26.6.2011 | 10:50
Það síðasta sem við þurftum.
Eyjafjallajökulsgosið í fyrra og Grímsvatnagosið um daginn röskuðu talsverðu á meðan þau stóðu en á móti kom að til lengri tíma litið auglýstu þeir Ísland rækilegar en nokkuð annað, sem hægt er að nefna í því sambandi.
Sú var tíð hér á árum áður að verkföll á Íslandi voru tíðari en í flestum öðrum löndum og vinnudeilur ollu gríðarlegu tjóni.
Sem betur fer skánaði þetta en hvarf þó ekki með öllu.
Efnahagshrunið og hrun krónunnar ollu ómældu tjóni en á móti kom að ferðaþjónustan fékk mun betra rekstrarumhverfi en áður og var í raun eina bjargráðið og sóknarfæri okkar.
Það er því þyngra en tárum taki að einmitt í upphafi aðal ferðamannatímans á lang mikilvægasta tímabilinu skuli vinnudeilur ógna þessu eina sem við áttum þó til að reiða okkur á.
Þetta var það síðasta sem við þurftum.
![]() |
Hurðinni skellt á okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.6.2011 | 10:35
Ógleymanlegur karakter í "barna"ævintýrum.
Hvernig dettur mér í hug að nefna barnaævintýri þegar ég minnist Peters Falk og Colombos í sakamálaþáttunum frægu?
Jú, vegna þess að ákveðin atriði í þessum framhaldsþáttur hlíttu lögumálum barnaævintýranna, þar sem efsta krafan er: Segðu mér söguna aftur!
Í hverjum Colomboþætti gerðist sama atvikið aftur og aftur, þátt eftir þátt, og maður varð aldrei leiður á þeim, heldur hefði það verið alger eyðilegging á þeim að sleppa þessum atriðum.
Þau fólust í því að þegar Colombo var búinn að ónáða skúrkinn, sem yfirleitt var stórgáfaður og snjall, og kvaddi hann, og skúrkurinn andaði léttara, bankaði Colombo aftur að dyrum og átti þá eitthvað afar smátt erindi, sem oft tengdist þó beint eða óbeint glæpnum.
Fleiri atriði í þáttunum voru eins ómissandi og síendurtekin stef í barnaævintýrum, gamla Peugeot druslan og skítugi, snjáði rykfrakkinn.
Aðal uppstillingin í þessum frábæru þáttum fólst í þekktu atriði varðandi sakamál, sem er það, að oft er auðveldara að fella afburða gáfaðan glæpamann eða flækja hann í eigin neti heldur en ef hann væri treggáfaður.
Ástæðan er sú að hinn stórsnjalli reynir ávallt að láta allt dæmið ganga 100% upp og ef minnsta ósamræmi finnst, verður það höfuðatriði að reyna að leiðrétta það.
Þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Shutz sem kom hingað til að rannsaka Geirfinnsmálið var beðinn um að líta á óupplýst morð Gunnars Tryggvasonar leigbílstjóra frá því fyrir nokkrum árum þar sem allt var fyrir hendi sem vantaði í Geirfinnsmálinu: Lík, morðvopn sem fannst í fórum hins grunaða og hugsanleg ástæða fyrir morðinu.
En Shutz sagði eftir að hafa skoðað yfirheyrslur og skýrslur um málið: "Þennan sakborning get ég ekki fellt. Hann er of heimskur til þess að það sé hægt að flækja hann í eigin neti heldur stendur fastur á ákveðnum atriðum sem hann fattar ekki hvers eðlis eru.
Við þekkjum dæmi um gildi endurtekninganna úr mörgum öðrum framhaldsþáttum, til dæmis slagsmálaatriði Catos og Peters Sellers í hverjum þætti um lögreglufulltrúann klaufska, og ákveðin atriði sem voru stef í öllum myndunum um James Bond.
Þegar þau hófust vissum við fyrirfram um það hvernig þau yrðu, en samt urðum við að sjá þau aftur og aftur.
Þessi atriði eru dæmi um þau barnaævintýri fyrir fullorðna sem ekkert getur drepið.
![]() |
Peter Falk látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2011 | 12:19
Fornbílar fyrir sunnan, flugvélar fyrir norðan.
Jónsmessuhelgin er mér erfið ár eftir ár því að þessa helgi eru haldnar samtímis tvær hátíðir sem ég þarf að velja á milli, - annars vegar Landsmót Fornbílaklúbbs Íslands og hins vegar Flugdagur á Akureyri.
Ofan á þetta bætist í ár, að ég þarf að nota helgina til að koma ökufærum bíl upp á Sauðárflugvöll norðan við Brúarjökul og byrja á að snyrta völlinn og fara burt með bíl sem er bilaður þar.
Ég hef starfað í Flugklúbbi Íslands, Akureyri, meira og minna í meira en þrjátíu ár og verið starfsmaður á Flughátíðinni árlega um langt árabil.
Fyrir bragðið verður valið ævinlega það sama, - fornbílaáhuginn líður fyrir flugáhugann.
Eina smá huggunin er að til starfa á Flughátíðinni á fornbíl, Subaru ´81, sem ég notað í snatt á Akureyri og kvikmyndagerð á Norðausturlandi og dugar vel. Góða helgi!
![]() |
Landsmót Fornbílaklúbbsins hafið á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2011 | 12:15
Annað Öskubuskuævintýri, hið fyrra var KA.
Í kringum miðjan sjöunda áratuginn var lið ÍBA besta liðið á Íslandi. En það vorar yfirleitt talsvert síðar á Norðurlandi en fyrir sunnan og því töpuðu Akureyringar yfirleitt í upphafi mótsins og urðu því aldrei Íslandsmeistarar.
Enginn átti von á því að KA eða Þór gætu hampað bikarnum úr því að sameinað lið gat það ekki.
En síðan kom Guðjón Þórðarson til skjalanna og sannaði það, að stundum dugar ekki venjuleg samlagning til að finna út hve gott lið eða hópur er.
Stundum verður útkoman stærri en samtala einstaklingsgetu hvers og eins og KA varð Íslandsmeistari.
Góð dæmi eru bestu kvartettar Íslands, svo sem MA-kvartettinn, þar sem gæðin urðu samtals meiri en nam samtölu getu einstaklinganna.
Á hinn bóginn var Einsöngvarakvartettinn skipaður fjórum af bestu einsöngvurum landsins og hefði því átt að verða langbesti kvartett Íslandssögunnar en varð það því miður ekki, því að það var svo augljóst að það voru fjórir einsöngvarar að syngja í einu en ekki mjúk og samstæð heild.
Á sínum tíma komu knattspyrnumennirnir í Víði í Garði á óvart og nú eru það knattspyrnumenn úr aðeins 970 manna vestfirsku samfélagi sem er yst á jaðri byggðar á norðvesturhorni landsins.
Þetta er sannkallað Öskubuskuævintýri og ástæða til að óska þjálfara, leikmönnum og Bolvíkingum til hamingju með hinn ótrúlega sigur.
![]() |
Erum frekar hátt uppi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.6.2011 | 12:02
Tímamót í íslenskum íþróttum.
Svo undarlega sem það hljómar hefur lengi verið það ástand íþróttamála á landi, sem kennt er við ís, að íshokkí hefur varla verið til, hvað þá að það hafi notið neinnar viðlíka hylli og það hefur notið beggja vegna Atlantshafsins.
Sömuleiðis var það þannig lengi vel hér á landi, að flestum þótti það eðlilegt ástand að íslenskt fimleikafólk væri eftirbátar erlends fimleikafólks.
Nú hafa orðið tímamót í báðum íþróttagreinunum.
Hin fyrri voru fólgin í meistaratitli stúlknaflokks Gerplu sem setti þær á stall með þeim allra bestu í Evrópu.
Síðari tímamótin felast í því að stefnt geti í það að fyrsti íslenski íshokkímaðurinn verði atvinnumaður erlendis.
Þetta er afar mikilvægt því að nokkrir fordómar hafa lengi ríkt varðandi íshokkí, líkt og Formúla eitt var lengi vel ekki talin vera sjónvarpsefni fyrir Íslendinga þótt hún væri með allra vinsælasta íþróttaefni í erlendu sjónvarpi.
Báðar greinarnar njóta sín að vísu best fyrir áhorfendur á staðnum, en sjónvarp frá íshokkí með góðum útskýringum á mikla möguleika rétt eins og Formúlan.
![]() |
Ingólfur er eftirsóttur erlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2011 | 10:58
Hin heillandi náttúra landsins.
Náttúra Íslands hefur um aldir verið helsti ógnvaldur þjóðarinnar og enn eimir eftir af því hugarfari að það sé af hinu vonda.
Þjóðin verður með reglulegu millibili fyrir búsifjum af völdum náttúruaflanna en gagnstætt því sem áður var þegar áhrif náttúrunnar voru öll neikvæð, er það þvert á móti aðdráttarafl bæði fyrir Íslendinga og ekki síður útlendinga hve stórbrotin sköpunin er sem íslensk náttúra býður okkur upp á.
Í fyrra fór ég með fjölmörgum erlendum fjölmiðlamönnum yfir Eyjafjallajökul og í sérstaka ferð niður eftir Gígjökli og þegar komið var í lok "rússíbanaferðarinnar" niður að rótum jökulsins, var það punkturinn yfir i-ið að benda á það, hvernig aurframburðurinn af völdum bráðnandi jökulsins hafði fyllt upp djúpt lón, sem áður var við jökulsporðinn.
Nú stefnir í að það verði jafn áhugavert að benda á það hvernig lónið er byrjað að myndast á ný og að sagan endalausa um hinn stórbrotna og einstæða sköpunarmátt íslenskrar náttúru hefur fengið viðbót og framhald.
Og það, að fyrirbærið sé hættulegt, eykur á virði þess sem fólgið er í töfrum og hrikaleik þess lands, sem í ógnvekjandi fegurð snertir við frumþáttum mannlífsins, sem er einfaldlega að "lifa af", og túlkað er í enska orðinu "survival".
Þetta séreinkenni íslenskrar náttúru er eitt af því sem lokkar hingað útlent ferðafólk öðru fremur.
Þess vegna má finna út úr hættunni sem Gigjökull hefur nú afhjúpað, aðdráttarafl þar sem hið jákvæða er margfalt dýrmætara en hið neikvæða.
![]() |
Varað við nýju lóni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2011 | 14:05
Glæsilegt andsvar við steinsteypubáknunum.
Fyrir 40 árum var stefnan varðandi byggingar í miðborg Reykjavíkur skýr: Ryðja skyldi burtu "fúaspýtukofum" á borð við Bernhöftstorfuna og reisa í staðinn glæsilegar steinsteypuhallir, nýtt Stjórnarráðshús í stað Bernhöftstorfunnar og verslunar- og skrifstofuhallir eða íbúðablokkir, hvar sem því yrði við komið.
Við vesturenda Austurstrætis reis tákn steinsteypuáráttunnar, Morgunblaðshúsið, og elsta kvikmyndahúsi Norðurlanda, Fjalakötturinn, var rifinn.
Fróðlegt gæti verið að nota tölvutækni til að sýna, hvernig útsýnið væri til vesturs eftir Austurstræti, ef Morgunblaðshöllin væri þar ekki, heldur blasti allt Grjótaþorpið við í endurreistu formi með Fjalaköttinn sem eitt merkasta húsið.
Sömuleiðis blasti þá betur við en fyrr í heilu lagi miðhluti Innréttinganna og húsin á bak við hann í samhengi.
Raunar finnst mér það ekki fjarstæð framtíðarsýn að þegar Morgunblaðshúsið sé orðið nógu gamalt og lúið verði það jafnað við jörðu og húsin, sem þar stóðu áður endurreist, verði þetta fyrsta hjarta Reykjavíkur loksins farið að líkjast því sem það hefði alltaf átt að vera.
Svona steinsteypubákn hafa víða erlendis verið brotin niður og eldri húsagerðir reistar í staðinn, ekk i aðeins vegna sögulegra sjónarmiða, heldur hefur reynslan sýnt að það borgar sig peningalega að búa til aðlaðandi og manneskjulegt umhverfi.
Húsin, sem voru endurreist á horni Austurstrætis og Lækjargötu eru glæsilegt andsvar við steinsteypubáknatrúnni, sem enn má sjá í fullum blóma í formi niðurníddra húsa, sem menn hafa keypt að þvi er virðist til þess að láta þau eyðilegggjst svo að hægt verði að reisa í staðinn steinsteypubákn.
Ekki var svo lítill slagurinn sem stóð um húsin tvæ vestast við Laugaveginn og kyrjaður söngurinn um "ónýtar fúaspýtur" og "öfgafulla varðveislustefnu".
Sem betur tókst Ólafi F. Magnússyni og fleiri góðu fólki að bjarga þessum húsum og ekki má gleyma stórgóðu framlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann kynnti samsvarandi málefni frá stórum og smáum borgum í Evrópu og sýndi fram á tvöfalt gildi varðveislustefnunnar, hið menningarsögulega gildi og hið efnahagslega og þjóðfélagslega gildi.
![]() |
Ný götumynd blasir við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.6.2011 | 13:35
Nýtt nafn: Betri flokkurinn ?
Einu sinni varð mér það á að segja við sótugan slökkviliðsvarðstjóra í beinni útsendingu, eftir að hann kom beint úr stórum bruna að segja í lok ágengs viðtals við hann í hughreystingarskyni: "Það gengur betur næst."
Þótt meining mín væri velviljuð tóku flestir þetta sem argasta dónaskap minn í garð varðstjórans og ég áttaði mig á því að það væri skiljanlegt.
En það varð ekki aftur snúið og þá var næsta skref að læra af þessu og gera gott úr öllu.
Niðurstaðan varð sú að ég gerði orðin "það gengur betur næst" að kjörorði í lífi mínu.
Í þessum fjórum orðum flest nefnilega tvennt:
Annars vegar viðurkenning á því að ekki hafi tekist til sem skyldi.
Hins vegar vilji til að læra af því og gera betur framvegis.
Nú má sjá að Besti flokkurinn telji mikilvægt að hann sýni æðruleysi og auðmýkt í sínum störfum þótt heitið "Besti flokkurinn" beri ekki vitni um mikla auðmýkt.
Meiri auðmýkt hefði falist í því í upphafi að kalla flokkinn örlítið minna yfirlætislegu nafni svo sem "Betri flokkinn".
Það getur falist í því svipað "æðruleysi og auðmýkt" og í setningunni "það gengur betur næst".
![]() |
Batnandi flokkum er best að lifa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2011 | 11:26
Mögru árin og feitu árin.
Sagan af feitu árunum og mögru árunum í Biblíunni er bara ein af óteljandi slíkum sögum um sveiflurnar sem hafa verið frá örófi alda í veðurfari á jörðinni.
Þess vegna er ekki nú, frekar en endranær, hægt að draga neinar almennar ályktanir af því að nú stendur yfir lengsta kuldakast að vori á Norðausturlandi, sem um getur á öldinni.
Ekki er frekar hægt að gera það heldur en að hægt hefði verið að draga almennar ályktanir af lengsta og mesta hlýindakafla að vorlagi á Norðausturlandi sem þar kom í fyrra.
Þrátt fyrir það hve ólík þessi tvö vor voru, er hægt að sjá samsvörun í ákveðnum atriðum á Norðausturhálendinu í ár og í fyrra.
Þannig voru óvenju mikil snjóalög austast á hálendinu bæði vorin, einkum á Snæfellssvæðinu.
Einnig mikill snjór í Öskju.
Á hinn bóginn hefur öll síðustu ár, líka í fyrra og í vor, mjög snjólétt á svæðinu upp með Jökulsá á Fjöllum allt upp undir Kverkfjöll.
Á milli þessara tveggja svæða eru Brúaröræfi suðvestur af Kárahnjúkum þar sem bæði vorin féll nokkuð mikill snjór seint að vori, sem fyrir bragðið er fljótur að bráðna og hverfa.
Snjóinn dró að mestu í skafla í lægðum en hins vegar var bæði vorin sérlega snjólétt á hinum flata Sauðárflugvelli sem varð fær og opinn í byrjun júní bæði vorin.
Að því leyti til var ótrúleg lítinn mun að sjá á þessum tveimur vorum.
![]() |
Útlit fyrir áframhaldandi kuldatíð á Norðausturlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.6.2011 | 10:31
Sunnlendingar heppnir með veður.
Það virðist ekki ætla að koma raunverulegt sumar á norðanverðu landinu í þessum mánuði og enn eitt kuldakastið í vændum í næstu viku.
Á móti kemur að á sunnanverðu landinu verður bjartviðri að mestu svo langt sem séð verður fram í tímann og þetta kemur sér afar vel varðandi ferðamannaþjónustuna á þessu svæði, sem vegur þyngst í ferðamannaþjónustunni á landsvísu.
Ferðamannaþjónustan í Norður-Evrópu er afar háð veðri, ekki hvað síst hér á landi. Það skiptir því miklu máli ef vel tekst til þegar stærstu skemmtiferðaskip heims koma hingað í fyrsta sinn.
![]() |
Stærsta skemmtiferðaskipið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)