Græn stefna er þverpólitísk.

Engin leið er til þess að skilgreina græna umhverfisstefnu sem hægri eða vinstri heldur er slík stefna þverpólitísk.

Dæmi: Í skoðankönnun um Kárahnjúkavirkjun í aðdraganda virkjunarinnar kom í ljós að fjölmennasti hópurinn sem var andvígur henni var helmingur þeirra, sem sögðust fylgja Sjálfstæðisflokknum en var þó á móti virkjuninni. 

Í sömu könnun kom í ljós að þriðjungur þeirra, sem sögðust fylgja Vinstri grænum var meðmæltur virkjuninni. p1012171.jpg

Ægivald Davíðs Oddssonar og virkjanasinnanna í Sjálfstæðisflokknum réði því hins vegar að Ólafur F. Magnússon var hrakinn úr ræðustóli á landsfundi flokksins. p1012163_1004851.jpg

Á þessum tíma var góður meirihluti fylgjenda Samfylkingarinnar andvígur virkjuninni en Verkalýðsforystan og þingmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma í Norðausturkjördæmi sveigðu þingflokkinn til fylgis við virkjunina og aðeins tveir þingmenn hennar greiddu atkvæði á móti. 

Einn þingmanna hennar sagði í atkvæðagreiðslunni að hann væri umhverfissinni en greiddi samt atkvæði með mestu mögulegum óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem möguleg eru á Íslandi! 

Helstu baráttumenn fyrir umhverfis- og náttúruvernd víða um lönd koma úr öllu hægri-vinstri litrófinu. 

Ef ekki hefði verið fáránlega hár atkvæðaþröskuldur í kosningunum 2007 eða ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi, hefði fyrsti græni flokkurinn, sem hvorki kennir sig við hægri eða vinstri, komið mönnum á þing. 

Hrikalegustu umhverfisspjöll okkar tíma voru framkvæmd í kommúnistaríkjunum annars vegar og hins vegar þar sem hið óhefta stórkapital fékk að leika lausum hala. 

Hvorki vinstri menn né hægri menn geta eignað sér góða græna stefnu og þess vegna er þverpólitískur umhverfisflokkur það sem vantar sárlega hér á landi. 

Myndin, er í haus bloggsíðu minnar, er tekin sumarið 2006 á botni Hjalladals, sem sökkt var þá um haustið. Þar var stórkostlegt og litskrúðugt landslag undir grænni Fljótshlíð íslenska hálendisins, og gljúfur, Stapar, stuðlabergshamar og Rauðaflúðin voru snilldarverk Jöklu, sem hún hafði búið til á innan við öld.  

Myndirnar tvær á síðunni eru hins vegar teknar nú um daginn af þeim risavöxna drullupolli og rjúkandi leirum upp á tugi ferkílómetra, sem þarna eru nú og ganga undir nafnin Hálslón .

Á þeirri efri sést grilla í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk.

Á þeirri neðri er komið nær og tvær stærstu stíflur á Íslandi, önnur langstærsta mannvirki landsins, eru inni í sand- og leirkófinu og engum manni þar vært þótt Landsvirkjun hafi með glansmyndum auglýst á sínum tíma hvílík dýrðarveröld fyrir ferðamanna byðist þarna í veðurfari eins og verið hefur að undanförnu sem 12-15 stiga hita dögum og vikum saman.

Öll þessi dýrð myndi opnast þegar þangað lægi eini malbikaði hálendisvegurinn sem er fær fyrstu vikur sumarsins. 

Stórkapitalið og verkalýðsforystan lögðust á eitt við að framkvæma þetta hervirki, - sú stefna var þverpólitísk rétt eins og baráttan gegn þessu. 

Umturnun náttúruverðmæta byggist á því að viðhalda vanþekkingu með þöggun og einhliða upplýsingum. Forsenda grænnar stefnu er að rjúfa þennan þöggunar- og vanþekkingarmúr og það verkefni er þverpólitiskt. 

 


mbl.is Hægri-grænir stofna flokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðin skiptir máli.

Þegar jafn svakalega skuldsett byggðarlag og Álftanes kemst ekki hjá því að óska eftir sameiningu við annað sveitarfélag er ekki endilega víst að fyrir valinu geti orðið næsta bæjarfélag, sem er það sem helst er óskað eftir að sameinast, Garðabær í þessu tilfelli. 

Ástæðan er meðal annars sú að það þarf tvo til og Garðbæingar eru eðilega ekkert spenntir fyrir því að axla skuldabyrði Álftnesinga. 

Reykjavík er svo margfalt fjölmennari en Garðabær að svo kann að fara að sameining Álftaness og Garðabæjar verði sú eina, sem framkvæmanleg er, sama hvað Álftnesingar vilja sjálfir.

Best væri áreiðanlega að öll sveitarfélögin á svæðinu milli Kjalarness og Straumsvíkur sameinuðust og raunar var það mesta skipulagsslysið þegar Kópavogur og Reykjavík voru ekki sameinuð á sjötta áratugnum. 


mbl.is Óska eftir viðræðum við Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyrir ekkjunnar.

Íslenskir lífeyrisþegar fylgjast nú spenntir með því hvernig sparnaði þeirra í ævistarfinu verður ráðstafað af fulltrúum þeirra.

Meðal lífeyrisþeganna er fólk sem ekki er ofsælt af þeim lífeyrisgreiðslum, sem það fær til þess að framfleyta sér, oft lúsarlaunum sem hrökkva hvergi nærri fyrir nauðþurftum. 

Það vantaði ekki fagurgalann oft á tíðum í aðdraganda Hrunsins þegar spilagleðin í fjárhættuspili fjárfestinganna greip margan manninn og marga sjóðsstjórnina og verið var að gylla möguleikana á gróða. 

Nú er bara að vona að það sama gerist ekki aftur og menn vandi sig. Við vitum að enginn er eyland og að það verður að koma gangverki þjóðfélagsins aftur af stað. En við vitum líka að fólkið, sem lagði fram féð til lífeyris síns í sveita síns andlitis á kröfu á að ekki verði gerð aftur svipuð mistök og svo oft voru gerð á undanförnum árum. 

Eyrir ekkjunnar er oft ekki svo stór að það sé réttlætanlegt að minnka hann enn frekar. 


mbl.is Spenntir fyrir Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kona aldarinnar", - verðskuldað.

Vigdís Finnbogadóttir er í hópi örfárra einstaklinga erlendra og innlendra sem ég ber mesta virðingu fyrir.

Ég sé á bloggi að henni er núið um nasir að sýna heigulskap með því að forðast að tala um viðkvæm og umdeild mál og reyna þannig að styggja engan. 

Hvílíkt öfugmæli. Ég fullyrði að enginn, enginn þeirra sem gengu niður Laugaveginn í Jökulsárgöngunni 2006 sýndi jafn mikið hugrekki og fórnarlund og hún.

John F. Kennedy fékk ungur Pulitzer-verðlaunin bandarísku fyrir bók um hugrakkar manneskjur, sem voru tilbúnar að fórna öllu, fé, virðingu og vegtyllum fyrir hugsjónir sínar og það að hvika ekki frá sannfæringu sinni.

Vigdís Finnbogadóttir hefði sómt sér vel í þessari bók innan um þau stórmenni sem þar var fjallað um og svo sjaldgæft er að þjóðir eigi.

Hún var valin "kona 20. aldarinnar" á Íslandi um síðustu aldamót og það var verðskuldað.

Það sem hún hefur gert síðan, nú komin á níræðisaldur, er aðdáunar- og þakkarvert.

Megi henni farnast sem best í því að sinna hugsjónum sínum, meðal annars með stofnsetningu alþjóðamiðstöðvar tungumála á því landi, þar sem landið og tungan eru hornsteinar sjálfstæðis, virðingar, heiðurs og reisnar íslenskrar þjóðar.  


mbl.is Áhrif Vigdísar á umheiminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískuorð: Aukning.

Orðið aukning hefur verið tískuorð um langt skeið og ofnotað og misnotað stórlega. Nú síðast í viðtali í hádegisfréttum er sagt að "orðið hafi aukning á farþegum." 

Ef farþegar aukast á einhvern hátt, á hvaða hátt er það?  Eru þeir þyngri, stærri, feitari? 

Hér er orðið aukning að ryðja burt miklu betra orði, sem er fjölgun, og sögninni að fjölga. 

Í stað þess að segja: "Það hefur orðið aukning á farþegum" 

er hægt að segja

"Farþegum hefur fjölgað". 

Þarna eru notið þrjú orð í stað sex. 

Orðið aukning er stundum notað þannig, að með ódæmum er. 

Oftar en einu sinni hefur til dæmis verið sagt:

"Það hefur orðið mikil aukning á fjölda nemenda"

í stað þess að segja einfaldlega

"nemendum hefur fjölgað." 

Í þessu tilfelli eru notuð átta orð í stað þriggja, algerlega að ástæðulausu. 

Ætli það sé ekki best að enda þetta í stíl með því að segja: "Það hefur orðið mikil aukning á fjölda þeirra tilvika þar sem notað er orðið aukning.


Það var mikið !

Eitt af mörgum umbótamálum í stjórnarfari, sem Íslandshreyfingin hefur barist fyrir, er að ráðherrar geti ekki jafnframt verið þingmenn á meðan þeir gegna embætti.

Þetta hefur ekki fengið hljómgrunn fyrr en nú, að eitthvað er að rofa til í þessu efni. Það var mikið! 


mbl.is Ráðherrar hætti þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki aftur 1966!

Pele haltraði af leikvelli í heimsmeistarakeppninni 1966 eftir að hafa verið tæklaður linnulaust með leyfi lélegra dómara.

Aðrir leikmenn Brasilíu fengu að kenna á svipuðu og liðið féll úr keppni. 

Miklar umræður fóru fram um þetta þá og gert var átak í dómgæslunni sem lagaði ástandið í næstu heimsmeistarakeppni þar sem Brasilíumenn urðu heimsmeistarar. 

Íþróttir snúast oft um það að mönnum eða liðum er refsað fyrir mistök, beint eða óbeint. 

Varnarmaður, sem gerir þau mistök að ná ekki til boltans þegar hann reynir að sparka í hann og afleiðingin verður að sóknarmaðurinn, sem ná átti boltanum af, verður fyrir sparkinu og er felldur, - þessi varnarmaður á að fá refsingu fyrir atferli sitt. 

Gengi knattspyrnunnar og vinsældir hennar eiga mikið undir því að góðir sóknarmenn séu ekki beittir ódrengskap sem kemur í veg fyrir að þeir fái notið sín. 

Þetta má ekki fara aftur í sama far og á HM 1966 þar sem menn voru verðlaunaðir í raun fyrir tuddaskap í stað þess að vera refsað fyrir hann.


mbl.is Maradona: Meðferðin á Messi er hneyksli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafn hættulegt og ölvun.

Svefn undir stýri er hugsanlega jafn hættulegt ástand og ölvun og slysin af völdum sofandi ökumanna fleiri en upplýst er um vegna þess að í blóðsýni er hægt að sjá hvort viðkomandi hafi verið ölvaður, en ekki hvort hann hafi sofnað undir stýri.

Það þarf að gera jafn mikið átak í að minnka þessa hættu og að koma í veg fyrir ölvunarakstur, - nú þegar! 

Höfuðástæðan er sú að ef ökumaður sofnar undir stýri og sveigir í veg fyrir umferð á móti, hlýst af umferðarslys af verstu gerð, árekstur tveggja bíla, sem koma úr gagnstæðri átt. 

Nokkrar staðreyndir þarf að auglýsa rækilega: 

1. Hitinn í bílnum virkar svæfandi. Því minni hiti, því minni hætta á að sofna.Þetta sést vel ef menn gera loftið kalt í bílnum, opna gluggann eða stinga höfðinu út um hann. Stundum hressast menn við að stöðva bílinn, fara út og fríska sig nokkrar mínútur og halda síðan áfram. En þetta getur veitt falskt öryggi því að líkaminn kallar samt á svefn. 

2. Ef ökumaður er þreyttur eða vansvefta þegar hann hefur akstur, ætti hann að hafa sérstakan vara á og helst að hætta við að aka, nema að fresta ferðinni og leggja sig fyrst í nægilega langan tíma til þess að vera fær um að stjórna bílnum af öryggi alla fyrirhugaða leið.  

3. Um leið og ökumaður verður var við það, jafnvel þótt það sé aðeins eitt augnablik, að hann missir stjórn á hugsunum sínum, - fer að hugsa eitthvað annað en hann ætlaði sér, er slíkt órækt merki um að hann er á fyrsta stigi svefns. Hann á að stöðva bílinn við fyrsta tækifæri og grípa til eina ráðsins, sem völ er á, - að sofna í kyrrstæðum bílnum. 

4. Ef ökumaðurinn er mjög þreyttur og hefur bílinn í gangi og miðstöðina sömuleiðis kann svefninn að vara í 1-2 klukkutíma.  Glataður tími?  Nei, þetta er órækt merki þess hve mikinn lágmarkssvefn ökumaðurinn þurfti. Ef ökumaðurinn vill ekki sofna svona lengi, getur hann vakið sig á tvennan hátt: 

A. Drepið á bílnum og láta kuldann eftir að slökkt er á miðstöðinni, vekja sig. 

B. Notað farsímann til að vekja sig. 

Spurningin er einföld og valið augljóst : Hvort viltu sofna í smástund og vakna síðan og aka áfram -  eða sofna svefninum langa og taka fleiri með þér inn í þann svefn? 

Ég hef margsinnis verið þreyttur og illa upplagður til aksturs á ca 1,5 milljón kílómetra akstursferli. 

Ég hélt, eftir að hafa sloppið við afleiðingar þessa, að eftir akstur í 41 ár væri ég hólpinn. 

Síðan gerðist það í apríl 2006 þegar ég dró bátinn Örkina af stað austur á land eftir stranga vinnutörn dagana á undan að ég þurti að fara af stað seint að kvöldi og aka alla nóttina. 

Ég sofnaði í kyrrstæðum bílnum á útskoti á Háreksstaðaleið í 20 mínútur, hélt síðan áfram og við tók akstur upp á Brúaröræfi um morguninn, allan þann dag og basl í akstri á snjó fram á næstu nótt.

Þegar komið var snemma að morgni niður sneiðingana krókóttu, erfiðu og bröttu niður í Fljótsdal og beinn vegur tók við, hélt ég að ég væri hólpinn, - allt það erfiðasta væri að baki og beinn og breiður vegur framundan,  - aðeins hálftíma akstur eftir að afloknum erfiðum akstri í einn og hálfan sólarhring. 

Ég hafði ekki ekið nema nokkur hundruð metra þegar ég sofnaði undir stýri á nokkrum sekúndubrotum og vaknaði fyrir utan veg í móamýri. 

Það þurfti að draga mig upp úr mýrinni og ég hugsaði með skelfingu til þess hvað hefði gerst hefði ég verið að mæta bíl. 

Niðurstaða:

1. Enginn er óhultur, aldrei. 

2. Þú þarft ekki nema nokkur hundruð metra akstur til að sofna.

3. Það er alveg sama hvað þú hefur sloppið vel fram að þessu og hve vel þér hefur tekist, jafnvel í áratugi, - ein sekúnda getur breytt því öllu, - jafnvel um eilífð.  


mbl.is Hafnaði sofandi úti í á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að hugsa um hvað við erum að gera."

Í dag ók ég á minnsta fjögurra manna bílnum í umferðinni, Fiat 500, frá Siglufirði til Reykjavíkur. p1011473.jpg

Ég hafði skilið hann eftir á Ólafsfirði í október í fyrra eftir skemmtun þar í tilefni af hálfrar aldar starfa minna á landsbyggðinni sem skemmtikraftur, en þá dundi yfir fyrsta kafhríð vetrarins með ófærð, sem hentaði ekki fyrir sumardekkin á Fiatinum.

Snillingurinn Sigurjón Magnússon tók hann að sér og lagfærði bilun í viftu og ég fór nú á honum yfir Lágheiði til Siglufjarðar á fimmtudag, þar sem hann stóð fyrir utan Síldarminjasafnið þar til í dag. dscf5905.jpg

Var það gert til að gefa tóninn fyrir tveggja stunda fjölmenna tónleika í safninu í gærkvöldi, þar sem mér veittist sú ánægja að vinna með Sturlaugi Kristjánssyni og hljómsveit á hans vegum við að flytja lög af margvíslegum toga frá ferli mínum.

Það var bíll af þessari gerð sem ég nefndi "Fiat-lús" í laginu Kappakstri, sem Gunnar og Felix hafa endurvakið og var meðal laga sem ég flutti á þessum tónleikum eftir nær hálfrar aldar hlé. 

 Auðvitað skaust ég á Fiatinum upp í Siglufjarðarskarð og endurlifði þá tíma þegar maður fór á "Litla gul", NSU-Prinz, um allt land í upphafi ferilsins jafnt sumar sem vetur. dscf5902.jpg

Prinzinn var fyrsti GTI-bíllinn að því leyti að hann var afar kraftmikill, 30 hestöfl, sem fóru létt með að skjóta aðeins 480 kílóa kvikindinu áfram og taka aðra og miklu stærri bíla þess tíma í bakaríið. 

Fiat 500 var hins vegar aðeins 13 hestöfl í upphafi og aldrei aflmeiri en 18 hestöfl. Í mínu eintaki er minnsta bílvél á Íslandi, 499cc, skráð 18 hestöfl, en mig grunar að vegna þess að tvívegis hefur vélin í þessum bíl yfirhitnað skili hún varla meira en 13 hestöflum. 

Engu að síður var þessi bíll upphaflega hannaður til að geta þotið þindarlaust á 95 kílómetra hraða ef vegurinn var láréttur og logn eða meðvindur. 

En á leiðinni milli Siglufjarðar og Reykjavíkur eru margar brekkur og vindar geta blásið á móti. 

Þar með er komin upp sú staða að maður reyni eftir bestu getu að tefja ekki fyrir hraðari umferð þegar ekið er hægar en á 90. 

Margt athyglisvert kemur upp þegar reynt er að leysa þetta verkefni. Fiatinn er mjósti bíll flotans, feti mjórri en minnstu nýju bílarnir og því ætti að vera auðvelt að hleypa fram úr. 

Ég gef stefnuljós til hægri og vík út á brún til merkis um að ég sé meðvitaður um framúrakstur, sé hann í bígerð. 

Með því fylgir að þegar viðkomandi bíll fer fram úr mér, hægi ég á mér eins og þarf til þess að framúraksturinn taki sem stystan tíma og verði sem öruggastur. 

En hvað eftir annað þegar verið var að leysa úr þessu í dag og hraðskreiðari bílar að fara fram úr mér, var eins og sumir bílstjórar, sem komu á móti, reiddust mjög. 

Í stað þess að hnika sér út á kantinn héldu þeir sig við miðlínuna, flautuðu og blikkuðu, gáfu í, og virtust gera allt sem þeir gátu til að gera ástandið sem hættulegast. 

Mér varð hvað eftir annað hugsað til orða sýslumannsins á Selfossi í fyrradag í spjalli okkar Andra Freys Viðarssonar við hann. Ólafur Helgi taldi mikilvægast að ökumenn "hugsuðu um það sem þeir væru að gera" og átti við það að kæruleysi, sofandaháttur og hugsunarlaust tillitsleysi væru mestu bölvaldarnir í umferðinni. 

Nokkrum sinnum kom það fyrir í dag að framundan var blindhæð og vegna þess að ég sá fyrr yfir hana en sá sem vildi fara fram úr mér, gaf ég stefnuljós til vinstri og vék inn að miðlínu til þess að vara hann við. 

Langflestir ökumannanna, sem ég varaði við, áttuðu sig á þessu og veifuð mér þakksamlega þegar ég liðkaði fyrir þeim eins fljót og vel og hægt var þegar komið var í betri skilyrði. 

Nokkrir ökumenn virtust hins vegar leggja þetta út á versta veg, þ. e. að ég væri með frekju og dónaskap, flautuðu og blikkuðu og létu óánægju sína í ljós en voru síðan fljótir að hætta því þegar þeir sáu, af hverju ég hafði gert þetta. 

Allt ber þetta að sama brunni, í átt til þess sem sýslumaðurinn sagði. Það er ekki aðeins að menn hugsi ekki um það sem þeir gera eða beri að gera, heldur virðast þeir ekki heldur hugsa um það sem aðrir eru að gera eða að horfa af yfirsýn yfir það sem er í kringum þá. 

 

Pri 


mbl.is Umferð mjög hæg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall og nýr vandi stjórnarþátttöku.

Stjórnmálaflokkar eiga oft erfitt með að fóta sig þar sem ekki er hægt að stjórna án þess að til komi samsteypustjórnir, einkum þegar stærðarmunur er á flokkunum sem í stjórn eru.

Vill þá oft magnast kurr í minni flokknum sem endar með því að hann bíður mikinn ósigur eða klofnar, nema hvort tveggja sé. 

Íslensk saga geymir mörg dæmi um það sem kann að gerast nú hjá Vinstri grænum.

Eftir að Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur höfðu farið með stjórn landsins á fjórða áratugnum klofnaði Alþýðuflokkurinn og bar þess ekki barr áratugum saman. 

Í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1950 til 1956 magnaðist óánægja innan Framsóknarflokksins uns hann sleit stjórninni.

Stjórnarsamstarfið í vinstri stjórninni 1956-58 varð til þess að Alþýðuflokkurinn beið afhroð í bæjarstjórnarkosningum 1958 og stjórnin sprakk í árslok eftir dauðastríð, sem hófst um sumarið. 

Eftir 13 ára samstarf um stjórn landsins í Viðreisnarstjórninni var svo komið að Alþýðuflokkurinn klofnaði og beið síðan svo mikinn ósigur að stjórnin féll. 

1978 töpuðu þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, meirihluta sínum og var afhroð Framsóknarflokksins sýnu verra.

1994 klofnaði Alþýðuflokkurinn enn og aftur eftir stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og  veiktist svo mjög í kosningum eftir að stjórnarsamstarfið rofnaði þrátt fyrir eins þingmanns meirihluta.

Svipað gerðist eftir tólf ára slímsetu samstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar Framsókn galt enn verra afhroð en 1978 og stjórnarsamastarfið rofnaði þrátt fyrir eins þingmanns meirihluta.

Ævinlega er það minni flokkurinn í samstarfinu sem á í hlut í þessum dæmum eins og eðlilegt er, vegna þess að þrátt fyrir tal um jafnan hlut sem stundum hlaut heitið "helmingaskipti" var sá flokkurinn sterkari sem var stærri, ekki hvað síst ef hann var í ofanálag nær miðju litrófsins hægri-vinstri.

Og nú er spurningin: Bætist nýtt nafn við í þessa nafnarunu flokka, sem hafa orðið til við klofning vegna óánægju í stjórnarsamstarfi við stærri flokk:

Kommúnistaflokkur Íslands 1930, Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn 1938, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970, Bandalag jafnaðarmanna 1987, Þjóðvaki 1994? 


mbl.is Draumsýn að flokkurinn lifi af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband