Gamli skólinn minn, Laugarnesskólinn?

Mér er farið að skjöplast á gamals aldri ef ég fer rangt með það að myndin, sem birtist með fréttinni af einkunnum skólabarna er tekin í gamla barnaskólanum mínum, Laugarnesskólanum. Hvernig Oddgeir Einarsson fær það út að þetta sé mynd af mótmælendum í Seðlabankanum er mér hulin ráðgáta.

Það sést greinilega að það eru nær eingöngu börn á myndinni og ekki vissi ég til að börn hefðu ráðist inn í Seðlabankann.


mbl.is Lítill munur milli landssvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttinn við óttann.

Það mun hafa verið Roosevelt Bandaríkjaforseti sem sagði að að það eina sem væri að óttast væri óttinn sjálfur. Reynir Traustason virðist með yfirlýsingu sinni áttað sig á þessu og hefði betur gert það fyrr. Einn þáttur óttans er meðvirkni.

Allt frá því að ég kynntist á árinu 2003 á eftirminnilegan hátt hinum mikla og sívaxandi ótta og meðvirkni sem gegnsýrði samfélagið hef ég reynt að lýsa þessu ástandi svo að fólk gæti gert sér grein fyrir því og skaðsemi þess.

Mér þótti athyglisvert að enda þótt fólk heyrði eða virtist hlusta á það sem ég sagði gerðist ekki neitt. Óttinn og meðvirknin héldu áfram þangað til smá glufur fóru að myndast árið 2004.

En þá tók bara meðvirkni við á öðrum sviðum.

Roosevelt setti fram í ársbyrjun 1941 eftirfarandi markmið ferns konar frelsis fyrir Bandaríkin og allan heiminn:

1. Skoðana- og tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)
2. Trúfrelsi. (Freedom of worship)
3. Frelsi frá ótta.l (Freedom from fear)
4. Frelsi frá skorti. (Freedom from want)

Svo er að sjá að í DV-málinu hafi verið um tvö af þessum fjórum að ræða, þ. e. skoðana- og tjáningarfrelsi og frelsi frá ótta. Og frelsi frá skorti kom einnig við sögu hvað varðaði það að allir starfsmenn blaðsins yrðu atvinnulausir.


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lútum valdinu en stöndum á réttinum.

Í málatilbúnaði í deilum okkar við Breta höfum við orðið að lúta fyrir alþjóðlegu valdi á sama hátt og Íslendingar þurftu fyrr á öldum að lúta fyrir valdi Dana. Þá urðu fleyg orð Íslendingsins gagnvart dönskum valdsmanni: "Ég beygi mig fyrir valdinu en stend á réttinum."

Þetta var stefna Jóns Sigurðssonar sem háði sína baráttu á grundvelli laga og forns réttar og höfðaði til réttlætiskenndar góðra Dana.

Fyrir bragðið var sjálstæðisbarátta Íslendinga einstæð að því leyti til að hún kostaði ekkert mannslíf.

Jafnvel þótt við kunnum að tapa málarekstri við Breta eigum við að fylgja fordæmi Jóns Sigurðssonar og vinna sleitulaust að því að endurheimta virðingu okkar og heiður og ná fram sanngjörnum málalyktum, hvað sem lagabókstaf eða lyktum málaferla líður.


mbl.is Mál verði höfðað gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórða valdið getur líka spillt.

Vald spillir. Þessi tveggja orða sannindi eru einhver þau dýrkeyptustu í mannkynssögunni. Ekki þarf annað en að nefna nöfn eins og Kaligúla, Napóleon, Hitler, Stalín og Maó sem dæmi. Þessi tvö orð, vald spillir, eru að baki því að enginn Bandaríkjaforseti fái að sitja í meira en átta ár, sama hvaða afburðamaður hann er.

Peningum fylgir vald sem vandfarið er með og við höfum dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald sem eiga að vera í jafnvægi en eru það ekki lengur því framkvæmdavaldið seilist æ lengra inn á svið löggjafans.

Stundum er talað um fjórða valdið, fjölmiðlana. Auðvitað getur slíkt vald spillt líka þeim sem með það fara eða skapað freistingar sem erfitt er að standast. Orð ritstjóra í samtali við blaðamann þess efnið að það sé stefna blaðsins að taka ákveðinn mann"djöful" niður og pönkast á honum út í það óendanlega" gefa ekki góðan vitnisburð um ritstjórnarstefnu.

Allir fjölmiðlamenn eiga taka hlutverk sitt alvarlega en stundum er eins og það gleymist að um fjórða valdið gildir hið sama og hin þrjú að vandmeðfarið er með vald og að á sviði fjórða valdsins liggja líka lúmskar freistingar.

Sumir sjá fjölmiðlavaldið í svipuðum hillingum og trúaðir menn sáu hið trúarlega vald á sínum tíma, - þetta væri svo heilagt vald og köllunin svo stór að ekkert misjafnt gæti þrifist undir verndarvæng þess.

En það vald spillti líka eins og galdarbrennur og önnur glæpaverk framin í nafni trúarinnar sýna glögglega.


mbl.is Björgólfur: Fjarstæða en kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Óstaðfest."

Ofangreint orð er lykillinn að þöggun og þrýstingi á fjölmiðla og fjölmiðlamenn. Þeir sem þrýstingnum beita vita vel að það er aðall blaðamennsku að fá "staðfestingu" á mikilvægum atriðum. Þess vegna berast hótanir til fjölmiðlamanna í "trúnaðarsamtölum".

Þessu kynntist ég mjög vel á árunum 1998 til 2005. Sumt af þrýstingnum kom fram opinberlega eins og kröfur hins fjölmenna fundar á Egilsstöðum 1999 um að ég yrði rekinn úr starfi vegna hlutdrægni og meintrar misnotkunar á aðstöðu minni.

Eftir að sérstök rannsókn á vegum Útvarpsráðs hafði sýknað mig af þessum ásökunum fylgdi Halldór Ásgrímsson þeim þó fast eftir með því að taka mig á beinið að viðstöddum kvikmyndatökumanni Sjónvarpsins þannig að það var ekki einkasamtal.

Ítrekaðar blaðagreinar með ásökunum í minn garð og bókun í Útvarpsráði voru uppi á borðinu og því "staðfestar."

Alvarlegustu hótanirnar bárust þó í ýmsum trúnaðarsamtölum við mig og einu samtali við konu mína. Samtalið við konu mína átti sér stað áður en fundurinn fyrrnefndi var haldinn á Egilsstöðum og herferðin fór af stað.

Í þessu samtali voru hennir settir tveir kostir: Að stöðva umfjöllun mína um virkjanamál eða að við hefðum annars verra af. 

Þegar hún hafnaði því að gangast í því að ég hætti að fjalla um þau mál, sem ég hafði kynnt mér betur en öll önnur, fékk hún að vita um hinn kostinn, sem væri miklu verri: Ég yrði stöðvaður hvort eð væri.

Þetta var sem sagt tilboð sem ekki var hægt að hafna. 

Það sem gerðist á fundinum eystra kom mér því ekki á óvart. Herferðin, sem lofað var, var hafin og kona  mín varð vör við áberandi breytingu á hennar högum. 

Framangreint var dæmi um ótrúlega skoðanakúgun, sem náði hámarki á síðustu árum valdatíma Davíðs Oddssonar og ég hef lýst áður.

Þegar fjölmiðlamaður kemst að því hvernig þetta gegnsýrir orðið allt þjóðfélagið, allir vita þetta en enginn þykist sjá það, og að mest af þrýstingnum er undir yfirborðinu í "óstaðfestum" samtölum á hann um tvennt að velja:

Annars vegar að láta ekkert uppskátt um aðferð hinna "óstaðfestu" samtala og í raun að tryggja með því árangur og framgang þeirrar aðferðar, - eða - að fara þá leið sem ég hef talið mig knúinn til að fara og gera grein fyrir aðferðinni, án þess þó að rjúfa trúnað við nokkurn einstakan.

Þess má geta að flest hinna "óstaðfestu trúnaðarsamtala" voru greinilega komin til hins vinveitta manns, sem við mig talaði, í gegnum milliliði. Ástandið var raunar orðið þannig á þessum tíma að atbeina þess sem stóð á bak við þetta þurfti ekki lengur með.

Allir voru orðnir svo hræddir og meðvitaðir um þetta, að þeir forðuðust að gera neitt sem þeir héldu að hinu ráðandi afli væri á móti skapi.

Framangreint ástand er eitt það lúmskasta og hættulegast sem getur skapast í einu þjóðfélagi. Þetta náði hámarki um 2003-2004 en hættan er alltaf fyrir hendi.  


mbl.is Breyttur leiðari DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir.

Það fór ekki fram hjá mér þegar ég heimsótti Seacology-umhverfissamtökin og Yellowstone þjóðgarðinn í haust að umhverfisverndarfólk batt miklar vonir við Barack Obama og vonaði að hann kæmist til valda og gerði það sem hann ætlar nú að gera.

Fólk hafði ekki hátt um þetta. Ýmist var það á milli vonar og ótta um það hvort þetta tækist eða það mátti stöðu sinnar vegna ekki láta þetta uppi opinberlega.

Í tíð Bush voru helstu ráðgjafar og ráðamenn í umhverfismálum komnir beint frá olíufélögunum, sem studdu þennan líkast til versta forseta í sögu landsins.  

Ef Obama tekst að gera Bandaríkin að forysturíki í þessum efnum verður það mikill álitsauki og sigur fyrir Bandaríkin og bandarískt lýðræði, sem margir voru farnir að óttast að væri að spillast af peningahyggju og takmarkaðri þekkingu og áhuga á stjórnmálum og heimsmálum. 

Það er ekki alltaf gefið að aburðamenn séu spámenn í eigin föðurlandi, en það virðist Obama ætla að verða, fatist honum ekki flugið.  


mbl.is Ný forysta í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðahvörf.

Ég sé í frétt um bílveltu á mbl.is í kvöld að bíll hafi oltið undir Ólafsvíkurenni og sé einnig að ekki er sagt eins og í gær, - "bílvelta varð." Kannski hefur einhver á Mogganum séð ábendingu mína.

Ég var að vona að blogg-prófarkalestri mínum út af bílveltufréttum mbl. væri lokið en því miður er algeng þrálát villa í fyrstu setningu veltufréttarinnar í kvöld.

Þar segir. "Lögreglan..FÉKK tilkynningu um að bíll HAFI oltið..."

Hér eru hin algengu "tíðahvörf" meinleg því að í setningunni er fyrst þátíð en síðan nú(liðin)tíð. 

Rétt ætti þetta að hljóða svona: "Lögreglan...FÉKK tilkynningu um að bíll HEFÐI oltið..." 

Það er með vilja að ég byrja þetta blogg mitt á setningunni "Ég SÉ...að bíll HAFI oltið," en ekki "Ég SÉ að bíll HEFÐI oltið"sem er hliðstæð villunni í fréttinni. 

Minn gamli fréttastjóri Emil Björnsson tók okkur öll strax upp á eyrunum ef með þurfti og þrumaði: "Haldið þið áfram í setningunni í þeirri tíð sem hún byrjar!"

Sáraeinfalt en virðist vefjast svo ótrúlega oft fyrir blaða- og fréttamönnum. Vona að þessi ábending skili sér til blaðamanna Moggans. 


mbl.is Bílvelta undir Ólafsvíkurenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsumhverfi fjölmiðlamanna.

Sjaldan hefur birst magnaðri lýsing á starfsumhverfi fjölmiðlamanna en í símtalinu milli ritstjórans og blaðamannsins, sem birt var í Kastljósinu í kvöld. Flestir sjóaðir fjölmiðlamenn kannast við svipað frá ferli sínum þótt í mismiklum mæli sé.

Í sumum tilfellum kann að vera rétt að fjölmiðlamenn hafi af mannúðarástæðum aðgát í nærveru sálar og taki tillit til slíks í fréttaflutningi. Viðhafa ekki að óþörfum særandi eða meiðandi fréttaflutning.

Það sem hins vegar gerir þetta tiltekna mál sérlega athyglisvert er lýsing ritstjórans á því umhverfi "lífs eða dauða" sem fjölmiðlar og fjölmiðlamenn verða að lifa við. Í þessu tilfelli ekki aðeins hver blaðamaður og ritstjórinn líka, heldur blaðið sjálft, vinnustaður, sem hægt er að "skrúfa fyrir" umsvifalaust,i ef marka má orð ritstjórans, gott ef er ekki með einu símtali.

Af orðum ritsjórans í samtalinu má ráða að hann vilji frekar að stórfrétt, almennilegt "risaskúbb" verði "dauða"sök blaðsins heldur en lítil frétt.

En ég fæ ekki betur séð en að ritstjórinn hafi lagt til "risaskúbb" í samtalinu í kvöld og einn af þeim kostum sem hann virðist nú eiga í þeirri stöðu sem komin er upp sýnist vera að leggja öll spilin á borðið, upplýsa um önnur svipuð atvik, sem áður hafi gerst og falla með sæmd svo notað sé orðalag í stíl við það sem heyrðist í samtalinu.

Fullkomlega óháðir fjölmiðlar verða því miður aldrei til í mannheimum ófullkomleikans þótt hugsanlega sé hægt að komast nálægt því og reyna það eftir fremsta megni. Aðferðirnar við að hafa áhrif á umfjöllun og hræða fjölmiðlamenn geta verið margvíslegar og sjálfur hef ég reynslu af slíku.

P.S.
Nú heyri ég í tíufréttum Sjónvarpsins að Reynir upplýsir að þrýstingurinn, sem hann talar um, hafi ekki komið frá eigendum blaðsins. Það minnir mig á að þrýstingurinn sem ég varð fyrir á sínum tíma vegna starfa minna við Sjónvarpið kom ekki innan frá heldur utan frá. Mér var eindregið "ráðlagt" að söðla um því að annars yrði ég "búinn að vera" og stórskaðaði í ofanálag fréttastofuna, vinnufélagana og stofnunina.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum að tala um...með þessum hætti.

Eitthvert algengasta tískuorðalagið um þessar mundir er "við erum að tala um." Sumir virðast ekki geta talað nema stutta stund án þess að þræla þessum orðum inn í tal sitt sí og æ í stað þess að segja beint frá því sem um er að ræða í miklu styttra máli.

Dæmi: Í stað þess að segja einfaldlega: "Það kólnar á morgun" er sagt: "Við erum að tala um að það verði kaldara á morgun." Í stað þess að segja: "Margir munu missa vinnuna" er sagt: "Við erum að tala um aukið atvinnuleysi."

Annað er áberandi, en það er að orðin "svona" og "hvernig" eru að hverfa úr málinu og í staðinn segja menn að þetta eða hitt sé að gert með þessum eða hinum hættinum.

Kannski er stutt í það að í stað þess að syngja um jólin: "Svona gerum við..." verði sungið: "með þessum hætti gerum við".

Í stað þess að segja: "Ég ég veit ekki hvernig á að gera þetta" er sagt: "Ég veit ekki með hvaða hætti á að gera þetta.

Þetta hvimleiða ofnotaða orðalag er óþörf málalenging, - þrjú orð í staðinn fyrir eitt." Sama er að segja um "við erum að tala um..." sýkina.


Íslensk pressa á álfurstana.

Á sama tíma sem fréttir komast á kreik um óvissu vegna stækkunar álversins í Straumsvík innan núverandi lóðamarka, eykst íslensk pressa á það að keyra stóriðjuframkvæmdir áfram sem aldrei fyrr.

Áhugamenn um risaálver í Straumsvík láta sér ekki nægja 30% framleiðsluaukningu núverandi álvers, heldur hafa nú keyrt það í gegn að aftur verði kosið um meira en tvöfalda stækkun álversins, sem ásamt álveri í Helguvík, tryggir að þegar upp verður staðið verði engu jarðhitasvæði á Reykjanesskaga hlíft né heldur Neðri-Þjórsá.

Þessi áform munu hafa það í för með sér að vegna ofnýtingar jarðhitasvæðanna þurfi síðar að slátra Kerlingafjöllum og Torfajökulssvæðinu. Eða þá að hugsanlegar friðlýsingar stækkaðs svæðis í Þjórsárverum og við Langasjó og Lakagíga verði aftukallaðar eftir þörfum.

Tveir fyrrverandi ráðherrar orku- og umhverfismála lýstu því yfir á sínum tíma að friðlýsingum ætti að aflétta í samræmi við þarfir stóriðjunnar

Hugsjón þessara manna er að píska álfurstana áfram, væntanlega á sömu nótum og 1995 þegar þeim var boðið lægsta orkuverð heims án þess að þeir þyrftu að hafa áhyggjur af mati á umhverfisáhrifum.

Undanfarið hafa heyrst raddir um að kreppan muni sjálfkrafa draga úr vægi umhverfismála. Það sem er að gerast í herbúðum stóriðju- og virkjanasinna hér á landi sýnir að varðstöðu í þessum málum hefur aldrei verið meiri þörf en nú.


mbl.is Frétt um álver ekki allskostar rétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband