27.11.2010 | 10:54
Frb. 9365: Koma svo! Auðlindirnar í þjóðareign!
Ofangreind upphrópun, "koma svo!" er oft notuð þegar fólk gengur til keppni og verkefna. Hún á vel við í dag um hið einstæða tækifæri sem Stjórnlagaþingið gefur.
Ég heyri utan að mér þennan morgun að einhverjir viti ekki um afstöðu mína til eignarhalds á auðlindum.
En hún er skýr: Íslandshreyfingin varð fyrst allra fyrir kosningarnar vorið 2007 að vara við því sem væri að gerast í málefnum HS orku.
Síðan þá hefur hún ítrekað þetta alla tíð í yfirlýsingum og ég skrifað um það stanslaust allan þennan tíma.
Kannski hef ég ekki tekið þetta nógu skýrt fram núna vegna þess að ég hélt að þessi afstaða mín ætti að liggja ljós fyrir en best er að ítreka þetta enn einu sinni.
Að öðru leyti ætti fólk að vita hvar það hefur mig í þessu og öðru.
Mikið mannval er í boði í kosningunum og ég hvet því fólk að nýta rétt sinn: "Koma svo!"
![]() |
Kosningin fór rólega af stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.11.2010 | 13:31
Frb. 9365: Hefði þurft að vera rýmra.
Kosningarnar til Stjórnlagaþingsins eiga enga hliðstæðu hér á landi. Margir hafa miklað fyrir sér hvað þær verði seinlegar og erfiðar fyrir hvern kjósanda og það er eðlilegt í ljósi þess um hve mikla nýjung er að ræða.
Nú er það svo að ef allir kjósendur leggjast á eitt með að fara eftir hinni einföldu leiðbeiningu að greiða atkvæði og heima og skila því á kjörstað, þ. e., nota fyrirliggjandi upplýsingar heima hjá sér og merkja inn á sýnishorn af kjörseðli, þá þurfa þessar kosningar ekki að taka neitt lengri tíma en alþingiskosningar.
En fyrirfram hafa margir talið að kosningarnar á morgun yrðu seinlegar og því viljað nota utankjörstaðagreiðslu til að flýta fyrir. Margir hafa líka staðið í þeirri trú að það þyrfti að fylla út 25 nöfn en því ræður hver kjósandi fyrir sig og getur þess vegna skilað einu nafni ef svo ber undir.
Í ljósi þessa óvenjulega ástands hefði manni fundist eðlilegt að utankjörstaðaatkvæðagreiðslan stæði lengur á hverjum degi í stað þess að þar hafa myndast biðraðir og örtröð.
Of seint er breyta því héðan af og þá er bara þessi hvatning sem gildir: "Tökum þátt í Stjórnlagaþingkosningunum!"
Ljúkum verkinu heima og skilum því á kjörstað á ekki lengri tíma en við hefðu notað í Alþingiskosningum !
![]() |
Rúmlega 10 þúsund kusu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2010 | 22:40
Hvað, þegar "framkvæmdatíma" lýkur?
Skómigustefnan skín út úr því þegar sagt er að álver á Bakka með tilheyrandi mun "skapa þúsundir starfa á framkvæmdatíma."
Ef hér ætti að halda öllu til haga ætti rétt setning að verða svona: "...mun skapa þúsundir starfa á framkvæmdatíma og þúsundir munu missa vinnuna þegar framkvæmdum lýkur."
Blönduvirkjun var talin allra meina bót og átti að tryggja fólksfækkun á Norðurlandi vestra á sínum tíma.
Hún skapaði "þúsundir starfa á framkvæmdatíma." Síðan misstu þúsundirnar þessa vinnu og menn vöknuðu upp við þann vonda draum að vegna ruðningsáhrifa höfðu þessar einhliða hrossalækningar í atvinnumálum tafið aðra uppbyggingu.
Og hvergi hefur fólki fækkað eins mikið á landinu og á þessu svæði síðan framkvæmdum lauk.
![]() |
Sjáum engin ný skilyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.11.2010 | 19:50
Frb. 9365: "Kötturinn sagði: "ekki ég..." "
Sama fyrirbærið veldur því nú að umhverfismál þoka fyrir öðrum málum í forgangsröðinni, sem stjórnvöld landa heimsins setja sér í því sem brýnast er að gera.
Kreppan er notuð sem afsökun fyrir því að láta reka á reiðanum í þessum efnum, ekki hvað síst hér á landi, þar sem "brýnustu aðgerðir, sem fara þarf strax í," eru efst á blaði.
Sagan um litlu gulu hænuna, eins sáraeinföld og þessi barnasaga er, er í fullu gildi á heimsvísu, landsvísu og allt niður í einstakar byggðir, einstaklinga og fjölskyldur.
![]() |
Losun gróðurhúsalofttegunda aldrei meiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2010 | 08:57
Óvitar? "Sárabót"?
Nú dúkkar upp hvert málið á fætur öðru varðandi furðulega almennan vandræðagang í kringum meðferðarheimili fyrir börn. Í Kastljósi í gærkvöldi var bent á það að Árbótarmálið væri ekkert einsdæmi heldur hefði þessi málaflokkur og stofnanirnar í kringum hann verið í uppnámi síðustu árin.
Einu sinni skrifaði Guðrún Helgadóttir leikrit sem hét Óvitar og var og sneri Guðrún þar við stærðarhlutföllum og hlutverkum barna og fullorðinna á þann skemmtilega hátt sem henni er einni lagið.
Þegar maður horfir upp á allan þann vandræðagang sem fullorðið fólk hefur valdið í kringum hin ýmsu meðferðarheimili fer maður að velta fyrir sér hvort fullorðna fólkið sé kannski aðal "óvitarnir" á svæðinu og meira vandamál en skjólstæðingar þess og að stofna þurfi sérstak meðferðarheimili fyrir þau.
Það gæti fengið nafnið "Meðferðarheimilið Sárabót" og greinilega er úr tugum milljóna króna að moða til að fjármagna það.
Ja, ég bara segi svona.
![]() |
Telur jafnræðisreglu brotna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2010 | 20:10
Frb. 9365: Dómsmálin og Stjórnlagaþingið.
Dómsmálin verða eitt af sviðunum í löggjöf landsins sem koma til kasta Stjórnlagaþings. Núverandi stjórnarskrá er fámál um skipan þeirra og kannski er ekki allt fengið með því að hafa ákvæði stjórnarskrárinnar mörg og löng um þau.
Þó hlýtur að koma til álita að kveða á um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds, til dæmis við skipun hæstaréttardómara.
Einnig það hvort rétt sé að koma á fót millidómsstigi og sérstökum stjórnlagadómstóli, auk þess sem ákvæðin um Landsdóm þarfnast skoðunar og þá jafnvel til umræðu að leggja hann niður og skipa málum þannig að viðfangsefni hans falli undir stjórnlagadómstól.
Það eru augljósir vankantar á því og hætta á hagsmunaárekstrum að Alþingi ákveði málshöfðun á hendur ráðherrum, sem það sjálft hefur borið ábyrgð á að voru skipaðir.
![]() |
Fjölgun dómara m.a. vegna landsdóms |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2010 | 09:22
(Fb. 9365) "Ekkert fær staðist..."
Það er gróin hefð fyrir því að sjóði upp úr í einstaka vinnustaðasamkomum hér á landi.
(Það sauð þó ekki uppúr partýinu eins og sagt er í tengdri frétt á mbl.is, heldur sauð upp úr í því)
Eitt af mörgum svona atvikum í skemmtanasögu landsins komst í fréttir fyrir meira en áratug þegar mikil átök urðu á skemmtun björgunarsveitarmanna sem haldið var á Nesjavöllum svo að kalla varð lögreglu til ef ég man rétt og urðu af þessu talsverð eftirmál.
Hér í gamla daga skemmti ég árlega á árshátíð prentsmiðjunnar Eddu, en sú prentsmiðja prentaði dagblaðið Tímann.
Á einni árshátíðinni urðu óvenju margir mjög ölvaðir og bar þá svo við að ritstjóranum sýndist einn prentaranna gera sér full dælt við eiginkonu sína og skarst í leikinn.
Kom til átaka á milli þeirra sem fóru alveg úr böndunum og lauk þeim þannig að ritstjórinn sá ekkert annað ráð til bjargar sér en það, að hann beit prentarann í lærið.
Fyrir hverja árshátíð var gefið út sérstakt blað starfsmanna sem var dreift á árshátíðinni og hét "Hálftíminn".
Þetta var stórskemmtilegt blað því að þar létu menn þar gamminn geysa í miklu gríni um það helsta sem hafði borið við á árinu á undan.
Ári eftir að ritstjórinn beit prentarann var úr vöndu að ráða, því að þetta atvik hafði verið það, sem var einna fréttnæmast á því ári innan fyrirtækisins. Þótti mönnum sýnt að yfirstjórn blaðsins og prentsmiðjunnar myndi ekki verða skemmt yfir slíkri umfjöllun og gætu frekari eftirmál hlotist af.
Loks duttu menn þó niður á lausn, sem gerði málinu skil, án þess að áberandi væri.
Í hverjum Hálftíma var dálkur undir nafninu "Málshættir og orðtök" og inn í þann dálk var laumað sakleysislegu máltæki: "Ekkert fær staðist Tímans tönn."
Taldist máli þessu þar með endanlega lokið.
![]() |
Sauð upp úr starfsmannapartýi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2010 | 22:40
Fékk pening til að sækja forboðið "slökkvilið".
Farsakenndir atburðir í Hruninu haustið 2008 hrúgast upp með hverri bók eða skýrslu, sem um það er skrifuð.
Í bók Árna M. Mathiesen er ástandi Hrundaganna ágætlega lýst. Við munum öll að fólk hamstraði og vissi ekki frá degi til dags hvort alger vöruskortur yrði. Það var stórmerkilegt að ekki fór verr og að þjóðlífið stöðvaðist ekki þessa ólgudaga þegar bjarga þurfti ótrúlega miklu á alltof stuttum tíma.
En þarna kom fram hinn íslenski hæfileiki til að redda sér þegar allt virðist vonlausast.
Nú kemur upp úr dúrnum að Árni Mathiesen segist hafa kreist síðustu krónurnar út úr Davíð til þess að komast í ferð til útlanda til þess að sækja "slökkvilið" til að slökkva í rústum íslenska bankakerfisins sem hrunið var og brunnið til kaldra kola þótt áður nefndur Davíð hefði hent milljarðatugum króna á bálið til þess eins að þær brynnu upp og yrðu að engu!
Þessi sami Davíð hamaðist þó eins og berserkur þessa haustdaga gegn því að þetta "slökkvilið" yrði kallað út!
Vaá! Maður!
![]() |
Fór með síðasta gjaldeyrinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2010 | 20:39
Frb. 9365: Hugarfarið ræður mestu.
Áskorun Geðhjálpar til fjölmiðla um vandaða umfjöllum um málefni geðveikra leiðir hugann að því hvað okkur hættir til að nota orð, sem tengjast þessu sviði heilbrigðis- og félagsmála, til þess að tala í lítilsvirðandi tón um hvert annað.
Nefna má orðið öryrki í því sambandi og í sjónvarpsviðiðtölum um neikvæðra merkingu orðsins komu fram tvenn sjónarmið. Annars vegar það að skilgreiningin væri röng en hins vegar að að hún væri það ekki, heldur hugarfarið sem lægi að baki notkunar orðsins.
Ég held að hið síðara sé nær sanni.
Á sínum tíma var var notað orðið vitskertur um skort á greind og er það afar gott orð þegar raunveruleg merking þess er skoðuð, því að allir eru í raun skertir á viti á einhverju sviði, það er, það vantar eitthvað einhvers staðar upp á fullkomnun á andans sviði hjá okkur, ófullkomnum manneskjum.
Skerðingin getur verið mismikil en í stað þess að nota þetta orð af hófsemi, yfirvegun og fordómalaust, varð það að slíku skammaryrði að það þýðir nú að viðkomandi sé gersamlega genginn af göflunum, sem er alrangt ef nákvæm hljóðan og merking orðsins er skoðuð.
Stofnun Styrktarfélags vangefinna var mikið framfaraspor á sínum tíma og orðið vangefinn lýsti því að viðkomandi gat sjálfur ekkert að því gert að hafa ekki fengið eins góð spil á hendina í þessu efni og gengur og gerist.
En síðan gerðist það að farið var að nota orðið vangefinn í lítilsvirðandi tóni og sem hálfgert skammaryrði svo að menn sáu sitt óvænna og tóku upp orðið þroskaheftur í staðinn.
Ekki dugði það betur í tímans rás og þetta sýnir, að engin leið er að halda svona áfram út í hið óendanlega með því að finna upp ný og ný orð, heldur verður að leita að ástæðu og uppruna þessa vanda.
Og það sem er að, er hugarfarið sem býr að baki notkun orðanna, ekki orðin sjálf.
Nú um stundir er stunduð óhófleg notkun orðsins geðveikt til að hnykkja á lýsingarorðum, t.d. geðveikt flottur eða geðveikt góður í raun afar ósmekkleg og særandi fyrir þá sem ekki njóta sömu geðheilsu og tíðkast að meðaltali.
Þótt ætlunin með svona orðavali sé kannski ekki byggð á slæmu hugarfari held ég að gott væri að finna einhver önnur orð til að nota til að hnykkja á lýsingarorðum.
Hugarfarið sem hefur gert orðin vangefinn og þroskaheftur að skammaryrði er í raun sjúkara heldur en orðin sjálf og áskorun Geðhjálpar á því ekki aðeins við um umfjöllun fjölmiðla, heldur á hún erindi til okkar allra.
Þetta er áskorun um jafnrétti, mannréttindi og virðingu, hugtök, sem Þjóðfundurinn 2009 setti ofarlega á blað og ætti að vera leiðarljós komandi Stjórnlagaþings.
![]() |
Fjölmiðlar vandi umfjöllun um málefni geðveikra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2010 | 17:52
Þegar valdatafl hefur áhrif á hernað.
Það er ekki nýnæmi að valdatafl hafi áhrif á utanríkisstefnu og jafnvel stríðsrekstur þjóða eins og nú er giskað á að eigi sér stað í Norður-Kóreu.
Ýmsar grunsemdir hafa löngum verið á kreiki varðandi slæm ráð sem Carter Bandaríkjaforseti fékk hjá leyniþjónustunni og hernaðaryfirvöldum varðandi hina misheppnuðu ferð til að frelsa bandaríska gísla í Íran 1979.
Og menn hafa velt vöngum yfir því að stuðningsmenn Repúblikana hafi jafnvel beitt sér fyrir því á bak við tjöldin við Íransstjórn að hún léti gíslana ekki lausa. Það hafi verið gert í því skyni að það kæmi sér illa fyrir Carter svo að hann hrökklaðist frá völdum.
Hafðar hafa verið uppi samsæriskenningar varðandi árás algert andvaraleysi Bandaríkjamanna gagnvart árásinni á Perluhöfn 7. desember 1941 og árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001.
Snúast þær um það að þáverandi forsetar, Roosevelt 1941 og Bush 2001 hafi stuðlað að árangri þessara árása af því að það styrkti þá í sessi og þjappaði þjóðinni að baki þeim.
Í ýmsum sagnfræðibókum sjá menn upphaf stríðsins milli Japana og Bandaríkjanna öðruvísi nú en fyrir 70 árum og benda á að hinar hörðu viðskiptahömlur Bandaríkjamanna gagnvart Japönum hafi neytt þá síðarnefndu út í stríð, því að ella myndu þeir "missa andlitið" á niðurlægjandi hátt.
Mörg dæmi eru um það frá þessum árum að japanskir ráðamenn gátu ekki sætt sig við niðurlægiguna sem fólst í eftirgjöf.
Þannig réðu Bandaríkjamenn dulmálskerfi Japana og réðust á flugvél Yamamato, þess hins sama og skipulagði árásina á Perluhöfn, og drápu hann.
Með því tóku þeir áhættuna á því að Japanir legðu saman tvo og tvo og sæu, að Kanarnir hefðu ekki getað gert þetta nema að hafa vitað af því á óeðlilegan hátt.
En í þessu tilfelli var það "andlitsmissir" sem Japanarnir afbáru ekki að viðurkenna að þeim hefði mistekist og þess vegna héldu þeir áfram að nota dulmálið.
Mjög ólíklegt verður að telja að samsæriskenningarnar um Roosevelt og Bush séu réttar.
Það var í báðum tilfellum ekki spurningin um hvort, heldur hvenæar óvinirnir létu til skarar skríða.
![]() |
Valdatafl í Norður-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)