12.10.2008 | 22:40
Þarf að horfa fram á veginn.
Þegar haldið er inn á hættulegan óveg er nauðsynlegt að reyna að gera sér grein fyrir því hvað framundan er. Þegar eldur fer hamförum um fjármálakerfi heimsins troðast hinir minnstu, í þessu tilfelli Íslendingar, fyrst undir á flóttanum. Það hefði mátt sjá fyrir og þar með það að það voru engir góðir kostir í stöðunni, aðeins misjafnlega slæmir og að þeir gætu orðið verri.
Ég held að þeir menn hafi ekki horft nógu langt fram á veginn, sem töldu að ekki ætti að leita til IMF vegna þess að þess þyrfti ekki og að það myndi særa stolt okkar.
Sömuleiðis hafa menn lýst áhyggjum af þeirri bindingu sem við göngumst undir með þessu. Rétt er það, að það er margt að varast við að gangast undir þetta jarðarmen en eigum við nokkrra aðra skárri kosti?
Eða ölllu heldur, verða þessir kostir ekki fyrr eða síðar allir uppi á borðinu? Engin leið er að sjá hvernig þessir kostir liggja fyrir nema að skoða þá alla í viðræðum við viðkomandi aðila. Ef viðræðurnar við IMF leiða til niðurstöðu sem felur í sér meiri hættu á að við glötum yfirráðum yfir auðlindunum í hendur aðilum, sem hugsa aðeins um stundargróða en ekki hvernig við skilum landinu til afkomendanna, þá verður að sjálfsögðu að hafna slíku og sjá hvort annað skárra bjóðist.
Þegar fleiri kostir eru skoðaðir sést að jafnvel fleira að gæti verið að varast þar en við samninga við IMF.
Aðalatriðið er að komast út úr þessum samningum á sem skástan hátt og versti endirinn væri sá að lenda í klóm á aðila sem einn hefur ráð okkar að lokum í hendi sér og samningsstaða okkar því engin.
![]() |
Fundað stíft með IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.10.2008 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.10.2008 | 17:58
Stærsta sýning heims.
Skafárhlaupið er atriði í því sem ég vil kalla "The greatest show on Earth", stærstu sýningu í heimi. Eldvirkni undir Vatnajökli, sem á sér enga hliðstæðu í veröldinni bræðir jökulinn ofan á sér uns flóð brýst fram. Flóðið er allt í senn, hrikalegt, aurugt, úfið og ótrúlega fallegt, enda liggur leið þess um óviðjafnanlegt landslag með Eldgjá á aðra hönd og Lakagíga á hina.
Í nokkrar aldir er spilaður kafli í sýningunni sem kalla mætti sandkaflann, þegar áin, fóðruð af jarðhita og ísi, leitast við að fylla eldhraunið sem myndaðist í stærsta gosi á sögulegum tímum árið 1783. Þessi þáttur er í gangi núna. Sandurinn sækir nú að syðstu gígum Lakagígaraðarinnar og smám saman munu góðir veiðilækir í Landbroti líklegast þorna upp eða færast til.
Eftir nokkrar aldir mun síðan væntanlega verða stórgos af svipaðri gerð og Eldgjárgosið 930 og Skaftáreldar 1783 og nýtt eldhraun renna yfir sandinn og gömlu eldhraunin. Þar á eftir kemur næsti sandkafli og svona koll af kolli.
Nú verður hart sótt í það að veita Skaftá yfir í Langasjó og drekkja þessu fallegasta fjallavatni Íslands í auri til þess að fá aukna raforku í virkjanakerfi Tungnaár og Þjórsár, kannski á við hálfa Blönduvirkjun. Með þessu þykjast menn ætla að bjarga syðstu Lakagígunum og lækjunum í Landbroti.
Á ráðstefnu um þetta mál kom fram að aðeins væri hægt að fresta þornun lækjanna í Landbroti um nokkra áratugi. Aðeins er um ræða örfáa gíga í enda hinnar 35 kílómetra löngu Lakagíga.
Á tímum þegar allt snýst um peninga og bruðl langt umfram þarfir virðist engum koma í hug að peningar geti verið fólgnir í því að varðveita stærstu sýningu veraldar og selja inn á hana ef peningar eru það eina sem skipta máli. Frekar á að eyðileggja fallegasta fjallavatn Íslands og klára allt sem virkjanlegt er fyrir orkuverð á útsöluprís.
![]() |
Hlaupið tekið að sjatna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.10.2008 | 14:34
Nauðsynleg kaflaskil í sögu flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stór flokkur, svo stór að innan hans má finna allt að því þverskurð íslensks samfélags. Að sumu leyti hefur hann verið eins og regnhlífarsamtök og farnast undravel að haldast saman sem heild. Nú er nauðsynlegt fyrir flokkinn að gera gagngera endurskoðun á starfi sínu og stefnu.
Um 1980 hófst tímabil á Vesturlöndum, sem í framtíðinni verður kennt við Reagan og Thatcher. Þau stóðu fyrir stefnubreytingu til hægri sem höfðu áhrif um allan heim. Vegna þess að stefna Reagans í utanríkismálum kom fram á réttum tíma féllu Sovétríkin og í kjölfar þess fylgdi enn meiri útbreiðsla hins nýja kapítalisma, meira að segja undir verndarvæng alræðisstjórnar kommúnista í Kína.
Hér á landi var gömlu, skaðlegu og úreltu hafta og sérhagsmunagæslukerfi rutt í burtu og okkur loks komið að fullu inn í samfélag vestrænna þjóða með viðskipta- og atvinnufrelsi í gegnum EES. Upp úr aldamótum reis enn ný og undrahá gróða- og útþenslualda.
Allan þennan tíma horfði hið vestræna samfélag fram hjá því að ein af höfuðundirstöðum hinnar nýju velmegunar byggðist á óhæfilegri áhættu sem fólst í því að Bandaríkin voru rekin með svimandi háum viðskiptahalla sem knúinn var áfram með óheyrilegri skuldasöfnun um allan heim.
Meðan allt lék í lyndi skrúfaði þetta upp verðmætamat og starfsemi sem var ekki var byggð á raunverðmætum heldur huglægu mati sem var á skjön við raunveruleikann. Rétt eins og útþensla hins opinbera kerfis hafði verið meiri en þörf var fyrir (lögmál Parkinssons) varð útþensla hins græðgisknúna frjálshyggjukerfis langt umfram raunverulegar þarfir.
Af ýmsum orsökum og fyrir heppni viðgekkst þetta miklu lengur en búast hefði mátt við og fólk var farið að trúa því að endanlega lausnin væri fundin, þessi tegund kapítalisma hefði sigrað og kommúnisminn tapað.
Nú er runnið upp augnablik sannleikans og endurmat og rótttæk endurnýjun verður að eiga sér stað á rústum þess sem hrunið er. Enginn flokkur þarf eins á því að halda og Sjálfstæðisflokkurinn, helsta vígi einkaframtaksins á Íslandi. Það er lífsnauðsyn fyrir flokkinn að gera þetta ef hann á að geta haldið áfram hlutverki sínu á hægri væng íslenskra stjórnmála.
Ef hann gerir það ekki mun illa fara fyrir honum. Flokkurinn hefur áður staðið framm fyrir því að kaptílaisminn hafi beðið hnekki en það var í kreppunni miklu. Flokkurinn fékk að vísu 48% fylgi í kosningum 1931 en þá var tekist á um kjördæmamál og þá ólýðræðislegu skipan að mikill minnihuti landsmanna gæti fengið meirihluta á þingi.
Nú er staðan önnur. Þúsundir Íslendinga sem beinlínis ætluðu að nýta sér græðgisvæðinguna sitja eftir með sárt enni. Engin smjörklípuaðferð mun geta komið Sjálfstæðisflokknum til hjálpar.
![]() |
Tár felld á flokksráðsfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2008 | 00:02
Brunni skógurinn í Yellowstone.
Ég var að koma heim frá 15 daga ferð um Bandaríkin en þar af mátti flokka 11 daga sem vinnuferð. Einn dagur fór í óvænt veikindi. Meginviðfangsefni ferðarinnar var að taka á móti viðurkennningu í San Fransisco og Los Angeles (ekki veitir af smá erlendum gjaldeyri þessa dagana í þjóðarbúið) en við hjónin notuðum ferðina til að koma við í Yellowstone með skógarbrunann mikla 1988 sem meginþema.
Við komum þangað í kvikmyndaferð á vegum Sjónvarpsins 1999 þegar nýgræðingurinn var að spretta upp á rústum hins brunna skógar. Það var áhrifamikið en enn áhrifameira að koma nú og sjá muninn frá því 1999. Ég mun kannski greina nánar síðar frá því erindi sem skógarbrunarnir miklu eiga við okkur Íslendinga sem hliðstæða þess sem við gætum gert á Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu.
En á leið frá Yellowstone upplaukst fyrir okkur önnur hliðstæða brunans, - sem sé við þann bruna sem fer nú um íslenskt þjóðfélag.
Í Yellowstone kom í ljós að þeir hlutar skógarins brunnu helst þar sem trén voru orðin gömul, feyskin og þurr og ekki lengur heilbrigð og voru því betri eldsmatur en hin yngri tré. Niðurstaða rannsókna þarna bendir til þess að með sirka 100-200 ára millibili leiðir íkveikja af eldingum í sjaldgæfum þurrkum það af sér að skógarbrunarnir ná að verða sérlega stórir vegna þess hve stórir hlutar skógarins eru orðnir gamlir og fúnir.
Brunarnir eru því eðlilegur hluti af nauðsynlegum kynslóðaskiptum og það fyrirbæri garðsins sem skilur mest eftir í huga aðkomumannsins vegna þess hve vel því er komið til skila á safni, í bókum og kvikmyndum sem eru á boðstólum í skógareldamiðstöð þjóðgarðsins.
Skógareldur íslenska hagkerfisins hefur náð sinni stjarnfræðilegu stærð vegna þess hve langur tími leið þar sem það varð lenska að hrifsa til sín verðmæti án þess að vinna fyrir þeim með því til dæmis að nýta sér þjóðfélagslegt ranglæti á borð við það að brenna sparifé upp í verðbólgu.
Grunnorsökin var landlægt daður við ábyrgðarleysi gagnvart samfélaginu og komandi kynslóðum.
Að berast á án þess að innistæða sé fyrir því og ná sem lengst með hreinni græðgi er líka mein sem er að fara illa með bandarísku þjóðina á sama tíma og að frá hennar skógareldi hljóp sú elding sem hleypti öllu í bál hjá okkur af því að nógu stór hluti þjóðarskógarins íslenska var orðinn andlega feyskinn.
Eyðileggingin í Yellowstone, sem blasti við fyrst eftir skógarbrunana, víkur nú hratt fyrir hinum nýja skógi sem vex og nærist á leifum hinna fúnu eldri trjáa sem báru dauðann í sér.
Það fórust að vísu mörg ung og heilbrigð tré í eldunum en eftir nokkra áratugi verður vaxinn skógur sem verður betri en ef hin morknu tré hefðu fengið að hjara áfram.
Niðurstaðan er einföld: Eins og í skógareldinum munu margir brennast af þeim eldi sem þeir áttu lítinn sem engan þátt í að kveikja. Mikið ranglæti og mismunun munu því miður ráða ríkjum.
En það verður að berjast fyrir því að minnka eins og unnt er það óheyrilega tjón sem eldurinn veldur og sjá til þess að upp af rústunum vaxi heilbrigðari og sterkari þjóðfélagsskógur en sá sem nú stendur í ljósum logum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.10.2008 | 14:59
Samstaðan er fyrir öllu.
Næstu dagar, vikur, mánuðir og ár verða þær erfiðustu hér á landi um margra áratuga skeið. Þótt nauðsynlegt sé að læra af mistökum undanfarinna ára er samstaðan þó mikilvægari á þeirri stundu sem við erum að sogast inn í óveður á þeirri litlu flugvél þjóðar okkar, sem nú hefur ofrisið og fellur í spuna í átt til jarðar.
Geir H. Haarde er fyrsti forsætisráðherrann á Íslandi sem hefur hagfræðimenntun. Í því ástandi sem ríkir samsvarar menntun hans því að maðurinn við stýrið hafi flugstjórnarréttindi. Áhöfn loftfarsins sem stefnir til brotlendingar eða nauðlendingar þarf að vera mönnuð besta fáanlega fólki, sem völ er á.
Áhöfnin og farþegarnir verða að vera samstíga svo að vel fari. Allir eru mannlegir og við þessar erfiðu aðstæður munu allir geta gert einhver mistök. Þá varðar miklu að greina þau, leiðrétta og bæta fyrir eftir því sem hægt er. Ef vanhæfni einhvers gerir hann ófæran um að gegna hlutverki sínu tekur annar við.
Aldrei hefur verið eins mikil nauðsyn á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærsti flokkur þjóðarinnar (ef hann er það lengur) hafi kjark til að fara í gegnum slíka greiningu
Vel má vera að það sé rétt, sem blaðamaður segir í grein, að Davíð Oddsson hafi meiri hæfileika til að hrífa fólk með sér með persónutöfrum og klárheitum en Geir H. Haarde. Þetta segir hann eftir að hafa borið saman frammistöðu þeirra í sjónvarpi.
En lendingu út úr hinu mikla hrapi verður ekki náð með hæfileikum sjónhverfingamanna sem tekst að telja fjölda fólks trú um að hvítt sé svart. Dæmin sýna annað og menn ná ekki flugvél út úr spuna með slíku, heldur gera jafnvel illt verra..
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara að gera upp við sig hvenær tímabili Davíðs Oddssonar eigi að ljúka sem helsta örlagavalds í sögu lands og þjóðar. Því virðist ekki vera lokið heldur ríkir enn ótrúleg afneitun innan flokksins gegn því sem ætti að blasa við, að hans tími ætti að vera löngu liðinn og hann sestur við að gera það sem hann gæti best gert, að nýta sér hina frábæru rithöfundarhæfileika sína.
Setti meira að segja sérstök ákvæði inn í eftirlaunalög til þess að svo mætti sem best verða.
Davíð átti sinn blómatíma á árunum 1982-1999. Hefði átt að víkja þá en hélt áfram næstum sex árum lengur. Níu ára samfelld sigurganga í borgarstjórn og 13 ár sem forsætisráðherra er meira en nóg fyrir einn stjórnmálamann hjá flestum lýðræðisþjóðum sem hafa jafnvel lög til að koma í veg fyrir slíkt.
En nú ríður mest á samstöðunni og að þeir sem sitja við stýrið, hverjir sem þeir eru, finni fyrir því að við viljum þeim sem best svo að við öll getum komist sem skást frá þessu.
Þessa erfiðu daga hefur Geir H. Haarde verið flugstjóri og meðan svo er verður að sýna honum traust. Hann hefur flugstjórnarréttindi og á ekki að vera hræddur við að hafa hemil á þeim, sem hamast óbundnir í flugstjórnarklefanum, anda ofan í hálsmálið á honum og rífa í stýrið.
Þessa leiðtogahæfileika og myndugleika verður flugstjóri að hafa, - menntunin og réttindin duga ekki ein þó að þau séu mikilvægust. Fari þetta allt saman munum við ná skástri lendingu.
![]() |
Einhver erfiðasta vika í seinni tíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.10.2008 | 13:23
Brjálaður handritshöfundur.
Setjum sem svo að í febrúar 2003 hefði handritshöfundur sett eftirfarandi í handrit sitt um atburði næstu ára á Íslandi:
Forsætisráðherra Íslands telur að til þess að tryggja veru varnarliðs á Keflavíkurflugvelli sé þjóðarnauðsyn gera þá stefnubreytingu í utanríkismálum hennar að hún, herlaus þjóð, geri sig að þátttakanda í ólöglegu stríði, skipi sér opinberlega á lista viljugra vinaþjóða Bandaríkjamanna og Breta um það að ráðast inn í Írak í stríði lýðræðisþjóða gegn hryðjuverkamönnum sem hafi gereyðingarvopn.
70% þjóðarinnar er andvígur þessu í skoðanakönnun en forsætisráðherran tekur ásamt vini sínum það vald í "lýðræðisríkinu" að þeir tveir ákveði þetta enda sé það einstaklega vel séð af forsætisráðherra Bretlands sem í samræmi við þetta bandalag vinaþjóðanna setur sérstök lög til að geta fengist við hryðjuverkamenn.
Engin af forsendum þessarar dæmalausu ákvörðunar tveggja manna reynist vera rétt. Miðstöð hryðjuverkamanna er ekki í Írak og engin gereyðingarvopn finnast þar. Og Bandaríkjamenn fara samt frá Keflavíkurflugvelli.
Forsætisráðherrann eflist samt við þetta og notar vald sitt til að vera skipaður Seðlabankastjóri án þess að hafa til þess nokkra menntun. Á ögurstundu fer hann fram með ábyrgðarlaust gaspur sem reitir forsætisráðherra Breta svo til reiði að hann notar fyrrnefnd lög um aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum til að meðhöndla fyrrum skósvein sinn og þjóð hans sem hryðjuverkafólk!
Handritshöfundur sem sett hefði svonalagað inn í handrit í febrúar 2002 hefði umsvifalaust verið rekinn fyrir of fáránlegan spuna til þess að nokkur maður gæti trúað því.
En þessi ótrúlegi spuni er samt veruleikinn í ferli Davíðs Oddssonar síðan í mars 2003, þar sem hægt er að bæta mörgum öðrum vitleysum við á borð við kolrangar ákvarðanir hans sem Seðlabankastjóra, sem enn virðist ekkert lát á.
Ofan á allt sér maður blaðagreinar þar sem fullyrt er að snilld þessa manns hafi aldrei risið hærra en þessi síðustu misseri. Það væri skiljanlegt að sjá slíkar umsagnir ef hinn óumdeilanlega frábæri rithöfundur Davíð Oddsson hefði verið brjálaði handritshöfundurinn og einhver annar persónan í handritinu.
Þessi persóna fullyrðir nú að hafa hvergi komið nærri því vitleysunni eða stutt hana þótt vitna megi beint í mörg ummæli hans allt þar til í hitteðfyrra þar sem hann mærir hinn hömlulausa trylling sem hann sjálfur var arktektinn að og lagði grunn að með löggjöf sinni og aðgerðum.
En því miður er þetta ekki atburðarás í handriti stjórnlausra hugaróra heldur raunveruleikinn sjálfur þegar gagnrýnislaus fylgispekt tveggja manna við sveigjanleika í aðgerðum gegn hryðjuverkaógn er orðin að bjúgverpli sem hittir fyrir heila þjóð.
![]() |
Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2008 | 08:52
Skömm er óhófs ævin, - nefndi höfuðið tíu...
"Skömm er óhófs ævin" sagði einn fyrsti vinur minn sem ég hitti við komuna til landsins í morgun og víst á þetta orðtak við nú. Atburðarásin hefur verið svo hröð að hún minnir á frásögn Njálu af því þegar Kári kom að einum brennumönnum óvörum þar sem hann taldi peninga í skógi og hjó umsvifalaust af honum hausinn. "Og nefndi höfuðið tíu þegar af fauk bolnum..." segir í sögunni.
Hausinn fauk og ríkidæmið með.
Það er svo örstutt síðan það ástand ríkti, sem við öll þekkjum, að það var ekki vandamál að kaupa frægustu og dýrustu skemmtikrafta heims til að skemmta hér í afmælisveislum, eða að hafa það eins og Yngvi Hrafn Jónssson lýsti þegar laxveiðiþotuliði var flogið með þyrlum að laxveiðiánni og prúðbúinn þjónn fylgdi hverjum veiðimanni á árbakkanum. Skotist á þyrlu ef það vantaði pylsu og kók.
Það er svo örstutt síðan að það ástandi ríkti sem fyrsti Íslendingurinn sem ég hitti í Leifstöð lýsti svona: "Þau fóru, skötuhjúin, öreigar, til fjármálaþjónustufulltrúans, og komu frá út frá honum, orðin eigendur að 40 milljón króna húsi, tveimur lúxusbílum og á leið til útlanda til að slappa af eftir erfiði dagsins."
Þetta verða sögurnar sem erfast munu til afkomenda okkar auk margra annarra enn ótrúlegri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.10.2008 | 17:06
Enginn ber ábyrgð á ummælum, enginn rekinn.
Í næstu bloggfærslu minni á undan þessari greini ég frá viðbrögðum hér í Bandaríkjunum við þeirri ótrúlegu frétt á sjónvarpsstöðvunum hér að Íslendingar hyggðust ekki standa við skuldbindingar gagnvart fólki erlendis, í þessu tilfelli meðal annars gagnvart venjulegu fólki sem lagði sparifé inn á reikninga í eigu Íslendinga í Bretlandi í góðri trú á að þar væri það varðveitt hjá mönnum sem hægt væri að treysta.
Það er vonlaust að útskýra þetta fyrir fólki hér fyrir vestan því að lokaspurningunni um það hvort enginn verði látinn taka ábyrgð á orðum sínum verður maður því miður að svara þannig að það verði varla gert. Boltinn fór raunar af stað með ummælum Davíðs Oddssonar í Kastljósi, sem hægt var að fylgjast með á netinu og fá þýdd umsvifalaust.
Síðan kom yfirlýsing Geirs um að ekki væri um þjóðargjaldþrot að ræða beint í kjölfarið og nú hefur verið upplýst um ummæli Árna Mathiesens. Þrír valdamenn töluðu á sömu lund og gáfu í skyn hvernig Íslendingar ætluðu sér að sleppa við gjaldþrotið og það var þremur of mikið.
![]() |
Talar ekki um Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
9.10.2008 | 16:53
Ótrúlegur skaði skeður.
Ég var á ferðalagi um New Jersey í gær en þegar komið var í hús þeirra sem áttu von á mér var mér sagt frá þeirri ótrúlegu frétt sem væri hér vestra á sjónvarpsstöðum að Íslendingar hefðu lýst því yfir að þeir hyggðust ekki borga skuldir sínar erlendis. Loksins komst Ísland í fréttirnar!
Það þarf talsvert til að örþjóð eins og Íslendinga komist í helstu sjónvarpsfréttir hér en það þótti auðvitað stórmerkileg frétt að þjóð, sem teldi sig í hópi siðmenntaðra þjóða og meðal þeirra ríkustu í heimi gæfi fáheyrðar yfirlýsingar sem jafnvel vanþróuðustu þjóðir gerðu sig ekki sekar um.
Í dag hefur engu máli skipt þótt maður reyni að bera þetta til baka. Það er ekki frétt að þjóð ætli sér að standa í skilum á siðlegan hátt og sú frétt mun aldrei birtast hér. Maður er spurður hvort Íslendingar séu gengnir af göflunum, og þegar reynt er að banda þessu frá sem misskilningi fylgir á eftir spurningin um það hvort það séu þá íslenskir ráðamenn sem séu fífl eða gangsterer nema hvort tveggja sé.
Spurt er hvort fyrrum forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri viti ekki að út um allan heim er hægt að fylgjast með ummælum hans í Kastljósi beint á netinu og fá þau þýdd umsvifalaust og hvort fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi ekki hugmynd um hvað þeir séu að segja.
Fréttin á erlendum sjónvarpsstöðvum hefur þegar valdið ómældu tjóni á orðstír, ímynd og heiðri íslensku þjóðarinnar. Þótt allir Íslendingar sem staddir eru í Bandríkjunum þytu út á göturnar og hrópuðu að hverjum sem væri að Íslendingar ætluðu sér að haga sér eins og siðmenntað fólk þá væri það gagnslaust, þetta tjón verður seint bætt.
Og ef endilega þarf að setja peningalegan mælikvarða á allt nú sem fyrr, þá getur þetta tjón á "good-will" verið ótrúlega mikið í beinhörðum peningum.
Lokaspurning útlendinga er, að fyrst þetta hafi verið grundvallað á mistökum íslenskrar ráðamanna, hljóti þetta að verða til þess að þeir verðir látnir taka pokann sinn. Þegar maður verður að viðurkenna að það verði ekki gert, hrista erlendir viðmælendur höfuðið og hafa endanlega sannfærst um það hvers konar þjóð lifi uppi á útskerinu þarna nyrst í Atlantshafinu.
![]() |
Samtal við Árna réð úrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.10.2008 | 13:55
Ætlum við að fá stimpilinn óráðsíuþjóð?
Nú hellast yfir mann fréttir um það að við séum ekki gjaldþrota sem þjóð. Jafnframt segir Geir að þjóðin muni ekki taka á sig skuldbindingar í útlöndum. Og Davíð sagði í gærkvöldi að amma sín hefði sagt sér að þeir sem ekki borguðu skuldir sínar væru óreiðumenn og ætti ekki að borga fyrir þá þegar þeir færu á hausinn.
En það eru líka til ömmur og afar í Bretlandi sem lögðu sparnað sinn inn hjá íslensku fjármálafyrirtæki í góðri trú á það fyrirtæki og þær skuldbindingar íslenska ríkisins, sem að baki lágu. Samkvæmt þessum nýjustu fréttum slengja ráðamenn þjóðarinnar því framan í aðrar þjóðir að þetta fólk eigi að borga fyrir órráðsíu íslenskra fjármálamanna. Slík hegðun mun einungis verða til þess að breskar afar og ömmur og nágrannaþjóðir okkar munu fá óbragð í munninn þegar minnst er á Íslendinga.
Ég á bágt með að trúa því að á fyrstu dögum þjóðargjaldþrots, sem verið er að koma sér hjá, séu ráðamenn þjóðarinnar með kjaftbrúk í stað þess að skammast sín fyrir hönd þjóðarinnar og leita sátta, hjálpar og endurhæfingar, þótt þær sættir kosti þrengingar í bili.
Þegar Þjóðverjar og Japanir töpuðu heimsstyrjöldinni voru stórir hlutar þessara þjóða ekki sekir um glæpina. Þessum þjóðum, einkum Þjóðverjum, datt samt ekki í hug að ætla að koma afleiðingum gjörða ráðamanna sinna yfir á aðrar þjóðir, heldur bitu þær á jaxlinn og unnu sig á 15-20 árum upp úr rústum og örbirgð til bjargálna. Samtaka og einhuga.
Við það endurheimtu þær virðingu sína sem þjóðir. Íslendingar eru örþjóð og við erum öll í sama bátnum. Okkur myndi þykja það hroki ef 2000 manna eyþjóð neitaði að standa við skuldbindingar sínar við okkur og sparifjáreigendur í okkar landi.
Enn einu sinni kemur upp á yfirborðið tilhneiging Íslendinga til að taka peninga fram yfir heiður og æru, sem þó eru miklu meira virði í peningum talið þegar til lengri tíma er litið.
![]() |
Brown hótar aðgerðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)