15.3.2010 | 21:04
Óframkvæmanleg sanngirni?
Bílalánin sem meiri hluti þjóðarinnar kepptist við að taka á gróðærisárunum eru svo margvísleg að útilokað er að setja reglur sem tryggja fullt jafnræði og sanngirni hvað það varðar að afskrifa þau eða réttara sagt að leiðrétta virði þeirra.
Dýrustu bílarnir hafa falli mest í markaðsverði eftir hrunið og ef miðað er við markaðsverðið verða afskriftirnar lang stærstar á þessum dýru bílum, sem oft voru keyptir umfram það sem skynsamlegt mátti telja.
En það er samt engin algild regla um það. Tökum dæmi af fjórum mönnum sem keyptu bíla á 10 milljón krónur hvern:
Jón kaupir sér 10 milljón króna BMW í stað þess að kaupa 4 milljón króna bíl sem hefði alveg dugað honum og gert sama gagn.
Bjarni kaupir sér Hummer á lágprófíldekkjum, sem varla er hægt að aka út á malarveg nema sprengja dekkin, og ekur honum mest í innanbæjarkeyrslu sem stöðutákni.
Hann hefði getað keypt Kia Sorentu eða Suzuki Grand Vitara fyrir 40% af verðinu, - bætt 100 þúsund kalli við kaupverðið á Súkkunni til að hækka hann upp og fengið bíl sem gerði meira gagn en Hummer á lágum dekkjum.
Daníel kaupir sér Toyota Hilux sem hann breytir í jöklajeppa vegna þess að hann hefur af því tekjur að fara með innlenda og erlenda ferðamenn á honum í hálendisferðir.
Friðrik kaupir sér tíu milljón króna sendibíl sem hann notar í atvinnuskyni.
Allir þessir menn fá sömu upphæð afskrifaða þótt tveir þeirra eigi það varla skilið.
Og þegar dæmin skipta tugum þúsunda og ekkert er líkt öðru, hver á að dæma og meta þessi mál og hver hefur tíma og mannskap til þess?
Það virðist svo sem við stöndum frammi fyrir óframkvæmanlegri sanngirni við úrlausn þessara mála sem þó er brýn nauðsyn á að verði lagfærð eftir því sem kostur er.
![]() |
Lán dýrra bíla afskrifuð mest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.3.2010 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.3.2010 | 13:25
Lennox Lewis hefði brillerað!
Því miður er því of lítið á loft haldið hve margir afburða íþróttamenn búa yfir miklu andlegu atgerfi. Skákboxið svonefnda er ekki út í hött því að ýmsir hnefaleikameistarar eru slyngir á andlega sviðinu.
Þannig var og er besti þungavigtarhnefaleikari heims frá 1992-2003, Lennox Lewis, slyngur skákmaður.
Wladimir Klitschko heimsmeistari í þungavigt, er læknir, og Michael Grant, sem var kominn í hóp örfárra bestu þungavigtarhnefaleikara heims, var og er góður píanóleikari.
Enginn þarf að efast um hvílíku andlegu atgerfi Muhammad Ali er búinn.
Þegar Tímaritið Time valdi 100 mestu snillinga síðustu aldar var Ali eini íþróttamaðurinn í þeim hópi.
Gene Tunney, sem varð heimsmeistari í einhverjum fjölsóttasta bardaga allra tíma 1926, tók sjálfan Jack Dempsey tvisvar í bakaríið með því að gjörkanna stíl hans og bardagaaðferð á nánast vísindalegan hátt. Tunney varð síðar virtur öldungadeidarþingmaður.
Manny Paquaio, besti hnefaleikari heims um þessar mundir, sem fyllti 51 þúsund manna íþróttahöll í Texas út úr dyrum s.l. laugardagskvöld og fór þar á kostum, er nú á góðri leið með að komast á þing á Filippseyjum. Ég vona nú samt að hann eyði ekki of miklum tíma og orku í það.
Svo við höldum okkur bara við bardagaíþróttir er Sigtryggur Sigurðsson, sem var nánast ósigrandi um árabil í íslenskri glímu, í hópi bestu bridds-spilara þjóðarinnar og hampaði Íslandsmeistaratitli í þeirri grein.
Sigtryggur var gagnrýndur fyrir einhæft val á glímubrögðum og fyrir að nýta sér þyngd sína og afl til að beita aðeins hábrögðum eins og sniðglímu á lofti og klofbragði.
Sigtryggur svaraði þessu eftirminnilega á einu glímumótinu með því að leggja alla keppinauta sína, hvern á sínu bragðinu!
Kom þá í ljós að hann var jafnvígur á öll brögð, jafnt hábrögð sem lágbrögð.
Sigtryggur notaði úthugsaða bardagaáætlun. Ógn hans gagnvart keppinautunum var sú að þeir yrðu að búast við hverju sem væri og þá var auðvitað skynsamlegast fyrir Sigtrygg að nota sér hábrögðin sem úrslitabrögð úr því að þau klikkuðu aldrei og voru skæðust af mörgum góðum vopnum hans.
Hermann Jónasson, glímukappi Íslands á sinni tíð, varð forsætisráðherra 1934-42 og aftur 1956-59.
Steingrímur Hermannsson, sonur hans, var ágætur fjölbragðaglímumaður á skólaárum sínum í Bandaríkjunum.
Svona mætti lengi telja um menn sem minna okkur á máltækið "hraust sál í heilbrigðum líkama."
![]() |
Skákbox slær í gegn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.3.2010 | 20:19
Íslendingar gerðu betur.
Fréttin af líkinu í New York er kominn á stjá um allan heim enda er heimurinn mun minni hvað fjölmiðlun snertir en hann var skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina þegar tekist var á um lík Jónasar Hallgrímssonar á þann hátt að sagan frá New York bliknar í samanburðinu.
Nokkrir menn undir forystu Sigurjóns á Álafossi, ef ég man rétt, gengust fyrir því árið 1946 að líkið yrði flutt norður í Öxnadal þar sem átti að jarðsetja það, en þegar þetta vitnaðist greip Þingvallanefnd, sem var þessu ósammála, í taumana, kom í veg fyrir þessa greftrun og lét flytja líkið suður og austur á Þingvelli þar sem það var jarðsett í svonefndum Þjóðargrafreit rétt við kirkjuna.
Þessi atburðarás og átöku voru vafalaust dæmalaus, ekki bara á Íslandi, heldur þótt víðar væri leitað.
Nú hvíla aðeins tveir Íslendingar, Jónas og Einar Benediktsson skáld í þessum einmanalega Þjóðargrafreit og ekki er einu sinni víst að þarna sé um beinin af Jónasi að ræða, því að líkur hafa verið leiddar að því að beinin séu af dönskum bakara!
Þjóðargrafreiturinn átti í upphafi að verða að einhvers konar Westminster Abbey Íslands en varð, hefur verið og er vandræðamál, sem látið er kyrrt liggja.
Já, ekki er öll vitleysan eins!
![]() |
Lagði hald á líkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.3.2010 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.3.2010 | 13:25
"Við megum líka..."
Í þessum þremur orðum má forma orkustefnu Kína, Indlands og fleiri þróunarlanda, sem nú ætla að leggja sig fram um að hjálpa okkur Vesturlandabúum að klára hina takmörkuðu orkuauðlind, olíuna, sem allra fyrst og fá að eiga sanngjarnan hlut í þeim mikla en skammvinna auði.
Við erum búin að fara okkar fram síðustu 60 ár með því að tvöfalda orkunotkun okkar á hverjum áratug frá stríðslokum. Sem þýðir ca 30 falda aukningu á hálfri öld.
Þegar litið er á línurit yfir orkunotkun mannkyns í gegnum aldir og árþúsund sést, að olíuöldin reisir línuna upp í háan tind, sem þó spannar aðeins örlítið brot af tímalínunni.
Kynslóðir framtíðar munu undrast hvernig upplýst og meðvitað mannkyn hagaði sér á þessum tíma.
Lykilinn að hugsun okkar má finna í kenningu, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði frá að hefði verið sett fram á merkilegri ráðstefnu vestur í Bandaríkjunum. Hún er svona: "Við eigum ekki að gera neitt fyrir kynslóðir framtíðarinnar því að þær munu ekki gera neitt fyrir okkur."
![]() |
Gríðarleg eftirspurn olíu í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2010 | 22:37
Mannauðurinn, dýrmætasta auðlindin!
Í kvöld mátti sjá á sjónvarpsstöðvunum dæmi um hinn mikla mannauð, sem þessi þjóð á í ungu hæfileikafólki sem er að hasla sér völl, annars vegar í tónlistinni og hins vegar í fjölmenntun sem kemur vel í ljós í "Gettu betur."
Það hefur verið unun og ótrúleg upplifun að fylgjast með sumum tónistaratriðunum í þessum spurningaþáttum og ekki síður næstum því fáránlega mikilli þekkingu keppendanna.
Sem einn þeirra sem þekkir flugvelli landsins hvað best varð ég til dæmis hrifinn af þekkingu keppenda á þeim í einni spurningunni. Og þar sem aðeins 21 kílómetra munur er á beinni flugleið frá Reykjavík til Ísafjarðar og Akureyrar var gaman að sjá að svarið við því vafðist ekki heldur fyrir keppendum.
Og síðan gladdi mig auðvitað sem M.R.-ingi sem á 50 ára stúdentsafmæli í vor, hve vel keppendur skólans stóðu sig gegn skemmtilegu liði M.E.
Sem minnir mig á frábært svar eins að austan þegar ég hitti hann glaðbeittan á leið út úr Útvarpshúsinu um daginn og óskaði honum til hamingju með sigurinn í þeirr keppni, en bætti því við að auðvitað yrði ég að halda með gamla skólanum mínum.
Hann svaraði samstundis: "Já, haltu bara sem mest með honum á meðan hann mætir öðrum keppinautum okkar!"
En síðan fór það þannig að ég átti ekkert val, því miður.
![]() |
MR í úrslit Gettu betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.3.2010 | 22:26
Til hamingju, Haukur Heiðar yngri !
"Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni" kom upp í hugann þegar ég fylgdist útundan mér með hluta af veitingu Íslensku tónlistarverðlaunanna í kvöld og sá hve góðu gengi hljómsveitin Dikta á að fagna.
Ég hef fylgst með Hauki Heiðari Haukssyni frá því að hann var smástrákur í ranni foreldra sinna, Hauks Heiðars Ingólfssonar og Sveinrósar Sveinbjarnardóttur og það vakti athygli mína hvað hann var áhugasamur og fylgdist vel með þegar hann var á ferðalögum með Fjörkálfunum svonefndu sumarið 1994, föður sínum, Hermanni Gunnarssyni, Vilhjálmi Guðjónssyni, Pétri Kristjánssyni og mér.
Um daginn fékk ég hann til að raula með mér svonefndan Brunabrag og í stúdíóinu sagði hann þaulreyndum upptökustjóranum til þegar þess þurfti til að flýta fyrir verkinu.
Þeir í Dikta gera nefnilega og kunna allt sjálfir og það er dásamlegt að fylgjast með verðskuldaðri velgengni þeirra.
Þeir voru valdir vinsælustu flytjendurnir í kvöld og tilefndir þar fyrir utan.
Til hamingju, þið Diktamenn og þeir sem að ykkur standa!
![]() |
Íslensku tónlistarverðlaunin veitt í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2010 | 16:56
Gefandi listamaður.
Páll Óskar Hjálmtýsson er mikill listamaður og það á fleiri sviðum en margur annar. Viðtalið við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er listaverk út af fyrir sig, sem hann gefur okkur í samvinnu við Kolbrúnu Bergþórsdóttur.
Einkum er síðasti hluti viðtalsins frábær, heimspeki sem er sígild á öllum tímum og ekki hvað síst í kjölfar hruns þeirrar tálsýnar sem bar upp bóluna stóru og speglaðist best í vinsælustu myndafrásögnunum í "Séð og heyrt" og brúðkaupsþáttum Skjás eins, - sjáið þið flottu kjólana þeirra!, - gaf henni BMW í afmælisgjöf! sjáið þið lúxushallirnar í sveitinni!, - sjáið þið allar stóru brúðkaupsgjafirnar!
Páll Óskar er ekki óskeikull frekar en við hin en ég tek ofan fyrir honum og óska honum til hamingju með fertugsafmælið.
![]() |
Páll Óskar varð fangi klámsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2010 | 13:59
Eins gott.
Það verður eins gott að stórhuga áætlanir um Hörpu sem ráðstefnustað verði að veruleika. Sem tónlistarhús á það eftir að eiga í harðri samkeppni við splunkuný og rándýr tónlistarhús í Osló og Kaupmannahöfn, sem bæði eru miklu nær miðju Evrópu en Ísland.
Í Þrándheimi, sem er sambærilegasta byggð í heimi og Reykjavík og Ísland er frábært tónleikahús, sem heitir Ólafshöllin.
Þarna er sama breiddargráða og svipað loftslag, svipuð menning og lífskjör. Mannfjöldinn í Þrándheimi og Þrændalögum er sambærilegur við mannfjölda í Reykjavík og á Suðvesturlandi.
Þetta er 4-5 sinnum ódýrara tónlistarhús en Harpa og er rómað fyrir fullkomna aðstöðu fyrir hvers kyns tónlistarviðburði og óperur.
Það var frá upphafi ætlað fyrir óperuflutning en í upphafi átti Harpa ekki að geta hýst óperuflutning.
Ólafshöllin er ekki minnismerki sem keppi við óperuhúsið í Sydney í útliti heldur svo yfirlætislaust í miðborg Þrándheims að það liggur við að það sé falið.
Stóri salurinn tekur 1200 manns og sá litli rúmlega 200. Húsið er þéttbókað allt árið og aðstaðan skemmtileg því að hótel og verslunarmiðstöð eru sambyggð og nóg bílastæði í grennd.
Mér var tjáð að salirnir væru hæfilega stórir og að menn hefðu ekki fallið í þá gryfju að hafa litla staðinn stóran eins og á að vera í Hörpu.
Betra væri að hafa salinn þannig að þar sé ævinlega þétt stemning heldur en að hafa hann svo stóran að hætta sé á að hann virki hálftómur.
Mér sýnist tilvera Hörpu og rekstrargrundvöllur standa og falla með því að vel takist til með að gera hana að aðlaðandi ráðstefnustað.
Ef ekki er ég hræddur um að erfitt verði að reka húsið án þess að það verði fjárhagsleg byrði.
![]() |
Harpan mun skapa mikinn gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2010 | 20:39
Hekla og Grímsvötn líklegri en Eyjafjallajökull?

Það liggur fyrir að tími sé kominn á Heklu og sömuleiðis að eldvirkni á svæðinu Grímsvötn-Bárðarbunga hafi farið vaxandi og líkur aukist á eldsumbrotum þar.
Gos í norðaustanverðum Vatnajökli gæti orðið afdrifaríkara en gos í Eyjafjallajökli vegna hættu á hamfaraflóðum niður í virkjanakerfið á Tungnaár-Þjórsársvæðinu eða norður í Jökulsá á Fjöllum.
Öxullinn Bárðarbunga-Grímsvötn er miðja eldvirka beltisins sem gengur frá suðvestri til norðvesturs um Ísland og þar með miðja möttulstróksins sem er undir landinu og er annar hinum tveimur stærstu í heimi.
Hinn er undir Hawai.
Myndin, sem fylgir þessum pistli er tekinn af Bárðarbungu í leiðangri Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul í fyrravor og sést yfir Vonarskarð til Tungnafellsjökuls, Sprengisands og Hofsjökuls.
![]() |
Jarðskjálfti við Bárðarbungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2010 | 16:07
Gott fyrir litla þjóð.
Mér finnst það góðar fréttir að RUV og Stöð tvö sameinist um að sýna frá HM í knattspyrnu. Of oft hefur það gleymst í gegnum árin að þjónusta við hin íslensku Jón og Gunnu getur orðið fyrir skaða af of mikilli viðleitni keppinauta til að klekkja hvor á öðrum eða reyna að kaffæra hvor annan.
Þegar hugmyndin um Stöð tvö kom upp 1986 hafði ég enga trú á að tvær burðugar sjónvarpsstöðvar gætu keppt á jafn litlum markaði og Ísland er.
Annað kom í ljós og sjálfur réðist ég fljótlega til starfa hjá Stöð tvö og vann þar í sex og hálft ár þau ár sem stöðin var að festa sig í sessi um allt land.
Það kann að sýnast mótsögn en ein af ástæðum þess að ég fór yfir á Stöð tvö var sú að ég var ósáttur við þá ákvörðun RUV að gefa eftir fréttatímann klukkan 19:30 og fara til baka til klukkan 20:00, í þveröfuga átt við það sem rétt væri og að með þessu væri Stöð tvö að óþörfu réttur tíminn klukkan 19:30 á silfurfati.
Ég vildi spila með liði þar sem keppnisandinn væri ríkari en svo að keppinautnum væru færð vopn í hendur.
Samtímis þessu var ég þó mjög andvígur einokun á afmörkuðum sviðum en vildi að heilbrigð samkeppni væri viðhöfð og lögð rækt við hvata um að allir legðu sig fram.
Mér fannst starfið á Stöð tvö eftir 19 ára starf hjá RUV dýpka skilning minn á kostum og göllum ríkisrekstrar og einkarekstrar og mjög dýrmætt að öðlast reynslu af því að vinna í ólíku umhverfi.
Nú þurfa Íslendingar að snúa bökum saman og samstarf sjónvarpsstöða í þá veru að hámarka þjónustu við landsmenn er gott fyrir litla þjóð í nauðvörn.
![]() |
Sameinast um að sýna frá HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)