6.3.2008 | 00:13
RANGFÆRSLUR EINARS K. OG SMÁRA.
Einar K. Guðfinnsson tekur undir þau orð Smára Geirssonar á málþingum um olíuhreinsistöðvar vestra á dögunum að náttúruverndarfólk mótmæli bara virkjunum og stóriðju úti á landi en ekki á suðvesturhorninu. Þetta er alrangt. Svo að ég fari um minn heimarann þá hygg ég að meirihluti skrifa minna um virkjanamálin hafi beinst að virkjunum og stóriðju á suðvesturlandi. Þjórsárver, Neðri-Þjórsá, Bitruvirkjun, Trölladyngja, Seltún og álver í Helguvík með tilheyrandi línum og virkjananeti allt frá Leifsstöð norður á miðhálendið hefur verið uppistaða míns andófs gegn þessu fári.
Landvernd hefur haldið uppi öflugu andófi og málafylgju á sama vettvangi. Hvar hafa þeir Einar K. og Smári eiginlega verið?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.3.2008 | 19:04
RAGNAR REYKÁS BLÓMSTRAR.
Um fátt talar Íslendingurinn meira núna en kreppuna sem sé skollin yfir, til dæmis með svo hroðalegu háu bensínverði að allt sé að fara til fjandans. Viðbrögð Íslendinga við þessu ofurháa bensínverði eru hins vegar þau að fluttir inn og keyptir miklu fleiri og stærri bílar en nokkru sinni fyrr og fleiri Íslendingar eru á ferð í útlöndum en nokkru sinni fyrr á þessum árstíma. Kortanotkun stórvex og annað er eftir því.
Þetta er Ragnar Reykás eins og hann gerist bestur og þetta er svipað fyrirbæri og 1967 þegar kreppa var að skella á og aldrei voru farnar fleiri og dýrari utanferðir, meira að segja á þremur stórum erlendum skemmtiferðaskipum og hefur það aldrei síðan verið leikið eftir.
Hugsunarháttur okkar virðist vera sá að stórauka eyðsluna áður en kreppan er skollin á meðan peningarnir eru til. Síðan treysta menn á það að daglegt tal forsætisráðherrans um nauðsyn á áframhaldandi stóriðju- og virkjanaframkvæmdum verði að veruleika.
Þá verður hægt að endurtaka leikinn frá 2002 þegar þenslan skall á ári áður en framkvæmdirnar hófust og sérfræðingur í Seðlabankanum fann út meira en 80 prósent hennar fólst í auknum yfirdráttarlánum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2008 | 12:50
TIL SKAMMAR FYRIR OKKUR.
Hafi þeir, sem stóðu að því að rjúfa friðhelgi sendiráðs Dana með því að mála hnýfilyrði gegn þessari vinaþjóð okkar, haldið að með því gerðu þeir Dönum skömm, skjátlast þeim hrapallega. Íslenska þjóðin verður í staðinn að lifa við þá skömm að hér á landi skuli svona viðgangast. Þetta er hneisa og tímaskekkja að auki. Þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst lögðust menn aldrei svona lágt í hita þess leiks.
Mig minnir að ég hafi áður rökstutt það í bloggpistli að það hafi verið ein mesta gæfa Íslendinga að Danir réðu hér á öldum áður en ekki einhver önnur þjóð. Ekki var um það að ræða að Íslendingar gætu verið sjálfstæðir á þeim tímum vegna þess að þá var það ekki spurning hvort þjóðir í okkar aðstöðu gætu verið sjálfstæðar, heldur hvaða einvaldskonungur réði yfir þeim.
Einokunarverslunin illræmda hefði verið hér hvort sem Danir eða aðrir hefðu ráðið. Bretar lyftu ekki litla fingri þegar írar hrundu niður tugþúsundum saman í hungursneyð en Danir stóðu fyrir söfnun handa Íslendingum eftir Móðuharðindin.
Vitanlega færði einveldið okkur ýmsa kúgun en hún hefði líklegast verið mun meiri ef annar einvaldskonungur hefði ráðið hér. Ólíklegt er að önnur þjóð en Danir hefðu haldið helstu sjálfstæðishetju nýlendunnar uppi á sama hátt og Danir héldu Jóni Sigurðssyni uppi. Vafasamt er að við værum sjálfstæðir í dag, hvað þá að hér væru töluð íslenska.
Í Danmörku naut aðallinn þeirra fríðinda að aðalsmannasynir áttu aðgang að Kaupmannahafnarháskóla. Á móti kom skylda aðalsmannanna til að láta synina í té til herskyldu til varnar landinu.
Íslenski aðallinn samanstóð af embættismönnum, prestum og stórbændum, sem áttu 90 prósent allra landareigna í landinu. Synir þessara manna fengu sömu fríðindi í Kaupmannahafnarháskóla og aðalsmannasynirnir í Danmörku en þurftu ekki að hlíta herskyldu.
Enn í dag njóta börn þeirra Íslendinga, sem voru einhvern tíma þegnar Danakonungs, fríðinda í dönskum háskólum! Sonur minn komst að þessu þegar hann var við nám í skólanum í Horsens!
Í fróðlegri doktorsritgerð sænska prófessorsins Hans Gustafsson kemur fram að hvergi í Evópu réði einvaldskonungur jafn litlu og á Íslandi. Íslensku landeigendurnir gerðu allt sem þeir gátu til þess að koma í veg fyrir að þéttbýli myndaðist við sjóinn eins og í nágrannalöndunum.
Tillögur Danakonungs og landsnefndar hans til úrbóta 1771 voru nær allar hundsaðar af íslenska aðlinum. Hæstiréttur í Kaupmannahöfn kom í veg fyrir að ýmis dómsmorð væru framin á Íslandi.
Sjálfstæðisbarátta okkar var hörð en líklegast er einsdæmi að slík barátta skyldi ekki kosta eitt einasta mannslíf eins og hér.
Þrátt fyrir allt varðveittu Danir fyrir okkur handritin og engin þjóð hefur gert það sama og þeir, að afhenda slíkar þjóðargersemar tveimur öldum síðar.
Þarf ekki annað en litast um í frægustu söfnum Frakka og Breta til að sjá hve einstakt þetta drenglyndi Dana var.
Ég er ekki hrifinn af þeim viðhorfum gagnvart útrás okkar á fjármálasviðinu sem komið hafa fram hjá ýmsum aðilum í Danmörku. En við því er ekkert að segja. Þar í landi eins og á okkar landi ríkir skoðanafrelsi innan hæfilegra marka og ekkert við því að segja þótt einhverjir sjái þar ofsjónum yfir því sem við erum að gera í þeirra landi.
Fráleitt er að alhæfa vegna þessa um Dani almennt og enn fráleitara að grípa til lágkúrulegra og siðlausra aðgerða.
Nú hafa siðleysingjar sett blett á málstað okkar í tvennum skilningi með athæfi sínu á friðhelgri sendráðslóð Dana.
Ég skammast mín sem Íslendingur fyrir það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.3.2008 | 11:50
"VÁIN" FYRIR DYRUNUM Á SUÐURNESJUM.
Fréttin um að hvergi fjölgi fólki meira á landinu en á Suðurnesjum stingur í stúf við sönginn um að þörf sé stórkarlalegra handaflsaðgerða í formi stóriðju til að bægja þar vá frá dyrum.
Síðan ljóst var að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli myndi fara hefur verið rekinn linnulaus áróður fyrir mótvægisaðgerðum á Suðurnesjum. Þess vegna verði að reisa álver í Helguvík, annars verði kreppa og atvinnuleysi.
Andri Snær Magnason lýsti því skemmtilega hvernig hann sá fyrir sér bæjarstjórann í Reykjanesbæ sitja við líkan af Rosmhvalanesi og ætla að raða atvinnulausum starfsmönnum af vellinum eins og tindátum inn í komandi álver. En áður en tóm gæfist til þess voru allir atvinnulausu tindátarnir týndir, - þeir höfðu einfaldlega horfið sjálfkrafa inn í atvinnulífið og engin leið að finna þá.
Samt skal reisa álver, þótt ekki væri til annars en að geta flutt inn Pólverja til að leysa það mál.
Ástæða þess að bæjarstjórinn fann ekki tindátana, sem hann leitaði að, var einfaldlega sú við það að hvergi á landinu hefur fólki fjölgað jafn mikið og á Suðurnesjum undanfarin ár. En meira en 40 ára gömul síbylja um nauðsynina á gamaldags sovéskum lausnum í stíl stóriðju Stalíns hefur haft þau áhrif að meira að segja í þeim landshluta þar sem fólki hefur fjölgað mest tala menn eins og allt sé að fara í kaldakol og að leita þurfi lausna í stíl handaflsaðgerða í afskekktum byggðum þar sem raunverulegur samdráttur á sér stað.
![]() |
Íslendingum fjölgar um 1,9% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.3.2008 | 01:04
HVAÐ VAR SVONA MERKILEGT 10.MAÍ 1940?
Ég tók mér smá tíma í kvöld eftir langt hlé til að skoða ýmislegt varðandi myndina "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland", sem hefur verið í salti hjá mér í nokkra mánuði. Nokkrar staðreyndir: Hernám Íslands 10.maí 1940 var framkvæmt af 746 illa útbúnum hermönnum. Tugir þeirra höfðu aldrei hleypt úr byssum áður. Samt trylltist Hitler af bræði í búðum sínum í Eifel-fjallendinu þegar hann frétti þetta og skipaði Raeder yfirmanni sjóhersins að gera innrásaráætlun.
Fram að því höfðu Þjóðverjar ekki leitt hugann að Íslandi í neinni alvöru. Sú ætlun Breta að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gerðu það hafði hins vegar þau áhrif að innrásaráætlunin Ikarus var gerð.
Fram til 10. maí 1940 höfðu Þjóðverjar ætíð haft frumkvæði í hernaðaraðgerðum með innrásum sínum í Austurríki, Tékkóslóvakíu, Pólland, Danmörku og Noreg. Bandamenn gerðu ekkert annað en að bregðast við og áttu til dæmis enga sóknaráætlun tilbúna til að ráðast inn í Þýskaland. Þess vegna gat Hitler sent nær allar bryndrekasveitir sínar inn í Pólland án þess að þurfa að óttast sókn úr vestri inn í Þýskaland.
Sá sem ræður bardagavellinum og atburðarásinni hefur ævinlega forskot á andstæðinginn. Á því byggðist velgengni Þjóðverja meðal annars.
Þegar Bretar hernámu Ísland var það í fyrsta sinn sem frumkvæðið kom frá bandamönnum og kallaði á viðbrögð Þjóðverja. Það ærði Hitler að verða í fyrsta sinn að bregðast við frumkvæði andstæðingsins.
Áætlunin Ikarus gerði ráð fyrir að nota tvö af hraðskreiðustu herskipum Þjóðverja og tvö hraðskreiðustu farþegaskip þeirra. Sem dæmi um það hve hraði skipa hafði mikið að segja má nefna að Bretar töldu óhætt að láta Queen Mary sigla óvarða fram og til baka yfir Atlantshafið vegna þess að hún átti að geta sloppið undan árás hvaða skips sem var.
Í bók Þórs Whiteheads er því lýst hve auðveldlega Þjóðverjar hefðu getað tekið Íslands alveg fram á haust 1940.
Það var fyrst í ágúst sem níu flugvélar af gerðinni Fairy Battle voru komnar á Melgerðismela, en í Belgíu um vorið höfðu Þjóðverjar skotið slíkar vélar svo miskunnarlaust niður að þær fengu viðurnefnið "fljúgandi líkkisturnar."
Áætlunin Ikarus varð ekki að veruleika vegna þess að Þjóðverjar vissu ekki um neitt flugvallarstæði á íslandi sem hægt yrði að nota á sama hátt og þeir gerðu í innrásinni í Noreg þar sem yfirráð í lofti réðu úrslitum. Án yfirráða í lofti yfir Íslandi gætu þeir ekki haldið landinu.
Myndin "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" mun einmitt taka það fyrir, að í raun var þetta flugvallarstæði fyrir hendi án þess að útsendurum Þjóðverja hefði tekist að koma um það skilaboðum til Þýskalands.
Rannsóknarvinna vegna þessa er langt frá því að vera lokið. Hún hefur kostað ferðir til Bretlands, Noregs, Frakklands og vetrarferð til Demyansk í Rússlandi, sem er 500 km fyrir norðvestan Moskvu.
Það var gæfa Íslands, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, að kreppan stóð svo lengi hér á landi, að við vorum flugvallalaus í upphafi stríðs. Og þó. Já, það er nú einmitt það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.3.2008 | 23:42
MINNIR Á KEISARA- EÐA KONUNGDÆMI.
![]() |
Medvedev kjörinn forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2008 | 23:37
ÁLFTADALSDYNGJA, EKKI UPPTYPPINGAR.
![]() |
320 smáskjálftar við Upptyppinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2008 | 19:48
ÞETTA BER AÐ GERA EN HITT EIGI ÓGERT...
"Þetta ber að gera en hitt eigi ógert að láta" var stundum viðkvæði Emils Björnssonar, míns gamla fréttastjóra, um það þegar menn hikuðu við að framkvæma hlutina og stilltu málum þannig upp að tefla tveimur kostum gegn hvor öðrum. Stundum reynist að vísu óhjákvæmilegt að forgangsraða. Ég er sammála því að það sé hlálegt að láta stranda á 80 milljónum króna við að bjarga fyrstu þotu Íslendinga en hins vegar er ég ósammála því að álykta sem svo að rangt sé að varðveita önnur verðmæti, þótt það kunni að vera dýrara.
Þetta Gullfaxamál er enn eitt dæmið um það hve enn er langt í land með það að meta flugminjar sem skyldi. Því er það til dæmis fagnaðarefni ef gamli flugturninn á Reykjavíkurflugvelli fær að vera á sínum stað, hvort sem flugvöllurinn verður þar áfram eða ekki, en svo er að sjá á verðlaunatillögunni um Vatnsmýrarsvæðið.
Og, vel á minnst, "Gullfoss með glæstum brag" var skip sem hefði mátt varðveita og finna stað nálægt Óðni í Reykjavíkurhöfn.
![]() |
Fyrsta þota Íslendinga í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.3.2008 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.3.2008 | 09:15
ÍSLENSKUR MISSKILNINGUR Í ÚTLANDINU.
Mök erlendra karla í Bretlandi og Svíþjóð við reiðhjól valda undrun vegna þess að orðið bicycle getur alls ekki valdið þar sams konar misskilningi og orðið reiðhjól á íslensku, hvað þá dömureiðhjól. Hér á landi gætu þeir sem aðhefðust svonalagað reynt að afsaka sig með því að hafa misskilið nafnið á hinu "misnotaða" tæki.
Lögreglurannsókn á svona meðferð á reiðhjólum gæti leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós. Til dæmis það að karlmaður sem "misnotaði" karlmannsreiðhjól fremur en dömureiðhjól kæmi með því upp um samkynhneigð sína.
![]() |
Hafði mök við dömureiðhjól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2008 | 00:56
MANNAUÐURINN ER VERÐMÆTASTUR.
Baltasar Kormákur er gott dæmi um þau verðmæti sem felast í menntun landsmanna sem laðar fram það besta úr hverjum manni. Sú var tíðin að menn kumruðu yfir því fjármagni sem væri "eytt" í kvikmyndagerð og listir og því stillt upp sem andstæðu þess að fjárfesta í "framleiðslugreinum" sem gæfu sem flestu verkafólki atvinnu. Sú hugsun var eðlileg og nauðsynleg fyrir 40 árum en er það ekki lengur, því að velgengni þjóða á 21. öld byggist fyrst og fremst á því að mannauðurinn sé mikilvægari en megavöttin.
Nú þegar gefa menning og listir af sér stærri skerf til þjóðarframleiðslu og tekna en landbúnaðurinn, svo dæmi sé tekið.
Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á þá ómissandi vinnu sem inna verður af hendi við framleiðslustörf eða umönnunarstörf. Sjálfur hefði ég ekki viljað missa af þeim lærdómi, sem flest ungt fólk fer á mis við í dag, en fólst í því í gamla daga að æskufólki gafst færi á að vinna verkamannastörf bæði í borg og í sveit um helgar og í skólafríum á sumrin.
Það víkkaði sjóndeildarhringinn og skilning á þjóðlífinu að kynnast beint á þann hátt öllu litrófi atvinnulífs og mennta.
En það stingur í augun að hvergi í nálægum löndum eru eins margir sem ekki fara út í neitt framhaldsnám eftir skyldunám og að starfsmenntun og verkmenntun hér á landi þarf mikillar eflingar við.
![]() |
Baltasar: Getur breytt öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)