19.8.2010 | 21:06
Hefði það bjargað 7000 milljörðum?
Hrunið mikla var svo stórt á íslenskan mælikvarða, að vangaveltur yfir nýjum upplýsingum um það að Björgólfur Thor var beðinn um að koma heim rétt í þann mun sem það var að dynja yfir, virka broslegar.
Sama dag og þetta er upplýst greinir fjármálaráðherra frá því í grein að útlendingar hafi tapað 7000 milljónum króna á Hruninu, en það jafngildir allri þjóðarframleiðslu íslendinga í fjögur ár !
Ég hygg að flestir Íslendingar kannist ekki við það að komið hafi fram í fjölmiðlum að íslenska bankakerfið væri orðið fimmtalt stærra en íslenska hagkerfið fyrr en tæpum mánuði áður en allt hrundi.
Hvernig í ósköpunum mátti það verða? Þetta er svo yfirgengilegt að engu tali tekur á svokallaðri öld upplýsinga.
Hefði það bjargað 7000 milljarða króna dæmi að Björgólfur Thor kæmi heim í októberbyrjun 2008?
Þetta er allt með þvílíkum fádæmum að engu tali tekur.
![]() |
Ólafur Ragnar bað Björgólf að koma heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2010 | 06:48
Undraverð gleði.
Reykjadalur í Mosfellsdal skipar sérstakan sess í huga mínum og minnar fjölskyldu. Þar dvaldi sonur okkar Helgu nokkur sumur á unga aldri og starfsemin þar var eitt helsta atriðið í starfi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.
Helga var stjórnarmaður og tók virkan þátt í starfi kvennadeildar félagsins og móðir mín veiti henni öfluga forystu um árabil.
Það var alveg sérstök upplifun að fá að verða samferða á lokaspretti hinnar miklu Reykjadalsgöngu í gær og njóta einstakrar lífsgleði og baráttuanda göngumanna.
Ekki var gleðin minni fyrir það að deila þessu endaspretti með Gunnari Eyjólfssyni og rifja upp með honum einstaklega ánægjuleg kynni okkar í meira en hálfa öld.
Í ársbyrjun 1959 ruddumst við inná skemmtikraftamarkaðinn á sama tíma, annars vegar hann og Bessi Bjarnason með alveg nýja gerð leikins atriðis í svipuðum stíl og Gunnar hafði kynnst í Bandaríkjunm og hins vegar ég með mitt frumsamda uppistand, gamanvísur og eftirhermur.
Og nú lágu leiðir okkar aftur saman, að þessu sinni vegna þess að dótturdóttir hans hafði fakrengið að njóta einstakar d. valar í Reykjadal.
Ég læt fylgja með þessum pistli mynd sem ég tók af fulltrúum Soroptimistafélags Seltjarnarness þegar þeir afhentu stórgjöf í göngulok í gær og er til merkis um það hve vel hið frábæra starfsfólk í Reykjadal náði til landsmanna.
Gunnar Eyjólfsson er lifandi sönnun þess hverju 86 ára gamall maður getur áorkað með líferni sínu og andlegum þrótti.
Þegar við kvöddumst í gær bað hann mig um að þýða úr ensku spakmæli um lífsgæði sem hljóðar svona á íslensku:
Líf okkar er ekki mælt í fjölda andardrátta okkar heldur í fjölda þeirra augnablika þegar við gripum andann á lofti.
![]() |
Reykjadalur nær að halda dyrunum opnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.8.2010 | 21:00
Tifandi tímasprengja.
Eins og ég hef oftar en einu sinni bent á hér á blogginu er ástandið hjá Landhelgisgæslunni tifandi tímasprengja og ekki spurning um hvort heldur hvenær þetta ófremdarástand kostar eitt mannslíf eða fleiri.
Búið er að færa björgunarþyrlukost á Íslandi aftur fyrir 1970 og fróðlegt væri að vita hvort nokkurt annað öryggis- og heilsugæslusvið hér á landi hafi verið fært svo langt aftur á bak.
Til að skrapa saman peningar verður Gæslan að selja þjónustu sína til annarra landa og jafnvel verkefna innanlands sem ekki snúast um öryggi og mannslíf en eru kostuð af opinberu fé úr öðrum skúffum ríkisbáknsins.
![]() |
Slasaður maður var látinn bíða alla nóttina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.8.2010 | 17:39
Hefð fyrir áhuga á Húsavík?
Fréttin af því hve hræðilegt reðasafnið á Húsavík þyki í útlöndum vekur upp spurninguna um það hvort Egill Jónasson hafi á sínum tíma gefið tóninn fyrir margræðan áhuga Húsvíkinga á ýmsum hlutum.
Þegar Teresía Guðmundsson var Veðurstofustjóri og Fuglavinafélag íslands auglýsti í miklum snjóalögum: "Munið eftir smáfuglunum" kastaði Egill fram þessari vísu:
Kólna tekur tíðarfar.
Teresía spáir byl.
Hver sem tittlings verði var
veiti honum skjól og yl.
![]() |
Hryllingur á Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.8.2010 kl. 07:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2010 | 06:17
Það var mikið !
Í fimmtíu ár hefur það verið viðtekin sjónarmið hér á landi að útilokað sé að bæta aðgengi að náttúruperlm nema að fyrst verði virkjað á svæðinu.
Ég fullyrði að Ísland er eina landið í Evrópu eða Norður-Ameríku þar sem þessi þjóðtrú hefur fengið að blómstra.
Árum saman stóð stórt skilti Landsvirkjunar við innkeyrslu á svæðið norðan Vatnajökuls þar sem fullyrt var að Kárahnjúkavirkjun væri forsenda þess að hægt væri að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.
Sem sé: Forsenda þess að fólk gæti fræðst um þetta svæði og komist inn á það var að byrja fyrst a því að gereyða náttúruundurm stórs hluta þess og standa þar fyrir mestu umhverfisspjöllum álfunnar !
Þessi aðferð hefur hingað til verið talin gjaldgeng og góð meðal annars nú síðast varðandi Gjástykki og Þjórsárver og fossana mikli í efri hluta Þjórsár.
Jón Vilmundarson sveitarstjórnarmaður er líklega fyrsti sveitarstjórnarmaður Íslandssögunnar sem orðar svipuð sjónarmið og gilda í öðrum löndum um þetta efni.
Ég bendi á myndir í undanfarandi bloggpistlum mínum af tveimur komandi virkjanasvæðum, fossunum í Þjórsá og af svæðinu sem virkjun Skjálfandafljóts mun hafa áhrif á.
![]() |
Vilja láta bæta aðgengi að friðlandinu í Þjórsárverum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.8.2010 | 16:01
Fjölgun í stóriðjulausum fjórðungi.
Athyglisvert er að skoða mannfjöldatölur síðustu 50 ára. Í mikilli síbylju Austfirðinga um að sá landsfjórðungur berðist við mesta fólksfækkun gleymdist að geta þess að á árunum 1960 til 2000 hafði fólki fjölgað þar verulega á sama tíma og fólki á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra fækkaði stórlega.
Síðan var það gefið út að stóriðja myndi skapa fólksfjölgun til frambúðar upp á 1500 manns.
Þá gleymdist að athuga að stór hluti þeirra sem hæst lét um að fá stóriðjuna gerði það vegna þess að tímabundið hærra húsnæðisverð á meðan á framkvæmdum stóð gerði þeim kleift að flytja í burtu.
Nú er mikið sífrað um það að aðeins stóriðja á Bakka geti "bjargað" Norðurlandi eystra frá hruni.
Þvert ofan í það er það eini fjórðungurinn þar sem fólki fjölgar á sama tíma og fækkar á Austurlandi.
Fækkunina þar er ekki lengur hægt að skýra með því að virkjanaframkvæmdir hafi hætt.
Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað eru meðal skuldugustu svæða landsins og auðar íbúðir þar samsvara því að 11000 íbúðir stæðu auðar á Reykjavíkursvæðinu.
Íbúar á Djúpavogi segja nú að þeim hafi verið sagt, að ekki væri hægt að fá betri veg yfir Öxi nema stóriðjan kæmi. Nú segjast þeir hafa verið sviknir um þetta
Áratugum saman voru fluttar fréttir, oftast fremstar í fréttatímum, af "hruni" byggðar í Mývatnssveit ef Kísiliðjan yrði lögð niður.Síðan gerðist það en "hrunið" lætur á sér standa.
![]() |
Landsmönnum fækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
17.8.2010 | 10:41
Blaðamaður víki vegna óskeikulleika?
Ég tel mig knúinn til að taka upp merki Eiðs Svanbergs Guðnasonar í málvöndun varðandi mistök blaðamannsins sem skrifar tengda frétt um óhlutdrægni dómara, - fæ ekki orða bundist.
Hann eyðileggur fréttina með því að skilja ekki orðið óhlutdrægni.
Hann snýr við merkingu orðsins og er það með ólíkindum vegna þess að höfuðatriði í verklagi blaðamanns er hið sama og dómara, að sýna óhlutdrægni, það er að gera sjónarmiðum jafnhátt undir höfði, vera ekki hlutdrægur.
Ég leyfi mér að efast um hæfni blaðamannsins úr því að hann kann ekki skil á jafn mikilvægu grundvallaratriði í starfi sjálfs hans.
Að Ragnar Aðalsteinsson krefjist þess að dómari víki vegna óhlutdrægni fær ekki staðist.
Þvert á móti krefst hann þess að dómari víki vegna hlutdrægni.
Ég vona að blaðamaðurinn geri ekki frétt um það að ég ber fram þessa gagnrýni.
Ef hann gerði það myndi hann orða það svona: Ómar Ragnarsson krefst þess að blaðamaður víki fyrir það að vera óskeikull.
![]() |
Efast um óhlutdrægni dómara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2010 | 11:45
"...friða fokmela...", - "banna umræðu um málamiðlanir."
Ofangreind orð notar Kristinn Pétursson um stefnu mína og skoðanasystkina minna í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þau eru meðal annarra stóryrða hans um "stál í stál" viðhorf "öfgafólks" sem hann telur náttúruverndarfólk vera og eru rituð sem athugasemd við blogg mitt um Norðlingaölduveitu hér næst á undan.
Með bloggi mínu um Norðlingaölduveitu fylgja myndir af tveimur stórfossum sem þurrka á upp með veitunni og afgreiðir Kristinn þá og gróið umhverfi þeirra sem "fokmela".
Hann hefði farið létt með að afgreiða Sigríði í Brattholti sem öfgafulla baráttukonu fyrir "fokmelum".
Nú vill svo til að með Kárahnjúkavirkjun var sökkt 40 ferkílómetrum af einhverju best gróna landi hálendisins og tæpir tveir þriðju hlutar landsins sem fór undir Hálslón var gróið land, enda Hálsinn, sem sökkt var, sannkölluð Fljótshlíð íslenska hálendisins.
Kristinn fer létt með að afgreiða þetta beitiland sem "fokmela."
Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um fossana í Skjálfandafljóti og Króksdal, sem eru á aftökulista Alcoa á Norðausturlandi og eru myndirnar með þessu bloggi teknar í sömu ferð og myndirnar af Dynk og Gljúfurleitarfossi sem birtar eru í blogginu á undan.
Þessi 25 kílómetra langi dalur og fossarnir fá safnheitið "fokmelar" hjá Kristni.
Eina skýringin sem ég get fundið á að nota sífellt orð eins og "fokmelar", "eyðisandar og grjótauðn" sem heildarheiti fyrir komandi virkjanasvæði hlýtur að vera sú að sauðféð, sem bændur beita á þessi svæði og fá bætur fyrir ef þeim er sökkt, nærist á sérstakri tegund sands og grjóts sem nefnist "grasgrjót" eða "gras-sandur" og er grænt á litinn og lítur út eins og gróður þótt það sé sandur og grjót.
Eyjabakkar, Þjórsárver, Hálsinn og Króksdalur eru allt gróðurvinjar gagnstætt því sem Kristinn heldur fram.
Og nú síðast afgreiðir hann sjónarmið mín í athugasemd við næsta blogg á undan þessu með orðunum "friðunarkjaftæði á urð, grjóti og örfoka melum" !
Um "málamiðlanirnar" sem náttúruverndarmenn vilji láta "banna umræðu um" er ég er nú ekki meira fylgjandi því að "banna umræðu um" þau mál en það að síðasta blogg mitt á eyjunni fjallaði einmitt um þá dásamlegu "sátt" sem Kristinn og hans menn segja að sé fundin og felst í því að hægt sé að demba 2ja ferkílómetra virkjanamannvirkjum niður hvar sem er án þess að það raski nokkurri friðun.
Helsta áherslumál virkjanasinna hefur einmitt verið að færa allt vald um virkjanir frá Alþingi yfir til sveitarstjórnanna og mun ég taka þetta til nánari skoðunar seinna hér á mbl.- blogginu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2010 | 07:17
Röng forsenda ferðamálahópsins.
Sá hópur í vinnu að Rammaáætlun sem fjallaði um ferðamál komst að alveg dæmalausum niðurstöðum varðandi mat á áhrifum Norðlingaölduveitu, Gjástykkisvirkjunar og fleiri kosta á ferðamennsku.
Það gerði hann með því að gefa sér forsendur sem líkjast svari þeirra Eyjólfs og Magnúsar í Áramótaskaupinu 1986, bænda sem voru án allra nútíma þæginda, þegar sjónvarpsmaðurinn spurði þá af hverju það hringdi aldrei neinn í þá og hinn þögli Magnús rauf loksins langa þögn sína og rumdi: "...af því að við höfum ekki síma!"
Svipað svar núna væri: "Af því það er ekkert aðgengi."
Ferðamálahópurinn mat áhrif þessara tveggja virkjanakosta sem léttvæga vegna þess að hingað til hefðu fáir ferðamenn komið á áhrifasvæði þeirra. Sem sagt: Áhrif virkjananna voru metin eftir því ástandi sem hingað til hefði ríkt.
Hins vegar var gildi virkjananna metin samkvæmt því ástandi sem myndi geta ríkt eftir að virkjað yrði.
Ef gildi virkjananna hvað hagkvæmni snertir átti að vera metið á sömu forsendum og gildi áhrifasvæðanna gagnvart ferðamennsku, þ. e. miðað við ríkjandi ástand, hefði það átt að vera metið núll, því að þarna hefðu ekki verið neinar virkjanir.
Augljóst er hve röng slík nálgun er.
Um bæði svæðin, Efri-Þjórsá og Gjástykki, gildir það hvað ferðamennsku snertir að þau eru alveg einstaklega óaðgengileg og ekkert hefur verið gert til að kynna þau og möguleika þeirra hvað þetta snertir. Um það hefur ríkt nær alger þöggun alla tíð.
Norðlingaölduveita mun þurrka upp tvo stórfossa á stærð við Gullfoss sem liggja með stuttu millibili í ánni og myndir eru af hér á síðunni, Dynk og Gljúfurleitarfoss, auk þriðja fossins, Hvanngiljafoss.
Við Kröflu hafa landeigendur lokað leiðinni þaðan norður í Gjástykki með keðjuhliði og tilvist merkustu staða svæðisins hefur verið svo kyrfilega þögguð nður að það var fyrst fyrir rúmri viku sem ég fór þangað með tveimur af landeigendum í fyrstu ferð þeirra á þá !
Í frétt mbl.is er að sjálfslögðu skilmerkilega rakið gildi Norðlingaölduveitu vegna virkjana en eins og alltaf í umfjöllun fjölmiðla er ekki minnst orði á hina hlið málsins.
Þannig hefur umfjöllunin verið alla tíð hjá öllum fjölmiðlum nema í þeim fréttum sem ég stóð fyrir á sínum tíma af þessum virkjanamöguleika þegar ég fjallaði um málið í Sjónvarpinu og sökuðu virkjanasinnar mig um hlutdrægni af þessum sökum !
Það var svona álíka hlutdrægni og hefði falist í því að fjalla um hugsanlegar malargryfjur í miðjum Esjuhlíðum án þess að sýna fjallið.
Eða að fjalla um virkjun Gullfoss án þess að sýna mynd af fossinum.
Fyrstu myndir í sjónvarpi af Dynk átti Jón Benediktsson á Velli frumkvæði að að sýna eftir ferð sem hann fór með Páli Benediktssyni fréttamanni þarna inn eftir í kringum 1990.
Raunar er þegar búið að ræna þessa tvo stórkostlegu fossa, Dynk og Gljúfurleitarfoss, ríflega þriðjungi af afli þeirra með Kvíslaveitu og var aldrei minnst á það af nokkrum sem um veiturnar fjölluðu á sinni tíð.
Ég fjallaði mikið og oft um Kvíslaveitu af mikilli hrifningu án þess að minnast orði á áhrif þeirra á þessa fossa. Leiddi aldrei hugann að því.
Þegar Norðlingaölduveita var í mestu hámæli voru einu myndirnar sem fjölmiðlar birtu af komandi lónstæði myndir, sem Landsvirkjun lét í té og voru teknar svo hátt úr lofti að í raun sást ekkert hvað um var að ræða.
Mér þótti það umhugsunarefni þá að það skyldi þurfa að vera einn einstaklingur á eigin kostnað sem nennti að fara í ferð á jörðu niðri þarna inn eftir til þess að skoða og sýna þetta svæði og fossana þrjá.
![]() |
Vilja breyta rammaáætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.8.2010 | 23:40
"Það kom þarna staur."
Í frétt sem þessi bloggpistill er tengdur við er talað um tvö umferðaróhöpp "vegna ljósastaura."
Hér er verið að snúa hlutum við. Ljósastaurar valda ekki óhöppum.
Á hitt er að líta að þeir geta samt verið á óheppilegum stöðum, svo óheppilegum að þeir eigi hlut að slysum.
Þetta minnir mig á þekktan leigubílstjóra fyrir sextíu árum sem var sífellt með beyglaðan bíl vegna árekstra en sagði þegar hann var spurður, hvers vegna nýjasta beyglan væri komin: "Það kom þarna staur", eða "það kom þarna girðing" o. s. frv.
En hvað um það, - ég ætla að taka að hluta til undir með blaðamanninum sem gefur í skyn að ljósastaurar valdi óhöppum.
Þannig vill til að sums staðar í gatna- og vegakerfinu eru ljósastaurar settir þannig niður að þeir beinlínis hámarka líkurnar á því að einhver aki á þá ef ökumenn missa stjórn á bílum sínum.
Lengi vel var til dæmis ljósastaurum á leiðinni út á Álftanes raðað þannig niður, að leiðinni var skipt í kafla þar sem staurarnir voru annað hvort vinstra megin eða hægra megin á leiðinni út á nesið.
Gott er ef þetta er ekki svona ennþá þótt ég hafi reyndar bent á þetta á ráðstefnu Vegagerðarinnar í fyrra.
Af einhverjum ástæðum voru þessar stauraraðir settar niður í löngum aflíðandi beygjum einmitt þeim megin sem bílar myndu skrika út af veginum í hálku.
Skiptingin milli þess að raðirnar væru vinstra megin eða hægra megin nánast tryggði það að staur yrði í veginum fyrir bíl sem til dæmis rynni út af í hálku.
Annað dæmi eru nokkur hringtorg þar sem staurar virðast settir niður til þess að koma í veg fyrir að bílar fari alveg út af, sem er alger óþarfi vegna þess að slétt land er við torgin og því öryggisatriði að geta runnið útaf árekstrarlaust í stað þess að hafna á staur.
Tveir staurar eru mér einkum þyrnir í augum, annar við Hveragerði og hinn norðan við Borgarnes.
Þegar ekið er austur Ölfus og komið í gegnum hringtorgið við Hveragerði getur það gerst í hálku, að bíll nái ekki beygjunni til vinstri í boga hringtorgsins.
Einmitt þar sem bíll myndi fara út af í hálku af stendur staur sem menn lenda á en rynnu annars án tjóns út af torginu.
Aðeins þyrfti að hnika staðsetningu þessa staurs lítillega til þess að gera hann hættuminni.
Hinn staurinn er á svipuðum stað þegar maður er að taka hringtorgsbeygjuna á leiðinni norður frá Borgarnesi.
Þar hefur staur líka verið settur niður einmitt þar sem hættan er mest á að bíll renni út af.
Í hvert skipti sem ég ek um fyrrnefndar slóðir koma mér orð gamla leigubílstjórans í hug sem upplagða skýingu þeirra ökumanna, sem eiga eftir að lenda á þessum staurum: "Það kom þarna staur."
![]() |
Tvö umferðaróhöpp vegna ljósastaura |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)