6.12.2009 | 15:33
Áburðarverksmiðja? Nei, álið hefur forgang.
Nýjasti möguleikinn sem rekið hefur á fjörur Íslendinga varðandi nýtingu orku landsins er áburðarverksmiðja sem myndi þurfa 350 megavött.
En Helguvík hafa þegar verið ætluð 635 megavött og þessir tveir möguleikar nálgast því 1000 megavött eða eina og hálfa Kárahnjúkavirkjun.
Vafasamt er með orkuöflun handa álverinu og því augljóst að áburðarverksmiðjunni verði vísa frá nema menn keyri áfram og vaði austur í Landmannalaugar, Þjórsárver og Kerlingarfjöll.
Áburðarverksmiðjan er reyndar ekki eins hagkvæmur kostur og gagnaver og aðrir slíkir smærri kaupendur sem þurfa færri megavött á sköpuð störf.
En hún er þó af helmingi skaplegri stærð en álverið og getur skapað svigrúm fyrir aðra kaupendur sem annars þurfa frá að hverfa.
Athyglisvert er að hinn breski blaðamaður Roger Boyes sem rætt var við í Sifri Egils í dag sér hvernig álversstefnan er augljóslega röng jafnvel þótt hann gefi sér þá forsendu að við höfum fram að bjóða nær ótæmandi orku, sem er fjarri lagi.
Eftir að fjármálabólan sprakk er eins og við þurfum að ríghalda áfram í eitthvað svipað og nú er það "hin óendanlega mikla, endurnýjanlega og hreina orka" sem allir buna út úr sér í viðtölum við útlendinga og innan lands, allt frá forsetanum og niður úr.
Roger Boyes hefur greinilega ekki heyrt eða séð neinu öðru haldið fram og þyrfti að lesa Framtíðarlandið og greiningu Sigmundar Einarssonar auk greinargerða innlendra sérfræðinga til þess að komast að hinu sanna.
Ég hef spurt fjölmarga að undanförnu hvort þeir hafi lesið síðustu grein Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar þar sem endurnýjanleg orka og sjálfbær þróun voru mátuð við jarðvarmavirkjanir okkar.
Enginn hafði tekið eftir því.
Allir hafa hins vegar heyrt mörg þúsund sinnum síbyljuna um gnægð endurnýjanlegra og hreinnar orku Íslands og Roger Boyer harmaði í viðtalinu að við sendum ekki sveit manna til að gera Ísland mest sexý landið á umhverfisráðstefnunni í Kaupmannahöfn.
Fyrr eða síðar hlýtur blekkingarbólan um hegðun okkar í þessum málum að springa, svo sem sú staðreynd að á Íslandi er mest mengandi bílafloti Vesturlanda.
Ég segi bara: Guði sé lof að við vöðum nú ekki aftur fram, nýhrapaðir, og byggjum upp aðra blekkingarbólu erlendis.
Ég var að vona að fjármálahrunið hefði kennt okkur eitthvað.
Bo
![]() |
Boyes: Of mikil áhersla á ál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2009 | 10:11
Snilldarbíllinn Tata Nano.
Eiga indverskir bílar erindi til Íslands? Eru þeir nógu vandaðir?

Það er of seint að spyrja að þessu. Þeir eru þegar komnir. Ódýrasti bíllinn á íslenska markaðnum, Suzuki Alto, er smíðaður í Indlandi og bráðum verða smíðaðir hér rafbílar af indverskum uppruna.
Indland er rísandi veldi líkt og Bandaríkin voru fyrir öld.

Snilldarbíllinn Tata Nanó er beint svar við kreppunni undir kjörorðinu "skynsemin ræður" sem á enn betur við en þegar Trabant kom hingað um árið eða þegar Ford T kom Íslendingum á hjólin.

Lítum nánar á málið og sögu smæstu bílanna sem vandasamast er að hanna, en hins vegar mest þörfin fyrir handa þeim sem minnst hafa á milli handanna.
Þrenns konar hönnunargerðir hafa helst verið uppi frá árinu 1936 þegar fyrsti nútímalegi smábíllinn, Fiat 500 Topolino var hannaður.
Dante Giacosa leysti rýmisvandann með því að setja vélina fyrir framan framhjól og hafa vatnskassann þar fyrir aftan. Þar með skagaði gírkassinn ekki eins inn í farangursrýmið og bíllinn gat verið styttri, var 3,22 m langur og rúmlega 600 kíló. Vélin aðeins 13 og síðan 16,5 hestöfl, hámarkshraðinn 85 km/klst.

Þegar sætunum var fjölgað úr 2 í 4 lengdist bíllinn um 20 sm og þyngdist.
Annar tveggja arftaka hans árið 1955, Fiat 600, var með vélina fyrir aftan afturhjólin, var 3,22 m á lengd, 600 kg, léttari en Topolino og tók fjóra í sæti. Farangursrými var fremst, aðeins 45 lítrar og svipað rými fyrir aftan aftursæti. Vélin fyrst 21 hestafl en síðar 25 og hámarkshraðinn þá 110 km/klst.
Hinn arftakinn, Fiat 500, var með sömu uppbyggingu, en aðeins 2,97 m að lengd og um 500 kíló. 18 hestöfl og hámarkshraðinn yfir 95 km/klst.

Hann þykir nú einhver flottasta hönnun allra tíma. Aðeins 35 lítra farangusrými fremst og ekkert að aftan en bíllinn einfaldasti, ódýrasti fjöldaframleiddi bíllinn allt fram til 1975.
Mini sem kom fram 1959, var með vélina þversum frammi ofan á sambyggðum gírkassa og drifi, framhjóladrifinn og aðeins 3,05 m langur. Farangursrýmið var aftast, 116 lítrar og bíllinn heldur rúmbetri en Fiat 600 og álíka þungur. Snilldarhönnun Alec Issigonis sem öpuð er eftir í meira en 80% bíla heims og að mínum dómi bíll aldarinnar.

Helsti ókostur rassvélabílanna var sá að þeir voru næmir fyrir hliðarvindi og slógu afturendanum út í kröppum beygjum þannig að þeir gátu verið hættulegir fyrir óvana ökumenn.
Mini bar hins vegar af hvað aksturseiginleika og stöðugleika snerti var með 34 hestafla vél, síðar 41 hestafls, og hámarkshraðinn 116 km/klst, síðar 132 km/klst.

Dahatsu Cuore, 1987, var aðeins 3,19 m langur en með rými fyrir fjóra farþega á við bestu fólksbíla og bar að því leyti af öðrum smæstu bílunum á þeim tíma. Þyngdin var rúm 600 kíló, hestöflin 44, viðbragð 0-100 aðeins 15,9 sek, hámarkshraðinn 135 km/klst og farangursrýmið ca 150 lítrar. Að mínum dómi best hannaði smælkisbíll heims til dagsins í dag. Eyðslan frá 4,1 l/100 km - 5,8.
En nú er spurningin hvort Tata Nano hefur hefur velt honum úr sessi.
Síðustu áratugi 20. aldar var arftaki Fiat 500, Fiat 126, minnsti, einfaldasti og ódýrasti fjöldaframleiddi bíll heims. Aðeins 3,05 m langur, 600 kíló og með 26 hestafla tveggja strokka loftkældri vél, hámarkshraðinn 116 km/klst. Í raun Fiat 500 með annarri og öruggari yfirbyggingu.

Á árunum 1988-96 var hann með liggjandi vél sem gaf færi á að hafa farangursrými ofan á henni og afturhurð og þar með var öll lengd bílsikns notuð fyrir fólk og farangur og farangursrýmið orðið alls 165 lítrar.

Tata Nano veltir honum úr sessi með glæsibrag og er þó mun rúmbetri bíll, líka rúmbetri en Mini, án þess að vera þyngri, aðeins 3,10 m langur.
Hver er galdurinn á bak við þetta? Hvernig getur þessi bíll haft þessa eiginleika og þó verið svo lang-lang-ódýrasti bíll heims?
Galdurinn liggur meðal annars í staðsetningu vélarinnar, sem er nýjung í þessum flokki. Vélin er sem sé hvorki fremst né fyrir aftan afturhjól, heldur undir aftursætinu, rétt framan við afturhjólin.

Fyrir bragðið fer ekkert af lengd bílsins til spillis. Í Mini og Cuore fóru fremstu 60 sm í vél og drif og í afturdrifsbílunum öftustu 80 sentimetrarnir.
En til þess að ná þessu fram þarf Tata Nano að vísu að vera 25-30 sentimetrum hærri en hinir bílarnir. Það ætti að gera bílinn valtari en í bílaprófunum hefur Nano þó staðið sig nægjanlega vel í þessu efni.

Rassvélarbílarnir hafa það fram yfir bíla með vélina frammi í að þeir eru mun einfaldari en framdrifsbílar.
Pústkerfið er brot af því sem er í framdrifsbílunum, ekki þarf nauðsynlega að vera með eins marga hjöruliði og í framdrifsbílum og ekki þarf að eyða eins löngum hluta af framenda bílsins í "krumpusvæði" og á bílnum með vélina frammi í.
Með því að hafa vélina fyrir framan framhjólin en ekki fyrir aftan þau verður þyngd bílsins mestöll á milli hjólanna, sem hægt er að hafa svo langt úti í hornunum, að hjólhafið er 2,23 m.
Stöðugleiki Nano fæst fram á sama hátt og í Formúlu-kappakstursbílum og dýrum sportbílum, en þar stelur vélin hins vegar gríðarmiklu rými, af því að ekki er hægt að sitja ofan á henni.
Nú er Nanó búinnn að fara í árekstrarpróf, (sjá mynd) og stóðst það með prýði.
Lága verðið fæst með margvíslegri hagræðingu og sparnaði. Vélin er tveggja strokka en ekki fjögurra, ventlarnir eru fjórir en ekki sextán og gírarnir fjórir en ekki fimm.

Fyrir Indlandsmarkað er bíllinn með 623 cc vél, 35 hestafla, en hámarkshraðinn aðeins 105 km/klst, enda er bíllinn hár og tekur því meira á sig en bílarnir, sem nefndir hafa verið hér að framan.
Þetta er þó í raun nóg afl. Bílnum er hægt að aka áreynslulaust á 90 km hraða og eyðslan er innan við fimm lítrar á hundraðið. Ég ek mest um þjóðvegi landsins á bíl sem 24 hestafla vél og það nægir í venjulegri keyrslu. Aðeins upp bröttustu brekkurnar væri gott að hafa meira afl.
Fyrir Evrópumarkað verður Nano með þriggja strokka vél og öryggispúðum auk fleiri þæginda sem Vesturlandabúar eru vanir. Samt er ætlunin að hann verði um 40 prósent ódýrari en ódýrustu bílarnir eru nú. Það er hreint með ólíkindum og ekki er hægt að finna neinn samjöfnuð síðan Ford T kom á markað fyrir heilli öld.
Verður markaður fyrir Nano hér á landi líkt og reyndist með Trabant á sínum tíma?
Ég held að þörfin sé fyrir hendi en hins vegar var mokað þvílíkum býsnum inn í landið af bílum í gróðærinu að ég efast um að yfirleitt verði neinn bílainnflutningur að ráði næstu árin hér meðan svona stór hluti bílaflotans er nýrri en nokkru sinni fyrr í sögu landsins.
Ótalinn er einn kostur Nano. Hann er hannaður fyrir slæma vegi á Indlandi og því er veghæð hans 4-5 sentimetrum hærri en á öðrum fólksbílum. Það að auki sýnist mér hægt að hækka hann um ca 2 sm með því að setja undir hann dekk af stærðinni 155-13 í stað 155/65-13.
Nano kemur til Íslands. Framleiðsla Ford T hófst 1908 og 1913 markaði hann upphaf bílaaldar á Íslandi.
Nano þarf líklega álíka langan tíma og kemur hingað varla síðar en 2013. Hann er hannaður með það fyrir augum að rýmið og fyrirkomulagið hentar afar vel fyrir rafmótor og verður líklega ódýrasti bíllinn af því tagi. Nano markar nýja hugsun á 21. öldinni þegar olíuöldin fjarar út.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2009 | 15:05
Þingið heldur haus.
Margir hafa haft áhyggjur af því ástandi sem ríkt hefur á Alþingi undanfarna daga. Á því má sjá bæði alvarlegar og spaugilegar hliðar eins og sést á pistli mínum hér á undan á léttu nótunum.
Samkomulagið, sem nú hefur náðst, sýnist mér vitna um það að þrátt fyrir átök og umræður haldi menn haus og þoki þessu stóra og vandasama máli áfram á ábyrgan hátt.
![]() |
Samkomulag um afgreiðslu Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.12.2009 | 14:23
Hvar liggur línan?
Fyrir um áratug var gefin út æviminningabók sem olli miklu uppnámi og fór málið fyrir dómstóla þar sem úrskurðað var að í bókinni hefði verið farið yfir þau mörk sem sett skuli við frásagnir af lifandi og látnu fólki.
Af samtölum mínum þá við bókaútgefendur mátti ráða að innan þeirra raða ríkti viss feginleiki yfir þessum úrskurði þótt hann hefti frelsi útgefenda. Nú vissu menn nokkurn veginn hvar línan lægi.
Gott væri að fá um það dómsúrskurð hvar sú lína liggur sem ævinlega verður að taka tillit til í þessu efni, þótt viðurkennt sé að eigi megi hefta að óþörfu frásagnargleði eða skáldleg tilþrif.
Eftir þennan dómsúrskurð hér um árið hefur fyrst nú komið upp vafaatriði í útgáfu bókar, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum en virðist ekki ætla að leiða til málaferla.
Draugaferðamálið getur kannski orðið til þess að fenginn verði vegvísir í því hve langt megi ganga í svona málum.
Ekki er síður mikilsvert að þetta leiði til umbóta í málefnum leiðsögumanna og fyrirtækja sem tengjast þeim.
Mér sýnist auðsætt að farið hefur verið yfir strikið í því máli sem hér um ræðir.
Talsmaður þess segir að ferðin að leiði stúlkunnar í kirkjugarðinum hafi ekki verið í beinu sambandi við þær draugasögur sem sagðar voru á leiðinni þangað.
En þá vaknar spurningin: Hvers vegna var þá farið að þessu leiði?
Í kirkjugarðinum eru leiði þjóðþekkts fólks, sem ekkert er við að athuga að farið sé að, ef smekklega og af tillitssemi er að því staðið.
Hvers vegna var leiði sex ára, óþekktrar stúlku valið í framhaldi af svokallaðri Draugaferð?
Amma mín og afi eru grafin í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Ferð sem seld væri að leiðum þeirra á líkum forsendum og ferðin að leiði stúlkunnar virðist hafa verið farin, myndi ég hiklaust flokka sem siðleysi og lögbrot.
Ekki eins auðvelt að fella leiðsögu í strangan lagaramma og virðist í fljótu bragði.
Út um allt land er staðkunnugt fólk á heimaslóðum eða jörðum, sem það býr á eða á, sem oft er leitað til um leiðsögn. Eða að fulltrúi fyrirtækis taki að sér leiðsögn um það og svæðið sem því tilheyrir.
Þar er grátt svæði rétt eins og í því hve langt sé leyft að ganga í framsetningu leiðsagnarinnar.
En hollt væri fyrir alla að Draugagöngumálið færi fyrir dómstóla. Það gæti hjálpað til við að draga þá línu sem draga verður í þessum efnum.
![]() |
Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.12.2009 | 02:41
Metavettvangurinn við Austurvöll.
Helstu íþróttaleikvangar heimsins keppast um það að geta fest það í bækur að sem flest met hafi verið slegin á þeim.
Vilhjálmur Einarsson jafnaði gildandi heimsmet í þrístökki á Laugardalsvellinum 1960 og völlurinn býr ætíð síðan að því að hafa þetta skrásett, einn íslenskra íþróttavalla.
Erfiðleikarnir sem leikvangarnir eiga við í að ná svona áföngum felast í því að það er í afmörkuðum íþróttagreinum með fastmótuðum reglum sem hægt er að setja metin og það setur hinum metasjúku skorður.
Við Austurvöll er hins vegar íþróttavettvangur þar sem þetta er ekki vandamál því að þeir sem keppa þar breyta bara reglunum þannig að áfram sé hægt að setja þar ný met, ýmist meðvitað eða ómeðvitað.
Þannig er verið að rifja upp met Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hugsanlega gæti verið Norðurlandamet líka, þegar hún talaði í tíu klukkustundir samfleytt hér um árið.
Þótt Hjörleifur Guttormsson væri sleipur í þessu á sinni tíð, svo mjög að ræðulengdir voru ekki lengur mældar í klukkustundum og mínútum heldur mælieiningunni "hjörl", tókst honum ekki að komast í þessa metabók málgleðinnar þótt kannski hefði verið hægt að finna út hvort honum tókst að segja fleiri orð en Jóhanna í einni og sömu ræðunni.
Þegar þingið var orðið þreytt á svona ræðuhöldum og allt virtist stefna í að þetta met Jóhönnu yrði lengdarmeti, sem aldrei yrði slegið, var brugðist hart við og reglunum breytt, að sögn til að koma í veg fyrir svonefnt málþóf.
En, viti menn, - þetta breytti engu heldur gaf tækifæri til að setja nýtt met, sem sé í því að halda sem flestar ræður í sömu umræðunni.
Og nú er brostið á kapphlaup um að setja met í því. Einn þingmaðurinn var þegar síðast fréttist kominn upp í 79 ræður í sömu umræðunni og sér ekki fyrir endann á því, því að umræðunni hefur verið frestað í bili og mun síðan halda áfram.
Ef það fer á eins fyrir þessu meti, sem kalla mætti 30x5 mínútna boðhjal, að það virðist ekki hægt að slá það, munu þingmenn áreiðanlega finna leið til að setja áfram ný met í málþófi og lengja þófið langt umfram nokkurt maraþonhlaup.
Sumir segja að það að vera þingmaður sýni metorðasýki en ég held að það sé frekar metasýki sem ræður för.
Það er gulltryggt að þingið mun ævinlega finna leiðir til þess að halda uppi málþófi og málalengingum hvernig sem reglunum verður breytt.
Og samantektir fjölmiðla á ýmsum hliðum afrekaskrárinnar hafa sýnt að það má líka setja met í að tala sem minnst og styst.
Það getur hugsanlega verið betri mælikvarði á gildi þingmanna og fullkomlega rökrétt: Því minna sem sagt er, því minni vitleysa er sögð.
Guðmundur Steingrímsson virðist hafa skilning á þessu því að í viðtali við blað taldi hann sig þurfa að taka það sérstaklega fram að hann talaði ekki á þingi nema honum fyndist hann hafa eitthvað að segja.
Man ég ekki eftir að þingmaður hafi talið sig knúinn til að lýsa svonalöguðu yfir.
Eins og í aðdraganda hrunsins beinist nefnilega mest athyglin að magni en ekki gæðum á þessu sviði sem öðrum.
Læt fylgja með í lokin vísu sem gerð var á meðan Salóme Þorkelsdóttir var forseti þingsins.
Þetta er sexskeytla og ber nafnið:
HJÖRLEIFUR Í RÆÐUSTÓLI.
Hvílíkt þras og hvílíkt mas, ó ! /
Hvílíkt mal og mærðartal, ó ! /
Hlé. /
Malað áfram, mas og hjal, ó ! /
Mikið er nú lagt á Saló- /
me.
![]() |
Samþykkt að ræða önnur mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.12.2009 | 15:49
Valbjörn Þorláksson látinn.
Látinn er í Reykjavík Valbjörn Þorláksson, einn af fremstu íþróttamönnum síðustu aldar. Tvívegis hlaut hann sæmdarheitið íþróttamaður ársins.
Valbjörn varð tólfti í tugþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo 1964 og enginn veit hvernig honum hefði vegnað í Melbourne 1956 ef hann hefði fengið að fara þangað.
Vegna fjárskorts gátu aðeins tveir íþróttamenn farið með einum aðstoðarmanni, þeir Vilhjálmur Einarsson og Hilmar Þorbjörnsson.
Ekkert var við það að athuga að þeir teldust vera efstir á afrekaskránni, en þegar úrslitin þar eru skoðuð sést að á góðum degi hefði Valbjörn átt góða möguleika á einhverju af efstu sætunum í aðalgrein sinni, stangarstökkinu.
Frjálsar íþróttir og íþróttaæskan áttu hug hans allan og hann átti glæsilegan feril á íþróttamótum öldunga erlendis. Það er ekki tilviljun að einn af íþróttavöllum Reykjavíkur ber nafn hans.
Þær fáu vikur sem ég keppti kynntist ég Valla ágætlega. Ég keppti aðeins einu sinni við hann í 100 metra hlaupi á Akureyri þar sem við náðum báðir okkar bestu tímum. Þetta ár, 1964, var hann í hörkuformi og illviðráðanlegur.
Ég mátti því horfa á eftir honum á undan mér í markið og nú horfi ég með söknuði á eftir honum á undan mér yfir marklínuna miklu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.12.2009 | 11:04
"Aðgát skal höfð..."
Mér finnst rétt að benda á magnaða grein sem Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, skrifar á miðopnu Morgunblaðsins í dag um framgöngu leiðsögufyrirtækis í Reykjavík.
Greinin talar sjálf fyrir sig en um hana gilda hin gömlu orð skáldsins að "aðgát skal höfð í nærveru sálar."
Að mínum dómi ber það vott um hugmyndafátækt þegar seilst er jafn langt og umræddur leiðsögumaður hefur gert samkvæmt frásögninni í greininni.
Samkvæmt því spinnur þetta leiðsögufyrirtæku upp draugasögur þar sem látið fólk er sagt hafa verið morðingjar, barnaníðingar og brennuvargar og ferðin um draugaslóðir síðan látin enda við látinn einstakling sem hvílir í gröf sinni í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þar á ofan er prestur í Reykjavík bendlaður við djöfladýrkun.
Það er allt í lagi að færa eitthvað í stílinn eins og sagt er þegar fásagnargleði er beisluð en fyrr má nú vera!
P. S. Ég sé á dv.is að forsvarsmaður leiðsögufyrirtækisins muni fara í mál við Þór og telur hann Þór ekki fara rétt með því að við leiði stúlkunnar sé hún ekki bendluð við fyrri atriði í ferðalaginu.
Þó vekur það athygli mína að farið skuli verið að leiði stúlkunnar. Hvernig stendur á því?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.12.2009 | 10:54
Skagamenn skoruðu mörkin!
Það er ekki lengra að fara frá Reykjavík upp á Akranes en það, að líta má á staðinn sem eitt af úthverfum Reykjavíkur.

Á sínum tíma átti svonefnt Gullaldarlið Skagamanna stóran aðdáendahóp í Reykjavík, jafnvel þótt þetta væri utanbæjarlið og á þeim tíma svo langt frá Reykjavík að það var hátt í tveggja klukkustunda ferðalag þangað.
Ég var og er Framari en þar á bæ höfðu menn taugar til Akurnesinga vegna þess að Ríkarður Jónsson, skærasta stjarnan þeirra, spilaði með Fram á tímabili.
Fyirr alla aðra en KR-inga skaðaði það svo ekki að á þessum árum voru það Skagamenn sem komu hvað eftir annað í veg fyrir að KR-ingar yrðu Íslandsmeistarar ár eftir ár!
Ríkarður og Skagamenn innleiddu svonefnda meginlandsknattspyrnu sem byggðist á hröðu spili með stuttum sendingum, en leikaðferð KR-inga átti meira skylt við ensku knattspyrnuna með löngum sendingum til framherjanna og himinháar "hreinsanir" sem fengu nafnið "KR-spörk."
En vitanlega voru góðir leikmenn í KR svo sem Bergur Bergsson, Felixsynirnir, Hreiðar Ársælsson og hinn léttleikandi framherji Gunnar Guðmannsson.
Og síðan eignuðust KR-ingar sitt eigið gullaldarlið með Þórólf Beck, Ellert Schram, Bjarna Fel, Garðar Árnason og Örn Steinsen.
En á vandaðri ljósmyndasýningu sem verður opnuð í dag uppi á Skaga verður gaman að sjá heila öld íþrótta á Akranesi birtast ásamt mörgum af köppunum sem gerðu garðinn frægan.
Ég hafði mikla ánægju af því að gera textann "Skagamenn skoruðu mörkin" þar sem elstu gullaldarmennirnir voru nefndir, Helgi Daníelsson, Ríkarður Jónsson, Þórður Þórðarson, Donni, Guðjón Finnbogason og Sveinn Teitsson, allt saman fastir landsliðsmenn.
Síðan hef ég frétt að við opnunina muni láta ljós sitt skína ótrúlega ern Skagamaður, sem kominn er vel yfir nírætt og mætir þó til vinnu á undan öðrum á hverjum morgni.
![]() |
Íþróttir í 100 ár – viðamikil ljósmyndasýning verður opnuð á Akranesi í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2009 | 21:55
"Geimórarnir" voru þá engir órar.
Ég man þá tíð þegar sagt var um þá hugmynd, að einhverjir kæmu til Íslands til að skoða hvali, að hún væri andvana fædd, nánast "geimórar."
Ekki er allt vont sem kvótakerfið leiddi af sér, því að fyrsta fréttin sem ég gerði um hvalaskoðun var um bát, sem ekki var hægt að nota lengur á Hornafirði, vegna þess að hann hafði ekki kvóta.
Ég man að í fréttinni notaði ég tilvitnun í biblíuna þegar Kristur sagði við fiskimanninn: "Héðan í frá skaltu menn veiða."
Hvalaskoðun flokkaðist sem sagt undir svipað fyrirbæri og nú er kallað í niðrunarskyni "eitthvað annað", sem sé eitthvað annað en virkjanir og stóriðja og þar af leiðandi að engu hafandi.
Þegar þeir fyrstu hófu þessa starfsemi var ljóst að það myndi taka mörg ár að byggja hana upp og enginn skammtímagróði eða tafarlaus atvinna í boði.
Slíkt er eitthvað svo óíslenskt og frumherjarnir máttu þola vantrú og úrtölur þess vegna.
Þess vegna samgleðst ég þeim sem höfðu þor og dug til þess að leggja á djúpið og eru nú að uppskera laun þess.
![]() |
Stærsta hvalaskoðunarskip landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2009 | 11:30
Og þorskurinn líka ?
Ef loðnan hverfur frá Íslandsmiðum vegna hlýnunar loftslags er hætt við að fleira fylgi á eftir samanber rannsóknir Björns Birnis, prófessors.
Þeir eru til sem ýmist andmæla því að loftslag sé að hlýna af mannavöldum eða segja sem sem svo að það sé aðeins gott fyrir okkur Íslendinga að loftslagið hlýni, það sé hagstætt fyrir okkur hvað sem öðrum þjóðum líði.
Þeir hafa sagt að okkur megi standa á sama um það þótt barnabörn okkar muni á efri árum verða vitni að því að stórborgir erlendis og lönd hundraða milljóna manna sökkvi í sæ og kvosin í Reykjavík og Sjálandshverfi í Garðabæ sömuleiðis, það eigi ekki að gera neitt til þess að minnka útblástur.
Þessum mönnum er slétt sama þótt loftslagsbreytingarnar kunni að valda slíkum búsifjum fyrir mannkynið í heild að við Íslendingar, sem erum svo háðir samskiptum og verslun við önnur lönd, munum skaðast af því.
Þeir horfa framhjá því að það er fleira sem hangir á spýtunni og að löng saga jarðarinnar sýnir að tiltölulega litlar breytingar geti haft keðjuverkandi afleiðingar, samanber þá hættu sem er á því að Golfstraumurinn veiklist við útstreymi fersks leysingarvatns vegna bráðnunar Grænlandsjökuls.
Það gæti leitt svæðisbundna ísöld við Norður-Atlantshaf.
Einnig eru þeir tilbúnir að taka áhættuna af því að þorskurinn hverfi af Íslandsmiðum, - segja sem svo að eitthvað annað komi í staðinn.
Allt er þetta til marks um þá miklu áhættufíkn sem enn er ríkjandi hér, en hún ásamt skammtímagræðginni olli hruninu mikla.
Menn yfirfæra bara áhættuspilið frá peningunum í bili yfir á umhverfismálin og náttúruverðmætin.
Ætlum við í raun ekki að læra neitt af þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið?
![]() |
Loðnan að hverfa vegna hlýnunar sjávar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)