Loksins rétti tíminn fyrir viðveru á norðausturhálendinu.

Ekki verður sagt að veðrið hafi leikið við fólk á norðaustanverðu landinu í sumar.  Fyrst kom lengsti kuldakaflinn sem komið hefur snemmsumars og síðan tók við veðurfar þar sem vindáttir á milli suðurs og vesturs voru fjarri vikum saman.

Enn vantar sex metra upp á að Hálslón sé komið í hámarkshæð. 

Loksins  núna eru þó að koma dagar með þessum vindáttum og hefði mátt koma fyrr fyrir ferðaþjónustuna, svo að hún nyti enn eins metsins í komu erlendra ferðamanna til landsins. Þessi tími hefði mátt koma fyrr en honum er samt tekið með þökkum. 

Við verðum inni á Brúaröræfum þessa daga, Völundur Jóhannesson og ég, tveir tómstundabændur ef svo má að orði komast.

Hann er í Grágæsadal, þar sem hann hefur verið á hverju sumri svo lengi sem elstu menn (hann sjálfur m.a.) muna, - en ég á Sauðárflugvelli og síðan vonandi við myndatökur fyrir myndirnar "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" og "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars". 

Á svona dögum hér fyrir austan er, eins og einhvern tíma var sagt, veður til að skapa. 

Á sínum tíma, fyrir meira en 70 árum, varð þýskur jarðfræðiprófessor, stórmerkileg kona, ein fyrst allra til að átta sig á töfrum og náttúruundrum á Brúaröræfum, sem voru sköpunarverk hins mikla snillings Brúarjökuls. 

Nú er svo að sjá að fyrstur þeirra, sem hafa yfirráð yfir fjármunum og sjái möguleika svæðisins norðan Vatnajökuls, sé Kínverji.  Segir þetta tvennt einhverja sögu um okkur sjálfa, Íslendinga? 


mbl.is Hlýtt á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

36 m/sek þætti ekki mikið á Kjalarnesinu.

36 metrar á sekúndu er vindur sem skildgreindur er við mörk fárviðris á Íslandi. Á ákveðnum svæðum verður vindur svona hvass á hverju ári og er að vísu varasamur fyrir þá sem draga eftirvagna eða vallta háa bíla.

36 metrar á sekúndu á Kjalarnesi eða undir Hafnarfjalli þætti ekkert sérstaklega mikið óveður. 

En svona erum við Íslendingar orðnir vanir því að eiga heima á vindasamasta svæði á norðurhveli jarðar. 


mbl.is Írena yfir New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri en ein leið til að þjóðin kveði upp dóm.

Í því nýmæli sem felst í 66. greininni í nýju stjórnarskránni stjórnlagaráðs  er gert ráð fyrir að tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram mál á Alþingi.

Þessi grein felur í sér svonefndan frumkvæðisrétt almennings. Hann getur þá lagt inn ti þingsins frumvarp, sem teljist til þess hæft, og geti Alþingi þá, ef það vill, lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. 

Eftir alla þá miklu vinnu sem búið er að vinna, fyrst hjá þjóðfundi, síðan hjá stjórnlaganefnd og loks hjá stjórnlagaráði, verður að gera þá kröfu til Alþingis að það fjalli af aðeins meiri dýpt og alvöru um frumvarp stjórnlagaráðs en sem svarar einni skýrslu og eins dags umræðu eins og nú er rætt um. 

Stjórnlagaráðsfólk hefur lagt á það mikla áherslu að nýja stjórnarskráin fái að fara í dóm þjóðarinnar áður en Alþingi tekur endanlega afstöðu til hennar. 

Þessir möguleikar sýnast vera helstir hvað varðar framvindu málsinsi: 

1. Alþingi nær ekki samstöðu um það hvernig standa skuli að málinu og málið endar með því að daga uppi.  Vonandi verður þetta ekki ofaná. 

2. Alþingi ákveður að gera breytingar á frumvarpinu og samþykkja það sem nýja stjórnarskrá og mun þá þurfa tvennar Alþingiskosningar áður en frumvarp þingsins verður að lögum.

Þetta er gamla lagið eins og það var til dæmis gert 1959 hvað varðaði breytt kosningalög og kjördæmaskipan. Fyrirfram er erfitt að sjá fyrir hve mikið breytt frumvarpið yrði en hætta er á því að með þessu gæti það orðið steingelt og að þjóðin fái aldrei að koma að málinu beint. 

3. Alþingi ákveður að leggja frumvarp stjórnlagaráðs í dóm þjóðarinnar. Eftir sem áður verður þingið að afgreiða málið samkvæmt ákvæðum núgildandi stjórnarskrár.  Þetta er það sem stjórnlagaráðsfólk hefur viljað láta gera, að láta þjóðina sjálfa dæma um þetta verk líkt og hún kaus beint um síðustu stjórnarskrá 1944.

4. Sá möguleiki er líka til að Alþingi vinni sjálft eigin gagntillögu og leyfi síðan þjóðinni að velja milli hennar og frumvarps stjórnlagaráðs. Það yrði svo sem í anda fyrrnefnds nýs ákvæðis og kæmi því til greina, enda yrði það þá þjóðin sem kvæði sjálf  upp endanlegan dóm. 


mbl.is Skýrsla um stjórnlagaráð rædd í einn dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær flugklúbbur.

Flugklúbbur Mosfellsbæjar er frábært félag og stórgott hjá þeim að halda sínar árlegu sýningar.

Því miður er þannig veður í dag að ég verð að fara inn á hálendið til myndatöku og síðan til verka á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum.  Annars hefði ég komið á Tungubakka á fornbíl og annað hvort TF-TAL eða TF-REX.  

FRÚ-in mín hefur verið óflughæf síðan í apríl og hefur því ekkert nýst mér þá mánuði sem bestir eru til kvikmyndatöku, en auðvitað hefði ég helst vilja koma á henni á Tungubakkaflugvöll. 

En ég hvet fólk til að kíkja á gripinua á Tungubökkumí í góða veðriinu í dag og teyga að sér ilminn úr grasrót flugs og fornbíla. 


mbl.is Tugir flugvéla til sýnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlit hjá bresku konungsfjölskyldunni?

Mummar Gaddafi var einræðisherra í Líbíu og uppreisn var gerð gegn honum að því er uppreisnarmenn sjálfir segja til þess að koma á lýðræði og frelsi.  Nú þarf að huga að því hvort loforð um þau efni verða efnd. 

Hitt er vafasamara að dæma um stjórn hans með því að skoða hýbýli hans og byggja dóma á því hvort þar var "ríkmannlega" búið eða ekki.  

Það er nefnilega þannig að hjá flestum þjóðum, líka þeim sem okkur standa næst, má sjá "ríkmannleg" húsakynni hjá þjóðhöfðingjum.  Nægir að nefna konungsfjölskyldur á Norðulöndum og í Bretlandi. 

Í Kreml eru stórkostlegar þjóðargersemar geymdar og ekki vantar minnismerkin í Washington. 

Forsætisráðherrar Íslands bjuggu á tímabili í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu sem var afar "ríkmannleg" bygging og ekki verða húsin á Bessastöðum talin smáíbúðahverfisleg. 


mbl.is Innlit hjá Muammar Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gott við gjörum / og glöð í það förum!"

Það var afar jákvætt andrúmsloft sem streymdi um húsið að Stórhöfða 33 þegar ég var þar í kvöld og verið var að safna fyrir hjartaómskoðunartæki fyrir Barnaspítala Hringsins, enda tilefnið þess eðlis að allir hlutu að hrífast af verkefninu.

Á meðan ég staldraði þarna við og horfði yfir salinn, þar sem víða voru tveir og tvær, tvær eða tvö og tvö sem hjálpuðust að við að taka á móti framlögum, datt niður í minnisbókina mína þessi herhvöt: 

 

"Á allra vörum" gott við gjörum

og glöð í það förum að ná jákvæðum svörum 

fyrir batnandi kjörum!

Förum ekki af hjörum en framúr skörum

og okkur spjörum! 

Fram lausninni snörum með fræknum pörum

í aðgerðum örum 

sem verði´á allra vörum! 

 


mbl.is Safnað í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgleðjumst Eiði Smára.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur undanfarin misseri glímt við erfiðasta hluta ferils hvers íþróttamanns, sem koma óhjákvæmilega eftir að líkamlegu hámarki hefur verið náð.

Þess vegna er ástæða til að samgleðjast honum með það að hafa nú komist á skrið, að minnsta kosti í bili og fengið að njóta smá heppni í stað óheppni, sem hefur elt hann síðustu árin. 

Gallinn við það að ná hæstu hæðum í íþróttum, eins og knattspyrnumaður gerir með því að safna að sér helstu glæsititlum þeirrar íþróttar þegar hann er í hámarki líkamlegrar getu, er sá að eftir það liggur leiðin óhjákvæmilega niður á við. 

Það er kalt á toppnum og reynir oft meira á manninn á leið niður af honum en á leiðinni upp á hann. 

Eiður Smári er greinilega ekki af baki dottinn og er það vel. 


mbl.is Eiður fer á fornar slóðir í Evrópudeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Umhverfistengd ferðaþjónusta"? Er það virkilega?

Nú eru liðin þrettán ár síðan hingað til lands kom bandarískur prófessor í ferðaþjónustufræðum, virðuleg kona,  og hélt hér erindi. Ég tók við hana viðtal fyrir Sjónvarpið.

Hún sagði að sóknarfæri Íslands lægju fyrst og fremst í "umhverfistengdri ferðaþjónustu" þar sem kjörorð markhópsins væri: "Get your hands dirty and feet wet". 

Þessi markhópur ferðafólks stækkaði mest. Þetta væru hundruð milljóna manna sem þráði heitast að komast út í ósnortna náttúru og víðerni, af því að í heimalöndum þeirra væri ekkert slíkt að finna. 

Ekki drægi úr aðdráttarafli Íslands fyrir þá sök að landið byggi yfir náttúruverðmætum sem væru í flokki mestu náttúruundra veraldar. 

Skemmst er frá því að segja að í blaðagreinum og ummælum um þetta voru konunni og því sem hún sagi valin hin hraklegustu orð.  "Hálfklikkuð gömul kerlning". "Fjallagrasabull og lopapeysuþvættingur." "Fólk, sem er á móti rafmagni og vill að við förum aftur inn í torfkofana." 

Þessi söngur hefur verið sunginn látlaust síðan og fullyrt í ótal viðtölum að einu möguleikar Íslands liggi í að virkja allt sem virkjanlegt er fyrir álver.  Annars sé ekkert fjármagn til þess að auka aðgengi. 

"Virkjanir og friðun fara vel saman!" "Virkja fyrst og friða svo!" "Lykillinn að því að aðdráttarafli Kerlingafjalla fyrir ferðafólk er að virkja þar!" 

Síbylja hefur hljómað, nú síðast í þættinum Vikulokunum þar sem einn þátttakenda sagðist ekki hafa farið að kynna sér Kárahnjúkasvæðið fyrr en malbikaður vegur var kominn og hefði fengið af því fróðleik að sjá yfir lónið, sem látið hefði verið hylja "grjótið". 

Að sjálfsögðu hélt þessi maður eins og nær allir að miðlunarlónin væru hið besta mál til að "hylja grjótið". 

Sú staðreynd hefur verið skotin í kaf með síbyljuaðferð Göbbelsar sáluga, að 40 ferkílmetrar af grónu landi með 2-4 metra þykkum jarðvegi hefði verið sökkt þarna.

Á þessu "grjóti" lifðu raunar hreindýr á besta beitilandi sínu, og bændur fengu bætur fyrir missi mikils beitilands, en samt trúa allir því að þessi dýr hafi lifað á því að bíta grjót! 

Á sínum tíma fór enginn af yfirmönnum Landsvirkjunar inn á Hálsinn sem Hálslón dró nafn af, en þar var 15 kílómetra löng græn og gróin Fljótshlíð íslenska hálendisins. 

Meira að segja yfirmaður gerðar skýrslu Landsvirkjunar koma aldrei inn á Hálsins.  

Tugþúsundir ferðamanna voru lokkaðar eftir malbikaða veginum til að sjá urðina og grjótið næst stíflustæðinu en enginn þeirra sá nokkurn tíma dalinn fyrir innan sem síðan var sökkt. 

Ofan á þetta hefur það verið talið fráleitt að auðnir og sandar geti gefið neitt af sér. Ef það er "grjót" er það einskis virði, til dæmis hinir litfögru Stapar og Rauðaflúð með gljúfrinu þar fyrir neðan, sem sökkt var fyrir innan Kárahnjúka og mátti flokka með Hljóðaklettum og Jökulsárgljúfrum, sem greinilega eru einskis virði af því að þau eru "grjót". 

Nú kemur hingað kínverskur auðjöfur og vill fjárfesta í grjótinu fyrir innan Grímsstaði. Í þetta sinn verður ekki hægt að afgreiða hann með kynjafordómum eins og gert var við "klikkuðu gömlu kerlinguna" hér um árið en þess auðveldara að afgreiða hann með kynþáttafordómum og hroka. 

Ekki er langt síðan að menn töluðu um það með græðgisglampa í augum að kínverskt fyrirtæki hefði áhuga á að reisa stóriðjuverksmiðju á Bakka. 

Huang Nobu gerir hins vegar mikil mistök með því að vilja fjárfesta í "gróti og sandi" í stað þess að vilja fjárfesta í virkjunum og stóriðju. Fyrir þetta mun hann væntanlega verða úthrópaður sem hampandi sömu skoðunum og "óvinir Austurlands" hér um árið um að möguleikar liggi í einhverju öðru en stóriðju og virkjunum. 


mbl.is Byggir einnig upp í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar hliðar á þessu máli.

Það eru margar hliðar á því máli að kínverskur auðjöfur hafi keypt eina af landmestu jörðum Íslands, Grímsstaði á Hólsfjöllum.  

Ég heyri eðlilega miklar tortryggnisraddir hjá ýmsum. 

Hlálegt er samt að heyra suma tala á þennan veg, sem áður hafa talið sjálfsagt að þegar virkjanaframkvæmdir valda mestu óafturkræfu umhverfisspjöllum fyrir álver sé það hið besta mál í raun afhendum við útlendum auðfyrirtækjum gríðarleg náttúruverðmæti til eyðileggingar og heilu landshlutana til orkuöflunar. 

Því að ágóðinn af til dæmis álveri rennur út úr landinu og er margfalt meiri en nemur ávinningi okkar í orkusölu og störfum við álverið. 

Kínverjar eru stórveldi sem hagar sér líkt og stórveldi hafa alltaf gert. Kínverskir auðmenn eru ekkert öðruvísi en aðrir auðjöfrar. Í landinu ríkir alræðisstjórn. 

Um daginn sóttu tíu Kanadamenn um ríkisborgararétt og vildu kaupa hér nýtingarrétt á orku landsins.  Báru fyrir sig ást á landinu og miklum umhverfishugsjónum.

Farsakennt viðtal við talsmann þeirra í Kastljósi varð til þess að ekki hefur heyrst um þetta síðan. 

Fyrir alþjóðleg risafyrirtæki og stórveldi er Ísland með sínar rúmlega 300 þúsund hræður auðveld bráð.  Hér á landi er reynsla fyrir því hve auðvelt er að kaupa sveitarstjórnir og landeigendur.

Þetta verður að hafa í huga þegar sú þróun sýnist vera að hefjast að erlent auðræði seilist til þess að eignast land okkar og auðlindir þess. 

Á hinn bóginn er það grátlegt að það skuli vera útlendingur hinum megin af hnettinum sem setur fram og sér þá möguleika sem felast í varðveislu íslenskra náttúruverðmæta og ferðaþjónustu sem tengist hinni einstæðu ósnortnu náttúru landsins. 

Ég hef um áraraðir reynt að benda á þessa möguleika, nú síðast varðandi svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki en talað fyrir daufum eyrum og fengið að heyra háðsglósurnar um "eitthvað annað", "fjallagrös" og "lopapeysur. 

Varðandi möguleika til vetrarferða á þessu svæði hafa menn haft allt á hornum sér. "Það rignir oft í Mývatnssveit á veturna og jörð auð" er ein staðhæfingin hjá þeim, sem virðast aldrei hafa farið norður í Gjástykki að vetrarlagi eða horft yfir svæðið þegar það er alhvítt allan veturna þótt autt geti verið á köflum við Mývatn. 

"Grímsstaðir á Fjöllum eru í 400 metra hæð yfir sjó. Það er svo oft kalt þarna. Þetta er svo langt frá Reykjavík." 

Slíkar mótbárur eru færðar fram og sömuleiðis hvað það taki langan tíma að byggja upp ferðaþjónustu.  Það sé nú munur heldur en þegar undirritað sé samkomulag um virkjanaframkvæmdir og álver. Þá hefjist þegar í stað peningaþensla, jafnvel ári áður en framkvæmdir hefjast. 

Ég hefði kosið að hinn kínverski fjárfestir hefði haft þetta svipað og til dæmis Friðrik Pálsson hefur þetta á Hótel Rangá. Hann keypti ekki jörðina Lambhaga en rekur sína ferðaþjónustu af myndarbrag og dugnaði öllum til hagsbóta. 

Ef Kínverjinn hefur svona mikla trú á ferðaþjónustumöguleikunum þarna, bæði að vetri og sumri, af hverju þarf hann að kaupa heila jörð? 

Fyrirfram hefðu fáir talið það mikið vit að hafa lúxushótel "uppi í sveit" eins og Hótel Rangá er í sumra augum. 

Staðreyndin er nefnilega sú að ríkir fjáraflamenn og fyrirtæki hafa í rólegheitum verið að komast yfir heilu dalina og sveitirnar hér á landi með landakaupum. 

Oft er erfitt að henda reiður á hverjir eru hinir raunverulegu eigendur heilla landssvæða og getur verið stutt í það að menn vakni upp við það að útlendingar hafi eignast bestu landssvæði og auðlindir okkar. 

Því miður höfum við farið þannig að ráði okkar og farið þannig með land okkar og náttúruverðmæti að af tvennu sé skárra að útlendingur með skilning á varðveislu og verndu eigi þau heldur en að Íslendingar níði þessi verðmæti og skemmi. 

Það er hin mikla mótsögn okkar tíma. 

 


mbl.is Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvergi fleiri Buickbílar. Hvað um okkur sjálf?

Bíltegundin Buick hefur alla tíð verið í hópi dýrra bíla. Nú eru framleiddir mun fleiri bílar af þeirri gerð í Kína en í Bandaríkjunum.

Kínverjar eru að ganga í gegnum svipað og vestrænar þjóðir, þar á meðal við Íslendingar, gerðu þegar bílavæðingin hófst. Fyrstu áratugi bílavæðingar hér voru Íslendingar með stærri og eyðslufrekari bíla að jafnaði en nokkur önnur Evrópuþjóð. 

Í Bólunni bókstaflega mokuðum við inn stórum amerískum pallbílum og dýrum evrópskum bílum. 

Hvergi í Evrópu eru færri dísilbílar en hér á landi. 

Ég tel hins vegar að það sé mikil einföldun að draga þá ályktun af fáum Priusbílum að það sé merki um óraunsæi í bílakaupum. Hraðar framfarir í gerð dísilvéla hafa valdið því að tvinnbílar hafa ekkert fram yfir jafnstóra dísilbíla og allra síst í löndum með kalt loftslag. 

Tvinnbílarnir eru dýrari í framleiðslu og flóknari að gerð og ég tel það skrum og ranga forgangsröðun að gefa þeim sérstaka aflætti og frí bílastæði.

Þetta er bara p.r. fyrirbæri ríkafólksins að mínum dómi. Sem dæmi má nefna að forsetabíllinni okkar, sem er að vísu stórkostlega góður Lexus-tvinnbíll, er bæði flóknari og í raun dýrari en sambærilegir BMW eða Benz lúxusbílar með dísilvélum sem gefa þeim bílum jafn litla eyðslu og jafnmikinn kraft og hinn flókni Lexus-tvinnbíll býr yfir. 

Í augnablikinu liggur beinast við fyrir okkur að fjölga metanknúnum bílum og stuðla að hagkvæmari bílaflota með minni og sparneytnari bílum en við höfum alla tíð talið að við þyrftum að eiga. 

Rafskutlur geta líka sparað mikla peninga.  Orðið vespa er fráleitt um þá gerð bifhjóla sem er kölluð "scooter" á ensku eða "roller" á þýsku, því að Vespa er aðeins ein tegund af bifhjólum. 

Á sínum tíma var orðið "Asdic" notað um dýptarmæla af því að framleiðandinn hét Asdic. Síðan tók íslenskt orð við af því að framleiðendurnir urðu fleiri. 

 

P. S.  Var að fá senda athugasemd um þetta með Asdicið þar sem mig misminnti. Þeir notuðu þetta mælitæki í síldveiðunum og þetta var sonar-leitartæki til að finna kafbáta og Asdic var dulnefni en ekki nafn framleiðandans. 

 

Orðið "ampex" var notað fyrstu árin um stór myndbandsupptökutæki af því að framleiðandinn hét "Ampex". Síðan hvarf þetta að sjálfsögðu. 

Ég held að orðið "skutla" ná best "scooter".  Þessi hjól eru í oftast smærri en önnur, þótt hægt sé að kaupa stórt lúxushjól af gerðinni Suzuki Burgman 650.  Þau eru frábrugðin öðrum hjólum að því leyti að hreyfillinn er fyrir aftan og neðan ökumanninn og beintengdur við afturhjólið. 

Þar með gefst alveg opið frítt pláss fyrir fæturna í góðu skjóli beint fyrir framan ökumann. 

Burgman 650 er fyrsta skutluhjólið þar sem hreyfillinn fjaðrar ekki með afturhjólinu, heldur er fastur í grindinni.  Það væri mitt óskahjól ef ég ætti slíkt. 

Við Íslendingar þurfum ekki að kvíða hvarfi olíunnar því fáar ef nokkrar þjóðir eiga endurnýjalega orkugjafa sem geta sinnt nær allri orkuþörf sinni.  Þess vegna eigum við ekki að bruðla með hana af óforsjálni. 


mbl.is Rafbílar í vörn í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband