjólum.

P1010419

 

 Það kom sér vel þegar ná þurfti framhjólunum undan gamla Econoline-húsbílnum sem þjónar sem flugstöð, flugturn, birgðastöð, flughótel og ráðstefnusalur.

Á næstefstu myndinni má sjá hann bogra við hægra framhjólið.  

Vegna fjárskorts verð ég að selja hjólbarðana, sem hafa verið undir bílnum að framan og setja slitna undir hann í staðinn næsta sumar. Bíllinn hefur fyrst og fremst verið bækistöð á flugvellinum síðan 2005 og þetta eru nær ónotuð 35 tommu dekk af gerðinni Durango, sem eru til sölu.

P1010964

 

 Einnig kemur til greina hjá mér að selja heilan dekkjagang, 4 ókeyrð 35 tommu dekk af gerðinni Wildcat.  

Tekin voru númer af Feroza-bíl, sem ég hef notað þegar ég hef lent með mig og aðra á flugvellinum. 

Dekkin og fleira sett upp á gamla Toyota-pallbílinn, sem hefur verið þarna í sumar.

Sauðárflugvallarr"sjoppunni" þar með lokað þar til í júní næsta sumar. 

Næst lá fyrir að koma kerrunni með Örkinni aftan í Arkar-bílinn og draga hana niður í byggð.

P1010966

Báturinn hefur verið fyrir innan Kárahnjúka síðan í apríl 2003.

Gera þarf við hann og bátakerruna og selja hvort tveggja.


Þó þyrfti að vera hægt að sigla henni í síðustu siglingarnar á Kelduárlóni og Hálslóni næsta sumar ef fjárhagur leyfir og ljúka þar með myndatökum fyrir heimildarmyndina um Örkina. 

 Niðri á Egilsstöðum var gamli útslitni Samuraikvikindið kvaddur í bili, en hann er aldeilis ótrúlegur nagli, sá gamli og slitni skrjóður, og dugði vel á árunum 2002-2007 sem vinnutæki og gististaður. 

P1010973

Varð hann blaðamönnum tímaritsins National Geographic að umfjöllunarefni í grein þeirra um Kárahnjúkavirkjun.

 

 

 

 

Á leiðinni til Reykjavíkur var litið á ástandið við Leirhnjúk.

 

P1010976

 

Niðri í þorpinu aðstoðaði Karl Viðar Pálsson mig við að taka vatn og númer af gamla Rússajeppanum, sem ég hef notað í kvikmyndagerð á virkjanasvæðum við Leirhnjúk og Gjástykki.  

P1010427
 
 
Þar með var hægt að "loka Mývatnssjoppunni" þar til næsta sumar. 
P1010439
 
P1010445

360 þúsund álframleiðsla forsenda álvers.

Á góðum fundi um virkjanamál á Suðvesturlandi, sem haldinn var á Sólon í dag að tilhlutan Græna netsins kom margt áhugavert fram í framsöguræðum þeirra Sigmundar Einarssonar, sem hér sést standandi við háborð, sem hinir fyrirlesararnir, Dofri Hermannsson og Ágúst Hafberg sitja við.

P1010448

Ágúst Hafberg sýndi með uppdrætti að fyrirhuguðu álveri í Helguvík, hvernig langdýrasti hluti álversins verður hin stóra bygging og allur sá flólkni búnaður þar sem rafmagnið kemur inn í álverið og dreifist síðan um kerskálann.

Síðan upplýsti hann aðspurður að af þessum sökum væri það forsenda fyrir byggingu álversins að það verði í fullri stærð með 360 þúsund tonna framleiðslu á ári, þótt áfangarnir verði fjórir 90 þúsund tonna áfangar.

Hann lýsti líka því þjóðfélagslega umhverfi álversins að óhemju þrýstingur væri á Norðurál úr öllum áttum á að reisa þetta álver, frá ráðamönnum, samtökum atvinnulífsins og verktökum.

helguvik

Það er kunnuglegt ástand sem stóriðjufíklar skapa með því að skipa sig sjálfa sem talsmenn allra annarra og þar með þá sem eitthvað andæfa sem öfgafólk, hryðjuverkamenn, óvini einstakra landshluta eða jafnvel landsmanna allra. 

Þetta ástand endurspeglast í því að álfurstarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að þeir fái ekki orku þótt aðeins liggi fyrir hluti þeirrar orku sem til greina kemur og óvissa um að hún fáist öll.

Ágúst sýndi til dæmis yfirlit yfir virkjanir þar sem Norðlingaalda (Þjórsárver), Bitruvirkjun, Neðri-Þjórsá og fleiri slík svæði voru á blaði.

Leikurinn sem hafinn er, er því ójafn. Annar aðilinn fær það gulltryggt að hann fái alla þá orku afhenta sem hann vill, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvaða náttúruverðmætum verði fórnað.  


Davíð byrjaður að blogga ?

Margir telja sig sjá fingraför Davíðs Oddssonar á ýmsum stöðum í Morgunblaðinu. Hann er ekki fyrsti ritstjórinn sem hefur svo sterkan stíl að hann sker sig úr.

Það var oft unun að lesa skrif Magnúsar Kjartanssonar, ritstjóra Þjóðviljans, á sínum tíma þótt maður væri oftar en ekki ósammála skoðunum hans og ekki var Jónas Jónsson frá Hriflu neinn aukvisi á ritvellinum þótt ekki væri maður heldur alltaf sammála honum og hann væri ekki alltaf vandur að meðulum. 

Davíð minnir að þessu leyti á þessa tvo aðsópsmiklu ritstjóra.   

Á bloggsíðunni "Morgunblaðið" eru síðustu tveir pistlarnir annars vegar um Kára Stefánsson og hins vegar um þá sem voguðu sér að syngja "Fram þjáðir menn í þúsund löndum" með krepptan hnefa.

Þessir pistlar sverja sig mjög í Davíðsætt, enda Kári Stefánsson vinur hans allt frá skólaárum.

Og ég get svo sem tekið heilshugar undir hvert orð í pistlinum um Kára.

Þarf ekki annað en að nefna að var á sínum tíma valinn af tímaritinu Time í hóp hundrað áhrifamestu og merkustu læknavísindamanna heims og er það fágæt viðurkenning.

Helstu einkenni Davíðs skína líka í gegn um háðskum pistlinum um þá Össur Skarphéðinsson og Árna Pál Árnason sem syngja Internationalinn.

Fullyrt er að þeir rétti handleggi beint á loft upp og til hægri án þess að séð verði af myndunum annað en að handleggirnir séu bognir og vísi beint fram.

Það er því fulllangt gengið að líkja þessu við það þegar nasistar og fasistar réttu handleggi beint upp og til hægri með útréttum lófa. En kannski átti Davíð við þá Stalín og Maó. 

Þeir fyrirlitu hins vegar krata sem svikara og auvirðileg handbendi heimskapítalismans og það er því býsna bíræfið að bendla Össur og Árna Pál við þá.  

Og hvernig væri nú að dæma lagið og ljóðið í Nallanum út af fyrir sig en ekki út frá því hverjir hafi sungið það? Eða eru menn yfir það hafnir að kynna sér það sem þeir fimbulfamba um ? 

Í Fyrri heimsstyrjöldinni sungu hermenn oft "Áfram kristmenn krossmenn" um "æskuherinn sem fram í stríðið" stefnir áður en þeir fóru til að drepa menn og verða sjálfir drepnir.

Ég söng þetta í KFUM og Kaldárseli og áskil mér rétt til að syngja það hvenær sem er án þess að ég sé bendlaður við manndráp og blóðsúthellingar og tilgangsleysi Fyrri heimsstyrjaldarinnar. 

Nasistar létu syngja "Deutschland, Deutschland uber alles" við öll möguleg tækifæri og eigum við þess vegna að fordæma það að þetta sé enn í dag þjóðsöngur Þýskalands ?  

Ritfærni Davíðs nýtur sín vel á nýum vettvangi og þótt hann skorti faglega reynslu koma aðrir kostir til greina við ritstjórnarstörf.

Borgarstjórinn í Reykjavík þarf að hafa mikla yfirsýn og þekkingu á smáu og stóru í borgarkerfinu og borgarlífinu og það að hafa gegnt slíku starfi, eins og Davíð gerði með glæsibrag í níu ár, getur komið sér vel í ritstjórastarfi að ekki sé talað um að vera vel ritfær.

 

 


Mótsagnirnar varðandi eignarhald.

Mismunandi eignarhald hefur kosti og ókosti. Kárahnjúkavirkjun er dæmi um þann ókost opinbers rekstrar að hneigjast til að fara út í áhættusöm, dýr og tiltölulega lítt arðbær verkefni í sovéskum stíl sem engin einkafyrirtæki myndu þora að gera. 

Hinir mörgu og stóru áhættuþættir Kárahnjúkavirkjunar, sem lögfræðingur fyrirtækisins lýsti svo vel á sínum tíma til að berja niður væntingar heimamanna um greiðslur fyrir vatnsréttindi, hefðu fælt öll einkafyrirtæki frá að fara út í þessa framkvæmd, þar sem áhættunni var velt yfir á þjóðina.

"Gróðærið" sýndi hins vegar fádæma áhættufíkn óhefts kapítalisma sem hreif með sér stjórnvöld og stóran hluta almennings þegar hæst lét.

Stærsta hættan sem nú steðjar að er fólgin í því að auðlindirnar og fyrirtækin sem yfir þeim ráða, lendi í höndum annarra þjóða.  

Miðað við áframhaldandi stóriðju- og virkjanaæði Landsvirkjunar finnst mér hins vegar hart ef fara á í fjárhættuspil og áframkeyrslu þessarar stefnu með lífeyrisgreiðslur okkar sem höfum byggt upp lífeyrissjóðina á langri starfsævi og héldum í barnaskap okkar að með því værum við að forða okkur frá því ævikvöldi fátæktar sem annars yrði hlutskipti margra okkar.

En kannski verður það nú líka viðeigandi framhald á æði skammgróðans sem enn virðist lifa góðu lífi á sumum sviðum.    


mbl.is Landsvirkjun ekki föl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband