21.6.2010 | 20:06
Bara ef skuldirnar hefðu ekki orðið til !
Fyrir átta árum hafði kaupmáttur launa farið vaxandi í sjö ár og ef við lítum til baka var það bara bærilegt að lifa í þessu landi á þessum tíma fyrir flesta.
En 2002 byrjaði gróðærisæðið með þenslu, græðgi, neyslukapphlaupi og fjórföldun skulda heimilanna.
Ekki þarf nema að breyta einum staf í orðunum kaupmáttur launa til þess útkoman verði kaupmáttur lána sem yrði þá nýtt hugtak yfir það hvernig lánareikningurinn, afborganir, vextir og höfuðstóll koma út.
Útkoman úr honum er svo skelfilega neikvæð að engu skiptir fyrir þá verst settu hvort þeir búi við meiri kaupmátt nú en fyrir átta árum. Það er meginatriði málsins. Ef fólk hefði notað hið falska góðæri til að borga skuldir sínar í stað þess að fjórfalda þær væri öðruvísi um að litast í þjóðfélagi okkar.
![]() |
Kaupmáttur ekki minni í 8 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2010 | 03:19
Lítið, skrýtið og sætt í bland ?
Ég var að koma til Reykjavíkur eftir flug frá Akureyri yfir Vatnajökul og Skaftá til Hvolsvallar og akstur frá Hvolsvelli til Reykjavíkur nú um klukkan þrjú að nóttu.
Var á leið akandi inn á Brúaröræfi þegar ég frétti af Skaftárhlaupinu, kláraði fyrst það verkefni og fór síðan í þetta.
Ég held að sérfræðinga þurfi til að segja til um, að svo stöddu, úr hvorum katlinum hlaupið kemur, þótt sá vestari virðist hafa sigið meira en hinn.
Efsta myndin er af honum með Grímsvötn og Öræfajökul í baksýn.
Katlarnir sjást mjög vel því að jökullinn er allur grádoppóttur eftir öskufall frá Eyjafjallajökli.
Neðar á bloggsíðunni er mynd af eystri katlinum.
Vatn í Skaftá kemur nú úr fjórum útföllum og er ekkert sérstaklega mikið vatnsmagn í neinum þeirra.
Ætla að henda inn nokkrum
myndum eftir atvikum, - fer eftir því hve vel gengur að koma þeim inn hvað þær verða margar.
Flestir tengja Skaftárhlaup við ljótleika, aur og sandburð, en í raun bjóða þau upp á slíka fegurð víða á leið sinni að ef þetta hlaup er lítið, mætti kannski segja að það verði lítið og sætt en kannski dálítið skrýtið.
P. S. Nú virðist ljóst eftir viðtöl við sérfræðinga að hlaupið komi úr vestari katlinum.
![]() |
Skaftárhlaup hafið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2010 | 12:05
Sumarleyfi farin að hafa áhrif.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er einn af ritsnjöllustu mönnnum þjóðarinnar og hefur mikið vald yfir tungunni.
Eftir talsvert suð mitt um málleysuna "bílvelta varð" sem óð uppi í fréttum á mbl.is brá svo við í lokin að farið var að skrifa "bíll valt"og ég gladdist yfir litlu og þakkaði Davíð þetta ósjálfrátt í huganum.
En nú er komið sumar og afleysingafólk greinilega tekið til starfa, því að nýtt afbrigði af "bílvelta varð" hefur nú litið dagsins ljós í frétt af óhappi við Þjórsárbrú.
Þar er sagt: "Bílvelta var", "....Lögregla mætti á svæðið. Ökumaður, sem var útlendingur, var einn í bílnum, reyndist sem betur fer heill á húfi"..."
Þetta vekur spurningar:
Valt þessi bíll á svo stóru svæði að þörf væri á að nota þetta orðalag?
Eða kom lögreglan inn á svæðið án þess að fara að bílnum? Eru orðin að koma og fara alveg að týnast úr tungunni og menn farnir að mæta hér og þar í stað þess að fara á fundi eða koma á fundi?
Er ekki nókkuð ljóst að fyrst einn maður var í bílnum þá hlyti hann að hafa ekið bílnum, þannig að óþarfi væri að taka það sérstaklega fram að þessi eini maður hefði ekið bílnum.
Það er jafn mikill vandi að skrifa skýra og vel orðaða frétt þótt hún sé stutt og lítil eins og ef hún væri löng og stór.
Það hefði verið hægt að orða fréttina um óhappið á miklu styttri, skýrari og betur orðaðan hátt, til dæmis svona:
"Bíll valt skammt vestan við Þjórsárbrú og fór lögregla á vettvang. Útlendingur var í bílnum og reyndist ómeiddur."
Frábær íslenskumaður er ritstjóri Morgunblaðsins. En enginn má við margnum, ekki einu sinni Davíð Oddson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.6.2010 | 10:26
"Þriggja spólu ferð"
Ég heyrði þessa setningu fyrst fyrir fimmtán árum þegar rúta ein stansaði við Staðarskála í Hrútafirði og út snaraðist hópur vaskra ungmenna úr myrkvaðri rútunni.
Ég spurði fararstjórann af hverju dregið væri fyrir glugga eftir föngum í rútunni og svaraði hann því til að það væri til þess að byrgja sem mest af sólskininu úti svo að unglingarnir gætu horft á kvikmyndir á meðan á ferðinni stæði.
"Þetta er það löng ferð, þriggja spólu ferð" útskýrði hann.
Ég innti hann nánar eftir þessu og sagði hann að hér væri um íþróttahóp að ræða og í slíkum ferðalögum yrði að halda uppi sem bestum anda og ánægju ef árangurs ætti að vera að vænta.
Engum þarf að koma á óvart skondnar uppákomur á borð við þá um daginn þegar dagskrárgerðarfólk úr Reykjavík ætlaði vestur á Grundarfjörð en var orðið rammvillt norður í Hrútafirði og þurfti að hringja í fróðan mann til að fá leiðbeiningar um hvert halda skyldi.
GPS-tæknin hefur í ofanálag orðið til mikils tjóns varðandi þekkingu okkar á landi okkar, hvað þá á sögu þess og menningu.
Ég hef í starfi mínu um áratuga skeið fylgst með versnandi þekkingu Íslendinga á eigin landi, og gildir einu hvort um alþýðu manna er að ræða eða hámenntað fólk.
Frá þessu eru auðvitað undantekningar og ýmis áhugamál eins og útivist, hestamennska og ferðalög draga úr þessu hjá stórum hópum fólks.
En sagan af því hvernig Grundarfjörður var kominn norður í land er ekkert einsdæmi, því miður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2010 | 22:22
"Á flandri".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2010 | 22:16
Ánægjuleg fyrsta ferðin fyrir pistlana "Á flandri".
Um 30 ára skeið hefur það verið ómissandi þáttur í lífi mínu að fara með Helgu á árlega flugsýningu og flughátíð á Akureyri.
Síðustu 15 ár hefur Íslandsmótið í listflugi verið hluti af sýningunni og síðustu árin hafa verið uppákomur í flugsafninu, sem þarna er.
Klúbburinn, sem heldur þessa sýningu heitir því skemmtilega nafni "Flugklúbbur Íslands, Akureyri".
Í þetta sinn fór ég norður með Andra Frey Viðarssyni í jómfrúarferð útvarpspistlanna "Á flandri, - Ómar og Andri", sem sendir verða í beinni útsendingu frá ýmsum stöðum um landið í dagskrá Rásar 2 á föstudögum milli klukkan þrjú og fjögur.
Þetta var frumraun og ýmislegt sem þurfti að yfirstíga en allt gekk þó nokkurn veginn upp.
Veðrið var sérstaklega heppilegt, ágætis veður í Reykjavík en batnaði sífellt á leiðinni og endaði í 22ja stiga hita, logni og heiðríkju á Akureyri.
Útsendingarnar voru þrjár, - af Moldhaugahálsi, frá Ráðhústorginu og loks Flugsafninu á Akureyrarflugvelli.
Við tókum upp nokkra pistla á leiðinni, meðal þeirra viðtal við Þjóðverja, sem er að hjóla á lágri þriggja hjóla grind hringinn í kringum landið.
Þessir pistlar verða sendir út eftir hádegi á morgun á Rás tvö og svona verður þetta í sumar, ef Guð lofar.
Stef þáttarins er unnið upp úr laginu "Hit me with your rythm stick" og við syngjum það svona:
Á flandri! Á flandri! - Ómar og Andri!
Úti á landi !
Alltaf í bandi!
Óstöðvandi!
Alltaf í stand!
Hitta allt fólkið!
Hvað er að gerast!
Hvert á að fara?!
Láta það berast!
Á flandri! Á flandri! - Ómar og Andri!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2010 | 22:43
Jón Sigurðsson, þjóðartáknin og Einar Ben.
Útlendingar kynnu að halda að Íslendingar hneigðust yfirleitt mjög til persónuudýrkunar vegna þess hve stóran sess Jón Sigurðsson skipar í hugum okkar og hve mikið honum er hampað.
En dýrkun okkar á Jóni er aðeins viðurkenning á þeirri staðreynd hvað þessi eini maður gat áorkað miklu fyrir heila þjóð.
Í stórgóðu og fróðlegu erindi Gunnars Stefánssonar í útvarpinu síðdegis um íslenska fánann og íslenska skjaldarmerkið kom vel fram hvað þessi tvö tákn eru mikilvæg fyrir þjóðina, ímynd hennar og þjóðarvitund.
Þetta erindi Gunnars ætti að gefa út í bókarpésa og gera að skyldulesningu fyrir alla Íslendinga.
Hver perlan af annarri skein í þessu erindi, svo sem ræða Sigurðar Eggerz þegar þjóðfáninn var fyrst dreginn að húni 1. desember 1918.
Hlutur Einars Benediktssonar í fánamálinu kom vel fram í erindi Gunnars, enn eitt dæmið um það sem þessi snillingur og stórmenni færði þjóð sinni.
Því miður kunni þjóðin ekki að þakka honum það sem skyldi að öllu leyti sem hann færði henni, svo sem það að bjóða honum ekki á Alþingishátíðina 1930 og láta niðurlægingu hans síðustu árin í Herdísarvík viðgangast.
Erindi Gunnars Stefánsson væri gott efni í stutta heimildarmynd um skjaldarmerkið og þjóðfánann og það er einmitt svona efni sem er það besta sem RUV getur fært eigendum sínum, íslensku þjóðinni.
![]() |
Fjölmenni á Hrafnseyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.6.2010 | 00:52
Nýr forstjóri, ný stjórn, ný sýn.
Verð og eftirspurn eftir orku fer hækkandi í heiminum og því er eðlilegt að á þeim markaði sé tekið tillit til þess. Á þessu sviði er ástandið það sem kallað er "sellers market" á erlendu máli, markaður þar sem seljendur hafa sterkari stöðu en kaupendur.
Þegar Íslendingar fóru inn á þennan markað fyrir 40 árum tóku þeir upp stefnu, sem gilt hefur allt þar til nú, - að gera það að höfuðatriði að selja vöruna, jafnvel þótt það kostaði það að hún yrði seld á hlægilega lágu verði í stað þess að verðleggja hana í samræmi við verðmæti hennar.
Best birtist þetta í hinum einstæða betlarabæklingi íslenskra stjórnvalda, sem Andri Snær Magnason varpaði hulunni af í bók sinni Framtíðarlandinu.
Kynningarbæklingur þessi var sendur til erlendra stórfyrirtækja 1995 með upphrópuninni: "Lægsta orkuverð ! Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum!"
Ég hlustaði á Hörð Arnarson tæta fjármálastefnu Landsvirkjunar í tætlur á fundi Viðskiptaráðs 2007.
Mér leist því vel á það þegar hann var ráðinn forstjóri fyrirtækisins sem ný stjórn hafði tekið við stjórnartaumunum í.
Ný stefna í verðlagningu á orkunni kallar líka á breytingu á vali kaupenda, sem rímar við eðli jarðvarmavirkjana. Þessi breyting þarf að verða í þá átt að hafa kaupendurna að orkunni fleiri og smærri í stað þess að setja alla orku heilla landshluta í hendur eins stórfyrirtækis og taka jafnvel með því áhættu af því að ekki finnist næg orka, heldur verði fyrir neyð að fórna enn meiri náttúruverðmætum en upphaflega stóð til.
![]() |
Samið um orkusölu í Straumsvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.6.2010 | 00:26
Mikið óskaplega á hann þetta skilið.
Árni Tryggvason skipar sérstakan sess í huga mér. Aðeins tólf ára gamall varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að deila með honum búningsherbergi í tveimur leikritum, sem ég lék í í Iðnó.
Fyrra hlutverkið var mjög vandasamt, hlutverk götustráksins Gavroche í hinni einstöku uppsetningu Gunnars Hansen á höfðuverki Victors Hugo, sem hann gerði að stærra hlutverki en hafði verið í sögunni.
Hlýja, léttleiki og glaðværð Árna var mér mikilsverð og æ síðan hafa verið traust vináttubönd á milli okkar. Dró ekki úr því að vera á ferðinni sem kollegi hans í skemmtikraftabransanum í þrjátíu ár og ná síðan að gera með honum einn af eftirminnilegustu Stikluþáttum mínum, þar sem hann naut síin sem trillusjómaðurinn í Hrísey.
Líf og list Árna hafa ekki alltaf verið dans á rósum en hann hefur markað spor í leiklistar- og menningasögu þjóðarinnar sem vert er að hafa í heiðri. Mikið óskaplega á hann þetta skilið.
![]() |
Árni Tryggvason heiðraður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2010 | 01:05
Myndir af fokinu, sem virðist feimnismál.
Að undanförnu hafa myndir af öskufoki og umfjöllun um það eðlilega verið mjög í sviðljósinu í fjölmiðlum.
Slíkt þykir öllum vert að sinna, enda brýnt að takast á við fyrirbæri, sem engu er um að kenna nema aðstæðum, sem menn fá ekki ráðið við. Myndarlegt átak í þessum efnum er þarft og er það vel.
Nú er hafið þriðja sumarið í röð og ekki það siðasta á þessari öld þegar mikið, nýtt og öflugt leirfok geysar á austanverðu hálendinu.
Efstu myndirnar eru tekin hátt úr lofti úr suðri yfir suðurenda Hálslóns og sést varla grilla í Kárahnjúka 25 kílómetrum fjær á myndinni, rétt hægra megin við miðju hennar, hvað þá að stíflurnar glæsilegu sjáist nokkurn tíma á neinni þessara mynda, hvort sem þær eru teknar fjær eða nær.
Já, þetta er framtíðin á þessu svæði langt fram eftir hverju sumri á heitustu dögum sunnanþeysins, hvað sem líður öllum tilraunum til þess að dreifa rykbindiefnum og bleyta leirurnar eins og gert var í fyrra og mikið gert með í fjölmiðlum.
Aðeins einu sinni, í einni frétt Sjónvarpsins í hitteðfyrra, var þetta leirfok sýnt. Að öðru leyti virðist ríkja um það mikil þöggun í fjölmiðlum, enda um manngert óáran að ræða.
Nú ríkir viku eftir vikum mikil blíða á svæðinu við Hálslón, stundum 12 til 14 stiga hiti dag eftir dag, sól og heiðríkja.
Á áróðursmynd Landsvirkjunar fyrir virkjun var sýnd sú dýrðarveröld sem opnast myndi við Hálslón með gerð heilsársvegar þangað, - fólk í sólbaði við tjöld sín, brunandi á seglbrettum og bátum um lónið og fjallaklifrarar að æfa sig utan á Kárahjúkastíflu.
Birt var framtíðarmynd af því þegar stórir vöruflutningabílar og rútur þeystu í röðum yfir stífluna á hinni nýju malbikuðu hálendishraðbraut milli Reykjavíkur og Egilsstaða.
Dýrðarvikur góðviðris ríkja þarna dag eftir dag um þessar mundir.
Hins vegar ekki hræðu að sjá á þessum slóðum þótt malbikaður Kárahnjúkavegur liggi þangað uppeftir.
Ástæðan er einföld: Þarna er engum manni vært vegna leirfoks og standstorma úr þurru lónstæðinu þar sem milljónir tonna af nýjum framburði Jöklu og Kringilsár, sem þær bera niður í lónið á hverju ári, liggja á tugum ferkílómetra lands með leirþekju yfir kafnandi og deyjandi gróðri.
Myndirnar hér á síðunni voru teknar í gær. Hin glæsilegu mannvirki, stíflurnar miklu, sjást ekki vegna leirstorma, ekki einu sinni þótt komið sé alveg að þeim, stig af stigi eins og myndirnar sýna - og það rétt grillir í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk í kófinu.
Ég treysti mér ekki til að fljúga inn í leirkófið til þess að mynda þann raunveruleika blindandi leirfoks, sem fólk upplifir sem áræðir að fara inn í það.
Neðstu myndirnar eru af svæði þar sem Landgræðslan gerði tilraunir til að hefta fokið síðsumars í fyrra.
Daginn eftir að þessar myndir voru teknar snerst vindurinn til vesturs og má þá reikna með því að leirsandurinn hafi borist inn á gróðurlendi Vestur-Öræfa.
En þarna berst sandurinn úr lónstæðinu í allar áttir, gagnstætt því sem fullyrt var fyrirfram.
Formúlan er nefnilega einföld: Hraðasta og mesta vatnsborðslækkun í heimi plús mesti aurframburðurinn plús þurrasta svæði Íslands plús tugir ferkílómetra, sem þorna á örskammri stundu = mesta hugsanlega sandfok af mannavöldum.
Ég held að eftir ferðir mínar í leit að öðru eins víða um lönd sé óhætt að fullyrða að hvergi i Ameríku eða Evrópu eða jafnvel í heiminum öllum hafi neitt viðlíka fyrirbæri verið skapað af mannavöldum eins og það sem þessar myndir sýna.
Þrátt fyrir þetta einsdæmi er þó íklegast að þessi þessi bloggsíða verði eini vettvangurinn í fjölmiðlum sem svona myndir birtast í.
Ég tók líka kvikmyndir, bæði núna, í fyrra og í hitteðfyrra, en býst heldur ekki við að neinn hafi áhuga á þeim.
Þetta eru nefnilega myndirnar sem helst ætti ekki að birta. Þær stangast á við lýsingu eins þingmannsins í umræðu um virkjanamál þess efnis hvað það væri nú gott að fá "snyrtileg miðlunarlón" sem víðast !
Ég minni á að hægt er að stækka þessar myndir í skoðun með því að tvísmella á þær.
(Neðsta myndin á bloggsíðunni fór fyrir tæknleg mistök inn, en er sú sama og önnur stærri mynd ofar)
![]() |
Græða 4000 ferkílómetra lands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.6.2010 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)