Búdda-stytturnar í Afganistan.

250px-Afghanistan_Statua_di_Budda_1-1

Það sauð og kraumaði af mótmælum og hneykslan í alþjóðasamfélaginu þegar stjórn Talibana í Afganistan stóð að því 2001 að sprengja og eyðilegggja risastórar styttur af Búdda, sem gerðar höfðu verið fyrir margt löngu í 2500 metra hæð uppi í fjöllunum 230 kílómetra frá höfuðborginni Kabúl. 

Þótti þetta mikil óhæfa. Þó voru áreiðanlega til lönd í heiminum, þar á meðal Ísland, þar sem enginn hafði séð þessar styttur.

Það var réttilega ekki talið skipta máli heldur vitneskjan um að þessi listaverk og menningarverðmæti væru til.

Þetta sögðu og viðurkenndu menn hér á landi sem sögðu á hinn bóginn að engin ástæða væri til að varðveita náttúruverðmæti hér á landi vegna þess hve fáir hefðu séð þau.  

Nú vilja Japanir og Svisslendingar fá að standa að því að endurgera þessar styttur og af því má draga þá ályktun að þessi hervirki hinna illu Talibana hafi samt sem áður verið bætanleg og eyðilegging þeirra afturkræf.

Hér á Íslandi leggja menn kollhúfur yfir því að hinn eldvirki hluti landsins sé talinn eitt af helstu náttúruundrum veraldar og telja það í góðu lagi að eyðileggja sumt af því merkasta á algerlega óafturkræfan hátt vegna þess að svo fáir hafi séð viðkomandi verðmæti.

Nýrunnið og úfið hraun í Gjástykki verður ekki endurgert eins og stytturnar í Afganistan og þaðan af síður verður Hjalladalur sem nú hefur verið drekkt í drullu endurheimtur með öllum sínum fjölbreytilegu náttúruverðmætum.

Það er hins vegar til marks um það hvernig allri umræðu er snúið á haus að það fólk á vinstri væng stjórnmálanna sem fyrir nokkrum árum vildi ekki ganga braut óafturkræfrar eyðileggingar á mestu verðmætum landsins skyldi fá uppnefnið Talibanar á sínum tíma.  

George Orwell hefði elskað að setja slíkt inn í bók sína 1984.  


Mistök og leynd á Íslandi.

Mistökin og leyndin varðandi innrásina í Írak voru verri á Íslandi en í Bretlandi. '

Hér á landi var ekki aðeins tekið undir rangfærslur Bandaríkjamanna um gerðeyðingarvopn í Írak heldur tóku tveir menn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sér það bessaleyfi að ákveða leynilega tveir einir að Íslendingar skyldu varpa fyrir róða á áberandi hátt utanríkisstefnu þjóðarinnar allt frá 1918 og gerast aðilar að þessari árás á fjarlæga þjóð.

Í skoðanakönnunum kom fram að þetta gerðu þeir í blóra við vilja 70% landsmanna.  

Ofan á þetta sýndu þessir menn gróft vanmat á stefnu Bandaríkjamanna í utanríkismálum þegar þeir héldu að ástand Kalda stríðsins væri enn á Norður-Atlantshafi þótt því stríði hefði lokið fyrir fimmtán árum.

Kvikmyndaskeiðið af Davíð Oddssyni og George Bush yngra á fundi þeirra í Hvíta húsinu á eftir að verða aðhlátursefni um ókomna tíð.

Fyrir kosningarnar vorið 2003 var því haldið leyndu fyrir þjóðinni að Bandaríkjamenn væru í raun búnir að ákveða að leggja herstöðina á Miðnesheiði niður.

Tony Blair og menn hans komust ekki með tærnar þar sem Davíð og Hallór höfðu hælana.

Íslenska þjóðin nöldraði en gerði ekki neitt vegna þessarar niðurlægingar sem hún hafði orðið að þola af hendi ráðamanna sinna.

Þeir voru látnir halda áfram á þeirri braut sem leiddi af sér hrunið mikla.

Það bendir til þess að nokkuð sé til í því sem sagt hefur verið að hver þjóð fái þá ráðamenn sem hún á skilið.  

 


mbl.is Mistök og leynd í Íraksinnrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...varð bílvelta..."

Þetta verða tvær bloggfærslur með fimm mínútna millibili út af ambögunni "bílvelta varð."

Í fréttinni, sem þessi pistill er tengdur við, er þessu raunar snúið við: "...þá varð bívelta..."

Og ég er í miðjum klíðum við að skrifa þessa stuttu færslu þegar það sama er sagt í fréttum útvarpsins: "...loks varð bílvelta...." 

"Bílvelta varð," þrisvar á tíu mínútum !  

 

 


mbl.is Bílvelta við Borgarnes í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bílvelta varð..." einu sinni enn.

Ég hef tekið þá ákvörðun að blogga í hvert skipti um það þegar sagt verður í fréttum "bílvelta varð" jafnvel þótt það sé eins og að skvetta vatni á gæs, því að sömu ambögurnar vaða uppi endalaust. 

Þetta sýnist ekki vera merkileg ambaga en hún er dæmigerð fyrir málalengingar, nafnorðasýki, kansellístíl, leti og oft rökleysur sem virðist frekar færast í aukana hjá mörgum íslenskum fjölmiðlamönnum.

Sem sagt:

Bíll valt, fólki fjölgaði, kaupmáttur jókst, 

-  ekki: -  

bílvelta varð, aukning varð á fólksfjölda, - kaupmáttaraukning varð.  

Nefni aftur sem dæmi það sem einn af þingmönnum Vestfjarða sem sagði:

"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum"....

þegar hann gat sagt:

"Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum."  


mbl.is Bílvelta á Þingvallavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horft fram til næstu 6 mánaða.

Íslenskir stjórnmálamenn eru komnir í gamalkunnan ham. Eftir sex mánuði verða kosningar, byggðakosningar, og allt verður að miðast við það. 

Stóriðjustefnan fær vítamínsprautu. Eða eigum við að segja amfetamínsprautu?  

Lofað er "600 störfum meðan á framkvæmdum stendur:" En hvað svo? Verða þá ekki hinir sömu 600 atvinnulausir? Sumir hinna ófaglærðu munu þá sjá eftir því að hafa frestað því að fara í nám. 

"Hindrunum verður rutt úr vegi Suðvesturlínu". Hvaða hindranir eru það? Eru það sveitarstjórnir tólf sveitarfélaga sem þurfa að samþykkja línuna sem geta orðið "hindranir í veginum"?

Eru það neysluvatnssvæði höfuðborgarinnar. Eða er hindrunin umhverfisráðherrann? 

Orðið "hindrun" er þeim hugstætt sem fylgja fastast fram þeirri óðagots- og örvæningarstefnu sem bitna mun á næstu kynsllóðum. Þessari æðibunustefnu er vel lýst með gamla máltækinu "það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn." Má kannski kalla hana skómigustefnuna. 

Erum við, sem andæfum Bitruvirkjun, "hindrun" í vegi álversins mikla? 

Eða er "hindrunin" sú stefna Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundi hennar skömmu fyrir síðustu kosningar, sem kvað á um það að hætta skuli "ágengri vinnslu" á jarðvarmasvæðum.

Slíka ágenga vinnslu er samt ætlunin að viðhafa við orkuöflun handa álverinu í Straumsvík.  

Ekki er vitað hvaða orku hvert vinnslusvæði muni gefa til langframa. Vísindamenn giska á að þau endist í 50 ár en treysta sér ekki til að sjá lengra fram í tímann og þetta kemur ekki í ljós fyrr en árin líða. 

Í stefnu Samfylkingarinnar er ákvæði um "jafnrétti kynslóðanna" og "sjálfbæra þróun."  Er sú stefna nú orðin "hindrun"? 

Því að jafnrétti kynslóðanna og sjálfbær þróun verða fótum troðin ef menn standa uppi eftir 50 ár með þverrandi orku.  

Og jafnvel þótt orkusvæðin endist í 50 ár er ekki séð að næg orka muni fást fyrir 360 þúsund tonna álver sem þarf 625 megavött, um það bil jafnmikið og allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.

Heiðarleiki var helsta dyggðin sem nýliðinn þjóðfundur setti á blað. Auk hans voru hófstilling, viska og hugrekki þrjár af höfuðdyggðunum fjórum hjá Forngrikkjum. 

Allar þessar dyggðir eru fótumtroðnar í núverandi virkjanastefnu.

Það er ekki heiðarlegt gagnvart komandi kynslóðum að ganga fram af svona eigingirni og skammsýni.

Það er engin hófstilling fólgin í óðagoti og æðibunugangi stefnu sem krefjast mun þess að farið verði hamförum um náttúrugersemar Íslands fyrir risaálver sem bægja öðrum og skaplegri orkukaupendum frá. 

Virkjanasinnar segjast vera hófstilltir þegar þeir vilja virkja á fimm vinnslusvæðum á Nesjavalla-Heillisheiðarsvæðinu en segja að við, sem viljum þyrma einu af þessum fimm svæðum séum "öfgamenn."  

Það felst ekki viska í því þekkingarleysi og þöggun um verðmæti íslenskrar náttúru og eðli virkjananna sem hér hefur viðgengist.

Sex mánuðum fyrir kosningar hverfur það litla hugrekki sem stjórnmálamenn hafa og þeir hamast við að bjarga sér hver sem betur getur og forðast að taka ærlega til hjá sér og þjóðinni sem hefur kosið þá.  

 


mbl.is Hindrunum rutt úr vegi Suðvesturlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf virkjanir á fleiri stöðum samtímis.

Þegar ég var strákur las ég bók sem hét Undur veraldar og var kaflaskipt. Stór kafli var um hæstu tinda heims og glímu manna við þá, einkum Everest, en einn kaflinn fjallaði um virkjanir sjávarfalla.  

Í honum var því spáð að þetta yrði aðalorkulind mannkyns í framtíðinni í svo stórum stíl, að það myndi hægja á snúningi jarðar og afleiðingarnar yrðu þær að vegna minna miðflóttafls héldist tunglið ekki lengur í sömu fjarlægð frá jörðinni, heldur nálgaðist hana sífellt uns það hrapaði til jarðar og eyddi öllu lífi á jörðinni.

Ein af mörgum dómsdagsspám sem gerðar hafa verið.

Gallinn við sjávarfallavirkjanir er sá að mitt á milli flóðs og fjöru, á "liggjandanum", er enginn straumur og því engin rafmagnsframleiðsla.

Í áltrúarþjóðfélagi okkar þýðir þetta að þessi orka sé ekki nýtanleg, - allt verður að miðast við samfellda orkuframleiðslu álvera eða hliðstæðrar starfsemi sem þarf stöðuga raforku allan sólarhringinn. 

Koma þyrfti á fót kerfi sjávarfallavirkjana umhverfis landið þannig að alltaf væru einhverjar virkjanir í gangi og þær ynnu hvor aðra upp.

Hugsa mætti þetta enn stærra sem net sjávarfallavirkjana um alla Evrópu sem ynnu hver aðra upp og væru tengdar saman með rafstreng yfir hafið.  

Raunar veit ég um kunnáttumann sem vinnur að hugmynd um jarðgangatengingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar þar sem sífelldur staumur á milli myndi tryggja jafna rafmagnframleiðslu.  


mbl.is Virkjun sjávarfalla í Breiðafirði er talin vel möguleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á að draga mörkin?

Dómarinn er hluti af leikvanginum. Þessi röksemd er notuð fyrir því að ekki sé hægt að elta ólar við mistök í dómgæslu, samanber markið góða sem Maradona skoraði hér um árið með "hönd Guðs"

Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í þessu tilliti því að dómaramistök geta auðvitað orðið svo alvarleg og dýrkeypt að ekki verði við það unað. 

Nútíma myndatökutækni gerir það mögulegt á mikilvægum leikjum að hafa sérstaka menn í því utan vallar að skoða vafaatriði nánast um leið og þau gerast og láta dómarann strax vita af því, til dæmis með milligöngu línuvarða. 

Það hefði verið hægt að gera þegar atvikið gerðist í leik Íra og Frakka og afgreiða það áður en ákveðið var að byrja leikinn aftur á miðju.

Tilvist línuvarða í knattspyrnuleikjum er viðurkenning á því að ekki verður við það unað að dómarinn geti einn og hjálparlaust séð alla hluti og dæmt rétt.

Dómarinn getur sniðgengið álit línuvarða ef hann vill en hann notfærir sér þá þó langoftast.

Á sama hátt ætti að vera hægt að koma því svo fyrir að dómarinn geti fengið vitneskju um atriði, sem sjást á myndavélum. Þeim skilaboðum á að vera hægt að koma til línuvarða sem geta síðan borið þau til dómarans.

Eftir sem áður hefði dómarinn að sjálfsögðu úrslitavald um það hvort hann breytir dómi sínum eða fer eftir áliti aðstoðarmanna sinna.  


mbl.is Frakkar taka ekki í mál að spila aftur við Íra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytt nafn vegna hættu á einelti.

Ekkert er nýtt undir sólinni samanber einelti gegn rauðhærðum þessa dagana.

Ég kannast við þetta. Þegar ég fæddist kom það öllum í opna skjöldu að ég var eldrauðhærður. 

Hvorki foreldrar mínir né forfeður og formæður voru með þennan háralit, en þó fannst rautt hár í báðum ættum.

Ég var fyrsta barn foreldra á táningsaldri og átti að skíra mig í höfuðið á móðurömmu og afa, sem hétu Ólöf Runólfsdóttir og Þorfinnur Guðbrandsson, - átti að heita Ólafur Þorfinnur Ragnarsson. 

En foreldrar mínir óttuðust að ég fengi viðurnefnið "rauði" og yrði kallaður Óli rauði til aðgreiningar frá öðrum með því algenga nafni. Það gæti aukið hættuna á einelti.

Þau gripu því til þess ráðs að nefna mig Ómar. Það nafn var svo sjaldgæft á þeim tíma að það var ekki fyrr en við Ómar Konráðsson urðum fullorðnir að nafnið sást í símaskránni.

Nafnið var það sjaldgæft að aldrei þurfti að bæta viðurnefninu "rauði" við það og ég varð aldrei fyrir einelti vegna háralitsins.

Mér var fyrstu árin að vísu nokkur ami að því á stundum að heita svona sjaldgæfu nafni og fá viðbrögð við því þegar ég var spurður nafni og fólk hváði: "Hvað, heitirðu Ómar? Ómar Kayam? Ómar Bradley?

Ómar Bradley var einn af helstu hershöfðingum Bandaríkjamanna og var sífellt í fréttinum þegar ég var 4-5 ára.

Eftir því sem árin hafa liðið hef ég orðið foreldrum mínum æ þakklátari fyrir nafngjöfina.  


mbl.is Einelti gegn rauðhærðum í tilefni dagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur Egils ?

Egill Skallagrímsson er talinn hafa verið upp um það bil frá 910-990.

515783A

Það er því hægt að gamna sér við það að silfurmyntin, sem fannst á Þingvöllum í vor og getur hafa borist til Íslands fyrir 990, sé hluti af silfursjóði Egils, sem hann íhugaði að dreifa yfir þingheim til þess að sjá almennilegan bardaga áður en hann sneri tánum upp.

Hann hefur kannski gert smá prófun og kastað nokkrum silfurpeningum upp í loftið til að kanna viðbrögðin, áður en hann ákvað, hvort hann ætti að láta allan sjóðinn gossa eða grafa hann og fela eins og sagt er að hann hafi gert.

Skemmtileg pæling hjá Agli og minnir á söguna af séra Árna Þórarinssyni, sem var lítt hrifinn af þáverandi biskupi, sem Árni sagði getað "afkristnað heilt sólkerfi."

Presturinn í Stykkishólmi var þá kominn með elliglöp og var sagt að þegar hann sigldi inn til New York í síðustu utanlandsferð sinni hafi honum orðið að orði: "Ansi eru þeir búnir að byggja mikið í Hólminum."

Skömmu síðar hitti séra Árni vin sinn, sem var kunnugur prestinum gamla í Hólminum, og spurði Árni hvernig sá gamli hefði það.

Fékk hann þau svör að það væri farið að slá verulega útí fyrir honum. Honum hefði til dæmis verið sagt að halda ætti mikla hátíð á Þingvöllum og að þar yrði mikið stórmenni, meðal annars biskupinn.

En gamli Stykkishólmspresturinn misskildi þetta eitthvað og endursagði þetta þannig að til stæði að drekkja biskupnum á Þingvallahátíðinni. 

Þegar séra Árni heyrði þetta sagði hann: "Já, er hann svona ruglaður, gamli maðurinn?  En hugmyndin var góð!"  

  

 


mbl.is Silfurmynt frá 10. öld á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó er allt stopp.

Í heilt ár hafa yfirlýsingar og fréttir vegna hugsanlegra og mögulegra lánveitinga til Íslendinga verið misvísandi og óljósar.

Allan þennan tíma hefur hugarástand margra Íslendinga verið þessu líkt:

 

Aðþrengdur landinn hátt nú hoppar. /

"Helvítis flopp!  /

Það er enginn sem þetta stoppar  /

en þó er allt stopp !"


mbl.is Segir norska lánið til reiðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband