MÓTMÆLI ÁN ÁBYRGÐAR.

Mótmælaaðgerðir eiga sér hefð í vestrænum samfélögum og víðar. Um þær gilda lög hér á landi og víðast hvar. Martin Luther King og Gandhi brutu að vísu ranglát lög og vöktu athygli á ranglæt af því að hjá þeim var að ræða stórmál í samanburði við verðlagningu á eldsneyti á Íslandi. Þessir mótmælendur vissu að þeir yrðu að axla ábyrgð á aðgerðum sínum með því að sæta refsingu eftir gildandi lögum og tóku hana út, misjafnlega réttláta að vísu.

Þegar Mývetnskir bændur sprengdu stíflu í Miðkvísl 1970 var um að ræða slíkt stórmál, stöðvun ótrúlega hrikalegra spjalla í einstæðri náttúru Mývatns og Laxár, að hækkun á bensínverði núna eru hreinir smámunir. Bændurnir kröfðust þess að vera sakfelldir og dæmdir og taka með því ábyrgð á gerðum sínum.

Vöruflutningabílstjórar virðast hins vegar vera þeirrar skoðunar að lög eigi ekki að ná yfir aðgerðir þeirra, sem fara langt fram úr öðrum mótmælaaðgerðum síðari ára hvað snertir tjón og truflun. Lögreglan er gagnrýnd fyrir skipta sér nokkuð af þeim.

Skrýtið er þegar menn krefjast þess að bera ekki ábyrgð á gerðum sínum og svara fyrir þær.Klifur upp í krana á Reyðarfirði í hitteðfyrra, sem refsað var fyrir, voru smámál miðað við það stórfelldar og síendurteknar aðgerðir bílstjóranna en mótmælendurnir voru því viðbúnir að lögregla og yfirvöld skiptu sér af þeim, þótt í enstaka tilfellum væru aðgerðir lögreglunnar í harkalegasta lagi.

Bílstjórarnir sem nú fara hamförum, telja hins vegar eðlilegt að lögregla aðhafist ekkert gagnvart þeim.

Ef yfirvöld láta að vilja bílstjóranna eru almenningi með því send þau skilaboð, að því meiri usla og tjóni sem aðgerðir valdi, þeim mun meiri árangur muni þær bera og þeim mun meiri linkind eigi beita af hálfu lögreglu.

Hér í landi gilda lög um verkföll og mótmælaaðgerðir sem yfirleitt er farið eftir. Eftir að ég hætti í fréttamennsku og gerðist frjáls til þess að lýsa yfir skoðunum mínum í umdeildum pólitískum málum tók ég þátt í því ásamt 13-15 þúsund manns að mótmæla umhverfisspjöllum Kárahnjúkavirkjunar á fullkomlega löglegan hátt og að ég held með meiri árangri en ólöglegar og ofbeldisfullar aðgerðir hefðu náð.

Það lýsir hugmyndafátækt bílstjóra að geta ekki látið sér detta neitt annað í hug en að fara offari í mótmælaaðgerðm sínum.

Nú sé ég frétt um það að fjármálaráðherra taki vel í að ræða við flutningabílstjóra, nú sem endranær. Ég vil ítreka hér í þessum bloggpistli það sem ég hef sagt annars staðar að bílstjórar og 4x4 klúbburinn hafa rétt fyrir sér í því að loforð um að fara að dæmi annarra þjóða við verðlagningu á dísilolíu hafa verið svikin með þeim afleiðingum að við erum sér á báti meðal þjóða Evrópu í að nýta okkur ekki yfirburði dísilvéla fyrir bensínvélar hvað snertir eyðslu.

Vöruflutningabílarnir eru allir knúnir dísilvélum en er að þessu leyti refsað fyrir það ranglega. Við búum í því landi Evrópu þar sem meðalhiti ársins er lægstur og eyðsla bensínvéla eykst miklu meiri við kulda en dísilvéla.


mbl.is Lögregla kallar eftir kranabílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAÐ KOSTAR ORKU AÐ FLYTJA ÞYNGD.

Sparnaður í samgöngum fæst með því að létta bíla og gera þá minni svo að loftmótstaðan minnki. Þetta geta almennir bílaeigendur gert en ekki vöruflutningabílstjórar. Hagkvæmasta stærð flutningabíla eru stærstu bílarnir, því að léttari og minni bílar hafa sömu loftmótstöðu. Allir þessir bílar eru með dísilvélum, enginn með bensínvélum.

Að meðaltali er 1,1 - 1,2 um borð í hverjum af þeim 150 þúsund einkabílum sem fara um götur og vegi. Meðalbíllinn er 4,5 metra langur og 1,5 tonn. Sívaxandi fjöldi einkabíla er milli 2 og 3 tonn með allt að 500 hestafla vélum.
Engin þörf er á slíkum drekum og hinn gríðarlegi fjöldi þeirra er mesta bruðl- og mengunarvandamálið.

Að "almenningur rísi upp" er einfaldlega krafa um að áfram verði haldið á braut eyðslu og bruðls því að bílakaupin hafa aldrei verið meiri og bílarnir aldrei stærri og eyðslufrekari og hvergi í Evrópu keypt jafn lítið af dísilbílum.

Það er frekar hægt að hafa samúð með vöruflutningabílstjórum sem ekki hafa sömu möguleika og almennir borgarar til að minnka við sig. Engin bót væri af því að þeir minnkuðu vélarnar í bílum sínum, eyðslan myndi jafnvel aukast og bílarnir verða dragbítar í hraðri þjóðvegaumferð.

Hins vegar þarf ítarlega rannsókn á hinum raunverulega kostnaði við landflutninga samanborið við sjóflutninga og taka með í reikninginn það dýra auka viðhald sem þungir landflutningar kosta. Á þetta lagði Íslandshreyfingin áherslu í síðustu kosningabaráttu en ekkert hefur gerst í þeim málum.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞÖRF FRÆÐSLA SEM HEFUR VANTAÐ

Þegar við fáum fræðslu í skólakerfinu um hvað eina sem koma kann að gagni á lífsleiðinni vantar að mestu fræðslu um það eina sem mun örugglega gerast, - að við deyjum. Hvernig á að umgangast deyjandi mann? Vorkenna honum og veita honum samúð? Uppörva hann í því að takast á við hið óumflýjanlega með reisn? Þegar að þessu kom varð ég að taka ákvörðunina án þess að hafa fengið um það neina tilsögn að gagni.

Í þjóðfélagi okkar ríkir ákveðin firring gagnvart dauðanum. Fólk deyr einhvers staðar inni á stofnun. Í tölvuleikjunum er dauðinn bara leikatriði sem eykur á firringuna. Í samfélagi fyrri kynslóða gerðust bæði fæðing og dauði inni á heimilinu þar sem allar kynslóðirnar bjuggu saman. Í daglegu lífi í sveitinni skiptust fæðing og dauði dýranna nánast á bæjarhlaðinu fyrir framan augun á öllum.

Morgunblaðið fjallar um vaxandi tækni í læknisfræði sem gerir það æ algengara að dauði fólks sé í höndum þeirra sem yfir tækninni ráða. Í uppeldis- og menntakerfinu veit ég ekki til að neitt sé kennt um þau viðfangsefni sem aðstandendur deyjandi fólks þarf að ráða fram úr.

Ég er kominn á þann aldur að frétta af sífellt fleiri kunningjum mínum sem geta haft hönd í bagga með að taka ákvarðanir varðandi dauða foreldra sinna. Eitt atriðið er þessi spurning: Hversu mikilvægt er það að kveðja t.d. foreldri sitt á banabeði?

Ég áttaði mig ekki á þess fyrr en að því kom og raunar ekki fyrr en andlátið var af staðið. Þá var niðurstaðan þessi:
Í sambúð barns og foreldris eru tvö afgerandi augnablik, fæðing og dauði. Sambúðin byrjar við fæðingu barnsins og endar þegar foreldrið deyr.

Aðeins foreldrið man eftir fæðingunni og var meðvitað um mikilvægi hennar. En bæði foreldri og barn eru meðvituð um gildi hinstu kveðjustundar. Þess vegna er kveðjustundin mikilvægari, raunar mikilvægasta stund sambands barns við foreldri sitt.

Af þessu leiðir að við leiðarlok getur komið upp sú staða að afkomendurnir séu ekki alltaf allir á landinu eða dauðastaðnum þegar kallið kemur. Þá getur komið upp sú staða ef binda verður enda á dauðastríðið með beinni eða óbeinni notkun tækninnar, að afkomendurnir vilji láta andlátið verða þegar allir geta verið viðstaddir.

En þetta er að mínum dómi ómögulegt. Afkomandi getur ekki tekið svona stóra ákvörðun fyrir foreldri sitt.

Niðurstaðan varð sú í þeim tilfellum sem ég veit af,- (og eru ótrúlega mörg), - að afkomendur ákváðu að þessu yrði best komið í höndum þess fólks sem hefði af þessu mesta reynslu, þ. e. læknanna. Ákveðið var að líta á slíkt í sama ljósi og óviðráðanlegt atriði, "force majör."

Í mínu tilfelli fór þetta svo að ekki gátu allir afkomendur verið viðstaddir hina mikilvægu kveðjustund og það var alger tilviljun hver það var.

Hafi Morgunblaðið þökk fyrir upplýsandi umfjöllun um þetta.


mbl.is Treysta dómgreind lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKIPTAR SKOÐANIR.

Ísleifur Jónsson er einn af reyndustu verkfræðingum þjóðarinnar á sviði jarðborana. Hann hefur áður varað við göngum út í Vestmannaeyjar á svipuðum forsendum og hann varar við Sundagöngum. Hann tók vandræðin við jarðgöng Kárahnjúkavirkjunar sem dæmi um áhættu við jarðgangagerð á eldvirka beltinu. Hins vegar hef ég heyrt aðra verkfræðinga andmæla sjónarmiðum Ísleifs, til dæmis varðandi jarðgöng til Eyja.

Hin vel heppnuðu Hvalfjarðargöng eru norðan við skil eldvirka beltisins og hins eldra svæðis. Sennilega hefur verið mikil lukka yfir því hve lítið Hvalfjarðargöng láku og ég hef heyrt þá útskýringu að menn hafi hitt þráðbeint inn í miðju á á þykku bergi.

Sundabraut með brú yrði tilkomumikið mannvirki og hægt að meta gott útsýni af brúnni til fjár. En vel þyrfti að ganga frá því að ekki yrði of hvasst á henni og marga daga. Brúarlausnin er ódýrari en gangaleiðin.

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur einróma viljað gangaleiðina. En alltaf má staldra aðeins við og ræða mismunandi sjónarmið.


mbl.is Varar við Sundagöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VEGVÍSIR BJÖRNS OG ÍSLANDSHREYFINGIN.

Þegar talsmaður Íslanndshreyfingarinnar lýsti því í umræðuþætti í sjónvarpi um utanríkismál fyrir síðustu kosningar að hreyfingin vildi setja aukinn kraft í það starf sem þyrfti til að þjóðin væri vel undirbúin ef sú staða kæmi upp að nauðsynlegt þætti að sækja um aðild að ESB varð það að aðalfrétt í seinni fréttatíma Sjónvarpsins að hreyfingin vildi tafarlausa inngöngu í ESB.

Daginn eftir fór Staksteinahöfundur hamförum í Morgunblaðinu um þetta sama og bætti því við að þetta væri í algeru ósamræmi við það að viðhalda sjávarútvegi á forræði Íslendinga vítt og breitt um landið. Tilgangur Staksteinahöfundar var augljóslega sá að sá fræjum tortryggni í garð I-listans úti á landi og eins og oft vill verða voru tilraunir okkar til að koma hinu rétta á framfæri með því að vitna í stefnuskrá okkar ekki taldar sömu stórfréttirnar og slegið hafði verið upp.

Nú hefur brugðið svo við að Björn Bjarnason hefur sett fram hugmyndir um "vegvísi" til að styðjast við ef með þyrfti vegna inngöngu í ESB. Þessar hugmyndir Björns eru mjög á sama veg og hugmyndir I-listans voru og taka mið af því að inngönguferlið í ESB getur tekið mörg ár og að mjög slæmt væri ef það ferli yrði óþarflega langt vegna þess að við hefðum ekki unnið heimavinnuna okkar áður.

Engar upphrópanir hef ég séð í Staksteinum vegna þessa enda ekki kosningar á næsta leiti. Hitt er gott að nú skuli einstakir menn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, sem afneitað hafa því staðfastlega að innganga í ESB væri til umræðu, vera farnir að fikra sig í átt til stefnuskár I-listans um þetta efni.


FRÁBÆRT SVÆÐI.

Landmannalaugasvæðið að vetrarlagi er gimsteinn sem allt of fáir hafa kynnst. Svæðið þolir mun meiri fjölda ferðamanna að vetrarlagi en nú ef þess er gætt að dreifa umferðinni. Þannig er afburða falleg leið inn að Langasjó, yfir að Sveinstindi og síðan til baka, - einnig inn í Jökulgil og upp í Hrafntinnusker.

Hlýnun loftslags hefur að vísu sett nokkurt strik í reikninginn undanfarna vetur en þetta svæði liggur svo hátt yfir sjó, að aukin úrkoma, jafnvel í hlýrra veðri en áður, verður að snjókomu og yfirleitt mikilli snjókomu. Þetta er venjulega eitthvert snjóþyngsta svæði landsins og getur verið þungamiðjan í sókn íslenskrar ferðaþjónustu í þann markhóp, sem þyrpist hundruðum þúsunda saman lengri vegalengd en til Íslands, þ.e. til Lapplands.

Tímabilið frá miðjum mars til byrjunar maí er besta ferðatímabilið. Sólargangur er orðinn langur og veður og vindar skaplegri en um miðjan vetur.


mbl.is Blíðviðri á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKAÐLEG ÁSÆLNI RÍKISINS.

Ég heyrði útundan mér í útvarpi undan og ofan af kröfum ríkisins um þjóðlendur á sunnanverðu Miðnorðurlandi en nóg til þess að spyrja hvenær talsmenn ríkisvaldsins ætli að láta af endalausri kröfugerð sem stórskaðað hefur umræðu um flest varðandi nýtingu landsins. Þetta hefur reitt landsbyggðarfólk til reiði svo að margt af því fær grænar bólur þegar það heyrir orð sem byrja á "þjóð" svo sem þjóðlendur og þjóðgarðar.

Ekki er vafi á að þessi stanslausi málarekstur hefur tafið eðlilega framþróun í því sem ég vil kalla náttúruverndarnýtingu um mörg ár og sér ekki fyrir endann á því.

Þessi alltof harða ásælni hefur eðlilega hleypt illu blóði í dreifbýlisfólk og aukið á tortryggni þess gagnvart "kaffistofu-liðinu í 101 Reykjavík" eins og sumt landsbyggðafólk kallar þá sem búa á suðvesturhorni landsins.

Að mínum dómi eru kröfur um þjóðlendur á Tröllaskaga og á milli dala og byggða á Norðurlandi til þess eins fallnar að valda óþarfa úlfúð og deilum. Ég held að í grófum dráttum megi draga línu frá Kiðagili um Nýjabæjarfjall og vestur til Hrútafjarðar og láta af öllum kröfum um þjóðlendur fyrir norðan þá línu.

Reykvíkingar skildu loksins um hvað var að ræða þegar ríkið vildi rífa Esjuna af borgarbúum og Kjalnesingum og gera að þjóðlendu. Það sem talsmenn ríkisins vilja fyrir norðan er ekkert skárra og enginn endir virðist eiga að verða á óþarfa deilum og málarekstri af þessum toga sem hleypir illu í blóði í fólk .


HLIÐSTÆÐAN VIÐ 1947.

1947 tók við völdum ríkisstjórn sem hafði að baki sér 80% þingfylgi. Hún tók við þegar þjóðin hafði lifað langt um efni fram á valdatíma Nýsköpunarstjórnarinnar. Sú stjórn var að vísu stórhuga og hratt í framkvæmd mikilli og þarfri endurnýjun í sjávarútvegi og réttlátum endurbótum almannatrygginga. En hún sólundaði stríðsgróðanum og stakk höfðinu í sandinn varðandi óhjákvæmilegan samdrátt og erfiðleika í stríðshrjáðum ríkjum Evrópu, sem entist á tæplega áratug og hlaut að hafa áhrif hér á landi.

Fyrir bragðið fóru í hönd hafta- og skömmtunarár með tilheyrandi spillingarkerfi og stöðnun sem tók lungann af 20. öldinni að komast út úr.

Undanfarin ár hefur þjóðin lifað um efni fram í skjóli allt of hás gengis krónunnar og stóriðjuframkvæmda, sem ekki verður hægt að halda áfram endalaust og valda mun stórfelldri eyðileggingu á mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru þess.

Seyðið af því munu börn okkar og afkomendur súpa þegar ekki verður neitt meira eftir til að virkja.

Stefaníu-stjórnin 1947-49 hefur hlotið þunga dóma en Nýsköpunarstjórnin notið glansmyndarinnar sem heillandi persónuleiki og stjórnkænska Ólafs Thors hefur lyft undir. Fyrr eða síðar þarf sú stjórn  að sæta endurmati hvað varðar mikið fyrirhyggjuleysi gagnvart fyrirsjáanlegum enda eyðslufyllerísins fyrstu árin eftir stríð.

Stjórnirnar sem tóku við lögðust lágt þegar þær sugu út úr Bandaríkjamönnum meiri Marshallaðstoð miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð fékk. Höfðum við þó einir þjóða grætt á stríðinu en aðrar þjóðir goldið hræðilegar fórnir.

En þessar ríkisstjórnir voru í raun að fást við timburmenn Nýsköpunarstjórnarinnar og var að því leyti til vorkunn.

Nú er komin til valda ríkisstjórn sem nýtur álíka yfirburða í þingfylgi og stjórnirnar frá 1947-56. Ef allt væri með felldu væri hún nú á kafi upp fyrir haus að fást við timburmenn neyslufyllerís undanfarinnar ára. En ekki er að sjá að svo sé.

Einu ráðin virðast vera framlenging fyllerísins með aðgerðarleysi og óbreyttri stóriðjustefnu sem líkja má við það að pissa í skó sinn.  

 


mbl.is Mesta verðbólga í 6 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKÁSTA SKATTHEIMTAN.

Afstaða okkar Íslendinga til eldsneytisverðs er full af mótsögnum. Við mótmælum hástöfum ört hækkandi eldsneytisverði á sama tíma og innflutningur stórra og eyðslufrekra bíla nær nýjum hæðum. Jafnframt berjum við okkur á brjóst í stjórnarsáttmála og þykjumst ætla að verða fyrirmynd annarra þjóða um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í skoðankönnunum vilja 70% þjóðarinnar lækkun opinberra gjalda en sömu 70% vilja aukna þjónustu ríkisins. Í stjórnarsáttmála stjórnar, sem hefur fylgi 70% þjóðarinnar, er rætt um endurskoðun gjalda á bílaflotannn meðal annars til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Mótsögnin í hneykslun Íslendinga á háu eldsneytisverði felst í því að losun gróðurhúsalofttegunda er að mestu í réttu hlutfalli við notkun eldsneytisins sem heimtað er að verðið sé lækkað á svo að við getum notað enn meira af því og keypt okkur enn fleiri og stærri bíla.

Ég veitti fjármálaráðuneytinu á sínum tíma fyrstu ráðgjöfina um mismunandi gjöld á bíla eftir stærð og vissi vel að það er sama hve mikið menn reyna að búa til skynsamlegt kerfi um þessi atriði, byggt á stærðum bíla og véla, - að það verður ævinlega reynt og hægt að misnota það. ´

Á einhverjum svæðum slíks kerfis verður ávallt innbyggt ranglæti.

Þrátt fyrir allt eru að mínum dómi aðeins þrjár aðferðir skástar til að koma böndum á bruðl okkar sem sprengir gatna- og vegakerfið og eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda:

1. Eldsneytisverð. Réttlátasta skattheimtan, gjaldið borgað beint við bensíndæluna, engin undanskot né skattsvik og sá borgar mest sem notar mest.

2. Koltvísýringsgjald, sem greitt er í réttu hlutfalli við útblástur koltvísýrings.

3. Lengdargjald, sem miðast við lengd bíla, þ. e. hve mikið rými þeir taka í umferðinni. Sá borgar mest sem tekur mest rými af dýru malbiki og stuðlar með bruðli sínu að nauðsyn þess að gera dýr mislæg gatnamót fyrir bíladrekana. Án þess að íþyngja vegfarendum myndi stytting meðalbílsins um aðeins hálfan metra (Úr Corolla/Avensis niður í Yaris) losa 50 kílómetra af malbiki á dag á Miklubrautinni einni.

Ég tel mig vera að verja bílismann með ofangreindum tillögum því að núverandi þróun stefnir umferðarmálum okkar í augljóst óefni og mun á endanum stúta frjálsum samgöngum.  

Raunar væri árangursríkara að hækka álög á eldsneyti og minnka gjöld á innflutning bíla til að greiða fyrir hraðari endurnýjun bílaflotans með styttiri, öruggari og sparneytnari bílum.

Undanfarin ár hefur þjóðin lifað um efni fram í skjóli allt of hás gengis íslensku krónunnar. Nú berjast menn um á hæl og hnakka við að reyna að viðhalda þessu í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að fylleríinu verður að ljúka.

Þorsteinn Pálsson tekur undir það í ritstjórnargrein að nú vanti tafarlausa innspýtingu fjárfestinga og veltu með nýjum stóriðjuframkvæmdum.

Einn af ráðherrunum fyrir tíu árum sagði við mig að slíkt yrði að halda áfram stanslaust til að koma í veg fyrir kreppu og atvinnuleysi.

Þegar ég spurði á móti hvað ætti að gera þegar ekkert væri eftir til að virkja svaraði hann: Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar, sem þá verður uppi. Sem sé, vandanum velt á þann yfirgnæfandi hluta kjósenda sem enn er ófæddur eða á barnsaldri.

Mikil reisn og réttlæti, ekki satt?


mbl.is Lokun vegarins háalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ÍSLANDSLÆGÐIN" FÆR NÝJA MERKINGU.

"Íslandslægðin" er hugtak sem nágrannaþjóðir okkar við Norður-Atlantshafið þekkja vel. Fyrir suðvestan Ísland er að meðaltali lægsti loftþrýstingur veraldar að vetrarlagi og héðan berast þessar djúpu lægðir austur yfir hafið með ómældum áhrifum á veðurfarið í Norður-Evrópu. Litla Ísland er sem sagt býsna fyrirferðarmikið og áhrifaríkt í þeim hluta orðaforða nágrannaþjóðanna sem notaður er um veður.

Nú kann svo að fara að "Íslandslægðin" fái nýjar merkingu í formi efnahagslægðar sem hefur áhrif á miklu fjarlægari lönd en Bretlandseyjar og Norðurlönd. Upp í hugann koma tvö íslensk orðtök: "Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og "miklir menn erum við, Hrólfur minn."

Í veðurfarslegu tilliti hefur Íslandslægðin neikvæða merkingu og vonandi verður það nóg fyrir okkur að hugtakið sé einskorðað við veðurfarið heldur en að það fái líka neikvæða merkingu í fjármálaheiminum.


mbl.is Íslandsbylgjan gæti skollið á mörgum löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband