Kostir og ókostir sjálfvirkninnar.

Í fluginu takast sífellt á tvenns konar sjónarmið varðandi sjálfvirknina annars vegar og stjórn flugliðanna hins vegar, stundum lýst með orðunum að "handflljúga".

Í frétt af flugmönnunum sem gleymdu sér koma ókostir mannlegra mistaka vel fram.

Hvort tveggja hefur sína kosti og ókosti og í stuttu máli eru ókostirnir svipaðar við báðar aðstæður, sem sé þeir, að ekkert það sem gert er eða búið til af mönnum getur verið fullkomlega óskeikult eða laust við bilanir.

Flugslys hafa orðið, bæði vegna of mikillar sjálfvirknig og vegna mannlegra mistaka sem sjálfvirkni hefði getað afstýrt.

PiperPA-28R-200CherokeeArrow

Flugvélin Piper Arrow kom fram um miðjan sjöunda áratuginn og var þannig um hnúta búið að útilokað átti að vera að hægt væri að lenda henni án þess að setja lendingarhjólin niður og hún tók líka hjólin upp ef flugmennirnir gleymdu því.

Þó fór það svo að slys urðu vegna þess að sérstakur nemi, sem mældi lofthraðann, gat truflast vegna ísingar og óhreininda og auk þess kom í ljós að engin flugvél er fullkomnari en flugmaðurinn sem flýgur henni.

Hið skondna var að íslenskt flugatvik sýndi einna best að rétt væri hætta við að auglýsa þessa vél sem "óskeikula."

Þannig var málum háttað, að færi flughraðinn niður fyrir ákveðinn hraða fóru hjólin sjálfkrafa niður ef flugmaðurinn gleymdi að setja þau niður.

En í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli á svona flugvél, þegar vélin var mjög þung og flugmaðurinn reyndi því í fyrstu að halda uppi góðum hraða en kom of lágt inn, svo að hann gaf henni nær fullt afl til að koma í veg fyrir að hún missti of mikla hæð.

Það var í nógu að snúast fyrir flugmanninn og því gleymdi hann að setja hjólin sjálfur niður.

Við það að nota svona mikið afl jókst lofthraðinn svo mjög í gegnum nemann, sem mældi hann, að hann fór ekki niður fyrir tilskilin mörk fyrr en vélin var að snerta.

Þá byrjaði sjálfvirki búnaðurinn að setja hljólin niður en það var of seint, - hjólin böggluðust aftur upp þegar þungi vélarinnar settist á þau og úr varð magalending.

Þetta atvik var eitt af þeim atvikum þar sem sjálfvirkni getur virkað öfugt við það sem til er ætlast.

Hugsanlega gleymdi flugmaðurinn að setja hjólin niður vegna þess að við síendurtekinn áróður um það að vélin gerði það sjálf slaknaði smám saman á vitundinni um að flugmaðurinn yrði ævinlega að vera handviss um þetta atriði.

Þess má svo að lokum geta að fyrir allmörgum árum sofnaði ferjuflugmaður á leið til Íslands við stýrið og var herþota send frá Keflavíkurflugvelli til að vekja hann með því að fljúga fyrir framan hann og skapa ókyrrð.  


mbl.is Flugmennirnir gleymdu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættu við sitt LSD.

Við hjónin, Helga og ég höfum farið margar ferðir um gervallan Noreg vegna gerðar myndanna "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"

Geirangursfjörður var toppurinn í þessum ferðum.  

513331

Það er einkum í myndinni "In memoriam" sem afrakstur þessara ferðalaga sést.   

Ég varð fyrir áfalli eftir fyrstu ferðirnar þangað og til Ameríku á þjóðgarða- og virkjanaslóðir þegar ég áttaði mig á því að hér á landi voru umræðan og athafnirnar á svipuðu stigi og í Noregi fyrir aldarfjórðungi og í Ameríku fyrir 40-50 árum.

Það var ekki fyrr en í áttundu ferðinni sem ég komst að því að á sínum tíma voru Norðmenn með tilbúna hliðstæða áætlun og hin svonefnda LSD-áætlun Íslendinga, (skammstöfun fyrir "Lang-Stærsti-Draumurinn)

Eins og á Íslandi byggðust áformin á því að tengja saman öll vatnsföll á norska hálendinu og steypa þeim niður á einum eða tveimur stöðum í fallgöngum úr meira en 1000 metra fallhæð niður að sjó.

Ekkert varð af þessu og síðan hafa Norðmenn skammast sín fyrir þessa hugmynd og er hvergi minnst á hana. Ég rakst þó fyrir tilviljun í smáa letrinu í bók sem ég keypti í þessari ferð minni.

Með þessu björguðu Norðmenn ótal fossum í ám sem falla ofan af hálendinu og létu sér nægja nokkrar virkjanir sem komnar voru en skiluðu aðeins broti af því afli sem stóra LSD-risavirkjunin með öllum sínum stíflum og göngum átti að skila.

Við fundum þrjár slíkar virkjanir á ferðum um Jötunheima og Harðangursheiðarhálendið, í Tyssedal, Sysevirkjun og eina litla í Jötunheimum. 

Fyrir bragðið er álíka mikið óvirkjað af vatnsafli að magni til í Noregi og á Íslandi.

Fyrir 20 árum voru uppi áform um að virkja lítið vatn í nágrenni við Jóstedalsjökul, sem þó sást ekki frá jöklinum og jökullinn ekki frá vatninu. Aðeins stóð til að stækka vatnið en ekki að búa til nýtt vatn. 

Fallhæðin hefði orðið 1200 metra og þetta því "dýrmætustu vatnsdropar á Norðurlöndum" eins og Jakob Björnsson hefði orðað það.

Hætt var við þetta vegna þess skaða sem þetta hefði á ímynd Jóstedalsjökuls, stærsta jökuls á meginlandi Evrópu.  Er hann þó aðeins 5% af stærð Vatnajökuls. 

Um þetta er fjallað í myndinni "In memoriam?". 

Hér á landi fóru menn hins vegar létt með að framkvæma 2/3 af LSD-áætluninni og búa til stórt vatn þar sem ekkert vatn var áður og sker öræfin norðan Vatnajökuls í tvennt.

Er þá sleppt að nefna öll hin gríðarlegu óafturkræfu umhverfisspjöll Kárahnjúkavirkjunar sem eiga sér enga hliðstæðu í Evrópu.  

Hringferð um Jóstedalsjökul er lærdómsrík fyrir Íslending. Þar má sjá hvernig ná má sátt milli allra sem hlut eiga að máli ef þekking á náttúruverðmætunum og þeim möguleikum sem þau gefa, og lagni í mannlegum samskiptum er í fyrrirúmi.  

Ég hef enn ekki hitt neina aðra Íslendinga en okkur hjónin, sem hafa haft fyrir því að fara á þessar slóðir til að læra af reynslu Norðmanna.

Í þessum efnum virðist stundun gilda svipað og hjá Viðskiptaráði þegar það fullyrti í "gróðærinu" að til Norðurlandanna hefðum við ekkert að sækja, - við stæðum svo langt framar þeim.

Norsku firðirnir og hinn eldvirki hluti Íslands eru einu svæðin í Evrópu sem komast á lista yfir 40 merkilegustu náttúrverðmæti heims.

Íslensku firðirnir eru ekki á listanum og heldur ekki norska hálendið. Samt hafa Norðmenn ákveðið að láta hálendi sitt í friði.  

 

 

513331B
mbl.is Norsku firðirnir besti áfangastaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráð við sársauka.

Frábær forsíðumynd í Morgunblaðinu leiðir hugann að sársaukanum, sem við þurfum öll að glíma við á erfiðum stundum, - í mismiklum mæli þó.

Ég hef brugðið á það ráð að beisla hugann og ímyndunaraflið við svona aðstæður á þann hátt að koma mér út úr líkamanum, til dæmis í tannlæknastól.

Ég ímynda mér að ég horfi á stóran kringlóttan mæli á veggnum andspænis mér sem sýnir sársaukann frá 0 upp í 100. 100 er mesti mögulegi sársauki, sem veldur meðvitundarleysi, en mesti mögulegi sársauki frá hendi læknisins er um 50.

Síðan fylgist ég spenntur með mælinum sem sýnir sársauka minn og er þannig búinn að koma mér út úr líkamanum og fylgist með sem þriðja persóna, utanaðkomandi.

Sársaukinn er yfirleitt að rjátla í kringum 10-15 og kannski í mesta lagi upp í 20. Með þessari aðferð tekst mér að draga úr atferli skræfunnar sem blundar í okkur öllum.  

Þá sögu hef ég heyrt að þegar Haukur Clausen hafi gerst tannlæknir hafi einn af bestu æskuvinum hans, Steingrímur Hermannsson, lýst því yfir að aldrei skyldi hann þurfa að deyfa sig.

Mun Steingrímur hafa staðið við þetta heit. En Steingrímur er ekkert venjulegur maður. Leitun er að eins miklum keppnismanni og karlmenni og honum.


Hugurinn hjá vinunum.

Atvikin hafa því þannig að í gær og í dag hef ég verið á ferð um Brúaröræfi til þess að ganga frá útgerð minni þar fyrir veturinn með aðstoð míns góða vinar Þórhalls Þorsteinssonar. Blogga nánar um það þegar ég kem suður.

Ef ekki hefði háttað svona til hefði ég viljað sýna stórvini mínum Völundi Jóhannessyni hluttekningu og látinnar eiginkonu hans virðingu og þakklæti með því að vera viðstaddur útför hennar fyrir sunnan.

En hugurinn er ekki aðeins hjá þessum vinum mínum heldur ekki síður Flosa Ólafssyni, sem ég er raunar nýbúinn að blogga um.

Hafði raunar símasamband við hann vegna vísnanna eftir hann í bloggpistlinum og þá röbbuðum við á léttu nótunum um glímuna við Elli kerlingu og lífsins ófyrirsjánalegu sviptingar.

Nú berst það í fréttum að hann hafi lent í alvarlegu slysi. Megi honum farnast sem best við að glíma við afleiðingarnar af því. Áfram, Flosi ! Við hugsum til þín.


mbl.is Flosi Ólafsson töluvert slasaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agi, þekking og fyrirhyggja, - nei !

Við landnám Íslands hófst fyrsta íslenska "gróðærið", byggt á þeim hernaði gegn landinu sem fólst í skefjalausu skógarhöggi og beit.

Rannsóknir sýna að Ari fróði hafði rétt fyrir þegar hann segir 250 árum síðar að við landnám hafi landið verið viði vaxið milli fjalls og fjöru og að meirihluti þess viðarklædda lands hafi þá þegar verið búið að höggva og beita.

Orð Ara fróða sýna líka að menn vissu mætavel hvað þeir voru að gera og í hvað stefndi.

En þeir kærðu sig kollótta heldur sögðu það sama og íslenski ráðamaðurinn sagði fyrir tíu árum: "Það verður vandamál þeirra kynslóða sem þá verða uppi."

1262 neyddust Íslendingar til að beygja sig fyrir afleiðingunum af þessu landlæga agaleysi og skorti á fyrirhyggju. Aðeins Noregskonungur gat tryggt samgöngur við landið og frið í því.

Á átjándu öld var svo komið að Íslendingum fækkaði um fjórðung á sama tíma og Norðmönnum fjölgaði um helming. Viðleitni Landsnefndarinnar sem stofnuð var til að vinna að umbótum var unnin fyrir gýg vegna þess að hinn íslenski aðall, stórbændur og embættismenn hélt í völd sín af alefli.

Þegar Framtíðarlandið fer nú fram á eðlileg vinnubrögð við nýtingu landsins er það á skjön við þetta þjóðareinkenni Íslendinga sem Nóbelskáldið lýsti svo vel í grein sinni um hernaðinn gegn landinu.

Nú, á öld upplýsingar, hefur meðvitað þekkingarleysi bæst við agaleysið og fyrirhyggjuleysið.

Það þykir af hinu illa að kanna mál og fá yfirsýn yfir þau. Slíku er líkt við hryðjuverk, öfgar og þaðan af verra og talað um óvini einstakra landshluta og jafnvel þjóðarinnar allrar.

Í sumar átti ég í mestu erfiðleikum með að svara spurningum erlendra fjölmiðlamanna um íslensk virkjanamál.

Sama segir við mig Guðmundur bóndi Ármannsson á Vaði í Norðurbyggð á Héraði.

Ítalir sem spurðu hann gátu ekki skilið hann fyrr en hann prófaði þá skýringu að Davíð og Halldór hefðu gert hrossakaup. "Þú styður einkavæðinguna" sagði Davíð "og þá skal ég koma virkjununum þínum í gegn." Þetta skildu Ítalirnir. "Aha, Berlusconi" sögðu þeir.

 


mbl.is Vilja öguð vinnubrögð um stórframkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar.

Það eru nýir tímar. Tímar þar sem litlu skiptir hvort hér er kreppa eða hvernig fjármálalegum og stjórnmálalegum samskiptum okkar við umheiminn eru.

Hér, eins og annars staðar, ryður sér til rúms starfsemi á borð við Vítisengla og annarra glæpasamtaka, sem þekkja engin landamæri.

Kreppan hefur þó áhrif til ills ef löggæslan verður veikt um of.

"Gróðærið" færði okkur svimandi flókin lagaleg úrlausnarefni sem kallar á mannskap og löggjöf til að bregðast þannig við því að við ráðum við afleiðingarnar af hruninu og færum komandi kynslóðum lærdóma og umbætur.

Þetta eru tímar stórra áskorana sem verður að taka svo að hinir nýju tímar verði, þrátt fyrir allt, betri tímar.


mbl.is Mansal, þjófnaður og fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árekstur olíuskips við borgarísjaka 2005.

Fyrir fjórum árum varð það óhapp norður af Íslandi að stórt olíuskip rakst á borgarísjaka og laskaðist talsvert.

Skipið laumaðist inn til Hafnarfjarðar til bráðabirgðaviðgerðar og lét sig síðan hverfa, en íslensk yfirvöld höfðu enga vitneskju um þetta fyrr en síðar.

Þetta kom aldrei í fréttum en fulltrúi frá ráðuneyti upplýsti þetta á fundi um olíuhreinsistöðvar á Bíldudal í fyrra.

Þrátt fyrir að mikið sé gumað af nákvæmni gervitunglamynda var talið að svæðið sem skipið sigldi um væri íslaust og gervitunglamyndir bornar fyrir því.

Hugsanlega er það ekki spurning um hvort heldur hvenær olíuslys verður við Ísland. Miklu munar hvort það verður fyrir austan land eða vestan vegna hafstrauma sem streyma norður með vesturströndinni og Vestfjörðum og þaðan til austurs með norðurströndinni.

Þetta snertir ekki aðeins fiskimiðin heldur ekki síður fuglalífið í þremur stærstu fuglabjörgum Evrópu, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi.

Ég hef kynnst því af eigin raun á siglningu meðfram Látrabjargi að enda þótt mönnum sýnist fuglarnir vera að mestu í björgunum eru lítið færri á sjónum og í kafi.  

Það er full ástæða til þess að vera á varðbergi og fylgjast með því sem virðist vera fylgifiskur vaxandi olíuflutninga við landið.  


mbl.is Gæslan fylgist með olíuskipi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmerk kona.

Emilíana Torrini náði eyrum mínum fyrir allmörgum árum, ekki aðeins með tónlist sinni, heldur ekki síður vegna útvarpsviðtals við hana sem sýndi hve mikið er spunnið í þessa konu.

Viðtalið var tekið nálægt jólum og ég minnist svars hennar þegar hún var spurð hvað henni fyndist best við jólin. Hún svaraði: "Þá kemur ein helgi á árinu sem maður er laus við "skyldudjammið."

"Skyldudjammið" felst í því að vera á ferli á skemmtistöðum Reykjavíkur fram eftir nóttum um helgar, og miðað við fréttaflutning af því á hvaða krá hver var virtist ljóst, að til þess að vera sjáanlegur í umræðunni þyrfti fólk að vera þar, helst um hverja helgi.

Emilíana virðist ekki áfram um að auglýsa sig mikið hér heima, enda þarf hún þess ekki lengur.

Hún kemur þó víða við og á ólíklegustu stöðum, bæði erlendis og hér á landi.

Í bílasafninu að Ystafelli er til dæmis bíll sem hún hefur gefið safninu.

Það er bíll afa hennar, tónlistarmannsins Aage Lorange, af gerðinni Sunbeam Rapier. Flottur sýningargripur.

Það yljar þessa erfiðu daga í lífi þjóðarinnar að eiga konu eins og Emilíuönu Torrini.


mbl.is Emilíana Torrini og félagar hafa verið á flandri um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrstu aðvaranir Gunnars.

513176A

Undanfarna tvo áratugi hefur Gunnar Tómasson gagnrýnt harðlega þá lausbeisluðu fjármálastefnu sem fór eins og eldur í sinu um heiminn á Thatcher-Reagan-tímabilinu.

Hann spáði því að þetta myndi ekki geta staðist til lengdar og varð sannspár.

Um mitt sumar 2008 varaði hann sterklega við því hvert hin gríðarlega skuldsetning Íslendinga myndi leiða þjóðina og varð líka sannspár í því.

Á þeim tíma höfðu hvorki fjölmiðlar né almenningur hugmynd um hve djúpt þjóðin var sokkin. Tölurnar sem Gunnar hafði þá dregið saman voru margfalt stærri en nokkurn óraði fyrir. 

Sú staðreynd er áfellisdómur yfir fjölmiðlum og stjórnvöldum á tímum "gróðærisins".

Gunnar er maður sem vert er að hlusta á og taka mark á.

Hann er ekki óskeikull frekar en aðrir dauðlegir menn og það er oft erfitt að spá fyrir um flókna hluti.

En ferill hans og greining fjármálakerfis heimsins síðustu tuttugu árin auk mikillar reynslu á sérsviði hans gefa til kynna að þarna fari maður sem hafi haft oftar og lengur rétt fyrir sér en nokkrir aðrir.


mbl.is Krónuskuld í gjaldeyrisskuld við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gef oss í dag vort daglega álver...

Það má alveg orða síbyljubænina um stanslausar virkjanaframkvæmdir og álver á ofangreindan hátt því nær daglega hljómar söngurinn um að allt fari til fjandans nema þetta sé gert sem hraðast og örast. 

Þegar þetta er endurtekið svona ótal sinnum dögum, mánuðum, árum og áratugum saman er það eins og að skvetta vatni á gæs að reyna að beita rökum, sem enn hafa ekki verið hrakin, gegn þessari stefnu. 

Söngurinn um virkjanirnar og álverin er bara hækkaður og sunginn oftar eins og sést einu sinni enn á fréttinni um að allt sé í uppnámi vegna Suðvesturlínu. 

Nú síðast í fyrradag í Silfri Egils var alveg sama hvaða rökum ég gat komið inn á ská á milli þess sem sessunautur minn söng sinn daglega söng um virkjanir og álver, - þau bitu þau ekki vitund á hann.

Ég hefði alveg eins getað þagað hvað hann snerti. 

Hann svaraði þeim ekki, enda gat hann ekki hrakið það sem ég sagði um að sex risaálver sem tækju alla orku landsins og rústuðu einstæðri náttúru þess gæfu aðeins 2% af vinnuaflinu atvinnu og í mesta lagi 8% ef við margföldum með fjórum vegna svonefndra afleiddra starfa.

Nei, hann byrjaði aftur á því sama: Já, en það verða koma virkjana- og álversframkvæmdir strax.

Ekki beit það heldur þegar honum var bent á að séu sköpuð x þúsund störf við skammvinnar framkvæmdir verða sömu x þúsund manns atvinnulausar þegar framkvæmdunum lýkur. Þarna væri um algera skammsýni að ræða, ekkert horft fram á við né tillit tekið til komandi kynslóða.

"Að sjálfsögðu tökum við tillit til komandi kynslóða" sagði Guðbjörn og hélt síðan áfram sama söngnum eins og ekkert hefði í skorist. Greinilega þjálfaður söngmaður sem kann óperuhlutverk sín af lærðri þýskri nákvæmni og víkur ekki frá þeim.  

Þegar þetta hafði gengið tvisvar eða þrisvar sinnum kom söngurinn um að ég væri einn af þessum öfgamönnum sem værum á móti gagnaverum, þjónustu á Keflavíkurflugvelli, kísilverksmiðju, uppsetningu heilbrigisþjónustu og ég veit ekki hverju.

Ég reyndi að koma því inn á ská að ég væri ekki og hefði aldrei verið á móti neinu af þessu en það haggaði honum ekki. Ég var samt öfgamaður að hans áliti og Ólöf Nordal tók undir sönginn um öfgarnar.

Það gafst ekkert ráðrúm til að svara því til að svonefndar öfgar fælust í því að vilja þyrma einu horninu af Hellisheiði og hætta að pumpa svo mikilli orku upp að svæðið entist ekki nema í nokkra áratugi og þar með væri gengið á rétt komandi kynslóða.

Sessunautur minn var skemmtilegur og hress, það má hann eiga, og það var fjör.

Ekki hvað síst þegar hann lýsti því hve slæmir Vinstri grænir væru vegna klofnings en hældi síðan í næsta orði Sjálfstæðisflokknum fyrir að vera þverklofinn í ESB-málinu og margklofinn í sumum málum !

Þegar Alcoa kom til sögunnar á Austurlandi á sínum tíma lýsti talsmaður þeirra yfir því að samningar og undirbúningur á Íslandi gengi sjö sinnum hraðar fyrir sig en í öðrum löndum.

Eitt af mörgum dæmum um það var að mikilvægum undirbúningsatriðum, svo sem tilraunaborunum á misgengissvæðum var sleppt undir kjörorði fjölmiðlafulltrúa Landsvirkjunar: "Við ætluðum í gegn þar hvort eð var." 

Þeir voru lánsamir að sleppa með skrekkinn. 

Nú eru umhverfisráðherrar sakaður um skemmdarverk á Norðausturlandi og Suðvesturlandi þegar þeir viðhafa þá sjálfsögðu verkreglu að skoða stórframkvæmdir í heild en ekki í bútum jafnóðum og þær fara fram.

Í staðinn að kenna þeim um ætti að leita orsakanna hjá þeim sem vilja keyra allt áfram af fullu ábyrgðarleysi á ofurhraða, sem ætla í gegn hvort eð er, hvernig sem allt veltist.  

 

 


mbl.is Sáttmálinn í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband