Höldum í foreldrisnafnasiðinn.

Þegar litið er yfir nöfn þeirra sem fara til Moskvu sést í hnotskurn atriði, sem sýnist ekki stórt, en er þó eitt af því sem við Íslendingar getum verið stoltir af á þessum tímum þegar okkur veitir ekki af slíku.

Þar á ég við íslenska nafngiftasiðinn að hver einstaklingur kenni sig við foreldri sitt en ekki ætt. Þessi siður hefur lúmska þýðingu hvað snertir huglæg áhrif.

Á tímum jafnréttisbaráttu er ekki fólgið jafnrétti í þeim erlenda sið að kona taki upp ættarnafn manns síns við giftingu. Íslenski siðurinn tryggir jafnrétti kynjanna að þessu leyti en felur hins vegar í sér annað misræmi, þá hefð að hver einstaklingur kenni sig við föður.

Þetta er arfleifð karlaveldis og ekki skynsamlegt því að móðernið er mun áreiðanlegra. Þegar Heiðar Helguson varð þekktur bæði hér og erlendis, hljómaði nafn hans í fyrstu svolítið framandi hér heima en nú sést að slík nöfn venjast bara mjög vel.

Ég verð alltaf stoltur erlendis þegar ég reifa íslenska nafnasiðinn á þessum nótum og sé og finn þá aðdáun sem hann vekur oft, þegar maður les út úr andliti viðmælandans: "Af hverju er þetta ekki svona hjá okkur?"

Að sjálfsögðu á fólki að vera það frjálst hvort það vill taka upp ættarnöfn, sem mörg hver eru falleg og auk þess byggð á aðstæðum sem gera þau eðlileg.

En eðli máls samkvæmt getur þróun í þá átt orðið til þess að drepa hinn frábæra íslenska nafnasið smám saman.

Önnur lúmsk hætta steðjar að íslenska nafnasiðnum, en það er sú venja sem hefur smám saman myndast, að skíra börn tveimur nöfnum. Við það vill nafn foreldrisins falla út, samanber fréttina um fólkið sem fer til Moskvu.

Hvers son er Friðrik Ómar ? Það kemur ekki fram frekar en venjulega en hann er reyndar Hjörleifsson.

Mér þykir vænt um að í fréttinni er greint frá föðurnöfnum annarra þátttakenda en það eru ekki allir sem vita um fullt nafn þeirra. Sumir blaðamenn hefðu látið nægja að nefna Heru Björk og sleppa föðurnafninu.

Það var að yfirlögðu ráði til að styðja foreldrisnafnasiðinn að öll börn okkar hjóna, sjö að tölu, heita einu nafni hvert Ég hefði gjarna vilja ganga lengra og kenna þau öll við móður sína. En þá hefði strax myndast sá blær á nöfnum þeirra að móðir þeirra væri einstæð móðir.

Þetta er að breytast hægt og bítandi sem betur fer og ég kemst alltaf í gott skap við að heyra nöfn eins og Lóa Pind Aldísardóttir og Heiðar Helguson.

Það er skiljanlegt að þegar nöfn einstaklings og foreldris eru algeng sé bætt við öðru nafni svo alnafnarnir verði færri. Jón Þ. Ólafsson, Gylfi Þ. Gíslason, Árni Páll Árnason, Olga Guðrún Árnadóttir en ekki Jón Ólafsson, Gylfi Gíslason og Guðrún Árnadóttir.

Bræðurnir Arnór og Ólafur Hannibalsson þurfa þess ekki með.

Með því að fleiri taki upp móðurnöfn verður minni þörf á að hafa eiginnöfnin fleiri en eitt.

Það verður ævinlega að huga fyrst og fremst að hagsmunum barnanna við nafngiftir en stundum finnst mér foreldrar ekki taka nægt tillit til þess.


mbl.is Á leið til Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður að hafa hraðar hendur.

ESB-deilan hefur háð íslenskum stjórnmálum, klofið alla flokka og þvælst fyrir. Nú verður að höggva á þennan hnút hið snarasta, koma málinu beint í hendur þjóðarinnar og láta hana afgreiða það en snúa sér á meðan af öllu afli að því að leysa málin sem brenna á þjóðinni, hversu sársaukafullar og óvinsælar sem nauðsynlegar ráðstafnir kunna að verða.

Strax síðasta haust ráðlagði Göran Persson okkur, reynslunni ríkari frá kreppunni í Svíþjóð á níunda áratugnum, að taka á afleiðingum hrunsins strax og af fullum þrótti en ekki að fresta óhjákvæmilegum aðgerðum.

Núverandi stjórn er með þingmeirihluta og hefur enn meirihlutastuðning í skoðanakönnunum og því getur hún ekki vikist undan þessu. Ef kjarkur hennar bilar núna verður hún fljót að lenda í minnihluta meðal þjóðarinnar eins og fyrri stjórn og ný Búsáhaldabylting mun sigla í kjörfarið.

Á sama tíma verður að gera tafarlausar ráðstafanir áður en það er of seint og sýna áræði. Vextina verður að keyra niður til samræmis við núverandi verðbólgu, - það er skaðlegt viðmið að láta hálfs árs verðbólguskot vera að þvælast enn inn í útreikningum þegar verðbólgan hefur þó minnkað síðustu mánuði.

Með því að halda þessari liðnu verðbólgu inni er verið að lengja áhrif hrunsins og gera málin verri viðfangs.

Meira en hálft ár er liðið frá hruninu og enn hefur ekki tekist að leiða allan sannleikann fram um stöðu allra mála.

Borgarstjórn Reykjavíkur náði sögulegri lægð í álit almennings á síðasta ári. Hún er að læra af því og þótt þar sé meirihluti við völd hafa meirihluti og minnihluti komið sér saman um að vinna eins náið saman að lausn erfiðra mála og unnt er.

Þetta er til sóma fyrir bæði meirihluta og minnihluta. Þetta hugarfar verður að koma á hjá nýkjörnu Alþingi.

Það er nöturlegt ef hlutirnir eiga eftir að snúast þannig við að Alþingi fari niður á plan borgarstjórnar fyrir ári á sama tíma og borgarstjórn hefur tekið sér tak.


mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og Pacquiao gjörsigraði Hatton.

Ef sigur Barcelona var sætur á erfiðum útivelli var sætur var magnaður sigur Manny Pacquiao á Ricky Hatton í hnefaleikum næturinnar ekki síður sætur.

Ricky Hatton, ástmögur Manchesterborgar, kom með sjálfan Tom Jones til Las Vegas til að syngja breska þjóðsönginn og stuðlög Manchester hljómuðu um troðfullan risasal þar sem þúsundir voru utan salar að fylgjast með á skjám.

Ricky hafði að baki glæsiferil með aðeins einu tapi, og það var gegn besta hnefaleikara heims á þeim tíma, Flyod Mayweather, og ekki fyrr en vel var liðið á þann bardaga.

Manny "Packman" hafði að vísu unnið Oscar De La Hoya í sjö lotum, en mönnum bar saman um að Gulldrengurinn hefði ekki verið hinn sami og áður var.

Búist var við því að árásarhraði og höggþungi Hattons ásamt skæðum skrokkhöggum í návígi myndu gera Manny lífið leitt og svo virtist ætla að verða fyrstu mínúturnar.

En þá byrjaðu yfirgenglegur hraði, hreyfanleiki, viðbragðsflýtir og yfirvegun Pacquiaos að koma í ljós og hann sló Hatton í gólfið með svo snöggu höggi að maður sá það ekki fyrr en í endursýningu. Hatton hafði aldrei á ferlinum lent í neinu þvílíku og mátti þakka fyrir að sleppa inn í mínútuhléð eftir lotuna.

En það var til lítils. Pacquiao afgreiddi hann strax eftir hléð með leiftursókn sem endaði með svo snöggum og hörðum vinstri krók að Hatton lá lengi steinrotaður í striganum.

Bob Arum, sá gamalreyndi umboðsmaður, sagði eftir bardagann að Pacquiao væri á leiðinni að verða mesti bardagamaður allra tíma!

Hann er aðeins 31. árs gamall svo að tíminn verður að leiða í ljós hvort þessi dirfskufulli spádómur hins gamla refs á eftir að sannast.

En Manny Pacquiao gaf þeim sem á horfðu í nótt sjaldgæfa kennslustund í boxi eins og það verður allra best.

Þess utan eru hógværð, lítillæti og hugarró þessa mikla afreksmanns nóg til þess að lyfta honum hátt yfir aðra íþróttamenn um þessar mundir, alveg burtséð frá íþróttinni sem hann stundar.


mbl.is Barcelona gjörsigraði Real Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manny Pacquiao á móti Ricky Hatton.

Klukkan þrjú í nótt verður rosa bardagi á Stöð 2 Sport. Það verða engiar bardagar á undan, heldur farið beint í þennan.
Manny Pacquiao, álitinn besti hnefaleikari heims miðað við þyngd (pound for pound), þjóðhetja og frægasti maður á Filippseyjum, berst við Ricky Hatton, álíka dáðan hnefaleikara í Bretlandi.

Bara það að annar hvor þessara manna standi í hringnum hefur verið trygging fyrir æsilegum og hröðum bardaga nær allan þennan áratug.

Þegar þeir nú leiða saman hesta sína ætti því að lofa góðu.


Ef ullin er ekki nóg þýðir ekki að flá kindina.

Þýðingarlaust er að tala um hvers vegna þúsundir fólks getur augljóslega ekki staðið í skilum með að borga af lánum, sem tekin voru í góðri trú, tók svo há lán í upphafi. Forsendur fyrir lántökunni hafa í langflestum tilfellum gerbreyst, þannig að það sem virtist mögulegt fyrir nokkrum árum, er gersamlega ómögulegt.

Forsendurnar voru svipaðar af hálfu þeirra, sem lánuðu fjármunina og innheimata þá síðan og hjá bóndanum sem stundar ullarframleiðslu og rýr kindina með reglulegu millibili og tekur af henni ullina: Í rúningnum skilur bóndinn eftir þunnt ullarlag sem vex og verður orðið þykkur feldur þegar næsti rúningur fer fram.

Í skiptum fyrir ullina fær ærin fóður yfir veturinn sem gerir henni kleift að lifa af.

Forsendurnar fyrir áframhaldandi nytjum eru þær að gefa ærinni, afsakið, ánni, nóg fóður og ganga ekki of næri henni í rúningum hvað þá að fara að taka upp að flá hana og ganga að henni dauðri.

Það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga gegn þeim skuldinautum sem augsýnilega eiga enga möguleika til að rísa undir drápsklyfjunum sem settar hafa veirð á þá.


mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins undið ofan af kreppunni miklu.

fisherbody5859pontbonvÁ þriðja áratug síðustu aldar ríkti gríðarlegt "gróðæri" í Bandaríkjunum, - "the roaring twenties" var það kallað.

Bílarisinn General Motors tók rétt fyrir hrunið forystuna af Ford og hefur haldið henni síðan.

Upphaflega voru tegundir GM fjórar, Chevrolet, Oldsmobile, Buick og Cadillac, en í uppsveiflunni var þremur tegundarheitum bætt við, Oakland, Pontiac og La Salle og merkin voru orðin sjö.

Chrysler bætti Plymouth inn í sína framleiðslu og bauð fjögur merki til sölu.

Afleiðing kreppunnar hjá GM varð sú að Oakland datt fljótlega út og La Salle tíu árum síðar.

41950

 

!BRm2mNQBGk~$(KGrHgoH-EIEjlLl09!jBJ-5pOWkeQ~~_1

 

Vinsælasti bíll Bandaríkjanna í 70 ár, Chevrolet, hélt GM á floti þegar harðnaði á dalnum. Hann var ódýrastur og minnstur en Pontiac aðeins lengri og fáanlegur með átta strokka línuvélum.

Pontiac höfðaði til þeirra sem vildu eitthvað aðeins stærra og íburðarmeira en Chevrolet, var vandaður, traustur og þægilegur en ekkert umfram það.

Oldsmobile var dýrari og örlítið stærri en Pontiac og um tíma fékk Oldsmobile viðurnefnið tilraunadeildin, því að þar komu fram ýjungar eins og fyrsta sjálfskiptingin rétt fyrir 1940 og fyrsta nútímalega V-8 toppventlavélin 1948.

Buick höfðaði til efnaðs og íhaldsams fólks. Ólafur Thors átti lengst af Buick.

Efstur trónaði Cadillac sem velti Packard úr sessi á sjötta áratugnum sem "standard of the world" og varðþekktasti og lagnmest seldi lúxusbíll veraldar.

Á seinni hluta sjötta áratugarins breytti Pontiac um svip og fór að verða sportlegri og frá 1959-69 var Pontiac hvað eftir annað með fallegustu bílana, með "split-grille" og wide track".

Myndirnar hér á síðunni eru af Pontiac Bonneville 1959, fyrsta bílnum með þessum tveimur atriðum og valinn bíll ársins af Motor Trend. Þessi bíll var hið síðasta af snilldarverkum Harley Earl, yfirhönnuðar GM. 

Ford kilkkaði á því lengi vel að hafa bara tvær stærðir til sölu en lagaði það með millistærðinni Mercury um 1939.

1958 var ætlun Ford að hafa stærðirnar fjórar með því að bæta Edsel inn í en það urðu einhver frægustu mistök bílasögunnar, og menn hlógu Edsel út af markaðnum 1960.

Chrysler var á tímabili með fjórar stærðir, Plymouth, Dodge, De Soto, Chrysler og Imperial.1961 var De Soto sleginn af og Imperial fór sömu leið síðar. Eftir stóðu þrjár stærðir eins og hjá Ford.

Margar stórar bílaverksmiðjur nútímans hafa þrjár meginstærðir bíla til sölu.

Volkswagen er með Póló, Golf og Paassat og BMW með 3-línuna, 5-línuna og 7-línuna. Þetta virðist vera hagkvæmasta og besta fyrirkomulagið.

Um 1960 fóru stóru verksmiðjurnar í Bandaríkjunum að rugla með þetta þegar allar deildir verksmiðanna byrjuðu að framleiða smærri bíla, hver um sig og það tvær stærðir af þeim. Stærðarmunur aðskildi ekki lengur deildirnar og úr varð ruglingsleg fjölbreytni.

Eðlileg niðurstaða kreppunnar miklu hefði verið sú að verksmiðjurnar hefðu hver um sig framleitt þrjár meginstærðir bíla en það er fyrst nú sem sú er að verða niðurstaðan eftir að önnur kreppa hefur riðið yfir.

GM hætti við Oldsmobile fyrir nokkrum árum og nú er Pontiac farinn sömu leið. Eftir sitja Chevrolet, Buick og Cadillac.

Áratugum saman var Plymouth mest seldi og ódýrasti bíll Chrysler-verksmiðjanna en fyrir nokkrum árum var hann sleginn af. Eftir sitja Dodge og Chrysler hjá gjaldþrota fyrirtæki.

Loksins, eftir nær 80 ára sviptingar virðast bandarísku framleiðendurnir vera að komast á það ról sem þeir hefðu betur komist á fyrr, því að nú kann það að vera of seint.


mbl.is Bílasala GM minnkaði um 34%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hundurinn var aðkomuhundur."

"...af erlendu bergi brotnir..." segir í tilkynningu lögreglunnar. Minnir á gamalkunna frétt í Akureyrrarblaði þar sem greint var frá því að hundur hefði bitið þar mann. Í fréttinni var sérstaklega tekið fram: "Hundurinn var aðkomuhundur."
mbl.is Hraðbankaþjófar handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttusöngur.

Í tilefni dagsins:

BARÁTTUSÖNGUR. (Með sínu lagi)

Horfum fram á hamingjudag ! /
Hress við skulum taka þann slag ! /
Fylkjum liði fólkinu´í hag ! /
Frelsi ! Jafnrétti ! Bræðalag ! /

Öll gegn skorti, ófrelsi´og neyð /
áfram göngum við baráttuleið ! /
Fylkjum liði fólkinu´í hag ! /
Frelsi! Jafnrétti! Bræðralag ! /

Verðmætt landið verjum nú öll ! /
Vígorð hljómi´um dali og fjöll ! /
Fylkjum liði fólkinu´í hag ! /
Frels! Jafnrétti! Bræðalag ! /

Bestu leiðir bjóðum við hér. /
Að beisla mannauðinn farsælast er. /
Fylkjum liði, fólkinu´í hag ! /
Frelsi ! Jafnrétti ! Bræðralag ! /

Saman styrkinn finnum /
þótt leiðin sé löng og ströng ! /
Saman sigur vinnum /
og syngjum baráttusöng ! /

Horfum fram á hamingjudag ! /
Hress við skulum nú taka þann slag ! /
Fylkjum liði fólkinu´í hag ! /
Frelsi! Jafnrétti! Bræðralag ! /

:,: Frelsi ! Jafnrétti ! Bræðralag !:,: /


mbl.is Fjölmenni í kröfugöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sér dapurlegar hliðstæður.

Misnotkun bóta af ýmsu tagi er gamalkunnugt fyrirbæri. Sem dæmi má nefna veikindadaga. Bæði hér á landi og í nágrannalöndum líta sumir svo á að hver maður eigi rétt á ákveðnum fjölda veikindadaga í hverjum mánuði.

Í Svíþjóð gekk þetta svo langt að halda mátti að þjóðin væri með eitthvert slappasta heilsufar allra þjóða.

Vissu þó allir að lífskjör, velferð og heilbrigðiskerfi voru með því besta sem gerist í heiminum, margfalt betra en sumar þjóðir þar sem veikindadagar voru miklu færri.

Þegar þetta hugarfar verður algengt fara menn að misnota svona réttindi á þeim forsendum að það séu hvort eð er svo margir sem geri það.

Ég var svo ótrúlega lánsamur í þau tólf ár sem ég starfaði á síðari hluta ferils míns hjá Sjónvarpinu að þurfa ekki að taka einn einasta veikindadag. Ári eftir að ég hætti þurfti ég hins vegar að ganga í gegnum fjögurra mánaða erfið veikindi.

Eftir á gæti sú hugsun læðst að hjá mér að ég hafi verið "óheppinn" að verða ekki veikur á meðan ég gat "tekið út" mína veikindadaga, - en sú hugsun á bak við veikindadaga, að rétt sé að "taka þá út", hvort sem fólk er veikt eða ekki, virðist furðu algeng.

Þessi hugsun er alröng, - ég átti að þakka fyrir að verða aldrei svo veikur af kvefpestum eða öðru að ég væri alveg óvinnufær.

Hún er líka alröng, bæði siðferðilega og skoðað út frá hagrænu sjónarmiði. Með því að misnota trygginga- og velferðarkerfið er verið að veikja það og allt þjóðfélagið á þann hátt að það bitnar á þeim sem síst skyldi, - þeim sem sannanlega þurfa á hjálp kerfisins að halda.


mbl.is Bæturnar misnotaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband