Margt gott hjá Styrmi.

Á langri ritstjóratíð sinni var Styrmi Gunnarssyni ekki um það gefið að koma í viðtöl í fjölmiðlum.

Nú er hann frjáls og getur auðvitað ekki slegið hendi á móti því að nýútkomin bók hans um hrunið fái umfjöllun.

Margt gott kom fram hjá Styrmi í kvöld, svo sem um það að færa völdin í stærstu málum í okkar mikla kunningja- og venslaþjóðfélagi beint til þjóðarinnar sjálfrar.

Það er eins og talað út úr mínu hjarta og minnir mig á þá tilviljun að lengi hefur verið auglýsing fyrir sunnudagsmoggann á áberandi stað í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli með fyrirsögninni "allt sem þjóðinni viðkemur" en það var tilvitnun í viðtal við mig í Morgunblaðinu í aðdraganda kosninganna 2007. 

Þá féllu svona ummæli og umbótastefna Íslandshreyfingarinnar í stjórnskipunarmálum í grýttan jarðveg og enn verður vart við mikla fyrirstöðu og íhaldssemi gagnvart sjálfsögðum breytingum í lýðræðisátt.

Það var rétt hjá Styrmi að Bretar fengu aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn með sér í því að vera ákaflega ósveigjanlegir og um sumt fullir af offorsi í garð Íslendinga þegar ljóst var að regluverk Evrópusambandsins í bankamálum var gallað.

Aðstæðum og ástæðum Breta var vel lýst í sjónvarpsþætti BBC sem var sýndur í gærkvöldi þar sem því var lýst að sömu dagana og íslenska kerfið hrundi var breska bankakerfið komið fram á brún hengiflugs og ráðamenn Breta lögðu dag við nótt í örvæntingarfullri baráttu fyrir því að forðast hrunið sem var svo nálægt, að þeir bankar sem tæpast stóðu, vissu ekki að kveldi hvort þeir yrðu gjaldþrota daginn eftir.

Þessa daga voru Bretar komnir út í horn og í þeirri stöðu verða menn stundum ekki einhamir.  

Í þessu andrúmslofti þreifst enginn sveigjanleiki eða sanngirni gagnvart Íslendingum, sem voru greinilega taldir stórhættulegir ef þeir mismunuðu innistæðueigendum eftir þjóðerni,  og ég er sammála Styrmi Gunnarssyni að æðstu ráðamenn beggja þjóða hefðu þurft að hittast strax snemma árs 2008 og æ síðan.

Þegar þorskastríðin stóðu yfir hittust æðstu ráðamenn þjóðarinnar og hrunstríðið mikla er á sama plani og þau.

Gildir einu hvort þessir fundir hefðu skilað lausn frekar en sumir fundir æðstu ráðamanna í þorskastríðunum. Svona fundir gátu aldrei orðið til annars en að skýra málin og koma sjónarmiðum á framfæri á æðsta valdastigi.

Með þessu er ég ekki að segja að Íslendingar hafi ekki sjálfir átt sinn þátt í því hvernig fór. Það er óskiljanlegt hvernig bankakerfið fékk að blása út án þess að þjóðin vissi um það fyrr en um seinan upp í  himinhæðir með svo skelfilegri áhættu, að dæmalaust er hjá nokkurri annarri þjóð.  


Ljósgeisli í myrkrinu.

Hvað ætli það séu liðin mörg ár síðan góð frétt hefur borist af mælingum á þorskstofninum? Ég veita það ekki og enda þótt það sé aðeins um einn árgang þorsks að ræða sem nú mælist sterkur er það ljósgeisli í hinu langvinna myrkri sem hefur ríkt í þessum efnum í áratugi.

Þessi árgangur kemur að vísu ekki inn að marki fyrr en síðar og vonandi að hann haldi sínu svo að við getum notið þessa jafnframt því sem farið verði fram af fremstu skynsemi og yfirvegun í meðferð þessarar auðlindar.


mbl.is Gríðarsterkur þorskárgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deyfandi tölur.

Hinar svimandi háu tölur sem eru alls staðar á sveimi í kringum hrunið gerir fólk dofið og ónæmt fyrir tölum.

Sem dæmi má nefna að þegar ég hef verið að gagnrýna ámælisvert áhættuspil með milljarð króna sem tapaðist í djúpborun við Leirhnjúk yppta menn bara öxlum. 

Milljónir, sem áður þóttu háar tölur, verða að engu í samanburði við milljarða, sem eru þúsund sinnum stærri tala.

Krónan var stækkuð hundraðfalt í ársbyrjun 1981 og þá sagði þáverandi forsætisráðherra, Gunnar Thoroddsen, í ávarpi sínu á gamlárskvöld: "Vilji er allt sem þarf" um það að kveða verðbólguna niður.

Ríkisstjórn hans fór þó hraklegar út úr þeirri glímu en nokkur önnur ríkisstjórn og nú hefur krónan minnkað meira en hundraðfalt síðan 1981.

Ég var þeirrar skoðunar 1981 að þá hefði átt að skera þrjú núll aftan af krónunni og stækka hana þúsundfalt.

Það hefði auðveldað alla umræðu að tala um milljónir þar sem áður var talað um milljarða og tala um krónur þar sem áður var talað um þúsundir króna.

Ef það hefði verið gert væri auðveldara að glöggva sig á ofurtölunum, sem nú eru á sveimi þegar í ljós kemur að í "ástarbréfahring" banka og fyrirtækja í "gróðæris"-ruglinu voru menna að búa til hundruð milljarða króna úr engu.

Ég legg til að við skerum þrjú núll af krónunni núna til að við fáum kannski eitthvað skárra og ódofið jarðsamband. 


mbl.is Veruleg skuldaaukning Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...að vita´að ekki hvort þær séu í.....

Um hinn nýja c-streng í nærbuxum kvenna sem ekki á að sjást í gegnum þröngar síðbuxur vil ég aðeins segja þetta:  

 

Sífellt leita dömur að brögðum sem drengina blekki /

og dragi þá að sér með sjónhverfingum sem kalla má hrekki. /

Í þröngum síðbuxum vona þær heitt að þá veki og trekki   / 

að vita´að ekki hvort að þær séu í nærbuxum - eða ekki.

 

Því eins og segir í þekktri vísu:

 

Fegurð hrífur hugann meira  /

ef hjúpuð er  /

svo andann gruni ennþá fleira  /

en augað sér.  


mbl.is Tekur c-strengur við af g-streng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá næstfrægasti í heimi.

Þekktasti og mest sótti eldfjallagarður í heimi er á Hawai. Þangað koma um þrjár milljónir manna á ári og þurfa flestir að fara yfir þveran hnöttinn um meginlönd og Kyrrahafið til að komast til Hawai, - og þegar þangað er komið þarf að fara á milli eyja.  

Eldfjallasvæðið á Reykjanesskaganum er í stuttri fjarlægð frá alþjóðaflugvelli og höfuðborg landsins og margfalt styttra fyrir meginhluta markhóps ferðamanna að komast þangað en til garðsins á Hawai.

Ásta Þorleifsdóttir hefur best allra kynnt sér eldfjallagarðinn á Hawai og haldið um hann fróðlega og góða fyrirlestra.

Í Silfri Egils fyrir tæpum þremur árum lýsti ég möguleikunum á slíkum garði.  

Ef menn ætla ekki að stúta öllum Reykjanesskaganum í virkjanir á eldfjallagarður á Reykjanesskaganum möguleika á að verða frægari en keppinautur hans á Hawai. 

Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af of mikilli örtröð í þessum eldfjallagarði. Því getum við stjórnað á margvíslegan hátt og nýtt okkur reynslu annarra þjóða.  

Þessi garður yrði þó ekki frægasta eldfjallasvæði heims heldur það næstfrægasta.

Stærsta, magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims liggur frá Vatnajökli norður í Öxarfjörð. 

Raunar má bæta við það svæðinu frá Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli (Suðurjöklum) um Friðland að Fjallabaki til Vatnajökuls. 

Á landsfundi Samfylkingarinnar í fyrra var samþykkt tillaga mín um að friða beri og gera að þjóðgarði allt svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls. 

Þessi tillaga vakti enga athygli né umfjöllun í fjölmiðlum.  

Þó myndi hún þýða að eftirtaldar virkjanir féllu út af lista yfir virkjanasvæði: Markarfljót, Reykjadalir, Hrafntinnusker og Torfajökulssvæðið, Bjallavirkjun, Skaftárveita (Langisjór) og Hólmsárvirkjun.  


mbl.is Eldfjallagarður samþykktur í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar landi og tungu.

Það tvennt, sem helst sameinar íslensku þjóðina, er landið og tungan sem hvort tveggja skapar okkur sóma og heiður í augum umheimsins ef við leggjum við þetta rækt. 

Í degi íslenskrar tungu í gær kom fram að móðurmálið á í vök að verjast, bæði vegna tómlætis um það, sem birtist í menntastofnunum, og einnig mátti sjá á bloggsíðum í gær skrif og athugasemdir sem sýndi að sumum finnst lítið til íslenskunnar koma og telja jafnvel að best sé að láta hana deyja drottni sínum svo að þjóðin sé ekki að eyða fé og tíma í að halda henni við.

Á útgáfusamkomu ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur í Iðnó nú síðdegis söng kór aldeilis frábær íslensk lög sem unun var að hlýða á. Þetta var vel viðeigandi hjá konu, sem hefur sýnt tungunni og landinu sérstaka rækt.

Ég sé ekki neina ástæðu fyrir Íslendinga til að vera með minnimáttarkennd gagnvart tungumálum, tónlist og annarri menningu stórþjóða.

Raunar er það svo að erlendis, til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum, er mikil áhersla lögð á að viðhalda og varðveita menningarverðmæti mismunandi þjóða um allan heim.

Til eru þeir sem telja að við eigum að taka upp ensku til þess að spara tíma og fé því að á þann hátt muni okkur vegna betur.

Þegar litið er til þjóða Evrópu er ekki að sjá þeim rúmlega tuttugu þjóðum, sem þurfa að kunna einu tungumáli meira en Bretar, Frakkar og Spánverjar, vegni neitt verr en stórþjóðunum.

Ekki er að sjá að þetta sé til dæmis Norðurlandaþjóðunum fjötur um fót.

Allar þjóðir gera til dæmis þær kröfur til fjölmiðlafólks að það hafi fullkomið vald á þjóðtungu sinni. 

Á það sýnist mér skorta hér á landi og virðist þessi vankunnátta færast í vöxt.

Annað hvort er þjóðtungan þjóðtunga eða ekki.

Íslendingar njóta virðingar í samfélagi þjóðanna, ekki síst í norðanverðri Evrópu fyrir að hafa varðveitt tungumál fornbókmennta okkar og norrænan menningararf.

Fyrir þá sem meta ekkert neins nema til peninga er rétt að huga að því að slíkur heiður og sómi getur verið peninga virði í viðskiptavild og samskiptum.  


mbl.is Útgáfu ævisögu Vigdísar fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vigdís Finnbogadóttir, - hugrekki og fórnarlund.

Nú síðdegis verður útgáfa ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur kynnt. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir henni og skal aðeins nefna þrjú atriði. 

Hún var valin kona 20. aldar á Íslandi og þarf ekki fleiri orð að hafa um það. Þá sögu eiga allir að þekkja.

Hún hefur flestum öðrum gert sér grein fyrir því þrennu, sem ég bloggaði um í gær á degi íslenskrar tungu: "Að þrenning ein og órofa er land, tunga og þjóð."

Hún gat setið róleg og notið geysilegra vinsælda sinna eftir að hún lét af embætti, - ornað sér við lárviðarsveiga mikils árangurs, sem varð heimsþekktur, og þakklæti þjóðarinnar vegna þess hvernig hún bar hróður hennar víða um lönd. 

En hún hikaði ekki við að stíga fram og taka afstöðu í heitasta og mikilsverðasta deilumáli síðustu ára, hvernig skuli fara með íslenska náttúru. Hún sýndi með því meira hugrekki og fórnarlund en ég hafði ímyndað mér að manneskja í hennar stöðu gæti gert.

Kennedy Bandaríkjaforseti skrifaði ungur að árum Pulitzer-verðlaunabókina "Profiles of Courage" (fékk leiðréttingu í athugasemd, - hún hét Profiles in Courage") sem mætti kalla Frásagnir af hugrökku fólki. 

Þar voru stórkoslegar sögur af fólki, sem ekki lét hrekjast fyrir óþægindum eða hótunum frá sannfæringu sinni. Um síðir fékk það uppreisn æru, stundum ekki fyrr en eftir sinn dag. 

Vigdís Finnbogadóttir er slík manneskja. 


Þetta hefur gerst áður.

Það er sjaldgæft að hnefaleikarar slái hvor annan niður samtímis en það hefur þó gerst. 

Fyrir tilviljun rakst ég á mynd af þessu á YouTube um daginn en lagði ekki á minnið hverjir voru að verki eða hvenær og hvar þetta gerðist.

Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um það að allt getur gerst í hnefaleikum.

Í bardaga Primo Carnera og Max Bear um heimsmeistaratitilinn í þungavigt 1934 sló Bear svo ótt og títt og villt til Carnera að í eitt sinn miðaði hann skakkt og hitti óvart dómarann.

Í bardaga Mike Tyson við Lou Savarese árið 2000 lét Tyson sér ekki nægja að ganga frá Savarese í horni hringsins heldur sló dómarann líka niður í leiðinni !  

Dæmi eru til um það að hnefaleikari hafi orðið svo reiður við úrskurð dómara að hann sló hann niður og má sjá það á YouTube.  

Í heimsmeistarabardaga í þungavigt 1923 slógu þeir Jack Dempsey og Luis Firpo, hið argentínska "villunaut frá Pampas", hvor annan niður alls átta sinnum í fyrstu lotunni og villinautið sló heimsmeistarann meira að segja út úr hringnum!  

Íþróttasérfræðingar völdu þessa lotu á sínum tíma sem magnaðasta íþróttaviðburð fyrri hluta hluta síðustu aldar.

Í lokin kem ég með leiðrétta frásögn sem var í upphaflega textanum í þessu bloggi þar sem mig misminnti.

Ég vil birta hér rétta frásögn svo að blogglesendur þurfi ekki að fara í athugasemdalistann, þar sem mér var bent á þetta.

Þetta atvik gerðist þegar Bernard Hopkins og Robert Allen börðust um heimsmeistaratitil í millivigt 1998.

Einn virtasti dómari þess tíma, Mills Lane ætlaði að stía köppunum í sundur nálægt horninu, en tókst ekki betur til en svo að hann ýtti Bernard Hopkins úr úr hringnum, svo að hann féll þar í gólfið og ökklabrotnaði !

Bardaginn var dæmdur ógildur fyrir bragðið en fram að þessu atviki hafði Hopkins valdið mér vonbrigðum fyrir lélegustu frammistöðu sem ég hafði séð af hans hálfu.

En hann slapp þarna fyrir horn, -  á sársaukafullan hátt að vísu, - og stóð sig meistaralega eftir þetta á öllum sínum langa ferli.  

Mills Lane var frekar lítill vexti og þess vegna ruglaði minni mitt þessu og úr varð sennilegri saga, að Lane hefði verið ýtt út úr hringnum.  


mbl.is Slógu hvor annan niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Land, tunga og þjóð.

Það er góð blanda verðlaunahafa sem fær viðurkenningu á degi íslenskrar tungu og ástæða til að óska þeim til hamingju með það.

Í tilefni dagsins læt ég fljóta hér með hugvekju sem fjallar um þá órofa einingu sem land, tunga og þjóð verður að vera í okkar kæra landi.

 

LAND, TUNGA OG ÞJÓÐ.

(Með sínu lagi)

 

Á ysta norðurhjara með auðnir, dali og fjöll  /

er eyjan bjarta og kalda sem fóstrar okkur öll.  /

Og okkur bindur böndum hið fagra föðurland  / 

með :,: firði, hraun og elfur, græn engi og fjörusand:;:  /

 

Landið mitt. Landið mitt.  /

 

Í þúsund ár og aldir vort dýra móðurmál  /

sem meitlar hugsun okkar skal greypt í þjóðarsál.  / 

Það geymir dýra arfinn á Íslands sagnaslóð  / 

og :,: einingu og samheldni veitir okkar þjóð :,:  /

 

Móðurmálið mitt. Móðurmálið mitt.  /

 

Og landi jökla og elda, sem undur heita má,  /

aldrei bregðist þjóðin sem varðveita það á.   /

Að loknu ævistarfi er leggjumst við í mold   /

var :,:líf vort helgað þjóðinni, tungu og feðrafold :,:  /

 

Þjóðin mín.  Þjóðin mín.  /

 

 Á ysta hjara þraukum við gegnum súrt og sætt.  /

Í sigri og mótbyr Ísland oss hefur fætt og klætt.  /

Í þúsund ár skal syngja í þúsund radda óð  /

að :,: þrenning ein og órofa er land mitt, tunga og þjóð :,:  /  

 

Landið mitt. Móðurmálið mitt. Þjóðin mín.  / 


mbl.is Þorsteinn frá Hamri fær Jónasarverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um farsímana sjálfa ?

P1010595

Þú heldur farsímanum þínum upp að eyranu í nokkurra sentimetra fjarlægð frá heilanum og ert þannig með rafeindabylgjur og geislun alveg upp við þetta viðkvæmasta líffæri líkamans. 

Þá vaknar spurningin: Var heilinn skapaður tll þess að búa við þetta áreiti?  Svarið er einfalt: Nei.

Á síðustu árum hefur rannsóknum á hegðun og heilsu mannsins verið sinnt mjög vel.

Hið merkilega og þó fyrirsjáanlega er, að það er sameiginlegt niðurstöðum þessara rannsókna að því nær sem við erum lífsháttum þúsunda kynslóða sem á undan okkur hafa lifað og skilað erfðaeiginleikum sínum áfram til okkar, því betur líður okkur.

Farsíminn er það nýtt tæki að það mun ekki koma fram fyrr en eftir áratugi hvaða áhrif hann hefur á heila fólks. Því miður. Þá kann að vera heldur seint að bregðast við.  


mbl.is Geislun undir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband