27.11.2009 | 10:12
Henry markið verst ?
Þegar "handboltamörkin" fimm, sem nú eru í umferð á netinu, eru skoðuð sýnist síðasta markið, mark Thierry Henrys vera einna grófast því að án þess að nota höndina var greinilega ekki möguleiki fyrir hann að koma boltanum frá sér eins og hann gerði.
Í hinum tilfellunum virðist það vera miklu nær lagi að hægt hefði verið að komast hjá því að nota höndina og það er alveg sama hvað maður skoðar mark Maradona oft, það mark var út af fyrir sig gargandi snilld þótt ólöglegt væri.
Og einleiksmark hans í sama leik er náttúrulega fótboltamark allra tíma. Þegar menn velta því fyrir sér hvot hann eða Pele hafi verið besti knattspyrnumaður allra tíma vegur frammistaða Maradona í heimsmeistarakeppninni 1986 þungt, því að fágætt er að einn knattspyrnumaður hafi verið jafn ómissandi fyrir nokkurt knattspyrnulið.
Án hans hefðu Argentínumenn ekki átt möguleika 1986.
![]() |
Fimm bestu handboltamörkin (myndband) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2009 | 14:15
Leirfinnur og Geirfinnur voru verri.
Stytta, sem fékk viðurnefnið Leirfinnur og lögreglan lét gera og átti að sýna morðingja Geirfinns Einarssonar og ljósmynd af honum sjálfum sem lögreglan lét birta hljóta að hafa verið verri en myndin sem birt hefur verið af meintum morðingja í Bólivíu.
Styttan af Leirfinni varð til þess að saklaus maður var handtekinn og haldið í fangelsi við illan kost í sex vikur ef ég man rétt og hefur aldrei jafnað sig síðan.
Ljósmyndin sem birt var af Geirfinni sjálfum var gömul og hann hafði breyst allmikið síðan hún var tekin.
Geirfinns- og Guðmundarmálin voru ekki aðeins stærsta sakamál síðustu alda á Íslandi, heldur mesta klúðrið að mínum dómi.
Þegar þau eru borin saman við morðið á Gunnari Tryggvasyni þar sem hinn ákærði var réttilega sýknaður, kemur himinhrópandi munur í ljós.
Í því máli voru fyrir hendi lík og morðvopn sem fannst í vörslu ákærða og hann hafði sannanlega stolið frá velgjörðarmanni sínum.
Auk sér var hægt að færa líkur að ástæðu til morðsins.
En ákærði neitaði staðfastlega og nýleg umfjöllun í Fréttaaukanum hefur aukið líkurnar á því að hann hafi verið saklaus þótt málið liti ekki vel út hvað hann snerti.
Ég vona bara að handtaka meints morðingja í Bólivíu leiði ekki af sér svipuð dómsmorð og kveðin voru hér upp í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Staðreyndin er sú að leyndur draumur minn um fréttauppistand aldarinnar getur enn ræst.
Hann er þessi:
Ég stend í beinni útsendingu fyrir framan sjónvarpskvikmyndatökuvélina í Leifsstöð þegar tveir menn koma ásamt fleiri komufarþegum í áttiina til mín.
Þegar ganga til mín til að heilsa mér, því að þeir þekkja mig frá fornu fari, segi ég í sjónvarpsvélina: "Góðir sjónvarpsáhorfendur. Við erum vitni að merkum atburði. Koma þeir ekki til mín hér þeir félagarnir Guðmundur og Geirfinnur."
Sný mér síðan að þeim og segi: "Gaman að sjá ykkur aftur eftir öll þessi ár, strákar. Hvar hafið þið verið?"
Þessi draumur er ekki út í hött. Ég veit ekki betur en Íslendingur sem hafði verið úrskurðaður látinn hér um árið hafi komið til landsins sprelllifandi mörgum árum síðar.
![]() |
Versta sakamannateikning í heimi bar árangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2009 | 23:15
"Faðirvorinu snúið upp á andskotann."
Ofangreind setning hefur verið viðhöfð um það þegar þeir sem ganga fremst í einhverju athæfi berja sér á brjóst og segjast gera þveröfugt.
Skúli Thoroddsen talar um "umhverfismeðvitað samspil atvinnulífs og náttúru sem virkjanamenn stundi í anda sjálfbærrar þróunar."
Hvílíkt öfugmæli. Vaðið er af stað með framkvæmdir sem munu valda gríðarlegum umhverfisspjöllum áður en búið er að kanna áhrif þeirra eða það hve mikil orka sé í raun í boði, hvernig eigi að láta dæmið ganga upp og hve lengi orkan muni endast.
Samkvæmt yfirlýsingum sérfræðinga er giskað á að orkuöflunarsvæðin endist í 50 ár hvert að jafnaði en þó sé ekki hægt að sjá hver endingin verði fyrr en eftir einhvern ótiltekinn árafjölda.
Ef þá komi í ljós að vinnslan sé of mikil til þess að hún geti talist endurnýjanleg, verði vinnslan einfaldlega minnkuð í samræmi við það.
Og það á að gera án tillits til þess að álverin hafa samið um meiri orku og þurfa hana.
Ég vil frekar kalla þetta umhverfismeðvitundarleysi sem er á skjön við sjálfbæra þróun og bitna mun á afkomendum okkar og þeim fjölmörgu fyritækjum, sem bjóða upp á miklu skaplegri, öruggari, umhverfisvænni og betri nýtingu orkunnar.
Var einmitt að nefna eitt þeirra tækifæra í næsta bloggi á undan þessu.
![]() |
Svandís veruleikafirrt eða vanhæf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.11.2009 | 14:52
Til þess var Obama kosinn.
Það hefði orðið hlálegt ef Obama Bandaríkjaforseti hefði ekki látið sjá sig á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna eftir að hann hafði farið sérstaka og mislukkaða ferð þangað fyrir heimaborg sína fyrr í haust til að krækja í Ólympíuleika fyrir hana.
Obama var kjörinn sem valdamesti maður heims til að sinna helstu vandamálum heims og gera þau að minnsta kosti jafnmikilvæg í hans huga og kjördæmispot heima fyrir.
Í Kaupmannahöfn verður viðhöfð heilmkil talnaleikfimi þegar tekist verður á um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og ég fékk svona smá forsmekk af hluta hennar í morgun.
Það var þegar ég átti skemmtilegt tal við sendiherra Indlands á Íslandi, einstaklega fróðleiksfúsan og aðalaðandi mann.
Þegar talið barst að aðgerðum fyrir lofthjúpinn og þátt þjóða heim í þeim varð hinn mikli og sívaxandi skerfur Indverja í lofmengun heims að umræðuefni.
Sendiherrann viðurkenndi fúslega skyldu þjóðar sinnar í þeim efnum en benti jafnframt á að í svona rökræðu við vestrænan mann mætti það alveg koma fram að hver Indverji sendi sexfalt minna magn af gróðurhúsalofttegundum út í heiminn en gerðist hjá okkur.
Já, við erum á svipuðu róli og Bandaríkjamenn sem eru 5% mannkyns en menga 25%.
Ég horfði á Indverjann og bílaumferðina sem þaut framhjá okkur með mest mengandi bílaflota nokkurrar þjóðar í Evrópu og talið um þetta efni varð ekki mikið lengra.
Það beindist meðal annars að því að í samstarfi við Indverja er vonast til að framleiðsla indverskt ættaðra rafmagnsbíla, sem um ræði, nýti jarðvarmaorkuna fimmfalt betur en aðrir kaupendur orkunnar.
Ástæðan er sú að 85% orkunnar fer nú í formi gufu út í loftið, en hin indverskættaða framleiðsla mun nota afgangsgufuna á þann hátt að í stað þess að þurfa 250 megavött þarf aðeins 50.
Þannig hrúgast upp möguleikar til skynsamlegri nýtingar þessarar orku á annan hátt en þann að ráðstafa henni mestallri til eins kaupanda og eiga jafnvel ekki til næga orku handa honum.
![]() |
Obama ætlar til Kaupmannahafnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.11.2009 | 08:37
"Nú eg bgennivínið ogðið svo dýgt...".
Áfengi og tóbak eru samanlagt mesta böl þjóðfélagsins og hinn raunverulega stóri fíkniefnavandi.
Því er til mikils að vinna að minnka neysluna þar og vinna gegn þessu böli.
En hversu þarfar sem nýjar álögur á þessar vörur eru, er vitað um þá skattheimtu eins og aðra, að einhvers staðar eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga án þess að smygl og brugg færist það mikið í aukana að ávinningurinn af skattheimtunni verði enginn.
Mikilvægt er að finna línuna, sem ekki þýðir að fara yfir. Óskand er að nýjustu gjöldin núna séu réttu megin við þessa línu. Þó ber þess að gæta að í kreppu færist línan í öfuga átt miðað við það sem best er fyrir skattheimtuna.
Svo ótrúlega margir geta nefnilega tekið undir með fornvini mínum, sem var gormæltur áfengissjúklingur og sagði við mig eftir nýjustu verðhækkunina á sínum tíma: "Nú eg bgennivínið ogðið svo dýgt, Ómag, að maðug hefug ekki efni á að kaupa ség skó."
En ef svo er ekki, er erfitt að snúa til baka eftir að smygl og brugg eru búin að festa sig í sessi. Þá þarf aukna löggæslu til að uppræta slíkt og það kostar peninga.
![]() |
Áfengisgjaldið hækkar um 42% á einu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2009 | 19:08
Íslensk dæmi.
Ég þekki nokkur íslensk dæmi um það að bætur vegna slysa eða örorku urðu vafasöm.
Ég skal nefna tvö:
Annað dæmið var þess eðlis að vegna slyss var viðkomandi talinn vart rólfær og vafasamt hvort hann næði sér nokkurn tíma aftur. Staulaðist hann við staf og bar sig illa og voru ýmsar ráðstafanir í gangi til að bæta honum þetta upp.
Um svipað leyti sá ég þann sama mann hlaupa um skógivaxnar brekkur úti á landi og virtist ekki mjög illa farinn þá.
Hitt dæmið var þess eðlis að maður nokkur slasaðist sannanlega illa í starfi en þurfti að sækja rétt sinn með fulltingi skeleggs lögmanns.
Lögmaðurinn lenti hins vegar í mestu vandræðum þegar lögmaður vinnuveitandans birti myndir við réttarhaldið af þeim slasaða að dansa og virtist hann ekki mikið slasaður þá.
Það bitnar á þeim sem þurfa sannanlega á bótum að halda ef kerfið er misnotað. Þess vegna er skárra að sækja ekki bætur nema útilokað sé að jafna sig og ná bærilegri heilsu og líkamlegu ástandi.
![]() |
Missti bætur vegna mynda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2009 | 13:27
Oftrú á tæknina.
GPS-tæknin er dásamleg en hefur líka sínar dökku hliðar, ekki aðeins á jörðu niðri, eins og dæmið með manninn á Grjóthálsi sýnir, heldur lika á sjó og í lofti.
Í þeim tveimur flugvélum sem ég flýg eru GPS-tæki, sem í nánast öllum tilfellum sýna rétta staðsetningu eftir því sem ég fæ komist næst.
Þó hef ég staðið tækin í báðum flugvélunum að því að sýna skakka staðsetningu og ekki stystu leið þegar beðið hefur verið um hana.
Ég veit að margir hinna yngri flugmanna treysta algerlega á GPS-tækin og það þykir mér varasöm þróun.
Tækin geta bilað og þeim getur skjátlast. Vegna tilkomu þeirra slævist áhuginn á að þekkja landið og rata um það án tækja, - það er bara mannlegt.
Sjálfur notað ég þau aðeins endrum og sinnum, svona mest til gamans og til að skoða hvort þau séu í lagi, því að þau geta veitt hjálp ef í nauðir rekur og staðfest það sem maður heldur sjálfur að sé hið rétta.
Ég skal nefna dæmi.
Ég varð eitt sinn samferða flugmanni sem flaug frá Austurlandi til Reykjavíkur og vildi eingöngu fara eftir GPS-tækinu. Ég sá fljótlega að hann flaug ekki skemmstu leið heldur of sunnarlega.
Hann átti erfitt með að trúa þessu, vegna þess að ég sagði þetta bara en sýndi honum það ekki á korti.
Ef ég hefði ekki verið um borð hefði hann líkast til samt komist til Reykjavíkur en flogið mun lengri leið og haldið að það væri stysta leiðin.
Þegar við vorum komnir hálfa leið samþykkti hann að ég hefði rétt fyrir mér en átti greinilega erfitt með að sætta sig við að GPS-tækinu skjöplaðist.
En það var ekki fyrr en ég tók upp kort og sýndi honum svart á hvítu hver stysta leiðin væri og hvar við vorum í raun.
Þetta var greinilega áfall fyrir hann því að hefði hann flogið eftir tækinu hefði hann haldið að það væri að segja honum rétt til.
Hann áttaði sig á því að hann hafði ævinlega verið að fljúga eftir tæki, sem ekki var óskeikult, og treyst því næstum í blindni.
![]() |
Var sendur á ófæran fjallveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.11.2009 | 23:18
Skelfilegir bíladellufélagar.
Það er ekki skemmtileg lesningu að finna í fjölmiðlum um bílaáhuga nokkurra af verst þokkuðu mönnum í veraldarsögunni, svo sem Adolf Hitler, Idi Amin, Jósef Stalín og John Dillinger.

Mercedes-Benz verksmiðjurnar framleiddu alls 110 stykki af Grosser Mercedes 770 K og 88 eintök af Grosser Mercedes II og lét Adolf Htler taka sjö bíla af þessari gerð frá handa sér.
Það er skýringin á því að einn var til sölu á safni í Kanada árið 2000 en salan varð svo illa þokkuð að hætt var við hana.
Annað eintak, sem fannst í Austurríki, hefur nú verið selt rússneskum auðkýfingi eins og sjá má í fréttinni sem þessi pistill er tengdur við.
Hitler lét raunar gera sex hjóla Mercedesbíla fyrir sig, að sögn til að komast um illfærar götur borga, sem voru í rústum eftir loftárásir. Er þó ekki vitað til þess að hann hafi, eins og Churchill, farið í eina einustu heimsókn eftir loftárás til að votta fólki samúð sína.

Hitler var bíladellugaur og lét Ferdiand Porsche stela hugverki Tékkans Hans Ledvinka til að hanna Volkswagen, bíl sem átti að verða einfaldur og ódýr svo að allir gættu eignast hann, geta rúmað hjón með þrjú börn og náð 100 kílómetra hraða á hraðbrautum.
Porsche leist ekki á þetta og hafði áhyggjur af stuldinum en Hitler fullvisssaði hann um það að hann myndi leysa málið farsællega. Það gerði hann með því að hertaka Tékkóslóvakíu !
Eftir stríð urðu Þjóðverjar að greiða Tékkum bætur vegna þessa.

Idi Amin var mikill bíladellukarl og hafði að mínu mati betri smekk en Hitler, því að bílar af gerðinni Citroen SM voru í svo miklu uppáhaldi hjá honum að hann krækti sér í nokkra þeirra.
Citroen SM var á sínum tíma í algerum sérflokki í heiminum hvað snerti þægindi, sportlega aksturseiginleika, tækni, hemlun og hönnun.
John Dillinger stórglæpamaður, þjóðaróvinur númer eitt í Bandaríkjunum, varð einna fyrstur til að taka nýja átta gata Fordinn, Ford B, í akstursprófun og gekk fram af fólki með því að senda niðurstöðu sína bréflega til Henry Ford þar sem hann þakkaði Ford fyrir það að framleiða svona kraftmikinn og léttan bíl til hagsbóta fyrir glæpamenn á flótta undan löggunni.
Leoníd Breznef var bíladellukarl og kunni að meta það þegar Nixon lét færa honum bíl að gjöf.

Jósef Stalín skipti sér af smáu og stóru og ekki alltaf til góðs. Þegar Rússar hirtu færibönd Opel verksmiðjanna í Þýskalandi í stríðslok og fluttu þau til Rússlands hófu þeir framleiðslu á Opel Kadett þar og nefndu hann Moskvitch.
Kadettinn var með tvennar dyr en Stalín heimtaði að hurðirnar yrðu fjórar.
Við það varð bíllinn svo veikur um miðjuna að hurðirnar fóru strax að skrölta illilega og auk þess var alveg sérstaklega erfitt að setjast inn í þennan bíl, hvort sem var að aftan eða framan eins og Íslendingar ættu að muna flestum þjóðum fremur, því að þessir bílar voru fluttir hingað til lands á tímabili.
Það róar mig þó í þessum skelfilega ofangreinda félagsskap að eiga marga ágæta bíladellufélaga.

Jay Leno er forfallinn bíladellukarl og á flott bílasafn, meðal annars Fiat Topolino sem ég öfunda hann mjög af.
Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti var smekkmaður á bíla og varð svo hrifinn af hönnun Ford 1937 að hann fékk sér strax einn þeirra til einkanota á búgarði sínum, Warm Springs. Innfelld ljósin á frambrettunum á þessum bíl voru þremur árum á undan keppinautunum.
Ford skaffaði Bandaríkjaforsetum viðhafnarbíla þeirra og þess vegna var bíllinn, sem Kennedy var skotinn til bana í, af gerðinni Lincoln Continental.
Þegar sá bíll kom fram 1961 var hann með merkari lúxusbílum þess tíma vegna smekklegrar hönnunar og gæðavinnubragða.
Putin, forsætisráðherra Rússlands, heldur mikið upp á fyrstu gerðina af Volgu, sem hann á og getur að mínum dómi verið býsna ánægður með, því að þessir bílar voru sterkbyggðir og háir frá vegi og hentuðu ekki síður vel á vondum íslenskum vegum en rússneskum.

Núverandi forsetabíll okkar er að sönnu frábær bíll en því miður bera kaupin á honum merki um vissa hræsni eða skort á upplýsingum, sem ég skal kannski útskýra síðar í hverju felst að mínum dómi.

![]() |
Keypti bifreið Hitlers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.11.2009 | 21:58
Skilar peningunum.
Það má líta á þá ákvörðun Williams Fall, fyrrverandi forstjóra Straums að "gefa vangoldin laun sín til góðgerðamála" þeim augum að það geti sett kröfur annarra gefið kröfuharðra kröfuhafa í nýtt ljós og gefið fordæmi.
Ég hygg að miðað við þau himinháu ofurlaun sem menn skömmtuðu sér og vilja nú ná til sín úr rústum fyrirtækjanna sem þeir stjórnuðu til endalokanna sé réttara að orða þetta þannig að hann vilji skila peningunum og hafa um það að segja að þeir gangi til þeirra sem verst eru settir.
Ofurlaunin voru réttlætt með því að þessir menn tækju svo mikla áhættu að það ætti að umbuna þeim fyrir það. Hins vegar virðist sem svo að þetta hafi aðeins virkað aðra leiðina og miðað við málatilbúnaðinn nú var það aldrei ætlun þeirra að taka neina áhættu, aðeins að græða en ekki til umræðu að tapa neinu.
![]() |
Gefur launin til góðgerðarmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.11.2009 | 14:48
Grænt grænmetisbruðl ?
Mér sýnist hlálegt ef McDonalds veitingahúsakeðjan ætlar að fara að þykjast vera umhverfisvæn með því að breyta lit á merki fyrirtækisins úr rauðum í grænan.
Grænmetisætur hafa fyrir löngu bent á þá sóun verðmæta sem fylgir því að ala nautgripi á maís og slátra þeim síðan til manneldis.
Í hvert kíló af nautakjöti fari átta kíló af maís, sem nær væri að nota beint til manneldis. Auk þess fylgi mikil auka orkunotkun nautakjötsframleiðslunni.
Ég átti um þetta rökræður við Ragnar son minn á þeim tíma sem hann gerðist grænmetisæta og bar fyrir sig framangreindar forsendur sem umhverfisþenkjandi maður.
Ég andmælti algeru kjötbanni á tveimur forsendum þótt ég viðurkenndi að stórlega vantaði upp á grænmetisneyslu mína og flestra Íslendinga.
Annars vegar sæist á tönnum manna og lægju fyrir um það gögn í mannkynssögunni, að þeim væri áskapað blandað fæði og að þeir þrifust best á blönduðu fæði.
Því ætti grænmetisást ekki að leiða til algers kjötneyslubanns.
Hins vegar tíndi ég fram hin íslensku rök, sem sé þau, að hér á landi æti kvikfénaður gras sem menn gætu með engu móti neytt sjálfir þannig að rök sem giltu sunnar á hnettinum ættu ekki við hér á landi.
Ekki veit ég hvort þessi rök leiddu til þess að Ragnar hóf síðar á ævinni að nýju að nærast á blönduðu fæði.
Hitt sýnist mér ljóst að mikil hræsni geti falist í því að McDonalds fari að berja sér á brjóst og segjast vera umhverfisvænt fyrirtæki.
Hvað viðskipti Íslendinga við McDonalds á sínum tíma snerti voru erlendu nautin, sem kjötið var fengið af í hamborgarana hér, alin á grænmeti á umhverfisfjandsamlegan hátt sunnar í álfunni þar sem hægt var að nýta grænmetið betur.
Kjötið var síðan í ofanálag sent þúsundir kílómetra til Íslands með tilheyrandi flutningskostnaði og orkunotkun.
Ég stend sem áður við þá skoðun mína að "á misjöfnu þrífast börnin best", það er, að það sé í lagi að neyta kjöts í hófi.
En ég vil horfa á það gagnrýnum augum þegar fyrirtæki ætla að sýnast eitthvað annað en þau eru.
Þau eiga bara að koma hreint fram og láta McDonalds-merkið vera áfram rautt og Coca-Cola-merkið líka.
Þá þarf jólasveinninn heldur ekki að fara í grænan búning í Kók-auglýsingunni.
P. S. Fékk athugasemd við innsláttarvillu í setningunni um átta kíló af maí, sem fer í eitt kíló af nautakjöti og er búinn að leiðrétta það núna, kl. 18:40 vegna þess að það eru ekki allir sem lesa athugasemdirnar. En þær eru athyglisverðar, einkum fróðleikurinn um McDonalds, sem kemur fram í einni þeirra.
![]() |
McDonalds verður grænn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)