3.2.2008 | 18:04
HINDRUN UPPLÝSINGA VESTRA OG HÉR.
Fróðlegur var pistillinn í 60 minutes nú síðdegis um það hvernig ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið til að breyta skýrslum vísindamanna um hlýnun jarðar og þagga niður í þeim, en búa til niðurstöður sem hentaði óbreyttu ástandi í orkumálum heimsins. Þetta kom fram í viðtal sem tekið var á Þingvöllum við James Hansen, einn af þremur fremstu vísindamönnum á þessu sviði i heiminum, og lýsingar hans og kollega hans, Piltz á kúgun þeirri sem beitt var, var mér kunnugleg.
Þeim var bannað að tjá sig opinberlega og skýrslur þeirra voru ritskoðaðar ótrúlega gróflega. Í Hvíta húsinu stóð Phil nokkur Cooney, yfirmaður umhverfisgæðaráðs, fyrir breytingum, útstrikunum og viðbótum. Cooney lét sig ekki mun um það þótt hann væri lögfræðingur að mennt að endurskoða vísindalegar skýrslur.
Áður en hann réð sig í þjónustu Hvíta hússins hafði hann unnið fyrir olíufyrirtæki og hefur nú aftur tekið upp sömu iðju fyrir Exxon.
Þegar ég var að gera myndina "Á meðan land byggist" var andrúmsloftið þannig hér heima að aðeins einn af þeim kunnáttumönnum, sem ég leitaði til um að ræða um upplýsingar og niðurstöður sínar, þorði að koma fram.
Þessi 100 mínútna mynd var líklega viðtalasnauðasta heimildarmynd af þessari lengd sem um getur og aðeins tveir aðilar treystu sér til að styrkja kvikmyndagerðina, alls um 600 þúsund krónur í mynd, sem hvaða kvikmyndagerðarmaður, sem væri, myndi áætla að myndi kosta tugi milljóna.
Kannski á 60 minutes eftir að fá að finna fyrir svipuðu að gera þennan pistil. Ég kannast við það fyrirbæri frá árunum 1999 til 2003 að setja af stað herferð gegn gerð sjónvarpsmynda sem sýndu á faglegan hátt hvað ætti að fara að gera hér á landi í virkjanamálum.
Yfirvöldum tókst ekki að stöðva sýningu myndanna, þáttanna og fréttanna, en gerðu allt sem þau gátu til að koma í veg fyrir gerð þeirra.
James Hansen taldi sig knúinn til að segja starfi sínu lausu til að losna undan kúgun yfirvalda. Ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.2.2008 | 00:28
FIMMTUNGS AUKNING Á ÚTBLÆSTRI EKKERT MÁL?
Í umræðunni um olíuhreinsstöðvar minnast fylgjendur þeirra helst ekki á að þær muni kosta útblástur gróðurhúsalofttegunda. En jafnvel þótt miðað sé við mjög hæpið lágt mat þeirra sjálfra á útblæstrinum, verður útblástur frá tveimur olíuhreinsitöðvum á Vestfjörðum meina en fimmtugur af öllum útblæstri hér á landi. Ég segi TVEIMUR hreinsistöðvum því að ef stöð verður reist við Dýrafjörð munu íbúar í Vesturbyggð heimta stöð líka og öfugt.
Bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum er það að verða að trúaratriði að öll byggð á Vestfjörðum standi eða falli með þessum tveimur stöðvum. Ef stöð rísi við Arnarfjörð verði úti um Ísafjarðarbæ og öfugt. Ríkisstjórnin á þá að leggjast á hnén og væla út aukakvóta í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi eins og gert var í Kyoto.
Við hjónin höfum tvívegis ferðast norður eftir öllum Noregi og séð sjávarbyggðir þar í svipuðum vanda og slíkar byggðir á Íslandi. Hvergi heyrði ég minnst á það að lausnin fælist í því að hrúga niður olíuhreinsistöðvum þar.
Í Noregi er mun meiri tandurhrein vatnsorka óbeisluð en á Íslandi en samt dettur frændum okkar ekki í hug að heimta alþjóðlegan aukakvóta út á það að hrúga upp fleiri stóriðjuverum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.2.2008 | 23:11
VARÐ TIL Í MANNÞRÖNG.
Það er að vísu óvenjulegt að fólk komi í heiminn í mannþröng en sennilega líka að verða þar til. Þegar ég var í lagadeild og grúskað var í dómum Hæstaréttar og Héraðsdóms minnir mig að einn þeirra hafi verið barnsfaðernismál þar sem vitni voru tilkvödd til að vitna um tilurð barnsins á miðju dansgólfinu í Vetrargarðinum sáluga. Sá skemmtistaður var reyndar þess eðlis að allar "hneykslissögur" af nútíma skemmtistöðum blikna og væri hægt að láta þær margar flakka hér með.
Þar var oft gríðarleg þröng á þingi og hægt að komast upp með ýmislegt án þess að mikið bæri á. Þó skildist mér af lestri dómskjala að nokkrar persónur umhverfis parið hafi áttað sig á því hvað væri á seyði og haft af því lúmska skemmtan.
En ætli lýsi þessu nokkuð frekar heldur segi bara eins og Kristján "heiti ég" Ólafsson. "Við förum ekki nánar út í það."
![]() |
Fæddur í mannþröng |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2008 | 14:03
STUTT KREPPA Á ÁRI SEM ENDAR Á 8?
Færustu sérfræðingum ber ekki saman um það hve djúpur og langvinnur efnahagssamdrátturinn í heiminum verði. Er þetta upphaf á varanlegri kreppu eða jafnar þetta sig á einu ári? Það er sérkennileg tilviljun að tvívegis áður þegar skammvinnur samdráttur varð í bandarísku efnahagslífi endaði ártalið á tölunni 8. 1937 virtist bandarískt efnahagslíf ætla að halda áfram á uppleið sinni frá dýpstu kreppunni í kringum 1932, en þá skall á afturkippur sem setti mark sitt á bandarískt efnahagslíf árið 1938.
Árið 1939 rofaði til og uppsveifla ríkti þangað til Bandaríkin fóru í stríð 7. desember 1941, meðal annars vegna aukinnar hergagnaframleiðslu hjá "vopnabúri lýðræðisins" eins og Bandaríkjamenn nefndu land sitt.
Eftir að Kóreustríðinu lauk 1953 tók við uppsveifla sem fóstraði rokkbyltingu fyrstu ungu kynslóðarinnar í Bandaríkjunum sem hafði efni á að eignast bíla og hafa eitthvað á milli handanna. Gríðarleg bjartsýni ríkti fram til ársins 1958, en þá dundi yfir óvæntur samdráttur.
En eins og 1938 varð þetta aðeins eins árs efnahagslægð. Vonandi verður talan 8 happatala framtíðarinnar í ártalinu 2008 og það sama uppi á teningnum nú og 1938 og 1958, eins árs afturkipppur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2008 | 17:51
KOMUM SKYNSAMLELGU SKIKKI Á.
Bann við reykingum á opinberum stöðum byggist á því að einstaklingar og starfsfólk þar hafi það frelsi að það þurfi ekki að anda að sér heilsuspillandi lofti. Ekki má gera upp á milli stofnana í þessu efni. Aðrar reglur eiga ekki að gilda t. d. á Alþingi en á veitingastöðum. Ég aðhyllist "Já, ef..." svar við álitaefnum frekar en að segja alltaf "nei." Ég vil segja "já, ef..." ef beðið er um samþykki fyrir því að reykingafólk eigi athvarf í sérstökum reykingaherbergjum ef sannað er að ekki berist reykur frá því athvarfi út í almeninninginn. En það verður að vera 100% tryggt.
Ef umráðamaður viðkomandi staðar telur of dýrt að eyða rými í slíkt eða ekki mögulegt, þá það. Ég tel ófært að hafa athvarf reykingafólksins þar sem reykinn leggi frá því yfir á svæði þar sem sú krafa er gerð að fólk fái frelsi frá heilsuspillandi reyk.
Ef lögin og reglurnar eru svo óljósar að hægt sé að fara fram hjá þeim eiga alþingismenn að bæta úr því hið snarasta.
Ég hef horft upp á Hauk Morthens, Ingimar Eydal, Svavar Gests, Ellý Vilhjálms og Stefán Jóhannsson deyja úr krabbameinum sem taldar eru um 80% líkur á að stafi af óbeinum reykingum. Haukur og Ingimar voru mjög bitrir og sárir yfir því að hafa ekki frelsi til að forðast hættuna.
Starfa þeirra vegna urðu þeir að gera sér innbyrlunina að góðu. Sjálfur hef ég sem skemmtikrefur senn eytt hálfri öld í reykfylltum samkomusölum tímunum saman á kvöldin. Ég skildi því vel sárindi bestu vina minna sem ég sá á bak langt um aldur fram á sínum tíma og áttu erfitt með að sætta sig við örlög sín.
Þetta er réttlætismál sem verður að leysa, helst með "já, ef..." og á eftir orðinu "ef..." fylgja síðan ákveðin ófrávíkjanleg skilyrði.
![]() |
Heilbrigðisráðuneytið brýnir stofnanir vegna reykingabanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.2.2008 | 10:53
GRANI OG GEIR UPPLÝSA ?
Er hugsanlegt að upplýsingar lögreglunnar í 24 stundum í dag um það að auðveldara sé að stela Nissan bílum en öðrum bílum gæti verið vel þegin hjá bílaþjófum? Það hefur svo sem sést í erlendum bílablöðum að rannsóknir blaðanna hafi leitt í ljós að fljótara sé að stela sumum bílgerðum en öðrum en það er gert til að leiðbeina kaupendum. Svona upplýsingar geta því bæði gagnast bílaeigendum og bílaþjófum.
Ég veit hins vegar ekki hvort bílaþjófar hér lesa erlend bílablöð svo vel að þeir rekist á þessar upplýsingar þar. Eða hvort íslenskir bílaþjófar viti þetta þegar. Ég hef sjálfur orðið vitni að bílþjófnaði og þeir þjófar vissu ekki hvaða bíl var auðveldast að stela, heldur voru saman í gengi og reyndu að brjótast inn í tvo bíla í einu. Þeir tóku síðan þann sem fór fyrr í gang.
Sé þetta gert svona fara Nissanbílarnir væntanlega fljótar í gang en aðrir.
Það má setja spurningarmerki við það hvort lögreglan eigi að gefa vísbendingar í fjölmiðlum um það hvaða bílum sé auðveldast að stela. Grani og Geir í Spaugstofunni myndu vafalaust ekki hugsa sig um en hinir raunverulegu talsmenn lögreglunnar mættu velta hlutunum fyrir sér.
![]() |
Bílar gufa upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.2.2008 | 00:20
ROK OG BYLUR !
Ég skrapp í kvöld og var leynigestur á skemmtilegri sýningu í Borgarleikhúsinu sem heitir "Hér og nú." Í stað þess að syngja "Nú er frost á fróni" fengust sýningargestir til að syngja með mér að hluta til lag sem heitir "Rok og bylur" og er við gamalt rokklag, sem Pat Boone söng á sínum tíma og hét "Rocka-billy-rock." Í flutningi lagsins taka allir undir viðlagið og í lok þess sest söngvarinn við hlið konu og syngur til hennar um fjallakofadraum sinn.
ROK OG BYLUR.
Rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur! Rok!
(endurtekið þrisvar)
Við gleðjumst hér svo ákaflega yfir því
að einmitt þessa daga hækkar sól á ný.
Þótt veðrið alveg snarvitlaust að verða sé
við verðum hér með spaug og spé.
Nú ætlum við að skemmta´okkur á útopnu
og erum ekki að pæla neitt í veðrinu
og glaður er hver fýr og sérhver gella blíð
þótt geysi úti hríð
og það sé rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur, rok?
(endurtekið þrisvar)
Og þó að allt sé rafmagnslaust og allt í steik
og ófært út úr húsi þá má bregða´á leik.
Ef erfitt er að halda á sér hita þá
í hjónarúminu yl má fá.
Og bjargað hefur mörgum svona myrka nótt
að í meyjarfaðmi gleymist allur kuldi skjótt.
Það væri margur Íslendingur ekki til
ef aldrei gerði byl !
Og það sé rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur, rok!
(endurtekið þrisvar, sest hjá konu og sungið til hennar)
Og ef ég væri tepptur einn með þér
og óhjákvæmilegt að ylja sér
það yrði í fjallakofa indælt dok -
með þér -
ef það er -
rok og bylur, rok og bylur, rok! Rok!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)