Blettur á knattspyrnunni.

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt í heimi þegar tekið er tillit til allra þátta samanlegt, áhorfs í sjónvarpi, aðsókn á leiki, umfjöllun fjölmiðla og almennings og þátttaka hans.

Það sem skyggir helst á er ruddaleg framkoma áhorfenda og oft á tíðum leikmanna líka. 

Þetta á ekki aðeins við um erlendu fótboltabullurnar heldur ættum við Íslendingar líka að líta í eigin barm. 

Orðbragð áhorfenda hér heima er oft ekki hægt að hafa eftir og til hreinnar skammar og mikilla leiðinda. 

Þetta getur gengið svo langt að þegar krakkarnir eru að spila, til dæmis á stórum pollamótum, missa foreldrarnir alveg stjórn á sér, bölva og ragna og láta öllum illum látum. 

 Gera þarf alþjóðlegt átak til þess að bæta úr þessu því að svona lætur fólk ekki í flestum öðrum íþróttagreinum eins og til dæmis á frjálsíþróttamótum. 

Hvað snertir atvikið í leik Ajax og AZ held ég að gera verði meiri kröfur til leikmanna en verstu bullanna meðal áhorfenda. 

Að sjálfsögðu ber að virða rétt markvarðar AZ til sjálfsvarnar gegn lúalegri og forkastanlegri árás áhorfandans. 

Á hinn bóginn er eitt alveg kristaltært í mínum huga: Þú sparkar ekki í liggjandi mann! 

Ég get ekki séð hvernig dómarinn gat brugðist öðru vísi við slíkri framkomu leikmanns. 

 

P. S. Síðar í dag:

Við nánari íhugun held ég að ég verði að draga úr þessum harða dómi mínum gagnvart markmanninum og sýna honum skilning.

Þetta gerist mjög hratt og enginn tími til þess að vera að neinu tvínóni og dunda við að velja sér viðbrögð. 

Markmaðurinn sparkaði fyrst í fætur árásarmannsins og hefði kannski átt að láta nægja að gera sparka aðeins í fæturna til þess halda honum á jörðinni.

Spörkin á skrokk manns orkuðu frekar tvímælis en með spörkum í höfuðið hefði verið farið yfir strikið nema maðurinn tæki upp hníf.

Um dóm dómarans gildir hið sama og um annað sem þarna gerðist í hraða og hita augnabliksins.  

 


mbl.is „Hann lenti á röngum manni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torffjósið var með 1. flokks mjólk.

Skemmtilegt er að heyra hve mikil fjölbreytni er enn í mjöltum og kúabúskap á Íslandi og að hér skuli enn vera mjólkað með ölum þeim aðferðum, sem þekktar eru. 

Þó hefur nýlega lagst af starfsemin í torffjósinu á Skógsstöðum í Flóa eftir að bóndinn þar féll frá. 

Þvert ofan í það sem ætla mætti var mjólkin sem skilað var frá Skógsstöðum ætíð 1. flokks mjólk. 

Ég kom í þetta fjós fyrir fjórtán árum, gerðu um það smá pistil fyrir Dagsljós og naut þess, því að sjálfur er ég gamall kúarektor úr Langadal nyrðra fyrir 57 árum.

Við mjaltirnar í Skógsnesi varð til lítið lag um kúna þar sem ég bætti tveimur vísum framan við kunna vísu K.N. 

 

Þjóðina´um aldir hún ól

með orku frá lífsins sól.

Milli marar og fjalla 

mjólk er góð fyrir alla. 

 

Ekkert er annað dýr

eins og hin helga kýr. 

Heilsu og hreysti´okkur færir, 

hressir og endurnærir. 

 

 Kýrrassa tók ég trú. 

Traust hefur reynst mér sú. 

Fæ ég í flórnum að standa

fyrir náð heilags anda. 


mbl.is Kúabúum heldur áfram að fækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komnir árþúsundir aftur í forneskju.

Upphaflegur grundvöllur kommúniskrar byltingar fóst í íðilfagurri hugsjón. Í stað hjátrúar og hindurvitna, hungurs, misréttis og ofríkis auðstéttar og þrælahaldi hennar gagnvart öreigunum skyldi byltingin færa með sér þjóðfélag sannleika, jafnréttis, réttlætis, alræðis öreiganna og útrýmingu skorts og öbirgðar.

Allir legðu sitt fram eftir getu og fengju eftir þörfum. 

Ég lagði það á mig þegar ég var í lagadeild að lesa stjórnarskrá Sovétríkjanna og keypti mér rit Marx og Engels, Lenins og Stalíns. 

Þetta gerði ég ekki vegna þess að ég væri sósíalisti. Þvert á móti var ég og er fylgjandi vestræns lýðræðis með kjörorðunum frelsi, jafnrétti, bræðralag.

Nei, ég vildi bara vita sem best um grundvallarrit helstu stjórnmálakenninga nútímans.

Á pappírnum leit stjórnarskrá Sovétríkjanna furðu vel út, svo vel að aldeilis magnað var hve langt frá tilgangi hennar og hugsun Stalín og aðrir harðstjórar Sovétríkjanna höfðu komist. 

En lygarnar og kúgunin sem ríkti þar eystra voru aðeins barnaleikur miðað við það sem nú veður uppi í Norður-Kóreu og umheimurinn horfir agndofa á og undrast hvernig hægt er að setja fram þvílík firn af rugli og lygum. 

Manni flýgur í hug hvort verið geti að rétt sé eftir haft, svo langt gengur spuninn. 

Nýjustu fréttir um andlát leiðtogans mikla, teiknin stóru og miklu í kringum tilbúin og uppdiktuð atriði varðandi fæðingu hans og andlát og mærðin um "yfirburðaleiðtogann" minnir helst á það sem viðgekkst í frumstæðum þjóðfélögum fyrir þúsundum ára. 

Upphaflega hugsunin á bak við þjóðfélagasskipanina í kommúnistaríkjunum á sínum tíma var sú að hún væri aðeins skref í átt að hinu fullkomna þjóðfélagi sælu og allsnægta. 

Ástandið í Norður-Kóreu bendir hins vegar til þess að þjóðfélagsskipan hinna föllnu kommúnistaríkja hafi verið skref í áttina afturábak til verstu samfélagsgerðar fyrri árþúsunda og að Norður-Kórea hafi nú afrekað að komast lengra á þessar braut en dæmi eru um.

 

 


mbl.is Kim yngsti kallaður „yfirburðaleiðtogi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímunni kastað. Styðjum frændur okkar.

Seint virðist það ætla að verða að íbúar Eþíópíu búi við vestræn lýðréttindi og stjórnarfar. Valdaskipti, sem þar hafa orðið síðustu 80 ár hafa í meginatriðum verið þannig að ein alræðisstjórnin hefur tekið við af annarri.

Mussolini réðst inn í landið 1935 og steypti Halie Selassi keisara af stóli, og þegar Bretar stökktu Ítölum burt 1941 var gamli keisarinn bara settur aftur í hásætið. 

Kommúnistar veltu keisarastjórninni síðan endanlega úr sessi en undir stjórn Mengistus tók við versta harðræðið af þeim öllum. 

Núverandi stjórnvöld leggja kapp á að sleikja sig upp við Bandaríkjamenn til þess að njóta stuðnings þeirra, en undir yfirborðinu leynist alræði fámennrar valdaklíku sem notar gamalt "styrjaldarástand gagnvart Eritreu" og "hryðjuverkaógn frá Sómalíu" sem skálkaskjól til að stjórna undir yfirskini hernaðarástands og neyðarlaga. 

Svo vildi til að árið 2006 þurfti ég að ferðast um svæði nálægt landamærum Sómalíu og þar voru vegfarendur ekki óhultir vegna ræningja, sem laumuðust stundum í skjóli myrkurs yfir landamærin, rændu fólk og fóru hið snarasta til baka. 

En þetta var aðeins í næsta nágrenni landamæranna. 

Árásin á Tvíburaturnana 2001 var vatn á myllu stjórnvalda í Eþíópíu því að þau stukku strax yfir á vagn hræðslunnar við hryðjuverk og réttlæta nú allt sem hægt er með hryðjuverkaógn og fengu meira að segja bandaríska herinn til að gera árás á múslimska uppreisnarmenn í Sómalíu fyrir nokkrum árum.  

Í höfuðborginni Addis Ababa sem er nokkurs konar gluggi gagnvart umheiminum sýnist borgarlífið ósköp venjulegt en í borginni sést af stærð stéttar öryggisvarða að öryggið er falskt. 

Það er eitthvað meira en lítið bogið við það að í reynd er allt flug lítilla flugvéla er í raun bannað í þessu víðlenda ríki meira en 60 milljóna íbúa. Inann við tíu litlar flugvélar eru til í landinu. 

Á sínum tíma var reistur ágætis flugvöllur við borgina Arba Minch og við hann dýrindis flugstöð úr marmara, sem stendur auð allan ársins hring og að meðaltali lendir ein flugvél á vellinum á dag sem er eins og draugastaður. 

Ríkisflugfélagið Ethiopian Airlines er flaggskip landsins, flott og vel rekið alþjóðlegt nútímaflugfélag í samvinnu við Bandaríkjamenn. 

Stór Coca-Cola verksmiðja er þar og hvergi til svo aumt strákofaþorp í landinu að þar sé ekki hægt að kaupa þennan drykk á sama tíma og fólk og fénaður hrynur niður úr þorsta og hungri. 

En hagkerfi landsins, sem er með meira en 200 sinnum fleiri íbúa en Ísland, er minna en það íslenska, bæði fyrir og eftir Hrun. 

Í landinu er gríðarmikil ónotuð orka á sama tíma og rafmagn er skornum skammti og fólk býr í strákofum við hungurmörk.

Grímunni, sem ráðamenn í Eþíópíu hefur tekist að hafa yfir sér gagnvart umheiminum og vestrænum löndum, hefur nú verið kastað gagnvart sænsku blaðamönnunum, sem dirfðust að hafa samneyti við fólk sem er í ónáð hjá yfirvöldum, og er vonandi að norrænir frændur okkar fái stuðning frá íslenskum stjórnvöldum. 


mbl.is Hafa áhyggjur af örlögum Svíanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler "fell in command post".

Tilkynning um lát Adolfs Hitlers 1945 var orðuð svo að hann hefði fallið þar sem hann varðist sókn Rússsa, staddur í varðstöð hersins í Berlín.  "Fell in command post" var orðalagið í enskum blöðum, þýtt af þýsku í orðsendingu yfirvalda nasista yfir á ensku.

Hið sanna kom hins vegar fljótlega í ljós. Hitler, sem hafði fengið heiðursmerki í fyrri heimsstyrjöldinni fyrir góða frammistöðu sem liðþjálfi, lýsti því yfir að hann myndi berjast með vopn í hendi með hermönnum sínum þar til yfir lyki í orrustunni um Berlín í sama anda og hann barðist sem ungur maður. 

Í stað þess að hann félli í skotbardaga þar sem hann varðist vasklega í varðstöð hersins, tók hann aldrei upp vopn, hvað þá að hann færi upp úr byrgi sínu til að berjast, heldur dvaldi hann þar í þægilegu öryggi, farinn að kröftum, stjórnaði ímynduðum herjum og tók að lokum byssu í hönd til að stytta sér aldur. 

Yfirllýsingin um dauða Kim Jong-il, einvalds Norður-Kóreu, er að sjálfsögðu tilbúin í landi, þar sem alræðisstjórnin ræður hverju sem hún vill, líka því hvaða upplýsingar eru gefnar um hvaðeina, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af eftirliti eða gagnrýni innanlands. 

Og vegna þess hve landið er kyrfilega lokað fyrir umheiminum er sama aðferðin notuð varðandi upplýsingar til annarra þjóða. 

Í Norður-Kóreu eru einhverjar verstu fangabúðir heims með minnst hálfa milljón fanga sem búa við verri kost og meiri kúgun og illa meðferð en dæmi finnast um. 

Gervihnattamyndir eru nokkurn veginn það eina sem getur að litlum hluta gefið upplýsingar um það sem er að gerast í þessu landi grímmra harðstjóra. 

Þær hafa sýnt sífelldan vöxt fangabúða landsins síðustu árin og vitnisburðir þeirra örfáu, sem hafa sloppið þaðan lifandi, eru hræðilegri en orð fá lýst.

Ef það sama gerist einhvern tíma í Norður-Kóreu og gerðist í Þýskalandi, að stjórnin falli og ormagryfjurnar verða opnaðar, má óttast það að svipuð ummerki um glæpaverk ráðamanna muni koma þar upp á yfirborðið og gerðist í Þýskalandi eftir fall Hitlers. 

 


mbl.is Efast um að Kim Jong-il hafi dáið í lestinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona getur þetta gerst.

Mál Gísla Helgasonar vegna "Ástarljóðs á sumri" er eðlilegt að mínum dómi, en fyrst þetta:

Ég horfði á jólaþátt Regínu Óskar í Sjónvarpinu og var mjög hrifinn af því hve vel tókst til á allan hátt við tiltölulega sáraeinfalda og ódýra þáttagerð.

Yfir tónleikunjum var heilstæður og hugnæmur blær, einfaldar en góðar og vandaðar útsetningar, góður flutningur, allur pakkinn!  Kær þökk fyrir góðan þátt, Regína og þið öll og hinn smekkvísi og listfengi Björn Emilsson upptökustjóri, sem ég veit að átti mikinn þátt í að gera þennan góða dagskrárlið að veruleika.

Dæmi um erlenda máltækið: "Less is more". 

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu afar bagalegt að höfundarréttarmál skuli hafa sprottið upp í tengslum við þessa góðu tónleika og varpað skugga á þá. 

En málið er afar einfalt að mínum dómi.  Gísli Helgason á allan höfundarrétt að laginu, svo stórtækur er sá gerningur, meðvitaður eða ómeðvitaður að skrá það á annan höfund og gera við nýjan og gerólíkan texta án samráðs við réttan höfund. 

Takið eftir orðalagi mínu, meðvitaður eða ómeðvitaður. 

Þetta er eitt af vandamálum lagahöfunda, að lög geta bókstaflega dottið niður í hausinn á þeim á þann hátt að þeir halda sjálfir að þeir hafi samið þau, enda eru aðeins tólf nótur í tónstiganum. 

Ég skal nefna gott dæmi. 1963 samdi ég lag sem heitir Vögguvísa og söng það mikið fyrir elsta barn okkar Helgu, Jónínu. Setti það síðan á disk en verð að játa að ég söng það ekki vel. 

Hvað um það, ég var skráður höfundur lags og texta og enginn gerði athugasemd við það. 

Fyrr en næstum ári síðar, að þegar ég hitti Ólaf Gauk, spyr hann mig hvernig í ósköpunum ég hafi getað grafið þetta lag upp. 

Ég svara því til að ég hafi ekkert grafið það upp, heldur samið það sjálfur. 

Ólafur fræðir mig þá um það að lagið sé erlent og að hann og hljómsveit hans hafi spilað það á Hótel Borg 1947 eða 1948 í nokkrar vikur og síðan ekki söguna meir. 

Hann mundi ekki lengur nafn þess og taldi útilokað að upplýsa málið frekar, - lagið hefði komið og farið eins og gengur og hann væri áreiðanlega eini Íslendingurinn sem myndi eftir því. 

Hann raulaði það fyrir mig og kom í ljós að um afar lítið frávik var að ræða, aðeins síðustu laglínurnar öðruvísi hjá mér.  

Þegar ég fór síðar að pæla í því hvernig þetta gat gerst datt mér í hug að ég hefði 7-8 ára gamall, kannski heyrt lagið í útvarpi og hafði samband við Gauk og spurði hann um það. 

Jú, mikið rétt, á þessum árum var það alloft gert að útvarpa beint af Borginni og líklegast hafði hljómsveitin spilað það einu sinni við slíkt tækifæri. 

Það var eini möguleikinn á að ég hefði heyrt það, - ekki var sjö ára barn á dansstaðnum Borginni um helgar. 

Málið þar með upplýst. 7 ára barn heyrir lag einu sinni í útvarpi, gleymir því að því er virðist, en samt sekkur það niður í undirmeðvitundina og sefur þar í 15 ár þangað til það framkallast úr undirdjúpum hugans og sprettur fram í gervi nýsköpunar. 

Vonandi er umrætt höfundarréttarmál Gísla Helgasonar og Trausta Bjarnasonar af svipuðum toga. 

En lag Gísla er afar sérstætt, með sterk höfundareinkenni og mér minnisstætt frá fyrri tíð, svo að hér sýnist mér ekkert fara á milli mála varðandi faðernið.


mbl.is Kærir stuld á ástarlagi sem varð jólalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað helsta kennileiti borgarinnar.

Perlan er annað af tveimur helstu kennileitum borgarinnar. Hitt er Hallgrímskirkja. Nú er um hálf öld síðan ég var að því kominn að rita blaðagrein um það að á Öskjuhlíð ætti að gera hitaveitgeymana að undirstöðum og hluta af ráðhúsi Reykjavíkur sem þar risi.

Hefði átt að klára þá grein og koma henni frá mér, hvernig sem allt hefði velst. 

Perlan var að mínum dómi besta hugmyndin sem hrint var í framkvæmd í borgarsjóratíð Davíðs Oddssonar og enda þótt vel megi hugsa sér að utan í hlíðinni rísi lágreistar byggingar sem auka notagildi svæðisins, verður að huga vel að því að skemma í engu það, hvernig Perlan lítur út tilsýndar frá öllum hliðum. 

Vel mætti nýta þann kost að slíkar byggingar yrðu grafnar niður að hluta til eða jarðvegur fjarlægður þannig að hlíðin verði brattari þar sem þær rísi. 

Athyglisvert er að fylgjast með því hvernig Hallgrímskirkja hefur smám saman fengið uppreisn æru ef svo má að orði komast eftir hinar hatrömmu deilur sem um hana urðu í upphafi og stóðu lengi. 

Hámark andstöðunnar og tákn um hana var frægt ljóð Steins Steinarrs um húsameistara ríkisins. 

Í nýlegri erlendri úttekt er Hallgímskirkja talin ein af tíu fegurstu kirkjum heims, hvorki meira né minna, enda er hugsunin á bak við kirkjuna algerlega einstök og séríslensk. 

Eitt af því sem haft var á móti Hallgrímskirkju var það að hún væri allt of stór og dýr. 

Nú nýlega hef ég verið viðstaddur tvær jarðarfarir frá kirkjunni þar sem frekar var hætta á því að hún væri og lítil en of stór. 

Menn vilja gleyma því að þegar Dómkirkjan var reist í núverandi mynd, tók hún 550 manns í sæti, eða um fimmtung allra  íbúar Reykjavíkur.

Hallgrímskirkja tekur rúmlega 700 manns í sæti sem er innan við eitt prósent af íbúatölu höfuðborgarsvæðisins og bæði jarðarfarir, aðrar athafnir og hljómleikar sýna, að hún er síst of stór.   


mbl.is Ekkert rætt við arkitekt Perlunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víða svipuð saga.

Þegar á brattann er að sækja í efnahagslífi og þjóðlífi í löndum heims dalar yfirleitt álit fólks og traust á ráðamönnum og stjórnmálamönnum. Þetta hefur gerst hér og gerist nú líka í Bandaríkjunum.

Það er ágætt að vera bjartsýnn og trúa á framtíðina, en sú bjartsýni og sú trú má ekki breiða yfir það í hverju erfiðleikarnir, sem framundan eru, eru fólgnir og hættulegt er að gefa of stór loforð, sem minni líkur en meiri eru fyrir að hægt sé að standa við. 

Winston Churchill sagði í einni af frægustu ræðum sínum að hann hefði ekkert að bjóða nema blóð, strit, tár og svita. Hann dró ekkert undan með það að baráttan gæti orðið löng og ströng en klykkti þó út með því að segja að takmarkið væri engu að síður aðeins eitt: Sigur og ekkert annað en hreinn sigur, sama hvað hann ætti eftir að kosta. 440px-official_portrait_of_barack_obama_1127346.jpg

Þegar Obama hélt hina frábæru ræðu sína "Já, við getum það!" ("Yes, we can!") blés hann mörgum bjartsýni í brjóst.

En standa á honum spjótin vegna vonbrigða með árangurinn og hann var í mikilli vörn í viðtali í 60 mínútum á dögunum.

Þegar hann var inntur eftir því af hverju ekki einn einasti Wall-street fjármálamaður hefði verið ákærður svaraði hann því til að enginn þeirra hefði brotið lög, - lögin hefðu verið gölluð og nú væri búið að laga þau. 

Margir telja sig sjá veikleika hans gagnvart ofurvaldi fjármagnsins, sem hann þarf á að halda og fá frá fjármálajöfrum og stórfyrirtækjum til að standa undir kosningabaráttu, alveg eins og allir þeir þurfa, sem bjóða sig fram af einhverri alvöru til embættis forseta Bandaríkjanna. 

Svar hans við spurningunni um ábyrgð fjármálavaldsins var í máttleysi sínu í mótsögn við andann í "Já, við getum það!"-ræðunni frægu. 

Hann benti á það að stefna republikana um dýrð sem mests óhefts frelsis hefði valdið hruninu og að sérkennilegt væri ef fólk vildi þá aftur til valda. 

En allt kemur fyrir ekki.  Vonbrigði bandarískra kjósenda bitna mest á ráðamönnunum, sem eru við völd en einnig almennt á stjórnmálamönnum líkt og í fleiri löndum, - um það bera tölurnar í skoðanakönnunum vitni, sem sýna að samt hafa hugsanlegir mótframbjóðendur Obama ekki meira fylgi en hann. 

Obama reynir að bera sig vel og lofa auknum krafti á næsta ári, en því nær sem dregur kosningum, því meira verður hann "lömuð önd" (lame duck) eins og ástand Bandaríkjaforseta á kosningaári er kallað. 

Hann er svo sem ekki fyrsti forsetinn sem illa lítur út fyrir í aðdraganda kosninga. 

Þannig átti Harry S. Truman mjög undir högg að sækja í aðdraganda kosninganna 1948 og stóð svo illa að vígi, að engum, bókstaflega engum nema honum sjálfum datt í hug annað en að hann myndi tapa stórt fyrir Dewey, frambjóðanda Republikana. deweytruman12.jpg

Allir fjölmiðlar voru með fréttirnar af sigri Deweys tilbúnar þegar að kosningum kom, að eitt dagblaðið, Chicaco Daily Tribune,  setti tap hans í kosningunum sem stórfrétt á forsíðu sína áður en búið var að telja, en varð síðan að éta það ofan í sig. 

Um morguninn gat Truman því veifað rogginn blaðinu með risafyrirsögnninni um að Dewey hefði unnið. 

Allt getur því gerst, það sýnir sagan. 

Næsta ár á eftir að verða mjög langt ár í bandarískri pólitík og enginn dans á rósum fyrir forsetann, sem fór af stað með svo miklum glæsibrag og sóknarkrafti en er nú lagstur í erfiða vörn.

P. S.

Af tæknilegum ástæðum fóru tvær eins myndir af Obama inn á síðuna og ég kann ekki á það hvernig á að koma annarri þeirra út aftur. Kannski fyrirboði um að hvorki verði honum komið úr embætti fyrir né eftir kosningar? Wink

,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,,


 440px-official_portrait_of_barack_obama.jpg


mbl.is Fáir ánægðir með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn óöruggasti staðurinn til að vera á.

Það er löngu viðurkennt að hinn félagslegi þáttur reykinga er sá, sem reynist því reykingafólki einna erfiðastur sem vill reyna að hætta að reykja.

Þannig er miklu erfiðara fyrir annað hjóna að hætta ef bæði hafa reykt og hitt heldur áfram að reykja. 

Helst þurfa þau að taka höndum saman og hætta bæði samtímis. 

Ég fylgdist sem vinur með Bubba Morthens þau misseri sem hann hafði sigrast á öllum vímugjöfunum nema þeim erfiðasta, nikótíninu. 

Eins og oft er, hafði hann fengið leyfi til að skilja nikótínið eftir og halda áfram að reykja til þess að gera það ekki of erfitt að hætta við alla hina vímugjafana. 

Þegar frá leið eftir endanlegan sigur Bubba þótti honum æ súrara í broti að geta ekki sigrast á nikótíninu og gerði atrennur til þess að koma þeim djöfli líka frá. 

Frægt var þegar DV birti "paparazzí- mynd með fyrirsögninni "Bubbi fallinn" þar sem hann sást vera byrjaður að reykja. 

Bubbi fór í mál við blaðið vegna þess tjóns sem myndin olli varðandi traust á honum, því að ekki var nóg með að lesa þurfti sig inn í frétt um málið til að komast að hinu sanna, heldur var á þessum tíma birt dagleg smáauglýsing DV í Fréttablaðinu, víðlesnasta blaði landsins, þar sem enga útskýringu var að fá. 

Bubbi vann málið verðskuldað, lagði aftur af stað inn í hringinn til þess að rota nikótínófreskjuna í eitt skipti fyrir öll. 

Hann sagði mér að eitt það allra erfiðasta á þessum baráttutíma sínum hefði verið að fara í bíó þar sem mikið var reykt á hvíta tjaldinu og hefði hann orðið að forðast slíkar bíómyndir. 

Sennilega eru þær svona lúmskar vegna þess að þegar setið er í myrkvuðum sal og horft með innlifun á góða bíómynd, eru áhrifin einráð, ótrufluð og yfirþyrmandi. 

Þess vegna er svo mikilvægt að kvikmyndagerðarmenn sýni ábyrgð í þessum efnum án þess að þurfi að beita á þá ritskoðunarklippum. 

En það er ekki alltaf auðvelt, sérstaklega ekki ef sýnd eru atriði frá mestu reykingatímunum. 

Ef ég til dæmis skrifaði ævisögu mína og gerð yrði mynd eftir henni og reyndi að fanga þá stemningu sem var þegar faðir minn sat um kvöld og tefldi við Baldur Ásgeirsson heimilisvin okkar, meðan ég spilaði fyrir þá sérvaldan jass af hljómplötum og virti fyrir mér hinn stóra og ógnvekjandi öskubakka sem Baldur gaf pabba með merki SS-sveitanna, hauskúpu og krosslögðum leggjum, yrði óhjákvæmilegt að sveipa þá mynd, sem gefin væri, með þykkum tóbaksreyknum sem fyllti herbergið þar sem þeir tottuðu pípu, vindla og sígarettur. 

Það að reykingafólk þurfi að fara út fyrir húsdyr til að reykja virkar vafalaust hamlandi á reykingar þeirra, en á móti kemur óhagræðið af því að það eru oft svo óskaplega skemmtilegir vinnufélagar sem verða nánari og betri kunningjar í þessum hópum reykingamanna og efla þar með það félagslega áreiti sem reykingarnar hafa í þessum hópum, þar sem þetta lítur tilsýndar út eins og nokkurs konar helgar trúarsamkomur sem efla og treysta reykingaböndin. 

 


mbl.is Baráttan um reykingar í kvikmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúmskasta færið: Krap og "tilbúið laumukrap".

Svo vildi til að ég var á næsta bíl fyrir aftan þann, sem hlekktist á á Reykjanesbrautinni í morgun og var á leið til Reykjavíkur.

Aðdragandinn var athyglisverður. Á leiðinni suðureftir tók ég eftir því að saltdreifingarbíll var á leiðinni norður brautina og greinilegt að verið var að dreifa salti á brautina.

Á leiðinni til baka lenti ég fyrir aftan bílstjóra sem ók, að mér fannst að óþörfu, langt fyrir neðan leyfðan hraða. Skömmu síðar var kominn bíll á eftir mér og greinilegt að stefndi í bílalest með "lestarstjóra" fremstan. 

Hraðinn var mun minni en aðstæður hægra megin á brautinni gáfu tilefni til, en þeim megin óku bílarnir og voru búnir að mynda ágæt hljólför, en vinstri akreinin var hins vegar snævi þakin eftir snjóél, - og vegna þess að saltdreifingarbíll hafði áður farið þar yfir vissi ég að undir snjólaginu væri krap, sem væri mun varasamara en hreinn snjór vegna flotmagnsins sem krap býr yfir. 

Þegar færi gafst ók ég fram úr lestarstjóranum og hélt áfram á eðlilegum hraða, miðað við aðstæður. Nokkru síðar var kominn bíll alveg upp að mér fyrir aftan mig og virtist vilja fram úr.

Sá hafði greinilega lent á eftir lestarstjóranum og orðið óþolinmóður.

Ég vék því eins veg til hægri og unnt var hleypti honum fram úr en tók eftir því að hann fór alveg út á vinstri helming brautarinnar.

Þegar hann var kominn um 50 metra á undan mér sá ég að hann ætlaði að beygja aftur til hægri inn í hjólförin. 

En þá byrjaði bíll hans að skrika til vinstri að aftan sem olli því að bíllinn snerist og fór beint út í handriðið hægra megin. 

Við það fékk hann á sig mikið högg og kastaðist í heilan hring uns hann stöðvaðist vinstra megin á veginum. 

Ég átti fullt í fangi með að reikna út hvernig hringsnúningnum lyktaði og komast hjá árekstri. 

Ég lagði bíl mínum á öruggan stað og kom bílstjóranum til hjálpar, sem reyndist ómeiddur og gat hringt úr farsíma til að fá aðstoð.  

Ég þreifaði á hjólbörðum bílsins og fann, að þau voru að vísu lítið slitin en með mjög þéttu mynstri og þakin krapa.

Ástæður slyssins voru ljósar: Krapið undir þunnri snjóþekjunni var þétt og blautt af salti og bíllinn hafði "flotið upp" eins og það er kallað og orðið stjórnlaus. 

Mynstrið var þétt á þessum óhappsbíl, en á mínum bíl miklu grófara og það réði úrslitum auk þess að bílstjórinn hafði greinilega ekki áttað sig á hættunni sem hið ósáða krap olli og einnig ofmetið getuna til að beygja í þessu færi. 

Þarna blasti við dæmi um að söltun í snjókomu og éljagangi getur skapað hættulegar aðstæður sem bílstjórinn í þessu tilfelli gat ekki séð fyrir af því að hann var að koma inn á brautina án þess að vita að búið var að búa til krap með söltun undir þunnu snjólagi sem gaf alranga mynd af aðstæðum. 

Ég tel að í svona éljagangi eigi það að vera aðalatriðið að ryðja brautina sem oftast en að forðast beri söltun, sem býr til óséða hættu. 

Ef saltað er ætti að salta miklu meira svo að tryggt sé að laumukrap myndist ekki, - annars að láta söltun alveg vera og skafa þeim mun meira. 

Síðan eru það "lestarstjórarnir" sem hleypa upp eðlilegu flæði umferðar, og skapa óróa meðal bílstjóra eins og ríkti í kringum hann á leið hans í morgun.

Ég er ekki viss um að nokkur framúrakstur hefði átt sér stað þarna ef ekki hefði verið búið að hleypa ástandinu upp með því að tefja fyrir eðlilegu umferðarflæði á eðlilegum hraða.  


mbl.is Hálka á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband