Leiðindakafli sem hægt er að losna við.

Í tilefni af frétt um óhöpp í Langadal vísa ég til Morgunblaðsgreinar sem ég skrifaði nýlega um svonefnda Húnavallaleið frá Stóru-Giljá og þvert lágt skarð í Bakásum yfir í Langadal á brú hjá Fagranesi í miðjum dalnum, - leið sem ég hef sem gamall kúarektor að Hvammi í Langadal verið áhugamaður um í 60 ár. 

Lengst af í þessi 60 ár hefur eðlileg mótbára Blönduósinga gegn þessari 14 kílómetra styttingu hringvegarins verið sú að við hana myndu þeir missa tekjur af þjónustu við vegfarendur út úr sveitarfélaginu.

En nú eru aðstæður breyttar. Með tilkomu vegar um Þverárfjall liggur leið Sauðkrækinga og Siglfirðinga áfram um Blönduós.

Mörk sveitarfélagsins hafa líka breyst svo að brú við Fagranes myndi koma inn í land Blönduósbæjar og liggja um land hans á tæplega 3ja kílómetra kafla. .

Styrkja mætti Blönduósinga rausnarlega til að reisa þar þær þjónustumiðstöðvar við vegfarendur sem nú eru við Blöndubrúna hina ystu vegna þess að þjóðhagslegur ávinningur af styttingu leiðarinnar er svo mikill að þessi styrkur við heimamenn yrði örlítið brot af þessum ávinningi. 

Til þess er líka að líta að vegarkaflinn yst í Langadal, sem hefur löngum verið alræmdur fyrir illviðri og óhöpp, yrði ekki lengur hluti af hringveginum. 

Þessi slys og umferðartruflanir kosta líka mikla peninga.

Alla tíð hef ég talið að stytting um Svínvetningabraut yrði óæskileg.

Hún þýðir meiri vegagerð og gerð nýrrar brúar nálægt brúnni gömlu við Löngumýri í stað þess að með gerð brúar við Fagranes yrði sú brú miðja vegu á milli brúarinnar á Blönduósi og brúarinnar við Löngumýri og því miklu meiri búbót fyrir innanhéraðssamgöngur í Austur-Húnavatnssýslu.

Lítið þið bara á kortið til að sjá þetta.  

Það hlýtur að koma að því að hin sjálfsagða og þjóðhagkvæma stytting verði að veruleika. Ef Blönduósingar grípa ekki tækifærið núna og fá styttingu sem tryggir að vegurinn liggi um sveitarfélag þeirra með þeim tekjum sem þeir gætu haft af því, er hætta á að ný Svinvetningabraut verði fyrir valinu sem sviptir Blönduósinga allveg þessum tekjumöguleikum. 

Ég vona að það gerist ekki og að Blönduósingar bandi ekki frá sér þeim möguleikum fyrir þá, sem Húnavallaleið getur þó gefið þeim.  


mbl.is Fjögur óhöpp í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleitt leitarsvæði.

Ég þekki það af eigin reynslu að sunnanverður Langjökull og Skálpanes, sem liggur á milli jökulsins og Bláfellsháls, eru veðravíti í hvassri norðanátt. 

Loftið, sem þrýstist suður Kjöl fær aukinn kraft þegar það skellur á þeirri fyrirstöðu sem suðaustanverður jökullinn og Skálpanesið eru, en þau rísa upp fyrir sunnan lægðina sem Hvítárvatn er í.

Búið er að spá daglega í heila viku að óveður ætti að skella á á þessum slóðum á bilinu milli föstudagskvölds og hádegis á laugardegi.   

Vonandi fer þetta ekki illa en það er erfiðara að hafast við fyrir vélsleðafólk í óveðri en jeppafólk, sem á möguleika á að láta fyrirberast inni í bílunum og bíða hjálpar þar til veðri slotar.

Ég hef verið í ferð með vönum jeppamönnum, sem voru með réttan búnað, vistir og símasamband og gátu beðið rólegir af sér óveður sem stóð í meira en sólarhring og haldið síðan áfram ferðinni í betra veðri. 

Það var vikuleiðangur hóps af öflugustu jöklajeppum landins undir stjórn færustu jöklabílstjóra um Vatnajökul og Öræfajökul og menn útbúnir í fullu samræmi við veðurspá og með rétt ög örugg viðbrögð og viðbúnað.  

Tryggt var að enginn yrði viðskila og engum hefði dottið í hug að reyna þetta á vélsleðum.   


mbl.is 150 leita við slæmar aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþörf og skaðleg harka í kröfum ríkisins.

Ég hef reynt að fylgjast með þjóðlendumálunum frá upphafi og fæ ekki betur séð en að óþarfar og stundum fáránlegar kröfur ríkisvaldsins hafi gert þessum málum ógagn sem og öllum hugmyndum um þjóðgarða og friðlönd. 

Þettar hefur verið afar bagalegt og mikill óþarfi.  

Sem dæmi má nefna kröfurnar á Miðnorðurlandi þar sem fjallsranar á milli byggðra dala áttu að fara úr eign landeigenda sem höfðu nýtt þá og gengið um þá árlega frá upphafi byggðar á Íslandi til að tína ber og fjallagrös.  

Ég þekki dæmi um að berjalönd og fjallagrasalönd sem voru í meira en 400 metra hæð og voru nýtt af heimamönnum, kannski innan við einn kílómetra frá viðkomandi sveitabæ, áttu að verða að þjóðlendum.

Það er sjálfsægt mál að taka undir með þeim landeigendum og heimamönnum sem vilja að tekið verði tillit til allra gagna, sem kunna að finnast um þessi mál, og raunar sé ég ekki þá nauðsyn sem það á að vera fyrir ríkisvaldið að ganga fram með ítrustu kröfur, sem eru oft langt umfram alla sanngirni. 

 


mbl.is Þjóðlendulögum verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakari hengdur fyrir smið?

Dana drifbúnaður hefur verið í fjórhjóladrifsbílum svo lengi sem ég man eftir mér. Þetta hefur yfirleitt verið framhjóladrifið, til dæmis á Bronkónum hérna í gamla daga, en drifið hefur verið af mismunandi styrkleika og stærð.

Fréttin um innköllun á drifbúnaði Tacoma er ófullkomin og því erfitt að segja hvort verið sé að hengja bakaara fyrir smið þegar Toyota innkallar Dana-drif en aðrir ekki.

Skýringin kann að vera sú að sú gerð Dana-drifs sem er í Tacoma hafi reynst of veikburða fyrir þann bíl þótt hann sé nógu sterkur fyrir léttari bíla.

Hin skýringin kann að vera sú að eftir hremmingar undanfarinna vikna geri Toyota meiri kröfur en aðrir framleiðendur til sinnar framleiðslu og sé með innköllun að benda á það að gæða- og öryggiskröfur Toyota séu hinar mestu sem þekkjast.

Ef svo er er ekki bara bakari hengdur fyrir smið í þessum efnum heldur vill bakarinn vera hengdur fyrir hinn bandaraíska drifbúnarsmið og aðra bílasmiði. 


mbl.is Innkalla 8.000 pallbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vietnam kemur upp í hugann.

Viðfangsefni Bandaríkjamanna í Afganistan minna um margt á Vietnamstríðið. Þá, eins og nú, varð það niðurstaða Kennedys og síðar Johnsons að með því að fjölga hermönnum og auka hernaðaraðgerðir hlyti sigur að vinnast. 

Afganistan er að sönnu gerólíkt Vietnam en löndin eiga það þó sameiginlegt að henta afar illa til hernaðar af því tagi þar sem Bandaríkjamönnum gagnast með hernaðartæki sín við framandi aðstæður.

Þar er óvinurinn á heimavelli og beitir ýmsum brögðum skæruhernaðar sem erfitt er að fást við nema að það bitni svo á saklausum borgurum að það baki þjóðaróvild.

Þetta er hættan sem vofir yfir í hernaði Bandaríkjamanna í Afganistan og minnir óþægilega á sams konar fyrirbrigði í Vietnamstríðinu.  

McCaine færði að því rök að Bandaríkjamenn hefðu getað unnið sigur í Vietnamstríðinu eða í það minnsta ekki þurft að tapa því svo illa sem þeir gerðu.

Í fréttaflutningi var til dæmis hin fræga Tet-sókn Vietkong mikið áfall fyrir Bandaríkjamenn og sneri almenningsálitinu heima í Bandaríkjunum gegn hernaðinum.

En í raun var Tet-sóknin misheppnuð ef miðað er við markmið hennar og vonir Vietkong. Mannfallið var skelfilegt og fórnirnar ægilegar fyrir skæruliðaherinn.

En Vietnamstríðið tapaðist ekki þar heldur heima í Bandaríkjunum. Og þá komum við að einum mun sem er á stríðinu í Afganistan og í Vietnam.

Bandaríkjamenn misstu að vísu marga hermenn í Vietnam en að öðru leyti sá stríðsins ekki beint stað í Bandaríkjunum sjálfum.

Hins vegar hófst styrjaldarþáttaka Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni og stríðið í í Afganistan á því að gerðar voru beinar árásir á Bandarikin, á Perluhöfn 7. desember 1941 og New York 11. september 2001.

Slíkar árásir þjappa þeim þjóðum saman sem fyrir þeim verða.

Raunar eru uppi samsæriskenningar þess efnis að bandarísk yfirvöld hafi í báðum tilfellum látið viljandi undir höfuð leggjast að koma í veg fyrir árásirnar vegna þess að mannslífin, sem fórnað væri, væru mun færri en þau sem myndu tapast síðar ef ekkert yrði að gert.

Ekkert verður sannað í þessum efnum en ef það er rétt að Vietnam-styrjöldin hafi tapast heima fyrir, mun stríðið í Afganistan líka geta tapast þar. En árásin á New York er sennilega í of fersku minni sem og aðrar árásir sem ýmist hafa verið reyndar eða verða gerðar.

Síðan er auðvita sá möguleiki fyrir hendi að menn sjái að jafnvel þótt sigur vinnist í Afganistan muni hryðjuverkum ekki linna, - andúðin á Bandaríkjamönnum og stuðninsmönnum þeirra sé of útbreidd.

Sem aftur leiðir hugann að eldsmatnum fyrir þetta allt fyrir botni Miðjarðarhafs, sem ekkert raunhæft er gert í að fjarlægja.  

 


mbl.is Fimm NATO-liðar fallnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert umhugsunarefni.

Heimilin fjórfölduðu skuldir sínar á gróðærisárunum og upphæðirnar á lánunum, sem tekin voru í myntkörfulánum eða erlendum gjaldeyri voru svimandi háar í heild, svo háar, að tilfærsla þeirra eða hluta þeirra til og frá getur skekið allt þjóðfélagið.  

Af því leiðir síðan að dómur þess efnis að þetta hafi verið ólöglegt getur haft meiriháttar afleiðingar.

Hins vegar sitja eftir siðfræðilegar spurningar sem koma lagabókstaf lítið við. Það eru spurningar sem allir verða að spyrja sig, neðanfrá og uppúr. 

Krónan var augljóslega allt of hátt skráð þegar megnið af þessum skuldum urðu til. Þeim sem tóku það hlaut að vera þetta ljóst sem og það að með því að taka lán einmitt þá væri tekin mikil áhætta.

Þetta var öðrum þætti fjárhættuspil og í slíku spili bera menn ábyrgð á því sjálfir ef illa fer.

Á hinn bóginn er á það að líta að gríðarlegur og næsta einhliða áróður var í gangi um ágæti þessara lána og það hve góður og öruggur kostur þau væru.

Einnig gat enginn séð fyrir eins stórkostlegt hrun og að lokum varð.

Ef siðfræði gildir hygg ég að sanngjörn niðurstaða fari einhvern meðalveg á milli þess að fólk, sem var tilbúið til að taka mikla áhættu, taki á því hæfilega ábyrgð, miðað við málavexti, en að hrunið mikla, sem ekki var hægt að ætlast til að það sæi fyrir, sé á ábyrgð þeirra sem því ollu með andvaraleysi, aðgerðarleysi eða blindri trú á ágæti þess sem var að gerast.

Einstaklingarnir kenna bankamönnum um að hafa boðið gylliboð með miklum þrýstingi. Bankamenn segjast hafa trúað á ágæti hins alþjóðlega fjármálakerfis þar sem svona viðskiptahættir voru í algleymingi.

Eftirlitsaðilar og ríkisstjórnir segjast hafa verið grandalaus um það hvað hafi verið að gerast, - allir hafi trúað því að markaðurinn væri heilbrigðjur og leiðrétti sig sjálfur.

Þannig leitast allir við að vísa ábyrgð af sér neðanfrá og uppúr. Athyglisvert viðfangsefni að pæla í.  


mbl.is Gengislánin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var !

Í hálfa öld hefur því verið haldið að þjóðinni að útilokað væri að laga aðgengi að náttúruperlum landsins nema að fórna þeim fyrst fyrir virkjanir. 

Með því að endurtaka þetta nógu oft bæði í orði og á borði hefur þetta orðið að trúarbrögðum.

Það hefur líka hentað að halda þessum náttúruperlum óþekktum og óaðgengilegum svo að fólk vissi ekki hvað var verið að eyðileggja eða umturna.

Þegar komið er í þjóðgarða erlendis sést, að rökin með að það verði að virkja fyrst til að fá aðgengi eru hvergi tekin gild nema hér.

Þar eru ástæðurnar fyrir því að setja fé í bætt aðgengi og umgegni tvenn:

1. Þetta er framkvæmd sem borgar sig með auknum tekjum af ferðamönnum.

2. Rökin sem Íslendingar skilja ekki: Vegna heiðurs og sóma þeirra sem hefur verið falið að varðveita og sjá um þessi náttúruundur er það eitt næg ástæða til þess að gefa fólki á að umgangast þau á skynsamlegan hátt án þess að ógna þeim.

Sá tími mun koma að menn munu sjá hve gríðarlegir fjármunir liggja í því að íslenska þjóðin rækti heiður sinn og sóma og þar með viðskiptavild.

Þarna er ég að tala um það, sem virðist það eina sem menn viðurkenna á þessum tímum, en það er hrein peningahlið.

Vonandi þurfa afkomendur mínir ekki að standa í því stappi að þurfa ævinlega að stunda það sem Bandaríkjamenn lýsa með orðunum: "Let´s beat them at their own game."

Að unaðsstundir verði metnar ekki síður en kílóvattstundirnar.  


mbl.is Atvinnumálin í forgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að komast út úr fortíðinni.

Staðan í Icesave-málinu hefur tekið breytingum frá upphafi og því er til lítils að dvelja við deilur um einstakar aðgerðir á mismunandi stigum hennar.

Nú er aðalatriðið að vinna úr stöðunni eins og hún er núna en eyða ekki öllu púðrinu í að rífast um það sem er löngu liðið og verður ekki aftur tekið þótt eitthvað megi af því læra.

Rétt stöðumat og samstaða um að halda á málstað Íslands hlýtur að vera keppikefli og í það þarf orkan og vinnan að fara. 


mbl.is Icesave-fundir í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátæklegt myndasafn ?

Mbl.is birtir mynd um fréttaflutning RUV af tillögu stjórnvalda sem Steingrímur J. segist hafa beðið RUV um að flytja ekki. 

Á myndinni er mynd af Steingrími J. Sigfússyni og fréttakonu að taka við hann viðtal og má af því ráða að fréttaflutningurinn hafi verið á hennar vegum.

Svo var hins vegar alls ekki og þetta er enn eitt dæmið um misvísandi myndbirtignar í íslenskum fjölmiðlum. 

Morgunblaðið hlýtur að eiga einhverja mynd af Steingrími J. Sigfússyni sem gefur rétta mynd af aðilum þessa máls.  

Þetta minnir mig á það þegar ég fór í frægt loftbelsflug 1976 og tímaritið Samúel sló því síðan upp með forsíðugrein og mynd að loftbelgurinn hefði verið notaður til að smygla hassi.

Ég var eini maðurinn sem sást á þessari mynd, enda var skýringin á þessari myndbirtingu að  myndasafn Samúels væri fátæklegt. Varla er myndasafn Morgunblaðsins svona fátæklegt líka?  

 

 


mbl.is Bað RÚV að birta ekki fréttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur góðar minningar.

Fréttin um fyrstu sérleið ársins í heimsmeistarakeppninni 2010 vekur góðar minningar frá árinu 1981. 

Árið 1981 skipar sérstakan sess í minningum mínum. Dagana á undan Sænska rallinu hafði ég verið dag og nótt við myndatökur og fréttaflutning af Kröflugosi sem gaf einstæðar myndir, sem þó áttu eftir að verða enn stórkostlegri í síðasta gosinu þar 1984.

Fyrsta sérleiðin í sænska rallinu, sem við bræðurnir, Jón og ég, ókum í Varmalandi var upphaf að keppnisári hér heima sem var engu líkt. Þetta var líka í fyrsta sinn sem Íslendingar kepptu í heimsmeistarakeppni í ralli. 

Þessi keppni var að mörgu leyti fáránlegt ævintýri fyrir okkur með uppákomum í ölllum regnbogans litum.

Sérleiðirnar liggja um skóga og heiðar, allt upp í 500 metra hæð, og það eru fljúgandi hálka og snjór. 

Ein sérleiðin er rudd eftir ísi lagðri ánni Klarvelvi sem hér á landi hefði verið kölluð Svartá, vegna þess hve tær hún er en ekki jökullituð. 

Þessi hlykkjótta leið er rudd nóttina áður en ekið er um hana og því standa allir keppendurnir jafnt að vígi hvað snertir þekkingu á henni, sem er auðvitað engin. 

Á þessari sérleið urðum við meðal 30 efstu, sem var ekki sem verst hjá nýliðum í heimsmeistarakeppni þar sem allir þeir bestu í heiminum keppa. 

Það sannfærði okkur um það að Íslendingar gætu einhvern tíma í framtíðinni haslað sér völl meðal þeirra allra bestu í heiminum. 

Þátttaka Raikkonens og Saintz í Dakar-rallinu sýnir, að þessi keppnisgrein nýtur vaxandi virðingar með réttu. 

Þetta var líka árið þar sem Sumargleðin átti sitt bjartasta sumar og árið þegar fyrsti íslenski sjónvarpsþáttaröðin, sem tekin var á myndband, Stiklur, hóf þá göngu sína sem enn stendur. 

Svona er lífið, - stundum gengur allt upp, - og stundum ekki neitt. Þá er betra að ylja sér við það góða en að sýta það slæma.

Lífið er of stutt til að láta það neikvæða skemma meira fyrir en óumflýjanlegt er.

Við fórum í sænska vetrarrallið eftir mikið basl og baráttu við alls kyns vandræði en nutum góðs af orðum norsks rallara sem sagði við okkur: "What is rally without problems? Nothing!" Það er ekkert varið í rallið ef það væru ekki allir þessir erfiðleikar sem þarf að yfirstíga.  


mbl.is Sordo vann fyrstu sérleið ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband