Getur orðið að plágu.

Þar sem ég bý hefur það verið árvisst að um jól byrjar einhver hér í nágrenninu, sem virðist hafa yfir ótakmörkuðu magni af flugeldum og sprengjum að ráða, að sprengja þessar birgðir sínar í tíma og ótíma.

Engin takmörk virðast vera á því á hvaða tíma sólarhrings þetta gerist og þetta ástand varir allt að tíu fyrstu daga janúarmánaðar og hefur þessi ófögnuður þá staðið linnulítið í þrjár vikur. 

Af þessu hlýst oft mikið ónæði en í samræmi við mikið umburðarlyndi okkar Íslendinga er ekkert gert við þessum brotum á reglugerðum um svona starfsemi sem virðast vera bókstafurinn einn. 

 

þrjár vikur. 


mbl.is Sprengingar heyrast víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst áður.

Þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn 1980 varð mikill meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu og þingflokkurinn því klofinn í herðar niður sem og Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur.

 Upp komu háværar raddir um að reka Gunnarsmenn úr flokknum en framsýnni menn höfðu í huga fordæmi frá 1944 þegar fimm þingmenn Sjálfstæðismanna vildu ekki styðja Nýsköpunarstjórn Ólafs Thors.

 Þeir voru ekki reknir úr þingflokknum og lögðust síðan á sveif með stjórninni og tóku fullan þátt í flokksstarfnu á öllum sviðum.

Svipað var gert 1980-83, enginn rekinn úr flokknum eða þingflokknum, en þegar Gunnarsmenn sátu þingflokksfundi véku þeir af fundi ef málefni stjórnarandstöðunnar bar á góma.

 1983 bauð flokkurinn síðan fram heill og óskiptur og þá nutu menn framsýni og sáttfýsi Geirs Hallgrímssonar, sem hafði þó neyðst til að taka upp andstöðu við stefnu Gunnars og stjórnar hans.

Ágreiningurinn innan Sjálfstæðisflokksins  1980-83 var miklu meiri og illvígari en sá ágreiningur sem hingað til hefur verið uppi í VG.

Þess vegna ætti það ekki að vera sjálfgefið að þingflokkurinn og flokkurinn sjálfur klofni.

En að sjálfsögðu veldur hver á heldur. 


mbl.is Ummæli Lilju eðlileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kafaldsbylur" - þetta líkar mér.

Það á ekki bara að gagnrýna heldur líka að geta þess sem vel er gert. Í bloggpistli mínum næst á undan þessum kom fram gagnrýni á  enskuskotið og ónákvæmt orðalag í frétt um stórhríð í Bandaríkjunum.

Í fréttinni, sem þessi pistill er tengdur við,  er allt annað að sjá og notuð orðin "kafaldsbylur" og "óveður" sem saman lýsa afar vel því illviðri sem hefur geysað á austurströnd Bandaríkjanna. 

Þetta líkar mér. Kærar þakkir. 


mbl.is Röskun á flugi vegna veðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Snowstorm".

Enn sjáum við ensku vaða uppi í íslensku máli varðandi fyrirbæri, sem ættu að vera fólki töm á tungu í landi okkar. "Snowstorm" er þýtt hrátt sem snjóstormur eða snjóbylur.

Þar á ofan er talað um 50 sentimetra "jafnfallinn" snjó í New York, en snjór getur ekki orðið "jafnfallinn" í snjó"stormi" því að þá dregur hann í skafla. Jafnfallinn snjór fellur aðeins í logni eða litlum vindi.

Íslenska á fjölda orða sem getur lýst því fyrirbæri sem íslenskir fjölmiðlar tönnlast nú á að lýsa með enskum orðum.  Um aldir hefur verið talað um hríð eða snjókomu og sé hríðin eða snjókoman mikil kallast það stórhrið.

Hvers vegna er nú verið að benda á þetta hér? Það er vegna þess að hjá nágrannaþjóðunum Grænlendingum og Íslendingum setja snjór og snjókoma mikið mark á tilveruna og besta dæmið um þessa sérstöðu er málfarið, sem af því hlýst. 

Mér skilst að í grænlensku sé ekkert orð yfir snjó heldur ótal orð yfir mismunandi tegundur af snjó. 

Á íslensku eru "hríð", "stórhríð" og "ofankoma" hliðstæða við hið grænlenska orðafar.

Sérstaða þjóða og lífsbarátta þeirra eru peninga virði þegar kemur að því að laða ferðamenn til landa og láta þá hrífast af og lifa sig inn í kjör íbúanna og sögu þeirra. Einn þáttur í því er að benda á það hvernig aðstæður hafa mótað orðafar landsmanna.  Þess vegna er óþarfi að taka upp ensk orð yfir íslensk fyrirbæri úr því að íslensk tunga á sjálf hin ágætustu orð yfir það sem segja þarf. 

"Bylur" er eitt af hinum íslensku orðum yfir hríð. Það þarf ekki að bæta neinu við og kalla þetta "snjóbyl" til þess að þýða enska orðið "snowstorm".


mbl.is Hálfur metri af jafnföllnum snjó í Central Park
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangur dalur í fyrirsögn.

Ég lærði það "the hard way" þegar ég var fréttamaður að vanda sérstaklega til allra atriða í fréttflutningi þegar um alvarlegan atburð væri að ræða. 

Séra Emil tók okkur, lærisveina sína, rækilega til bæna þegar slíkt gerðist og brýndi okkur til að vanda fréttaflutninginn í smáu sem stóru þegar svona stóð á.

Mér finnst leiðinlegt að telja mig knúinn til að leiðrétta fyrirsögn á hinni dapurlegu frétt í mbl.is um alvarlegt slys við Bólstaðarhlíð en rétt verður að vera rétt. 

Í stað þess að nota heitið Bólstaðarhlíð, sem hefði verið eðlilegast, því að áreksturinn varð í landi þess kirkjustaðar, er talað um Húnaver, sem er ein af byggingunum á staðnum. 

Látum það vera. Fleiri kannast við Húnaver en Bólstaðarhlíð og kannski er ætlunin með því að nota nafn félagsheimilisins að lesendur geti glöggvað sig betur á málsatvikum. 

Hitt er verra að blanda Langadal við þetta í fyrirsögn fréttarinnar því að Langidalur er næsti dalur fyrir vestan slysstaðinn. 

Bólstaðarhlíð (og þar með Húnaver) má telja ysta bæ í Svartárdal en kórréttast mun þó að telja Bólstaðarhlíð vera í Ævarsskarði,  sem liggur á milli Svartárdals og þess staðar þremur kílómetrum vestar þar sem mætast Langidalur og Blöndudalur. 

Að segja að atburður við Bólstaðarhlíð hafi orðið "við Langadal" er álíka vitlaust og að segja að atburður við Lágafell hafi orðið "við Mosfellsdal"

Það hlýtur að vera til kort á vegg í Morgunblaðshúsinu þar sem hægt er að glöggva sig á aðstæðum. 

Nema að þessi villa hafi komið frá Vegagerðinnni. Varla hefur hún komið frá lögreglunni á Blönduósi, sem er staðkunnug. 

P. S. 

Nú sé ég það í nýrri frétt að hætt hefur verið við að tala um að slysið hafi átt sér stað "við Langadal" og sagt fullum fetum að það hafi átt sér stað "í Langadal" og er nánar tiltekið að þetta hafi gerst í næstu "brekku fyrir vestan Bólstaðarhlíðarbrekku". 

Sú brekka heitir reyndar ekki Bólstaðarhlíðarbrekka heldur Botnastaðabrekka með réttu svo að ekki er heldur farið rétt með það heldur bæði það nafn haft rangt og sömuleiðis það að þetta hafi gerst í Langadal. 

Slysið átti sér stað í miðju Ævarsskarði, sem tilheyrir engum dalanna þriggja sem að því liggja, Svartárdal, Langadal né Blöndudal því að það tengir þessa þrjá dali saman. 

Hvernig hefði nú verið að einhver hefði hringt frá fjölmiðlunum, sem fjalla um þetta, og spurt heimamenn sjálfa hvar þessi staður væri fyrr í kvöld?  Nú er klukkan að verða tólf og það orðið of seint. 

P. S. II.  Til gamans "gúglaði" ég kort af staðháttum og kom upp síða sem heitir "travellingluck" sem útleggst ferðagæfa. Ekki er það nú gæfulegt þótt staðhæft sé að staðsetningar séu samkvæmd nákvæmum GPS-gervitunglamælingum. 

Æsustaðir eru vitlausu megin við Blðndu, Finnstunga ofan í miðri á, Strjúgsstaðir uppi í miðju fjalli og Hvammur svo langt frá veginum uppi á Langadalsfjalli, að vegurinn sést ekki einu sinni, hvað þá Blanda!  Eins gott að blaðamenn og aðrir reiði sig ekki á svona arfavitlaus gögn! 


mbl.is Alvarlegt slys við Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakur heiðursmaður.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi strax á menntaskólaárum mínum að koma oft í heimsókn til Gylfa Þ. Gíslasonar á Aragötunni vegna vináttu minnar við Þorstein son hans og aðra jafnaldra okkar í skóla sem mynduðu ákveðna "klíku". 

Mér varð starsýnt á bókasafn þessa mikla menntamanns og heimsborgara, sem veitti glögga mynd af umfangsmikilli þekkingu hans sem menntamanns og heimsborgara. 

Víðsýni hans skein af bókakostinum og má sem dæmi nefna að ég, ástríðudellunörd varðandi bíla, rak augun í stóra erlenda bílabók með upplýsingum um alla bíla, sem þá voru framleiddir í heiminum. 

Þetta var á þeim árum sem ströng gjaldeyrishöft voru og bílainnflutningur sáralítill og svona bækur sá maður hvergi. 

Gylfi var menntamálaráðherra í 15 ár og annan eins menntamálaráðherra hefur þjóðin aldrei átt. 

Hann var svo háttvís og kurteis að með ólíkindum var.

Þegar ég byrjaði að skemmta komst ég brátt að því að hann var bókstaflega á öllum samkomum, sem skólar, menntastofnanir og menningarfélög héldu, stundum bæði á föstudagskvöldum og laugardagkvöldum. 

Það þýddi að hann varð að hlusta á prógramm mitt svo tugum skipti, áður en ég breytti næst til. 

En það brást aldrei að hann hló alltaf á sömu "réttu" stöðunum þótt hann væri auðvitað búinn að læra prógrammið utanað! 

Ekki hló hann minnst þegar ég gerði hlífðarlaust grín að honum, til dæmis með því að syngja um tíðar utanferðir hans undir laginu "Inn og út um gluggann" "...inn og út úr landi / og alltaf sömu leið." 

Á tímabili voru áberandi auglýsngar á nýjum Gilette-rakblöðum sem hétu Super-Gilett. Ég var fljótur að nýta mér það með tilbúinni auglýsingu um "Gylfa-súper-Gylfa". 

Og alltaf hló hann af sömu kurteisinni að öllu saman og ekki hvað minnst þegar ég hermdi eftir honum með því að fara með afbökun á "Ísland, farsælda frón" þar sem ég dró ríkisstjórn hans sundur og saman í háði. 

Ég tók langt viðtal við hann aldraðan þegar ég gerði sjónvarpsþáttinn "Takk" árið 1995 um afhendingu handritanna og nýtt mat á Dönum sem "nýlenduherrum" á Íslandi. 

Enginn einn maður átti eins mikinn þátt í því hvernig það mál leystist eins og Gylfi. 

Í tengslum við viðtalið sem er geymt í heild, þótt aðeins lítið brot hafi verið sýnt, röbbuðum við heilmikið um málið og þá sagði Gylfi mér í trúnaði frá tveimur einkasamtölum við íslenska stjórnmálamenn sem hann hafði átt og mér fannst svo merkileg að ég vildi endilega fá hann til að segja það fyrir framan myndavélina. 

Gylfi harðneitaði því með þessum orðum: "Þetta var tveggja manna tal og nú er annar aðilinn látinn. Þú lofaðir mér trúnaði og verður að halda það loforð. Þetta sagði ég þér aðeins til þess að þú glöggvaðir þig betur á málinu og öllum aðstæðum. Ég vitna aldrei í tveggja manna tal nema með samþykki þess sem ég talaði við." 

Rök Gylfa voru skýr. Trúnaðarsamtalið byggðist á því að trúnaður yrði haldinn. Annars hefði hann aldrei sagt mér þetta. 

Ég var svo ákveðinn í að halda þennan trúnað að nú er ég búinn, meðvitað eða ómeðvitað, að gleyma því sem Gylfi sagði. 


mbl.is Brjóstmynd af Gylfa afhjúpuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmsar mótsagnir kunna að koma upp.

Það er ekkert við því að segja að myndaður sé flokkur yst á hægri vængnum. Þó er hætt við að ýmis mál eigi eftir að kljúfa þennan flokk eins og aðra, til dæmis ESB-málið. 

Má til dæmis nefna þá mótsögn sem felst í því að vera á meðmæltur slíkri aðild en jafnfram að aðhyllast harða stóriðju- og virkjanastefnu. 

Það gengur illa upp því að þær þjóðir sem hafa gengið í ESB hafa orðið að taka upp mjög ákveðin skilyrði í lög sín um vandaða meðferð umhverfismála, sem ESB stendur fyrir.

Síðan getur þetta líka orðið öfugt hvað þessi tvö mál varðar og nefna má fleiri mál. 

Ef það er hins vegar rétt að þeir, sem vilja stofna svona flokk, hafi náð vel saman að undanförnu, þá gæti stofnun hans orðið að veruleika. 

Aðal vandi hans gæti orðið hinn allt of hái atkvæðaþröskuldur sem getur rænt allt að 8000 kjósendum réttinum til að fá menn á þing. 

Saga síðustu missera bendir ekki til að þessi þröskuldur geti komið í veg fyrir að skiptar skoðanir verði til þess að smáflokkar myndist.

Þannig þríklofnaði Borgarahreyfingin á mettíma eftir kosningar og að minnsta kosti þrír þingmenn VG virðast vera orðnir að sérstökum þingflokki. 

 

P.S

Ég hafði aðeins séð fréttina um nýja flokkinn á mbl.is þegar ég skrifaði þennan pistil en af frásögn Fréttablaðsins má ráða að hér sé um flokk vinstra megin í Sjálfstæðisflokknum en ekki yst úti á vængnum. Það hefur löngum verið viðkvæði hjá þeim sem hafa viljað kljúfa Sjálfstæðisflokkinn að þeir telji flokkinn hafa farið of langt út á "ný-frjálshyggjubraut" í stað þess að halda sig við stefnu Ólafs Thors, Bjarna Ben og Gunnars Thor. Slíkt virðist liggja að baki hugmyndunum um nýjan hægri flokk sem nú hafa verið reifaðar. 


mbl.is Segir viðbrögð góð við nýjum flokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar "völvur" verða kjaftstopp.

Ég veit ekki hvort svokallaðar völvur ársins 2010 spáðu einhverju rétt um það sem gerðist í raun.

Í mörgum tilfellum er hægt með líkindareikningi og innsæi að ná langt í þeim efnum, og með tilliti til þess að á árinu gat bæði verið kominn tími á gos í Heklu og í Vatnajökli gátu völvurnar svo sem tekið áhættuna án þess að hafa miklar áhyggjur.

En margt af því merkilegasta sem raunverulega gerðist get ég ekki ímyndað mér að nokkur hafi séð fyrir.

Persónulega varð þetta ár allt öðruvísi en mér hafði til hugar komið eins og kemur fram í viðtali í Morgunblaðinu á aðfangadag. 

Hygg ég að svo gæti verið um ýmsa fleiri og sannast nú hið fornkveðna að enginn veit sína ævina fyrr en öll er og að svokallaðar völvur geti átt erfiða daga og jafnvel orðið kjaftstopp eins og ég varð þegar ákveðið var upp úr þurru að setja á fót dag íslenskrar náttúru.  


mbl.is Annáll 2010: Ótrúlegt fréttaár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsyn friðar og hvíldar.

Í meira en öld hafa tækniframfarir mannanna miðast að því að létt þeim lífið, minnka stritið og auka velmegun.

 En þarna er um að ræða fyrirbæri sem líkist peningi á þann hátt að á honum eru tvær hliðar.

Önnur hliðin lýtur að því að auka afköst við framleiðslu og þjónustu á alla lund. Sé eingöngu hugsað um þá hlið mála verður afleiðingin stanslaus törn sem er í raun í andstöðu við markmiðið um að létta lífið og minnka stritið. 

Sífellt kemur fram gagnrýni á svonefndan helgidagafrið undir þeim formerkjum að um sé að ræða úrelt fyrirbrigði sem þjóni öfgafullum og einstrengingslegum sjónarmiðum kirkjunnar. 

En þörf mannsins fyrir hæfilegan skammt af friði og ró er ekki trúarlegt atriði heldur heilsufræðilegt. 

Maðurinn hefur sem sé þörf fyrir að slaka á og gera það á þann hátt að utanaðkomandi áreiti sé sem minnst. Þar haldast í hönd líkamleg slökun og andleg.

Þegar litið er á hvað þessar stundir lögbundins helgidagafriðar eru hlutfallslega örfáar á hverju ári, miðað við það að dagar ársins eru 365, sést vel hve óþarft það er að hafa horn í síðu þessa friðar.

Það er alveg nóg af hraða, hávaða og streitu í nútímaþjóðfélagi. Þessi þrjú atriði eru í raun andstæða þess markmiðs tækni og framfara að auka andlega og líkamlega vyfirellíðan mannsins ef þau ná að verða svo fyrirferðarmikil að allt snúist um þau.


mbl.is Brutu lög um helgidagafrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Vestfjarða enn og aftur.

Enn og aftur eru Vestfirðingar og velunnarar þeirra minntir á sérstöð þessa landshluta varðandi samgöngur og öryggismál, að ekki sé minnst á aðrar hliðar þeirrar þjónustu og aðstöðu sem krafist er i nútímasamfélagi.

Minni á fyrr blogg mín um samgöngumál á Vestfjörðum.


mbl.is Tafir á sjúkraflugi vegna veðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband