SUNDUR OG SAMAN.

Allt það sem Íslandshreyfingin varaði við strax í fyrravetur er nú að koma fram, - skefjalaust kapphlaup um orkuauðlindirnar sem ýmist sundrar samstarfi sveitarfélaga eða fá almenning til að taka þátt í áskorun til þeirra um að láta hana ekki renna sér úr greipum til kaupsýslumanna eins og nú hefur gerst á Suðurnefsjum. Nýjasta stefnubreyting Landsvirkjunar í orkusölumálum á sér ekki stað af hugsjón heldur vegna þess að að óbreyttu hefðu ráðamenn hennar verið berir að því að misfara áfram sem hingað til með fé almennings með því að selja mengandi álverum orkuna á spottprís.

Eftir stendur vaxandi ásókn í að eira engu í virkjunum uns öll leiðin frá Leifsstöð til Vonarskarðs á miðju hálendinu verði njörvuð í kerfi virkjana, stöðvarhúsa, gufleiðslna, vega, háspennulína borhola, stíflna og miðlunarlóna.

 


mbl.is Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum í uppnámi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁFRAM SÓTT Í ÍSLENSK NÁTTÚRUVERÐMÆTI.

Þótt ákvörðun Landsvirkjunar geti orðið fyrsta skrefið til þess að stöðva álvæðinguna á suðuvesturhorni landsins hefur ásókninni í íslensk náttúrverðmæti ekki verið hætt, heldur mun hún líklega færast í aukana á Norðausturlandi með kröfunni um álver á Bakka. Ekki liggur fyrir hvað Orkuveita Reykjavíkur hyggst fyrir en bæði Landsvirkjun og hún virðast ekkert hafa slegið af ágirnd sinni á Neðri-Þjórsá, Þjórsárverum, Ölkelduhálsi og öðrum virkjanasvæðum á Suðvesturlandi.

Össur Skarphéðinsson sér ekkert nema jákvætt við þetta og virðist einblína á það að nú verði það mengunarlaus fyrirtæki sem njóti orkunnar frá "hreinu og endurnýjanlegu" orkugjöfunum sem eru það þó ekki hvað snertir Hellisheiðarsvæðið. 

"Kaflaskiptin" sem Össur talar um snúa aðeins að framleiðslunni sem orkuöflunin hefur í för með sér en ekki að náttúruverðmætunum sem fórna á. Þótt netþjónabúin séu minni einingar en risaálver og skapi meiri tekjur og fleiri og betri störf en álver eru þau samt orkufrek og munu smám saman þurfa meiri og meiri orku og fleiri virkjanir.

Þörfin fyrir baráttu fyrir íslenskum náttúrugersemum, mestu verðmætum sem þetta land á er áfram fyrir hendi, þótt stóriðjuhraðlestin hafi aðeins hægt á sér hér syðra og farið út á annað spor, brautarteina sem liggja norður um Þeistarreyki og Mývatn til Bjarnarflags, Kröflu, Leirhnjúks og Gjástykkis.


mbl.is Össur: Ekkert nema jákvætt við ákvörðun Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SÖGUR AF FLUGVÖLLUM.

Ég var að koma úr leiðangri á austurhálendinu og sé að á tveimur bloggsíðum er fjallað um millilandaflugvelli á Suðurlandi sem varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, annan við Bakka og hinn við Selfoss. Hvorugur getur hins vegar orðið slíkur varaflugvöllur því að Suðurland er á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur en það er Reykjavíkurflugvöllur hins vegar ekki.

Í suðlægum vindáttum með raka, sudda og þoku, kemur þessi suddi beint af hafinu yfir Suðurland og ysta hluta Reykjanesskagans án þess að nokkur fyrirstaða sé. Reykjanesfjallgarðurinn með sín 6-700 metra háu Lönguhlíð og Bláfjöll virkar hins vegar eins og varnargarður fyrir Reykjavíkursvæðið þannig að þar er miklu skaplegra veður, sést jafnvel til sólar.

Þetta er alþekkt veðurfyrirbæri og ræður því til dæmis að þegar raki og þoka sest að Norðurlandi er þurrt og bjart fyrir sunnan og öfugt, þegar sunnaáttin gerir ófært til lendingar á Suðurlandi er bjart fyrir norðan fjöll. 

Hvernig væri nú að gá til veðurs áður en byggðir eru tveir milllandaflugvellir á Suðurlandi sem vonlausir varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll?  


DER ER HUL Í SPANDEN.

Ógleymanleg var túlkun Dirch Passer á danska laginu um fötuna sem lak og atburðarásina sem fór í heilhring ef átti að stöðva lekann. Kannski er svipað að gerast við Kárahnjúka þar sem jökulvatn lekur úr Hálslóni á sex stöðum niður í Laugavalladal, Hafrahvammagljúfur, Desjarárdal og Hrafnkelu. Meðan lekinn er ekki meiri en hann er nú skiptir hann ekki máli fyrir rennslið niður í Fljótsdal og orku tll álversins. En fleira gæti hangið á þessari spýtu.

Fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar afgreiddi málið eins og að auðvelt væri að þétta göngin betur þar sem þau leka vatni út í Hrafnkelu. 

En til þess þarf að tæma göngin af vatni til að komast að gatinu og þá rennur ekkert vatn til stöðvarhússins á meðan því að ekkert vatn kemur enn úr Hraunavirkjun og ekkert viðbótarrafmagn er að fá af landskerfinu. Der er hul i spanden.

Fjölmiðlafulltrúinn var ekki inntur nánar eftir því í útvarpsfréttum hvort menn hefðu hugleitt þetta nánar með tilliti til mismunandi atburðarásar.

Mér sýnist hún geta orðið þessi og kostirnir vera þrír:  

1.Leyfa göngunum að leka og treysta því að lekinn verði ekki of mikill. Ef hann verður of mikill yrði að skrúfa fyrir vatnið til stöðvarhússins með þeim afleiðingum að kerin í álverinu myndu skemmast. 

2. Bíða þar til hægt verður að fá vatn frá Hraunaveitu á þeim tíma þegar vatnsmagn í Jökulsá í Fljótsdal   er nógu mikið til að anna orkuþörf álversins. Það verður ekki fyrr en um mánaðamótin maí-júní 2009 og viðgerðin má ekki standa lengur en fram á haustið því að Hálslón er eina fullnægjandi vatnsmiðlunin.

3. Tæma göngin núna og hætta við að setja rafmagn nema á hluta af kerjum álversins þangað til búið er að finna lekastaðinn og þétta göngin betur. 

Að sjálfsögðu verður fyrsti kosturinn valinn og áhættan tekin eins og ævinlega hefur verið gert í þessari framkvæmd.

Ég vil ljúka þessari bloggfærslu með því að óska verkfræðingum, tæknimönnum og öllum starfsmönnum til hamingju með eins vel unnið verk hvað snertir Kárahnjúkavirkjun og hægt var að ætlast til.

Þetta er óhemju flókin og viðamikil framkvæmd og frammistaða þeirra sem að henni hafa unnið hafa verið eins og best gerist í heiminum.

Það er ekki við þá að sakast að stjórnmálamennirnir sem keyrðu þessa framkvæmd í gegn undir hugsunarhættinum "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var..." svo að vitnað sé í fleyg ummæli fjölmiðlafulltrúans um vandræðin við gangagerðina, -  tóku með því áhættu sem enn sér ekki fyrir endann á, samanber hættu á eldgosi af mannavöldum.

 

 

 


GOTT FRAMTAK FORSETA VORS, EN...

Núverandi forseti Íslands hefur að mínum dómi rækt skyldur sínar einstaklega glæsilega á erlendum vettvangi fyrir þjóð okkar því að það er ekkert sjálfgefið að einstaklingur eins og hann eigi eins víða innangengt og njóti jafn mikillar virðingar eins og Ólafur Ragnar gerir að ekki sé nú minnst á dugnaðinn hjá honum.

Þegar rétt er á haldið getur virkjun jarðvarma verið endurnýjanleg og hrein orkulind án orkutaps eða sóunar þegar um hitaveitu er að ræða. Mannkynið hefur mikla þörf fyrir slíkan orkugjafa, meðal annars til upphitunar hýbýla. 

Framtak forsetans hefur margvíslega þýðingu fyrir orðspor og viðskiptavild Íslendinga og er mikilsvert framlag til umræðu og viðleitni þjóða heims til að koma í veg fyrir allt of hraða og mikla hlýnun lofthjúpsins.   

En við verðum að gæta okkar að það sem við fullyrðum um hina hreinu, endurnýjanlegu og fullkomnu nýtingu rísi undir nafni, því að annars erum við að markaðssetja vöru þar sem mikilvægum upplýsingum er leynt.

Þar sem nú er verið að virkja á Hellisheiðarsvæðinu er engu þessara skilyrða fullnægt. Virkjunin er ekki endurnýjanleg því að kreist eru 600 megvött út úr svæði sem aðeins afkastar 300 megavöttum til langframa og afleiðingin verður sú að svæðið verður allt orðið kalt eftir ca 40 ár og þá þarf að virkja annars staðar til þess að viðhalda orkuöflun. 

Virkjunin er rányrkja að því leyti að aðeins 12 prósent orkunnar nýtist með núverandi tækni.

Og virkjunin er ekki alveg hrein því að frá henni mun streyma sjöfalt meira brennisteinsvetni en frá öllum álverum landsins og lyktarmengun í Reykjavík er þegar orðin yfir Kaliforníumörkum 40 daga á ári.

Það getur hefnt sín að breiða yfir þetta og ekki boðlegt að ávísa á einhverja tækni, sem hugsanlega verði hægt að grípa til síðar til að auka nýtni og minnka mengun. Þetta verður að vera á hreinu frá byrjun, - rétt skal vera rétt.    

 


mbl.is Forseti Íslands ræddi áhrif loftlagsbreytinga á orkubúskap heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKIPTIR EIN MÍNÚTA ÖLLU MÁLI?

Þegar ekið er milli Reykjavíkur og Akureyrar tekur fólk yfirleitt frá fimm klukkustundir til þess eða 300 mínútur. Á rúmlega 5 kílómetra kafla undir Hvalfjörð er af öryggisástæðum 70 km hámarkshraði. Ef maður hyllist til þess að aka á 85 km hraða í stað 70 er gróðinn ein mínúta, - ein mínúta af þeim 300 sem þarf til fararinnar. Þetta er 0,3% sparnaður, - það er nú allt og sumt. Er hann svona mikils virði fyrir mann? 
mbl.is 142 óku of hratt um Hvalfjarðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BRÁÐUM JÚLÍSVEINAR?

Getur það verið rétt sem mér heyrðist í dag að í lok auglýsingar einhverrar verslunarinnar var sagt: "Jólasveinar á staðnum"? Eru engin takmörk fyrir því hvað verslunareigendur telji sig þurfa að gera til þess að vera á undan keppinautunum í jólaversluninni? Eitt sinn tókum við upp á því í Sumargleðinni, - í gamni auðvitað, - að láta Magnús Ólafsson koma fram í gervi jólasveins um hásumar. Hann kallaði sig Júlísvein en þetta gekk aðeins eina helgi, - grínið virkaði ekki, ekki einu sinni á Sauðárkróki þar sem júlísveinninn var spurður að nafni og kvaðst auðvitað ekki heita Kjötkrókur, heldur Sauðárkrókur. 

Hvers vegna fær þessi dásamlega íslenska saga um þrettán jólasveina, sem byrja að tínast til byggað þrettán dögum fyrir jól, ekki að vera í friði? Þarf endilega að útvatna hana og færa jólasveinatímabilið sífellt framar og framar þangað til jólasveinninn verður júlísveinn?  


SAMA NIÐURSTAÐA - EFTIR SJÖ MÁNUÐI

Fyrir sjö mánuðum gerði ég það að einu helsta áhersluatriði mínu þar sem ég kom fram í umræðum vegna kosninganna að með óbreyttri stefnu myndu Íslendingar eyða allri orku landsins í álver upp á tæpar þrjár milljónir áltonna á ári og þar með sóa dýrmætum orkulindum og eyðileggja mesta verðmæti landsins, sem væri ósnortin náttúra. Þetta myndi aðeins útvega um 2% af vinnuafli landsins atvinnu og því fráleitt að þetta væri lausn á atvinnuvanda landsmanna.

Forystumenn hinna stjórnmálaflokkanna lögðu kollhúfur og forsætisráðherra sagði að þetta væru ýkjur.

Nú hefur Össur Skarphéðinsson reifað sömu niðurstöðu á flokksráðsfundi Samfylingarinnar hvað snertir heildarmyndina og hefur tekið hann sjö mánuði að komast að þessari niðurstöðu. Hið eina sem hann nefndi ekki var "lausnin" á atvinnuvandanum. Kannski fáum við eitthvað um það eftir sjö mánuði. 

Hinu ber að fagna og þakka að iðnaðarráðherra gerir sér nú ljóst hvert hin óhefta stóriðjustefna mun leiða okkur.  


mbl.is „Fjárfestingar á sviði jarðorku geta numið þúsundum milljarða"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL SÓMA FYRIR BÆNDUR Á AUSTURLANDI

Ég var að koma til Reykjavíkur úr leiðangri til Akureyrar og Egilsstaða. Á Akureyri var opnað Flugsafn, sem kannski verður notað sem leikhús í vetur og á Egilsstöðum héldu bændur uppskeruhátíð. Stemningin á þessari hátíð og bragur allur yfir fólkinu sem fyllti Valaskjálf minnti mig á ógleymanlegar stundir í gamla daga á uppskeruhátíðinni á sjómannadaginn í samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum. 

Á svona samkomum er gaman að vera Íslendingur í hópi fólks sem kemur þangað í sínu besta pússi og er einhuga um að njóta samveru og skemmtiatriða af innlifun og opnum huga. Því miður er það oft svo á árshátíðum að erfitt getur verið á köflum fyrir ræðumenn og skemmtikrafta að fá hljóð vegna skvaldurs, sem oft skapast af völdum örfárra ölvaðra einstaklinga en breiðist út. 

Sem sagt: Þetta dæmigerða íslenska fyllerí.

Annað var uppi á tengingnum í Valaskjálf í gærkvöldi þar sem Magnús Jónsson veðurstofustjóri, heiðursgestur og ræðumaður kvöldins, söngdúettinn Heimasæturnar og söngkvartettinn Vallargerðisbræður fengu afburða góðar verðskuldaðar viðtökur.

Þegar fólk kemur saman glatt á góðri stund á þennan hátt er það ekki bara uppbyggjandi og skemmtilegt heldur til mikls sóma fyrir þá sem að því standa. Í gærkvöldi voru það bændasamtökin á Austurlandi sem áttu heiðurinn af því skapa eftirminnilega kvöldstund og höfðu fyrr um daginn glatt gamla fólkið á staðnum við góðar undirtektir. 

Þetta kunna bændur á Austurlandi enn og það gleður gamlan kúarektor úr Langadalnum.  


GÓÐ GREIN DOFRA.

Grein Dofra Hermanssonar í Morgunblaðinu í dag um Ölkelduháls er afar kærkomin því hún varpar skýru ljósi á svonefnda Bitruvirkjun. Samkvæmt greininni höfðu nefndarmenn í rammaáætlunarnefndinni ekki tíma til að skoða myndir af svæðinu eða kynna sér það að gagni. Þó voru til kvikmyndir af því sem ég notaði í innslag í Dagsljósi um það. Þetta er enn ein áminningin um það hvaða afleiðingar það hefur að spara svo við sig í vinnu og fjármagni við að skoða íslenska náttúru að teknar eru ákvarðanir byggðar á röngum forsendum.

En það liggur svo óskaplega mikið á að reisa hvert risaálverið af öðru að hvorki er tími né vilji fyrir því að láta svo lítið að kynna sér það sem fórna á fyrir stóriðjuguðinn.

Mér skilst að Dofri hafi átt stóran þátt í "Fagra Íslandi" og eiga hann og skoðanasystkin hans í Samfylkingunni skilið að því sé haldið á lofti og þakkað fyrir það.

Í samstarfi við stóra stóriðjuflokkinn mun ekki veita af baklandi fyrir Þórunni Sveinbjarnardóttur í því andófi sem hún lýsti yfir á Umhverfisþingi að hún myndi stunda í ríkisstjórninni eins og tíðkast hjá umhverfisráðherrum í öðrum löndum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband