5.10.2009 | 11:30
Stutt leiftur.
Ég var á ferð akandi í átt til Reykjavíkur upp úr miðnætti í nótt þegar snöggur blossi leiftraði eitt andartak fyrir framan mig. Þetta var svo stutt augnablik að ég áttaði mig ekki á því hvað var á seyði.
Nú sýnist mér skýringin vera komin.
![]() |
Sáu loftstein í Ölfusi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.10.2009 | 11:25
Hvað opnuðu skólarnir?
Fréttirnar frá Súmötru hreyfa við okkur Íslendingum, því þótt á þessu ári séu liðin fjórtán ár frá snjóflóðaárinu mikla 1995, eru þeir atburðir enn í fersku minni og við skiljum þá sorg og depurð sem fylgir slíkum voðaatburðum.
Það er leitt að fyrirsögn þessa bloggpistils tengist svo alvarlegum atburðum, en mér finnst aldrei meiri þörf á fyrir blaðamenn og fréttamenn að vanda málfar heldur en í fréttum af válegum atburðum.
Fyrirsögnin á mbl.is, "skólar opna á ný á Súmötru" er málleysa. Hvað opnuðu skólarnir? Sjálfa sig?
Nei, það voru menn sem opnuðu skólana, - skólar voru opnaðir á ný á Súmötru.
Nú er að koma vetur og þá dynja yfir okkur fréttirnar af því þegar skíðasvæðin verða nothæf.
Og þá verður enn einu sinni sagt frá því að fjöll og heiðar hér heima séu að opna sig, Hlíðarfjall opnar þennan daginn og Bláfjöll opna hinn.
Ég undrast oft hvað einfaldar málleysur geta lifað góðu lífi í íslensku fjölmiðlum.
![]() |
Skólar opna á ný á Súmötru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 11:32
Þakklátt fólk út á landi.
Það var yndislegt að koma til Ólafsfjarðar í gærkvöldi og hitta fólkið þar í Tjarnarborg til að fara yfir sviðið á þeirri hálfu öld sem er liðin síðan ég skemmti í fyrsta sinn úti á landi, en það var einmitt á Ólafsfirði.
Ég man varla eftir betri stemingu á samkomu úti á landi, fólkið fyllti vel út í salinn, hljóðfærið var frábært, sem og hljómflutningskerfið og lýsingin.
Við þessar aðstæður fór minn frábæri undirleikari, Haukur Heiðar Ingólfsson á kostum og var á við heila hljómsveit, enda hafa hann og nokkrir aðrir Norðlendingar, svo sem Ingimar heitinn Eydal, Gunnar Gunnarsson og Tómas Einarsson, þróað sérstæða undirleikstækni á píanó sem hefur hlotið heitið skálm. Forráðamenn hússins, Eggert og Hafdís, frábært samstarfsfólk, og minn gamli aldavinur í Langadalnum, Valdimar Steingrímsson, lét ekki sitt eftir liggja.
Ég nefndi þessa rúmlega tveggja tíma skemmtun hátíðarsamkomu og hún sýndi að fólkið úti í hinum dreifðu byggðum landsins er fúst til að leggja sitt af mörkum til að létta undir með hvert öðru í kreppunni.
Allt þetta fór fram úr mínum björtustu vonum og ég vil skila sérstöku þakklæti mínu til fólksins, sem leyfði mér að eiga með því þessa ljúfu kvöldstund í gærkvöldi.
Það yljar gömlum landsbyggðarunnanda um hjartarætur.
![]() |
Vel heppnuð hátíð í Mýrdalnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2009 | 11:20
Til hamingju með Framarakveðju.
Ég er búinn að vera lengur skráður félagi í Fram en ég hef lifað og það má nærri geta hve mikið ég lifði mig inn í þann hluta bikarúrslitaleiksins, sem ég hafði tök á að horfa á í sjónvarpi á ferð um Eyjafjörð í gær.
Mér fannst það skemmtilegur leikur sem þessi lið buðu upp á og spennan mikil, eins og sést á því hve litlu munaði oft að mitt lið skoraði og hve litlu munaði að skot Paul McShane færi inn.
Það er haft að orðtaki að "sætt sé sameiginlegt skipbrot" og það er svo sem hægt að nota það um þessa bikarkeppni.
Úr því að mitt félag varð ekki bikarmeistari var það þó huggun harmi gegn að KR varð það ekki heldur, heldur félag sem aldrei hefur hampað bikarnum.
Þess vegna flytur gamli Framarinn Breiðabliki hamingjuóskir með þennan áfanga í sögu þess félags.
![]() |
Breiðablik bikarmeistari í fyrsta skipti eftir vítakeppni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2009 | 11:11
Góður vetrarsnjór á Ólafsfirði.
Ég veit ekki hvort ég nota rétt orð þegar ég segi "góður" vetrarsnjór, en með því á ég við það að snjórinn sem fallið hefur við utanverðan Eyjafjörð síðustu dægur er nógu mikill til þess að hægt sé að fara á skíði.
Á hinn bóginn er snjórinn orðinn nógu mikill til þess að trufla samgöngur, því að svo mikill vetrarsnjór fellur ekki oft þetta snemma, jafnvel á þeim slóðum sem ég er að tala um og ég var á í gærkvöldi.
Valdimar Steingrímsson, sem þekktur var fyrir hættuleg störf sín við ruðning Ólafsfjarðarmúla, átti í vandræðum með að komast um innanbæjar á bíl sínum vegna hálku og þæfingsfærðar.
Ég gat því verið ánægður með það að komast á leiðarenda á minnsta bíl landsins til að gefa rétta stemningu fyrir stefnumót mitt við Ólafsfirðinga í Tjarnaborg í gærkvöldi þar sem farið var í léttu tali og tónum yfir síðustu hálfa öld.
Í dag er hið fegursta vetrarveður á Akureyri og hátíðlegt að sjá prúðbúið fólk í sunnudagsfötum ganga til kirkju með alla þessa vetrarfegurð sem umlykur bæinn.
Ég er í hörðu kvikmyndatökuverkefni í dag og þar sem ég blogga er ekki færi á að láta myndir fylgja með. Þær koma seinna.
![]() |
Færð á vegum - opið um Arnkötludal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2009 | 21:26
Veturinn fyrr á ferð ?
Ég var að koma til Akureyrar eftir akstur frá Reykjavík á Fiat 500 sem ég ætla að hafa við samkomuhúsið á Ólafsfirði annað kvöld þegar ég fer með grínannál síðustu hálfrar aldar
Ólafsfjörður var fyrir valinu vegna þess að árið 1959 skemmti ég þar í fyrsta sinn utan sunnanverðs Faxaflóasvæðisins.
Þetta er fortíðarfíknarferð, - eftir hálfrar aldar ferðaferil um landið er það endurtekið að fara á minnsta bíl landsins í slæmu vetrarveðri frá Reykjavík norður í land.
Mynd mbl.is af bíl í hríðarkófi lýsir aðstæðum á Öxnadalsheiði í kvöld.
Það er stundum sagt að leiðin eftir Langadal sé löng, samanber vísuna:
Ætti ekki vífaval /
von á mínum fundum /
leiðin eftir Langadal /
löng mér þætti stundum.
En Langidalurinn á ekki möguleika á móti Öxnadalnum í þessu tilliti þegar veður og færð eru eins og var í kvöld.
Ég hef haft það á tilfinningunni að undanförnu að veturinn ætli að koma fyrr og verða kaldari en undanfarnir vetur. En kannski er það bara vitleysa hjá mér.
![]() |
Óveður við Sandfell og Hvalsnes |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.10.2009 | 21:18
Verkfræðilegt afrek.
Þótt ég hafi barist gegn gerð Kárahnjúkavirkjunar og telji hana ekki hafa átt rétt á sér, tel ég að gerð hennar sé mesta verkfræðilega afrek Íslendinga. Verkfræðingum tókst að spila úr þessu geggjaða verkefni og sleppa fyrir horn og það má út af fyrir sig óska þeim til hamingu með það.
Virkjunin átti að mínu mati ekki rétt á sér vegna þess að hún olli, samkvæmt mati Rammanefndar um virkjanir, mesta mögulega umhverfistjóni sem hægt var að framkvæma á Íslandi.
Þetta var óhemju áhættusöm og flókin framkvæmd og munaði litlu að illa færi. Þegar borað var til kanna jarðlög fyrir jarðgöngin löngu var því til dæmis sleppt að kanna 5- 7 km langt misgengissvæði á miðri leið lengstu ganganna. Þar tafðist verkið um marga mánuði.
Ætlunin var að bora göngin úr báðum áttum og enda við misgengið, sem menn nýttu sér það, að þar átti að bora síðast og því ekki aftur snúið.
Þegar ég spurði talsmann Landsvirkjunar af hverju misgengið, sem sást vel úr lofti, hefði ekki verið kannað var svarið: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var." Lýsir vel hugarfarinu að baki virkjuninni.
Ég ræddi þetta við kunnan bankamann þegar stefni í vandræðin við borunina en hann sagði að enginn banki myndi hafa áhyggjur af ríkisstryggðri framkvæmd því að "...því verr sem framkvæmdin gengur, því meira græðir bankinn."
Átti þar líklega við uppákomu á borð við þá þegar redda þurfti sjö milljarða láni með ofurvöxtum á innan við klukkustund, en þetta gerðist um það leyti sem vandræðin í göngunum voru mest.
Úr því að ráðist var í þetta verk er ástæða til að anda léttara yfir því að ófarir við framkvæmdina bættust ekki við ofan á allt annað.
Enda þetta á því að vitna beint í skjal þar sem lögfræðingur Landsvirkjunar lýsir eðli hennar:
"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu, - og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu."
Það var tekin allt of mikil áhætta og í ofanálag verður virkjunin þegar fram líða stundir minnisvarði um þá skammtímagræðgi og áhættufíkn sem þjóðir heims hafa orðið vitni að eftirminnilegan hátt að ástundið var á Íslandi á árunum 2002-2008.
![]() |
Framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.10.2009 | 20:51
Ólympíuhugsjónin er hnattræn.
Ólympíuhringirnir tákna heimsálfurnar. Það er kominn tími til að færa sig um set frá þeim heimsálfum, sem eru norðan miðbaugs og halda leikana í heimshluta sem hefur farið varhluta af þeim.
Þess vegna var það tímaskekkja að Bandaríkjaforseti, sem valdamesti maður heims, hlutist til um að þeir verði eina ferðina enn haldnir í Norður-Ameríku.
Mér finnst það þess vegna gott að þessi annars frábæri forseti hafi farið sneypuför til Kaupmannahafnar. Þótt hann eigi heima í Chicago hefði ekki verið rétt að láta það hafa áhrif á staðarvalið.
Til hamingju, Ríó, Brasilía og Suður-Ameríka !
![]() |
Obama vonsvikinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2009 | 09:03
Hvað á maður að segja?
Hvað á maður að segja þegar fleiri þjóðhöfðingjar og áhrifamenn heims eru saman komnir á einum stað en dæmi eru um, til þess eins að ákveða hvort Ólympíuleikar verði haldnir í Chicago, Rio De Janero, Madrid eða í Japan?
Þetta er langur listi af prinsum og furstum, einn fyrrverandi konungur, einnig þeir Kissinger og Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Kastrupflugvöllur lokaður sem og Eystrasaltsbrúin !
Í desember verður haldin einhver mikilvægasta ráðstefna síðari tíma í Kaupmannahöfn, þegar þjóðir heims ráða ráðum sínum um einn mesta aðsteðjanda vanda mannkyns á sögulegum tíma.
Haldið þið að allt stórmennið, sem nefnt er til sögunnar í Kaupmannahöfn í dag, verði þá statt þar?
Nei, þannig verður það ekki.
Einu sinni var sýnd kvikmynd sem hét "It´s a mad, mad world." Já, þetta er geggjuð veröld sem við lifum í.
![]() |
Obama í Bella Center |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.10.2009 | 22:12
Bölmóðsblús fjárlaganna.
Það er fyrst nú, í íslensku fjárlögunum, sem byrjum að sjá hvað kreppan þýðir í raun og veru. Þetta er ekki gæfulegt, þetta grímulausa andlit hennar sem birtist okkur og er ein af birtingarmyndum hennar.
Þessi pistill verður þó ekki um það heldur um það sem ég rakst á þegar ég var að grauta í gamalli og rykfallinni möppu með ýmsu efni frá því fyrir meira en fimmtán árum.
Þetta er ég að gera í sambandi við leiðangur til Ólafsfjarðar til að kvitta þar fyrir næstkomandi laugardagskvöld með tveggja tíma skemmtidagskrá að þar skemmti ég í fyrsta skipti utan höfuðborgarsvæðisins fyrir hálfri öld, árið 1959.
Ég hafði komið í fyrsta sinn fram um áramótin58-59 og níu mánuðum síðar hafði ég skemmt í öllum byggðarögum landsins.
Héraðsmótið á Ólafsfirði var það fyrsta u.þ.b. 800 héraðsmótum stjórnmálaflokka og Sumargleðinnar, en ætli skemmtana"giggin" séu ekki orðin 5-6000 alls.
Á laugardagskvöld verður flutt aftur prógrammið frá 1959 en síðan tekur við nokkurs konar grínannáll síðustu hálfrar aldar þar sem við getum hlegið að okkur sjálfum á mismunandi tímum allt til atburða síðasta árs.
En í þessu drasli rakst ég á snjáð blað með hinum upphaflega texta við lagið Bölmóðsblús sem hægt er að spila á tónlistarspilaranum vinstra megin á síðunni.
Ég ætla ekki að flytja hann á Ólafsfirði heldur gauka honum inn á þessa síðu úr því að lagið er á henni.
Ég hélt að þessi texti væri týndur og tröllum gefinn en í honum er veitt ráð við því að fara alveg yfirum á kreppu"bömmernum."
Það er skemmtileg tilviljun að í lokaerindinu er talað um Ása og Ömma, þ. e. Ögmund Jónasson.
BÖLMÓÐSBLÚS.
Ef ég húki og gramt er mitt geð, /
galtómt veskið og armæða´og streð, /
og ég væli með titrandi trega
svo tíkin, hún spangólar með:
Heldur en "booza" /
úr hálftómum séneversbrúsa... /
...ef allt er í hassi og rassi /
og smassi og farsi /
og krassi /
ég keyri á bömmerinn með því að blúsa ! /
Þó að allt virðist alveg í steik /
og þinn maki með viðhaldi í sleik /
orðinn gjaldþrota /
og alveg ráðþrota /
áttu nú við því samt leik: /
Heldur en "djúsa" /
dreggjar úr brúsa... /
...þá skaltu semja /
og gerninginn fremja /
og grenja og emja /
og lemja burt "bömmerinn" með því að blúsa ! /
Útgerðin er víst alveg á haus /
og öll pólitík bandsjóðvitlaus. /
Ráðherrarnir þó ráði´ei við neitt /
þetta ráð get ég öllum þó veitt: /
Ei gagnar að djúsa /
úr galtómum brúsa. /
Ef kaupgjaldið skömm er /
og Ási og Ömmi´eru /
alveg á bömmer /
við keyrum á bömmerinn með því að blúsa ! /
Ef allt er í hassi - og rassi - og smassi /
og farsi - og krassi /
við keyrum á bölmóðinn, barlóminn, /
bömmerinn, barninginn, /
blakheitin með því blúsa !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)