22.5.2010 | 08:27
Eftir höfðinu dansi limirnir.
Árangurstengd laun var eitt af eftirlætiskjörorðunum í græðgisbólunni miklu. Þessa meginhugsun margra forstjóra létu þeir margir síðan ganga niður eftir valdastiga fyrirtækisins.
Ég minnist mikils ónæðis fyrir tveimur árum vegna herferðar símafyrirtækja, sem létu mann ekki í friði á kvöldin heldur voru með stanslausar hringingar til að þrýsta söluvöru sinni inn.
Ástæðan var sú að ég er með tvo farsíma auk heimasíma með háhraðatengingu og dreifði þessum viðskiptum á fleiri en eitt fyrirtæki.
Erindi sölufólksins var ekki það að reyna að halda fram söluvöru sinni á hreinan og beinan hátt, heldur var blygðunarlaust eingöngu reynt að fá mig til að hætta að skipta við hitt fyrirtækið.
Sem sagt: Það var komið beint að efninu og mér sagt að það sæist hvernig ég háttaði mínum viðskiptum og þess vegna væri lagt kapp á að ég hætti við að skipta við keppinautinn.
Ég var að reyna að útskýra að ég héldi tryggð við fyrsta frjálsa símanúmerið á Íslandi, 699-1414 og uppruna þess og að ég skipti hvort eð er við samkeppnisaðilana alla.
Þetta gat sölufólkið alls ekki skilið. Greinilegt var að dagskipunin var að klekkja á keppinautnum með því að hamast á þeim sem skiptu við hann og fá þá til að hætta við þau viðskipti.
Þegar ég spurði hvort hið hagstæða tilboð gilti ekki um símann sem ég hefði þegar hjá fyrirtækinu var því snarlega eytt, - tilboðið gilti um þann síma sem nú væri hjá keppinautnum.
Herferðin virtist beinast eingöngu í þá átt að ná til sín þeim sem skiptu við aðra og að tilboðið beindist aðeins að þeim.
Mér finnst mikill munur á því hvort boðið er beint upp á góð kjör eða eingöngu boðin kostakjör þeim sem skipta við keppinauta. En kannski er ég svona gamaldags.
![]() |
Fengu hrós frá forstjóranum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2010 | 20:56
Trylltir tímar fáránleika taumleysisins.
Við lifum á trylltum tímum. Árið 2002 byrjaði það fyrir alvöru, einkavinavæðing og helmgaskipti bankanna, stærsta og jafnframt versta framkvæmd Íslandssögunnar og stigvaxandi tryllingur græðgi og taumleysis.
Eftir á sést, meðal annars í skýrslunni um hrunið, að síðasta tækifærið tll stöðva feigðarflanið var síðsumars 2006, áður en bankakerfið og græðgisbólan voru komin úr öllum böndum og áður en Hjalladal var sökkt.
Jökulsárgangan 26. september 2006 var andóf gegn þessu brjálæði öllu, en við ekkert varð ráðið, - meirihluti þjóðarinnar var ákveðin í að ganga fyrir björg líkt og læmingjahjörð, sem hleypur, knúin óviðráðanlegu hjarðeðli, út í opinn dauðann
Árið eftir reið brjálæðisaldan yfir borgarstjórn Reykjavíkur með REI-málinu og í hönd fór tímabil meiri óróa og vitleysu í sögu borgarstjórnar en hafði samanlagt ríkt í sveitarstjórnarmálum á Íslandi í heila öld.
Fjórir borgarstjórar á einu ári var eitthvað, sem var svo fáránlegt, að engu tali tók.
En það gaf tóninn fyrir þá atburðarás í þjóðmálunum öllum, sem á innan við tveimur síðustu árum hefur slegið út allt sem við þekkjum síðan þjóðin varð fullvalda fyrir tæpri öld.
Meirihluti Besta flokksins er ekkert fáránlegri en flest það sem aðhafst hefur verið hér á landi síðustu átta ár.
Brotavilji þeirra afla sem vilja halda áfram hrunadansi sölu auðlinda og eyðileggingu náttúruverðmæta landsins á kostnað afkomenda okkar virðist jafn sterkur sem fyrr, þrátt fyrir hrunið og þá lærdóma, sem af því mætti draga.
Það er búið að koma svo miklu óorði á stjórnmál að það getur jafnvel virst skárra í augum meirhluta kjosenda í Reykjavík að valið sé til meirihlutavalds í borginni fólk, sem veit lítið sem ekkert í hverju það starf er fólgið sem það er kjörið til, - þ. e. að stjórna borginni, að stunda stjórnmál þrátt fyrir allt.
Í kosningunum kunna kjörnir fulltrúar Besta flokksins að verða til þess að skola fyrir borð ágætu fólki, sem hefur áunnið sér góða og nýtanlega þekkingu á borgarmálum, en er svo óheppið að vera á listum með bókstafi, sem virðast hafa unnið sér til óhelgi í augum meirihluta kjósenda eða á nýjum listum, sem drukkna í þeirri bylgju sem Besti flokkurinn berst nú áfram á.
Þótt óvenju mikil samstaða hafi ríkt í borgarstjórn eftir að óöldinni linnti virðist nú vera að koma í ljós að kjósendur hafa ekki það gullfiskaminni sem oft hefur þótt einkenna þá.
Allur óróinn í þjóðfélaginu leitar sér útrásar hvar sem því verður við komið og þótt róast hafi hjá Borgarstjórn síðustu tvö ár hefur óróinn verið því meiri annars staðar.
Úrslit í byggðakosningum hafa oft ráðist af því að kjósendur hafa viljað láta skoðun sína á landsmálum koma í ljós.
Oft hafa orðið furðu miklar sviptingar af þeim sökum.
Þegar sviptingarnar í þjóðlífinu eru meiri en dæmi eru til áður um, er skiljanlegt af hverju sviptingarnar í fylgi framboða í borgarstjórnarkosningum verði meiri en elstu menn muna.
Á fyrstu áratugum síðustu aldar nutu anarkistar eða stjórnleysingjar töluverðs fylgis í Evrópu og stundum ótrúlega mikils fylgis.
Þeir nærðust á óánægju fólks með þjóðfélagsástandið rétt eins og Besti flokkurinn gerir nú. Það er ekki flóknara en það.
![]() |
Besti flokkurinn með 8 fulltrúa? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.5.2010 | 16:49
Þarf viðameiri rannsóknir.
Sárlega skortir á vitneskjuna um öskuna og þoturnar. Sumir leggja niðurstöður rannsókna á hreyflum British Airways út á þann veg að þær sýni að engin ástæða hafi verið til að banna flug á þeim svæðum þar sem talin var hætta á ösku.
En aðrir geta dregið þá ályktun að einmitt vegna þess að bann var í gildi á öllum svæðum, sem sem hætt var við ösku, sé eðlilegt að engin aska finnist í hreyflum þotna sem flogið var á öruggum svæðum.
Sjálfur gerði ég tilraun í gærmorgun, sem sagði mér talsvert. Beint norður af Gígjökli var loft, sem var öskumettað án þess að skyggni væri lélegra en gengur og gerist í rigningu.
Ég ákvað að fljúga rólega inn að þessu svæði og vera frekar hátt.
Ef eitthvað kæmi á framrúðuna, myndi ég velta vélinni yfir á hliðina líkt og gert var í árásum steypiflugvéla í stríðinu og steypa henni niður til baka.
Skyndilega urðu droparnir, sem komu á framrúðuna dökkir og ég gerði þetta umsvifalaust.
Hugsanlega var flugvélin inni í þessu mettaða lofti í mesta lagi í 10 sekúndur en það nægði samt til að setja þunna öskufilmu á framrúðuna.
Í þessum skilyrðum hefði ekki verið vit í því að fljúga áfram jafnvel þótt maður sæi vel í gegnum þetta raka- og öskumettaða loft.
Flugvélin er með bulluhreyfli eins og bíll og ekkert fór í gegnum lofthreinsarann. Rigningin þvoði öskufilmuma af á leiðinni til Múlakots.
Vitað er að svona rakamettað öskuloft getur borist talsverða vegalengd og morguninn sem rigndi ösku á Hvolsvelli kom hún niður í 33 kílómetra fjarlægð frá gígnum og úðaði það þykku lagi á jörðina að mynd af flugvélinni á túninu þar segir sína sögu.
Ég flaug sjónflug þegar ég gerði þessa tilraun og hefði getað komist hjá því að fá nokkuð á vélina með því að forðast það svæði þar sem loftið var sjáanlega ekki eins tært og annars staðar.
Í blindflugi er útilokað að forðast að lenda inni í öskumettuðu lofti af auðskiljanlegun ástæðum.
Síðan er hefur það auðvitað áhrif hve langt frá eldstöðinni flugvélin er. Það hlýtur að hafa einhver áhrif á magn öskunnar.
Ég held að tæknilega sé hægt að koma því svo fyrir að ekki þurfi nándar nærri eins viðamiklar lokanir og hafa verið framkvæmdar.
En til þess þarf miklu viðameiri rannsóknir en gerðar hafa verið og einnig það að byggja á raunaðstæðum en ekki eingöngu á spám.
Dæmi um það að spárnar séu hæpnar eru nokkur, til dæmis það að flugvellirnir við Faxaflóa voru lokaðir þegar erfitt var að sjá að nokkur aska væri þar á ferð, en síðan voru þeir opnir á þeim tíma sem maður horfði á öskuskýið leggja frá eldstöðinni vestur yfir Suðurlandsundirlendið og sunnanverðan Faxaflóa svo að svifryk fór yfir viðmiðunarmörk í Reykjavík !
![]() |
Engin aska í hreyflunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2010 | 20:10
Sást úr Fljótshlíð í dag.
Ég hef verið á ferli síðan hálf sjö í morgun og um tvöleytið í dag sást um stund úr Fljótshlíð til gosmakkarins í Eyjafjallajökli, eins og sést af myndinni.
Nóg sást til þess að staðfesta að mökkurinn er minni og mætti alveg missa sín, því að öskukóf stóð niður Gígjökul og yfir að innstu hluta Fljótshlíðar.
Myndin sýnir byggingar við Múlakot á sléttunni ef vel er að gætt, en norðurhlíð Eyjafjallajökuls er á kafi í kófinu sem steypist niður hlíðina í sunnanvindi sem fer yfir jökulinn.
Var heldur óhrjálegt um að litast við bæinn Fljótsdal, allt svart þar af ösku.
Ekki hefur gefið undanfarna daga til að skoða hina mikilfenglegu ísgjá eða ísgljúfur sem hraun hefur brætt niður langleiðina í gegnum Gígjökul.
Ég flaug inneftir snemma í morgun þegar von sýndist vera til þess að hægt yrði að komast að henni en varð frá að hverfa.
![]() |
Gosvirkni hefur minnkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 06:46
Var hægt að gera þetta þrefalt ódýrara.
Eftir að ég og fleiri Íslendingar skoðuðu Ólafshöllina í Þrándheimi fyrir mörgum árum vorum við sannfærðir um að við gætum lært af því samfélagi erlendis sem líkast er okkar og byggt hér alhliða tónlistar-, leik- og óperuhús fyrir aðeins um þriðjung eða fjórðung af því sem Harpa á að kosta.
Meðal íslenskra kunnáttumanna, sem kynnst hafa húsinu eru Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri, sem setti þar upp óperuverk og lét afa vel af húsinu.
Enginn virðist hafa skoðað þá staðreynd þegar farið var af stað með Hörpu, að í Osló og Kaupmannahöfn risu á undan jafn stór og jafnvel betri hús sem keppa þyrfti við ef menn ætluðu að vera gjaldgengir á þeim samkeppnismarkaði sem ákveðið var að fara út í.
Þegar ég ræddi þessar staðreyndir við íslenska ráðamenn á sínum tíma var svarið: En Reykjavík er höfuðborg en Þrándheimur ekki.
Í svona svari kemur fram ákveðið oflæti sem oft ræður hér ríkjum. Þess er krafist að Reykjavík sé jafn þéttbýl og með jafn stórum byggingum og milljónahöfuðborgir Evrópu í stað þess að sætta sig við þá staðreynd að Reykjavík er ekkert stærri við það að kallast höfuðborg.
Eða hvað gætu þá Færeyingar og Grændlendingar sagt um Þórshöfn og Nuuk?
Ekkert svæði í heiminum svipar jafn mikið til suðvesturhorns Íslands hvað snertir stærð, breiddargráðu, loftslags, menningar og þjóðfélagsaðstæðna og Þrándheimur og Þrændalög.
En í stórlæti okkar teljum við okkur ekki geta lært neitt af þessum norsku frændum okkar, heldur lítum niður á þá af því að Þrándheimur telst ekki vera höfuðborg.
![]() |
Harpa stendur vart undir vaxtakostnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.5.2010 | 19:10
50 þúsund kílómetrar sennilega ekki nóg.
Í frægasta jeppaþjóðgarði Bandaríkjanna og raunar hinum eina sem gerir út á jeppamenn eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum. Algerlega er bannað að viðlögðum háum sektum að aka utan þessara slóða.
Á Íslandi eru líkast til um 23 þúsund kílómetrar af merktum vegum og slóðum.
Þetta finnst mörgum alls ekki vera nóg heldur vilja þeir bæta við gönguslóðum og hesta- og kindagötum.
Landið er auglýst á ýmsum vefsíðum sem gósenland utanvegaaksturs að sumarlagi og miðað við þann akstur sem sýndur er utan allra göngu- og kindaslóða er ekki fráleitt að álykta að 50 þúsund kílómetrar muni ekki nægja fyrir þessi not eða 30 sinnum lengri en boðið er upp á í hinum bandaríska jeppaslóðaþjóðgarði.
Er þá ótalið það einstæða frelsi sem Íslendingar njóta þegar til jeppa- vélsleða- og fjórhjólaferða um snævi þakið hálendið.
Er þetta ekki dæmigert fyrir Íslendinga? Ekki var talið nóg að íslenska bankakerfið yrði jafnstórt og hagkerfi landsins heldur helst fimm til tíu sinnum stærra.
Þeir sem andmæltu þessu voru taldir úrtölumenn, kverúlantar og öfundarmenn og þurfa að fara í endurhæfingu.
Ekki er talið nóg að við framleiðum fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf fyrir venjulegan iðnað, fyrirtæki og heimiili, heldur vilja menn framleiða minnst tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum.
Þeir sam andæfa þessu eru sagðir vera öfgamenn sem séu á móti framförum, atvinnuuppbyggingu og á móti rafmagni!
![]() |
Tóku myndir af utanvegaakstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2010 | 07:49
"E15" skást?
Í nafninu Eyjafjallajökull er tvisvar sinnum að finna hið íslenska "ll" sem útlendingum gengur svo illa að bera fram.
Ég er farinn að halda að skásta tillagan um "þjálla nafn á fjallinu" svo að notuð séu tvö orð með stöfunum "ll" í fjögurra orða umræðu um það sé einfaldlega "E15" sem stungið hefur verið upp á með tilvísun til þess að nafnið byrjar á stafnum "E" og er 15 stafir.
Annars lendum við í því að fá nöfn eins og "Guðjohnsen" eða "Jóhanna" sem þessu fólki kann að þykja óþægilegt. Nema að þeim finnist það bara skemmtilegt?
![]() |
Kallaði Eyjafjallajökul Guðjohnsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
18.5.2010 | 18:50
Illskiljanlegt bann og ekki bann.
Svo vill til að ég hef verið á faraldsfæti bæði á landi og í lofti á svæðinu milli Reykjavíkur Eyjafjallajökuls daglega að undanförnu.
Í gær viðraði vel til flugs fyrir vestan gosstöðvarnar því að mökkinn lagði til austurs, norðaustur og norðurs. Þetta sást afar vel úr lofti.
Ég byrjaði að fylgjast með gosinu í morgun og þá sást vel að mörk öskufallsins voru í Fljótshlíð.
Fyrir áeggjan nokkurra manna fyrir austan, svo sem fulltrúa frá NASA, fór ég austur þótt mér þætti ólíklegt að ástandið breyttist. Fyrir austan sást hvernig öskumökkurinn fór skyndilega að berast hratt til vesturs og var kominn yfir allt Suðurlandsundirlendið á skömmum tíma og síðan yfir Reykjavík.
Svifryk var yfir viðmiðunarmörkum í Reýkjavík líkt og var fyrsta daginn á dögunum þegar Reykjavíkurflugvelli var lokaðl. Samt var Reykjavíkurflugvöllur opinn í allan dag.
Ég á bágt með að skilja þetta og held, að stundum geti það gilt um tölvulíkön sem spár um öskufall koma úr, sem sagt er í bandaríska máltækinu "garbage in - garbage out."
Ef settar eru nónýtar forsendur inn í tölvuna verður ótkoman ónýt.
![]() |
Aska yfir borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2010 | 09:00
Íraskur Checkpoint Charlie?
Múrar, sem reistir hafa verið utan um þorp, borgir og heilu ríkin hafa yfirleitt gefist illa og verið merki um ákveðna uppgjöf þeirra sem þá hafa látið reisa.
Fyrir sjö árum létu tveir menn okkur Íslendinga verða í hópi þeirra ríkja sem réðust með hervaldi inn í Írak til að koma þar á frelsi og víkja einráðum grimmdarsegg og glæpamanni frá völdum.
Nú virðist eina ráðið til að koma þessu frelsi á vera það að reisa múr utan um höfuðborg landsins og kann að vera að fleiri borgir fylgi í kjölfarið.
Við þekkjum nokkur dæmi um svona aðgerðir fyrr í hernaðarsögunni.
Bandaríkjamenn tóku það til bragðs snemma í Vietnamstríðinu að reisa girðingar utan um þorpin og verja þau fyrir aðgengi óæskilegra aðkomumanna.
Skemmst er frá því að segja að þetta misheppnaðist algerlega. Íbúum þorpanna fannst þeir þvert á móti vera lokaðir inni og sviptir frelsi sínu.
Í Suður-Afríku var aðskilnaðarstefna í gildi um áratuga skeið og þótti ekki til fyrirmyndar.
Ísraelsmenn hafa reist mikinn múr til að skilja sig frá Palestínumönnum og ekki er það ástand, sem því veldur og af því hlýst, eftirsóknarvert.
Frægastur múra varð Berlínarmúrinn með "aðgangslhiðum sínum". Það tákn einræðis, ofríkis og ófrelsis hrundi 1989 og var fáum harmdauði.
Á honum voru hlið, sem fengu fræg nöfn sem mætti kannski endurvekja í Bagdad, svo sem "Chekpoint Charlie" ?
![]() |
Reisa múr um Bagdad |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2010 | 08:33
Í rétta átt.
Ég hef áður lýst ástæðum þess hve lítið virðist hafa þurft til að að grípa til lokana á flugumferð.
Miklu ræður að framleiðendur hreyfla, tryggingafélög og fleiri aðilar vilja hafa allt sitt á þurru varðandi ábyrgðir á því að öryggið sé í fyrirrúmi.
Það þótti mikið framfaraskref þegar allt áætlunarflug færðist smám saman yfir í það að vera blindflug, þ. e. að flogið væri eingöngu eftir mælitækjum um borð í vélunum og á jörðu niðri, og fluginu, flughæðum og flugleiðum hvers loftfars stjórnað af flugumferðarstjórum til að tryggja öruggan aðskilnað.
En nú er þetta aðal ástæða þess að flugbönnum er beitt vegna þess að þegar flogið er í blindflugi er gert ráð fyrir því að flugið sé öruggt þótt ekkert sjáist út úr flugstjórnarklefunum.
Jafnvel þótt flogið sé í raun utan skýja og skyggni gott er gert ráð fyrir hinu og sú er aðal ástæða þess að banna flug ef minnsta hætta er á að flogið sé inn í öskuský, jafnvel þótt þunnt sé.
Erfitt er að sjá áhrif ösku á flugvélahreyfla nema að mæla magn hennar á ákveðnum tíma á ákveðinni flugleið og taka síðan hreyfla í sundur og skoða, sem lent hafa í henni.
Þetta þyrfti samt að gera til þess að öðlast meiri vitneskju um raunveruleg áhrif öskunnar og raunar gæti lengra gos í Eyjafjallajökli hugsanlega gefið tækifæri til slíks. En enginn óskar þess að gosið verði lengra, - síst af öllu fólkið sem býr næst eldstöðinni og hefur mátt þola mestar búsifjar af þess völdum.
Ég hvet fólk til þess einmitt núna þegar sunnan átt er á gosstöðvunum að skoða á mila.is myndina úr vefmyndavél á Þórólfsfelli sem beint er að Eyjafjallajökli.
Það grillir varla í jökulinn í gegnum öskusortann sem hefur legið þar yfir allt frá því í fyrrinótt.
Tveir frábærir erlendir ljósmyndarar, vinir mínir og Íslandsvinir, sem eru fyrir austan, eru að verða vitlausir af óþoli út af því að komast ekki til þess að mynda hina einstæðu og risavöxnu ísgjá sem er í Gígjökli.
En illmögulegt er að gera það nema úr lofti. Svona ísgjá er ekki vitað til að nokkrir menn hafi séð nokkurs staðar í heiminum svo vitað sé.
Þótt ég sé á flugvél með bulluhreyfli lagði ég ekki í það í gær að fljúga inn fyrir Múlakot heldur hef ég algerlega haldið mig utan við öskublandið loft í flugi mínu til þessa.
Eins og sést á loftmyndinni hér að ofan, leggur öskumökk til norðurs frá gosinu og er ekki spáð breytingu á því næstu daga.
Kann að vera að ég skjótist austur og aki inn í öskumettaða loftið hjá Fljótsdal til að kanna þetta betur.
En samt er ólíklegt að ég fljúgi sömu leið á eftir.
![]() |
Mildari reglur um flugumferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)