Allir á völlinn !

Í dag eiga við gömlu hvatningarorðin þegar áhugaverðir kappleikir voru á Melavellinum gamla: "Allir á völlinn !"

Það er orðið alllangt síðan flugdagur var haldinn í Reykjavík og í dag er afbragðs veður til sýningar af þessu tagi. 

Fyrir fámenna þjóð á dreifbýlli eyju langt frá öðrum þjóðum er þýðing flugsins álíka og þýðing siglinga var fyrir Íslendinga fyrr á öldum. 

Tengsl flugsins við fólkið er mikils virði og öll kynning á fluginu ekki aðeins nauðsynleg heldur líka skemmtileg svo notað sé vinsælt orð hjá komandi borgarstjóra í Reykjavík. 


mbl.is Askan stöðvar ekki flugsýningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnar kröfur.

Þótt Guðlaugur Þór Þórðarson hafi fengið mun hærri styrki fyrir prófkjörsbaráttu sína en Steinunn Valdís Óskarsdóttir fékk virðist einsýnt að aðeins hún og kjósendur hennar flokks telji rétt að hún víki af þingi vegna þessa.

Raunar streittist Steinunn Valdís of lengi við kröfum um að víkja, og það bætti því ekki skaðann nema að litlum hluta þegar hún gerði það allt of seint, rétt fyrir kjördag.

Ef engin krafa verður uppi um það innan Sjálfstæðisflokksins eða meðal kjósenda hans að Guðlaugur Þór geri hið sama og Steinunn Valdís sýnir það einfaldlega að innan flokksins og kjósenda hans sjái menn ekkert athugavert við ofurstyrki á borð við þá sem hann fékk.

Og jafnvel ekki að fyrirtæki styrki frambjóðendur vinstri flokka ef þeir lofa á móti að "láta þau í friði." 

Raunar er svo að sjá af skrifum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, helsti hugmyndasmiðsins á hægri væng stjórnmálanna, að eðlilegt að fyrirtæki styðji aðeins Sjálfstæðisflokkinn og frambjóðendur hans en ekki aðra flokka. 

Það sé eðlilegt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem sé fyrirtækjum velviljaður, - aðrir flokkar séu á móti fyrirtækjum og velgengni þeirra.

Ekki er að sjá að Hannes sjái neitt athugavert við það að fyrirtæki styrki einstaka frambjóðendur vinstri flokka ef þeir á móti lofa því að draga úr eða hætta áróðri gegn þessum fyrirtækjum.  

Einvern tíma hefði slíkt samkomulag verið kallað mútur en við lifum á nýjum tímum. 


mbl.is Guðlaugur fékk hæstu styrkina frá Baugi, Fons og FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknin hlýtur að koma til skjalanna.

Margskyns mótsagnir hafa komið í ljós í því kerfi spáa um öskufall sem truflaði flugsamgöngur stórlega í Evrópu í vor.

Fyrsta dag gossins á Fimmvörðhálsi voru allar flugsamgöngur bannaðar hér á landi vegna þess að í forsendum öskufallsspár var gert ráð fyrir að aska mældist, en vegna þess að engin aska mældist var forritið þannig gert, að flug var sjálfkrafa bannað!

Hvað eftir annað var bannað að fljúga á suðvesturhorni landsins þegar varla sást korn í lofti, en daginn sem svifryksmengun af völdum gossins varð mest í Reykjavík var flugbanni aflétt! 

Um leið og öskugosið hætti var hætt að gera öskufallsspár. Hins vegar fýkur þessi sama aska af Eyjafjalljökli og færir svifryksmengun í Reykjavík upp í hæstu hæðir, en vegna þess að hún kemur ekki úr gígnum, heldur af umhverfi hans, er allt flug leyft! 

21. öldin hlýtur að luma á tækni til að meta öskuna eftir ríkjandi aðstæðum frekar en ágiskun í tölvuspá, sem gerð er í London. 

Ég hef áður sagt frá tilraun sem ég gerði við að fljúga inn í svæði þar sem var öskurigning. Ég var þó í leyfilegu flugi, af því að ég var í sjónflugi og á vél með bullhreyfli. 

Um leið og ég varð öskunnar var velti ég vélinnni á hliðina og sneri henni við og steypti henni til baka sömu leið og ég kom. Framrúðan varð brún þótt ég væri aðeins í tíu sekúndur inni í öskuloftinu.

Enginn skaði hlaust þó af,  -  rigningin þvoði öskuna af á örfáum mínútum. 

Niðurstaða mín af þessari tilraun er þessi: Ef um borð í flugvél í blindflugi er öskuskynjari sem gefur aðvörun, er viðkomandi flugvél þegar snúið við og flogið til baka sömu leið og hún kom. 

Ég hef spurnir af óformlegum mælingum á ösku úr flugi inni í öskumekkinum sjálfum þar sem skyggnið hrundi niður, en öskumagnið reyndist þó við viðmiðunarmörk. 

Svar við slíku ástandi er einfalt, - eitt af því sem flugmenn læra hvað fyrst, að taka 180 gráðu beygju, - snúa við. Þetta hlýtur að verða framtíðin ef til skjalanna koma öskuskynjarar og öskumælar sem notaðir verða í flugi. 

 

 


mbl.is Öskuvari á vélar easyJet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um íslenskan "Route 66"?

Í Bandaríkjunum nýtur hin hálfrar aldar gamla þjóðleið "Route 66" mikilla vinsælda. Sums staðar er auðvelt að fara út af núverandi aðalleið, svo sem í Arizona, og aka þennan gamla veg í staðinn þar sem hann liggur samhliða hinum nýja.

Þá kemur maður inn á bensínsjoppu, sem er alveg eins og þær voru 1960, fær sams konar afgreiðslu, nýtur sams konar veitinga og þjónustuaðferðar, og síðast, en ekki síst, eru bílarnir í næsta nágrenni við sjoppuna hinir sömu og var á sinni tíð, leikin sama tónlist, boðin sömu blöð o. s. frv. 

Litla kaffistofan nýtur þess að halda í hið gamla, annars væri þar fáförult.Mætti jafnvel gera hana og umhverfi hennar enn fornfálegra til að skapa gamla enn sannari gamla stemningu. 

Það má láta sér detta ýmislegt í hug, svo sem gamla Hvítárskálann við gömlu Hvítárbrúna eða endurreisa skálann eins og hann var í upphafi við Ferstiklu. 

Best af öllu væri að vegurinn sitt hvorum meginn við svona skála væri malarvegur svo að stemningin frá 1960 kæmi alveg beint í æð, nokkurs konar íslenskur  "Route 66".   Það gerir úrlausnarefnið erfiðara en þó varla óframkvæmanlegt. 

Ég óska Litlu kaffistofunni til hamingju með afmælið. Vinsældir hennar sanna möguleikana á því að laða að ferðafólk með því að kalla fram sérstaka stemningu. 


mbl.is Litla kaffistofan fimmtug í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppin að suðaustan áttin var ekki um daginn.

Algengasta vindátt á suðvestanverðu landinu er austsuðaustan átt. Oft koma allmargir dagar, jafnvel vikur, sem þessi vindátt ríkir.

Um þessar mundir er þetta algeng vindátt og nú sjáum við brot af því sem hefði getað orðið, hefði öskugosið í Eyjafjallajökli verið þessa dagana en ekki um daginn þegar askan fór lengst af stystu leið á haf út og til annarra landa. 

Þetta bitnaði að vísu illilega á Eyfellingum en heildarskaðinn hefði getað orðið miklu meiri ef vindáttin hefði verið önnur. 

Það má búast við því að svo margir dagar verði með öskufoki í sumar að það þurfi að endurskoða tímaáætlanir fyrir ferðalög og finna upp nýja möguleika, sem skapast vegna hins óvenjulega ástands. 

Bendi á pistil minn á eyjunni.is um þetta efni, en flesta daga að undanförnu hefur verið gott ferðaveður á Suðurlandi og suðurhálendinu frá því um tíuleytið á kvöldin til tíu á morgnana en afleitt yfir daginn, þegar sólfarsvindurinn nær sér á strik.  


mbl.is Sumar og sól í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamar oftar. 88% orkutap.

Þegar ég flaug með þýska sjónvarpsmenn síðasta sumar eldsnemma morguns frá Sandskeiði af því að Reykjavíkurflugvöllur er lokaður til klukkan sjö, var það erfiðleikum bundið vegna þoku.

Henni ollu gufstrókar Hellisheiðarvirkjunar sem í logninu bjuggu til sérstaka virkjuarþoku yfir landinu á milli Hengils og Vífilfells. 

Útlendingunum þótti þetta sérkennilegt og ekki síður sú staðreynd að 88% gufunnar, sem beisluð væri, færi út í loftið sem ónýtt orka. 

Einnig sú staðreynd að aðeins væri gert ráð fyrir í vísindalegum forsendum virkjananna þarna að hægt væri að tryggja að orkan entist lengur en í 50 ár. 

Í vetur komu dagar þar sem ísþoka myndaðist á Suðurlandsvegi með tilheyrandi hálku og óhöppum. 

Við verðum að sætta okkur við orkutapið og slysahættuna vegna þess að orkan sé dýrmæt. Þess bagalegra er hve ódýrt hún er seld. 

Hins vegar er ekki hægt að sætta sig við þá græðgi og tillitsleysi gagnvart afkomendum okkar að pumpa að meðaltali þrefalt meiri orku upp úr jörðinni en svæðið afkastar til framtíðar. 

Það heitir á góðri íslensku rányrkja en er stærsta felumál íslensku þjóðarinnar þegar hún gumar sig um víða veröld af "endurnýjanlegri" og hreinni orku. 


mbl.is Varað við blásandi borholum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldgæflega frítt spil.

Framboð Besta flokksins og það meirihlutasamstarf, sem hann vinnur nú að, byggist á einstæðu frelsi sem fólst í forsendum og loforðum hans fyrir kosningar.

Jón Gnarr sagði það hreint út fyrst af öllu að hann færi fram til þess að komast í þægilegt, vel launað og skemmtilegt starf og að hann myndi skaffa helstu vinum sínum störf eftir þörfum þeirra. 

Einhvern tíma í kosningabaráttunni kom það líka með að hann lofaði að svíkja þau kosningaloforð eftir þörfum, sem honum sýndist ráðlegt að láta gossa. 

Hann lofaði skemmtilegri kosningabaráttu, borgarpólitík og borg og ekki vantaði í grínið í kosningabaráttunni.

Samkvæmt ofangreindu á hann frítt spil, frírra spil en ég man eftir að nokkurt framboð hafi haft, til þess að gera hvað það sem honum lystir.

Nú er bara að vona að það verði gott og gagnlegt.

Miðað við kosningarnar 2006 og uppákomurnar í borginni í rúmt ár frá haustinu 2007 til útmánaða 2008, þarf mikið til að uppákomurnar verði meiri á því kjörtímabili sem nú er hafið.

Og að svo miklu leyti sem Besti flokkurinn geti átt þátt í slíku verður munurinn sá, að það verður í samræmi við það sem hann lagði upp með fyrir kosningar, sama hve fáránlegt það verður.

En Besti flokkurinn hefur líka annað uppi í erminni. Miðað við það hvað hann gæti leyft sér í uppákomum, á hann mikla möguleika á að koma á óvart sem ábyrgt og gagnlegt stjórnmálaafl. Er vonandi að svo verði.  


mbl.is Trúnaðarsamtöl á leynifundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnin: Framboðið velja sér sjálf aðferðina?

Persónukjör í kosningum hefur bæði kosti og galla en samt hefur það reynst vel í þeim löndum, þar sem það er viðhaft og er ekki að sjá að kynjahlutfall sé þar ójafnara á þingum en annars staðar.

En varpa má fram þeirri hugmynd að framboðum sé í sjálfsvald sett hvort þau vilji að kjósendur þeirra raði sjálfir í kjörklefunum eða að framboðið sé með sama hætti og tíðkast hefur til þessa með rétti til útstrikana og breytinga á fyrirfram röðuðum listum. 

Mér finnst ekki réttlátt að framboðum sé neitað um að láta viðhafa persónukjör á listum sínum ef þau vilja það sjálf.


mbl.is Segir persónukjör stranda á konum í VG og Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af hjónunum.

Dæmisaga Árna Páls Árnasonar á sér margar hliðstæður. Eina af mörgum heyrði ég í fyrra af hjónum sem komin voru komin í þvílíkt þrot að engin "skjaldborg um heimilin" hefði dugað til að bjarga þeim. 

Þetta voru afleiðingar af því að þau tóku sig til í miðri gróðærisbólunni og fóru í nokkurra daga vinnu. Hún fólst í því að þessi barnlausu hjón, sem áttu enga peninga, fóru í lánastofnanaferðalag og tóku lán til að kaupa 40 milljóna króna íbúð og 10 milljón króna bíl. 

Þegar búið var að skrifa undir síðustu pappírana og taka út féð áttu þau afgang til að fá sér flatskjá og fleira síkt og fara í dýra ferð til Karíbahafsins til að hvíla sig eftir erfiða lántökudaga. 

 


mbl.is 18 ára fékk 100% lán til að kaupa rándýran bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nýr jakki? - Sama röddin !"

Fleyg orð Björgvins Halldórssonar um ungan söngvara, sem vildi vekja athygli hans með því að fá sér nýjan glimmerjakka, eiga ágætlega við Framsóknarflokkinn um þessar mundir: "Nýr jakki? - Sama röddin" sagði Bo.

Það dugar ekki að skipta um fólk ef sama stefnan ríkir í meginatriðum áfram. 

Ekki er hægt að sjá að afgerandi og opinbert uppgjör hafi farið fram við tímabil formennsku Halldórs Ásgrímssonar, stóriðjustefnuna, helmingaskiptin við Sjálfstæðisflokkinn í einkavinavæðingunn, sérhagsmunagæsluna, sjálftökuna og alræðistilburði Davíðs og Halldórs. 

Flokkurinn, sem eitt sinn hafði náttúruverndarsinnana Eystein Jónsson og Steingrím Hermannsson við stjórnvöl sinn, gengur nú harðast fram í hernaðinum gegn landinu og er ekkert lát þar á.

Í þeim efnum er flokkurinn meira en hálfri öld á eftir tímanum. 

Það er ekki nóg að einhverja af nýjum áhrifamönnum í flokknum langi til að breyta þessu meðan ekki örlar á sýna það í verki.

Á meðan svo er heldur flokkurinn áfram að hafa þá löskuðu ímynd sem hann á skilið.  


mbl.is Framsókn þarf nánari naflaskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband