Snilldarbíllinn Tata Nano.

Eiga indverskir bílar erindi til Íslands? Eru þeir nógu vandaðir?

711px-Nano

Það er of seint að spyrja að þessu. Þeir eru þegar komnir. Ódýrasti bíllinn á íslenska markaðnum, Suzuki Alto, er smíðaður í Indlandi og bráðum verða smíðaðir hér rafbílar af indverskum uppruna.

Indland er rísandi veldi líkt og Bandaríkin voru fyrir öld.

180px-Trabant_1.1

Snilldarbíllinn Tata Nanó er beint svar við kreppunni undir kjörorðinu "skynsemin ræður" sem á enn betur við en þegar Trabant kom hingað um árið eða þegar Ford T kom Íslendingum á hjólin.

Fiat500topolino

Lítum nánar á málið og sögu smæstu bílanna sem vandasamast er að hanna, en hins vegar mest þörfin fyrir handa þeim sem minnst hafa á milli handanna. 

Þrenns konar hönnunargerðir hafa helst verið uppi frá árinu 1936 þegar fyrsti nútímalegi smábíllinn, Fiat 500 Topolino var hannaður. 

Dante Giacosa leysti rýmisvandann með því að setja vélina fyrir framan framhjól og hafa vatnskassann þar fyrir aftan. Þar með skagaði gírkassinn ekki eins inn í farangursrýmið og bíllinn gat verið styttri, var 3,22 m langur og rúmlega 600 kíló. Vélin aðeins 13 og síðan 16,5 hestöfl, hámarkshraðinn 85 km/klst.  

DSCF0302

Þegar sætunum var fjölgað úr 2 í 4 lengdist bíllinn um 20 sm og þyngdist. 

Annar tveggja arftaka hans árið 1955, Fiat 600, var með vélina fyrir aftan afturhjólin, var 3,22 m á lengd, 600 kg, léttari en Topolino og tók fjóra í sæti. Farangursrými var fremst, aðeins 45 lítrar og svipað rými fyrir aftan aftursæti. Vélin fyrst 21 hestafl en síðar 25 og hámarkshraðinn þá 110 km/klst.

Hinn arftakinn, Fiat 500, var með sömu uppbyggingu, en aðeins 2,97 m að lengd og um 500 kíló. 18 hestöfl og hámarkshraðinn yfir 95 km/klst.

DSC00317

Hann þykir nú einhver flottasta hönnun allra tíma. Aðeins 35 lítra farangusrými fremst og ekkert að aftan en bíllinn einfaldasti, ódýrasti fjöldaframleiddi bíllinn allt fram til 1975.  

Mini sem kom fram 1959, var með vélina þversum frammi ofan á sambyggðum gírkassa og drifi, framhjóladrifinn og aðeins 3,05 m langur. Farangursrýmið var aftast, 116 lítrar og bíllinn heldur rúmbetri en Fiat 600 og álíka þungur. Snilldarhönnun Alec Issigonis sem öpuð er eftir í meira en 80% bíla heims og að mínum dómi bíll aldarinnar. 

800px-Morris_Mini-Minor_1959

Helsti ókostur rassvélabílanna var sá að þeir voru næmir fyrir hliðarvindi og slógu afturendanum út í kröppum beygjum þannig að þeir gátu verið hættulegir fyrir óvana ökumenn.

Mini bar hins vegar af hvað aksturseiginleika og stöðugleika snerti var með 34 hestafla vél, síðar 41 hestafls, og hámarkshraðinn 116 km/klst, síðar 132 km/klst.

DSC00318

Dahatsu Cuore, 1987, var aðeins 3,19 m langur en með rými fyrir fjóra farþega á við bestu fólksbíla og bar að því leyti af öðrum smæstu bílunum á þeim tíma. Þyngdin var rúm 600 kíló, hestöflin 44, viðbragð 0-100 aðeins 15,9 sek, hámarkshraðinn 135 km/klst og farangursrýmið ca 150 lítrar. Að mínum dómi best hannaði smælkisbíll heims til dagsins í dag. Eyðslan frá 4,1 l/100 km - 5,8. 

En nú er spurningin hvort Tata Nano hefur hefur velt honum úr sessi. 

Síðustu áratugi 20. aldar var arftaki Fiat 500, Fiat 126, minnsti, einfaldasti og ódýrasti fjöldaframleiddi bíll heims. Aðeins 3,05 m langur, 600 kíló og með 26 hestafla tveggja strokka loftkældri vél, hámarkshraðinn 116 km/klst. Í raun Fiat 500 með annarri og öruggari yfirbyggingu.

DSCF0779

Á árunum 1988-96 var hann með liggjandi vél sem gaf færi á að hafa farangursrými ofan á henni og afturhurð og þar með var öll lengd bílsikns notuð fyrir fólk og farangur og farangursrýmið orðið alls 165 lítrar.  

IMGP0271

 Tata Nano veltir honum úr sessi með glæsibrag og er þó mun rúmbetri bíll, líka rúmbetri en Mini, án þess að vera þyngri, aðeins 3,10 m langur. 

Hver er galdurinn á bak við þetta? Hvernig getur þessi bíll haft þessa eiginleika og þó verið svo lang-lang-ódýrasti bíll heims?

Galdurinn liggur meðal annars  í staðsetningu vélarinnar, sem er nýjung í þessum flokki. Vélin er sem sé hvorki fremst né fyrir aftan afturhjól, heldur undir aftursætinu, rétt framan við afturhjólin. 

800px-Tata_Nano_

 Fyrir bragðið fer ekkert af lengd bílsins til spillis. Í Mini og Cuore fóru fremstu 60 sm í vél og drif og í afturdrifsbílunum öftustu 80 sentimetrarnir. 

En til þess að ná þessu fram þarf Tata Nano að vísu að vera 25-30 sentimetrum hærri en hinir bílarnir. Það ætti að gera bílinn valtari en í bílaprófunum hefur Nano þó staðið sig nægjanlega vel í þessu efni. 

250px-Tata_Nano_yellow

Rassvélarbílarnir hafa það fram yfir bíla með vélina frammi í að þeir eru mun einfaldari en framdrifsbílar. 

 

 

 

Pústkerfið er brot af því sem er í framdrifsbílunum, ekki þarf nauðsynlega að vera með eins marga hjöruliði og í framdrifsbílum og ekki þarf að eyða eins löngum hluta af framenda bílsins í "krumpusvæði" og á bílnum með vélina frammi í. 

Með því að hafa vélina fyrir framan framhjólin en ekki fyrir aftan þau verður þyngd bílsins mestöll á milli hjólanna, sem hægt er að hafa svo langt úti í hornunum, að hjólhafið er 2,23 m.

Stöðugleiki Nano fæst fram á sama hátt og í Formúlu-kappakstursbílum og dýrum sportbílum, en þar stelur vélin hins vegar gríðarmiklu rými, af því að ekki er hægt að sitja ofan á henni.

Nú er Nanó búinnn að fara í árekstrarpróf, (sjá mynd) og stóðst það með prýði.

Lága verðið fæst með margvíslegri hagræðingu og sparnaði. Vélin er tveggja strokka en ekki fjögurra, ventlarnir eru fjórir en ekki sextán og gírarnir fjórir en ekki fimm. 

250px-Tata_Nano_2

Fyrir Indlandsmarkað er bíllinn með 623 cc vél, 35 hestafla, en hámarkshraðinn aðeins 105 km/klst, enda er bíllinn hár og tekur því meira á sig en bílarnir, sem nefndir hafa verið hér að framan. 

Þetta er þó í raun nóg afl. Bílnum er hægt að aka áreynslulaust á 90 km hraða og eyðslan er innan við fimm lítrar á hundraðið. Ég ek mest um þjóðvegi landsins á bíl sem 24 hestafla vél og það nægir í venjulegri keyrslu. Aðeins upp bröttustu brekkurnar væri gott að hafa meira afl. 

Fyrir Evrópumarkað verður Nano með þriggja strokka vél og öryggispúðum auk fleiri þæginda sem Vesturlandabúar eru vanir. Samt er ætlunin að hann verði um 40 prósent ódýrari en ódýrustu bílarnir eru nú. Það er hreint með ólíkindum og ekki er hægt að finna neinn samjöfnuð síðan Ford T kom á markað fyrir heilli öld. 

Verður markaður fyrir Nano hér á landi líkt og reyndist með Trabant á sínum tíma? 

Ég held að þörfin sé fyrir hendi en hins vegar var mokað þvílíkum býsnum inn í landið af bílum í gróðærinu að ég efast um að yfirleitt verði neinn bílainnflutningur að ráði næstu árin hér meðan svona stór hluti bílaflotans er nýrri en nokkru sinni fyrr í sögu landsins.

Ótalinn er einn kostur Nano. Hann er hannaður fyrir slæma vegi á Indlandi og því er veghæð hans 4-5 sentimetrum hærri en á öðrum fólksbílum. Það að auki sýnist mér hægt að hækka hann um ca 2 sm með því að setja undir hann dekk af stærðinni 155-13 í stað 155/65-13.  

Nano kemur til Íslands. Framleiðsla Ford T hófst 1908 og 1913 markaði hann upphaf bílaaldar á Íslandi.

Nano þarf líklega álíka langan tíma og kemur hingað varla síðar en 2013. Hann er hannaður með það fyrir augum að rýmið og fyrirkomulagið hentar afar vel fyrir rafmótor og verður líklega ódýrasti bíllinn af því tagi. Nano markar nýja hugsun á 21. öldinni þegar olíuöldin fjarar út.  

 

711px-Nano

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband