6.8.2008 | 14:16
Kirkjugrið íþróttanna.
Úr Íslandssögunni þekkjum við það þegar menn flúðu í kirkju sem griðarstaðar þar sem ekki mætti beita ofbeldi eða vopnum. Í nútímanum hafa íþróttaleikvangar veraldar verið griðastaðir fyrir keppnisfólk sem vill koma saman og etja kappi í drengilegum leik þar sem stjórnmálaátök eru utan vallar og íþróttafólk frá öllum þjóðum er hlutgengt.
Það hafa verið undantekningar. Á leikunum 1936 í Berlín heilsuðu keppendur frá þremur þjóðum þáverandi þjóðhöfðingja Þýskalands, Adolf Hitler, með nasistakveðju. Þeir sem þetta gerðu hafa síðan setið uppi með skömmina.
1956 vantaði keppendur frá Ungverjalandi á Ólympíuleikana í Melbourne vegna innrásar Sovétmanna í Ungverjaland. Þetta var slæmt en ekkert við því að gera. Besta knattspyrnulandslið heims tvístraðist og keppti ekki. Þá var alræðisstjórn í Sovétrikjunum sem fótumtróð mannréttindi þegna sinna og réðst inn í nágrannaríki en samt kepptu íþróttamenn frá Sovétríkjunum á þessum leikum eins og öðrum leikum frá og með 1952.
1992 gátu íþróttamenn frá Júgóslavíu ekki verið með vegna sundrungar ríkjanna, sem höfðu myndað ríkið. Fyrir bragðið komust íslenskir handboltamenn inn í stað Júgóslavíu.
1980 sniðgengu Bandaríkjamenn leikana í Mosvku á þeim forsendum að Sovétmenn hefðu ráðist inn í Afganistan og hrakið Talibana frá völdum. Í ljósi sögunnar sést hvað þetta var hæpið vegna þess að rúmum 20 árum síðar réðust Bandaríkjamenn ásamt fleirum inn í Afganistan til að hrekja Talibana frá völdum.
1984 svöruðu Sovétmenn fyrir sig með því að sniðganga leikana í Los Angeles.
Keppendur frá Suður-Afríku voru utangarðs lengi vel meðan kynþáttaðskilnaðarstefna stjórnarinnar ríkti þar. Rökin fyrir þessu keppnisbanni voru meðal annars þau að þessi aðskilnaðarstefna mismunaði íþróttamönnum innan Suður-Afríku og það stríddi gegn Ólympíuhugsjóninni.
1968 mótmæltu tveir bandarískir hlauparar á verðlaunapalli kynþáttamisrétti í landi sínu með því að reiða krepptan hnefa á loft þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Síðan hefur sem betur fer ekkert svipað gerst við verðlaunaafhendingar.
Ég tel að mótmæli af þessu tagi eigi ekki heima á íþróttaleikvöngunum. Ef svo væri myndi stefna í algert óefni. Spánskir keppendur eða hverjir sem væru gætu til dæmis mótmælt fyrir hönd Baska og hægt væri að hafa uppi hvers kyns mótmælaaðgerðir aðrar.
Öðru máli gegnir um hefðbundnar mótmælaaðgerðir utan íþróttanna og íþróttavallanna, svo framarlega sem þær trufla ekki mótshaldið sjálft eða eyðileggi þá stemningu griða og friðar sem er grunnur allra íþróttasamskipta.
Sovétríkin héldu Ólympíuleika í Moskvu 1980 og flestar þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, sendu þangað keppendur. Það breytti ekki því að þvílík harðstjórn og kúgun ríkti í Sovétríkjunum að full þörf var á berjast gegn því, - utan íþróttanna.
![]() |
Mótmælendur handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
6.8.2008 | 11:26
Loforð Íslendinga um "sveigjanlegt umhverfismat."
Ýmsir undrast þann óróa sem hefur gripið stóriðjusinna vegna ákvörðunar umhverfisráðherra um vandað og heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka og tengdri orkuöflun. En þessi ótti er skiljanlegur hjá þeim sem hafa í meira en áratug vanist hugsunarhættiinum í frægu ákalli íslenskra stjórnvalda til álrisa heimsins, sem Andri Snær Magnason afhjúpaði eftirminnilega í Draumalandinu.
Í þessu makalausa bænar- og betliskjali, sem sendur var til erlendra stórfyrirtækja, var þeim boðið fylrir hönd Íslendinga "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af eins og það var orðað.
Ég hef setið á fundum með fulltrúum fyrirtækja sem telja sér hag í því að fá á sig græna ímynd. Forráðamenn þessara fyrirtækja vilja helst tengja þau við vönduð vinnubrögð, þar með talin vandaðar aðferðir við mat á umhverfisáhrifum ef raska þarf náttúruverðmætum.
En virkjanaframkvæmdafíklarnir eru ennþá bundnir í þá hugsun bænar- og betliskjalsins fræga að sé erlendum fyrirtækjum ekki boðið upp á "sveigjanlegt umhverfismat" fælist þau frá framkvæmdum hér á landi. Þessir stóriðjuframkvæmdafíklar vilja greinilega laða hingað þau erlend fyrirtæki sem annars leituðu til fátækra og vanþróaðra þjóða þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af af því að taka tillit til umhverfismála eða skoða aðra möguleika til landnýtingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2008 | 10:45
"Í upphafi skyldi endinn skoða."
Þetta gamla máltæki er í fullu gildi hvað snertir orkuöflun, orkudreifingu og orkunotkun og nauðsynlegt að skoða þessi mál í samhengi. Í löggjöf ýmissa landa erlendis eru meira að segja ákvæði um að innifalið í mati á umhverfisáhrifum sé mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sjálfra meðan á þeim stendur, þ. e. gerð mannvirkjanna á byggingartímanum.
Þar getur verið um að ræða mikil áhrif sem aðeins eiga sér stað á meðan mest er umleikis en geta valdið varanlegum neikvæðum áhrifum. Þeir sem andæfa skipulagðari, framsýnni og heildstæðari vinnubrögðum virðast gera það í þeirri von að frekar hægt að komast upp með hvað sem er ef málin eru skoðuð sem minnst og sem dreifðast svo að sumt dettur upp fyrir og annað uppgötvast ekki fyrr en of seint.
Í ferðum mínum um Leirhnjúks-Gjástykkissvæðin hef ég fundið fjölmörg sláandi dæmi um þetta sem ég mun fjalla nánar um þegar ég hef tekið það saman.
Dæmi um að í upphafi skyldi endinn skoða er það að ef öll fáanleg orka á Íslandi verður virkjuð fyrir álver skapast aðeins störf í álverunum fyrir 2% af vinnuaflinu í landinu. Augljóst er að slíkt leysir engan atvinnuvanda þótt mest sé gumað um það af því af virkjanafíklunum.
![]() |
Formsatriði ráða niðurstöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)
5.8.2008 | 00:23
Kemst blæjubíllinn næst hestunum?
Ég uppgötvaði á föstudag að ég þyrfti sem skjótast að fara eina hraðferð enn á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið til taka viðbótarmyndir sem skjótast á Leirhnjúkssvæðinu og bæta í safn mitt. Hækkun bensínverðs hefur bitnað mjög hart á fluginu og því varð sparneytnasti, ódýrasti og einfaldasti bíll, sem völ er á, fyrir valinu, - Fiat 126.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer svo langa ferð á opnum blæjubíl og í svo misjöfnu veðri, því að það voru skúrir og úði á köflum í ferðalaginu. Auk þess var lofthitinn dottinn niður um allt að 15 stig. En ferðalagið kom mér mjög á óvart því að ýmsar gamlar hugmyndir mínar eins og þær að opnir bílar nýtist ekki við íslenskar aðstæður vegna kulda og vætu, reyndust vera byggðar á fordómum.
Í fyrsta lagi var ekki kalt þótt ekið væri í þaklausum og opnum bílum báðar leiðir, því að miðstöðvarloftið myndaði kyrrt, hlýtt loft bak við framrúðuna og mælaborðið. Framrúðan heitir vindhlíf eða windshield á ensku og hún er það. Í öðru lagi kastaði framrúðan regnvatninu aftur fyrir bílinn þannig að allt var þurrt bæði í fram- og aftursætum. Hún reyndist því líka regnhlíf.
Svona bíll er í raun vélknúið smátjald eða tjaldvagn. Á tjaldstæði í Vallhólmanum, skammt frá Varmahlíð, var hægt að tjalda blæjunni yfir og sofa vært í góðum hita í afturhallandi ökumannssætinu í nótt, því að hægt er að tjalda blæjunni á tvennan hátt á þessum bíl, bæði ná í fullri hæð yfir bæði fram- og aftursæti en einnig hafa fulla hæð einungis yfir framsætinu og minnka þannig svo mjög svefnrýmið, að maður heldur á sér hita líkt og í svefnpoka.
Eftir að óhjákvæmilegt varð að nota hjálma á vélhjólum missa vélhjólamenn möguleikann á að vera í sólbaði á þeysum sínum. Á svona örbíl er maður hins vegar úti í sólskininu og jafnvel léttklæddur eins og á hesti.
"Og golan kyssir kinn" líkt og segir í ljóðinu, þetta er dásamlegur ferðamáti, - allt er svo bjart og ferskt. Fyrir bílstjórana fyrir aftan mann er ekki hægt að hugsa sér betri farkost til að horfa fram yfir, því að sjónlína þeirra liggur í gegnum framrúðuna eina og engin yfirbygging skyggir á á opnum bíl.
Á reiðhjóli hleypir maður að vísu sjálfum sér og golan kyssir kinn, en það að hleypa á skeið á opnum blæjubíl eins og á hesti er líklega það næsta sem hægt er að komast því að endurlifa gömlu hestaþeysudagana í sveitinni í gamla dag.
Meira en þúsund kílómetra hraðferð á opnum bíl: Tóm hamingja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.8.2008 | 23:57
Gátu gagnast í þýsku hernámi Íslands.
1940 voru stærstu herskipin og stærstu skemmtiferðaskipin hraðskreiðustu stórskip stríðandi þjóða. Sama dag og Bretar hernámu Íslands með aðeins tæplega 800 hermönnum skipaði bálvondur Hitler Raeder flotaforingja að útbúa áætlun fyrir hernám Þjóðverja. Áætlun Raeders nefndist Ikarus og fólst í því að láta tvo af hraðskreiðustu bryndrekum Þjóðverja ásamt tveimur stærstu farþegaskipunum hernema landið strax og færi að dimma á næturna um haustið.
Þjóðverjar höfðu komið Bretum algerlega á óvart með því að fara inn í Noreg með þúsund flugvélar þegar landið var hernumið og geta þannig haldið breska sjóhernum frá. Þeir hefðu leikið sér að því að hernema Ísland árið 1940 með svipaðri aðferð.
En forsenda þess var hin sama og í Noregi, - að ná valdi á flugvöllum strax í upphafi og yfirráðum í lofti. En á Íslandi voru engir flugvellir og þess vegna varð ekkert af þýska hernáminu, því að breski sjóherinn gat komið í veg fyrir birgðaflutninga Þjóðverja til Íslands ef þeir síðarnefndu höfðu enga flugvélavernd.
Ég er að að vinna að heimildarmynd um það hvernig Þjóðverjar hefðu getað náð yfirráðum í lofti frá fyrsta degi innrásar sinnar og breytt þannig gangi stríðsins. Við það að kanna þá sögu skapar tilvist hinna stóru farþegaskipa fleiri tilfinningar í brjósti mér ein tandurhreina aðdáun á friðsamlegum farkostum.
![]() |
Sögufrægt skemmtiferðaskip |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2008 | 18:08
Mallorca-veðrið tafðist í tæp 40 ár.
Fyrir tæpum 40 árum var einn af þálifandi veðurfræðingum Veðurstofunnar svo óheppinn að spá "Mallorcaveðri" um verslunarmannahelgina eins og hann orðaði það í spá sinni í Sjónvarpinu á föstudagskvöld en varð síðan að éta það ofan í sig strax daginn eftir.
Fyrir suðvestan landið myndaðist nefnilega óvænt lægð sem gerði það til dæmis að verkum, að sú ætlun mín fór gersamlega í vaskinn að fljúga frá Akureyri til Suðurlands með Jón heitinn Gunnlaugsson eftirhermu sem farþega. Ég varð að snúa við í Tungudal, sem er gengur samsíða Norðurárdal frá Skagafirði yfir í Eyjafjörð. Heilmikil og dramatísk saga er að segja frá þessu flugi og skal það látið ógert í þetta sinn.
Það hefur verið Mallorca-veður um mestallt land undanfarna daga og því spáð áfram yfir helgina nema hvað það gæti rignt í skúrum um sunnanvert landið aðra nótt og á mánudag ef marka má spárnar.
Hins vegar hrekk ég örlítið við þegar ég hlusta á flugveðurspána í númerinu 9020600. Minnst er á að lítil lægð hafi fæðist fyrir suðvestan land. Einnig hefur verið ansi þungbúið á suðvesturhluta landsins langt fram eftir degi í dag.
Mey skal að morgni lofa..., segir máltækið, og kannski rétt að bæta við: ...og verslunarmannahelgi að kvöldi.
Ég á erindi á morgun vestur á land og bíð spenntur eftir því hvort spákortin á vefnum "vedur.is" gefa það Mallorca-veður sem þar er sýnt. Er tvístígandi yfir því hvort ég eigi að fara á opna litla blæjubílnum mínum eða sams konar lokuðum örbíl vegna þess að þegar notað er orðið Mallorca-veður hef ég sennilega minni fílsins hvað snertir misheppnaðar veðurspár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2008 | 14:26
Hvað er svona voðalegt?
"Alvarlegt áhlaup á landsbyggðina." "Sjálfstæðismenn ósáttir." "Ónauðsynlegur úrskurður." Þetta er nú hrópað upp vegna eðlilegs og skynsamlegs úrskurðar umhverfisráðherra um heldstætt mat á umhverfisáhrifum risaframkvæmda sem fyrirhugaðar eru á Norðausturlandi. Síðasta tilvitnunin, "ónauðsynlegur úrskurður", er höfð eftir forsætisráðherranum.
Hvers vegna láta menn svona? Gæti það verið vegna þess að þeir vilja hafa þetta í stíl við veginn sem var ruddur á sínum tíma þvert í gegnum nýrunnið hraun í Gjástykki án þess að spyrja nokkurra spurninga um stórfelld óafturkræf áhrif á svæði sem á engan sinn líka í heiminum? Það þótti ónauðsynlegt að skoða þann möguleika að leggja veginn og girðinguna nokkrum kílómetrum norðar.
Gæti það verið vegna þess að aðferðin við að virkja allt á endanum hefur meðal annars leitt til þess nú er farið að skilgreina Leirhnjúkssvæðið sem "Kröfluvirkjun tvö" en ekki "Leirhnjúk" eins og Jónína Bjartmarz og Jón Sigurðsson gerðu í loforðsplaggi fyrir síðustu kosningar sem reyndist ekki einu sinni pappírsins virði fram að kosningum?
Gæti það verið vegna þess að Helguvíkur-Reyðarfjarðar-Straumfjarðaráraðferðin hefur svínvirkað á þann hátt að fá allar kröfur virkjanfíklanna fram í áföngum sem tryggja að ekki verði aftur snúið þótt komið sé að lokum langt fram yfir það sem lagt var af stað með?
Gæti það verið vegna þess að hið raunverulega takmark er minnst 346 þúsund tonna, ef ekki 500 þúsund risaálver í lok ferlis sem stillir mönnum sífellt upp við vegg uns öll orka hverasvæða og vatnsfalla á Norðurlandi verður nauðsynleg fyrir hinn óseðjandi "orkufreka iðnað"?
Það má frekar gagnrýna umhverfisráðherra að hafa ekki tekið Helguvíkurmálið sömu tökum og Bakka þótt Þórunn hafi afsakað sig bæði þá og nú með því að Helguvíkurmálið hafi verið komið of langt.
Þórunn segir að úrskurður hennar eigi ekki að þurfa að tefja málið en samt ætlar allt vitlaust að verða. Það sýnir bara að hún hefur tekið sig á og stefnir í rétta átt hvað snertir þennan úrskurð.
![]() |
Úrskurðurinn ónauðsynlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)