Erfiðleikarnir efla nauðsynlegt endurmat.

Margir kannast við það að alvarleg veikindi hafi fengið þá til að endurmeta lífsgildin. Án kreppunnar miklu hefði meistaraverk Steinbecks, "Þrúgur reiðinnar" líkast til aldrei orðið til. Heldur ekki snilldarsmábíllinn Fiat Topolino eða ljóminn af forsetatíð Franklins D. Roosevelts.

Fyrr í haust var í athugun að gefa út diskinn "Birta-styðjum hvert annað" til styrktar Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, ekki aðeins á tonlist.is heldur líka til sölu í verslunum. 

Í fyrstu virtist allt mæla á móti þessu, því að til þess að ágóði yrði þyrfti að selja ca 1500 plötur. Tækist það ekki yrði þetta tóm leiðindi og einnig yrði ágóðinn, sem rynni til fátækra, alltof lítill, jafnvel þótt 1500 platna markinu yrði náð.

Sem sagt: Fyrir nokkrum mánuðum hefði það verið óhugsandi sem nú hefur gerst: Tuttugu tónlistarmenn, 11 söngvarar, 9 hljóðfæraleikarar og einn laga- og textahöfundur gefa alla vinnu sína og flutning á níu nýjum lögum á diskinum "Birta - styðjum hvert annað," upptökustúdíóin sömuleiðis svo og Bergvík, sem framleiðir diskana, Samskipti sem sér um prentun og dreifingaraðilarnir 3d tonlist.is hjá Senu, verslanir Skífunnar og Smekkleysu og verslanir Olís.

Það þýðir einfaldlega að ALLT söluandvirðið rennur frá fyrsta diski til mæðrastyrksnefndar. Þetta er vottur um aukna samkennd í þjóðfélaginu á erfiðum tímum.  

 

 


mbl.is Svört spá um efnahagslífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi viðbrögð.

Viðbrögðin eru misjöfn hjá þeim sem ábyrgð bera í þjóðfélaginu. Kreppuástand setur hluti í nýtt ljós. Þegar maður með milljón á mánuði lækkar laun sín um 150 þúsund og kemst samt auðvitað ágætlega af eftir sem áður, sýnir það muninn á kjörum hans og þess sem hefur aðeins 150 þúsund á mánuði.

Sláandi munur er á milli landa. Í Grikklandi gerðu tveir lögregluþjónar mistök og fyrstu viðbrögð dómsmálaráðherrans voru þau að bjóðast til að segja af sér. Sjáið þið fyrir ykkur svona viðbrögð Björns Bjarnasonar við svipaðar aðstæður?

Nú logar allt í óeirðum í Grikklandi og allsherjarverkfall er á döfinni til að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar. Ekki er þó að sjá að í því landi hafi orðið viðlíka hrun og hér á landi. Raunar höfðu Íslendingar úr hærri söðli að detta eftir einstætt "góðæri" sem byggðist á því að lifa langt um efni fram á margfölduðum lánum, sem slógu heimsmet.

Langlundargeð og æðruleysi Íslendinga er mikið en þeir sem ábyrgð bera ættu ekki að misnota það eins og þeir virðast hafa einsett sér að gera með því að enginn axli ábyrgð sína.


mbl.is Laun stjórnenda helstu lífeyrissjóða munu lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú ekki mikið.

Ástríðufull fyrstu kynni hafa hvað eftir annað, svo lengi sem sögur ná aftur, valdið því að viðkomandi hefur ekki aðeins hætt að heyra, heldur líka að sjá eða vita sitt rjúkandi ráð. Ef það er rétt í fréttinni að kínverska konan hafi fengið heyrnina mjög fljótlega eftir kossinn mikla hefur hún farið betur út úr þessu en margur annar.

Það var til dæmis ekki fyrr við skilnað rúmum 40 árum eftir fyrstu kynni foreldra minna sem móðir mín áttaði sig endanlega á að þessi sjóðheita ást hafði verið verið blind og heynarlaus ást frá upphafi, - og löngu vonlaust að halda hinni stormasömu sambúð áfram.

Og mikið á maður nú slíkri blindu og heyrnarleysi ástarinnar að þakka!


mbl.is Missti heyrnina eftir ástríðufullan koss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmislegt fæst upp á borðið, - en of lítið.

Á mótmælafundunum að undanförnu hafa ýmsar upplýsingar komið fram sem sennilega hefðu annars ekki gert það. Viðskiptaráðherrann tók afstöðu með þeirri skýringu minni í bloggpistli að allir embættismenn sem ríkisstjórnin hefði yfir að segja, sætu á ábyrgð beggja ríkisstjórnarflokkanna, en ekki aðeins annars flokksins.

Þar með er hann ekki sammála Össuri samráðherra sínum og öðrum í Samfylkingunni sem bóka að Seðlabankastjóri sitji ekki að ábyrgð flokksins.

Þetta kann að sýnast smámál en er þó skref í þá átt til að fá ráðamenn og aðra sem bera mesta ábyrgð á bankanhruninu til að viðurkenna þótt ekki sé annað en einhvern hluta af ábyrgð sinni. Með ummælum Björgvins er að minnsta kosti einhver hluti flokksmanna hans byrjaður að hörfa úr því vígi afneitunar, sem þeir hafa verið í.

Því miður er þetta allt of lítið og því sýður á fólki vegna ástandsins. Ef til vill verður eitthvert hlé yfir hátíðirnar, eins og eðlilegt er á þessari hátíð friðarins. En þegar kemur fram yfir áramót er hætt við að óróinn verði jafnvel enn meiri en hann hefur verið í haust.


mbl.is Mótmælendur eiga ekki að bíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VR eltir "markaðinn."

Áhugavert var að fylgjast með svörum þeirra sem sátu fyrir svörum í Háskólabíói í kvöld um launakjör sín. Guðmundur Gunnarsson fékk klapp þegar hann upplýsti að hann fengi sömu laun og hann hafði þegar hann var vélsmiður á sinum tíma og fleira forystufólk var á svipuðu róli.

Ögmundur Jónasson upplýsti að hann þægi ekki krónu hjá BSRB en hefði að vísu laun sem alþingismaður.

Svör Gunnars Páls voru á skjön við svör hinna. Hann sagði að laun hans væru miðuð við laun fyrir sambærileg störf "á markaðnum" sem eru að minnsta kosti 5-7 föld laun hinna lægst launuðu í félaginu.

Ekki féll það í góðan jarðveg á fundinum að þau hin sömu óheftu markaðslögmál sem hefðu skapað fáránleg ofurlaun og valdið mesta efnahagshruni í sögu landsins væru látin ráða för hjá forystu fyrir fjölmennu félagi láglaunafólks.

Bagalegt var að Jóhanna Sigurðardóttir ráðherra félagsmála skyldi ekki koma á fundinn.

Þetta var góður fundur og umræður á fundinum voru að mestu málefnalegar. Undantekning var þó þegar fundarmaður spurði hvort við ætluðum virkilega að fara inn í ESB þar sem Þjóðverjar réðu mestu, þeir hinir sömu og hefðu valdið 60 milljónum manna dauða í tveimur heimsstyrjöldum.

Þetta var ómálefnalegt og ósanngjarnt. Fyrirspyrjandinn gleymdi því að þeir sem stóðu fyrir þessum styrjöldum eru nær allir komnir undir græna torfu og að núlifandi kynslóðir bera enga ábyrgð á óhæfuverkum fortíðarinnar, ekki frekar en að núlifandi Íslendingar beri ábyrgð á manndrápum íslenskra "útrásarvíkinga" fyrir 1100 árum.

Jafnvel íslensku mæðurnar hvöttu til slíks á þeim tímum ef marka má vísu Egils: "Það mælti mín móðir /.....Standa uppi í stafni / stýra dýrum knerri. / Halda svo til hafnar / og höggva mann og annan."

Þeir Þjóðverjar sem síðan hafa ráðið för hafa verið með friðsömustu stórþjóðum heims. Samvinna í Evrópu var einmitt sett á laggirnar til þess að koma í veg fyrir styrjaldir í álfunni.


mbl.is Hiti í fólki í Háskólabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð Samfylkingarinnar og ný ríkisstjórn.

Sú hefð er rík hér á landi að ráðherrar hafi óskoruð forráð yfir mannahaldi og flestu því sem heyrir undir ráðuneyti þeirra. Að því leyti til er Davíð Oddsson seðlabankastjóri á ábyrgð forsætisráðherra, sem Seðlabankinn heyrir undir.

Samfylkingin, nú síðast Össur Skarphéðinsson, hafa skýlt sér á bak við þetta með bókunum um að Davíð Oddsson sé ekki Seðlabankastjóri á ábyrgð Samfylkingarinnar. Í framhaldinu var komið í veg fyrir myndun sérstakrar nefndar til að fást við hrunvandann.

Á því einu sést hve skaðlegt þetta ástand er. Ég líkti því í Silfri Egils við það að flugvélstjóri sem búinn er að gera tóm mistök svo að kviknað hefur í hreyflunum, sé að hamast frammi í stjórnklefanum, rífandi í stýrin og andandi ofan í hálsmálið á flugstjóranum.

Nú hafa vinstri grænir opnað á rsamstarf á vinstri vængnum með því að færa ESB-málið í þjóðaratkvæði svo að það trufli ekki stjórnarsamstarfið.

Í þessu ljósi getur Samfylkingin ekki fríað sig ábyrgð veru Davíðs í Seðlabankanum. Þessi ríkisstjórn starfar á ábyrgð tveggja flokka og annar þeirra er Samfylkingin. Skaðleg og óverjandi þaulseta allra sem mesta ábyrgð bera er eitt mikilvægasta málið nú um stundir.

Samfylkingin á þann möguleika að hreinsa þetta að einhverju leyti með því að gera það að skilyrði að Davíð verði látinn víkja og verði það ekki gert, rjúfi hún stjórnarsamstarfið og noti lykilaðstöðu sína til að hefja samstarf til vinstri.

Þetta hefði þann kost, að þá mætti skipa nýja ríkisstjórn með nýrri samsetningu og efna til kosninga.

En því miður er líklegra að Samfylkingin haldi áfram að kyngja núverandi stjórnarsamstarfi með von um stefnubreytingu varðandi ESB hjá Sjálfstæðisflokknum vegna aukins þrýstings í þá veru, meðal annars vegna útspils VG.

Láti Sjálfstæðisflokkurinn undan geti þessir tveir flokkar síðan starfað út kjörtímabilið og Samfylkingin sýnt með því að hún sé "stjórntæk", þolgóð og traustur samstarfsaðili eins og öll hennar hegðun siðustu sex árin hefur miðað að.

Ef hún gerir þetta fer hún fram úr slímsetuáráttu Framsóknarflokknum sem skilaði honum margfalt lengri valdatíma síðustu 34 árin en samræmdist kjörfylginu.


Gamalkunnugt ferli.

Gamalkunnugt ferli er nú hafið varðandi gengi krónunnar sem stjórnað er með haftakerfi og gjaldeyrishöftum sem sagt er, eins og oft áður, aðeins eiga að vera í gildi um takmarkaðan tíma.

Þetta ferli fór til dæmis ævinlega í gang eftir gengisfellingar síðustu aldar, þegar gengislækkunin jók dýrtíð innanlands, þrýstingur myndaðist til að vinna það upp og hið handstýrða gengi krónunnar fór upp fyrir raunvirði.

Oftast var það gert með verkföllum og kauphækkunum með verðbólgu í kjölfarið. Á sjötta áratugnum var einnig haldið uppi margföldu gengi og gjaldeyrishöftum.

Svona ráð voru notað í ráðstöfunum vegna kreppunnar 1931. Þetta áttu oftast að vera skammtímaráðstafanir meðan verið væri að ná tökum á vandamálunum en höftin fóru samt ekki alveg fyrr en 65 árum síðar.

Í byrjun haftatímabilsins spruttu upp iðnfyrirtæki á ótrúlega mörgum sviðum, sem síðan urðu smám saman að láta undan síga fyrir ódýrari erlendum vörum þegar Íslendingar gengu í EFTA 1970.

Haftakerfinu fylgdi spilling sem hefur lifað af undir mismunandi heitum allt til dagsins í dag.

Eftir á að hyggja kostuðu haftakerfið, röng gengisskráning og verðbólga þjóðina áreiðanlega miklu meira en menn ímynda sér og ranglætið sem fólst til dæmis í því að skuldarar, eins og húsakaupendur, fengu til sín hundruð milljarða sem í raun var rænt af sparifjáreigendum svo sem gömlu fólki og góðgerðasjóðum.


mbl.is Eftirstöðvar gengistryggðra lána minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG tekur upp mál Íslandshreyfingarinnar.

Eins og ég hef bent á í bloggpistlum og kemur einnig fram í nýjustu ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar, hafa íslensk stjórnmál verið í gíslingu ESB-málsins, sem hefur klofið flokka og truflað samskipti flokkanna á öðrum sviðum.

Í ályktun okkar, sem sjá má á heimasíðunni islandshreyfingin.is, lögðum við til, eins og VG, að haldnar yrðu tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur, eingöngu um þetta mál. Þær gætu þess vegna verið samstíga alþingiskosningum, sem yrðu á næsta ári.

Íslandshreyfingin hefur líka lagt til aðgerðir umfram aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að forðast fjöldagjaldþrot heimilanna. Þar verður að feta vandrataða leið, því að takmörk eru fyrir því hve mikið ríkissjóður getur tekið á sig vegna þessa. Hitt er ljóst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar duga hvergi nærri til og ef ekkert verði að gert verði tjón allra, líka ríkissjóðs, meira en ef aðgerðum verði beitt.

Athyglisvert er hins vegar að sjá, að enginn hinna flokkanna tekur undir kröfu Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, um að lögleiða í kosningalögum þegar í stað reglur um persónukjör í alþingiskosningum og niðurfellingu 5% þröskuldsins í fylgi á landsvísu.

Endurbót á þessu sviði er prófsteinn á raunverulega lýðræðisvilja hinna flokkanna. Ef þeir hafa ekki áhuga á þessu vilja þeir áfram hafa hér sama ástand og verið hefur, að meirihluti þingmanna verði áfram í svonefndum "öruggum sætum", þ.e. að vera The Untouchebles."


mbl.is Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona má græða.

Kaup á sumarbústöðum á tombóluverði er ein leið til að græða. Í þættinum "Íslandi í dag" í gærkvöldi las ég nokkrar tilvitnanir í viðtöl við Hannes Smárason og Sigurjón Árnason í Krónikunni í febrúar 2007 sem eru lýsandi fyrir ýmsar aðferðir og hugmyndafræði á bak við frjármálasápukúluna sem sprakk. .

Hannes segir að það hafi ekki verið flugrekstur heldur fjárfestingar sem hafi verið hans ær og kýr. Hann nefnir nokkur dæmi um það hve ábatasamt þær geti verið. Hér eru þrjár tilvitnanir í Hannes:

"Ef ég sel hlutabréf og hagnast á því þarf ég að borga skatt af hagnaðinum. Ef ég endurfjárfesti hins vegar hundrað krónurnar í öðrum hlutabréfum get ég frestað því að greiða skattinn. Þannig get ég í raun haldið áfram út í það óendanlega og þarf aldrei að borga neinn skatt."

"Við kaupum stundum fyrirtæki, skuldsetjum þau og seljum síðan ef okkur finnst það passa. Við gerðum það til dæmis með Refresco. Það var skuldsett yfirtaka þar sem við lögðum fram ákveðið eigið fé og BANKARNIR FJÁRMÖGNUÐU AFGANGINN.Félagið greiddi niður skuldirnar og verðmæti okkar eignarhluta jókst í leiðinni."

"Það hefði engum dottið í hug að gera þessa hluti sem við erum að gera, nema fólki sem VEIT ENGAN VEGINN HVAÐ ÞAÐ ER AÐ FARA ÚT Í."

Sigurjón segir um kynslóðina sem stendur fyrir "efnahagsundrinu.":

"Sú kynslóð ólst upp við mikið frjálsræði en einnig við mikla vinnusemi. Hún fór út að leika sér á morgnana og var þar allan daginn, kom ekki heim fyrr en hún var kölluð í mat. HÚN TALDI AÐ ALLT VÆRI HÆGT OG VAR AÐ ÞVÍ LEYTI ALGJÖRLEGA HÖMLULAUS."

Við þetta er engu að bæta.


mbl.is Bústaðir á tombóluverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það sem er vont fyrir GM..."

"Það sem er gott fyrir General Motors er gott fyrir Bandaríkin." Þess setning átti við þegar GM framleiddi helminginn af öllum bílum í Bandaríkjunum og Bandaríkin framleiddu 80% af öllum bílum í heiminum.

Nú er hægt að snúa henni við og segja: "Það sem er vont fyrir GM er vont fyrir Bandaríkin."

Og ekki bara það. Ef við Íslendingar gerum einmitt núna, sem margir vilja, að tengja okkur við hinn skjögrandi risa í vestrinu, þá verða örlög hins helsjúka bandaríska bílaiðnaðar líka vond fyrir okkur.

Ég hef áður bloggað um þann sjúkdóm sem hrjáir bandarískan bílaiðnað og tengist versnandi gæðum, röngum ákvörðunum og óraunsæi sem stafar af því að yfirmenn jafnt sem starfsmenn bandaríska bílaiðnaðarins urðu værukærir, ofmátu stöðu sína og vanmátu keppinautana.

Í íþróttum gildir lögmálið: Enginn er betri en andstæðingurinn leyfir. Sömu mennirnir og keyrt hafa bandarískan bílaiðnað í þrot, koma nú og vilja komast á opinbert framfæri.

Bandaríkjamenn horfast í augu við svipað og við Íslendingar: Það eru þrjú orð sem byrja á stafnum e: Tvö fyrstu hugtökin eru endurmat og endurnýjun og þau eru forsenda fyrir þriðja hugtakinu sem öllu varðar: Endurreisn.

Ég á stóra bók um sögu GM og Chevrolet og hef lesið hana mér til mikillar ánægju. Chevrolet og þar með GM sló í gegn á árunum 1927-29 þegar bílarisinn Ford var orðinn værukær og sofnaði á verðinum. Hinn mikli brautryðjandi Ford var orðinn gamall, staðnaður og þrjóskur og skynjaði ekki kall tímans og styrkleika keppinautana.

Sem dæmi má nefna að Ford viðhélt teinahemlum sjö árum lengur en keppinautarnir og heilum öxlum og þverfjörðum í 14 ár eftir að keppinautarnir höfðu tekið upp nútímalega fjöðrun. Það er dapurlegt hvernig risinn GM fellur nú á sama hátt og Ford forðum,

Raunar riða allir bandarísku risarnir til falls eins og risaeðlur, hvers tímaglas er tæmt.


mbl.is Framtíð bílarisa á bláþræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband