Þarf á hirtingu að halda.

Í hægri-vinstri (markaðshyggju-félagshyggju) litrófi stjórnmálanna er þörf á heillbrigðum og heiðarlegum stjórnmálaflokkum, hvernig sem þeir skilgreina sig. Ef tekin er hliðstæða í knattspyrnunni er það öllum í hag að sem flest góð knattspyrnufélög leggi sitt af mörkum.

Því er það dapurlegt þegar gamalfræg lið falla úr úrvalsdeild og þurfa keppnistímabil til þess að ná sér aftur upp. En úr því að viðkomandi liði fataðist flugið og gerði mistök á annað borð, er nauðsynlegt fyrir það og heildina að það taki sér tak, bæti ráð sitt og komi tvíeflt til leiks á ný.

Það er nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnmál að hægra megin sé flokkur sem hefur lært af mistökum sínum, axlað ábyrgð á þeim og hreinsað það út sem öðru fremur hefur leitt hann og þjóðina þangað sem hún er nú komin.


mbl.is Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur fleiri spurningar en svarað er.

Ótrúlega margt hefur þegar komið fram í bókhaldi stjórnmálaflokkanna fyrir aðeins eitt ár, 2006. Hvað myndi þá koma upp úr dúrnum ef birt væri bókhald þeirra frá fyrri árum og áratugum, - árunum sem Sjálfstæðisflokkurinn mátti skiljanlega ekki til þess hugsa að neitt yrði gefið upp um þetta efni.

Hverjir skyldu til dæmis hafa styrkt Framsókn í kosningunum 1999, 2002 og 2003? Eða næstu ár á undan, 1998 og 2001?

Ég nefni þessi ár vegna þess að flokkarnir þurfa mest á styrk að halda á árum eins og 2006 og 2007, þar sem tvö kosningaár fara saman.

Þess vegna var svolítið skondið að heyra fréttamenn segja í dag að "sérstaka athygli vekti" að framlögin voru hærri árið 2006 en næstu ár á undan.

Spillingin er dýr og djúp
og djöfullega hál og gljúp.
Losnar nú um leyndarhjúp
um Landsbankann og Fl Group.


mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamar hraðamerkingar.

Það vakti athygli mína á leiðinni um Norðurárdal í kvöld að á nokkur hundruð metra löngum kafla fyrir neðan Bifröst voru merki sem sýndu 30 kílómetra hámarkshraða. Þegar komið var á þennan kafla kom í ljós að hann var í engu frábrugðinn öðrum vegarköflum sem eru með 90 kílómetra hámarkshraða.

Þessi fráleita merking olli vandræðum meðað bílstjóra, sem voru eðlilega misfljótir að átta sig á hvers kyns var. Sumir hægðu snarlega á sér og ollu vandræðum fyrir þá sem á eftir fóru og hófu framúrakstur.

Ég hringdi í lögregluna í Borgarnesi og fékk þá útskýringu að verktakar hefðu verið að vinna þarna í fyrradag en væru nú komnir í fimm daga páskafrí. Merkinganna hefði verið þörf fyrir fríið og þeirra yrði aftur þörf eftir fríið.

En hvernig í ósköpunum eiga vegfarendur að vita þetta? Þetta minnir mig á atvik á Hellissandi fyrir mörgum árum þegar aðkomumaður lenti í árekstri á gatnamótum við bíl sem ók á móti aksturstefnunni. Í fyrstu stóð til að dæma manninn í órétti á þeim forsendum að allir á Hellissandi vissu að það færi enginn eftir bannmerkjunum !

Ég ætlaði að gera um þetta frétt en áður en af því yrði var málið leyst á annan veg.

Þegar ég var strákur staddur niðri á höfn varð ég ásamt fleirum vitni að því að kastað var spring úr skipi yfir á bryggjuna og maður, sem átti að taka á móti, steig út fyrir bakkann og féll í sjóinn. Á leiðinni niður kallaði hann: "Það var planki hérna í fyrra ! "

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem verktakar valda vandræðum og hættu í umferð með því að skilja eftir merkingar sem eru í engu samræmi við aðstæður. Ég kaupi ekki svarið: "Það voru menn að vinna þarna síðastliðinn miðvikudag."


Erfið færð ?

Ég var að koma suður Holtavörðuheiði um áttaleytið. Þar er að vísu ekki mikið skyggni og norðan strekkingur, og vegurinn þakinn snjó, en skaflar eru þar litlir og með ólíkindum finnast mér fréttir um að ökumenn hafi átt í verulegum vandræðum þarna og lent í óhöppum, hvað þá að þarna teljist vera "erfið færð."

Ég var á minnsta bílnum, sem nú er í umferð á Íslandi, en að vísu ágætlega hátt undir hann og vegna þess að vélin er fyrir aftan afturhjólin er gripið það gott á afturhjóladrifinu að ekki hefur þurft að negla hjólbarðana þar.

Færðin getur hins vegar verið "erfið" fyrir fólk sem lendir í vandræðum í hvaða snjóföl sem er.


mbl.is Slæmt veður á Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrðarlandið milli "leggjanna" beggja.

Ég var á skemmtun á Siglufirði í fyrrakvöld þar sem hagyrðingar létu gamminn geysa. Á leiðinni þaðan austur til Mývatnssveitar veittist sú ánægja að aka um Fljótin og nýopnaða Lágheiðina í frábæru veðri. Þótt Kristján L. Möller slægi í gegn í síðasta hafti Héðinsfjarðarganga gafst ekki tækifæri til að far um þau og stytta sér enn frekari leið.

Á skemmtuninni var talsvert ort um göngin og talað um það hvort þau myndu fá nafnið Stelpugöng úr því að göngin til vesturs frá Siglufirði hétu Strákagöng.

Talað var um tvo "leggi" (ég vil kalla þá áfanga) á göngunum, en á milli þessara tveggja "leggja" er unaðsríkið Héðinsfjörður sem hingað til hefur verið eiin eyðifjörðurinn allt frá Ingólfsfirði á Ströndum austur til Loðmundarfjarðar á Vestfjörðum (afsakið - Austfjörðum, - innsláttarvilla) og því verðmætur sem slíkt fágæti.

Forðum gerði ég þátt um Héðinsfjörð og þess vegna varð til þessi vísa í fyrrakvöld í tilefni af umræðunni um stelpugöngin, leggina og fjörðinn dýrlega.

Ljúfir eru leggir tveir
sem lýsa kvennasnilli
en þó veit Guð ég þrái meir
það sem er á milli.


mbl.is Hálkublettir víða á vegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vald peninganna.

Það hefði verið "grand" hjá Íslandshreyfingunni - lifandi landi að fara í kosningabaráttu núna og segja við fólk: "Við höfum ekkert að bjóða, engar auglýsingar, kosningaskrifstofur, fundi eða bæklinga, - ekkert að bjóða nema okkur sjálf og hugsjónir okkar."

Af svörum yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna við spurningunni um þetta mátti ráða að þetta væri ekki raunhæft, sérstaklega með tilliti til þeirrar áhættu að í kraðaki margra smárra framboða myndi vera meiri hætta en minni á því að gera ógagn að þessu sinni þótt okkur tækist að gera gagn í síðustu kosningum. 

Hreyfingin fór því inn í Samfylkinguna, fann þar eðalgræna samherja og studdi þá til þess að móta mikilvæga þætti í stefnumótum landsfundar, sem sumir marka tímamótl þótt það hafi ekki vakið athygli um sinn. 

Áður hafa menn boðið sig fram án þess að hafa fjármagn. Það hafa þeir gert í þeirri trú að hugsjónir þeirra og heiðarleiki nægðu.

Ég get nefnt nokkra en læt tvo nægja. Ólafur Björnsson prófessor var einstakur heiðusmaður sem ég kynntist sem læriföður í lagadeild Háskólans. 

Hann taldi sig vera talsmann bestu gildanna sem hann vildi að flokkur sinn, Sjálfstæðisflokkurinn, berðist fyrir. Hann andæfði því siðlausa fyrirgreiðslu- og sjálftökukerfi sem tíðkaðist á haftaárunum í spillingu helmingaskiptastjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Ólafur þurfti lengi vel ekki að óttast um þingsæti sitt, svo mikill grundvallarhugsuður sem hann var fyrir flokkinn. Þegar hann var varaður við því að keppinautur hans í prófkjöri fengi digran styrk frá Ísal í Straumsvík kvaðst hann treysta dómgreind kjósenda og ekki vilja taka þátt í peningakapphlaupi prófkjörsins.

Ólafur tapaði í prófkjörinu og var sleginn út úr íslenskri pólitík. Síðan kalla margir hann og hans líka vafalaust "lúsera." Þeim hinum sömu væri hollt að hugsa til þess að nú er gengin í garð hátíð sem byggist á því þegar líflátinn var einhver mesti "lúser" allra tíma.

Eða hvað var Kristur annað þegar hann sagði á krossinum: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda mínn."

Í mínum huga er Ólafur Björnsson ekki lúser heldur sigurvegari. Svipað er að segja um Guðmund G. Þórarinsson sem tapaði fyrir ofurefli spillts mótframboðs í prófkjöri á sínum tíma. Af því kann ég magnaða sögu sem ég geymi með sjálfum mér.

Aðalatriðið nú er það að ég og skoðanasystkin mín erum í tímakapphlaupi við virkjanasinna sem stefna nú ótrauðir áfram þrátt fyrir kreppu og sækja meðal annars með umhverfisspjöll sín inn á heimsundrið Leirhnúk-Gjástykki, sem ég bloggaði um um daginn.

Ég tyllti mér niður hér á Akureyri til að blogga þetta á leið austur á þennan nærtækasta bardagavöll umhverfismála á Íslandi þar sem búast má við jarðýtum og borum í eyðandi sókn á þessu ári hvernig sem allt annað veltist. 

Ég væri ekki staddur hér í bráðnauðsynlegri ferð ef ég væri á kafi í kosningabaráttu eins og fyrir tveimur árum.  


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistókst í 65 ár.

Í 65 ár hafa íslenskir alþingismenn haft tækifæri til að standa við stóru loforðin, sem gefin voru við lýðveldisstofnunina um að lagfæra stjórnaskrána, sem að stofni til er runnin frá stjórnarskrá Danmerkur 1849.

Sumar stjórnarskrár, eins og sú bandaríska, hafa staðist vel tímans tönn. Það segir þó ekkert um það hvort aðrar stjórnarskrár henti jafn vel öld fram af öld. Sú danska frá 1849 er að talsverðu leyti orðin úrelt og þarfnast skurðaðgerðar.

Ótal stjórnarskrárnefndir hafa verið stofnaðar frá 1944 en nánast engum þeirra hefur tekist að koma með neinar breytingar sem skipta máli. Fækkun kjördæmanna úr átta í sex fyrir áratug var ekki stórfelld breyting.

Einu breytingarnar sem jöfnuðu vægi atkvæða að einhverju marki voru gerðar eftir tvennar kosningar sama árið.

Það var árið 1942 og síðan aftur 1959. Það er athyglisvert að þessar nauðsynlegustu breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni, voru ekki gerðar í margutalaðri sátt, sem sífellt er klifað á að sé forsenda gagnlegra breytinga, heldur barðist Framsóknarflokkurinn hatrammlega á móti.

Það má því leiða að því rök að forsenda þess að koma þessum mikilvægu réttarbótum í framkvæmd hafi einmitt verið að láta ekki minnihlutann taka málið í gíslingu og eyða því.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir breytingum á kjördæmaskipaninni á sínum tíma en vill nú taka málið í gíslingu eins og Framsóknarflokkurinn forðum.

Það er engin furða að við siðrof og efnahagslegt og stjórnmálalegt hrun hafi langlundargeð kjósenda þrotið gagnvart máttleysi alþingis í þessu efni.

Þetta máttleysi stafar fyrst og fremst af því að þegar 63 þingmenn fjalla um breytingar á eigin högum er ekki hægt að búast við að þeir þori að gera umtalsverðgar breytingar, hversu nauðsynlegar og einfaldar sem þær kunna að sýnast.

Alþingi Íslendinga hafði meira en hálfa öld til að gefa þjóðinni nýja og ferska stjórnarskrá. Það hefur klúðrað þessu viðfangsefni sínu og er því fallið á tíma.


mbl.is Krafa um aukið lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar hjálpa nauðstöddum.

Líklega líður ágæt tilfinning um marga stóriðjusinnana við að hugsa út í það að við Íslendingar veitum Alcoa hjálp til að minnka tap fyrirtækisins sem komst í hámæli í dag. Það gerum við með því að selja þeim orkuna á spottprís svo að tryggt sé að hvernig sem allt veltist græði þeir vel á álverinu á Reyðarfirði og síðar einnig á Bakka og jafnvel víðar.

Þegar þar að kemur verður síðan ekki ónýtt fyrir okkur Íslendinga að geta rétt útlendingum hjálparhönd með því að lofa þeim að eignast orkuauðlindirnar þegar tapið á Landsvirkjun fer að sliga okkur.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að fara og sjá Draumalandið, hina frábæru mynd þremenninganna Andra Snæs Magnasonar, Þorfinns Guðnasonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar sem sýnd var á forsýningu í kvöld í Háskólabíói.

Í myndinni sést vel hvernig við erum í hópi með ánauðugustu og fátækustu þjóðum heims þegar kemur að því að vera hjálpsamir við erlend stóriðjufyrirtæki í erfiðleikum og afhenda þeim land til umturnunar í þágu hins erlenda auðmagns og algerrar eignar þegar fram í sækir.


mbl.is Tap Alcoa meira en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama sagan um allan heim.

Strax daginn eftir að spiluð var í sjónvarpsfréttum í Ameríku sú yfirlýsing þáverandi Seðlabankastjóra að við Íslendingar myndum ekki borga fékk ég orð í eyra vegna íslenska skjaldarmerkisins á húfu minni.

"Svo þú ert einn af þrjótunum sem borgar ekki", var sagt.

Ég hef heyrt sömu sögu frá myrkustu Afríku frá Íslendingum sem þar starfa. Það er hart fyrir einstaklinga að þurfa að sæta svona en þetta er nú bara sá grimmi veruleiki sem við verðum Íslendingar verðum að búa við um sinn.

Sjálfum þótti okkur gaman árum saman að því að fara með Pólverjabrandara á kostnað þeirrar ágætu þjóðar og á tímabili var framleiðsluvara Skoda-verksmiðjanna alþjóðlegt aðhlátursefni.


mbl.is Var rekin vegna þjóðernis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugurinn sprelllifandi.

Stóriðjustjórnin 1995-2007 er lifnuð í umhverfisnefnd á Alþingi. Til að tryggja áframhaldandi fjölgu álvera eiga Íslendingar enn á ný að væla það út úr alþjóðasamfélaginu að mega menga meira en nokkrir aðrir.

Röksemdin er sú að hér á landi sé hægt að nota "endurnýjanlega og hreina orku á sjálfbæran hátt", og ef það verði ekki gert verði í staðinn reist fyrir álverin kolaorkuver út í heimi með níu sinnum meiri mengun.

Forsenda þessarar undanþágubeiðni stenst ekki. Endurnýjanleg og hrein orka á Íslandi er innan við eitt prósent af slíkri óbeislaðri orku sem finna má í öðrum heimsálfum.

Ef slík orka væri virkjuð fyrir álver þar myndu þjóðfélög sem eru hundrað sinnum fátækari en Ísland fá að nýta sínar orkulindir með margfalt minni umhverfisspjöllum. En Íslendingum finnst það eftirsóknarvert að taka brauðið frá þessum örfátæku þjóðum.

"Sjálfbæra þróunin" og "endurnýjanlega orkan", sem talað er um hér á landi er með núverandi rányrkju jarðhitans, er orðin að stærstu þjóðarlygi okkar.

Verði álverið í Helguvík að veruleika verður pumpað upp þrefalt meiri orku af háhitasvæðum Reykjanesskagans en þau afkasta og þau munu far að kólna eftir nokkra áratugi. Þá munu barnabörn okkar standa ráðþrota uppi á Hellisheiði og spyrja hvar þau eigi að finna 1000 megavatta orku í staðinn fyrir þá sem er að dvína.

Meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa meirihluta á þingi mun gamla stóriðjustjórnin dúkka upp hvenær sem þessir flokkar telja sér henta. Þessu þarf að breyta.


mbl.is Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband