2.12.2010 | 22:28
Bretar "eiga" ekki knattspyrnuna lengur einir.
Knattspyrnan í núverandi formi er upprunin og þróuð í Bretlandi. Að því leyti til "eiga" Bretar þessa íþrótt í sínum huga líkt og Íslendingum finnst þeir "eiga" íslensku glímuna og hestaíþróttir sem aðeins íslenski hesturinn getur framkvæmt.
En bæði Bretar og Íslendingar hafa orðið að sætta sig við það að þessar íþróttir hafa borist til annarra landa.
Stórmót í hestaíþróttum eru haldin í Evrópu og knattspyrnan nýtur meiri hylli þegar lagt er saman þáttakendafjöldi, áhorfendafjöldi, sýningar og umfjöllun í fjölmiðlum en nokkur önnur íþrótt.
Þess vegna er ekkert við það að athuga að stórt og fjölmennt land eins og Rússland fái að halda heimsmeistarakeppnin í knattpyrnu.
Það er í fyrsta sinn sem Rússar fá að halda mótið, en Bretar héldu það 1966.
Katar vekur fleiri spurningar og kannski hefði verið betra að Bretar hefðu sótt um og fengið að halda mótið þá.
![]() |
Bretar æfir yfir að missa HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.12.2010 | 16:21
Vigdísi, Björk og Helga Tómasson.
Á gagnstétt í Þrándheimi er stytta af Hjalmari (Hjallis) Andersen, skautakappa, þar sem hann er í hlauparastellingunni á fullri ferð en samt kyrr. Hjallis var aðalstjarna Vetrarólympíuleikanna í Osló 1948.
Nú er komið að konunum í styttumálum Reykvíkinga og þó fyrr hefði verið.
Ég sé Vigdísi Finnbogadóttur fyrir mér, annað hvort skammt frá Tómasi, nálægt Iðnó þar sem hún var leikhússstjóri, eða á öðrum viðeigandi stað í borginni.
Björk Guðmundsdóttur, frægasta Íslendinginn, sé ég fyrir mér í svanakjólnum fræga, hugsanlega nálægt Hörpu.
Og síðan má bæta Helga Tómassyni við á tröppum Þjóðleikhússins, þar sem hann verður í svipuðum gír og Hjallis í Þrándheimi, í flottustu ballettdansarastellingu sinni á fullri ferð en samt kyrr.
Allt þetta fólk á það sameiginlegt að hafa hlotið heimsfrægð, hvert á sínu sviði, og borið hróður Íslands um víða veröld.
Á okkar tímum, þegar álit lands og þjóðar er í sögulegu lágmarki erlendis, er þörf á því að minna okkur sjálf og erlenda ferðamenn á það sem við getum verið stolt af á heimsvísu.
![]() |
Tómas sestur á Tjarnarbakkann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.12.2010 | 01:53
Ný tækni, nýjar tegundir þjófnaðar.
Tölvutæknin hefur leitt af sér nýjar tegundir afbrota eins og húsleitir vegna stórfellds ólöglegs niðurhals bera með sér.
Ég hef séð þau rök hér á blogginu að listamenn eigi ekkert með það að krefjast höfundarlauna fyrir verk sín enda líti þeir alltof stórt á sig. Hver sem er geti farið út í bílskúr og glamrað á gítar og tekið það upp eða skroppið út með myndavél og tekið myndir.
En ég segi: Fyrst þetta er svona lítið mál ættu þeir sem þessu halda fram ættu þá bara að gera þetta sjálfir.
Hugsun þessara manna eru á svipuðu róli og þeir sem hafa ekki séð að skapandi atvinna geti verið mikils virði. Annað hefur þó komið á daginn, samanber frétt um það efni í gær.
Það að taka kvikmynda- eða hljóðefni og niðurhala það og dreifa síðan er sambærilegt við það að þegar bílaframleiðandi væri búinn að smíða bíla sína og setja þá út á stórt bílaplan, kæmu menn sem tækju bílana ófrjálsri hendi og dreifðu þeim og seldu út um borg og bý.
Það væri réttilega talinn stórfelldur þjófnaður og ef þjófarnir geymdu bílana í lokaðri geymsluhöll væri sjálfsagt að lögreglal gerði þar húsleit og fyndi þýfið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.12.2010 | 16:55
Skemmtilegir hljómsveitarmenn.
Ég hef þekkt til Sniglabandsins í meira en tuttugu ár, enda er ég Snigill númer 200. Ég hef í nokkur skipti unnið með hljómsveitinni og andinn í henni hefur verið aldeilis óborganlegur.
Best þekki ég öðlinginn Pálma Sigurhjartarson. Hann var heimagangur hjá okkur, fæddur sama dag og Þorfinnur sonur okkar.
Unun hefur verið að vinna með þeim manni eins og til dæmis í söngleiknum Ást.
Ég óska Sniglabandinu til hamingju með afmælið.
![]() |
Sungið í háloftunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2010 | 16:30
Þörf samgöngubót.
Brú yfir Hvítá sem styttir leiðina milli Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps er þörf samgöngubót í héraði þar sem er mikil umferð ferðafólks og nauðsynlegt að tengja saman þéttbýlisstaði.
Nefna má fleiri staði á Suðurlandi þar sem brúargerð myndi stytta leiðir, svo sem yfir Þjórsá á milli Landssveitar og Gnúpverjahrepps og á milli Skeiða og Grímsness.
Hingað til hefur það oft tafið fyrir svona framkvæmdum að menn telja sig þurfa að bíða eftir virkjunum, sem hægt sé að nota sem forsendu fyrir þeim.
Á helstu ferðamannaslóðum erlendis sést hins vegar að slíkt er sjaldnast talin forsenda heldur samgöngubótin og ávinningurinn af henni í sjálfu sér.
![]() |
Fagna opnun Hvítárbrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2010 | 12:19
Misskilningur á kreiki varðandi tölurnar.
Ég sé á blogginu í dag miklar vangaveltur á kreiki hjá einstaka bloggara um úrslit Stjórnlagaþingkosninganna og það sem framundan er.
Eitt af umræðuefnunum er það að ekki hafi verið gefið upp nema það, hve mörg atkvæði hver fulltrúi fékk í 1. sæti. Var rætt um þetta á Bylgjunni í morgun. Á blogginu má lesa að þetta sé tortryggilegt.
En þetta er ekki rétt. Ég var að vísu ekki í Laugardalshöll þegar úrslitin voru kynnt og það var ekki fyrr en ég kom í viðtal upp á Rás 2 sem ég sá lista, sem landskjörstjórn hafði birt og afhent, þar sem fulltrúum var raðað í stafrófsröð og fyrir aftan þá nokkrir talnalistar þar sem kynna mátti sér þær tölur sem lágu til grundvallar úrskurði kjörstjórnar.
Á einum listanum rétt hægra megin við miðju var gefið upp hvað hver frambjóðandi fékk mörg atkvæði í 1. sæti, en Þorkell Helgason, sem þarna var og er einhver fróðasti kunnáttumaður um kosningar hér á landi, gaf aðspurður upp röðina, sem var aftast á listanum, en þar er tekið tillit til fleiri atriða en fylgis í 1. sætið.
Þessi röð var sáralítið frábrugðin röðinni gagnvart fylgi í 1. sætið. Þarna kom það fram að ég hefði verið í 2. sæti, rétt á undan Salvöru Nordal.
Þegar ég síðan kom niður á Bylgju í viðtal, strax á eftir, voru menn þar með röðina varðandi atkvæði í 1. sæti og þá var ég í þriðja sæti, rétt á eftir Salvöru Nordal.
Allir fjölmiðlarnir nema Síðdegisútvarp rásar tvö voru með þessa tölu og þessa röð og því var fólki kannski vorkunn að halda að kjörstjórn hefði aðeins gefið hana upp.
Mér finnst óþarfi að fara að gera þetta að einhverju stórmáli nú og jafnvel að reyna að gera störf landskjörstjórnar tortryggileg.
Á Stjórnlagaþingi verða allir fulltrúar jafnir og þeir ekki kynntir eins og Alþingismenn, þar sem einn er kynntur sem 1. þingmaður kjördæmisins og síðan koll af kolli.
![]() |
Íris Lind var næst inn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)