21.10.2008 | 14:44
Öll dýrin í skóginum vinir. Bull og vitleysa !
Kannski er viturlegustu setninguna um atburði síðustu vikna að finna í munni Mikka refs í Dýrunum í Hálsaskógi. Þegar lesin eru upp lög Hálsaskógar: "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Ekkert dýr má éta annað dýr", svarar Mikki: "Bull og vitleysa." Hann veit sem er að þessu góða takmarki verður aldrei náð til fulls.
Kommínisminn og óheftur kaptílisminn gleymdu því að fólk er misjafnt, gleymdu mannlegu eðli og breyskleika. Það er sjálfsagt að reyna með öllum mætti að stefna að því að öll dýrin í skóginum séu vinir en í mannlegu samfélagi verður fullkomnun aldrei náð.
Tilurð krónubréfanna eða jöklabréfanna ein hringdi strax bjöllum um það að í óefni gæti stefnt og að Murphyslögmálið gæti virkað óþyrmilega, - þess efnis að ef eitthvað gæti farið úrskeiðis myndi það gera það fyrr eða síðar. Þessi bréf voru fyrst og fremst afleiðing af rangri vaxtastefnu Seðlabankans sem var grundvöllur fyrir þau og innflutnings-neyðsluæði á grundvelli allt of hás gengis krónunnar.
Neysluæðið byrgði landsmönnum sýn og eðlilegri varkárni og tortryggni gagnvart því að allt léki í lyndi. Innlendir gagnrýnendur voru stimplaðir kverúlatar og erlendir gagnrýnendur óvinveittir öfundarmenn.
Ég minnist þess að hafa í fyrra í bloggskrifum líkt þessum bréum við Daemoklesarsverð sem Seðlabankinn hefði látið hengja upp yfir landsmönnum og enginn vissi hvenær hendurnar sem héldu á þessu sverði létu það falla.
Þær hendur voru margar og á ýmsum öðrum sviðum inni í spilaborg fjármálaheimsins gátu einhverjir séð sér hag í því eða fundið til valds síns með því að koma skriðu af stað þar sem það var hægt.
Tölvutæknin er dásamleg uppgötvun sem ætti að laða fram það jákvæða í öllum. En hvers vegna eru þá til tölvuþrjótar? Af því að dýrin í skóginum eru ekki öll vinir. Því miður.
![]() |
Íslands-heilkennið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.10.2008 | 00:31
Ofþenslan gerir þetta verra.
Svo einkennilega sem það hljómar er þjóðin kannski verr undir það búin að takast á við áföll og eignamissi en ef hér hefði verið nokkuð eðlilegt ástand áður en hinn mikli skellur kom. Vegna ofþenslunnar og lánabrjálæðisins hefur verið byggt alltof mikið og mikið af því of stórt. Þess vegna er engin eftirspurn eftir húsnæði, heldur stefnir í offramboð af of stóru húsnæði sem selst ekki.
Fólk sem vildi geta dregið saman seglin og spara fasteignagjöld, hita, rafmagn og viðhald með því að selja og kaupa minna húsnæði í staðinn getur það ekki.
Það er hægt að gera ráðstafanir til að selja bíla úr landi, en allt of stór hluti þeirra er af dýrari gerðum sem ekki er markaður fyrir í samdrættinum í heiminum. Engin leið er að selja hús úr landi. Tónlistarhúsið er óseljanlegt og ekki hægt að minnka það.
Það er því alveg áreiðanlega rétt hjá Gunnari Þorlákssyni að atvinnuhorfurnar séu mun veri en gert er ráð fyrir. Vandræðin eru rétt að byrja.
Í sjónvarpsfréttum nýlega var fólk spurt um kreppuna 1929. Þar var nefnt skakkt ártal því að áhrifa kreppunnar fór ekki að gæta hér á landi að marki fyrr en ári síðar. Sumarið 1930 var vígt fullt af nýjum byggingum og nýjar stofnanir voru teknar í notkun og haldin fyrsta glæsihátíð landsmanna, Alþingishátíðin.
Stjórn íhaldsmanna hafði gert þau mistök að hækka gengi krónunnar (Seðlabankinn stóð að hinu sama undanfarin ár) og Jónas frá Hriflu og vinstri stjórnin fór út í mklar framkvæmdir.
Siðan kom skellurinn og átökin, svo sem Gúttóslagurinn 1932, og 1936 voru af því fregnir að landið rambaði á barmi gjaldþrots og hinir erlendu lánardrottnar, einkum Bretar, orðnir mjög órólegiir.
Kreppan náði nýjum botni 1939 vegna borgarastyrjaldarinnar á Spáni og lokunar saltfiskmarkaðarins þar. Kveldúlfur, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, fór á hliðina og mynda varð þjóðstjórn. Hambrosbanki í London hefði annars líklega getað heimt landið upp í skuld.
Stríðið og stríðsgróðinn bjargaði okkur úr snörunni en skóp hugsanlega þann brest "þetta reddast einhvern veginn" -hugsunarinnar sem alltaf hefur loðað við okkur. Við áttum stríðsgróðann ekki skilið þótt við misstum marga sjómenn og því síður Marshallaðstoðina. Kem að því nánar síðar.
![]() |
Staðan verri en af er látið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.10.2008 | 13:20
Illskásti kosturinn?
Ef samstarf við IMF er eina leiðin til að opna aðrar leiðir til björgunar eins og Vilhhjálmur Egilsson, sem unnið hefur hjá sjóðnum, telur, er þetta líklega skásti kosturinn í hrikalegri stöðu. Þegar fíklinum er kippt í meðferð kostar það mikið átak. Tjóar þá lítið að streitast við að halda áfram gömlu gjaldþrota "þetta reddast einhvern veginn"-stefnunni.
Vilhjálmur telur að hugsanlegt Rússalán og aðstoð annarra þjóða "smellpassi" við ramma IMF.
Þó er lítið hægt um það að segja um þetta fyrr en lánskjör og skilyrði liggja fyrir. Hitt er ljóst að töf á því að leita þessarar leiðar hefur valdið óhemju tjóni þegar milljarðatugir brenna upp á hverjum degi, en um slíkt þýðir víst ekki að fást að svo stöddu. Aðalatriðið er að lausnin sé viðráðanleg en ekki fólgin í því að binda svo þungar klyfjar á landsmenn að hér verði landflótti.
![]() |
Óska eftir 6 milljörðum dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.10.2008 | 11:36
Af hverju "áhugi Japana?"
Einhverns staðar sá í gær að undrast var hvers vegna Íslendingar létu sér fátt um finnast að Japanir gætu verið okkur vinveittir og veitt hjálp, ekkert síður en Rússar. Hið sanna er nú að byrja að koma í ljós, - stórfelld vanskil í Japan sem bæta enn einni, - og líkast til ekki síðustu þjóðinni inn á listann yfir þau lönd þar sem bréf, kennd við Ísland, valda usla.
Hver dagurinn sem leið í þögn um þetta var dagur í senn.
Nú er bara að vita hvort brugðið verður samuræjasverði verði brugðið á loft þar austur frá í ætt við beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi.
![]() |
Vanskil af samúræjabréfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2008 | 09:56
"Skömmin mun uppi um þúsundir ára."
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" sem rituð var snemma árs 2004 er fjallað um þann hluta græðgisfíknarinnar og ofbeldis gagnvart komandi kynslóðum sem snýr að virkjanaframkvæmdum og var upphafið á því fjárhagslega fíkniefnapartíi sem nú hefur endað með skelfingu.Ég tek nokkrar setningar á blaðsíðu 17 í kafla sem ber yfirskriftina "Skömmin mun uppi um þúsundir ára":
"Virkjanafíknin er óstöðvandi og auðséð að ekki er hægt að halda svona áfram endalaust. Og hvað tekur þá við? "Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá lifir" er eina svar virkjanasinna. "Það lafir meðan ég lifi" sagði Frakkakonungur og hélt áfram á braut sem hlaut að enda með ósköpum. Það kom svo í hlut síðari kynslóða að fást við afleiðingar eigingirni hans. Nú er að hefjast eitt stærsta efnahagslega fíkniefnapartí í sögu þjóðarinnar. Strax í upphafi (áður en framkvæmdir hófust) varð þensla sem Seðlabankinn fann út að stafaði nær eingöngu af auknum viðskiptum á krítarkortum og á vordögum 2004 er eytt fjórfalt meira fé til uppkaupa á fyrirtækjum en til stóriðju. Það verður fjör og allir verða að vera með, - annars eru þeir ekki samkvæmishæfir."...
..."Og öllum líður svo vel í þensluvímunni, það er svo gaman."...
..."En það þykir henta að kalla þá sem andæfa svallveislunni öfgamenn. Og eins og oft vill verða í slíkum samkomum verður allt brotið og bramlað í húsnæðinu..."
Ef mig hefði aðeins grunað vorið 2004 þegar ég skrifaði þessi orð, hve stutt var í þessi endalok og að svallveislan yrði sú langstærsta í sögu þjóðarinnar og hlutfallslega einhver stærsta efnahagslega svallveisla heims með afleiðingum sem blasa við öllu mannkyni aðeins fjórum árum eftir að bókin var skrifuð.
![]() |
Stjórnvöld skilningslaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.10.2008 | 09:19
Raunveruleg hætta.
Ástæða er til að íhuga ummæli Úlfs Erlingssonar í Silfri Egils í gær þar sem hann spyr, hvort fjölmiðlamaður, sem berst fyrir því að halda starfi sínu í kreppu, eigi ekki takmarkaða möguleika á að velta við ýmsum steinum í þjóðlífinu, þar sem það geti komið sér illa fyrir eigendur fjölmiðilsins.
Afleiðing af slíku verður versta fyrirbærið í fjölmiðlun, óhæfileg sjálfsritskoðun. Það fyrirbæri þekki ég vel af eigin raun, einkum frá árunum 1999-2006, allt frá því að fram fór sérstök rannsókn á vegum útvarpsráðs á fréttaflutningi mínum vegna ásakana um hlutdrægni mína og misnotkun á aðstöðu minni. Meðal annars var því haldið fram að ég einokað fréttaflutning af virkjanaálum á fréttastofunni.
Þótt rannsóknin hreinsaði mig af þessum áburði varð þetta og sífelldur þrýstingur og ásakanir utan frá til þess að smám saman neyddist ég til að stunda æ harðari sjálfsritskoðun til þess að minnka líkurnar á þeim óþægindum sem þetta olli að sjálfsögðu fyrir fjölmiðilinn, sem ég vann fyrir. Dugði ekki til þótt efld fréttastofa á Egilsstöðum tæki smám saman að mestu yfir fréttaflutning af framkvæmdum eystra.
Sjálfsritskoðun mín birtist meðal annars í því að flytja helst ekki frétt af virkjanaframkvæmdum, sem hægt var að túlka sem neikvæða fyrir þær, nema að ég flytti að minnsta kosti aðra jákvæða frétt um svipað leyti.
En að lokum var svo komið að þetta dugði ekki, ekki einu sinni það að flytja tvær jákvæðar fréttir fyrir eina neikvæða. Fréttaflutningur minn af fyrirlestri Louis Crossley var endastöðin á þessu ferli. Hún flutti fyrirlestur um virkjun í Franklin-ánni á Tasmaníu, sem tókst að stöðva, og í viðtali við mig taldi hún Kárahnjúkavirkjun enn verri virkjun því að svæðið myndi nýtast betur á heimsminjaskrá UNESCO.
Ég átti að vísu uppi í erminni mjög jákvæða frétt frá Kárahnjúkum en þorði ekki að "skúbba" með viðtalinu við Crossley, heldur beið, og var svo heppinn að Mogginn birti viðtal við hana. Þar með hélt ég að ekki yrði hægt að ásaka mig fyrir að "grafa upp" umdeilanlegar hliðar virkjunarinnar.
Ég hagaði því svo til að bjóða fréttirnar tvær fram um helgi þegar slíkt var vel þegið og voru þær birtar með dags millibili. En það dugði ekki, fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði kvartaði samt yfir Crossley-viðtalinu.
Þar með var þetta ástand, samvisku minnar vegna, orðið óbærilegt. Ég gat hvorki lagt það á samstarfsfólk mitt og fréttastofu að liggja undir stöðugu áreiti né heldur gat ég varið sjálfsritskoðun mína lengur fyrir sjálfum mér.
![]() |
Áhyggjur af fjölmiðlum hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.10.2008 | 20:40
Eins og talað út úr mínu hjarta.
Því miður þurfti hrun bruðls- og græðgisvæðingarinnar til að loksins fengist tækifæri til að líta á það sem allan tímann hefur verið eina færa leiðin út úr vanda landsmanna ef koma í veg fyrir að unga fólkið flýi land.
Kosturinn sem Björk og félagar bjóða upp á er svo miklu betri en felst í bænarskjali sveitarstjórnarmanna um álver með tilheyrandi spjöllum á mestu verðmætum landsins, nýrri skuldsetningu til framkvæmda um stundarsakir og nokkur hundruð störfum sem í auglýsingum Alcoa eru auglýst þannig að enga sérstakrar menntunar sé krafist.
Varnarlínan hefur alltaf legið í Leifsstöð og unga fólkinu verður því aðeins haldið á landinu að skapa því aðstæður til skapandi starfa sem byggja á hugviti og menntun. Á ótal alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða hefur þetta verið niðurstaðan. Ungt vel menntað fólk verður að fá tækifæri, annars leitar það annað.
Það verður ekki um kyrrt í verksmiðjusamfélagi á útskeri við Norður-Íshafið þar sem kreppa hefur haldið innreið sína.
Ef unga fólkið fer vantar fólk á besta aldri til að leggja verðmæti í þjóðarbúið til að halda uppi lágmarks velferð fyrir unga, aldraða og sjúka. Nú eru stóru kynslóðirnar frá miðri síðustu öld að verða gamlar og skapa auknar byrðar fyrir heilbrigðis-og velferðarkerfið.
![]() |
Róttæk endurskoðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.10.2008 | 14:56
Hin mikla afneitun.
Jón Baldvin Hannibalsson fór á kostum í Silfri Egils í dag rétt eins og hann gerði fyrir einu og hálfu ári. Þá flutti hann líka í Hafnarfirði bestu ræðu um íslensk virkjanamál sem ég hef heyrt. Jón Baldvin er eini Íslendingurinn sem hefur lært sérstaklega í háskóla til að verða forsætisráðherra á sama tíma og Seðlabankastjóri okkar er viðundur meðal Seðlabankastjóra heimsins.
Ég hef margsinnis bent á í bloggpistlum mínum að fyrstur til að axla ábyrgð á strandi íslensku þjóðarskútunnar ætti að vera Davíð Oddsson í stað þess að þvælast fyrir, skrökva að þjóðinni að hann hafi hvergi nálægt komið og halda áfram að vera hindrun í vegi fyrir óhjákvæmilegri björgun með hjálp aðvífandi björgunarmanna.
Trúi ég þá svo ótrúlegum hlut að seðlabankastjórinn þvælist fyrir? Því miður verð ég frekar að trúa því heldur en hinu alveg eins og ég neyddist til að trúa því sem ég sá með eigin augum í beinni útsendingu erlendis þegar hann rúði þjóðina endanlega öllu trausti á nokkrum mínútum.
Það er langt síðan að honum hætti að vera sjálfrátt, því miður. Það hefur gerst áður að gáfuðustu menn hafa neitað að horfast í augu við skipbrot sitt og afneitunin verið alger og yfirþyrmandi. Verst er þegar slíkt dregur hundruð þúsunda annarra með sér.
![]() |
Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.10.2008 | 12:32
Einhverjir aðrir en fíkillinn.
Flóttinn er hafinn frá þeirri staðreynd að íslensk áhættu- og bruðlfíkn var fyrst og fremst það sem lagði íslenskan þjóðarauð í rúst. Notkun Breta á hryðjuverkalögum er að sjálfsögðu fordæmanleg en það er mikil einföldun að samantekin ráð seðlabanka nágrannalandanna hafi ein fellt hina íslensku spilaborg.
Þeim hefur að sjálfsögðu verið ljós sú staðreynd að íslenski seðlabankastjórinn var vanhæfur og viðundur meðal þróaðra þjóða, ráðinn á svipaðan hátt og gerist í hjá vanþróuðum þjóðum með landlæga spilingu.
Hann gerði hver mistökin af öðrum og með endemum var framganga þeirra Íslendinga sem lengst gengu í fylleríispartíinu og hrifu marga grandalausa með því að leyna staðreyndum. Nú stendur fyrir dyrjum að borga tjónið eftir því sem það er hægt og þrífa til.
Lítið er minnst á það að það eru einkum tveir aðilar sem eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur. Það eru annars vegar við sjálf og hins vegar kerfi undirmálslána, vogunarsjóða og spillingar í fjármálakerfi Bandaríkjanna.
Þegar fíkillinn ekur ofurölvi á ofsahraða í hálku og stórskemmir bíla á bílastæði og höfuðkúpbrotnar kennir hann hálkunni um og tínir sem flest annað til en þá staðreynd að hann þurfi að fara í meðferð og endurhæfingu.
Þegar reiður eigandi bíls á stæðinu ræðst á fyllibyttuna og lemur hana verður þessi óafsakanlega árás að aðalatriðinu í huga fíkilsins að ekki sé nú talað um þá vanrækslu á því að eyða hálkunni við stæðið.
![]() |
Þeir felldu bankana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.10.2008 | 20:58
Mótsagnir álframleiðslunnar..
Mótsagnir álframleislunnar á Íslandi felast meðal annars í því að með því að bjóða Alcoa lægsta orkuverð heims 1995 auk ótal annarra fríðinda þegar samið var 2002 þegar stuðlað að því að fyrirtækinu væru tryggðar eins miklar tekjur og unnt væri á kostnað Íslendinga. Vísa til góðrar greinar Andra Snæs Magnasonar í Fréttablaðinu um það efni.
Íslendingar tóku hins vegar áhættu með því að láta orkuverðið sveiflast upp og niður í takt við heimsmarkaðsverð á áli. Þegar þetta heimsmarkaðsverðið lækkað getur það orðið til þess að arður af Kárahnjúkavirkjun fari niður í nánast ekki neitt eða að beinlínis verði tap á sölu raforkunnar vegna mikilla skulda Landsvirkjunar.
1990 vantaði ekki viljayfirlýsingar og samningaviðræður vegna álvers á Keilisnesi og Fljótsdalsvirkjunar alveg fram á síðustu stundu þegar allt fór skyndilega út um þúfur. Ástæðan var samdráttur í álsölu. Nú stefnir í verri kreppu en þá og því ættu menn að fara í það þegar í stað að finna aðrar leiðir í takt við finnsku leiðina til að berjast við kreppuna hér heima í stað þess að bíða eftir mun verri lausn.
![]() |
Fylgjast náið með niðursveiflu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)