Þjóðfundurinn og þjóðin eru baklandið.

Þegar menn reyna fyrirfram að gera lítið úr því sem koma mun frá nýkjörnu Stjórnlagaþingi ættu þeir að huga að því að bakland þess er Þjóðfundurinn á dögunum, sem var 1000 manna samkoma, valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá, og því engan veginn hægt að efast um hún gæfi rétta mynd af þjóðinni.

Þanbnig var þjóðin sjálf bakland Þjóðfundarihns sem lagði ákveðnar línur.

Þær tilögur komandi Stjórnlagaþings, sem eiga samsvörun við helstu línurnar sem Þjóðfundurinn lagði, hafa því meira vægi en margir munu vilja vera láta. 

Ég hef í skrifum mínu í aðdraganda kosninganna lagt áherslu á breiða samstöðu Stjórnlagaþingsins og samhljóm við þjóðina og tillit til minnihlutahópa auk þess sem hugað verði að því að við verðum ekki áfram nánast eina þjóðin í okkar heimshluta sem ekki hefur nein ákvæði í stjórrnarskrá sem hugar að hagsmunum komandi kynslóða. 

Þegar hafa heyrst raddir um að frumvarp Stjórnlagaþingsins verði einhliða í þágu þéttbýlsins á suðvesturhorni landsins vegna þess að 22 fulltrúar eigi þar búsetu. 

Ekki þarf annað en að líta á ýmis skrif mín í aðdraganda kosninganna til að sjá að búsetan ein ræður ekki öllu, því að ég hef reifað ýmsar hugmyndir í þá veru að ekki verði gengið á rétt einstakra landshluta í henni, til dæmis með ýmsum útfærslum á blöndu af landinu sem einu kjördæmi og hins vegar nokkrum einmennings- eða tvímenningskjördæmum, sem skiluðu 9-12 þingmönnum á þing til að koma í veg fyrir að einstakir landshlutar fái engan fulltrúa á Alþingi en jafnframt að þessir sérstöku fulltrúar verði það fáir að ekki sé hægt að segja að um misvægi atkvæða sé að ræða. 

Ég tel líka að úrslitin í þessum kosningum þurfi ekki endilega að þýða það að hlutföllin verði svona í hlutfallskosningum með landslistum í landinu öllu sem einu kjördæmi, því að væntanlega myndu einstök framboð huga að því að hafa ekki misvægi á sínum listum. 

Að lokum vil ég í þessum pistli þakka það traust sem mér var veitt í þessum kosningum og er mér dýrmætt veganesti inn á Stjórnlagaþing. 

Mér líst vel á það fólk sem þar verður og þar ríður á miklu að allir séu jafningjar og komist sameiginlega að sem bestu niðurstöðu, sem hafi breiðan stuðning. 


mbl.is Þing allrar þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti prófesteinninn á "núllsýnina": Vegrið.

 Í fyrra varð slys á Hafnarfjarðarvegi sem kostaði þrjú mannslíf. Með köldum útreikningi má finna út að þetta eina slys hafi kostað meira í peningum en það kostar að setja vegrið á alla þá vegarkafla sem eru eins og sá þar sem þetta slys varð.

Eru þá ótalið þjáningar og tilfinningarlegt tjón sem varð í þessu slysi. 

Ef þarna hefði verið vegrið hefði ekki orðið þarna banaslys og ef vegrið eru á öllum samsvarandi köflum er þessari hættu útrýmt. 

Verður slíkt vegrið sett upp? Ef menn meina eitthvað með því að útrýma banaslysum í umferðinni eins og rætt var um á umferðarþingi, er þetta sú framkvæmd sem blasir fyrst við af öllu að eigi að gera.

Núllsýnin er nauðsynleg jafnvel þótt viðurkenna verði að aldrei verði að fullu hægt að koma í veg fyrir banaslys.

Núllsýnin er nauðsynleg til þess að hreyfa við ástandi sem okkur hættir til að halda sé óumbreytanlegt.

Það þarf hugsjónir og raunsæi í bland. Núllsýn hefur áður verið sett fram hér á landi. 

Það var á níunda áratugnum þegar sett var fram núllsýnin um fíkniefnalaust Ísland árið 2000. 

Sú núllsýn gerði ekki ráð fyrir mannlegu eðli og undanskildi áfengi, sem er eitt af allra hættulegustu fíkniefnunum. 

Persónulega veit ég að hægt er að hafa núllsýn á vímu- og fikniefni og fátt hefur reynst mér betur um dagana. En að hægt sé að láta alla fallast á hana á örfáum árum var því miður fráleit von og er enn. 

Segja má með gildum rökum að ekkert sé eins lífshættulegt og að fæðast því að það er hundrað prósent víst að fæðingin hvers mans muni að lokum hafa dauða hans í för með sér.

Samhengið er einfalt: Ef komið verður í veg fyrir allar fæðingar deyr enginn.

En auðvitað dettur engum í hug að koma í veg fyrir fæðingar né leggja niður umferð eða aðrar þær athafnir mannsins sem hafa hættu í för með sér. Á hinn bóginn er það öllum fyrir bestu að leitast við að haga þannig lífi okkar og móta þannig aðstæður okkar og hagi að við getum sem flest lifað við hámarks andlega og líkamlega velsæld og öryggi sem lengst.  

 


mbl.is Enginn á móti því að fækka banaslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjált og gott orð: "Flugáhafnarmeðlimir"?

Orðið áhafnarmeðlimur er eitt hvimleiðasta orðið sem ég þekki. Menn eru sagðir vera áhafnarmeðlimir á skipum þótt við eigum helmingi styttra prýðisorð yfir það hugtak, skipverjar.

Notkun þessa orð nær nýjum hæðum, eða eigum við að segja lægðum í frétt af yfirvofandi verkfalli hjá Finnair þar sem sést eitthvert lengsta orð, sem um getur. 

Þetta dýrlega orð er: "flugáhafnarmeðlimur." Sjö atkvæði -19 stafir.

Orðið "skipverji" þjónaði okkur Íslendingum mjög vel um áratugaskeið þangað til hið ógnarlanga orð áhafnarmeðlimur varð að tískuorði.

Hliðstætt væri að nota orðið "flugverji", - í fleirtölu "flugverjar" um samsvarandi starfsmenn um borð í flugvél.

Opinberlega nota Flugmálastjórn og aðrir, sem tengjst flugi, orðið "flugliðar". 

Það tekur kannski smá tíma að venjast þessu stutta, hnitmiðaða og þjála orði, "flugliðar" en getur varla verið erfiðara en að venjast orðinu "flugáhafnarmeðlimir." 

Berum saman orðalag tengdrar fréttar eins og það er nú og eins og það gæti orðið. 

Óbreytt: 

"...vegna yfirvofandi verkfalls flugáhafnarmeðlima..."

Breytt: 

"...vegna yfirvofandi verkfallls flugliða..."

Niðurstaða: Þrátt fyrir að orðið flugáhafnarmeðlimur sé ógnarlangt og flókið eru yfirgnæfandi líkur fyrir því að það verði notað áfram sem og orðið áhafnarmeðlimur. 

Engin rök virðast geta haggað því að svona nútíma kansellístíll þyki fínn og viðeigandi. 

Hið merkilega er, að sjálft "kannsellíið" , Flugmálastjórn Íslands, notar orðið "flugliðar", en fjölmiðlarnir hins vegar orðið "flugáhafnameðlimir."

 


mbl.is Finnair aflýsir flugferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróin vantrú.

Áltrú Íslendinga, sem þeir tóku fyrir fimmtíu árum, virkar oft líkt og venjuleg trúarbrögð á borð við Kristni og Íslam á þann veg, að ef menn hafi viðkomandi trú, séu það svik að trúa á neitt annað.

Dæmi um þetta er sú gróna vantrú og mótbárur sem heyrast gegn ferðaþjónustunni og um þessa vantrú er hægt að nefna ótal dæmi. 

Þegar frumherjarnir hér á landi u bjóða upp á hvalaskoðunarferðir var það afgreitt sem "geimórar", svo fjarstætt þótti þetta. 

Þegar faghópur um ferðamennsku á vegum Rammaáætlunar ber saman annars vegar virði Norðlingaölduveitu gagnvart virkjanahagsmunum og hins vegar gagnvart ferðamennskuhagsmunum, eru framkvæmdir vegna virkjunarinnar og hagsmundir af þeim taldir vega mikið, en framkvæmdir til að opna aðgengi að tveimur stórfossum í Þjórsá fyrir ferðafólk ekki einu sinni settar á blað, hvað þá gildi þeirra sem ferðamannastaðir. 

Menn sem meta loðnuvertíð og vorvertíð mikils hafa allt á hornum sér yfir því að ferðaþjónustan eigi sína "vertíð" á sumrin og sé því ekki stöðug atvinnugrein. 

Sagt er að kuldi, myrkur, þögn, hríðarveður og fjarlægð frá öðrum löndum útiloki ferðamannastraum á veturna þótt í Lapplandi sé allt þetta selt yfir vetrartímann fleiri ferðamönnum en koma hingað allt árið og það í landi sem er lengra frá öðrum löndum en Ísland.

Á sínum tíma var litið á það sem hálfgert böl að evrópsk börn héldu að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf. 

Finnar í Rovaniemi tóku þá bara jólasveininn af okkur og stórgræða á ferðamannastraum þangað hans vegna. 

Sagt er að ferðamannastraumur eyðileggi náttúruna meira en ef landi er sökkt í aurug miðlunarlón eða stór jarðvarmaorkuver sett niður á hverasvæðum.  

Erlendis má þó sjá sjá ótal dæmi þess að miklu meiri ferðamannastraumur sé ekki látin skemma land sem er jafnviðkvæmt og viðkvæmustu svæðin hér. 

Sagt er að ferðaþjónustan skapi bara láglaunastörf þótt annað komi á daginn þegar hagtölur eru skoðaðar og vitað sé að til þess að bjóða upp á góða þjónustu í ferðaþjónustu þarf fjölmenntað fólk, enda hafa rannsóknir sýnt að sjávarútvegur og ferðaþjónusta skapa 2-3falt meiri virðisauka en stóriðjan.  


mbl.is 155 milljarða gjaldeyristekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnlegir lekar eða óheppilegir?

Orðið "gagnsæi" er mikið notað í þjóðmálaumræðunni sem eftirsóknarvert fyrirbæri. Rætt er um nauðsyn þess að aflétta ýmiskonar leynd, svosem bankaleynd og athöfnum og samskiptum innan stofnana og fyrirtækja. 

Allir þekkja þó á eigin skinni að gagnsæi getur aldrei orðið algert.

Þannig er það hluti af friðhelgi heimilisins að ekki séu borin á torg þau samskipti sem þar eiga sér stað og ákveðin trúnaður og leynd er líka mikilsverður grundvöllur persónuverndar. 

Í lífi og starfi blaða- og fréttamanna, sem helst gagnrýna leyndarhyggju og pukur sem snertir mál sem varða almannahagsmuni, skiptist þetta í tvö horn. 

Annars vegar að aflétta takmörkunum á upplýsingum um það sem opinberir starfsmenn í þjónustu almennings og þjóða aðhafast en hins vegar að heita trúnaði og þagnarskyldu gagnvart þeim sem "leka" mikilvægum upplýsingum um vafasama, ámælisverða eða jafnvel refsiverða háttsemi. 

Mörg af helstu dæmum um stórfréttir sem þannig voru tilkomnar og ollu umróti eru af þessum meiði, og þar ekki annað en að nefna Watergate-málið í Bandaríkjunum og mál "litla landsímamannsins" hér heima sem dæmi. 

Yfirleitt er það frekar af hinu góða en hinu slæma að afhjúpuð sé leynd um mikilsverð málefni sem varða almannahagsmuni. 

Um sumt ríkir ágreiningur. Þannig eru skiptar skoðanir um það hve langt eigi að ganga í að aflétta bankaleynd. 

Ég hef lent í orðræðu við fólk, sem hefur viljað aflétta henni en þó ekki að gengið sé svo langt að aflétt sé bankaleynd um þeirra eigin bankaviðskipti. 

Í viðtali í Kastljósi nú áðan kom fram að margir af bandamönnum Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum séu herskárri gagnvart Íran en Bandaríkjamenn sjálfir. 

Sagan geymir dæmi um slíkt að fornu og nýju. Þannig voru Austurríkismenn svo kröfuharðir gagnvart Serbum eftir morðin í Sarajevo að það hlaut að leiða til styrjaldar milli þessara tveggja þjóða. 

Austurríkismenn höfðu yfirburði í herafla í slíku stríði og því hlutu Rússar að skerast í leikinn. 

Og þar með sett af stað atburðarás þar sem öllu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. 

En það eru líka til dæmi um það gagnstæða. Í styrjaldaraðgerðum í Kóreustríðinu löttu Bretar og Frakkar Bandaríkjamenn mjög til stórræða sem gætu stigmagnað átökin og gert þau að heimsstríði. 

Um margt af slíku tagi vitum við af því að leynd var létt af samskiptum, sem fóru leynt. 

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir "fjórða valdið". Aðalhlutverk þeirra er að afla nauðsynlegra upplýsinga og miðla þeim, og koma í veg fyrir að nauðsynlegum upplýsingum sé haldið leyndum fyrir almenningi.

En um þetta vald fjölmiðlanna gildir hið sama og allt vald: Það er vandasamt að fara með valdið því að vald spillir.

Fjölmiðlafólk verður að hafa í huga að það á að vinna með hagsmuni almennings í huga og fara vel og gætilega með vald sitt.  


mbl.is Dregur úr trausti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan 1% af verðgildinu 1981.

1977 var krafa verkalýðshreyfingarinnar að lágmarks mánaðarlaun yrðu 100.000 krónur. 1980 þótti verðgildi krónunar orðið svo hræðilega lítið að rétt væri að hundraðfalda gildi hennar, - skera tvö núll aftan af henni.

Á þeim tíma fannst mér þetta of lítið og að miklu þægilegra hefði verið að skera af henni þrjú núll. 

Þá hefði milljarður breyst í milljón og þúsund milljarðar í milljarð og því miklu auðveldara að gera sér glögga og snögga grein fyrir upphæðum í umræðum um fjármál heldur en ef krónan yrði 1% af fyrra verðgildi. 

Nú, þremur áratugum síðar hefur krónan fallið ofan í svipað verðgildi og í kringum 1980. Upphæðirnar, sem nú eru í umræðunni, eru svo stjarnfræðilega háar að venjulegt fólk verður dofið við að heyra þær, - tugir, hundruð og þúsundir milljarða. 

Hafi verið ástæða til að taka núll aftan að krónunni 1980, er hún enn meiri nú. 

Það eru litlar líkur til að það verði gert, - virkar bara broslegt í ljósi ástandsins, - en ef það yrði gert ættu menn að taka þrjú núll aftan af henni. 

Ef slíkt hefði verið gert 1980-81 væru upphæðirnar, sem dynja í eyrum okkar núna mun skaplegri en þær eru. 


mbl.is Lægstu laun yfir 200 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einu sinni spurt: "hver?" - en ekki "hvað?"

"Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?" var spurt forðum tíð þegar fréttist af manni frá þeirri borg, sem væri markverður.

Þessi spurning snerist ekki um það hvað maðurinn hefði fram að færa heldur hver hann væri. 

Íslensk stjórnmál og umræðan í þjóðfélaginu hafa verið einstaklega lituð af þessu viðhorfi. Aðalatriðið er hver stendur að málinu, ekki málið sjálft. 

Af því að Jóhanna Sigurðardóttir glæptist til þess að leggja fram frumvarp um stjórnlagaþing 1994 og stóð síðan að því nú ásamt fleirum að koma því á koppinn er Stjórnlagaþing dæmt óalandi og óferjandi af pólitískum andstæðingum Jóhönnu og hlakkað yfir lítilli þátttöku í kosningum til þess. 

Þótt fyrir liggi að Alþingi hafi mistekist æ ofan í æ í 66 ár að efna það opinberlega loforð og stefnu sína að heildarendurskoðun færi fram á stjórnarskránni, hafa menn haldið því fram fullum fetum að engin ástæða væri til að hrófla við henni. 

Ályktun Þjóðfundar, sem valinn var með slembiúrtaki, um að ráðast til dæmis gegn því misvægi atkvæða sé 2,5 falt á milli íbúa á Akranesi og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og að Reykjavík sé klofin að endilöngu í tvö kjördæmi þykir ekki að neinu hafandi. 

Allt eigi að vera sem fyrr og allt sem Jóhanna Sigurðardóttir kemur nálægt er að engu hafandi. 

 


mbl.is Kosningaþátttakan áfall fyrir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott, - hefði þurft að gerast fyrr.

Fram yfir miðja síðustu öld var verkalýðsbaráttan næsta einföld. Krafist var hærri launa og bættra vinnukjara og farið í verkföll til að ná fram þessum kröfum.

Þá var vinnuvikan miklu lengri en nú og unnið líka á laugardögum. Verkföllin voru oft hörð en línurnar miklu skýrari en nú, því að hlutfall venuulegra verkamanna var miklu hærra en síðar varð og lítill munur á verkefnum þeirra í vinnunni. 

Fyrir um hálfri öld fóru menn að huga að því hvort kjarabætur gætu falist í lífeyrisrétttindum og sjóðum, sem gögnuðust verkafólki og þar með var lagður grunnur að því sjóðakerfi, sem í áranna rás hefur vaxið og orðið að mikilvægu afli í þjóðfélagi okkar. 

Fljótlega eftir að þetta kerfi var sett á komu upp raddir um nauðsyn þess að allir landsmenn gætu verið í lífeyrissjóði og að lífeyrisréttindi yrðu jöfnuð. Þetta var mikið rætt árum saman en lítið sem ekkert miðaði áfram um þetta mál. 

Það sem nú virðist vera til umræðu á vinnumarkaðnum minnir um margt á það sem var á döfunni á sínum tíma þegar sjóðakerfinu var komið á. 

Ástæðan er svipuð: Staða til kauphækkana er þröng og mun þrengri en þá og skref, sem hægt væri að stíga í jöfnun lífeyrisréttinda gætu greitt fyrir kjarasamningum. 

Á sínum tíma sýndust samningarnir um réttindin ekki vega ýkja þungt en með tímanum kom í ljós hvað þeir höfðu verið mikilvægir og hvað ávinningurinn af þeim til að efla velferð allra reyndist vera mun meiri en beinar kauphækkanir.

Reynslan af því ætti að hvetja aðila vinnumarkaðarins til þess að leggja sig fram um að taka vel og myndarlega á þessu sviði nú. 


mbl.is Ræða jöfnun lífeyrisréttinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frb. 9365: Ræður Ragnar Reykás för?

Ég get ímyndað mér að skoðanir og afstaða Ragnars Reykáss til kosninganna til Stjórnlagaþingsins hafi verið nokkurn veginn svona, annars vegar í september og hins vegar núna:

..............................................................................................................................................

Sept:

Þjóðin hefur lýst algeru vantrausti á Alþingi og stjórnvöld og það er ekki spurning að það er kallað eftir því að fólkið fái að ráða sjálft á lýðræðislegan hátt. Það er krafan í dag svo að hægt sé að minnka spillinguna og alls konar vankanta eins og misvægi atkvæða og svoleiðis. Það er fullt af hæfu fólki sem þjóðin sjálf á að fá að velja sér beint, og það er krafan í dag, það er ekki spurning. Nú þarf fólkið að sýna samtakamátt sinn og taka til sinna ráða og þátttakan verður að vera yfirgnæfandi mikil. 

Nóv:

Nei, heyrðu nú, 523 frambjóðendur! Ma-ma-ma-maður bara áttar sig ekki á þessu! Hvernig á venjulegt fólk að geta valið úr öllu þessu kraðaki? Þetta er algert klúður og bara sóun á peningum að vera með svona vitleysu. Þjóðin lætur ekki bjóða sér svona, það er ekki spurning. 

..............................................................................................................................................

Sept: 

Það er búin að vera svo mikil spilling í kringum þessa spilltu stjórnmálamenn með milljóna tuga fjáraustri í rándýrar auglýsingar fyrir prófkjörin. Það þarf að stöðva þessa spillingu og bruðl, það er ekki spurning. 

Nóv:

Það er alveg fráleitt, hvað litið er gert til þess að maður fái við vita hvaða fólk þetta er sem er í framboði. Það er lágmark að kynna það almennilega, annars er ekki að vita nema alls konar sérvitringar verði kosnir.  Það ber allt að sama brunni að langflestir láta ekki bjóða sér að taka þátt í svona klúðri.

..............................................................................................................................................

Sept:  

Nú þarf þjóðin að sýna gagnslausum stjórnvöldum í tvo heimana og sýna samtakamátt sinn með því að fylkja sér um nýtt og ferskt fólk til að hreinsa til, það er ekki spurning. Við heimtum beint lýðræði þar sem almenningur er virkjaður með tilkomu hæfileikafólks til þess að ryðja burtu ónýtum stjórnmálamönnum á Alþingi og í sveitarstjórnum! 

Nóv:

Nú kemur það í ljós að Alþingi ræður því alveg hvort það tekur mark á tillögum Stjórnlagaþingins og þá er það er hvort eð er alveg tilgangslaust að vera eyða mörgum mánuðum og hundruðum milljóna í þetta. Ma-ma-maður bara áttar sig ekki á svona vitleysu og það er ekki spurning, að fólk lætur ekki plata sig til að taka þátt í henni.

................................................................................................................................................

Eitt stendur þó alveg upp úr, hvað sem Ragnar Reykás segir: Því meiri sem kjörsókn verður, því meiri von er til þess að gagn verði að komandi Stjórnlagaþingi. Því sendi ég út síðustu herhvötina: "Koma svo og kjósa!

 

 


mbl.is Dræm kjörsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frb. 9365: Svar: Nei, hið fullkomna lýðræði !

Ein skemmtilegasta alíslenska hefðin sem skapast hefur eru blöndurnar sem mynda jólaölið.

Stærsti kosturinn að mínu mati er sá, að auk þess sem hægt er að kaupa tvær mismunandi gerðir af jólaöli getur hver sem er haldið sínu gamla striki og blandað þetta sjálfur í þeim hlutföllum, sem henta honum. 

Ég hef meira að segja í áratugi verið með enn eina blönduna, sem er malt-appelsín-kók(pepsí). 

Þessi jólablanda er því fullkomlega lýðræðisleg líkt og kosningin á Stjórnlagaþingið í dag, þar sem hægt er að velja blöndu af fólki sem byggist á því að geta valið 25-31 fulltrúa úr 523. 

Hvet fólk til að notfæra sér þetta einstaka lýðræðislega tækifæri, sem verður að takast!  Koma svo!


mbl.is Er til rétt blanda af malti og appelsíni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband