24.5.2011 | 20:36
Katla má kyrr liggja mín vegna.
Ég hef löngum sagt frá því að ég hafi beðið eftir Kötlugosi síðan 1947 þegar amma mín Ólöf Runólfsdóttir sagði mér magnaðar sögur af gosinu 1918. Hún var frá Hólmi í Landbroti og gosið hafði mikil áhrif á líf Skaftfellinga enda öskufallið meira þá en í Grímsvatnagosinu nú.
Katla á enn meiri ítök í mér fyrir þá sök, að í kjölfar gossins og afleiðinga þess flutti amma til Reykjavíkur og þar kynntist hún öðrum Skaftfellingi, Þorfinni Guðbrandssyni frá Hörgslandi á Síðu, sem líka hafði flutt til Reykjavíkur.
Má því segja að Katla hafi leikið úrslitahlutverk í tilurð minni og því eðlilegt að hún og eldfjöll hafi á sér sérstakan blæ í mínum huga.
Næstkomandi laugardag stendur til að ég leiði dóttur mína, Ölmu, upp að altarinu til að giftast þar Inga R. Ingasyni og minnist ég hálfkærings svars míns, þegar ég var að vinna niðri í Sjónvarpi á giftingardegi elstu dóttur minnar, Jónínu og var enn ekki farinn á öðrum tímanum þótt athöfnin hæfist klukkan tvö.
Ólafur Sigurðsson starfsfélagi minn spurði mig af hverju ég væri ekki farinn, hvort starfið væri svona mikilvægt. "Ef Katla væri að byrja að gjósa, hvað myndurðu gera þá?"
"Því er auðsvarað", svaraði ég. "Það er aðeins eitt Kötlugos á ævinni, en hins vegar á ég fjórar dætur."
Auðvitað meinti ég þetta ekki en í hvert skipti sem ég hef átt leið framhjá Kötlu akandi eða fljúgandi í öll þessi ár hef ég gjóað til hennar augunum og sagt við hana í huganum: "Æ, úr því að þú átt eftir að gjósa hvort eð er, af hverju lýkurðu því ekki bara af núna? "
En nú er engin ástæða til þess að velta svona löguðu fyrir mér. Ég var í viðtali við þýska útvarpsstöð í gær og var spurður um viðbrögð fólksins fyrir austan.
Ég sagði að allt frá Móðuharðindunum hefðu Skaftfellingar verið þeir Íslendingar sem þurft hefðu að brynja sig mestu þoli og þrautseigju til að lifa af þær hörmungar sem íslensk náttúra gæti lagt á þjóðina, enda hefðu þær hvergi bitnað jafn hastarlega á fólki og fénaði og þar.
Þessi sálarhreysti hefði skilað þeim í gegnum Kötlugosin sem komu á eftir, hið síðasta 1918 og gefið þeim baráttuþrek og æðruleysi sem myndi skila þeim í gegnum það sem framundan er.
Og hér eftir mun ég ekki framar tala til Kötlu á annan veg en þann, að biðja hana vinsamlega að liggja nú kyrr því að nú sé nóg komið.
![]() |
Líkist Kötlugosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2011 | 12:46
Leitað að öskuskýinu í dag.
Nú síðdegis er ætlunin að fara í mælingaflug yfir flugvellina í Keflavík, Reykjavík og á Ísafirði og kanna öskumagnið í loftinu. Þetta verður gert á vegum Isavia og það eitt eru mikilsverð tíðindi.
Mælingarnar í gær og í fyrradag auk könnunar úr lofti á útbreiðslu öskuloftins með tilheyrandi ljósmyndatöku sýndu svo ekki verður um villst að fráleitt var að loka þessum flugvöllum.
Með því að Isavia tekur þessar sjálfsögðu mælingar að sér, sem byggðar eru á samstarfi í gerð mælitækja á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og háskólans í Dusseldorf, er notuð sú tækni og þau tæki sem fyrir hendi eru til þess að kanna ástand mála en láta ekki nægja tölvuspár frá London sem fjöldi jarðvísindamanna og flugmanna, sem þekkja til, gagnrýna nú harðlega.
Ég hef í athugasemdum við bloggpistla mína verið atyrtur fyrir þátttöku mína í þessu máli og fullyrt að ég sé í fífldirfsku að leggja til að lífi þúsund flugfarþega verði hætt vegna lítilfjörlegra hagsmuna og að átt hefði fyrir löngu að svipta mig flugréttindum vegna glæfralegs flugs míns við gjósandi eldstöðvar á Íslandi í næstum hálfa öld, alls við 23 eldgos !
Líklega þyrfti þá að bæta við flugréttindum flugmannanna RAX og Ólafs Sigurjónssonar í Forsæti í Flóa, auk Harðar Guðmundssonar, en þessir flugmenn hafa mikla reynslu af flugi vegna eldgosa.
En verkin sýna merkin.
Í fyrra bönnuðu nokkrir alvitrir fjarstaddir tölvuspekingar í London, sem aldrei hafa séð eldgos, allt flug á Íslandi í nokkra daga þar sem sól skein á bláum himni en leyfðu það síðan þegar í Reykjavík var mesta öskufall, öskumistur og svifryk, sem mælst hafði þar !
Niðurstaða þeirra jarðfræðinga og flugmanna, sem mesta reynslu hafa af eldgosum og flugi í nánd við þau er einföld: Sjónin er besta mælitækið og mælingar í gær og fyrradag leiða þetta vel í ljós.
Þegar veðurskilyrði eru lík þeim sem verið hafa yfir landinu síðustu daga að hægt hefur verið að horfa yfir landið og helstu flugleiðirnar og taka undir með Jónasi Hallgrímssyni: "Landið er fagurt og frítt / og fannhvítir jöklanna tindar./ Himinninn heiður og blár. / Hafið er skínandi bjart" er ansi hart að nákvæmar og dýrar mælingar þurfi til að leiða í ljós það sem er svo augljóst.
Og þegar talað eru um "lítilfjörlega hagsmuni" er það einkennilegur mælikvarði sem lagður er á 750 milljón króna beint tap fluglfélaga í fyrra auk tapsins af völdum annarrar röskunar og röngu orðspori landsins.
![]() |
Flugi aflýst til Bretlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2011 | 22:18
Rímar við mælingar dagsins.
Ég var að koma úr öðru mælingarfluginu í kvöld vegna öskudreifingar úr Grímsvötnum. Þetta flug er farið á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Ísland í samvinnu við Háskólann í Dusseldorf.
Mælingin í dag í aðflugsferli og fráflugsferli Keflavíkurflugvallar var með svipaða niðurstöðu og í gær, að öskumagn í lofti er langt, langt fyrir neðan þau mörk sem framleiðendur flugvélahreyflanna setja sem hámark öskumagns í lofti fyrir farþegaþotur.
Enn merkilegri var mælingin í gær í öskumekkinum, sem kaffærði Suðurlandsundirlendið þar sem skyggni í Ölfusi og Flóa fór niður í tvo kílómetra. Samkvæmt henni var þessi öskumengun nálægt þeim mörkum sem flughreyflafarmleiðendurnir setja og hefði manni þótt það ótrúlegt fyrirfram.
Þegar flogið var meðfram þessum öskumekki, var hann eins og brúnn veggur tilsýndar að sjá og lá meðfram ströndinni fyrir vestan Þorlákshöfn.
Ég var búinn í flugi fyrr um daginn að fljúga meðfram þessum mekki alla leið frá Vatnajökli og vestur til Selfoss og horfa á hvernig hann fór að þokast hægt og rólega í vestur frá Þjórsá þegar leið að kvöldi.
Á margar myndir af þessum skörpu skilum milli makkarins og heiðríkjunnar hreinu fyrir vestan hann þar sem flug var bannað.
Frétti af því að Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur hefði tekið undir það sem ég sagði í útvarpsviðtölum í morgun varðandi það að stórbæta má athuganir og mælingar þegar eldgos verða og koma í veg fyrir lokanir flugvalla og borð við megnið af þeim lokunum, sem voru í fyrra og í gosinu nú.
![]() |
Útlitið gott fyrir flug til morguns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2011 | 09:54
Þurfti ekki að loka í gær.
Ég kom í gærkvöldi heim úr mælingaflugi fyrir Verkfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem mælt var á óyggjandi hátt öskumagn í lofti, bæði í Ölfusi þar sem var þykkt öskumistur eins og komið hefur fram og einnig tókum við aðflug og fráflug frá Keflavíkurflugvelli.
Niðurstaða mælinganna var sú að öskumagn í lofti í vallarsviðum Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvalla var langt fyrir neðan þau mörk sem miðað er við til að loka fyrir umferð og þannig hafði þetta verið allan tímann frá upphafi gossins.
Eftir þrjár ferðir að gosstöðvunum er ég líka með fullt af kvikmyndum og ljósmyndum sem sýna glögglega útbreiðslu þess öskufalls sem hefði getað réttlætt það að loka fyrir innanlandsflug.
Ég lýsti því á báðum útvarpsstöðvunum í morgun hvernig málið væri vaxið og hvernig öll skilyrði voru afar heppileg til þess að koma á afar einfaldan og ódýran hátt í veg fyrir að vellirnir lokuðust í gær.
Í fyrra reyndi ég líka að vekja máls á þessu og þá voru framkvæmdar mælingar, sem sýndu það sama og nú en með því að bera brigður á vottun og smíði mælitækjanna svæfðist málið.
Í þetta sinn er búið að prófa tvenn tæki, önnur frá Háskólanum í Dusseldorf og allar mælingar hingað til leiða til svipaðrar niðurstöðu.
Vonandi verður nú loks hægt að taka þetta mál almennilega fyrir.
![]() |
Loftrýmið opnist í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.5.2011 | 08:43
Rusl inn, - rusl út.
Svo er að sjá sem menn hafi ekki getað lært af eldgosinu í Eyjafjallajökli í fyrra. Þegar þetta er ritað er heiðskír himinn og hreinviðri yfir Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli og báðum völlunum lokað!
Þekkt er í tölvuheimum, að engin útkoma er betri en forsendurnar. Ef skakkar forsendur eru settar inn kemur arfavitlaus útkoma út.
Úti í Londin sitja tölvutótar og eru greinilega með forsendur, sem soðnar eru upp úr flugatvikinu í Indónesíu hér um árið suður við miðbaug, þar sem veðrahvolftið nær miklu lengra upp en hér og flugstjóri þotu í blindflugi flaug henni inn í öskukökk sem hann áttaði sig ekki á.
Í dag leikur um Ísland ískaldur og þurr heimskautavindur og auðvelt væri að fljúga utan allrar ösku með því að taka sveig fyrir sunnan öskumökkinn, sem þar að auki sést vel úr þotum.
Þær eru búnar ratarsvörum sem sjást á skjám hjá flugumferðarstjórum og þess vegna er auðvelt að fljúga slíkt flug eftir blindflugsreglum, sem skylda er í meiri hæð en 5500 fetum yfir úthafinu, og hafa þar að auki frábært skyggni sem auka öryggisatriði !
Það sýnir vel hvað tölvulíkönin í London eru ófullkomin, að völlunum hér var lokað í svipuðum skilyrðum og nú eru, en hins vegar voru þeir opnir þá tvo daga sem öskufalla, öskumistur og svifryk varð mest á suðvesturhorninu.
![]() |
Keflavíkurflugvelli lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2011 | 08:05
Stærsta gosið í 64 ár ?

Gosið í Grímsvötnum er það stærsta af 23 eldgosum sem ég hef séð.
Af þeim sökum er ólíklegt að hægt verði að ná jafn góðum myndum af því í dag og í gær, því að fljótlega myndaði gosmökkurinn sveppalaga risa öskuský sem breiddist í allar áttir og faldi öskustrókinn inni í sér.
Vegna þess að vindátt var ekki hin sama í neðri loftlögum og uppi í 20 kílómetra hæð, sem er hærra en venjulegar þotur fljúga, var öskumökkurinn sem lagði til suðvesturs ekki nema um þriggja kílómetra hár, og því auðvelt að fljúga yfir honum, en hins vegar engin leið að koma nálægt gosinu fyrir sunnan það og sömuleiðis öskumistur upp úr öllu valdi fyrir norðan gosið.
Ofan á þetta bætust hrikalegustu eldingar sem ég hef séð, sumar þeirra 10-20 kílómetra langar.
Myndirnar sem birtast hér á síðunni voru teknar í gærkvöldi áður en gosið hafði ekki drekkt sér í eigin drullu, ef svo má að orði komast.
![]() |
Hér er bara myrkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2011 | 11:42
Ábyrgðarhluti.
Það er búið að spá svo oft heimsendi að enn ein heimsendaspáin ætti að hljóma eins og kallið í sögunni: "Úlfur! Úlfur! Samt er það mikill ábyrgðarhluti þegar einhver nær því að hrella þúsundir manna um allan heim með svona spá.
Því að það virðist sama hve augljós villa þetta er, alltaf mun finnast nógu margt trúgjarnt fólk sem lætur þetta hræða næstum úr sér líftóruna.
Predikarinn, sem kom þessu af stað, hefur hins vegar ekki aðeins uppskorið þetta umrót, heldur fær birtar af sér myndir í fjölmiðlum um allan heim. Er hugsanlegt að það sé undirrót þessa uppátækis?
Þetta minnir mig á SMS- og tölvupóstinn sem reglulega er sendur út til fjölda fólks með tilkynningu um það að viðkomandi hafi dottið í lukkupottinn og fengið risavinning og þurfi að gefa upp nokkrar upplýsingar um sig til þess að móttaka herlegheitin.
Því miður er það alltaf svo að það verða einhverjir sem láta blekkjast, og með því að vera nógu iðnir við kolann og senda nógu mörgum nógu oft svona skeyti geta þessir skúrkar féflett grandalaust fólk.
Nóg er ógnin af tilvist kjarnorkuvopnanna þótt ekki sé verið að bæta ofan á það með gersamlega fráleitum spádómum, því að með því er verið að bægja athyglinni frá því sem raunverulega þarf að takak á til þess að eiga öruggari tilvist á þessari jörð.
![]() |
Heimsendapartý haldin víða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2011 | 10:23
Kuldatregða Grænlandsjökuls.
Hvernig má það vera að á láglendi sé frost á Fróni þegar nálgast lok maí og yfir landið er komin birta allan sólarhringinn með sólarhæð yfir 40 gráður á hádegi ?
Megin sökudólgurinn er stærsti ísskjöldur norðurslóða, 1,7 milljón ferkílómetra freraflykkið Grænlandsjökull, sem enginn sólarylur vinnur og viðheldur háum loftþrýstingi sem að því leyti skilar sér hina stuttu vegalengd til Íslands, að hér á landi er hæsti meðal loftþrýstingur ársins í maí.
Þess utan er enn á þessum tíma enn hvítt yfir að líta á nyrstu slóðum Kanada þegar kuldapollur norðurskautsins er þar enn oft þaulsætinn á þessum tíma árs.
Ís felur í sér afar mikla tregðu hvað hitastig snertir. Þannig eru vötn og lón á hálendi Íslands oft ísi þakin vel fram í júní þegar allt umhverfið hefur verið autt vikum saman.
Grænlandsjökull geymir uppsafnaðan aldagamlan kulda og það mundi taka tímann sinn, jafnvel þótt lofthjúpur jarðar hitni verulega, að bræða þennan meira en þriggja kílómetra þykka ís.
Á sunnanverðu landinu nýtur fólk þess að ísköld norðanáttin færir yfirleitt þurrt loft ofan af hálendinu og allra syðst myndast svonefndur hjúkaþeyr við það að rakinn fer úr loftmassanum auk þess sem sólin fær tækifæri til að hita landið upp.
Meðan hinn voldugi nágranni okkar í vestri heldur velli megum við búast við því að vorin geti orðið köld þangað til útþensla hins heita lofts yfir Evrópu nær norður yfir Ísland og fær aðstoð frá hitnandi norðursléttum Kanada til að sækja að Grænlandi og Íslandi úr vestri.
![]() |
Áfram frost á fróni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2011 | 20:32
Sakna garðanna í Kringlumýrinni.
Matjurtagarðarnir í Kringlumýri á sinni tíð voru ævintýraheimur fyrir börn og unglinga. Á þeim tíma var meirihluti íbúa Reykjavíkur fæddur og alinn upp úti á landi og þetta fólk hélt í tengslin við landbúnaðinn og náttúruna með því að rækta sinn garð þar.
Fjölskyldugarðar á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega margfalt minni að umfangi en kartöflugarðarnir í Kringlumýri voru en hið þarfasta framtak.
![]() |
Hægt að sækja um matjurtagarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2011 | 20:19
Tunglfarar, já - marsfarar, nei ?

Fagna ber sýningu á borð við þá sem ber heitið Geimfarar á Húsavík þar sem sjá má myndir af ferðalögum tunglfaranna á sinni tíð í Þingeyjarsýslu.
15 árum áður en þeir lentu á tunglinu var fluttur útvarpsþáttur þar sem spáð var um hugsanlegar geimferðir í framtíðinni.
Þóttu mönnum, sem á hlustuðu, það draumórar einir.
Setjum sem svo að 1954 hefði verið á döfinni að setja upp stóra virkjun í Öskju fyrir risaverksmiðju á Húsavík. Það hefði vafalaust þótt hið besta mál og engum hefði dottið í hug að rúmum áratug síðar myndi ferð tunglfara í Öskju verða hápunktur á ferð þeirra, þar sem þeir upplifðu það helst sem í vændum var á tunglinu.
Fyrir tíu árum var stór grein í tímaritinu Time um ferðir til mars sem yrðu fyrstu ferðir manna til annarrar reikstjörnu. Rætt var við Bob Zubrin forysturmann alþjóðlegra samtaka um ferðir til mars og fleiri vísindamenn, sem staðfestu þá möguleika, sem væru á því að fara þangað.
Zubrin kom hingað til lands til að leita að æfingasvæði fyrir marsfara og ári síðar kom heil sendinefnd vísindamanna og valdi sér svæði í Gjástykki.
En á hinn bóginn hefur nefnd um skipulag miðhálendisins einróma valið þetta svæði sem iðnaðar- og virkjanasvæði.
Eru marsferðir þó tæknilega nærtækari nú en tunglferðir voru 1954.
Búist er við því að virkjun í Gjástykki geti skapað 20-30 störf í álveri en virðisauki af þessum störfum er álíka og af 10 störfum í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu.
Ég tel að not þessa svæðis ósnortins bjóði upp á miklu fleiri störf en orkuvinnsla þess myndi gera.
Nú kunna menn að segja að marsferðir séu bara draumórar. En tunglferðir voru enn fjarlægari í hugum manna 15 árum áður en þær urðu að veruleika.
Einhverjum kanna að þykja það ósanngjarnt af mér að alhæfa um það að allir Húsvíkingar vilji að svæði Kröflueldanna, Leirhnjúkur-Gjástykki, verði að iðnaðarsvæði.
En annað liggur ekki fyrir en að einróma krafa sé um þessar framkvæmdir. Þegar fréttamaður Sjónvarpsins hóf myndavél og hljóðnema á loft á fundi á Húsavík, þar sem áformin um þær voru viðraðar og spurði: "Hvað segja Húsvíkingar um það?" kvað við einróma fagnaðaróp.
Þar með var búið að slá því föstu fyrir framan alla þjóðina.
Síðan þá virðist ástandið svipað og var fyrir austan í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar. Þeir sem dirfðust að andmæla voru fyrirlitnir sem "óvinir Austurlands og þögnuðu.
![]() |
Geimfarar í Þingeyjarsýslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)