Erfitt að lesa út úr þessum 8%.

Þegar upp hafa komið hugmyndir um nýja stjórnmálaflokka hefur raunin oftast verið sú að fylgið í fyrstu skoðanakönnunum hafa gefið til kynna miklu meira fylgi en hefur skilað sér í kosningum.

Eitt gleggsta dæmið um þetta var fyrirhugað framboð aldraðra fyrir kosningarnar 2007. Í fyrstu skoðankönnunum virtist þetta framboð geta náð meira en 10% fylgi. Viðbrögð flokkanna, sem fyrir voru urðu þau að leggja stóraukna áherslu á málefni aldraðra og öryrkja.

Fylgi hins boðaða framboðs hrapaði í skoðanakönnunum eftir þetta og svo fór að lokum að þeir sem fyrir framboðinu stóðu gátu ekki einu sinni komið því á legg.

Fyrstu skoðanakannanir sýndu gríðarlegt fylgi Borgaraflokksins og Bandalags jafnaðarmanna á sinni tíð, allt að 27%.
Svipað var að segja um ÞJóðvaka. Í öllum tilfellunum hríðféll fylgið þegar nær dró kosningum og aðeins hluti skoðanakannanafylgisins skilaði sér.

Athyglisvert misræmi er á milli talnanna hjá MMR annars vegar og Capacent Gallup og Fréttablaðsins hins vegar. Fylgi Samfylkingar, Framsóknar og Íslandshreyfingarinnar er mun minna hjá MMR en hinum aðilunum.

Kannski liggur munurinn í netnotkun MMR, en hlutfall hennar gagnvart notkun síma er ekki gefið upp. Ég held að notkun netsins skekki niðurstöður vegna mismunandi notkunar þjóðfélagshópa á netinu.

Hvað snertir hreyfingar á fylgi njóta Capacent og Fréttblaðiðsins þess að eiga langan feril að baki í skoðanakönnunum. Enn sem komið er held ég að meira mark sé á hinum eldri könnunum, hvað sem síðar verður.


mbl.is Vilja nýja stjórnmálaflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki seldur, sárt saknað.

Rúnar Júlíusson tengist mér sérstökum böndum. í meira en þrjátíu ár var hann fastamaður í svonefndu Stjörnuliði sem keppt hefur árlega á ýmsum stöðum víða um land. Leikmenn í þessu liði hafa líkast til verið vel á annað hundrað alls í gegnum árin. Eðli málsins samkvæmt hefur verið mikið gegnumstreymi leikmanna í liðinu á svo löngum tíma því stjörnur á sviði lista, stjórnmála og íþrótta koma og fara.

Rúnar var eini leikmaðurinn fyrir utan okkur bræðurna, Jón og mig, sem hefur leikið með liðinu allan tímann og aðeins misst úr tvo eða þrjá leiki. Alltaf kom hann, ljúfur, léttur og yndislegur, frá Keflavík og lagði sitt af mörkum hvernig sem heilsan var.

"Þú verður aldrei seldur" sagði ég eitt sinn við hann þegar hann kom til leiks, nýkominn úr erfiðum veikindum og spilaði meira af vilja en getu í einum af tugum leikja okkar í Vestmannaeyjum. "En kannski fjarlægður", svaraði hann brosandi og tók um hjartastað. "Það er ekki hægt að kveðja á heppilegri stað" bætti hann við og leit yfir knattspyrnuvöllinn.

Honum auðnaðist að láta ljós sitt skíina mörg ár eftir það og það varð að lokum ekki knattspyrnuvöllurinn þar sem kallið kom, heldur sviðið sem hann hafði átt í meira en fjörutíu ár. "Ekki hægt að kveðja á heppilegri stað".

Gull að manni, ljúfur, brosmildur og jákvæður. Fallinn er frá sá sem best söng lagið "Þú ein" við brúðkaup. Hans er sárt saknað. Hann átti engan sinn líka.


mbl.is Rúnar Júlíusson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var sagt? Spilin á borðið!

Spurningarnar hrannast upp varðandi helstu bomburnar sem Davíð Oddsson sprengir þessa dagana. Í stað þess að mál skýrðust eitthvað í dag hafa þau þvert á móti vakið nýjar spurningar og óróa.

Nú liggur fyrir eftir fund viðskiptanefndar Alþingis að mjög mikilvægum purningum, sem varða bæði Íslendinga, Breta og aðrar þjóðir, verði ekki svarað vegna bankaleyndar.

Í ófanálag bætist við grundvallar ósamræmi í frásögnum Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar af fundi Davíðs með formönnum stjórnarflokkanna, og geta þau ekki einu sinni komið sér saman um í hvaða mánuði fundurinn var haldinn. Ingibjörg nefnir þó dagsetninguna 7. júlí en Davíð aðeins júnímánuð.

Davíð er víst góður bridge-spilari og gefur í skyn að hann hafi alger tromp á hendi, en heldur spilunum fast að sér.
Geir Haarde var á þessum þriggja manna fundi. Hvað segir hann? Hvort þeirra segir rétt frá, Davíð eða Ingibjörg?
Eða megum við eiga von á þriðja framburðinum af því sem sagt var á þessum fundi.

Ekki var langt liðið frá þessum fundi þegar Geir tók undir það sem sagt var að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefði borið árangur! Ekki bendir það til þess að Davíð hafi sagt á fundinum að bankarnir ættu 0%, sem á mannamáli útleggst enga möguleika til að lifa af.

Enn sem komið er heldur Geir sínum spilum að sér og ekkert heyrist frá honum um þetta.

Í þessum tveimur málum er ekki hægt að sætta sig við svona laumuspil. Hver sagði hvað og hvað gerði hver?
Hvað sagði Davíð á fundinum? Hvað var sagt í samtölunum sem bankaleyndin hvílir yfir? Það verður að leggja spilin á borðið.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og fyrir réttum 50 árum.

BJARGRÁÐIN:

Ég spurði Haarde hvað hann héldi verða best /

til hjálpar þjóðarskútunni, sem áföllum nú verst. /

Ráð undir rifi hverju kappinn hafa lést, /

hann sagði: Ú-í, ú-aa, ting, tang, volla-volla bing bang..."

Ofangreint gæti hafa orðið til í dag, 4. desember, en varð reyndar til fyrir réttum 50 árum, 4. desember 1958, þegar þegar vinstri stjórn, sem setið hafði í tvö og hálft ár, sprakk. Eini munurinn á textanum nú og þá er sá að þá söng ég: "Ég spurði Hermann,..", ekki "Haarde." Bæði þessi nöfn byrja á stafnum H, þjóðarskútan verst áföllum og báðir segjast hafa hina fullkomnu lausn. Makalaus tilviljun.

Níu mánuðum eftir að þetta var sungið opinberlega utan í fyrsta sinn utan Menntaskólans, á gamlárskvöld 1958, hafði ég sungið það á skemmtunum í nánast öllum bæjum og þorpum landsins auk félagsheimila í sveitum.

Styrmir Gunnarsson skynjar nauðsyn þess að kosið verði fyrr en ella vegna gerbreyttra aðstæðna og forsendna. En í ljósi þess hve lengi gekk að finna botn í Baugsmálin svonefndu getur orðið erfitt að bíða þangað til öll kurl eru örugglega komin til grafar.

Finna verður þann milliveg að nógu mikið sé komið fram til að einhver heildarlína sé byrjuð að sjást en drátturinn á kosningum má ekki verða of langur.

Það myndi aðeins minnka á spennunni nú ef stjórnvöld streittust ekki svona óskaplega mikið við það að koma í nákvæmlega engu til móts við kröfur um kosningar og að þeir axli ábyrgð sem hana bera. Útlátaminnst yrði viðurkenning beggja ríkisstjórnarflokkanna á því að kosið verði fyrr en árið 2011, helst eigi síðar en haustið 2009.

1958 var kosningum, sem áttu að verða 1960, flýtt um eitt ár og það ár, 1959, varð einhver mesta breyting sem orðið hefur í stjórnmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Skaðlegu haftakerfi var vikið til hliðar. Þá var talið eðlilegt að kjósa hálfu ári eftir strand þjóðarskútunnar, þótt ekki lægi fyrir hverjar breytingar fylgdu í kjölfarið.

Þá eins og nú var mikill vandi á höndum. Þá, eins og nú, er óhjákvæmilegt að flýta kosningum.


mbl.is Getur ekki vikist undan kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákngervingur sjálftökustjórnmálanna.

Sá orðrómur hefur verið á kreiki í allt haust að Davíð Oddsson hafi hótað því að koma aftur inn í stjórnmálin verði hann látinn hætta í Seðlabankanum. Um þetta bloggaði ég á dögunum og einnig það að þetta hafi verið ástæðan fyrir því hvernig Geir hefur bakkað hann upp allan tímann og ekki þorað að blaka við honum.

Þetta staðfestir Davíð nú og eins og oft áður síðustu mánuðina berast fréttirnar af erlendum fjömiðlavettvangi.

Davíð segir að ástæða þess að hann verði fyrir aðkasti nú sé sú að sem Seðlabankastjóri sé hann tákngervingur þess sem hefur verið að gerast. Þetta er aðeins hálfur sannleikur.

Davíð hefur ekki aðeins verið tákngervingur að þessu leyti og í ofanálag fylgt fram kolrangri stefnu og gert hvert axarskaftið á fætur öðru, heldur er enginn maður eins mikill tákngervingur þess kerfis sem hrundi og Davíð.

Þetta kerfi byggði hann markvisst upp í helmingaskiptafélagi við Halldór Ásgrímsson. Saman reistu þeir langstærstu spilaborg sem íslensk sjálftökustjórnmál hafa reist og hefur þó oft verið gengið langt í þeim efnum.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahliðar heimsveldanna.

Margir hafa átt erfitt með að skilja hvernig sjálfstæðishetjur Indverja á borð við Gandí vildu lengi vel ekki veita Bretum lið í baráttunni við Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og að Farúk, konungur Egyptalands, þráði að ÞJóðverjar rækju Breta úr Miðausturlöndum 1942 þegar Rommel sótti inn í landið.

Hvernig mátti það vera að leiðtogar þessara þjóða héldu með mestu villimennsku, sem hugsast gat, rasisma nasistanna?

Ástæðan var einföld og skiljanleg. Hinir innfæddu í nýlendunum máttu búa við ofbeldi og kúgun nýlenduherranna sem ofan á allt töldu sig vera kristna og siðvædda!

Hitler dáðist alla tíð að breska heimsveldinu og öfundaði Breta af því, ekki hvað síst vegna þess að í nýlendum Breta réði herraþjóð, "ubermenshen" ríkjum og drottnaði yfir hinum óæðri kynþáttum.

Þetta var það módel sem Hitler vildi innleiða í þeim löndum Austur-Evrópu þar sem bjuggu hinir óæðri slavnesku þjóðir sem áttu ekkert betra skilið en að þjóna arísku ofurmennuum og lúta þeim í einu og öllu.

Þess vegna gerði Hitler Bretum tilboð sumarið 1940 sem hann hélt að þeir gætu ekki hafnað. Hann bauð Bretum að halda heimsveldinu ef þeir semdu frið og bauð Bretum það í ofanálag að ÞJóðverjar myndu verja breska heimsveldið!

"VIð munum eyða hverjum þeim óvini sem vill eyða breska heimsveldinu!" þrumaði hann.

Bretar þrjóskuðust við í samræmi við aldalanga stefnu þeirra að koma í veg fyrir að neitt stórveldi gæti orðið of öflugt á meginlandinu.

En greining Churchills á illu eðli nasismans og mótspyrna gegn alræði og einveldi blés Bretum og bandamönnum þeirra líka eldmóð í brjóst. Þrátt fyrir allt má því segja að seinni heimsstyrjöldin hafi af hálfu bandamanna verið eitt af þeim fáu stríðum sem réttlætanlegt var að heyja.

HIð nöturlega við 20. öldina er það að það voru Evrópuþjóðir sem töldu sig kristnar og siðaðar sem að mestu stóðu fyrir hræðilegustu manndrápum mannkynssögunar sem kostaðu samtals meira en 100 milljónir manna lífið.


mbl.is Pyntuðu afa Obamas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holl ádeila.

Hvað hét hann nú aftur, erlendi sérfræðingurinn sem kom hingað fyrir tæpum tveimur árum og spáði því að "íslenska efnahagsundrið" myndi aðeins endast í eitt ár í viðbót? Skiptir ekki máli. Hann notaði þá aðferð að telja byggingarkranana til að komast að þessari niðurstöðu, - kvaðst hafa gert þetta á þeim stöðum erlendis þar sem spilaborgin hefði hrunið.

Ég notaði þá aðferð á svipuðum tíma að giska á hlutfalll bandarísku ofurjeppanna í borgarumferðinni til að komast að svipaðri niðurstöðu og skrifaði meira að segja lýsingu á komandi hrunadansi í bókina "Kárahnjúkar - með og á móti." Óraði þó ekki fyrir svo undraskjótu umfangi eyðileggingarinnar.

Það hefði líka mátt á þessum árum telja hlutfall greina í Séð og heyrt sem voru með eftirfarandi fyrirsögnum: "Sjáið dýru kjólana þeirra! - Reistu sér 500 fermetra sumarhús! - Gaf henni Hummer í brúðargjöf! - Fékk Elton John til að skemmta í afmælinu! - Uppbúinn þjónn á hverja veiðistöng! - Sjáið þið lúxusbílana í afmælinu!

Svona var þetta blað eftir blað. Hvílík dýrð, hvílík dásemd! "Sjáið þið ekki veisluna, drengur" hrópaði fjármálaráðherrann úr ræðustóli á Alþingi.

Fyrir ári sögðum við um Danina sem skrifaðu beitta ádeilu um okkur að þeir væru öfundsjúkur hatursmenn Íslendinga með óhróður og lygar.

Þau orð voru notuð hér um Svía einn fyrir aldarfjórðungi sem lýsti næturlífinu eina helgi í Reykjavík. Ég hygg að sönnu nær sé að þótt fast sé kveðið að orði hjá útlendingunum  sé hollt fyrir okkur að fá slíka ádrepur.  

 


mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkraliðinn á Balaströnd.

Vegna virkjanaæðisins á Íslandi hef ég farið alls níu kvikmyndagerðarferðir til Noregs síðastliðinn áratug og leið okkar hjóna hefur legið um allt þetta langa land að undanskildu Álasundi og Stavangri. Ég á orði efni í nokkra ferðaþætti ef til kæmi.

Eitt lítið atvik gerðist á undurfögrum stað sem heitir Balaströnd við Sognfjörð, lítið fiski- og ferðamannaþorp. Þar kom bátur að landi og tveir Norðmenn stigu á land. Ég hóf að taka viðtal við annan þeirra um lífið á þessum slóðum og var búinn að vera að í talsverðan tíma þegar maðurinn sagði: "Æ, Ómar, hættum nú þessum látalátum að hjakka í norskunni og tölum bara íslensku."

Þetta var þá Íslendingur sem hafði unnið hér í nokkur ár sem sjúkraliði. Þetta var á þeim tíma sem gríðarleg óánægja var heima hjá þeirri afar lágt launuðu stétt. Maðurinn kvaðst vera í fríi og norskur vinur hans hefði boðið honum að róa með sér til fiskjar í veðurblíðunni.

Ég spurði hann hvort hann væri nokkuð á leiðinni heim til Íslands. "Það er ekki á dagskrá," sagði hann. "Ég hef það svo gott hér í þessu starfi, tvöfalt betri kjör en heima á Fróni."

Nú mun svona Íslendingum kannski fjölga í Noregi og kannski ætti ég að búa til tvo eða þrjá ferðaþætti í tilefni af "innrás" Íslendinga.

Æ, nei, því miður. Það er eitt af mörgu sem ég mun ekki fá tækifæri til að gera héðan af. Heima liggur efni í fimm heimildarmyndir um nokkur af þeim svæðum einstæðra náttúruverðmæta sem á að breyta í "iðnaðarsvæði" fyrir þá sem eftir verða til að sinna verksmiðjustörfum á útskerinu úti í ballarhafi.  


mbl.is Búa sig undir íslenska innrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri vilja fá botn í málið.

Í útvarpsfréttum í hádeginu í dag var haft eftir Ögmundi Jónassyni, formanni þingflokks VG, að hann teldi rétt að þjóðin fengi að kjósa um aðild að ESB eftir að búið væri að fara í viðræður við ESB og fá út, hvaða kjör Íslendingum byðust þar.

Varla var hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það þyrfti að fara að höggva á þennan hnút og að það væri ekki hægt að taka endanlega ákvörðun í þjóðaratkvæði nema að fyrir lægi samkomulag um aðildina.

Þetta þykja mér nokkur tíðindi úr herbúðum VG.

Ef það er hins vegar hugsun Ögmundar að hægt sé að kanna hjá ESB hvernig samkomulag gæti orðið án aðildarumsóknar held ég ekki að það sé raunhæfur kostur. Embættismennirnir hjá bandalaginu hafa ekkert pólitískt umboð til þess að segja til um þetta í einhvers konar þreifingum.

Engin leið er að vita hver kjörin yrðu nema með alvöru viðræðum þar sem fulltrúar Íslendingar væru með vel ígrunduð samningsmarkmið í höndum.

Ég get því ekki skilið Ögmund öðruvísi en að hann sé meðmæltur aðildarumsókn en að hann geti eftir sem áður verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að gerast aðilar, - en sætti sig að sjálfsögðu við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur J. Sigfússon sagði hins vegar í Íslandi í dag á Stöð tvö að hugsanleg aðild að ESB gæti ekki orðið á dagskrá fyrr en eftir kosningar.


mbl.is Myndi jafngilda stjórnarslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið, kollega þeirra, ekki kollegi sinna.

Fyrsta setning fréttarinnar sem þessi pistill er tengdur við stingur of mikið í augun til að hægt sé að láta slíkt fara fram hjá sér. Tilraunirnar í fréttinni áttu enga "kollega", heldur vísindamennirnir sem unnu fyrir nasista.

Rugl af þessu tagi er lífseigt. Samkvæmt minni málkennd hefði þessi fyrsta setning fréttarinnar átt að vera svona: "Tilraunir vísindamanna í Þýskaland nasismans lutu víðtæks samþykkis kollega ÞEIRRA, " ekki kollega "sinna."

Dag eftir dag heyrast fréttamenn ruglast á tíðum og segja til dæmis: "Hann sagði að hann HAFI gert mistök." Þarna er með komið tíðarugl í fréttina og þetta leiða fyrirbrigði verður æ algengara.

Emil Björnsson, gamli fréttastjórinn minn, var fljótur að gefa mér og öðrum línuna: "Haltu sömu tíð í setningingunn" sagði hann. Þá verður fyrrnefnd setning: "Hann sagði að hann HEFÐI gert mistök."


mbl.is Tóku tilraunum nasista með velþóknun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband