4.7.2009 | 00:42
Suðurnesja-"REI-klúður" í uppsiglingu?
Auðlindir á landi og í sjó eru fjöregg íslensku þjóðarinnar, sem hún má aldrei af hendi láta.
Í stjórnarskránni er lagt blátt bann við því að afsala landi til útlendinga og hið sama á að gilda um eignarhald á auðlindum hennar.
Þegar nafnið Geysir Green Energy er nefnt vekur það upp minningar frá REI-málinu 2007, vondar minningar.
Það er vond lykt af þessu máli á marga lund. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að rasa ekki um ráð fram og viðhafa gagnsæi, vandaða umræðu og virkt lýðræði.
Flestar fréttir af HS Orku líta illa út um þessar mundir og benda til skammtímagræðgi og ábyrgðarleysis í meðferð hinnar dýrmætu orkuauðlindar, bæði hvarð snertir ofnýtingu og áhættusækni sem getur ógnað því að þessi dýrmæti verði í tryggu eignarhaldi Íslendinga.
Þetta er frumburðarrétturinn sem ekki má af hendi láta.
![]() |
Leggjast gegn viðskipum með orkuveitur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
4.7.2009 | 00:31
Varðar hag þjóðarinnar allrar.
Fram að þessu hafa almenningssamgöngur verið alfarið á hendi sveitarfélaga. Í því felst of þröng sýn á málið. Það varðar alla þjóðina ef almenningssamgöngur eru svo dýrar eða lélegar að fólk fari á milli staða á miklu dýrari hátt þegar á heildina er litið.
Þetta varðar heildarhagsmuni, ekki bara þrönga hagsmuni einstakra byggðarlaga.
![]() |
Óskar eftir aukafundi í Umhverfis- og samgönguráði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 00:22
Tilfinningaríkur íslenskur skapsmunaakstur.
Ég dró stóran tjaldvagn fyrir dóttur mína og fjölskyldu hennar austur í sveit í dag á árlegt ættarmót og útilegu afkomenda Jóhanns Jónssonar og Láru Sigfúsdóttur austur. Þetta er átta manna fjölskylda og þau fengu tjaldvagninn lánaðan en áttu ekki bíl til að draga hann. Veðrið var yndislengt, logn og hlýtt.
Þátttakan mjög góð strax á fyrsta kvöldi og kvöldstundin ljúf, sjá mynd.

Notaði til þess 36 ára gamlan, þreyttan og sjúskaðan Range Rover með Nissan Laurel dísilvél, sem í fimm ár hefur þó skilað sínu með sóma.
Umferðin var að mestu til fyrirmyndar með einstöku undantekningum þó.
Á leið í bæinn lenti ég ásamt fleirum í lest á eftir bíl sem ekið var á rúmlega 70 kílómetra hraða. Þegar vegurinn breikkaði og ég og aðrir hugðust fara fram úr var eins og bílstjórinn á þessum bíl sleppti sér alveg.
Hann jók hraðann og var fyrr en varði kominn á urrandi ferð að öllum líkindum vel á öðru hundraðinu því að það dró hratt á milli.
Um tíu kílómetrum síðar hægði hann aftur ferðina en þegar við komum aftur í námunda við hann, var eins og hann þyldi ekki þá tilhugsun að ekið yrði fram úr honum, heldur jók ferðina á ný greinilega vel yfir leyfilegan hraða.
Sumir bílstjórar virðast alls ekki geta fengist við það verkefni að aka á jöfnum hraða í eðlilegri umferð og fylgja þeirri reglu umferðarlaga að haga akstrinum þannig að hann verði sem öruggastur og greiðastur fyrir alla aðila, heldur gera þeir í því að vera með stæla eins og þessi fyrrnefndi bílstjóri.
Ég kalla þetta tilfinningaríkan íslenskan skapsmunaakstur vegna þess að maður sér þetta hvergi erlendis.
![]() |
Umferðin hefur gengið mjög vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.7.2009 | 21:46
"...nema fólki sem hefur enga hugmynd hvað það er að fara út í..."
Ég geymi í minnisbók minni nokkrar gullsetningar, sem sagðar voru í aðdraganda hrunsins þegar "tær viðskiptasnilld" safnaði 63 milljörðum króna inn á Icesave í Bretlandi á rúmum mánuði rétt fyrir hrun.
Ég ætla að rifja þá setningu upp sem mér finnst lýsa því best hvað menn voru að bralla. Hana segir Hannes Smárason við blaðakonu Krónikunnar skammlífu (tær viðskiptasnilld sem entist í þrjú tölublöð ) í febrúar 2007.
Eftir að Hannes hefur lýst snilldinni sem felst í því að kaupa skuldug fyrirtæki og selja með gríðarlegum gróða með því að fá nógu mikið lánsfé, - snilldinni sem felst í að endurfjárfesta hlutabréf stanslaust á milli fyrirtækja svo að aldrei þurfi að borga skatt o. s. frv., biður ringluð blaðakonan hann um að lýsa snilld hans og hinna snillinganna í einni setningu.
Og þá kemur þessi dásamlega lýsing hjá honum:
"...Það hefði engum dottið í hug að gera það sem við erum að gera nema fólki sem hefur enga hugmynd um hvað það er að fara út í..."
Þetta segir einn af höfuðpaurunum einu og hálfu ári fyrir hrun svo að betur verður þessu varla lýst.
![]() |
Dýrustu milljarðar Íslandssögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.7.2009 | 20:00
Ísland, gósenland jarðvísindanna.
Einn af stórum möguleikum landsins okkar felst í að við getum átt vísindamenn í fremstu röð í jarðvísindum og lokkað hingað vísindamenn annarra land vegna þess hve einstæð náttúra landsins er.
Tunglfararnir komu hingað af þessum sökum og marsfarar framtíðarinnar gætu komið líka og æft sig í Gjáststykki ef bægt verður frá skefjalausri ásókn virkjanafíkla í að eyðileggja svæðið sem alþjóðasamtök um ferðir til mars völdu sér.
Orðstír lands og þjóðar er virði þúsunda milljarða króna þótt margir vilji líta fram hjá því. Það er ekki sama hvernig við förum þann dýrgrip sem landið okkar er og við höfum að láni frá afkomendum okkar.
![]() |
Verðlaunuð af Bandaríska jarðeðlisfræðisambandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2009 | 00:37
Hefnist fyrir oflætið.
Þegar ég sé fréttina um lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar kemur upp í hugann þegar Hörður Árnason varpaði því fram á fundi Viðskiptaráðs, sem ég sat 2007, að á ákveðnu árabili á milli tveggja dagsetninga þegar staða dollars var hin sama, var Landsvirkjun rekin með tapi.
Hörður dró þá ályktun af þessu að eitthvað væri verulega bogið við rekstur fyrirtækis, sem hefði næstum því einokunarstöðu í landinu og ætti að vera gullgæs undir öllum venjulegum kringumstæðum.
Á þessum tíma sökkti Landsvirkjun sér í stórskuldir vegna Kárahnjúkavirkjunar í stað þess að sigla lygnan og öruggan sjó eins og vel rekin fyrirtæki með ábyrga stjórnendur gera.
Það er veruleg ástæða til að óttast að Landsvirkjun lendi beint eða óbeint í eigu útlendinga þegar harðna fer á dalnum. Staða fyrirtækisins er óhugnanlega keimlík stöðu bankanna fyrir hrunið, þegar stjórnendur þeirra treystu á að fá lánsfé til að "endurfjármagna" sligandi skuldir.
Það fékkst ekki og bankarnir hrundu, þrátt fyrir að þeim tækist að blekkja fólk með því að sýna reikninga sem sýndu sterka stöðu.
Það skyldi þó ekki vera að stefni í fjárhagslegt hrun Landsvirkjunar þegar ekkert lánsfé fæst lengur vegna þess að fyrirtækið er komið í ruslflokk?
![]() |
Lánshæfiseinkunn lækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)