Sólarmegin í lífinu.

Að undanförnu hef ég átt nokkrum sinnum leið vestur Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti og virt mannlífið fyrir mér. Sjá má augljós áhrif tveggja staðreynda.

1. Sólin er þessa dagana hæst í aðeins 34 gráðu hæð á hádegi í Reykjavík í stað 45 - 55 gráðu hæðar í borgum Evrópu. Síðdegis er munurinn meiri því að það munar meira um að sólin lækki úr t.d. 34 í 24 gráður en hún lækki niður í 35-45 gráður.
Upp úr miðjum september er mesti sólarhæð í Reykjavík komin niður í aðeins 25 gráður og síðdegis lekur nún niður fyrir 20 gráðurnar.

2. Meðalhiti miðdags í Reykjavík er sjö stigum lægri en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna og munurinn enn meiri hvað snertir borgir sunnar í álfunni.

Af þessu tvennu leiðir það sem blasir við á ferð um miðborgina: Fólk sest í björtu og góðu veðri við borð úti á stéttunum sólarmegin þar sem húsin sunnanmegin skyggja ekki á sólina.

Fjölmennast er þar sem húsin skyggja síst á sól, t.d. efst í Bankastræti, Við Vallarstræti og Austurvöll og vestast í Hafnarstræti.

Ef menn segja að það sé vegna þess að veitingastaðir séu fyrir tilviljun á þessum stöðum held ég að það sé þveröfugt.
Veitingarstaðir eiga betri sóknarfæri ef þeir hafa möguleika fyrir viðskiptavinina til að sitja úti við á góðviðrisdögum.

Þeir eiga meiri möguleika til að vera "sólarmegin í lífinu" eða "on the sunny side of the street."

Niðurstaða: Hærri hús og meiri skuggar minnka möguleika á útilífi og aðlaðandi mannlífi í þeim bæjum og borgum þar sem eru köldustu sumur í Evrópu.


"Við erum að tala um..."-sýkin.

Var að hlusta á viðtal við góðan og gegnan mann þar sem honum tókst að segja þessi fimm ofangreindu orð að minnsta kosti sex sinnum í stuttu viðtali. Einn besti sjónvarpsmaður landsins afrekar oft litlu minna í stuttum pistlum sínum, nú síðast í dag. Þetta orðalag er komið beint úr ensku og þykir fínt en er í raun óþarfa málalenging og hvimleitt þegar það er ofnotað.

Það er miklu skýrara og gagnorðara að segja t. d. "...hitinn getur orðið átján stig..." heldur en að segja: "...við erum að tala um að hitinn geti orðið átján stig..." eða "...við erum að tala um átján stiga hita...", þar sem notuð eru 8-11 orð í stað fimm.  


Slæmt, ef rétt er.

Það er erfitt að trúa því að Rússar ætli sér virkilega að fara með stríðið út fyrir mörk vopnahléssamkomulagsins. Þótt segja megi að forseti Georgíu hafi upphaflega komið atburðarásinni af stað og kannski vanmetið hörku Rússa, verður því ekki trúað að Rússar taki ekkert mark á gríðarfjölmennum fjöldamótmælum Georgíumanna.

Ef rússneskir skriðdrekar enda þennan hernað með því að fara inn í Tblisi eru þeir að endurtaka innreið skriðdrekanna inn í Prag 1968 og Búdapest 1956.


mbl.is Rússar halda í átt að Tbilisi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll saman nú, 1-2-3!

Leyfi mér að vitna í gamla jólatextann um sjö litlu mýsnar. Í stað þess að hver saki annan um að seinka því að vegarkaflinn milli Hveragerðir og Selfoss sé lagaður þarf að koma samtakamáttur einhuga fólks sem flýtir þessari lífsnauðsynlegu framkvæmd í orðsins fyllstu merkingu.
mbl.is Segir boltann nú hjá Vegagerðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langt gengið.

Sagnfræðingar framtíðarinnar munu vafalaust undrast hve langt var gengið í því 2003 að þóknast Bandaríkjamönnum, að því er virðist til þess eins að ríghalda í þann hugsunarhátt sem Andri Snær Magnason hefur lýst svo vel: Það er vá fyrir dyrum af því að það er orðið friðvænlegt!

Það gat meira að segja leitt menn út í það að hugsa með sér að ágætt væri að stuðla að aukinni hryðjuverkahættu vegna þess að þá væri meiri líkur á að hægt væri að halda varnarliðinu. Vísa til næstu bloggfærslu minnar á undan þessari.


mbl.is Röng og ólögmæt ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var betra að hættan ykist svo að herinn færi síður?

Þegar hér sat vinstri stjórn 1971-74, sem vildi láta varnarliðið fara, fór í gang undirskriftasöfnunin "Varið land" en herstöðvaandstæðingar fóru sem fyrr í mótmælagöngur að vallarhliðinu. Á skemmtunum söng ég um báðar fylkingarnar, - lagið "Litla Birna við Keflavíkurflugvallarhliðið" í orðastað hernámsandstæðinga en lagið "If you go away" í orðastað þeirra sem vildu hafa herinn áfram.

Íslendingar nýttu á þessum tíma sér þörf Kananna fyrir hersetu hér með því að kría út hagstæða loftferðasamninga. Bænarákall Íslendinga leit svona út í upphafi söngs míns:

If you go away, - ef þú her ferð burt, -

ef þú færð ekki að vera hér um kjurt,

þá er allt í steik, þá er engin von,

þá verður einvaldur Lúðvík Jósepsson.

Engir bísnismenn græða þá á þér,

þá allt íslenskt flug strax á hausinn fer,

if you go away kemur Rússinn, svei,

if you go away. 

Þegar nýjasta útttekt Vals Ingimarssonar um þetta mál er lesin er ótrúlegt að sjá hve skammt íslenskir ráðamenn höfðu komist út úr hugarheimi kalda stríðisins á árinu 2003, heldur voru enn á sömu slóðum og 1971-74. 

Þeir ríghéldu í þá gömlu sýn að allt yrði í steik ef varnarliðið færi og jafnvel má túlka hegðun þeirra þannig að þeir hefðu talið það kost við að Íslendingar gerðust stuðningsmenn við hernaðinn í Írak, að við það ykist hryðjuverkahætta á Íslandi og þar með þörf á herþotunum og herliðinu! 

Þessum ráðamönnum datt aldrei í hug að spyrja þeirrar spurningar hvers vegna Bandaríkjamenn ættu frekar að hafa fjórar herþotur til taks gegn hugsanlegri hryðjuverkaárás fyrir 300 þúsund manns í fjarlægu eylandi heldur en að hafa þær til varnar fyrir einhverjar af þeim tugum ef ekki hundruðum bandarískra borga sem hafa fleiri íbúa en 300 þúsund manns.

Þótt Íslendingar misstu marga sjómenn í heimsstyrjöldinni eimdi lengi eftir af afleiðingum þess að Íslendingar græddu gríðarlega fjárhagslega á stríðinu. Það skapaði þann hugsunarhátt að leitast við að hagnast af hernaðarumsvifum og reyna þar af leiðandi að viðhalda herviðbúnaði löngu eftir að ljóst var að hann var orðinn óþarfur.

Við þetta rembust menn í stað þess að fagna því að friðvænlegra var orðið og meta öryggishagsmunina upp á nýtt í samræmi við breytta stöðu.  

 

 

 


Einstök byrjun !

Það hefur oft verið sagt að íslenska landsliðið í handbolta hafi um of lent í því að fara erfiðustu leiðina að takmarki sínu með því að tapa óvænt í fyrstu leikjum og þurfa að vinna sig upp af botninum.

Annað er uppi á teningnum nú, hvernig sem framhaldið verður. Ég minnist þess ekki að Íslendingar hafi í fyrstu tveimur leikjum sínum á stórmóti byrjað á að salta fyrst landslið stórþjóðar sem hefur vanist því að eiga heimsmeistara og Ólympíumeistara og rassskella síðan í næsta leik ríkjandi heimsmeistara. 

Það er mjög mikilvægt að byrja svona vel því að erfiða leiðin, sem ég minntist á áðan, hefur oft orðið til þess að strákarnir hafa lent í því að vera búnir með þrekið í lokin.

Framhaldið ætti að vera auðveldara þegar búið er að ná strax svona mörgum stigum í hús. Nú er bara að vona að strákarnir ofmetnist ekki heldur haldi áfram á sigurbraut með því að sýna það sama og þeir hafa sýnt fram að þessu og spila skynsamlega úr spilunum.

Þetta er stórkostlegt! Nú er gaman! Til hamingju, strákar og þökk fyrir frammistöðuna !  


mbl.is Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um vegaröxlina.

Í bloggfærslu minni um sllysið á Suðurlandsvegi í gær gerði ég að umtalsefni að vegaraxlirnar á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss væru þær lélegustu á allri leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss, einmitt á þeim kafla leiðarinnar þar sem þeirra er mest þörf. Það er meðal annars þetta atriði sem fær mig til að segja að þessi vegarkafli sé orðinn dýrkeyptasti vegarkafli landsins vegna þess að menn telji of dýrt að lagfæra hann.

Það er að vísu ekki hægt að sanna að góð og breið vegaröxl hefði breytt einhverju um slysið í gær. Hins vegar blasir við notagildi vegaraxlar þegar ökumaður, sem þarf að beygja út af veginu og fara yfir miðlínu vegar, þarf að stansa við miðlínuna til þess að bíða eftir að umferð úr gagnstæðri átt fari framhjá.

Þá gefur góð og breið vegaröxl bílum, sem koma aftan að hinum stansaða bíl, rými til að fara fram hjá honum hægra megin og halda áfram án þess að trufla umferðina.

Núverandi þrengsli á þessum vegarkafla auka á slysahættu og valda umferðartruflunum. Sagt er að vegna mikillar og tímafrekrar skipulagsvinnu verði þessi vegarkafli tvöfaldaður síðast. Í ljósi þessa má setja fram eftirtaldar tillögur:

1. Hámarkshraðinn á þessum kafla verð strax lækkaður.

2. Löggæsla á kaflanum verði tryggð og ætlað til þess fé.

3. Þegar í stað verði veitt fjármagni í að breikka og laga vegaraxlir á veginum og gera útskot eða viðbótarakreinar við vegamót sem liðka fyrir umferð þegar ökumenn þurfa að fara út af veginum.

4. Fyrrnefndri skipulagsvinnu við tvöföldun vegarins verði veittur eins öflugur forgangur og unnt er og kapp lagt á að þessi kafli þurfi ekki að koma síðastur í tvöföldun vegarins.

Ef litið er til hundruð milljóna króna beins fjárhagstjóns þjóðfélagsins vegna slysanna á þessum kafla ár hvert hljóta menn að sjá að það er ótækt að bera fyrir sig fjárskorti varðandi umbætur.


Rússnesk Súdetahéruð.

Eilífðarmál þjóðernisminnihluta eru flókin og oft erfitt að skera úr um réttmæti þess að í einu ríki eru slíkir hópar ekki taldir eiga rétt á sjálfstæði en í öðru ríki að eiga þennan rétt. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var sett fram sú lausn og framtíðarsýn að fólk fengi að ráða þessu sjálft. Þetta gerðu íbúar Saar-héraðsins 1935 með atkvæðagreiðslu.

Hins vegar gátu þeir sem réðu ferðinni ekki alltaf sætt sig við þetta og Versalasamningarnir báru þess merki. Í Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakíu voru þýskumælandi íbúar sem ekki fengu að vera í þýska ríkinu vegna þess að þá voru landfræðileg landamæri Tékkóslóvakíu óverjandi hernaðarlega og Frakkar töldu mikilvægt að Þýskaland væri umkringt ríkjum sem væru með eins sterka hernaðarlega stöðu gagnvart Þjóðverjum og unnt væri. 

Fjöllin voru því látin ráða. Þetta nýtti Hitler sér og æsti Súdetaþjóðverja upp þangað til menn stóðu frammi fyrir því haustið 1938 að láta Evrópustyrjöld skella á eða að gefa eftir að leyfa Súdetaþjóðverjum að sameinast Stór-Þýskalandi, sem þá hafði innlimað Austurríki með glæsilegum fagnandi mannfjölda við innreið Hitlers í Vínarborg.

Chamberlain sagði þegar hann undirritaði friðarssamkomulag í Munchen sem fól í sér innlimun Súdetahéraðanna í Þýskaland: "Hve hræðilegt, hrikalegt og ótrúlegt væri það ef við færum að grafa skotgrafir og setja á okkur gasgrímur vegna deilna i fjarlægu landi milli fólks sem við þekkjum ekki."

Chamberlain hefur réttilega verið álasað fyrir það að hafa misreiknað sig gróflega þegar hann hélt að með þessu hefði hann "tryggt frið um okkar daga" með hinu illræmda rsamkomlagi. Þvert á móti gaf þetta Hitler byr undir báða vængi við þá iðju sína að gera samningana á blaðinu, sem Chamberlain veifaði við heimkomuna, ekki pappírsins virði. 

 Samt var Chamberlain aðeins að uppfylla þá göfugu hugsjón Wilsons Bandaríkjaforseta að þjóðarbrot fengju að ráða sjálfir hvar í ríki þau skipuðu sér.

Öll sagan síðan sýnir hve erfitt það er í raunveruleikanum að setja eina reglu sem gildir um öll svona deilumál.

Þjóðverjar uppskáru svo beiskan ósigur og skömm í stríðslok að nánast þegjandi og hljóðlaust sættu allir sig við það að um 14 milljónir manna voru neyddar til að flytja frá átthögum sínum í Evrópu eftir stríðið til þess að skapa friðvænlega tíð.

Dæmi um þetta er Austur-Prússland þar sem þýskt fólk, sem hafði búið þar mann fram af manni í aldir, var neytt til brottfarar og þetta svæði gert að hluta Rússlands sem á ekki einu sinni landamæri að því landi sem það er hluti af. Engu hefur samt dottið í hug að breyta þessu til baka.

Baskaland? Kosovo? Suður-Ossetía? Abkasía? Kúrdistan? Hver af þessum svæðum eiga rétt á að vera sjálfstæð ríki? Öll? Engin? Sum? Og þá hver?

Pólitík er skrýtin tík og alþjóðapólitík sýnist oft kolrugluð tík.  

 


mbl.is „Rök Rússa sömu og Hitlers"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrasti vegarkafli landsins.

Vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss stefnir í að verða jafn illræmdur og slysakaflarnir við Kúagerði á Reyknanesbraut og í Norðurárdal í Skagafirði voru. Gerður hefur verið kaldur útreikningur á því að hvert mannslíf sem glatist í slys,i kosti þjóðfélagið hátt í 200 milljónir króna. Kostnaður vegna örkumla og áverka eru eftir því.
Þá er ekki metið til fjár tilfinningalegt og andlegt tjón.

Vegurinn Hveragerði-Selfoss er því að verða dýrasti vegarkafli landsins vegna þess að menn telja of dýrt að lagfæra hann!

Ég þurfti að aka þennan vegarkafla á fornbíl um daginn og sums staðar reyndist hraði minn ekki nægur þegar ökumenn þurftu að komast fram úr mér.

Þessi vegarkafli sker sig hins vegar úr á leiðinni frá Reykjavík austur á Selfoss hvað það snertir að vegaröxlin er ónothæf alla leið til þess að víkja fyrir framúrakandi umferð. Það er raunar engin vegöxl !

Bíllinn sem ég var á er líklegast mjósti bíll landsins og þarf því lítið rými til að víkja. En þetta rými er bókstaflega ekki neitt, einmitt á þeim kafla þar sem mest þörf er fyrir það.

Raunar er öll leiðin austur til skammar hvað þetta snertir því að nothæfir kaflar til að nota vegöxlina eru fáir vegna þess að vegagerðin virðist ekki hafa neinn áhuga á að halda vegöxlunum við eða hafa þær nothæfar, þar sem þær þó eru.

Ef maður víkur út á öxlina má maður hvenær sem er búast við því að aka fram á grófa möl eða skorninga og getur slíkt út af fyrir sig valdið slysum, því að í sumum tilfellum verður ökumaður sem ekur úti á öxlinni, að gefast fyrirvaralaust upp og víkja sér inn á veginn í veg fyrir umferðina sem þar er.

Það er með ólíkindum að í áætlunum um tvöföldun Suðurlandsvegar skuli áætlað að þessi versti vegarkafli verði lagaður síðast. Þessu verður að breyta og tvöfalda kaflann milli Hveragerðis og Selfoss þegar í stað.

Á meðan beðið er eftir því má prófa að lækka hámarkshraðann. Ef hann verður minnkaður niður í 80 km munu menn aðeins tefjast um rúma mínútu á þessari leið, en um 2,5 mínútur ef hraðinn verður lækkaður niður í 70 km.

Ég held að það ætti að lækka hraðann fyrst niður í 80 og sjá til. En svona lækkun er til lítils ef ekki fylgir því eftirlit og þess vegna held ég að númer eitt ætti að vera að setja sérstaklega fé í það að koma tafarlaust á eftirliti með því að gildandi hraðatakmörk, hver sem þau eru, svo og aðrar umferðarreglur, séu haldin.

Þetta kostar peninga en þeir eru smámunir miðað við kostnaðinn af slysunum á dýrasta vegarkafla landsins.


mbl.is Harður árekstur á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband