Eftir höfðinu dansi limirnir.

Árangurstengd laun var eitt af eftirlætiskjörorðunum í græðgisbólunni miklu. Þessa meginhugsun margra forstjóra létu þeir margir síðan ganga niður eftir valdastiga fyrirtækisins.

Ég minnist mikils ónæðis fyrir tveimur árum vegna herferðar símafyrirtækja, sem létu mann ekki í friði á kvöldin heldur voru með stanslausar hringingar til að þrýsta söluvöru sinni inn. 

Ástæðan var sú að ég er með tvo farsíma auk heimasíma með háhraðatengingu og dreifði þessum viðskiptum á fleiri en eitt fyrirtæki. 

Erindi sölufólksins var ekki það að reyna að halda fram söluvöru sinni á hreinan og beinan hátt, heldur var blygðunarlaust eingöngu reynt að fá mig til að hætta að skipta við hitt fyrirtækið. 

Sem sagt: Það var komið beint að efninu og mér sagt að það sæist hvernig ég háttaði mínum viðskiptum og þess vegna væri lagt kapp á að ég hætti við að skipta við keppinautinn. 

Ég var að reyna að útskýra að ég héldi tryggð við fyrsta frjálsa símanúmerið á Íslandi, 699-1414 og uppruna þess og að ég skipti hvort eð er við samkeppnisaðilana alla. 

Þetta gat sölufólkið alls ekki skilið. Greinilegt var að dagskipunin var að klekkja á keppinautnum með því að hamast á þeim sem skiptu við hann og fá þá til að hætta við þau viðskipti. 

Þegar ég spurði hvort hið hagstæða tilboð gilti ekki um símann sem ég hefði þegar hjá fyrirtækinu var því snarlega eytt, - tilboðið gilti um þann síma sem nú væri hjá keppinautnum. 

Herferðin virtist beinast eingöngu í þá átt að ná til sín þeim sem skiptu við aðra og að tilboðið beindist aðeins að þeim. 

Mér finnst mikill munur á því hvort boðið er beint upp á góð kjör eða eingöngu boðin kostakjör þeim sem skipta við keppinauta. En kannski er ég svona gamaldags. 


mbl.is Fengu hrós frá forstjóranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamaldags ... nei ... manni svíður bara óforskammheitin og óheiðarleikinn sem skín í gegnum svona aðferðir.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband