Förum í "meðferð."

Kanarí 15. feb´09Kanarí 15. feb´09

Þegar fíkillinn hefur eyðilagt líf og eigur sínar og sinna nánustu og liggur í svaðinu öðlast hann oft dýrmætasta tækifæri lífs síns. Sumir sem hafa upplifað þetta segja að ef þeir hefðu ekki farið svona langt niður í svaðið hefðu þeir aldrei getað unnið bug á vandamálum sínum. 

Lykillinn að endurreisninni felst nefnilega í því að viðurkenna vanmátt sinn og raunverulegt ástand og leita hjálpar með því að fara í meðferð á meðferðarstofnun og fá eftir það sérstakan hjálparaðila eða "sponsor" sem hefur úrslitavald um erfiðar ákvarðanir.                                       eins og til dæmis þær að forðast Þar getur til dæmis verið um að ræða hvort fíkillinn eigi að taka þá áhættu að fara á ákveðnar samkomur þar sem of mikil neysla er í gangi. 

Stærsta lykilatriðið er þó að fíkillinn vilji þetta sjálfur og vinni bug á afneitun sinni. Enginn getur gert það fyrir hann. 

Síðan í haust höfum við séð þetta allt hjá okkur sem þjóð. Afneitunin hefur verið mikil svo sem sú að við getum gert þetta ein og óstudd án þess að leita til útlendinga um hjálp. 

 

IMF er nokkurs konar Vogur og vinaþjóðir hjálparaðilar. Ein tegund afneitunarinnar var sú að hjálparaðilarnir myndu hlaupa til og láta okkur hafa afréttara án þess að Vogur kæmi nærri. 

Þegar þetta gerðist ekki voru aðrar þjóðir með tölu, að undanteknum Færeyingum, taldir til óvinaþjóða. 

Meðferðin kostar mikið átak og fórnir. En framtíðin sem getur blasað við okkur er björt. Við erum til dæmis hugsanlega eina þjóðin í heiminum sem getum knúið samgönguflota okkar til sjós og lands á innlendum og endurnýjanlegum orkugjöfum og verið óháð útlendingum um það. 

En þá verðum við að taka þær orkulindir frá sem við kunnum að þurfa til þess arna í stað þess að stefna að því að allri orkunni verði ráðstafað til stóriðju samfara eyðileggingu á mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru sem er í hópi mestu undra heimsins. 

Myndirnar hér að ofan eru annars vegar af fellegri styttu í bænum Aguimes á Gran Canaria sem varð á vegi okkur í dag á svæði þar sem geitarækt skipar mikinn sess.

Hin myndin er af vettvangi úr sögu sem ég er með í smíðum og gerist á Íslandi, ítalíu, Kanaríeyjum og víðar, en í dag og í gær hef ég verið í nauðsynlegum vettvangsrannsóknum sem tengjast þessari sögu. 

 

 


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli á Kanarí.

Ég var að blogga um það að ég teldi að mótmæli og helgjardjamm færu ekki saman. Hér á Kanarí stendur einn ágætur Framsóknarmaður fyrir vikulegum fundum á Klörubar um stjórnmál. Þangað koma þeir sem hafa áhuga á þeim málum, rökræða þau á ánægjulegan hátt og veita áhuga sínum útrás.  

Í gærkvöldi fórum við hjónin í tilefni 48 ára afmælis kynna okkar með systur hennar, sem aldrei hefur komið fyrr á Kanarí. Við fórum út á tvo skemmtistaði í leiðsögn vinahjóna okkar. 

Þau buðu okkur inn á krá þar sem við settumst við borð og fórum að ræða um hugðarefni okkar og skemmtileg málefni. Þetta átti að verða yndisleg og hljóðlát samverustund, enda sat kurteist og prútt fólk við næstu borð.En Adam var ekki lengi í paradís. 

Af næsta borði stendur upp maður, kemur yfir að borði okkar án þess að heilsa okkur eða kynna sig, heldur hellir formálalalaust yfir mig úr skálum reiði sinnar yfir því hver óþurftarmaður ég sé. Kveðst hann hafa átt heima erlendis í átján ár og eigi því mikið vantalað við mig um mína pólitík. 

Vinafólk mitt við borðið hefur hins vegar ekki minnst á pólitík þessa daga hér og fannst maður þessi ekki eiga neina heimtingu á því að starta háværu rifrildi við borð okkar í stað huggulegrar samræðu á Valentínusardaginn. 

Ég bað hann um að virða rétt fólksins, sem hefði boðið mér að borðinu en hann espaðist því meira. Ég bað hann þá um að greina stuttlega frá ásökunum sínum en hann hóf þá mikla langloku um það hvernig ég hefði verið í gamla daga og gat alls ekki komist lengra að efninu.

Vinafólk mitt var ekki ánægt með þá kröfu mannsins að breyta samveru okkar þarna í pólitískan fund tveggja manna og benti manninum á að haldnir væru sérstakir fundir vikulega hér á Kanarí um pólitík. 

Maður sagðist ekki eiga þess kost að fara á þessa fundi og því ætti hann heimtingu á þessum einkafundi mínum og hans hér og nú. Mótmælti hann hástöfum því, hve merkilegur ég þættist með mig, - hvað ég héldi eiginlega að ég væri og svo framvegis. 

Hann taldi samt greinilega að við tveir hefðum rétt til að valta yfir vilja hjónanna, sem höfðu boðið okkur þarna inn til að eiga huggulega kvöldstund. Gilti einu þótt ég segði honum að við hefðum ekki farið suður til Kanaríeyja til að rífast alla daga um pólitík. Það gætum við gert heima á Íslandi en gerðum það þó ekki þar.

Þegar vinafólk mitt sagði manninum að það teldi hann vera með dónaskap og frekju, stóð upp kona við borð mannsins, kom yfir að okkar borði og tók hraustlega undir málflutning hans.

Sáum við þá okkar óvænna og stóðum upp og fórum út. Kváðu þá við fagnaðarlæti þeirra sem sátu við borðið sem maðurinn hafði setið við. Honum hafði greinilega tekist að hreinsa staðinn af óæskilegri viðveru mín og samferðafólks míns, þess mikla gæðafólks sem mér vitanlega hefur aldrei verið til neinna vandræða, hvað sem um mig má segja. 

Ég hygg að flestir Íslendingar hafi lent í svona uppákomum, bæði heima og erlendis. Þetta er nú víst einn af óhjákvæmilegum fylgifiskum þess að vera Íslendingur.   


Mótmæli og helgardjamm fara ekki saman.

Þegar mótmælin stóðu sem hæst á dögunum og voru fjölmennust voru þau um hönd höfð um miðjan dag af friðsömu hugsjónafólki með mátt hugmynda sinna og samstöðu fjöldans sem helsta vopnið. Þau voru eftirminnileg og verða færð í sögubækur.

Þá var það niðurstaða þeirra sem vildu veg þessara mótmæla sem mestan að halda þeim í þessu horfi en ekki að gera þau að parti af helgardjammi, ölvun og óróa í næturlífi miðborgarinnar.

Ég er einn af þeim sem tók þátt í hinum fjölmennu og friðsömu mótmælafundum og er í hópi þeirra sem telja mótmælaaðgerðir á borð við þær sem stóðu yfir í kvöld ekki vera af því tagi sem ég vil vera orðaður við eða taka þátt í. 

Hvers vegna í ósköpunum getur fólk, sem telur skyldudjamm helgarinnar ómissandi ekki bara skemmt sér án þess að blanda mótmælaaðgerðum inn í það ? 

 

 


mbl.is Mótmælt á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör í kosningum væri eðlilegast.

Nú sést vel hve óheppilegt það er að ekki skuli vera viðhaft persónukjör í kosningum hér eins og til dæmis í Finnlandi. Uppstillingaraðferðir á borð við prófkjör og kjördæmisþing hafa reynst meingallaðar, en í kjörklefanum kæmist hver kjósandi viðkomandi lista í beint og ótruflað samband við þá sem í framboði eru ef persónukjör væri viðhaft.

Þar kæmi hið raunverulega traust sem kjósendur hafa á frambjóðendum fram. 

Forystufólk flokkanna sem nú eiga fulltrúa á þingi virðast ekki hafa neinn áhuga á því að byrja að rétta af lýðræðishallann strax í næstu kosningum með jafn lítilli breytingu á kosningalögum og persónukjör væri. 

Þeir eru á fullu við að afgreiða þessi mál eftir gömlu, misheppnuðu og ólýðræðislegu aðferðunum. 

Strax er farið að væla yfir því eina ferðina enn að þingið megi ekki vera að því að fást við þetta mál, - önnur mál séu svo miklu brýnni.

Samt hefur margoft komið fram að ofríki framkvæmdavaldsins og fyrirferð er svo mikil að þingið hafi tímunum saman lítið að gera á meðan það er að bíða eftir því að ráðherrunum og ráðuneytunum þóknist að leggja fyrir það frumvörpin til afgreiðslu. 

Og nú er líka farið að kvarta yfir því að það yrði allt of dýrt að halda sérstakt stjórnlagaþing. Eins og lýðræðisskorturinn hafi ekki þegar valdið nógu miklu tjóni. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún "stóð vaktina" heldur betur síðustu árin.

Tvær konur, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir, tóku það að sér fyrir Finn Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson að bera ábyrgð á tveimur verstu gjörningum sjálftöku- og oftökustjórnmála helmingarskiptaflokkanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins.

Valgerður var viðskiptaráðherra þegar einkavina- og helmingarskipta sala bankanna var framkvæmd og hún var á vaktinni þegar skammgróðakerfið blés upp. 

Verri var hlutur Sivjar. Þegar tveimur árum áður en hún kvað upp hinn dæmalausa úrskurð sinn um Kárahnjúkavirkjun talaði hún opinberlega um þann tíma "þegar stórum svæðum verður sökkt" á norðausturhálendinu. 

Þetta var fyrirfram enginn vafi í hennar huga, úrskurðurinn gat aldrei orðið nema á einn veg. 

Hlutur Sivjar var verri vegna þess að eyðileggingin sem hún ákvað verður óafturkræf um aldur og ævi en áhrif kreppunnar mun ekki vara nema örlítið brot af þeim tíma. 

En það er dapurlegt fyrir jafnréttisbaráttu kvenna að einna lengst skuli þær konur ná í stjórnmálum em framkvæma stærstu skitverkin fyrir karlana. 


mbl.is Valgerður ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir geta selt, - sumir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.

Sumir geta sett upp 2900 milljónir á húseignir sem þeir vilja selja. Aðrir geta aðeins sett einn hundraðasta af þessu á sínar eignir og þaðan af minna og geta svo jafnvel ekki selt.

Síðan eru þeir sem hafa ekkert að selja þótt þeir kannski vildu geta selt eitthvað. Það er hreint ekki eins slæmt og menn gætu haldið. Að minnsta kosti finnst mér það ekki eftir að hafa verið í þeirri stöðu undanfarin ár. 

"Gætið að liljum vallarins...enginn getur aukið alin við hæð sína með áhyggjum..." var einhvern tíma sagt. Ég held að það sé hreint ekki svo slæmt að vera í félagsskap við "blómstrið eina sem upp vex af sléttri grund og verður síðan af skorið fljótt."


"...in a yellow submarine...nærbuxur Framsóknar.

Puerto RicoPuerto Rico 2. Kanarí 14.feb´09

 Fyrst smá leiðrétting. Vegna innsláttarmistaka lenti þessi pistill í tengslum við fréttina af íbúðarmálum á Manhattan, en sá pistill er raunar hér fyrir ofan. 

 Eftir skemmtilegan fund á Klörubar í morgun sem Sturla hinn mikli framsóknarmaður hélt þar og hefur gert vikulega, fór ég í vettvangsferð um sunnanverða Gran Canaría vegna bókar sem ég er að skrifa.

Hér sjást systurnar Helga og Anna Jóhannsdætur við bátahöfnina á Puerto Rico, neðar sést yfir baðströndina í vognum í þessum magnaða sólarstrandarbæ, en neðst er mynd af "Yellow submarine", gulum kafbáti sem ferðamenn geta fengið að sigla í 800 metra út á allt að fimm metra dýpi í allt að 40 mínútur. 

Báturinn minnir á Bítlalagið og íslensku þjóðarskútuna glæsilegu sem strandaði og sökk og siglir nú sem heimsfrægur gulur kafbátur um sinn þar til hægt verður að komast aftur úr kafi. 

Á fundum Sturlu í vetur hafa þeir fengið að tala, Guðni Ágússton og Guðjón Arnar, og mér var boðið það sama í morgun. 

Í lok fundarins stóð karl einn á stokk og sagði dæmisögu sem átti að lýsa endurholdgun og endurnýjun forystu Framsóknarflokksins; hinum miklu hamskiptum Framsóknar.

Hann líkti þessum hamskiptum við það þegar kerlning ein tötraleg og skítug vildi gerast virðuleg maddama og fara uppáskveruð á ball (væntanlega til að verða aftur sætasta stelpan til að fara heim með Geir af ballinu (innskot mitt) ). 

Kerlingin fyrrnefnda fór úr nærbuxunum, sneri þeim við, og sagði síðan þegar hún var búin að fara aftur í þær: "Alltaf er nú munur að fara í hreint !" 

Þannig sér þessi ágæti maður Framsóknarmaddömuna eftir hamskiptin. 

 


mbl.is Selja íbúð á Manhattan
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Hátíðisdagur í 48 ár.

14.febrúar 1961 var örlagadagur í lífi mínu og síðar hjá 27 afkomendum okkar Helgu Jóhannsdóttur. Þennan dag fyrir 48 árum hittumst við í fyrsta sinn og dönsuðum saman í danssskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar og það var ást við fyrstu sýn.

Við héldum síðan ævinlega upp á þennan dag og urðum þannig óafvitandi fyrst Íslendinga til að halda upp á Valentínusardaginn, því að við höfðum ekki hugmynd um tilvist þessa ameríska ástardags fyrr en Valdís Gunnarsdóttir hafði um það forgöngu á Bylgjunni að gera hann að íslenskum tyllidegi. 

Í dag förum við í ferð um suðurhluta Gran Canaría ásamt eldri systur Helgu, sem Helga bjó þá hjá í Kópavogi. Ferðin verður jafnframt vettvangskönnunarferð vegna bókar sem ég hef í smíðum.

Í tilefni dagsins bendi ég á lagið "Styðjum hvert annað" á tónlistarspilaranum hér vinstra megin fyrir neðan bloggpistilinn, sem hljómsveitin "Birta" flytur á samnefndum diski, sem fæst hjá Skífunni, Smekkleysu, Bónus og Olís, en allt söluandvirðið hefur runnið óskipt frá upphafi til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík. 

Gleðilegan ástardag ! 


mbl.is Kærleiksganga á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súkkulaði - unaðsleg óhollusta.

Allt sem er gott er annað hvort syndsamlegt eða óhollt. Þetta var einu sinni sagt og það er mikið til í því.

Ég er einn af þeim sem hafa alla tíð verið veikir fyrir súkkulaði. Gildi súkkulaðis sést best á því að eitt af þjóðartáknum Íslands er kók og prins. Vinstri stjórnin 1956-58 gerði fátt merkilegt en tvennt var þó gott sem hún gerði: Færði landhelgnina út í tólf mílur og fór að flytja inn Prins póló frá Póllandi. 

Þessi vara er einstæð að því leyti að innflytjandinn, Ásbjörn Ólafson, ákvað að auglýsa þetta súkkulaðihúðaða kex aldrei. 

Umboðið kom mér vitanlega hvergi nærri því þegar Þorsteinn Eggertsson gerði textann um sjóarann Prins Póló sem Magnús Ólafsson gerði ógleymanlegan með Sumargleðinni. 

Ég hef alla tíð verið forfallinn kók og prins neytandi. Allt þangað til ég fékk ofnæmi fyrir of sterkum sýlklalyfjaskömmtum sem orsökuðu lifrarbólgu, stíflugulu og ofsakláða. 

Þá varð fita bannvara í tæpa fjóra mániði og þurfti að fara stúdera fituinnilhalds alls sem neytt var. Ég léttist um 16 kíló á þessum mánuðum.

Þá kom í ljós að sú réttlæting mín fyrir Prins póló áti að það væri megrunarkex var auðvitað fjarstæða. Niðurstaða rannsókna minna var einföld: Yfir 30% af súkkulaði er hrein fita. Það er alveg eins hægt að hella í sig hreinum rjóma. 

Þriðjungur sjúklega góðs 100 gramma þungs Ritter sport súkkulaðisstykkis er hrein fita. Þetta uppgötvaði ég í flugvélinni á leið til Kanarí eftir að það var orðið of seint. Með því að narta í sig eitt slíkt lítið stykki innbyrðir maður jafn mikla fitu eins og ef maður drekkur heilan lítra af mjólk.

Eftir 52ja ára nautnarneyslu Prins Pólós, sem síðustu ár hefur falist í að meðaltali tveimur stykkjum á dag (sennilega vanmetið vegna afneitunar súkkulaðisfíkilsins) hef ég nú ákveðið að fara í bindindi á þennan unað.

Með því bægi ég frá mér hátt í einu kílói af fitu á mánuði, eða ca 10 kílóum af fitu á ári og spara mér 7-10 þúsund krónur á mánuði, ca 80-120 þúsund krónur á ári. Það munar um minna í kreppunni. 

Kókbindindi verður erfiðara. Þar er tvöföld fíkn á ferðum, samtvinnuð koffein- og hvítasykursfíkn. Fráhvarfseinkennin eru mikil.

Er búinn að skipta að mestu yfir í Kók Zero en það er auðvitað veruleikaflótti, því að gervisykurinn er sagður verri en venjulegur sykur á ýmsa lund, brenglar sykurviðbrögð líkamans o. s. frv. Blogga alveg sérstaklega um kókfíknina síðar en velti því fyrir mér núna hve mikla óhamingju, ótímabæra sjúkdóma og dauðföll hin unaðslega súkkulaðifíkn hefur leitt yfir Vesturlandabúa.  


Óákveðnir langstærsti hópurinn.

Allt fram til síðastliðins hausts hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá sérstöðu samkvæmt skoðanakönnunum að þurfa ekki nema einn samstarfsflokk til að mynda meirihlutastjórn. Fyrir jól gátu Samfylking og VG myndað meirihlutastjórn en eftir áramót hafa engir tveir flokkar meirihluta atkvæða nema Sjálfstæðismenn og VG. Slíkt stjórnarmynstur verður þó að teljast ólíklegt eftir það sem á undan er gengið. 

Þetta er þó ekki alveg marktækt og ýmsar ástæður fyrir því. 

Þessi skoðanakönnun er með 42% óákveðna og mér skilst að hún sé bara á netinu. Í síðustu könnunum hafa framboð utan fjórflokkanna verið með 8-14% atkvæða. Þess vegna er aðeins að marka allra stærstu drætti í fylgisbreytingum stærstu flokkanna.

"Aðrir" eru líklega fleiri en einn aðili og því færu þetta 16-28 þúsund atkvæði í vaskinn utan fjórflokkanna í hverri könnun, ef 5% reglan væri í gildi. Þaðálíka fjöldi og í heilu landsbyggðarkjördæmi. 

Ef allt þetta fylgi fellur út fyrir þingfylgið virðist þingmannafjöldi tveggja af þremur stærstu flokkunum duga til myndunar meirihlutastjórnar þótt minnihluti atkvæða fylgdi þessum stjórnum. 


mbl.is Stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband