5.3.2011 | 08:47
"Börnin fá mat en foreldrarnir svelta..."
Fyrir rúmum 60 árum var eitt af þeim lögum, sem sungin voru þá í útvarpi og höfðu mest áhrif á mig, lagið, sem Elsa Sigfúss söng við texta Davíðs Stefánssonar um kofa verkamannsins og byrjaði einhvern veginn svona:
"Þeim gleymist oft sem girnast glaum og dans
að ganga hægt hjá verkamannsins kofa.
Ó, hafið lágt við litla gluggann hans
og lofið dagsins þreytta barni´að sofa...."
Í textanum er lýst kjörum hins fátæka verkamanns, sem býr í hreysi, kjörum veikrar móður og barna sem búa við mikinn skort. Og ljóðið endar svona:
"Börnin fá mat en foreldrarnir svelta."
Þetta lag hefur ekki verið spilað svo ég muni í marga áratugi enda bötnuðu kjör fólks jafnt og þétt eftir að Davíð orti hið eftirminnilega ljóð.
Það er því nöturlegt ef þetta ljóð fær aftur að verða áminning til okkar, sem nú lifum.
Fyrir tuttugu árum staðfærði ég textann við lagið "Streets of London" og nefndi það "Öngstræti borgarlífsins."
Textinn fjallaði um kjör og líf þeirra, sem eru utangarðs á okkar tímum og Bubbi Morthens söng það í sjónvarpsþætti en seinna söng Halli Reynis það á diski sínum.
Sumum fannst farið of langt í þessu texta mínum og höfðu kannski eitthvað til síns máls.
Því miður sýnist mér að sumt í honum sé farið að eiga við í dag.
P. S. Innsláttarvilla átti sér stað í fyrirsögninni, sem var slegin inn í morgun, en nú, 14 stundum síðar, kem ég að tölvunni og sé athugasemd um hana. Takk, leiðrétti hana hér með.
![]() |
Svelta sig svo börnin fái mat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
4.3.2011 | 23:03
Írland og Ísland.
Saga Íslands og Írlands hefur stundum tvinnast saman í gegnum aldirnar. Raunar eru liðnar að minnsta kosti 1200 ár síðan Írar sigldu til Íslands og Norðmenn nefndu Papa.
Það voru ekki aðeins þrælar eða munkar sem komu til Íslands frá Írlandi, heldur gerðist það samtímis að norrænir menn urðu að hrökklast frá Írlandi og var það áreiðanlega kynblandað fólk að stórum hluta sem kom á þennan hátt til landsins.
Og ekki má gleyma höfðingjakonunni Auði djúpúðgu sem dæmi um þann straum, sem kom frá Írlandi til Íslands og gerði það að verkum að talið er að Íslendingar séu að einum þriðja hluta ættaðir frá Bretlandseyjum.
Áður en báðar þjóðirnar fengu fullveldi um svipað leyti á tuttugustu öldinni voru þær undir erlendu valdi og voru Írar sýnu óheppnari en Íslendingar.
Þegar Móðuharðindin léku Íslendinga grátt gengust Danir fyrir söfnun til aðstoðar Íslendingum og eftir þau varð aldrei aftur hungursneyð á Íslandi þótt lífsbaráttan væri mjög hörð í misjöfnu árferði.
Nýlenduveldin létu sig litlu skipta á þessum öldum kjör þjóðanna, sem þau réðu yfir.
Hins vegar hrundi fólk niður tugþúsundum saman úr hungri á Írlandi þegar uppskerubrestur varð þar án þess að Englendingar aðhefðust neitt sambærilegt við það sem Danir gerðu þó til hjálpar Íslendingum.
Ef Bretar hefðu ráðið yfir Íslandi töluðum við áreiðanlega ekki íslensku og þegar farið er um eyjarnar Orkneyjar og Hjaltland sést mikill munur á högum fólksins þar eða á Íslandi.
Sjálfstæðisbarátta Íra kostaði miklar blóðfórnir en athyglisvert er að sjálfstæðisbarátta Íslendinga kostaði ekkert mannslíf, en það er fágætt.
Það er gott að nú sé hugað að því að græða þau sár, sem þarf að græða úr sambúð Englendinga og Íra og láta nýja tíma renna upp.
![]() |
Fyrsta heimsóknin til Írlands í 100 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2011 | 14:54
Leitið og þér munuð finna?
Eftir því sem jarðefnaeldsneyti þrýtur á jörðinni mun herðast leitinn að nýjum orkugjöfum.
Engan grunaði í upphafi kreppunnar á síðustu öld að eftir aðeins rúman áratug væri búið að beisla kjarnorkuna.
Þá töldu margir hana framtíðarlausnina en annað kom í ljós.
Þegar lífefnaeldsneyti kom upp á borðið töldu margir það vera lausnina en ræktunin, sem stendur undir henni er svo landfrek að leggja þyrfti heilu fylkin undir hana og á sama tíma er þörfin fyrir matvælaframleiðslu sífellt brýnni.
Komið hefur fram að að jarðvarmaorka heimssins sé svo tryllingslega mikil að hún geti gefið mannkyninu miklu meiri orku en það þarf.
En með núverandi tækni er hins vegar aðeins hægt að nýta brotabrot af henni og oft alls ekki á sjálfbæran hátt.
Segja mætti að samanlögð orka í öllum haföldunum kringum Ísland gæti leyst orkuvanda Evrópu en tæknina til að nýta hana vantar.
En leitin heldur áfram að og verður að halda áfram því að ef ekki er leitað finnst ekki neitt.
Á meðan vex þörfin á byltingu í hugarfari hvað varðar það að sóa og bruðla með verðmæti jarðarinnar líkt og gert er.
![]() |
Framleiða eldsneyti úr sól, vatni og koldíoxíði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2011 | 00:27
Rétt eins og höfnin.
Reykjavíkurflugvöllur tekur nú upp 7% af landi Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Reykjavíkurhöfn tekur upp svipað rými. Miklabrautin tekur rúmlega 3% af þessu svæði.
Sífellt er verið að tala um að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur svo að hægt sé að reisa íbúðabyggð á vallarsvæðinu en enginn talar um að flytja siglingarnar til Njarðvíkur.
Samt er það svo að allar flugleiðir innanlands mun lengjast við það að flytja flugið suður á Miðnesheiði en siglingar erlendis frá til aðalhafnar landsins myndu hins vegar styttast ef Reykjavíkurhöfn yrði lögð niður.
Ef innanlandsflugið er flutt til Keflavíkur lengist ferðaleið þess, sem þarf að fara fram og til baka milli Reykjavíkur og Akureyrar um samtals 160 kílómetra eða tvöfalt lengra en ef Hvalfjarðagöng yrðu lögð niður.
Sagt er að völlurinn hafi valdið því að byggð fór austur fyrir Elliðaár og þessu þurfi að snúa við.
Hvernig 7% af byggingarlandinu vestan Elliðaáa gátu skipt sköpum um það að 130 þúsund manns eiga nú heima austan ánna er mér hulin ráðgáta. Eða hvaða hverfi og byggðir austan Elliðaáa eigi að tæma til að flytja 45 þúsund manns í Vatnsmýrina.
Sagt er að umferð og umferðarslysum muni fækka um 40% ef byggð sé 45 þúsund manna byggð á núverandi flugvallarsvæði, því að allir ibúar þess muni vinna á þessu svæði og enginn fara um nema gangandi eða í almenningssamgöngum og þá niður á Laugaveg til að versla.
Einnig virðist reikna með að um engan í hverfinu muni gilda það að hann leiti sér vinnu utan þess.
Sagt er að Reykvíkingar muni græða milljarða á því að selja lóðir á svæðinu. Svo er að sjá að þessir peningar muni detta af himnum ofan og enginn muni borga fyrir lóðirnar og eyða til þess peningum sem annars hefðu farið í eitthvað anna.
Nú er það svo að það er styttra í Kringluna heldur en niður á Laugaveg en samt halda menn að fólk muni berjast gangandi á móti norðangarra til að versla við Laugaveg heldur en að fara í Kringluna.
Sagt er að miðja verslunar og þjónustu muni verða í gamla miðbænum ef íbúðabyggð rísi í Vatnsmýri.
Stærstu krossgötur landsins eru hins vegar fimm kílómetrum austar á línunni Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn. Það er alþjóðlegt lögmál að krossgötur laða að sér verslun og þjónustu. Gamli miðbær Reykjavíkur eru úti á nesi. Möguleikar hans eru að vera manneskjuleg, vinaleg og aðlaðandi byggð, full af sögulegum og menningarlegum minjum, - ekki að keppa við Smáralind eða Korputorg.
Sagt er að höfuðborgarsvæðið sé margfalt dreifbýlla en í sambærilegum borgum Evrópu.
Þá miða menn við milljónaborgirnar Kaupmannahöfn, London og Brussel.
Í norrænni skýrslu um 16 borgir á Norðurlöndum kemur fram að þær tíu þessara borga sem eru á stærð við Reykjavík eru með álíka dreifða byggð eða jafnvel dreifðari. Þessari skýrslu var stungið ofan í skúffu í borgarkerfinu á sínum tíma.
Sagt er að Reykjavíkurflugvöllur sé einsdæmi hvað varðar nálægð byggðar við hann. Allir sem hafa flogið til útlanda vita að þetta er ekki rétt. Í Los Angeles eru fjórir flugvellir og aðeins einn af ca 20 flugbrautarendum liggur að auðu svæði.
Í og rétt við Stokkhólm eru fjórir flugvellir og allir vita um legu Kastrupflugvallar. Gunnar Þorsteinsson skoðaði á sínum tíma hve langt væri frá flugvöllum til borga að meðaltali í heiminum og það voru sjö kílómetrar ef ég man rétt.
Hægt er að breyta Reykjavíkurflugvelli með því að lengja austur-vestur-brautina út í Skerjafjörð og gera nýja, stutta norður-suður-braut, sem aðeins yrði notað í norðan eða sunnan hvassviðri. Aðflugið yrði fyrir utan Kársnes. Talsvert rými myndi losna við þetta.
Haldin var dýr samkeppni um íbúðabyggð í Vatnsmýri en engin samkeppni um það hvernig svæðið gæti litið út með breyttum flugvelli.
Það er ekki einkamál Reykvíkinga hvort fólk á landsbyggðinni þarf að lengja ferð fram og til baka til Reykjavíkur um 160 kílómetra. Ekkert frekar en að það sé einkamál Blönduósinga hvort norðurleiðin um land Blönduósbæjar verði stytt um 14 kílómetra. Síðan gleymist það að það yrðu líka Reykvíkingar sem myndu þurfa að lengja ferðaleið sína fram og til baka um 160 kílómetra í hvert skipti sem þeir flygju út á land.
Kominn er tími til að slá því föstu að höfuðborg landsins verði með eins góð og hentug mannvirki til samgangna á landi, sjó og í lofti og eðlilegt er. Því að það er eðli borga að þær verða til og dafna vegna samgangna.
Þegar menn vilja fjarlægja samgöngumannvirki til þess að reisa íbúðabyggð í staðinn gleyma þeir því að lega borga gagnvart samgöngum skóp íbúðabyggðina.
Þegar köngulóin í ævintýrinu hafði gert undur fallegan vef fannst henni þráðurinn að ofan, sem hún hafði komið eftir, ekki passa inn í myndina og klippti á hann. Þá féll vefurinn saman.
Það á vel við að líkja flugvelli við þráðinn að ofan.
![]() |
Vilja flugvöllinn áfram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
3.3.2011 | 19:04
Allir vita það...
Hlálegt er að sjá hvernig reynt er að fela það hvert leiguverð íbúða er á markaðnum og láta líta svo út sem það sé miklu, milklu lægra en það er.
Ég var að hlusta á frétt Stöðvar 2 um þetta og undrast hvernig ráðuneyti getur haldið fram tölum, sem allir þeir, sem eru á þessum markaði og fylgjast með honum, vita að eru langt fyrir neðan það sem gengur og gerist.
Einn af þeim fjöldasöngvum, sem ég á í handraðanum til að leyfa fólki að syngja á skemmtunum, ætti kannski vel við ef ég skemmti hjá ráðuneytinu, sem húsnæðismál heyra undir. Viðlagið er svona:
Svona gengur það.
Svona er það.
Allir vita það.
En enginn sér það.
![]() |
Könnun á leiguverði umdeilanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2011 | 18:56
Framúr Íslendingum?
Leitun er að landi þar sem aðstæður eru eins góðar til þess að knýja bíla og skip með hreinni og endurnýjanlegri orku eins og á Íslandi.
Allt rafmagn frá orkuverum á Íslandi kemur frá vatnsorku- eða jarðvarmaorkuverum.
Samt virðast Eistlendingar nú vera að taka forystu meðal þjóða að þessu leyti, en ljóst er af landsháttum í Eistlandi að orkuöflunin fyrir rafbílakerfi þeirra er ekki eins umhverfisvænt og á Íslandi.
Í flestum löndum er staðreyndin nefnilega sú, að aðeins er um að ræða tilflutning á notkun orku, sem kemur að mestu frá notkun jarðefnaeldsneytis eða kjarnorku og hvorugt telst endurnýjanleg orka.
Ávinningurinn felst hins vegar í mun hagkvæmari nýtingu orkunnar á hverja orkueiningu en fæst með orkunotkun hvers bensín- eða dísibíls fyrir sig.
![]() |
Eistar setja upp rafbílakerfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.3.2011 | 14:03
"Light heavy industry"?
Heitið stóriðja er íslensk þýðing á enska hugtakinu "heavy industri", en annað íslenskt orð er "þungaiðnaður". Orðahlutarnir "stór-" og "þunga-" tákna að um sé að ræða stórar verksmiðjur með miklu framleiðslumagni og oftast einhæfu líka, þ. e. hráefni fyrir annan iðnað.
Það er út af fyrir sig hægt að nota orðalagið "litlu sætu stóriðjuna" til að lýsa á myndrænan og skemmtilegan hátt andstöðu við þá stóriðju sem við þekkjum og ekki skal ég draga af þakklæti mínu til Marðar Árnasonar sem góðs baráttumanns fyrir stefnubreytingu í orku- og virkjanamálum Íslendinga.
Mörður var formaður Græna netsins, sem félag umhverfissinnaðs fólks í tengslum við Samfylkinguna og er öflugur á þessu sviði.
En strangt til tekið er ekki til neitt sem heitir "lítil stóriðja" eða "léttur þungaiðnaður", "light heavy industry". Að minnsta kosti hef ég hvergi í erlendum bókum eða tímaritum séð talað um "light heavy instustry". m
Mörður hefur eina hliðstæðu um svona orðanotkun til að styðjast við þótt af ólíkum toga sé.
Framan af var þungavigt efsti þyngdarflokkurinn í hnefaleikum. Síðan fannst mönnum þurfa að skipta þessum þyngdarflokki, sem spannaði frá 175 pundum upp í um og yfir 300 pund í fleiri þyngdarflokka og bjuggu til þrjá flokka, léttþungavigt, milliþungavigt og þungavigt.
Þetta var gert til samræmis við það að léttari þyngdarflokkum var skipt upp í flokka, til dæmis léttmillivigt, millivigt og yfirmillvigt.
Að þessu leyti hefur Mörður hliðstæðu til að miða og er ágætt að varpa nýju ljósi á stöðuna í Þingeyjarsýslum.
Hins vegar þarf að gæta að því fara um víðan völl með orðið stóriðja.
Stundum hefur verið sagt að hitt og þetta í atvinnulífi, sem er óskylt framleiðslu á rafmagni og áli geti kallast stóriðja á sínu sviði. Þetta virkar alltaf svolítið skondið á mig þótt ætlunin með þessu sé að gefa óbeinan samanburð.
Mörður er íslenskufræðingur og þessi pistill er skrifaður okkur báðum til gamans, svona eins og spjall ef við hefðum hist á kaffistofu Alþingis.
![]() |
Lítil og sæt stóriðja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
3.3.2011 | 10:52
Loksins, eftir öll þessi ár?
Frá því að ég byrjaði að fjalla um bíla og vélbúnað í Sjónvarpi og í dagblaðinu Vísi fyrir 35 árum hafa iðulega haft samband við mig menn, sem hafa viljað fá mig til að kynna uppfinningar, ýmist vélbúnað eða efni, sem þeir hafa fullyrt að minnki eyðslu um tugi prósenta, mengun jafnvel meira auk annarra stórra kosta.
Rökstuðning hefur ekki vantað og meira að segja hef ég fengið að sjá búnaðinn og vera viðstaddur mælingar á virkni hans, síðast fyrir örfáum árum, þegar ég eyddi lunganum úr degi til þess að verða vitni að kraftaverkinu.
Í það skiptið var ég fullur efasemda frá upphafi og þótt ég hefði tekið bæði kvikmyndir og viðtöl vildi ég ekki fara með þetta í loftið, fyrr en mælingum á viðurkenndu verkstæði væri lokið.
Efasemdir mínar byggðust á því að ég hafði ekki séð neitt um svona lausnir í þeim tæknitímaritum, sem ég les.
Myndirnar sem ég tók og mælingarnar reyndust til einskis og þar með slapp ég við að flytja frétt, sem hefði verið hrakin auðveldlega.
Margar af þeim hugmyndum, sem ég hef sloppið við að kynna í gegnum tíðina litu afar vel út á pappírnum og virtust hreint ekki svo galnar. En í engu þessara tilfella hingað til varð neitt úr neinu og í ljós kom að full ástæða hafði verið til að fara afar varlega í fréttamennskunni.
Það þarf nefnilega að svara mörgum spurningum áður en farið er af stað með svona mál.
1. Liggja fyrir vandaðar, nákvæmar og réttar mælingar á áhrifum tækninýjungarinnar?
2. Er búið að prófa hann nógu lengi, vel og við mismunandi aðstæður til þess að útiloka allar aukaverkanir og sannreyna áhrifin á endingu vélarinnar?
3. Er trúlegt, til dæmis í þessu tilfelli, að dregið sé úr mengun um 70% - 80%? Þetta er ekki neitt smáræði. Við erum að tala um milljarða tonna í heiminum, ef svona búnaður nær útbreiðslu og nánast lausn á útblásturvandanum, sem veldur gróðurhúsaáhrifum og hlýnandi loftslagi, bráðnun jökla, sökkvandi eyjum og stórborgum o. s. frv.
4. Minnkun eyðslu um 30%? Þetta er jafn mikil minnkun og helstu véla- og bílaframleiðendur hefur tekist að kreista fram með ótal tæknilegum uppfinningum í 20 ár. Þetta samsvarar á heimsvísu meira en allri eyðslu Bandaríkjamanna.
Nú höfum við að vísu heyrt að voldugustu bílaframleiðendur og olíufyrirtæki hafi tafið fyrir framförum með því að kaupa sjálf einkaleyfi og nota þau eða koma í veg fyrir að þau yrðu notuð og að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum.
Mikið óskaplega væri gaman, já aldeilis frábært, ef íslenskir tæknimenn væru að leysa 70-80% af mengunarvanda bensín- og dísilvéla fyrir ekki meiri pening. Það jaðrar við heimsbyltingu í vandanum vegna gróðurhúsalofttegunda.
En áður en við stökkvum upp fyrir skrifstofuturninn í Borgartúni af fögnuði yfir þessu legg ég til að fyrst liggi fyrir óyggjandi sannanir fyrir þessu og útkoman á ítarlegum prófunum, ekki bara fyrir því að ávinningstölurnar séu réttar, heldur líka fyrir endingunni og öðrum þáttum.
Það væri æðislegt að flytja fréttir af þessu um heimsbyggðina, en ég minnist þess líka hvað ég var spenntur fyrir því að flytja allar fagnaðarfréttirnar af sama toga, sem aldrei voru fluttar á fréttamannferli mínum.
En ég tek ofan fyrir þeim, sem leita lausna og hugsa hátt. Þrátt fyrir allt gildir nefnilega það sem gamla förukonan í Langadalnum sagði við mig fyrir 60 árum: " Það stekkur enginn lengra en hann hugsar."
![]() |
Minnkar bensíneyðslu um 30% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)
2.3.2011 | 20:43
Íslandssólin mín.
Mikið er ég ánægður yfir því að Herdís Þorvaldsdóttir skuli hafa hlotið verðskuldaða viðurkenningu og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV.
Ég sá Herdísi fyrst í hlutverki Snæfríðar Íslandssólar í Íslandsklukku Laxness skömmu eftir vígslu Þjóðleikhússins og þótt ég hafi séð verkið nokkrum sinnum síðan er hún mín Íslandssól æ síðan.
Hún er raunar Íslandssól á fleiri sviðum, því að óþreytandi elja hennar og barátta fyrir bættri meðferð á gróðurlendi Íslands er aðdáunarverð.
Ég óska henni innilega til hamingju með heiðurinn og sendi þessari valkyrju baráttukveðjur mínar.
![]() |
Herdís fékk heiðursverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2011 | 20:05
Fornsagnahetja á 21. öld.
Thor Vilhjálmsson skipar svipaðan sess í huga mér og að hann hafi verið fornsagnahetja á 21. öld.
Ég kynntist honum fyrst fyrir 20 árum og hann kom mér mjög á óvart því að myndin sem ég hafði haft af honum fram að því reyndist kolröng eins og oft vill verða þegar um er að ræða persónu, sem maður þekkir ekkert nema af afspurn.
Frá þessum fyrstu kynnum hefur sú útgeislun og jákvæðu áhrif, sem Thor hefur haft á mig og áreiðanlega fleiri, verið mikil uppörvun fyrir mig, eins og sólargeisli í hvert sinn.
Einkum hefur sú aðferð, sem hann hefur notað í glímunni við Elli kerlingu hin síðari ár, að þjálfa líkama sinn og hug eins og unnt hefur verið, verið eins og sólargeisli í hvert sinn sem við höfum hist og rætt saman.
Þegar ég hitti hann fyrir skömmu var ekki að heyra á honum neitt uppgjafarhljóð hvað varðaði íþrótt hans, júdóglímuna. Ó, nei, hann var enn að og engan bilbug á honum að finna.
Sjálfur Þór glímdi við Elli kerlingu og varð að lúta í lægra haldi. Thor lét sig ekki muna um að takast á við hana líka á glæsilegri hátt en flestum er unnt, eins og þær hetjur í fornsögum sem gengu á hólm við eldspúandi dreka óhræddir og stórhuga.
"Sjá, hvlík brotnar bárumergð /
á byrðing einum traustum /
ef skipið aðeins fer í ferð /
en fúnar ekki í naustum"...
orti Hannes Hafstein í ljóðinu sem byrjar á setningunni: "Já, láttu gamminn geysa fram..."
Nú hefur Thor orðið að beygja sig fyrir því sem allir dauðlegir menn þurfa að gera, en fallið með meiri sæmd en flestir aðrir sem glíma við aldurinn og ég vil þakka honum fyrir ógleymanleg kynni og vináttu og votta Margréti, konu hans, og öðrum aðstandenndum samúð mína.
![]() |
Thor Vilhjálmsson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)